Hæstiréttur íslands
Mál nr. 256/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Útivist
- Endurupptaka
|
|
Mánudaginn 26. maí 2008. |
|
Nr. 256/2008. |
Viðskiptanetið hf. (Jón Gunnar Zoega hrl.) gegn Kristjáni Sigurði Sverrissyni (enginn) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Útivist. Endurupptaka.
V kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á endurupptöku máls sem V hafði höfðað gegn K og lauk með úrskurði að K fjarstöddum 18. mars 2008. Beiðni K um endurupptökuna barst 4. apríl 2008 og því innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu bar að fallast á kröfu K og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2008, þar sem fallist var á að taka upp á ný meðferð kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta, en hún hafði verið tekin til greina að undangenginni útivist varnaraðila með úrskurði 18. mars 2008. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um endurupptöku.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Beiðni varnaraðila um endurupptöku barst Héraðsdómi Reykjavíkur 4. apríl 2008 og því innan þeirra tímamarka, sem kveðið er á um í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, frá því að úrskurður um gjaldþrotaskipti var kveðinn upp. Ber þegar af þeirri ástæðu að fallast á kröfu varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2008.
Með úrskurði dómsins uppkveðnum 18. mars 2008, í málinu nr. G-24/2008: Viðskiptanetið hf. gegn Kristjáni Sigurði Sverrissyni, var bú Kristjáns Sigurðar Sverrissonar tekið til gjaldþrotaskipta. Með bréfi Vilhjálms Bers hdl. dags. 4. apríl 2008, sem barst dóminum sama dag, fór hann fram á að málið verði endurupptekið. Beiðnin var tekin fyrir á dómþingi 22. apríl 2008.
Í framangreindu bréfi lögmannsins kemur fram að Kristján Sigurður hafi ekki mætt til fyrirtöku málsins þann 5. mars sl. og haldið uppi vörnum vegna þess að hann hafi ekki haft vitneskju um fyrirtökuna. Boðunin hafi verið birt fyrir fyrrum eiginkonu hans á skráðu lögheimili hans. Hann búi þar hins vegar ekki lengur og hafi ekki gert um nokkurt skeið. Hann hafi ekki verið látinn vita um boðunina í tæka tíð.
Til rökstuðnings þess að krafa um gjaldþrotaskipti nái ekki fram að ganga verði einkum bent á tvö atriði. Í fyrsta lagi að dómi þeim sem gjaldþrotaskiptakrafa Viðskiptanetsins hf. byggist á hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Um sé að ræða dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-7770/2006. Réttaráhrifum dómsins hafi því verið frestað og geti hann þannig ekki orðið grundvöllur fyrir gjaldþrotaskiptum. Í öðru lagi sé ljóst að hið árangurslausa fjárnám sem gjaldþrotaskiptakrafan byggir á geti ekki orðið grundvöllur gjaldþrotaskipta á búi Kristjáns Sigurðar. Um sé að ræða árangurslaust fjárnám sem fram fór á lögheimili hans að honum fjarstöddum. Þar hittist fyrir áðurnefnd fyrrum sambýliskona hans og lýsti yfir eignaleysi hans. Ljóst sé að hún hafði ekki þá vitneskju um eignir hans eða umboð til þess að geta lýst yfir eignaleysi hans á þann hátt að það geti orðið grundvöllur gjaldþrotaskipta á búi hans.
Þegar útivist verður af hálfu skuldara við fyrirtöku kröfu um gjaldþrotaskipti á skuldari þann eina kost að æskja endurupptöku samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 176. gr. og lokamálslið 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl.
Eins og áður greinir var ekki sótt þing af hálfu Kristjáns Sigurðar Sverrissonar þegar krafa Viðskiptanetsins hf. um gjaldþrotaskipti á búi hans var tekin fyrir á dómþingi 5. mars sl. Í því þinghaldi hefði hann getað haft uppi mótmæli við kröfunni og hefðu málsástæður varðandi grundvöll gjaldþrotaskiptanna komist að í málinu og getað leitt til annarrar niðurstöðu en raunin varð með úrskurðinum 18. mars sl. Samkvæmt því, og þar sem krafa um endurupptöku er fram komin innan þess frests sem kveðið er á um í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991, þykja vera skilyrði til að verða við kröfu um endurupptöku málsins.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Mál nr. G-24/2008: Viðskiptanetið hf. gegn Kristjáni Sigurði Sverrissyni er endurupptekið.