Hæstiréttur íslands

Mál nr. 5/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 6. janúar 2014.

Nr. 5/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. janúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. janúar 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 30. janúar 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að varnaraðila verði gert að halda sér á ákveðnum stað eða innan ákveðins svæðis.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins leikur sterkur grunur á að varnaraðili hafi framið brot sem varðað getur við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er brot varnaraðila þess eðlis að telja verður nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagsmuna á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Að því virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. janúar 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 30. janúar nk., kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar ætlað kynferðisbrot, frelsissviptingu, líkamsárás og hótanir.

Aðfaranótt 25. desember sl. hafi verið óskað eftir skjótri aðstoð lögreglu að íbúð á jarðhæð í [...] í [...]. Íbúinn, A, hafi  þá hlaupið úr íbúð sinni til nágranna síns að [...] sem hafi óskað eftir aðstoð lögreglu. Kærði hafi þá verið staddur í íbúð A ásamt tveggja ára dóttur þeirra. Kvaðst A hafa orðið fyrir árás frá hendi kærða, hann hefði m.a. lamið hana, borið hníf upp að hálsi hennar og hótað henni og dóttur þeirra lífláti. Stuttu áður hafi lögreglu borist tilkynning um átök í íbúð að [...] og fram hafi komið hjá tilkynnanda að kona væri öskrandi og líklega væri verið að ganga í skrokk á henni.

Í skýrslum lögreglu komi fram að þegar komið hafi verið á vettvang að [...] hafi kærði komið að glugga baka til í íbúðinni sem sé á jarðhæð og hafi verið mjög æstur. Hafi lögreglumenn getað fylgst með kærða í gegnum gluggann og átt samskipti við hann. Hann hafi þó róast er hann hafi rætt við lögreglumenn en stuttu síðar hafi hann gengið með dóttur sína inn í svefnherbergi og kvaðst ætla að svæfa hana. Hann hafi síðan komið út úr herberginu og hafi þá aftur verið orðinn æstur og þegar lögregla hafi rætt við hann í heimilissímann hafi hann kastað símanum í gólfið og brotið hann. Hann hafi því næst aftur farið inn í herbergi og þaðan inn í eldhús og hafi komið aftur með tvo hnífa. Hann hafi gengið með hnífana að glugganum og hafi sagst ætla að beita þeim ef lögreglumenn kæmu inn í íbúðina. Hafi hann síðan sótt dóttur sína inn í herbergið og haldið á henni og einnig á hnífunum. Hann hafi síðan farið aftur með hana inn í herbergi og síðan komið án hennar fram. X hafi þá hótað að drepa lögreglumanninn sem rætt hafi við hann og einnig drepa fjölskyldu hans. Þá hafi hann lagt hnífinn að hálsi sér og sagst ekki myndi yfirgefa íbúðina lifandi. Kvaðst hann einnig ætla að fara inn í herbergi og drepa dóttur sína og hafi farið inn í herbergið með hnífana. Hann hafi þó komið fram aftur og hafi ítrekað látið í ljós og lagt mikla áherslu á að ef lögregla kæmi inn í íbúðina myndi allt enda illa. Hafi sérsveit ríkislögreglustjóra síðan náð að komast inn í íbúðina og yfirbuga kærða. Þegar lögregla hafi komið inn í svefnherbergi hafi dóttir kærða legið í hjónarúmi en hnífur hafi fundist í barnarúmi sem staðsett hafi verið við hlið hjónarúmsins.

Í kæruskýrslu A komi m.a. fram að hún hefði boðið kærða að vera hjá sér að kvöldi aðfangadags þar sem hann ætti enga að. Þegar þau hafi verið komin um miðnætti heim til A að [...] hefðu þau farið að deila um kærasta A og kærði ásakað hana um að hafa sofið hjá vini sínum. Kvaðst hún hafa setið í eldhúsinu með dóttur þeirra í fanginu þegar kærði hefði rifið í hár hennar og margkýlt hana í andlit, síðuna og hnakkann og hefði haft á orði að hann myndi lemja hana til dauða ef hún viðurkenndi ekki að hafa sofið hjá vini hans. Kvaðst hún ekki hafa þorað öðru en að segjast hafa sofið hjá honum þrátt fyrir að það hafi aldrei gerst. Hefði hún talið að hann myndi hætta barsmíðum ef hún gerði það. Eftir þetta hefði hann fleygt dóttur þeirra inn í herbergi og haldið áfram að ganga í skrokk á henni, en það hefði átt sér stað um alla íbúðina. Hann hefði margkýlt hana, stappað ofan á líkama hennar og hrækt á hana. Jafnframt hefði hann rispað á henni handlegginn með hníf. Síðan hefði ástandið róast og A lagst hjá dóttur sinni inni í herbergi. Skömmu síðar hefði kærði komið inn í herbergið og hafið grófar barsmíðar að nýju. Kvaðst hún hafa stöðugt kallað á hjálp. Inni í eldhúsi íbúðarinnar hefði kærði síðan tekið út á sér getnaðarliminn og þvingað hana til að hafa við sig munnmök. Hann hefði síðan rifið í hár hennar og skellt henni fram fyrir sig, borið hníf upp að hálsi hennar, girt niður um hana, rifið utan af henni nærbuxurnar og haft samræði við hana aftan frá. Hann hefði síðan fengið sáðlát inn í leggöng hennar. Eftir að hann hefði lokið sér af hefði hann hótað að skera af henni brjóstið. Hann hefði síðan farið inn á baðherbergið og þá hefði hún náð að hlaupa berfætt út úr íbúðinni og hefði þurft að skilja dóttur sína eftir.

Kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins og fram komi í skýrslu lögreglu að kærði kvaðst hafa ráðist á A vegna ágreinings þeirra á milli og slegið hana víðsvegar um líkamann með flötum lófa, en alls ekki með krepptum hnefa og ekki sparkað í hana. Þá hafi hann viðurkennt að hafa rifið í hár hennar. Eftir það kvaðst hann hafa haft samfarir við A í eldhúsinu og hún hefði ekki neitað þeim og ekki sagt neitt, hún hefði m.a. stunið á meðan á þeim hafi staðið. Eftir samfarirnar kvað kærði A hafa hlaupið út, enda telji hann að hún hefði verið hrædd. Aðspurður hafi hann sagst hvorki hafa hótað því að skaða dóttur þeirra eða hafi ógnað henni á nokkurn hátt. Hafi hann sagst hafa haldið á hníf fyrir framan lögreglu í því skyni að koma í veg fyrir að lögreglan kæmi inn. Aðspurður hafi hann fullyrt að hann hafi aldrei ætlað sér að beita hnífnum. 

A hafi farið í skoðun á slysadeild Landspítalans í Fossvogi og í framhaldi af því í skoðun á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Í læknisvottorðum komi m.a. fram að hún sé með áverkamerki víða um líkamann í formi marbletta og húðblæðinga, í miklu uppnámi og verkjuð. Talsvert sé af lausu hári á henni og á vinstri öxl sé skrapsár. Innanvert eða framanvert á hægri upphandlegg sé 4 cm mjög grunn rispa sem hafi útlit að vera eftir fremur skarpt áhald. Ekki sé að finna áverka á kynfærum en ríkulegur sæðislíkur vökvi sé í leggöngum. Í málinu liggi einnig fyrir ljósmyndir af áverkum A sem teknar hafi verið á Neyðarmóttöku. Þegar þessi gögn hafi verið borin undir kærða hafi hann sagt marblettina vera til komna eftir að hann hefði slegið hana. Taldi hann að hún hefði hlotið rispuna á handleggnum eftir að hafa dottið.

Tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi rannsakað brotavettvang og á ljósmyndum sem teknar hafi verið í eldhúsinu að [...], og liggi fyrir í málinu, sjáist hvar rifnar kvenmannsnærbuxur liggi á eldhúsbekk og tveir hnífar. Aðspurður í skýrslutöku hafi kærði sagt kynlíf þeirra hafa verið með þeim hætti í gegnum tíðina að hann hefði iðulega rifið nærbuxur A.

Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 25. desember sl., sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar þann 27. desember sl.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi og sé þess eðlis að almannahagsmunir krefjast gæsluvarðhalds. Telja verði að umrætt brot sé í eðli sínu svo svívirðilegt að gangi kærði frjáls ferða sinna myndi það valda hneykslan í samfélaginu og særa mjög réttarvitund almennings.

Rannsókn málsins sé langt komin. Beðið sé eftir skýrslu tæknideildar vegna líkamsrannsóknar á kærða og rannsóknar á fötum og lífssýnum aðila. Þá sé einnig beðið niðurstöðu rannsóknar á blóðsýnum frá rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

                Í máli þessu liggja fyrir gögn sem sýna áverka þá sem voru á ætluðum brotaþola í kjölfar þeirra atburða sem að ofan er lýst. Brotaþoli hefur lýst því í kæruskýrslu sinni hvernig kærði hafi beitt hana ofbeldi og hótunum, sem meðal annars hafi snúið að því að beita sameiginlegt barn þeirra ofbeldi. Lögreglumenn sem komu á vettvang bera og um að kærði hafi viðhaft hótanir um ofbeldi gagnvart barninu. Þessar hótanir höfðu og mun alvarlegra yfirbragð þar sem kærði mundaði hnífa er hann hafði þær í frammi. Brotaþoli hefur og borið að kærði hafi haft við hana samræði, sem og önnur kynferðismök, gegn vilja hennar. Fyrir liggur að atlaga kærða að brotaþola stóð yfir í nokkurn tíma og liggur einnig fyrir að á meðan átti brotaþoli sér ekki undankomu auðið. Kærði hefur samkvæmt fyrirliggjandi skýrslum sem hann hefur gefið hjá lögreglu kannast við að hafa beitt brotaþola ofbeldi og eins að hafa haft við hana samræði þó hann haldi því fram að það hafi verið  með samþykki hennar.

                Fallast má á með kærða að ekki verði á þessari stundu skorið úr um hvernig atburðir nákvæmlega gerðust og að orð standi gegn orði um ýmsa þætti atburðarásar. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt annað, þegar virt eru öll gögn málsins og þær staðreyndir sem þegar liggja fyrir, þar á meðal áverkar á brotaþola, að fallast á með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðað getur við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk brota gegn 217. gr., 2. mgr. 226 og 233. gr. sömu laga. Breytir það ekki framangreindu mati þó ekki sé unnt að slá því nákvæmlega föstu hvort ætluð frelsissvipting hafi staðið yfir þann tíma að ætlað brot kærða á 226. gr. laga nr. 19/1940 verði að réttu fært undir 2. eða 1. mgr. þess lagaákvæðis. Brot gegn 194. gr. laga nr. 19/1940 varðar allt að 16 ára fangelsi. Þá verður og að telja að brot þau sem kærði er grunaður um séu þess eðlis að telja verði að almannahagsmunir standi til þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi, en meta verður brotin heildstætt þegar ákveðið er hvort umrætt skilyrði er uppfyllt. Er það mat dómsins með vísan til alls sem að framan greinir að uppfyllt séu öll skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi og þykja ekki efni til að marka því skemmri tíma en lögreglustjóri krefst.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 30. janúar nk., kl. 16:00.