Hæstiréttur íslands
Mál nr. 678/2008
Lykilorð
- Hlutafélag
- Umboð
|
|
Fimmtudaginn 24. september 2009. |
|
Nr. 678/2008. |
Soffanías Cecilsson hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Magnúsi Soffaníassyni (Ragnheiður M. Ólafsdóttir hrl.) |
Hlutafélög. Umboð.
M sem var hluthafi í félaginu S hf. krafðist þess fyrir dómi að ákvörðun stjórnar félagsins um að veita framkvæmdastjóra félagsins umboð til að skuldbinda félagið og umboðið sjálft, yrði ógilt með dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt umboðinu væri framkvæmdastjóra félagsins veitt heimild til að skuldbinda félagið með kaupum og sölu á viðskiptabréfum og til þess að taka lán í þeim tilgangi. Væri heimildin án nokkurra takmarkana og framkvæmdastjóranum einungis gert skylt að tilkynna stjórn eftir á um ráðstafanir sem gerðar væru samkvæmt henni. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög væri það hlutverk stjórnar hlutafélags að annast um skipulag þess og bæri hún ábyrgð á að starfsemi væri jafnan í réttu og góðu horfi. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins gæti stjórnin falið framkvæmdastjóra að annast daglegan rekstur félagsins og veitt honum umboð til að rita firma félagsins, sbr. 2. mgr. 74. gr. sömu laga. Sú heimild tæki þó ekki til ráðstafana sem væru „óvenjulegar eða mikils háttar“. Við mat á því hvað teldist til óvenjulegra eða mikils háttar ráðstafana í skilningi ákvæðisins bæri að taka mið af tilgangi félags, umfangi og efnahagsstöðu og yrði það mat ekki falið framkvæmdastjóra. Gæti stjórn hlutafélags samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum laganna ekki framselt vald sitt til að taka ákvarðanir um hvers kyns ótilgreindar ráðstafanir án tillits til þess hvort þær væru óvenjulegar eða mikils háttar og breytti þar engu þótt hluthafafundur samþykkti slíkt framsal. Var umboðið af þessum sökum ekki talið samræmast 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 og ákvörðun stjórnar S hf. og umboðið því dæmt ógilt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2008. Hann kefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málavextir og málsástæður eru raktar í hinum áfrýjaða dómi. Umboð það sem deilt er um í máli þessu er þar tekið upp í heild. Samkvæmt texta þess er framkvæmdastjóra áfrýjanda veitt heimild til að skuldbinda félagið með kaupum og sölu á viðskiptabréfum og til þess að taka lán í þeim tilgangi. Heimild þessi er án nokkurra takmarkana og er framkvæmdastjóranum einungis gert skylt að tilkynna stjórn eftir á um ráðstafanir sem gerðar eru samkvæmt henni. Stjórn hlutafélags hefur það hlutverk samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög að annast um skipulag félags og ber ábyrgð á að „starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi“. Stjórn getur falið framkvæmdastjóra að annast daglegan rekstur, sbr. 2. mgr. 68. gr. laganna og veitt honum umboð til að rita firma félagsins, sbr. 2. mgr. 74. gr. Þessi heimild nær þó ekki til ráðstafana sem eru „óvenjulegar eða mikils háttar“. Hvað í því felst tekur mið af tilgangi félags, umfangi og efnahagsstöðu og verður það mat ekki falið framkvæmdastjóra. Getur stjórn hlutafélags samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum laganna ekki framselt vald sitt til að taka ákvarðanir um hvers kyns ótilgreindar ráðstafanir án tillits til þess hvort þær séu óvenjulegar eða mikils háttar og breytir þar engu þótt hluthafafundur samþykki slíkt framsal. Af þessum sökum samræmist umboðið ekki 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995. Þegar af þessari ástæðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur, en málsástæða, sem áfrýjandi færði fyrst fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti um að framkvæmdastjóra hans hafi verið heimilar ráðstafanir, sem hið umdeilda umboð tók til, í skjóli prókúruumboðs síns fyrir félagið, fær ekki komist að í málinu, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Soffanías Cecilsson hf., greiði stefnda, Magnúsi Soffaníassyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 24. september 2008.
Mál þetta var höfðað 26. mars 2008 og dómtekið 3. september sama ár. Stefnandi er Magnús Soffaníasson, Hlíðarvegi 8 í Grundarfirði, en stefndi er Soffanías Cecilsson hf., Borgarbraut 1 í Grundarfirði.
Stefnandi gerir þá kröfu aðallega að ógilt verði sú ákvörðun stjórnar stefnda frá 5. desember 2007 að veita framkvæmdastjóra stefnda umboð til að skuldbinda félagið og að umboðið verði ógilt með dómi. Til vara er þess krafist að ógilt verði sú ákvörðun hluthafafundar stefnda 27. febrúar 2008 að hafna því að afturkalla umrætt umboð stjórnar stefnda til framkvæmdastjórans og að umboðið verði ógilt með dómi frá þeim tíma. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað.
I.
Stefnandi er eigandi að 30% af hlutafé í stefnda, en að öðru leyti er félagið í eigu ættingja og venslamanna stefnanda og félagsins sjálfs. Í stjórn félagsins eiga sæti Rúnar Magnússon, stjórnarformaður, og meðstjórnendurnir Sigurður Sigurbergsson og Sigríður Finsen, eiginkona stefnanda. Á liðnum árum hefur verið ágreiningur um starfsemi félagsins milli hluthafa og stjórnarmanna sem starfa í skjóli þeirra.
Samkvæmt samþykktum stefnda frá 25. október 2006 er tilgangur félagsins almenn atvinnustarfsemi, svo sem fiskverkun, útgerð, kaup og sala hlutabréfa, sem og annarra verðbréfa, heildsala, smásala, umboðssala, framleiðsla, rekstur fasteigna, lánastarfsemi, svo og nauðsynleg umsvif þessu tengt. Einnig segir í samþykktunum að tilgangur félagsins sé að reisa og reka almennar kaupleiguíbúðir.
Aðilar deila um hvernig starfsemi félagsins er hagað. Fullyrðir stefndi að á vegum félagsins hafi frá árinu 2000 verið rekinn sérstakur fjárfestingarsjóður sem hafi það hlutverk að kaupa og selja verðbréf. Stefnandi vefengir hins vegar tilvist sjóðsins og andmælir því að stefndi hafi sett sér fjárfestingarstefnu.
Á stjórnarfundi stefnda 5. desember 2007 var samþykkt með vísan til 2. mgr. 68. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, að veita framkvæmdastjóra félagsins umboð til þess að skuldbinda félagið með kaupum og sölu á verðbréfum og til lántöku í því skyni. Á fundinum greiddi Sigríður Finsen, eiginkona stefnanda atkvæði gegn því að veita framkvæmdastjóranum umboðið. Umboð þetta er svohljóðandi:
Stjórn Soffaníasar Cecilssonar hf., kt. 611292-2959, sem kjörin var á hluthafafundi félagsins þann 26. október 2006 veitir hér með Sigurði Sigurbergssyni framkvæmdastjóra félagsins, heimild til þess að skuldbinda félagið með kaupum og sölu á viðskiptabréfum s.s. hlutabréfum, vaxtaskipta- og afleiðusamningum, honum er einnig heimilt að taka lán fyrir framangreindum kaupum sem og ádráttarlán.
Heimild þessi er veitt framkvæmdastjóra þar sem ofangreind viðskipti þola sjaldnast bið, án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Framkvæmdastjóra ber að tilkynna félagsstjórn um ráðstafanir, sem gerðar hafa verið með vísun til heimildar þessarar.
Með bréfi 12. febrúar 2008 krafðist stefnandi þess að boðað yrði til hluthafafundar í félaginu. Var þess jafnframt krafist að fjallað yrði um ákvörðun stjórnar frá 5. desember 2007 um að veita framkvæmdastjóra umboð til að skuldbinda félagið og að tekin yrði til afgreiðslu tillaga um að afturkalla umboðið. Hinn 27. febrúar 2008 var haldinn hlutahafafundur hjá stefnda í samræmi við kröfu stefnanda. Eftir að fjallað hafði verið á fundinum um tillögu stefnanda um að afturkalla umboðið til framkvæmdastjórans voru greidd atkvæði um tillöguna og var hún felld. Var þá fært til bókar að stefnandi áskildi sér rétt til að fá umboðinu hnekkt fyrir dómi. Á fundinum var einnig fjallað um önnur málefni félagsins, þar á meðal fjárfestingar þess, viðskipti félagsins við hluthafa og stjórnarmenn og launakjör framkvæmdastjóra.
Að kröfu stefnanda með bréfi 18. mars 2008 var aftur boðað til hluthafafundar 9. apríl sama ár til að fjalla um ýmis málefni félagins án þess að það verði rakið hér í einstökum atriðum.
Aðalfundur stefnda var haldinn 16. apríl 2008. Á fundinum var borin upp svohljóðandi tillaga:
Aðalfundur Soffaníasar Cecilssonar hf. staðfestir hér með þá fjárfestingarstefnu félagsins sem fylgt hefur verið undanfarin ár af hálfu stjórnar félagsins. Jafnframt staðfestir aðalfundur félagsins gildi þess umboðs sem stjórn félagsins veitti framkvæmdastjóra þess á stjórnarfundi 5. desember 2007 til þess að skuldbinda félagið og framkvæma fjárfestingarstefnu félagsins. Telur fundurinn að umboðið sé nauðsynlegt til þess að brugðist sé skjótt við breytingum á fjármálamörkuðum.
Á fundinum var tillagan samþykkt með 60,28% atkvæða. Af hálfu stefnanda var greitt atkvæði gegn tillögunni.
II.
Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að umboðið til framkvæmdastjóra stefnda frá 5. desember 2007 fari bæði í bága við lög um hlutafélög, nr. 2/1995, og samþykktir stefnda þar sem umboðið sé of víðtækt. Af þessu leiði jafnframt að ákvörðun hluthafafundar stefnda 27. febrúar 2008 að hafna því að fella úr gildi umboðið, og þannig halda til streitu ólögmætu fyrirkomulagi á ákvarðanatöku innan félagsins, brjóti einnig gögn lögum og félagssamþykktum. Í samræmi við þetta sé þess krafist aðallega að ákvörðun stjórnar verði ógilt þannig að umboðið verði frá öndverðu fellt út gildi en til vara að ógilt verði ákvörðun hluthafafundar um að hafna því að afturkalla umboðið.
Stefnandi vísar til þess að stjórn stefnda hafi samkvæmt lögum og samþykktum æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda. Þannig fari stjórnin með málefni félagsins, móti stefnu þess, gæti hagsmuna út á við og taki afstöðu í öllum mikilvægum málum. Hlutverk stjórnarinnar sé því að annast um að skipulag og starfsemi félagsins sé jafnan í réttu og góðu horfi og að tryggja að eftirlit sé með starfsemi félagsins, þar með talið bókhald og meðferð fjármuna. Lögum samkvæmt hvíli ríkar skyldur á stjórnarmönnum að viðlagðri refsi- og skaðabótaábyrgð og þeim sé jafnhliða veittur réttur til að sinna þessum störfum. Þetta starf sitt verði stjórnarmenn að rækja persónulega og geti þeir ekki framselt vald sitt til annarra nema í mjög takmörkuðum mæli og skýrt afmarkað.
Stefnandi bendir á að hlutverk framkvæmdastjóra sé aftur á móti að annast daglegan rekstur félagsins og skuli hann í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið, sbr. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995. Þannig fylgi framkvæmdastjóri ákvörðunum stjórnar og í þeim efnum verði ekki höfð endaskipti þannig að framkvæmdastjóri taki ákvarðanir og tilkynni síðan stjórn um ráðstafanir sínar. Jafnframt taki daglegur rekstur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Til slíkra ráðstafana geti framkvæmdastjóri aðeins gripið samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn í hvert sinn, nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að megin starfsemi stefnda sé fólgin í útgerð og fiskverkun. Sú starfsemi sem lúti að fjárfestingum í verðbréfum snerti hins vegar fáeinar ráðstafanir þótt um mikla fjárhagslega hagsmuni geti verið að ræða. Að því gættu geti fráleitt verið um að ræða viðskipti sem ekki þoli bið meðan um þau sé fjallað í þriggja manna stjórn félagsins. Verði þá að hafa í huga að allir stjórnarmenn séu búsetti í litlu bæjarfélagi og engum vandkvæðum bundið að koma við fundi með skömmum fyrirvara.
Stefnandi bendir á að umboðið fari út fyrir þau verkefni sem samþykktir félagsins geri ráð fyrir að rúmist innan starfseminnar. Þannig sé í umboðinu gert ráð fyrir að heimildin taki við vaxtaskipta- og afleiðusamninga, en viðskipti með svo sérhæfða fjármálagerninga, sem teljist ekki til verðbréfa í skilningi laga, falli utan tilgangs með starfsemi félagsins.
III.
Stefndi heldur því fram að ákvörðun stjórnar stefnda 5. desember 2007 að veita framkvæmdastjóra félagsins umboð til að skuldbinda félagið sé fyllilega lögmæt og samrýmanleg rekstri stefnda. Tilgangur félagsins sé meðal annars að stunda kaup og sölu verðbréfa og í samræmi við það reki stefnandi digran fjárfestingarsjóð.
Í ljósi þess að bregðast þurfi skjótt við aðstæðum á verðbréfamörkuðum þar sem verð geti fallið hratt á hlutabréfum, gengi gjaldmiðla breyst eða kauptækifæri gefist í skamman tíma hafi stjórn félagsins og meirihluti hluthafa metið það svo að best þjónaði hagsmunum stefnda að framkvæmdastjóri félagsins hefði viðhlítandi umboð til að bregðast við aðstæðum. Að öðrum kosti geti félagið orðið fyrir tjóni ef ávallt þyrfti að kalla saman stjórn félagsins með þriggja daga fyrirvara í samræmi við starfsreglur stjórnar.
Stefndi heldur því fram að umboðið sé bæði í samræmi við samþykktir félagsins og 68. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995. Þá verði ekki hjá því litið að hluthafafundur hafi tvívegis staðfest ákvörðun stjórnar, fyrst 27. febrúar 2008 og síðan á aðalfundi 16. apríl sama ár, en í því felist að meirihluti hluthafa telji hag félagsins borgið með því að framkvæmdastjórinn hafi umboðið. Verði á hinn bóginn fallist á kröfur stefnanda væri honum sem eiganda minnihluta í félaginu játað vald til að ógilda ákvörðun stjórnar og hluthafafundar þannig að réttur hans gengi framar meirihluta hluthafa til að ráða málefnum félagsins. Fengi það með engu móti samrýmst samþykktum stefnda og 80. gr. laga nr. 2/1995 um að æðsta vald í málefnum stefnda sé hluthafafundur.
Stefndi telur fyllilega í samræmi við tilgang félagsins að fjárfesta í afleiðu- og vaxtaskiptasamningum, enda verði slíkir gerningar taldir til verðbréfa. Leggur stefndi áherslu á að hugtakið „verðbréf“ í samþykktum félagsins verði skilgreint í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.
IV.
Stefnandi er eigandi 30% hlutafjár í stefnda og hefur hann höfðað málið í því skyni að fá hnekkt umboði sem framkvæmdastjóra stefnda var upphaflega veitt með ákvörðun stjórnar stefnda 5. desember 2007. Samkvæmt umboðinu var framkvæmdastjóranum veitt heimild til að skuldbinda félagið með kaupum og sölu á viðskiptabréfum, svo sem hlutabréfum, vaxtaskipta- og afleiðusamningum. Jafnframt var framkvæmdastjóranum veitt heimild til að taka lán fyrir framangreindum kaupum sem og afdráttarlán.
Stefndi er hlutafélag en um þau gilda lög nr. 2/1995. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna fer félagsstjórn með málefni félagsins og skal annast um að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Fara félagsstjórn og framkvæmdastjóri með stjórn félagsins. Í gildandi samþykktum fyrir stefnda er vikið að stjórn félagsins en þar segir að stjórnin hafi æðsta vald í málefnum þess milli hluthafafunda. Einnig segir að stjórnin fari með málefni félagsins og gæti hagsmuna þess gagnvart þriðja aðila. Þá er tekið fram að stjórnin skuli annast um að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.
Um verkefni framkvæmdastjóra hlutafélags er fjallað í 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 en þar segir að hann skuli annast daglegan rekstur félagsins og skuli í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Tekur hinn daglegi rekstur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Getur framkvæmdastjóri aðeins gert slíkar ráðstafanir samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana félagsstjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Efnislega samhljóða ákvæði um verkefni framkvæmdastjóra er að finna í samþykktum stefnda.
Samkvæmt samþykktum stefnda er tilgangur félagsins meðal annars kaup og sala hlutabréfa sem og annarra verðbréfa. Í samræmi við þetta getur stjórn eða hluthafafundur vissulega veitt framkvæmdastjóra félagsins almennt umboð til kaupa og sölu á verðbréfum. Heimild stjórnar og hluthafafundar í þeim efnum getur þó ekki verið með öllu ótakmörkuð. Þá verður að gera þá kröfu að fjárfestingarstefna stjórnar sé því gleggri sem umboð af þessu tagi til framkvæmdastjóra er rýmra.
Það umboð sem framkvæmdastjóra stefnda var veitt með ákvörðun stjórnar 5. desember 2007 er ekki bundið neinum takmörkunum, hvorki hvað varðar fjárhæðir né hvað varðar viðskipti með fjármálagerninga. Þannig nær heimildin bæði til innlendra og erlendra verðbréfa og til fjármálagerninga án tillits til þess hvort þeir eru skráðir á verðbréfamarkaði. Þá er umboðið ekki takmarkað við viðskipti með eignir félagsins heldur er framkvæmdastjóranum heimilað að taka lán til fjárfestinga í verðbréfum. Loks er umboðið ekki bundið því að ráðstafanir á grundvelli þess séu í samræmi við fyrirfram mótaða fjárfestingarstefnu, enda liggur ekki fyrir í málinu að stefndi hafi yfir höfuð markað sér slíka stefnu. Af þessu leiðir að framkvæmdastjórinn getur í skjóli þessa almenna umboðs gripið til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar og ættu að réttu lagi undir stjórn eða eftir atvikum hluthafafund félagsins. Að þessu virtu verður umboðið talið fara í bága við fyrrgreind lagaákvæði um starfsskipulag hlutafélaga og breytir engu um gildi umboðsins þótt það hafi verið staðfest á hluthafafundi, fyrst 27. febrúar 2008 og síðan aftur á aðalfundi 16. apríl sama ár.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á aðalkröfu stefnanda um að ógilt verði ákvörðun stjórnar félagsins frá 5. desember 2007 um að veita framkvæmdastjóranum umboð til að skuldbinda félagið og að umboðið verði fellt úr gildi.
Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Viðurkennt er að ákvörðun stjórnar stefnda, Soffaníasar Cecilssonar hf., frá 5. desember 2007 um að veita framkvæmdastjóra félagsins umboð til að skuldbinda félagið hafi verið ógild og er umboðið fellt úr gildi.
Stefndi greiði stefnanda, Magnúsi Soffaníassyni, 600.000 krónur í málskostnað.