Hæstiréttur íslands
Mál nr. 358/2005
Lykilorð
- Nauðgun
- Umferðarlagabrot
- Ölvunarakstur
- Fíkniefnalagabrot
- Hegningarauki
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 17. nóvember 2005. |
|
Nr. 358/2005. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl. Guðrún Helga Brynleifsdóttir hdl.) |
Nauðgun. Umferðarlagabrot. Ölvunarakstur. Fíkniefnabrot. Hegningarauki. Upptaka.
X var ákærður fyrir nauðgun, ölvunarakstur og fíkniefnabrot. Játaði hann þá liði ákærunnar er lutu að ölvunarakstri og fíkniefnabrotum en neitaði að hafa haft kynmök við konuna A. A kvað X hafa nauðgað sér er hann kom á heimili hennar umrætt kvöld en X kvaðst hafa komið í þeim tilgangi að „lesa yfir henni“ vegna ónæðis, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir af hennar völdum. Í héraðsdómi var framburður A talinn trúverðugur en skýring X á heimsókninni ótrúverðug. Ljóst þótti af framburði hennar og annarra vitna að hún hefði orðið fyrir erfiðri lífsreynslu umrætt kvöld. Þá leiddi skoðun læknis í ljós að hún hafði hlotið áverka á kynfærum og yfirborðsáverka á hálsi, kjálkum og framhandlegg, sem þóttu samrýmast frásögn A af atburðum. Þrátt fyrir annmarka á rannsókn lögreglu í málinu var tæknirannsókn á vettvangi talin renna stoðum undir frásögn hennar. Var X því sakfelldur fyrir öll brotin, sem hann var ákærður fyrir, og niðurstaða héraðsdóms um þriggja ára fangelsisrefsingu og greiðslu 1.000.000 króna í miskabætur til A staðfest í Hæstarétti. Þá voru fíkniefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, gerð upptæk.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. júlí 2005 samkvæmt yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing verði þyngd og ákærða gert að greiða 2.000.000 krónur í miskabætur til brotaþola auk vaxta og dráttarvaxta eins og í héraðsdómi greinir.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af ákærulið A, en til vara að refsing hans verði lækkuð. Hann krefst þess og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi en til vara, að bætur verði lækkaðar.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu og refsingu ákærða og um miskabætur til brotaþola.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Það athugast, að brotaþoli samkvæmt ákærulið A sagði lögreglu þegar í fyrstu skýrslu sinni á vettvangi kvöldið 12. júlí 2004 hvar ákærða væri að finna og gaf upp símanúmer kunningja hans. Lögreglan hringdi í kunningja ákærða og var ákærði þá með honum í bifreið. Lögreglan talaði í símann við ákærða sem kannaðist ekki við að hafa verið á heimili brotaþola en kvaðst samt mundu koma á lögreglustöðina til viðræðna. Ákærði stóð ekki við orð sín og fóru lögreglumenn að heimili hans kl. 23.10. Þar knúðu þeir dyra en enginn svaraði, en þeir heyrðu greinilegan umgang inni í íbúðinni. Nágrannar ákærða sögðu lögreglumönnunum að um það bil fimmtán mínútum áður hafi ákærði verið fyrir utan húsið með þriggja ára barn sitt og hann hafi greinilega verið í annarlegu ástandi. Við þessar aðstæður hefði lögregla átt að handtaka ákærða og færa til skýrslugjafar. Þá hefði verið unnt að gera á honum líkamsrannsókn, sem hugsanlega hefði komið að gagni við sönnunarfærslu í málinu. Skýrsla var ekki tekin af ákærða fyrr en 2. september sama ár. Þessi dráttur á rannsókn lögreglu hefur ekki verið skýrður og er aðfinnsluverður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annan en sakarkostnað.
Ákærði, X, greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 967.623 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda og þóknun til réttargæslumanns brotaþola í héraði með þeim fjárhæðum sem í héraðsdómi greinir, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 17. mars 2005 á hendur X, [...], Reykjavík, fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni:
A.
Fyrir kynferðisbrot gegn A, [kt], með því að hafa að kvöldi mánudagsins 12. júlí 2004, í íbúð B, að 4. hæð til hægri, Z, Reykjavík:
1. Veist að henni með ofbeldi, í stofu íbúðarinnar rifið hana úr öllum fatnaði og stungið fingrum inn í leggöng hennar, í baðherbergi íbúðarinnar stungið salernispappír inn í leggöng hennar, í svefnherbergi íbúðarinnar þröngvað henni til holdlegs samræðis, og með því að hafa aftur í baðherbergi íbúðarinnar þröngvað henni til að sjúga getnaðarlim sinn og til holdlegs samræðis. Afleiðingar þessa urðu þær að hún hlaut marblett á kvið, hrufl á hægri framhandlegg, og sprungu ofan við leggangaop sem sauma þurfti saman með 9 sporum.
Þetta er talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992.
B.
Fyrir brot gegn umferðarlögum með því að hafa:
2. Þriðjudaginn 28. september 2004, ekið bifreiðinni KX-926 austur Fífuhvammsveg í Kópavogi, og inn á hringtorg við Lindarveg, án þess að vera með öryggisbelti spennt, og svo óvarlega að bifreiðin lenti utan vegar og hafnaði á ljósastaur.
Þetta er talið varða við 4. gr., og 1. mgr. 71. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
3. Fimmtudaginn 28. október 2004, ekið bifreiðinni PI-836, undir áhrifum áfengis (áfengismagn í blóði 0,51 ) norður Fjarðargötu í Hafnarfirði, þar sem lögregla stöðvaði akstur hans.
Þetta er talið varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
4. Aðfaranótt föstudagsins 5. nóvember 2004, ekið bifreiðinni ON-488, undir áhrifum áfengis (áfengismagn í blóði 0,51 ), um Fífuhvammsveg í Kópavogi, og inn á bensínafgreiðslusvæði Select, þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða.
Þetta er talið varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
C.
Fyrir eftirfarandi brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa:
5. Þriðjudaginn 28. september 2004, haft í vörslum sínum 19,17 g af maríhúana, sem fannst í vörslum hans þegar lögregla hafði afskipti af honum þegar hann ók bifreiðinni KX-926 á ljósastaur eins og nánar er gerð grein fyrir í 2. lið ákæru.
6. Þriðjudaginn 26. október 2004, haft í vörslum sínum í bifreiðinni IF-094, 0,90 g af amfetamíni, en efnið fannst innanklæða á ákærða við leit, eftir að lögregla stöðvaði bifreið ákærða á leið vestur Dalsmára í Kópavogi.
7. Þriðjudaginn 26. október 2004, haft í vörslum sínum 6,59 g af amfetamíni og 2,17 g af hassi, sem hann losaði sig við í lögreglubifreiðinni LK-030 (37-228) þegar hann var fluttur í lögreglustöð vegna leitar þeirrar sem getið er um í 6. lið ákæru, en efnið fannst þann 29. október 2004, við þrif á bifreiðinni.
8. Laugardaginn 30. október 2004, á bifreiðastæði við verslun ÁTVR að Stuðlahálsi í Reykjavík haft í vörslum sínum 1,67 g af hassi, sem lögregla fann við leit á ákærða.
9. Laugardaginn 13. nóvember 2004, haft í vörslum sínum í bifreiðinni DP-175, 8,35 g af amfetamíni, þegar lögregla stöðvaði bifreið ákærða á Nýbýlavegi í Kópavogi, og fannst efnið í veski ákærða við leit á honum.
Eru brot þau sem greind eru í kafla C í ákæru talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
D.
Dómkröfur:
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.
Þess er krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á samtals 19,17 g af maríhúana, 3,84 g af hassi, og 15,84 g af amfetamíni sem hald hefur verið lagt á, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
E.
Bótakrafa:
A krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. júlí 2004 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af háttsemi samkvæmt A. kafla ákæru en að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa vegna háttsemi samkvæmt B. og C. kafla. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna.
A. kafli ákæru
Mánudaginn 12. júlí 2004 kl. 21.13 fékk lögreglan í Reykjavík boð um að fara að Zí Reykjavík, en samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafði A tilkynnt lögreglu um að sér hafi verið nauðgað. Er lögregla kom að Z gerði A grein fyrir því að um kl. 20.10 hafi fyrrverandi sambýlismaður hennar, ákærði í máli þessu, komið í heimsókn. Hafi hún merkt að hann væri í annarlegu ástandi. Því næst lýsti hún fyrir lögreglu hvernig ákærði hafi þvingað hana til samræðis í rúmi hennar og inni á baðherbergi. Bar hún að vinur hennar B hafi hringt í gsm síma sinn á meðan á þessu hafi staðið. Hafi hún náð að svara símanum en ákærði slökkt á honum. Fram kemur að nefndur B hafi verið á vettvangi. Hafi hann staðfest að hafa hringt í A þar sem hann hafi ætlað að koma til hennar í kaffi. Einhver hafi svarað símtalinu en síðan hafi verið slökkt á símanum. Hafi hann komið til A um kl. 22.00 og A þá verið ein heima. Fram kemur að A hafi verið búin að taka lak af rúmi í svefnherbergi og hafi það legið á gólfi herbergisins. Gaf hún lögreglu upp símanúmer hjá kunningja ákærða, C, en hún taldi að ákærði væri með honum. Í frumskýrslu kemur fram að lögregla hafi hringt í C og hafi hann gefið lögreglu samband við ákærða. Hafi ákærði í því símtali neitað að hafa komið að Z til A en engu að síður lýst sig reiðubúinn að mæta á lögreglustöð til viðræðna. Nokkru síðar hafi verið haft samband við C á ný sem þá hafi greint frá því að hann hafi ekið ákærða heim að Z á Kjalarnesi. Í því símtali hafi komið fram hjá C að hann hafi fyrr þetta kvöld náð í ákærða að veitingahúsinu Ölveri í Glæsibæ og að ákærði hafi þá verið drukkinn. Eftir að lögregla hafi ekið A á Landsspítala háskólasjúkrahús til aðhlynningar hafi verið farið að heimili ákærða. Þangað hafi lögregla verið komin kl. 23.10. Enginn hafi svarað er lögregla hafi knúið dyra. Greinilegur umgangur hafi þó verið í húsinu og hafi nágrannar ákærða upplýst lögreglu um að ákærði hafi verið með ungt barn sitt fyrir utan hús sitt um 15 mínútum áður en lögregla hafi komið á vettvang.
Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík framkvæmdi vettvangsrannsókn í íbúðinni að Z. Samkvæmt skýrslu tæknideildar hafði fyrir komu lögreglu 12. júní 2004 í svefnherbergi íbúðarinnar sjáanlega verið skipt um lak á rúmi. Á gólfi í herberginu hafi legið rúmlak/teygjulak og sængurver. Hafi lögregla lagt hald á teygjulakið og sængurverið. Undir stól sem staðið hafi upp við vegg í herberginu hafi legið brotin leirstytta, en brot styttunnar hafi verið haldlögð í þágu rannsóknar málsins. Bleyta hafi verið sjáanleg í baðkarsbotni í baðherbergi og við annan enda baðkarsins hafi staðið blár Nivea Sun brúsi með sólaráburðarkremi. Brúsinn hafi verið blautur að utan en haldlagður og látinn þorna yfir nótt í starfsstöð tæknideildar. Fram kemur í skýrslunni að næsta dag hafi verið reynt að finna nothæf fingraför á yfirborði brúsans. Sú tilraun hafi ekki borið árangur. Nokkuð snyrtilegt hafi verið um að litast í stofu. Fatnaður hafi verið sjáanlegur í stofusófa, ein ljósgræn peysa. Í stofustól hafi legið fjólublá flíspeysa. Á sófaborði hafi mátt sjá þrjá kaffibolla. Var sá þeirra tekinn í vörslu lögreglu er A bar að ákærði hafi drukkið úr.
Ákærði heimilaði lögreglunni í Reykjavík töku lífsýna úr sér 2. september 2004. Þá voru lífsýni tekin úr A 15. september 2004. Voru sýni úr ákærða og sýni tekin úr dömubindi A og úr kynfærum hennar send til DNA rannsóknar til Rettsmedisinsk institutt í Osló í Noregi 15. september 2004. Í svarbréfi stofnunarinnar 22. nóvember 2004 kemur fram að rannsóknin hafi leitt í ljós að í innsendum sýnum hafi engin merki verið um sæði eða sáðfrumur og hafi sýnin því ekki verið rannsökuð frekar. Þá tók tæknideild lögreglu til frekari rannsóknar haldlagt lak, sængurver og bolla úr íbúð A, auk þess sem Nivea Sun brúsi og brotin stytta voru rannsökuð frekar. Blettir á teygjulaki hafi verið prófaðir með sæðisprófi en þeir hafi ekki gefið svörun. Ekkert markvert hafi komið í ljós við skoðun á sængurveri. Þá hafi engin fingraför komið fram á bolla eða brotum úr styttu.
A fór í fylgd lögreglu á neyðarmóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss. Arnar Hauksson læknir hefur ritað skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á A, en skoðunin fór fram mánudaginn 12. júlí 2004 kl. 24.00. Arnar hefur ritað í skýrsluna frásögn A af atburðum að Z. Um ástand við skoðun kemur fram að A hafi verið í losti, óraunveruleikatengd en skýr í frásögn. Hún hafi verið í hnipri og með ógleði. Þá hafi hún verið útgrátin en ef til vill með byrjandi marblett á kjálkabarði vinstra megin og framan á höku. Geti roðinn hafa verið eftir handtak. Á kviðvegg neðan bringuspala hafi sennilega verið að koma út marblettir, líkt og eftir fingur. Á innanverðum hægri framhandlegg hafi verið nokkrar rauðleitar rákir eða ferskar húðrispur sem einnig geti hafa verið eftir handtak utanyfir föt sem hafi krumpast. Þá komi fram blæðandi sár við leggangaop. Um hafi verið að ræða V laga sprungu. Lengri armur sprungunnar hafi verið 2 cm að lengd en sá styttri 1 cm. Skurðurinn hafi verið deyfður og saumaður saman með 9 sporum. Blætt hafi komið úr skurðinum.
A gaf skýrslu hjá lögreglu 14. júlí 2004 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hún hafa þekkt ákærða í sjö ár fyrir þessa atburði. Hafi hann af og til komið í heimsókn til A og fengið að gista öðru hvoru. Þeim hafi fæðst andvana barn á árinu 1999. Síðast hafi A hitt ákærða í mars 2004 í tengslum við afmæli sitt. Í tilefni af framburði ákærða tók A fram að hún hafi sent ákærða sms smáskilaboð í byrjun júní 2004 með boðum um að hún hafi kynnst nýjum manni. Kvað hún rangt er ákærði héldi fram að hún hafi verið að ónáða hann með sífelldum símhringingum. Mánudaginn 12. mars 2004 hafði ákærði hringt af og til og óskað eftir því að fá að ræða við A ,,augliti til auglitis”. Ekki hafi hann í símtölunum viljað upplýsa hana um erindið. Um kl. 19.00 hafi ákærði hringt eina ferðina enn og þá verið í Hafnarfirði. Hafi A ákveðið að leyfa honum að koma í heimsókn. Ákærði hafi síðan komið að Z kl. 19.50 og hafi A hleypt honum inn. Tímasetninguna kvaðst A muna þar sem ákærði hafi spurt hvað klukkan væri er hann hafi komið. Hafi hann farið rakleiðis inn á salernið í íbúðinni. Þar hafi hann spurt A að því hvort hún elskaði sig. Hafi hún svarað því til að hún elskaði hann ekki í því ástandi er hann væri í, en hún hafi merkt við komu að hann væri í annarlegu ástandi. Ekki hafi hún getað greint á milli þess hvort hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða lyfja, en hún hafi ekki fundið vínlykt af honum. Ekki kvaðst A sjálf hafa verið undir áhrifum áfengis þetta kvöld. Eftir þessi orðaskipti hafi ákærði viljað fá kaffi. Á meðan ákærði hafi drukkið kaffið hafi hann hringt eitt símtal úr heimasíma A. Þau hafi þá setið í stofunni, A ein í stól en ákærði í sófanum. Á meðan á samtali þeirra hafi staðið hafi ákærði skyndilega dregið A upp úr stólnum og yfir í sófann. Hafi hún streist á móti þegar hann hafi dregið hana yfir. Í sófanum hafi hann byrjað að strjúka brjóst A utan klæða og innan. Jafnframt hafi hann byrjað að kyssa hana. Hafi A sagt ákærða að hún vildi þetta ekki og spurt hann að því hvort hann hafi ekki komið til að ræða við hana. Einnig hafi hún sagt honum að hún væri með kynsjúkdóm, en við það hafi ákærði farið að hlæja. Hún hafi bætt því við að hún væri með einhvers konar sveppasýkingu en við það hafi ákærði hlegið enn meira. Ákærði hafi síðan staðið upp og ýtt sér niður í sófann og sest klofvega yfir sig. Því næst hafi hann rifið sjálfan sig úr peysunni og um leið sagt að A þekkti sig ekki. Hafi hann barið sér á brjóst og boðið A að berja sig einnig. Hafi hann verið mjög ógnandi á svipinn og hafi A við þetta orðið mjög smeyk þar sem hún hafi ekki kannast við slíka framkomu hjá honum áður. Einnig hafi hún tekið eftir að augu hans hafi verið svört, en það hafi einnig hrætt hana. Hafi hún óttast mest að ákærði myndi berja sig og því hafi hún ekki streist eins mikið á móti. Þar sem ákærði hafi setið ofan á sér hafi hann í einu handtaki rifið A úr bol og brjóstahaldara. Til að fötin rifnuðu ekki hafi A ákveðið að veita ekki mótspyrnu. Eitthvað kvaðst A hafa sagt til að reyna að róa ákærða niður. Það næsta sem ákærði hafi gert hafi verið að draga A úr gallabuxum og hafi nærbuxur fylgt með. Eftir það hafi ákærði ýtt A aftur á bak niður í stofusófann og farið með fingur inn í leggöng hennar. Sjálfur hafi ákærði rennt buxnaklauf á sínum buxum niður og tekið kynfæri sín út. Á meðan á þessu hafi staðið hafi hann haldið A niðri með annarri hendi sem legið hafi á hálsi hennar og kjálkum. Hafi hann verið mjög ógnandi á svip og hún verulega hrædd við hann. Á meðan ákærði hafi verið með fingur í leggöngum A hafi hann sagt að það væri vond lykt af kynfærum hennar og spurt hvort hún gæti gert eitthvað í því. Hafi hún sagt að hún gæti þvegið sér og því næst farið inn á bað. Hafi ákærði fylgt A eftir inn á baðherbergið. Eftir að A hafi þvegið sér hafi ákærði lagt aðra höndina á öxl A og sagt henni að beygja sig fram ofan í baðkarið. Hafi hún orðið vör við er ákærði greip salernispappír og hafi hann vöðlað honum saman og stungið honum inn í leggöng A. Hún hafi fundið fyrir miklum sársauka við þetta. Hafi hún þá sagt við ákærða að þetta væri vont og beðið hann um að gera þetta ekki. Þrátt fyrir það hafi ákærði haldið áfram að troða pappírnum inn í leggöngin. Hafi A verið mjög hrædd og ekki þorað að streitast á móti. Hafi hún farið að gráta en þá hafi ákærði farið að strjúka henni og spurt hvað væri að. Hafi hún þá sagt að það sem ákærði væri að gera væri vont. Hafi hann tekið aftur fyrir hnakka A og beygt hana niður í gólf. Hafi hún beðið hann um að gera þetta ekki og hafi hún sagt að þau skyldu frekar fara upp í rúm. Hafi þau því næst farið inn í svefnherbergi en þá hafi ákærði spurt A að því hvort hún ætti krem. Hafi hún sagt að hún skyldi fara og sækja það og í því skyni farið fram. Ákærði hafi fylgt á eftir en allan þann tíma sem hún hafi verið að leita að kreminu hafi hún verið að hugsa um hvernig hún gæti komist frá ákærða. Í baðherberginu hafi ákærði séð brúsa með sólaráburði sem hann hafi tekið með sér inn í svefnherbergið. Ákærði hafi því næst borið krem á kynfæri A og endaþarmsop, auk þess að setja krem á getnaðarlim sinn. Því næst hafi ákærði lagst ofan á A og haft samfarir við hana í leggöng. Ekki kvaðst hún vita hvort ákærði hafi fengið sáðlát eða hversu lengi samfarirnar hafi staðið. Hafi hún fundið fyrir miklum sársauka við samfarirnar. Á meðan á þeim hafi staðið hafi A orðið vör við að blóð hafi lekið frá kynfærum hennar. Er ákærði hafi orðið var við blóðið hafi hann stoppað og sagt að þau skyldu fara inn á bað til að þvo sér. Hafi A séð blóð og blóðug lófaför ákærða í lakinu, auk þess sem saur hafi sennilega verið í lakinu. Hafi þau farið fram á bað en á leiðinni þangað hafi A sagt að hún þyrfti að fara til læknis. Hafi hún farið í sturtu en á meðan hún hafi verið þar hafi ákærði hellt sólarolíu yfir hana. Þá hafi hann á ný farið með hendi inn í leggöng hennar. Síðan hafi hann beygt höfuð hennar niður og látið hana sjúga á sér getnaðarliminn. Á meðan á því hafi staðið hafi gsm sími A hringt. Hafi ákærði sagt að þau skyldu láta símann hringja en A þá sagt að símtalið gæti verið frá móður hennar. Ef hún myndi ekki svara myndi móðirin hringja á lögregluna. Hafi þau farið fram og ákærði tekið símann og rétt A. Símtalið hafi verið frá B, vini A. Hafi A aðeins náð að ræða við hann en síðan hafi hún farið að gráta. Þá hafi ákærði tekið af henni símann og slökkt á honum. Um leið hafi A hrópað ,,náðu í lögregluna”. Ekki kvaðst hún vita hvort B hafi heyrt þau hróp. Við þetta hafi ákærði róast. Síminn hafi hringt aftur en ákærði slitið sambandinu án þess að svara. Skömmu síðar hafi ákærði hringt í vin sinn og beðið hann um að sækja sig. Á meðan hafi ákærði tekið saman föt sín og farið í þau. Hafi A sett á sig dömubindi og farið í nærbuxur. Hafi hún sagt ákærða að B væri á leiðinni með lögregluna. Hafi ákærði þá sagt ,,Ætlarðu þá að taka svona á móti mér”. Áður en ákærði hafi farið hafi hann beðið um að fá 500 krónur svo hann gæti farið á veitingastaðinn Ölver. Hafi A látið ákærða fá 1.000 krónur. Ekki kvaðst A vita hvað klukkan hafi verið er ákærði hafi yfirgefið íbúðina. Hafi hún strax hringt í B og í kjölfarið í lögreglu. Eftir það hafi hún hringt í D, stuðningsaðila sinn. A kvaðst hafa átt erfitt tímabil eftir þessa atburði. Hafi hún m.a. farið til Danmerkur í 3 vikur til að reyna að jafna sig. Hafi hún leitað sér sálfræðiaðstoðar og væri enn óljóst hvenær þeirri meðferð lyki.
Þórunn Finnsdóttir hefur ritað vottorð vegna sálfræðimats á A. Vottorðið er frá 2. júní 2005 og ber með sér að A hafi á tímabilinu frá 13. júlí 2004 til 26. apríl 2005 komið í 12 sálfræðiviðtöl hjá Þórunni. Fram kemur að A hafi upplifað mikla skelfingu og vanmátt og við fyrstu komu hafi líðan hennar einkennst af tilfinningalegum doða og vantrú á því sem hafi gerst. Dagana á eftir hafi hún verið hrædd við að vera ein heima og gist hjá móður sinni. Minningar um atburðinn hafi verið áleitnar fyrstu vikurnar og líðan einkennst af stöðugri spennu sem hafi m.a. birst í því að A hafi vaknað oft upp á nóttinni og upplifað mikla þreytu. Tilfinningar hennar hafi sveiflast á milli reiði og depurðar. Í september hafi dregið nokkuð úr áleitni atburða en mikil vanmáttarkennd, leiði og þróttleysi hafi hrjáð A. Stöðug varnarstaða og vaxandi vantraust gagnvart öðrum hafi haft neikvæð áhrif á samskipti hennar við aðra og háð henni í starfi. Einkenni þunglyndis hafi farið vaxandi. Í nóvember hafi farið að draga úr depurðareinkennum og í janúar hafi A skynjað mikla framför þar sem hún hafi verið farin að treysta fólki á nýjan leik. Samskipti hafi batnað til muna, hún upplifað framför í starfi og aukna von. Þunglyndiseinkennin hafi þá ekki verið lengur til staðar. Er það niðurstaða Þórunnar að sálræn einkenni A samsvari einkennum sem séu þekkt í kjölfar alvarlegra áfalla. Hún hafi upplifað mikla skelfingu, ótta og varnarleysi, sem liggi til grundvallar fyrsta viðmiðs greiningu á áfallastreituröskun. Sálræn eftirköst samsvari öðrum viðmiðunum í þeirri greiningu. Sex vikum eftir áfallið hafi dregið verulega úr áfallastreitueinkennum. Í kjölfarið hafi komið fram einkenni þunglyndis, sem hafi horfið um áramótin 2004 til 2005. Í apríl 2005 þegar A hafi fengið upplýsingar um hvenær mál hennar yrði tekið fyrir í héraðsdómi hafi hún endurupplifað atburðinn ásamt streitu- og depurðareinkennum tengdum honum.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 2. september 2004 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hann hafa kynnst A á árinu 1997. Hafi þau verið saman af og til eftir það. Þeim hafi fæðst andvana barn. Ekki hafi A verið sátt við að ákærði vildi ekki búa með sér og af því hlotist mikið ,,drama”. Hafi hún haft þráhyggju um að hún yrði að eignast eiginmann, börn og heimili. Hafi ákærða liðið illa í þessari stöðu og ekki viljað skuldbinda sig gagnvart A. Eftir kynni þeirra hafi ákærði ekið A talsvert, en hann hafi þá verið leigubifreiðastjóri. Hann hafi síðan hætt að aka henni þar sem hún hafi átt það til að ,,sleppa sér”, en hún hafi t.d. lamið ákærða og verið almennt mjög reið út í hann. Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa komið á heimili A að kvöldi mánudagsins 12. júlí 2004. Þetta kvöld hafi ákærði verið verulega ölvaður, en hann hafi frá hádegi þennan dag drukkið sennilega einar þrjár kippur af bjór. Hann hafi hins vegar ekki verið undir áhrifum vímuefna. Erindi hans til A hafi verið að ,,lesa yfir henni” vegna mikils ónæðis af hennar hálfu gagnvart ákærða og þáverandi sambýliskonu hans með sífelldum sms smáskilaboðasendingum og símhringinum. Hafi ákærði verið reiður úti í A af þessum ástæðum en hann hafi áður verið búinn að biðja hana um að hætta þessu ónæði. Ekki kvaðst ákærði hafa haft kynmök við A þetta kvöld, hvað þá að hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Ákærði kvaðst sennilega hafa komið til hennar um kl. 19.50 þetta kvöld og hafi hann sennilega staldrað við í um 30 til 40 mínútur. Er undir ákærða voru bornar frásagnir A um einstaka þætti í samskiptum þeirra í íbúðinni tengt kynferðislegu ofbeldi af hans hálfu kvaðst ákærði ekkert kannast við slíka atburðarás, hún væri tómur tilbúningur og hreinlega út í hött. A hafi verið mjög reið ákærða er hann hafi haldið á brott frá henni. Gat hann sér hellst til um áverka á kynfærum að A hafi sjálf valdið sér þeim. Kvaðst hann muna að hann hafi enga fjármuni haft meðferðis og því beðið A um að lána sér 500 krónur. Hún hafi látið hann fá 1.000 krónur. Hafi hann farið rakleiðis á veitingastaðinn Ölver, í næsta nágrenni við heimili A. Þar hafi hann sennilega drukkið 3 bjóra. Þangað hafi kunningi ákærða, C sótt ákærða um kl. 22.00 og ekið honum heim til sín. Ákærði hafi sennilega verð kominn heim um kl. 22.30 um kvöldið. Ekki kvaðst ákærði hafa orðið var við að lögregla hafi verið að leita að honum þetta kvöld.
D kvaðst hafa kynnst A á AA-fundum og hafi hún gerst stuðningsaðili hennar. Hún hafi fengið símtal frá A að kvöldi 12. júlí 2004. Hafi A óskað eftir því að D kæmi heim til sín til að hjálpa sér. Í símtalinu hafi A tjáð D að sér hafi verið nauðgað, auk þess sem hún hafi tjáð sér að hún hafi haft samband við lögreglu vegna málsins. D kvað sér hafa brugðið við þetta og ákveðið að hafa samband við E og fá hana til að koma með sér til A. Er D og E hafi komið heim til A hafi lögregla verið þar fyrir, sem og kunningi A B að nafni. Er D hafi komið að Z hafi A gengið um og verið mjög ,,tætt”, greinilega í mikilli geðshræringu. Hafi D og E ákveðið að fara með A á neyðarmóttöku vegna læknisskoðunar. Á meðan beðið hafi verið eftir lækni hafi A endurtekið að henni hafi verið nauðgað og hafi hún nefnt mann að nafni X í því sambandi. Ekki hafi hún lýst í smáatriðum hvað X hafi átt að hafa gert. Hún hafi þó nefnt að hún hafi orðið hrædd og ekki þorað að streitast á móti af neinum krafti. Eftir heimsóknina á neyðarmóttöku hafi A farið heim til D og dvalið þar fram á næsta dag.
E kvaðst hafa verið heima hjá móður sinni að kvöldi 12. júlí 2004. D hafi hringt og óskað eftir því að E kæmi með sér til konu sem D væri stuðningsaðili fyrir. Í símtalinu hafi D sagt að fyrrverandi sambýlismaður þessarar konu hafi komið í heimsókn og hafi hann ráðist á hana. Er þær hafi komið heim til A hafi lögregla verið þar fyrir, auk þess sem vinur A hafi verið þar. Hafi A sagt þeim að árásarmaðurinn hafi verið búinn að hringja til hennar fyrr um daginn og síðan hafi hann komið í heimsókn. Strax eftir að maðurinn hafi komið í íbúðina hafi hann ráðist á hana í herbergi, rifið hana úr fötum og nauðgað henni. Síðan hafi maðurinn farið með hana inn á baðherbergið og neytt hana til að fara í sturtu þar sem hann hafi hellt yfir hana sólarolíu. Lögregla hafi ekið A á neyðarmóttöku. A hafi verið í mjög slæmu ástandi þetta kvöld, hún hafi grátið mikið og verið illa farin. Hún hafi bæði verið reið og ,,tætt”. A hafi nafngreint árásarmanninn en ekki kvaðst E muna nafn hans.
Þórunn Finnsdóttir sálfræðingur staðfesti sálfræðivottorð sitt frá 2. júní 2005. Kvað hún A hafa borið merki um að hafa lent í áfalli. Hafi hún verið með ýmis einkenni, s.s. doða, áfallaröskun og þunglyndi, en hún hafi verið mjög döpur. Hafi hún verð mjög brothætt gagnvart álagi og átt erfitt með að rifja atburði upp. Er hún hafi fregnað af fyrirtöku þessa máls hafi hún fengið bakslag í sálfræðimeðferðinni. Erfitt sé að segja til um hversu langan tíma muni taka fyrir A að losna úr tengslum við þá atburði er átt hafi sér stað 12. júlí 2004. Kvaðst Þórunn hafa kynnt sér sjúkrasögu A fyrir þessa atburði. Sú sálfræðimeðferð er hún hafi veitt A hafi þó miðast við atburðina 12. júlí. Kvaðst hún telja að vitneskja um ástand A fyrir atburði hafi haft þýðingu fyrir meðferðina þó svo slíkt ástand gæti ekki verið orsakavaldur fyrir þeirri áfallastreituröskun er hún hafi greinst með.
Arnar Hauksson læknir staðfesti skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á A. Staðfesti hann að A hafi verið með V-laga sprungu ofan við leggangaop, 2ja og 1 cm langar. Um hafi verið að ræða yfirborðssprungu í slímhimnu. Slík sprunga kæmi til vegna áverka en fatnaður, s.s. g-strengur, myndi ekki valda slíkum áverka. Mikill sársauki væri samfara slíkum áverka og útilokað að valda honum sjálfur nema viðkomandi væri í ,,masókísku ástandi”.
Rannsóknarlögreglumaðurinn Ragnar Jónsson staðfesti rannsóknargögn tæknideildar lögreglu. Greindi hann frá því að blóðkám hafi verið á laki því er lagt hafi verið hald á í íbúðinni að Gnoðarvogi. För eftir hendur hafi verið í blóðinu, en þau hafi ekki reynst hæf til samanburðar þar sem ,,hryggi” hafi vantað í förin. Þá staðfesti Ragnar að gerðar hafi verið tilraunir til að nálgast fingraför af Nivea Sun brúsa er lögregla hafi lagt hald á. Ekki hafi reynst unnt að greina fingraför á þeim brúsa, sennilega sökum bleytu.
Við aðalmeðferð málsins var gert ráð fyrir að B og C gæfu skýrslu fyrir dómi. Bl bar við önnum er honum voru færð boð um að mæta í héraðsdóm en kvaðst reiðubúinn að gefa skýrslu í gegnum síma. Við aðalmeðferðina voru gerðar tilraunir til að ná sambandi við B í síma en hann gaf ekki færi á sér til skýrslutöku. Sækjandi og verjandi töldu ekki slíka nauðsyn á að B kæmi fyrir dóminn við aðalmeðferðina að ástæða væri til að fresta henni í því skyni. Á það féllust dómendur málsins. Þá hafði ekki tekist að hafa uppi á C og var einnig talið að ekki væri slík nauðsyn á að hann gæfi skýrslu fyrir dómi að ástæða væri til að fresta aðalmeðferð málsins af þeim ástæðum.
Niðurstaða:
Ákærði hefur alfarið synjað fyrir að hafa haft kynmök við A að kvöldi mánudagsins 12. júlí 2004. Hefur hann lýst því að hann hafi óskað eftir að fá að hitta hana á heimili hennar í þeim tilgangi að ,,lesa yfir henni”, eins og hann komst að orði. Eru ákærði og A sammála um að ákærði hafi komið á heimilið kl. 19.50 um kvöldið. Hann fullyrðir að hann hafi dvalið þar í 30 til 40 mínútur.
A hefur hér fyrir dómi lýst því að ákærði hafi umrætt kvöld rifið hana úr fötum í sófa í stofu íbúðar hennar að Z í Reykjavík og í kjölfarið farið með hendi inn í leggöng hennar. Inni á baði hafi hann stungið salernispappír inn í leggöng hennar og inni í svefnherbergi hafi hann haft við hana samfarir í leggöng. Eftir að þau hafi í annað sinn farið inn á baðherbergið hafi ákærði þvingað hana til að sjúga á sér getnaðarliminn. Um einstaka þætti í þessari atburðarás hefur A verið nákvæm og sjálfri sér samkvæm, en hún greindi lögreglu frá þessum atvikum, sem og Arnari Haukssyni lækni, auk þess að bera um þessa atburðarás hér fyrir dómi. Hefur hún lýst því að hún hafi óttast ákærða mjög þetta kvöld og ekki þorað að veita honum líkamlega mótspyrnu að ráði. Hafi hún ítrekað reynt að fá hann til að hætta og sífellt verið að leita leiða til að komast frá honum. A hefur borið að hún hafi hringt í lögreglu í kjölfar þess að ákærði yfirgaf íbúðina. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var tilkynnt um atburðinn kl. 21.13 þetta kvöld.
Framburður A bar þess glögg merki að hún hafi orðið fyrir erfiðri lífsreynslu í tengslum við atburði að kvöldi 12. júlí 2004. Skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun sýnir að A hlaut áverka á kynfærum þetta kvöld, auk þess sem hún var með yfirborðsáverka á hálsi, kjálkum og framhandlegg. Samræmast þessir áverkar frásögn hennar af atvikum, en hún bar m.a. að ákærði hafi haldið sér niðri í sófa í stofu með því að leggja handlegg yfir háls hennar og kjálka. Áverkar á kynfærum hennar staðfesta að einhverju hafi verið þröngvað inn í leggöng hennar þetta kvöld, en blætt hafði úr þeim og greindust þeir ferskir við skoðun á neyðarmóttöku. Rannsókn tæknideildar lögreglu hefur leitt í ljós blóðug för eftir hendur á laki í rúmi í svefnherbergi íbúðarinnar. Þá hefur sú rannsókn leitt í ljós að vatn hefur runnið um baðkar á baðherbergi. Á baðkarsbrún hefur lögregla sannreynt að hafi verið brúsi með Nivea Sun kremi. Allir þessir þættir tengjast þeirri lýsingu á atvikum er A hefur greint frá. Loks ber vitnunum D og E saman um að A hafi borið þess augljós merki að hafa orðið fyrir erfiðri lífsreynslu þetta kvöld, auk þess sem sálfræðivottorð Þórunnar Finnsdóttur sálfræðings ber með sér að A hafi átt við sálræna erfiðleika að stríða eftir atburðina.
Það er niðurstaða dómsins að framburður A, sem studdur er framburði framangreindra vitna og öðrum gögnum, sem gerð hefur verið grein fyrir, sé trúverðugur og verður hann lagður til grundvallar niðurstöðu málsins, þrátt fyrir neitun ákærða. Ákærði hefur viðurkennt að hafa heimsótt A umrætt kvöld, en skýring sú sem hann gaf á erindi sínu þangað er ekki trúverðug að mati dómsins, en hún fær ekki stuðning í gögnum málsins. Þá er það mat dómsins að fjarstæðukennd sé sú skýring ákærða að A hafi sjálf valdið sér áverkum á kynfærum. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í A. kafla ákæru og er háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæðis.
B. og C. kafli ákæru
Ákærði hefur skýlaust játað háttsemi samkvæmt B. og C. kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans og rannsóknargagna málsins er sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans að því leyti rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur 1963. Á árunum 1984 til 1993 var hann einu sinni dæmdur fyrir brot gegn 106. og 248. gr. laga nr. 19/1940 og þrisvar sinnu fyrir brot gegn ákvæðum umferðarlaga. Á árinu 2003 gekkst hann í þrígang undir sáttir hjá lögreglustjóra vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni og í tvígang 20. janúar 2005 vegna brota gegn sömu lögum. Loks gekkst hann undir viðurlagaákvörðun í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. mars 2005 vegna brota gegn ákvæðum umferðarlaga, m.a. um ölvunarakstur.
Að því er brot samkvæmt A. kafla ákæru varðar á ákærði sér engar málsbætur. Við mat á refsingu er einkum að líta til þess að atlaga hans að A var langvinn, þar sem hún var svipt kynfrelsi sínu. Hún hlaut af henni alvarlega líkamlega áverka, sem m.a. leiddu til þess að sauma þurfti saman sprungu við leggangaop með 9 sporum. Hlaut hún af atlögunni andlegt áfall, sem reynst hefur henni erfitt viðfangs og þungbært. Að því er brot samkvæmt B. kafla ákæru varðar er ákærði með þeim í tvígang sakfelldur fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, auk þess að vera sakfelldur fyrir að aka bifreið óvarlega og án þess að vera með öryggisbelti spennt. Loks er hann með C. kafla ákæru sakfelldur fyrir vörslur á fíkniefnum í 5 tilgreind skipti. Brot ákærða samkvæmt ákæru eru öll framin áður en hann gekkst undir sáttir hjá lögreglustjóra 20. janúar 2005 og viðurlagaákvörðun í héraðsdómi 2. mars 2005. Ber því að tiltaka refsingu samkvæmt 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. og 77. gr. laganna.
Samkvæmt öllu framansögðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Eru ekki efni til að beita sektarrefsingu samhliða fangelsisrefsingunni.
Ákærði var sviptur ökurétti í 3 ár frá 2. mars 2005 er hann gekkst undir viðurlagaákvörðun í héraðsdómi 2. mars sl. Það mál varðaði akstur undir áhrifum áfengis miðvikudaginn 17. mars 2004, en áfengismagn í blóði ákærða það sinn mældist þannig að brotið féll undir 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Með vísan til þess áfengismagns í blóði ákærða í þeim tilvikum er hér eru til meðferðar verður litið svo á að honum hefði ekki verið ákvörðuð lengri ökuréttarsvipting en í 3 ár ef um öll tilvikin hefði verið fjallað 2. mars 2005. Verður honum því ekki ákvörðuð sérstök ökuréttarsvipting í þessu máli.
Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs 19,17 g af maríhúana, 3,84 g af hassi og 15,84 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Þórdís Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður hefur krafist þess fyrir hönd A, að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta. Til stuðnings miskabótakröfunni er vísað til þess að um mjög hrottafengna og ofbeldisfulla nauðgun hafi verið að ræða sem hafi staðið yfir í um klukkustund. Nauðgun sé mjög gróft brot gegn persónu, friði og frelsi brotaþola en ákærði hafi í engu sinnt beiðni hennar um að hætta. Sé krafist bóta fyrir brot sem muni hafa mjög mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu A um ókomna framtíð. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Hin harða og langvinna atlaga ákærða að A hefur valdið henni miska, svo sem sálfræðivottorð Þórunnar Finnsdóttur ber með sér. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Þykja þessar bætur hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur. Þá fjárhæð greiði ákærði A, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 12. júlí 2004 til 2. október 2004, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Um málsvarnarlaun, þóknun til réttargæslumanns og greiðslu sakarkostnaðar fer sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi ríkissaksóknara.
Héraðsdómararnir Símon Sigvaldason sem dómsformaður, Arngrímur Ísberg og Sigríður Ingvarsdóttir kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 19,17 g af maríhúana, 3,84 g af hassi og 15,84 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærði greiði A, [...], 1.000.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 12. júlí 2004 til 2. október 2004, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 219.459 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 240.000 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur.