Hæstiréttur íslands

Mál nr. 442/2002


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Sakarskipting
  • Kröfugerð


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. september 2003.

Nr. 442/2002.

Pétur Jónsson ehf.

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

gegn

Sigurði Þórssyni

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

og gagnsök

 

Sjómenn. Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Sakarskipting. Kröfugerð.

S slasaðist við vinnu sína um borð í togara P ehf. er hann var að hagræða neti meðan á hífingu stóð. Vinnubrögð þessi, sem voru viðtekin um borð, í þökk yfirmanna og samkvæmt skipunum þeirra, þóttu varasöm og beinlínis til þess fallin að bjóða hættunni heim. Þótti P ehf. því ekki geta firrt sig ábyrgð á því tjóni sem S varð fyrir. Á hinn bóginn þótti S, sem var reyndur sjómaður, eiga sjálfur nokkra sök á tjóni sínu með aðgæsluleysi við framkvæmd starfs síns. Þótti því rétt að skipta sök þannig að P ehf. bætti S tjón hans að tveimur þriðju hlutum en S bæri sjálfur þriðjung tjónsins vegna eigin sakar. Fyrir Hæstarétti krafðist P ehf. að greiðsla úr slysatryggingu, sem S hafði móttekið, kæmi til lækkunar bótakröfu hans. Gegn mótmælum S var krafan of seint fram borin og kom því ekki til álita.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. september 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst aðaláfrýjandi að dæmdar bætur verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 17. janúar 2003. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 2.702.829 krónur með 2% ársvöxtum frá 1. júní 1998 til 28. júní 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Fyrir Hæstarétti krefst aðaláfrýjandi þess sérstaklega að 181.190 krónur, sem Sjóvá-Almennar tryggingar hf. greiddu gagnáfrýjanda úr slysatryggingu sjómanna, komi til lækkunar bótakröfu hans. Gegn mótmælum gagnáfrýjanda er krafan of seint fram borin og kemur því ekki til álita.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Pétur Jónsson ehf., greiði gagnáfrýjanda, Sigurði Þórssyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2002.

    Mál þetta, sem dómtekið var í dag, var höfðað 9. nóvember 2000.

    Stefnandi er Sigurður Þórsson, Kjarrmóa 9, Njarðvík.

    Stefndi er Pétur Jónsson ehf., Dalvegi 26, Kópavogi.

    Réttargæslustefndi er Sjóvá- Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

I.

    Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.702.829 krónur með 2 % ársvöxtum frá 1. júní 1998 til 28. júní 2000 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins ásamt virðisaukaskatti.                                

    Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnenda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað að skaðlausu, en til vara að dómkröfur verði lækkaðar og hvor aðila látinn bera sinn kostnað af málinu.

    Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar, enda engar kröfur gerðar í málinu á hendur honum.

    Dómarar gengu á vettvang um borð í Pétri Jónssyni Re-69 fyrir upphaf aðalmeðferðar ásamt stefnanda, fyrirsvarsmanni stefnda og lögmönnum aðila.

II.

 

Helstu málavextir eru þeir, að þann 1. júní 1998 var fiskiskipið  Pétur Jónsson Re-69 við rækjuveiðar á flæmska hattinum. Stefnandi var við vinnu sína aftur á þilfari  fram undir bátapalli og með honum við verkið var Stefán Hallgrímsson, sem var staddur við skut skipsins. Búið var að toga bæði trollin inn þannig að lengjurnar voru komnar inn á dekk og einnig var búið að slá stroffu utan um belginn, sem síðan átti að hífa. Híft var í trollið með gils, þannig að netið dróst inn á dekkið. Á meðan slaknar á fremri hluta belgsins, þar til aftur strekkist á honum og þá er tekin næsta færa. Á meðan á hífingu stóð mun stefnandi hafa staðið við slaka hluta trollsins og verið að hagræða netinu (belgnum), þannig að það festist ekki í bobbingjalengjunni. Stefnandi mun ennþá hafa verið með hendur á trollinu, þegar á því strekktist á ný í hífingunni. Stefnandi gaf engin merki um að stöðva hífingu, þar sem hann væri að hagræða trollinu. Þar sem stefnandi var með hendur á netinu varð það slys að vísifingur hægri handar hans klemmdist í netmöskva og skarst illa. Að sárum hans var gert með því að sauma fingurgóminn á fremstu kjúku. Stefnandi var óvinnufær það sem eftir var veiðiferðarinnar og komst fyrst undir læknishendur þegar veiðitúrnum lauk þann 9. júní. Stefnandi, sem sé vanur sjómaður, hafi verið að hagræða netinu í trollinu bakborðsmegin meðan slakinn kom, en skyndilega hafi verið togað mjög hratt í trollið með þeim afleiðingum að á netinu hertist, án þess að honum gæfist ráðrúm til að losa sig að fullu. Hann hafi þó náð baugfingri og löngutöng út úr netinu sem hins vegar hafi herst um vísifingur þannig að vinnuvettlingur skarst í sundur og stefnandi tókst á loft.

Í máli þessu er ekki ágreiningur um fjárhæðir eða bótaútreikning, en á hinn bóginn er ágreiningur um bótaábyrgð stefnda.

 Í skipsdagbók er eftirfarandi bókað um slysið og meðhöndlun sárs: „1/6 mánudag...Kl. 0600 er verið var að hífa í höfuðlínu var Sigurður Þórsson með fingur inni í netinu og skarst á fremstu kjúku djúpt. Saumuð 4 spor og búið um á besta máta. Gefið penicilin. 3/6. miðv.d...............Skipt um umbúðir hjá Sigurði Þórssyni. sár leit vel út.”

Sigurjón Sigurðsson læknir framkvæmdi örorkumat vegna meiðsla stefnanda. Er það dagsett 18. mars 1999.  Mat læknisins samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 var eftirfarandi:

Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein telst fjórir mánuðir.

Þjáningabætur skv. 3. grein telst sjö mánuðir, þar af ekkert rúmliggjandi.

Varanlegur miski skv. 4. grein telst hæfilega metinn 5% (fimm af hundraði)

Varanleg örorka skv. 5. gr. telst hæfilega metin 5% (fimm af hundraði).

III.

Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kvaðst hafa verið við störf í rennu aftur á skipinu og hefði m. a. verið í hans verkahring að lyfta neti upp er á það kæmi slaki í hífingu svo það festist ekki og rifnaði. Er fyrsta færa var hífð hefði hann fest í netinu og dregist með því. Hann hefði verið að vinna hefðbundið verk og hefði aldrei verið venja að stöðva hífingu meðan netinu var lyft upp. Hann kvaðst hafa fundið er fingur hans festist í netmöskva og hann dróst með. Eftir þetta slys hefði vinnubrögðum verið breytt og væri nú ekki lengur lyft undir netið meðan híft væri. Nú væri betur fylgst með þessu, t. d. af þeim sem væru aftast í skutrennunni.

Vitnið Erling Óskarsson var 2. stýrimaður í þessari veiðiferð og stjórnaði hann hífingu á veiðarfærum úr brú er slysið varð. Vitnið kvað veður hafa verið óvenju gott og því híft hraðar en ella.  Búið hafi verið að taka fyrsta hluta veiðarfæra inn, þ.e. hlera og bobbingjalengjur og byrjað að hífa í belg, þ. e. fyrstu færu. Stefnandi hafi verið niðri á dekki og hafi hann átt að gæta þess að netið festist ekki í bobbingjalengjunni. Stefnandi hafi ekki verið í sjónmáli við þá í brúnni. Vitnið kvað tvo menn hafa verið aftast á dekkinu sem hafi átt að gefa merki um hífingu. Þeir hafi snúið frá stefnanda sem hafi verið að sinna sínu skyldustarfi og því ekki fylgst nægilega vel með honum. Vitnið kvað fingur ósjálfrátt rata inn í netmöskva þegar á neti þurfi að taka.

Vitnið Brynjar Eyvindsson var háseti í umræddri veiðiferð. Hann kvaðst hafa verið á gilsinum á efra þilfari og séð slysið vel. Stefnandi hafi átt að lyfta netinu upp fyrir “bússið.” Það hefðu verið skýr fyrirmæli ofan úr brú og viðtekin vinnubrögð. Áhöfnin hefði fengið leiðbeiningar um að lyfta netinu upp á þennan hátt svo það rifnaði ekki. Mennirnir aftast á dekkinu hafi átt að gefa merki um hífingar. Vitnið kvað vinnubrögðum hafa verið breytt eftir þetta slys og menn beðnir að vera ekki með hendur á netinu í hífingu. Karlinn í brúnni hefði spurt hvern andskotann menn væru að þvælast með puttana í netinu. Vitnið kvað fyrstu færu hafa verið í gangi er slysið varð. Hann kvað menn hafa þurft að hlaupa fram ef net fór undir og lyfta því enda þótt hífing væri í gangi, en netið hefði átt það til að dragast undir “bússið” og festast.

    Vitnið Jóhannes Guðmundsson var ásamt öðrum skipverja aftast á skipinu er slysið varð. Þeir hefðu verið að fylgjast með og gefa bendingar. Vitnið kvað netið hafa átt það til að festast í bobbingjalengjum og rifna. Stefnandi hafi átt að koma í veg fyrir það. Híft hafi verið, þeir heyrt öskur, en ekki áttað sig á því fyrr en of seint hvað var að gerast. Vitnið kvað það hafa verið hefðbundin vinnubrögð um borð að handleika netið meðan á hífingu stóð. Það hefði þurft að gera. Ekki hefði verið venja að stöðva hífingu á meðan. Vitnið kvað þá öftustu á dekkinu ekki hafa áttað sig á því hvað var að ske, ella hefði mátt gefa merki um að stöðva hífinguna fyrr. Vitnið kvað menn nú sjá að þetta voru stórhættuleg vinnubrögð og í dag sé bannað að gera þetta svona, sem menn urðu að gera áður. Vitnið kvað stefnanda tvímælalaust hafa verið að vinna þá vinnu sem til var ætlast af honum á þessum tíma. Þau vinnubrögð hefðu verið samkvæmt skipunum ofan úr brú. Þaðan hefðu einnig komið fyrirmæli um breytt vinnubrögð eftir slysið.

    Vitnið Stefán Hallgrímsson var netamaður á dekki er slysið varð. Þar hafi hann stýrt verkum og sagt mönnum hvað þeir ættu að gera. Vitnið kvaðst hafa heyrt stefnanda hrópa og hefði vitnið þá gefið merki um að stöðva hífingu. Það taki alltaf einhverjar sekúndur. Vitnið kvað stefnanda hafa verið að vinna þau störf sem honum var sagt að vinna en ekki þurfti alltaf að vinna. Kvaðst vitnið hafa metið það hverju sinni hvort þörf var á þessari vinnu. Þetta hefði verið hefðbundin vinna og nokkuð algeng með því trolli sem um borð var. Vitnið kvað þetta ekki hafa verið neitt óeðlileg vinnubrögð. Eftir slysið hefði verið reynt að komast hjá þessum vinnubrögðum og hífing þá stundum stöðvuð. Vitnið kvað ekkert óeðlilegt hafa verið við hífinguna umrætt sinn en þeir sem voru aftur á skipi hafi kannski verið heldur seinir að bregðast við. Vitnið kvað stefnanda ekki hafa getað annað en hagrætt trolli meðan híft var. Ekki hafi verið hægt að gera það eftir á. Stefnandi hafi einfaldlega verið að inna þau störf af hendi sem til var ætlast af honum og vitnið bað hann að vinna. Stefnandi hafi einfaldlega ekki getað hagrætt netinu nema meðan það var híft. Vitnið kvað stefnanda hugsanlega ekki hafa áttað sig á því að svona fljótt myndi strekkjast á netinu.

    Vitnið Haukur Eiðsson  var uppi í brú sem yfirstýrimaður er slysið varð. Illa hefði sést á þann stað þar sem stefnandi var. Vitnið kvað stefnanda hafa verið gera það sem hann hafi verið beðinn um að gera bæði af vitninu og skipstjóra. Þetta hefðu verið viðtekin vinnubrögð. Stefnandi hafi ekki verið að gera neitt sem hann átti ekki að gera. Um þetta hafi allir verið meðvitaðir. Vitnið kvað sár stefnanda hafa verið ljótt og hefði verið spurning hvort ekki hefði átt að koma honum fyrr undir læknishendur. Skipstjórinn hefði ákveðið að sigla ekki í land. Vitnið kvað fingur stefnanda hafa lent í möskvum netsins fyrir slysni. Þetta hafi verið slys.

    Pétur Stefánsson skipstjóri og útgerðarmaður skipsins gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Hann var á frívakt er slysið varð. Hann kvað engum vinnubrögðum hafa verið breytt eftir slysið enda hafi aldrei verið lagt fyrir stefnanda að vera með fingur inni í neti. Hann kvað engan eiga að hífa nema bending komi frá dekki og ef net festist þá eigi að stöðva hífingu. Stefnandi hefði ekki átt að fara svona að. Hann hefði átt að óska eftir því að hífing væri stöðvuð ef ástæða þætti til, t.d. ef hætta væri á að belgur rifnaði. Hann kvað vinnubrögðin hafa verið óbreytt áfram eftir slys, sem hafi sýnt mönnum hvað geti skeð ef svona sé gert. Hann kannaðist ekki við að hafa sagt mönnum nákvæmlega hvernig ætti að gera þetta, en menn hafi þó verið varaðir við afleiðingunum. Stöðva hefði átt hífinguna og það hefði stefnandi átt að biðja um. Stefnandi hafi ekki viðhaft hefðbundin vinnubrögð er slys varð. Honum hafi verið sagt að gera þetta ekki svona. Hann kvað það hafa verið ákvörðun sína sem skipstjóra að halda veiðum áfram þrátt fyrir slys. Vel hafi verið búið um sár og ekkert illt komið í það. Han kvað það fara eftir veðurfari hve hratt sé híft. Hraðar sé híft ef veður sé gott.

III.

    Af hálfu stefnanda eru dómkröfur á því byggðar, að vinnuslys hans megi rekja til mistaka yfirmanna stefndu við hífingu, aðgæsluleysis annarra starfsmanna, búnaðar skipsins og þess að skipstjóri ákvað að koma honum ekki strax undir læknishendur.

    Orsök slyssins megi í fyrsta lagi rekja til þess að spilstjórnandi hafi af vangá eða af misskilningi híft í rollið áður en stefnandi hafði lokið að færa netið frá svo það drægist ekki upp á bobbingjalengjuna og rifnaði þar eins og oft hafði gerst áður um borð í skipinu og valdið nokkru tjóni. Merki um hífingu hafi verið gefið of snemma. spilstjórnanda hafi borið að fullvissa sig um að ekki skapaðist hætta þegar hann byrjaði að draga trollið inn sérstaklega þar sem hann mátti vita um þá venju sem hafði skapast um borð í skipinu að lagfæra netið vegna hættunnar á því að það myndi rifna og fyrirmæla skipsstjórnanda sem sérstaklega hafði lagt áherslu á að netið rifnaði ekki.

Fram hafi komið hjá skipverjum í skýrslum þeirra hjá lögreglu, m. a. í framburði Jóhannesar G. Guðmundssonar, að þessi venja væri viðhöfð í þeim tilgangi að netið myndi ekki rifna. Nú liggi fyrir að þessi venja hafi verið aflögð eftir að slys þetta átti sér stað og sé spilmaðurinn nú látinn slaka á gilsvírunum ef fyrir liggi að netið sé að festast í bobbingjalengjunni. Breytt venja um borð í skipi gefi vísbendingar í þá átt að skipstjórnendur hafi talið að mikil slysahætta væri fólgin í því að lagfæra netið með þeim hætti sem stefnandi gerði, en með þessari breyttu hegðunarvenju megi vera ljóst að eldri venja hafi falið í sér ógætileg vinnubrögð sem leiddu af sér gáleysislega hegðun sem aftur gat leitt af sér bótaábyrgð fyrir þann sem naut hagræðis af venjunni.

Stefnandi telur gáleysisleg vinnubrögð hafa verið viðhöfð og því beri stefndi bótaábyrgð á gáleysi starfsmanna sinna sem hefðu átt að sinna starfi sínu af meiri varkárni vegna þess sérstaka starfa sem stefnandi hafði í umrætt sinn til hagsbóta fyrir stefnda.

Í öðru lagi sé umrætt slys tilkomið vegna samskiptaleysis milli manna á dekki og í brú og telji stefnandi það standa stefnda nær að búa svo um hnútana að ábyggilegt samskiptakerfi sé til staðar til þess að hægt sé að stjórna hífingu með nægilegri varkárni. Þá teljist það til vanbúnaðar skips að sá starfsmaður sem stjórnaði hífingu í umrætt sinn hafi ekki getað séð alla starfsmenn sem unnu við að taka trollið inn, en stefnandi hafi verið í svokölluðum dauðapunkti. Þannig hafi hvorki skipstjóri né hífingamaður séð stefnanda við vinnu sína sem hljóti að teljast meðorsök slyssins. Hafi komið fram hjá skipstjórnanda Hauki Eiðssyni og hífingamanni Erlingi Arnari Óskarssyni, sem stóðu vaktina í brúnni þegar slysið varð, að hífingamaður hafi með engu móti getað séð yfir allt vinnusvæðið og því ekki getað brugðis við slysinu.

Í þriðja lagi liggi fyrir að skipverjar hafi verið einum færri og hafi því verið enn ríkari ástæða fyrir spilstjórnanda að fara varlega og sýna aðgæslu við hífingu á trollinu. Hugsanlega hefði verið unnt að komast hjá slysinu ef dekkið hefði verið fullmannað. Því fylgi mikil ábyrgð að stjórna hífingu á trolli og verði að gera enn ríkari kröfur um fyllstu aðgæslu þegar færri eru á dekki en ella.

Þá liggi fyrir að skipstjórinn ákvað að koma stefnanda ekki strax undir læknishendur, heldur hafi verið ákveðið að halda veiðum áfram og klára veiðiferðina áður en siglt var í land þann 9. júní 1998. Slíkt ábyrgðarleysi stjórnandans hafi valdið því að afleiðingar slyssins urðu meiri heldur en orðið hefði, ef stefnandi hefði komist strax undir læknishendur.

Þá hafi rannsókn slyssins verið ábótavant þar sem ekkert hafi orðið af boðuðum sjóprófum. Af því verði stefndi að bera hallann.

 

Kröfu sína byggir stefnandi á örorkumati Sigurjóns Sigurðssonar læknis, dagsettu 18. mars 1999 og skaðabótalögum nr. 50/1993, en samkvæmt niðurstöðu matsins sé varanleg örorka stefnanda metin 5% en varanlegur miski 5%.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig:

1.    Þjáninga- og miskabætur

Veikur í 210 daga, kr. 700                                                         kr.            147.000

Verðbætur á fjárhæðir 3917/3282                                           kr.              28.441

Vextir skv. 16. gr.                                                                      kr.                7.341

 

2.     Varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaga

5% varanlegur miskix 4.000.000                                              kr.            200.000

Verðbætur á fjárhæðir 3917/3282                                           kr.              38.696

Vextir skv. 16. gr.                                                                      kr.               9.988

 

3.     Varanleg örorka

Heildartekjur kr. 4.500.000- skv. 3. mgr. 7. gr.

x 10 x 5% varanleg örorka                                                      

Lífeyrisframlag vinnuveitanda 6 %

Verðbætur 3917/3627

4.500.000x106%=4.770.000x3917/3627x10x5%      kr.    2.575.695

Frádráttur vegna aldurs 16%                                                  kr.            412.111

vextir skv. 16. gr. fr+á slysadegi til 28.6.2000       kr.            107.779

 

                                                      Samtals                               kr.    2.702.829

 

                                                                Stefnandi byggir kröfur sínar á grundvelli reglna skaðabótaréttarins bæði á grundvelli sakarreglunnar, að því er varðar vanbúnað skipsins, og á grundvelli reglna um húsbóndaábyrgð, sbr. einkum reglu sjóréttarins um ábyrgð útgerðarmanns á tjóni, sem beinlínis má rekja til vanrækslu í starfi skipstjóra eða skipshafnar, sbr. 171. gr. siglingalaga nr. 34/1985.

IV.

Af hálfu stefnda er lögð áhersla á það, að stefnandi telji að slysið verði einvörðungu rakið til saknæms gáleysis hjá starfsmönnum stefnda eða vanbúnaðar af hans hálfu og beri hann því skaðabótaábyrgð á slysinu. Sem svar við þessu er á því byggt af hálfu stefnda, að trollið hafi verið tekið inn á hefðbundinn máta. Vinnuaðferðin við hífinguna hafi einnig verið eins og alltaf sé að henni staðið. Verkið hafi því verið unnið á þann máta sem stefnandi hafi þekkt til hlítar enda reyndur sjómaður. Honum hafi því mátt vera ljóst að af því skapaðist veruleg slysahætta að hafa hendur á netinu meðan á hífingu stóð. Honum hafi borið að gera viðvart ef hann taldi það nauðsynlegt við þessar kringumstæður. Það hafi hann aldrei gert. Telji stefndi því að slysið verði eingöngu rakið til eigin gáleysis stefnanda sem hann beri einn ábyrgð á. Því beri að taka aðalkröfu stsfnda um sýknu til greina.

    Sérstaklega sé mótmælt fullyrðingu í stefnu um að slysið verði rakið til vanbúnaðar skips enda sé hún á engum rökum reist.

    Þá sé því einnig mótmælt að tjónið verði rakið til mistaka starfsmanna stefnda við hífingu og/eða samskiptaleysis hjá þeim. Við verk sem þetta hafi hver starfsmaður sitt hlutverk og kunni það til hlítar enda allir reyndir sjómenn. Óþarft eigi að vera fyrir hífingamann eða aðra að kanna sérstaklega hvort einhver sé með hendur á trollinu meðan á hífingu stendur. Svo sjálfsagt sé það að menn fari frá á meðan, að enginn við spilstjórnun megi gera ráð fyrir því. Verði því ekki séð að slysið verði að neinu leyti rakið til gáleysis af hálfu starfsmanna stefnda.

    Af hálfu stefnda er því haldið fram að sú gerð af neti sem var notuð þegar slysið varð hafi verið í notkun á skipinu síðan í nóvember 1997. Hafi stefnanda því verið vel kunnugt um gerð þess og eiginleika. Þá hafi nægur mannskapur verið við verkið og sé því mótmælt að slysið verði rakið til mannfægðar. Þá hafi verið gert að sárum stefnanda strax eftir slysið eftir efnum og aðstæðum. Sé ósannað með öllu að ástand hans í dag verði að einhveju leyti rakið til þess að hann komst fyrst undir læknishendur að lokinni veiðiferð.

    Varakröfu sína byggir stefnd á því að slysið verði a.m.k. að hluta rakið til gáleysis stefnanda sjálfs.

 

V.

    Þrátt fyrir framburð Péturs Jónssonar skipstjóra þykir sannað með samhljóða framburði þeirra skipverja sem fyrir dóminn komu sem vitni, að vinnubrögð sem stefnandi viðhafði umrætt sinn, að hagræða neti meðan á hífingu stóð, voru viðtekin um borð, í þökk yfirmanna og samkvæmt skipunum þeirra. Var það samhljóða framburður vitnanna að stefnandi hafi verið að vinna nákvæmlega þá vinnu sem ætlast var til af honum og á þann hátt sem tíðkast hafði um borð. Að mati hinna sérfróðu meðdómsmanna voru þessi vinnubrögð varasöm og beinlínis til þess fallin að bjóða hættunni heim eins og kom á daginn í tilfelli stefnanda. Þótt stefnandi hafi verið og sé reyndur sjómaður þá var hann undirmaður og vann það sem fyrir hann var lagt að gera. Að mati dómsins var það röng ákvörðun skipstjórnenda á skipinu, byggð á röngu mati að fyrirskipa og láta viðgangast að menn viðhefðu þessi vinnubrögð að handleika net í hífingu sem gat strekkst í einu vetfangi. Þykir stefndi því ekki geta fyrrt sig allri ábyrgð á því tjóni er stefnandi varð fyrir. Á hinn bóginn þykir sefnandi, sem er reyndur sjómaður, eiga sjálfur nokkra sök á tjóni sínu með aðgæsluleysi við framkvæmd starfs síns. Þykir því eftir atvikum rétt að skipta sök í máli þessu þannig að stefndi bæti stefnanda tjón hans að tveimur þriðju hlutum en stefnandi beri sjálfur einnþriðja tjóns síns vegna eigin sakar.

    Ágreiningslaust er í málinu að tjón stefnanda nemur 2.702.829 krónum. Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða tjónið að tveimur þriðju hlutum, eða 1.801.886 ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir.

    Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að grreiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

    Dóm þennan kveða upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Jón Þór Bjarnason og Pálmi Hlöðversson, stýrimannaskólakennarar.

D Ó M S O R Ð

    Stefndi, Pétur Jónsson ehf., greiði stefnanda, Sigurði Þórssyni, 1.801.886 krónur ásamt 2% ársvöxtum frá 1. júní 1998 til 28. júní 2000, dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 450.000 krónur í málskostnað.