Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-97

Lítið mál ehf. (Auður Björg Jónsdóttir lögmaður)
gegn
Finnboga R. Jóhannessyni (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Verklaun
  • Aðildarskortur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með ódagsettri beiðni sem barst Hæstarétti 1. júlí 2022 leitar Lítið mál ehf. leyfis réttarins til að áfrýja dómi Landsréttar 3. júní 2022 í máli nr. 263/2021: Finnbogi R. Jóhannesson gegn Litlu máli ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila samkvæmt reikningi vegna vinnu við parhús fyrir tímabilið 2. október 2018 til 15. febrúar 2019. Ágreiningurinn snýst einkum um hvort stofnast hafi samningssamband milli leyfisbeiðanda og gagnaðila eða hvort einkahlutafélag gagnaðila hafi verið aðili að samningnum við leyfisbeiðanda.

4. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda á grundvelli aðildarskorts en héraðsdómur hafði fallist á kröfur hans. Í dómi Landsréttar kom fram að gagnaðili hefði verið upphaflegur eigandi parhússins en selt það með kaupsamningum 29. júní og 30. júlí 2018 þegar það var enn í byggingu. Gagnaðili hefði leitað til leyfisbeiðanda um að vinna verkið og reisti leyfisbeiðandi kröfur sínar á því að með þeim hefði tekist samningur þar um. Gagnaðili byggði hins vegar á því að hann hefði komið fram fyrir hönd einkahlutafélagsins Tréhúss ehf., sem hefði verið viðsemjandi leyfisbeiðanda um verkið og gagnaðili því ekki verið réttur aðili málsins. Bú Tréhúss ehf. hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta 11. desember 2019 en reikningurinn sem leyfisbeiðandi gaf út og deilt er um í málinu var gefinn út 31. sama mánaðar. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að stofnast hefði samningssamband á milli leyfisbeiðanda og gagnaðila vegna verksins og að gögn málsins bentu til að Tréhús ehf. hefði verið viðsemjandi leyfisbeiðanda í umrætt sinn.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng. Leyfisbeiðandi telur Landsrétt þannig ranglega hafa snúið við dómi héraðsdóms og sýknað gagnaðila á þeirri forsendu að hann hafi ekki verið viðsemjandi leyfisbeiðanda heldur ógjaldfært einkahlutafélag hans. Leyfisbeiðandi byggir á því að gagnaðili hafi persónulega óskað eftir að leyfisbeiðandi myndi taka að sér vinnu fyrir sig og ekkert liggi fyrir um að leyfisbeiðandi hafi samþykkt að gagnaðili setti félag sitt í sinn stað. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins hvað aðild varðar hafi verulegt almennt gildi.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi samkvæmt 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.