Hæstiréttur íslands

Mál nr. 548/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                        

 

Miðvikudaginn 31. október 2007.

Nr. 548/2007.

Elín ÞH 82 ehf.

(Jón Jónsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var frávísunarúrskurður héraðsdóms þar sem málatilbúnaður E samrýmdist ekki d., e., og  f. liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

 

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður og kærumálskostnaður verði látinn niður falla.

Sóknaraðili reifar málsástæður sínar í löngu máli, en málatilbúnaður hans er ekki svo skýr og glöggur að ljóst sé í hverju hin ætlaða mismunun á að hafa falist eða á grundvelli hvaða réttarreglna hann reisir bótakröfu sína. Samræmist málatilbúnaður sóknaraðila því ekki d., e. og f. liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Elín ÞH 82 ehf., greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

       

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2007.

Mál þetta höfðaði Elín ÞH 82 ehf., kt. 281061-2329, Höfðagötu 8, Grenivík, með stefnu birtri 20. febrúar 2007 á hendur íslenska ríkinu, kt. 540269-6459, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík, en fjármálaráðherra er stefnt fyrir þess hönd.  Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 10. september sl. 

Efniskrafa stefnanda í málinu er aðallega sú að viðurkennd verði bótaábyrgð stefnda á tjóni stefnanda vegna setningar laga nr. 1/1999 og 9/1999 og framkvæmdar stjórnvalda á lögunum.  Til vara krefst hann þess að viðurkennd verði bótaábyrgð stefnda á tjóni stefnanda vegna setningar laga nr. 93/2000, 129/2001, 3/2002 og 74/2004 og/eða aðgerðarleysis stjórnvalda við framkvæmd laga nr. 1/1999 og 9/1999.  Í þessum þætti krefst hann þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað.  Þá krefst hann sérstaklega málskostnaðar vegna þessa þáttar. 

Stefndi krefst eins og áður er fram komið frávísunar málsins.  Þá krefst hann málskostnaðar.  Til vara krefst stefndi þess að málskostnaðarákvörðun bíði efnisdóms í málinu.

Í stefnu segir að stefnandi sé einkahlutafélag í eigu Þórðar Ólafssonar.  Það hafi verið stofnað um áramótin 2005/2006 þannig að einkarekstur Þórðar Ólafssonar var gerður að einkahlutafélagi.  Félagið hafi tekið við öllum réttindum og skyldum sem fylgdu einkarekstri Þórðar. 

Þórður hóf útgerð er hann keypti bát í febrúar 1993.  Hann hefur tvisvar keypt nýjan bát fyrir eldri, en bátar hans þrír hafa allir borið nafnið Elín og haft umdæmis­númer ÞH-82.  Verður ekki greint á milli þessara þriggja báta sérstaklega í úrskurði þessum þar sem réttindi voru í bæði skiptin flutt á hinn nýja bát.  Við val milli veiði­aðferða samkvæmt lögum nr. 105/1996 ákvað stefnandi að veiða hvort tveggja með línu og handfærum.  Þetta sóknarkerfi var lagt niður 15. apríl 1999.  Var Elín ÞH þá flutt í þorskaflahámarkskerfi.  Við gildistöku laga nr. 129/2001 var báturinn síðan fluttur í svonefnt krókaaflamarkskerfi.  Veiðir stefnandi eftir því kerfi í dag. 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að ríkið sé bótaskylt vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir við að lagasetning hafi brotið gegn stjórnarskrárbundnum réttindum hans.  Sama gildi þegar völd hafi ekki framfylgt lögum með þeim afleiðingum að bein áhrif þeirrar framkvæmdar hafi leitt til tjóns.  Telur hann bótaábyrgð byggjast bæði á sakarreglunni og hlutlægum sjónarmiðum um skyldu löggjafans og stjórnvalda til að virða eignar­réttar-, jafnræðis- og atvinnuréttarákvæði stjórnarskrárinnar og skyldu til að tryggja að einstaklingar og lögaðilar njóti þeirra. 

Aðalkrafa.

Stefnandi telur að með 3. gr. laga nr. 87/1994 um breytingu á 4. ml. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 38/1990 hafi verið komið á fót banndagakerfi við stýringu fiskveiða smá­báta.  Hafi stjórnin byggt á tveimur kerfum, banndagakerfi og aflahlutdeildarkerfi, sem hafi verið jafn rétthá.  Stefnandi hafi verið í banndagakerfinu og því ekki fengið úthlutað aflahlutdeild.  Telur stefnandi sig á grundvelli þessa kerfis hafa haft rétt til að veiða eins mikið og hann vildi innan ramma kerfisins. 

Stefnandi telur sig hafa haldið þessum rétti eftir gildistöku laga nr. 83/1995.  Hann hafi þá kosið að veiða í viðbótarbanndagakerfi.  Telur hann að lög nr. 83/1995 hafi ekki falið í sér úthlutun þorskaflahámarks eða þorskaflahlutdeildar á bát hans.  Viðmið um sameiginlegan heildarafla verði ekki jafnað til úthlutunar hlutdeildar á einstaka báta.  Stefnandi kveðst hafa verið í sérstöku kerfi samkvæmt lögum nr. 83/1995, viðbótarbanndagakerfi, sem ekki hafi verið réttlægra eða háð aflahlutdeildar­kerfinu samkvæmt þágildandi lögum.  Sama telur stefnandi að gildi um stöðu sína samkvæmt lögum nr. 105/1996. 

Stefnandi segir að með lögum nr. 1/1999 og síðan lögum nr. 9/1999 hafi sér og öðrum útgerðarmönnum smábáta í viðbótarbanndagakerfinu verið gert að velja á milli tveggja leiða.  Að veiða í tiltekinn dagafjölda án heildartakmörkunar á afla, eða að veiða í nokkru fleiri daga, en með með ákveðnu þorskaflahámarki. 

Stefnandi kveðst hafa gert sérstakan fyrirvara við löggjöfina.  Vegna afstöðu sinnar hafi sér verið úthlutað aflahlutdeild samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 1/1999.  Telur stefnandi að úthlutunarregla 3. mgr. þessa ákvæðis hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og atvinnufrelsisákvæði 75. gr.  Vísar stefnandi hér einnig til 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 1. gr. 12. samnings­viðauka við hann. 

Stefnandi segir að hann hafi verið í sambærilegri stöðu og eigendur smábáta sem völdu að fá úthlutað þorskaflahámarki 1995 og síðar eigendur smábáta sem fengu úthlutað þorskaflahlutdeild 2004.  Staða sín sé einnig sambærileg við önnur tilvik þar sem úthutað hafi verið aflahlutdeild í fyrsta skipti á báta eða skip samkvæmt lögum eða stjórnvaldsákvörðun.  Brot á jafnræðisreglunni felist m.a. í því að við úthlutun samkvæmt lögum nr. 1/1999 og 9/1999 hafi í raun verið byggt á að hlutdeild sem kæmi til skipta réðist af 7-8 ára veiðireynslu.  Stefnandi segir þetta leiða af 3. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laganna í þá hlutdeild sem smábátum var ákveðin með lögum 97/1995, þ.e. fiskveiðiárin 1991/1992 og 1992/1993.  Aldrei fyrr hafi verið byggt á því að hlutdeild réðist af svo gömlum viðmiðum um hlutdeild, sem hafi haft óvenju þung áhrif á möguleika stefnanda til að stunda atvinnu sína, þ.e. hann mátti einungis veiða um þriðjung af þeim þorskafla sem hann veiddi síðustu 2 fiskveiðiár.  Breyti það engu þótt við þessa hlutdeild hafi verið bætt 95 tonnum vegna úthlutunar til báta sem stunduðu handfæra- og línuveiðar. 

Stefnandi telur að engin lögmæt markmið réttlæti mismunun þá sem stefnandi og 9 aðrir línu- og handfærabátar hafi orðið fyrir gagnvart öðrum bátum sem fengu úthlutað hlutdeild í heildarafla þorsks í fyrsta sinn.  Stefnandi segir að það hafi ekki þjónað þeim tilgangi að vernda fiskistofna við landið að úthluta til sín þorskafla­hámarkshlutdeild á árinu 1999 miðað við hver hlutdeild smábátaflotans var í þorsk­veiðum fiskveiðiárin 1991/92 og 1992/93.  Hér hafi átt að miða við hlutdeild bátanna sem voru í viðbótarbanndagakerfinu.  Með þessu hafi löggjafinn mismunað stefnanda, byggt á því að aflahlutdeildarkerfið væri rétthærra en viðbótarbanndagakerfið.  Sjónarmið um að raska ekki stöðu þeirra sem áður höfðu fengið út­hlutað aflahlutdeild í þorski hafi þannig verið látin leiða til þess að ákvæði stjórnarskrár um jafnræði og atvinnufrelsi hafi verið fyrir borð borin.  Það sjónarmið verði ekki réttlætt á grundvelli stjórnarskrárinnar. 

Stefnandi bendir á að við úthlutun þorskaflahlutdeildar árið 2004 til þeirra smábáta sem þá voru í sóknardagakerfi hafi hlutdeild þeirra verið reiknuð upp miðað við nýliðin fiskveiðiár.  Þar með hafi minnkað hlutdeild þeirra sem áður höfðu fengið úthlutun.  Stefnandi kveðst hér einungis byggja á því að sá mælikvarði sem lagður var til grundvallar við úthlutun til sín hafi verið ómálefnalegur og íþyngjandi, þar sem hlutdeildin var þá bundin við veiðar smábáta 8 árum áður, sbr. reglur laga 83/1995.  Þá telur stefnandi að ekki sé eðlilegt samræmi milli þess markmiðs sem stefnt var að með lögum nr. 1/1999 og 9/1999 og þeirrar aðferðar við úthlutun sem beitt var. 

Stefnandi segir það andstætt jafnræðisreglum að byggja skiptingu þorskafla­hámarks sem kom í hlut sinn að 20% við ætlað þorskaflahámark samkvæmt 2. gr. laga nr. 83/1995.  Hlutur stefnanda hafi ráðist af veiðireynslu árin 1992, 1993 og 1994.  Í þessu felist brot á jafnræðisreglu því það sé einstakt að svo gömul veiðireynsla sé látin skipta máli við úthlutun aflahlutdeildar.  Þá réttlæti engar málefnalegar ástæður þessa aðferð. 

Þá telur stefnandi að þessi úthlutunarregla 3. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 1/1999 hafi brotið gegn eignarréttarhagsmunum sínum. 

Stefnandi byggir á því að óskýrleiki laga og réttarstöðu sem hafi falist í þeim kerfum sem hann hafi veitt eftir, feli sjálfstætt í sér bort á jafnræðisreglu og atvinnu­frelsisákvæði stjórnarskrárinnar. 

Stefnandi byggir á því að ákvæði 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 1/1999 hafi ekki verið framkvæmt réttilega.  Stefnandi hafi mátt gera ráð fyrir að allri hlutdeild báta á línu- og handfærum sem koma átti til skipta, þ.e. 0,18% auk 95 tonna, hefði verið úthlutað til þeirra 10 báta sem fengu úthlutun, en völdu ekki sóknardaga­kerfi laganna.  Hins vegar hafi þeim einungis verið úthlutað hluta af hinni ákveðnu hlutdeild, sem réðst af veiðireynslu þeirra 10 báta sem völdu þennan kost.  Framkvæmd ráðuneytis og Fiskistofu hafi þannig ekki samræmst lögum.

Varðandi úthlutun aflahlutdeildar í ýsu, steinbít og ufsa samkvæmt 5. mgr. nefnds  bráðabirgðaákvæðis II hafi jafnræðisregla stjórnarskrárinnar verið brotin.  Út­hlutunin hafi farið fram án þess að löggjafinn tæki tillit til þess aðstöðumunar að þeir bátar sem höfðu fengið úthlutað þorskaflahámarki árið 1995 sóttu í aðrar tegundir en þorsk, þ.e. ýsu, steinbít og  ufsa, án takmarkana. Nauðsyn kvótasetningar tegundanna hafi byggst á aukinni sókn þessara báta. Stefnandi og aðrir þeir sem veiddu eftir viðbótarbanndagakerfinu hafi hins vegar einungis getað aflað sér veiðireynslu í tegundunum þá 84 daga sem þeim var heimilt að veiða 1996 og 97 og 32 daga 1998. 

Með þessu hafi hafi þeim útgerðum sem fengið höfðu úthlutað þorskafla­hámarki samkvæmt lögum nr. 83/1995 verið mismunað.  Þá hafi við úthlutun í þessum tegundum verið byggt á veiðireynslu annarra ára en við úthlutun í þorski.  Engin málefnaleg rök liggi að baki þessari mismunun. 

Um tjón sitt ber stefnandi fram þessar málsástæður:

Yrði bótaskylda viðurkennd á grundvelli málsástæðna um banndagakerfi og úthlutun til báta í viðbótarbanndagakerfi, næmi tjónið þeirri þorskaflahámarks­hlutdeild sem hann hefði fengið ef heildaraflahlutdeild línu- og handfærabáta hefði ráðist af hlut þeirra í þorskveiðum næstu 2-3 fiskveiðiár fyrir setningu laga nr. 1/1999 og 9/1999.

Ef bótaskylda verður hins vegar viðurkennd á grundvelli málsástæðna um óskýrleika laga og ranga framkvæmd 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 1/1999, næmi tjónið því hve þorskaflahlutdeild hans varð minni þar sem einungis um 0,13% af 0,21% hlutdeild línu- og handfærabáta var úthlutað en 0,8% var látið „fylgja"  án úthlutunar á einstaka báta, af þeim 41 báti sem völdu sóknardagakerfið. 

Stefnandi telur að reikna beri tjónið í samræmi við skiptingarreglu aflahlut­deildar milli báta sem til skipt skal á milli.  Hér hefur stefnandi þó fyrirvara vegna einnar af áðurgreindum málsástæðum þar sem þessi regla er véfengd.  Stefnandi telur að hann hefði getað haft tekjur af viðbótaraflahlutdeild. 

Tjón vegna minni úthlutunar í ýsu, steinbít og ufsa telur stefnandi að yrði að meta að álitum. 

Þá vísar stefnandi til sérstaks dómskjals er hann lagði fram við þingfestingu málsins og hefur fyrirsögnina Um tjón stefnanda. 

Varakrafa.

Stefnandi telur að eftir að hann valdi kerfi samkvæmt lögum nr. 1/1999 og 9/1999 hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.  Þessar breytingar hafi aukið kosti annarra útgerðarflokka en þess sem stefnandi valdi.  Hafi þetta falið í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  Að minnsta kosti hafi jafnræðisreglan verið brotin þar sem stefnandi hafi ekki fengið heimild til að velja á ný þegar lög breyttu þeim kostum sem stefnandi hafði staðið frammi fyrir á árinu 1999.  Aðstöðunni megi líkja við það að löggjafinn hafi handvalið þá útgerðaraðila sem fengu notið þeirra sérkosta sem breytingarlögin höfðu í för með sér á sóknardaga­kerfið. 

Þá hafi aðgerðarleysi ráðuneytisins um fækkun sóknardaga samkvæmt reiknireglu 6. gr. laga nr. 38/1990, sbr. lög nr. 1/1999 og 9/1999 falið í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, enda hafi þessi framkvæmd skekkt það val sem stefnandi tók þátt í á árinu 1999.  Þetta hafi einnig falið í sér brot á óskráðri lögmætis­reglu stjórnsýsluréttar.  Vegna þess að sóknardögum var ekki fækkað hafi sóknardaga­bátar öðlast aukna veiðireynslu sem síðan hafi verið lögð til grundvallar við ákvörðun aflahlutdeildar samkvæmt lögum nr. 74/2004. 

Ein þriggja aðalmálsástæðna stefnanda er sú að veiðireynsla sóknardagabáta hafi verið lögð til grundvallar með lögum nr. 74/2004, en þessi veiðireynsla var þá aukin vegna ítrekaðra ívilnandi lagasetninga og aðgerðarleysis ráðherra við fækkun sóknardaga. 

Þá er aðalmálsástæða að úthlutun samkvæmt lögum nr. 74/2004 hafi falið í sér að aflahlutdeild stefnanda hafi verið minnkuð um 5%.  Útgerðir báta sem fengu úthlutað aflahlutdeild 2004 hafi haft sömu réttarstöðu og stefnandi 1999. Ef jafnræðis hefði verið gætt varðandi úthlutun þorskaflahlutdeildar til þeirra hefði átt að koma í hlut sóknardagabáta þau 0,0856742% sem „fylgdu” þeim 41 línu- og handfærabáti og 0,9879287% sem „fylgdu” þeim 267 handfærabátum sem fóru inn í sóknardagakerfið 1999.  Í stað þess hafi aflahlutdeild allra sem áður höfðu fengið hlutdeild í þorski verið reiknuð niður í samræmi við nýlega veiðireynslu sóknardagabátanna í heildarveiðum á þorski. 

Þá telur stefnandi að engin lögmæt sjónarmið réttlæti mismunandi meðferð hlutdeildarúthlutunar 2004 og 1999.  Þá byggir hann jafnframt á því að í þessari úthlutun hafi verið gengið á hagsmuni hans vegna stjórnarskrárvarins eignarréttar eða afnotaréttar til veiða á nytjastofninum þorski. 

Þriðja aðalmálsástæða stefnanda er sú að með bráðabirgðaákvæði II  í lögum nr. 1/1999 hafi öllum krókabátum verið úthlutað aflahlutdeild.  Þannig hafi lög nr. 74/2004 falið í sér endurúthlutun aflahlutdeildar í þorski til þeirra báta sem völdu sóknardagakerfi 1999, en ekki til þeirra sem nýttu þá aflahludeild í þorskaflahámarks­kerfi og síðar krókaaflamarkskerfi, eins og stefnandi. Með þessari endurúthlutun hafi bátunum var úthlutað um 5% af heildarhlutdeild í þorskafla í stað um 1%.  Stefnandi kveðst hafa verið í sömu stöðu og þessir bátar árið 1999 og verði að telja að jafnræðis­reglur hafi verið brotnar þegar honum var ekki endur­úthlutað aflahlutdeild á árinu 2004, með þeirri aukningu sem aðrir bátar fengu.  Stefnandi hefði því átt að fá leið­réttingu á aflahlutdeild í samræmi við aukningu til sóknardagabátanna, eða í öllu falli í samræmi við nýlega veiðireynslu hans árið 1999. 

Loks er byggt á því að brotið hafi verið gegn eignar- og atvinnuréttindum stefnanda þegar úthlutun aflahlutdeildar til hans tók ekki tillit til endurnýjunar á bát hans á þeim tíma sem leið frá tímamarki viðmiðunar um veiðireynslu. 

Verði bótaskylda byggð á þessum síðari flokki málsástæðna telur stefnandi tjón sitt bersýnilegt.  Verði fallist á þriðju aðalmálsástæðuna yrði að meta tjónið svo sem hann hefði fengið sams konar endurúthlutun og sóknardagabátarnir.  Annar kostur væri að meta tjónið miðað við skerðingu sem fylgdi því að aflahlutdeild stefnanda var uppreiknuð með stuðlinum 0,9500979.  Loks mætti miða tjónið við þá möguleika sem stefnandi missti af með því að geta ekki valið sig inn í sóknardagakerfið í kjölfar gildistöku framangreindra breytingarlaga og aflað sér þannig veiðireynslu sem hefði leitt til  úthlutunar meiri aflahlutdeildar eftir lögum nr. 74/2004. 

Stefnandi vísar til stjórnarskrárinnar, sérstaklega 65., 72. og 75. gr.  Þá vísar hann til Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, einkum 1. gr. fyrsta samningsviðauka.  Þá vísar hann til sakarreglunnar, skaðbótareglna um ábyrgð opinberra aðila, laga um stjórn fiskveiða og breytinga á þeim og loks til almennra meginreglna stjórnsýsluréttar. 

Málsástæður og lagarök stefnda um formhlið máls.

Stefndi telur grundvöll kröfugerðar stefnanda byggjast á ætluðum efnislegum réttindum sem ekki sé fjallað um í gildandi lögum og eigi sér ekki stoð í stjórnarskrá.  Stefnandi virðist ætlast til þess að dómurinn geri breytingar á lögum nr. 1/1999, 9/1999 og 74/2004 eða setji áður ímyndaða réttarreglu til stuðnings ætluðum rétti og því ætluðu tjóni sem stutt gæti kröfugerð hans.  Þannig eigi dómurinn að fara inn á valdsvið löggjafans.  Beri því samkvæmt 24. og 25. gr. laga nr. 91/1991 að vísa málinu frá dómi. 

Stefndi telur að stefnandi sé í málinu að leita lögfræðilegrar álitsgerðar.  Máls­ástæður séu óljósar og uppfylli ekki áskilnað e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Þá séu dómkröfur óákveðnar og óljósar, andstætt d-lið sömu greinar. 

Þá telur stefndi að ekki séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.  Óhjákvæmilegt skilyrði fyrir málshöfðun til viðurkenningar bótaskyldu sé það að stefnandi sýni fram á að hann hafi beðið tjón og sýnt sé fram á í hverju það sé fólgið og orsakasamhengi milli þess og þeirra atvika sem bótaskylda er talin byggjast á.  Umfjöllun stefnanda um meint tjón og umfang þess, svo og um tengsl þess við meint ólögmæti sé afar óljós.  Engin tilraun sé gerð til að sýna fram á hver þau réttindi séu sem tekin hafi verið af stefnanda eða skert. 

Loks segir stefndi að ekki hafi verið rökstutt eða lögð fram haldbær gögn sem sýni að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni.  Ekki sé gerð grein fyrir útgerðarháttum og af­komu á hverjum tíma.  Umfjöllun stefnanda um ætlaða réttarstöðu, ætlað tjón á grund­velli ímyndaðrar lagasetningar og aðrir útgerðarhættir en í reynd voru viðhafðir standist ekki sem rök fyrir því að tilvitnuð lagasetning hafi leitt til tjóns, eða í hverju það hafi verið fólgið. 

Forsendur og niðurstaða. 

Málatilbúnaður stefnanda í raun reistur á tveimur mismunandi málsástæðum.  Annars vegar á því að ríkissjóður sé bótaskyldur vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir við að lagasetning um stjórn fiskveiða hafi brotið gegn stjórnarskrárbundnum réttindum hans, eða að honum hafi verið mismunað svo fari í bága við stjórnarskrá.  Hins vegar að stjórnvöld hafi vanrækt að framfylgja lögum þannig að hann hafi orðið fyrir tjóni.  Málsástæðum hans er lýst í löngu máli.  Hins vegar eru fá orð höfð beinlínis um það tjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir.  Kemur það fram á öðrum stað í stefnunni þar sem stefnandi veltir upp ýmsum leiðum sem hann sér til að ákveða tjón sitt.  Hefði verið rétt að stefnandi legði upp ákveðna leið til ákvörðunar tjónsins og felldi lýsingu tjónsins inn í kröfugerð sína. 

Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að með því að á honum hafi verið brotnar reglur, honum hafi verið mismunað. Úthlutun aflaheimilda til hans hafi orðið minni en ella.  Þannig hafi hann orðið fyrir tjóni.  Útskýringar á þessari mismunun eru hins vegar fátæklegar.  Til þess að mál þetta yrði dæmt að efni til þyrfti að liggja fyrir í hverju meint mismunun er fólgin, en það er forsenda þess að ákveðið verði hvernig tjón verði afmarkað og bætur síðan ákveðnar.  Þó hér sé einungis krafist viður­kenningar bótaskyldu er samt sem áður þörf fyrir þessar upplýsingar til að leyst verði úr því hvort stefnandi hafi yfir höfuð orðið fyrir einhverju tjóni sem rekja mætti til mismununar.  Þá dugar það ekki eitt og sér að mismunandi reglur gildi um afmarkaða hópa. 

Að framansögðu virtu er það niðurstaða dómsins að kröfugerð stefnanda upp­fylli ekki skilyrði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Þá fullnægir lýsing málsástæðna ekki kröfum e-liðar sömu greinar.  Verður máli þessu því vísað frá dómi. 

Stefnanda verður samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 gert að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðinn er 200.000 krónur. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá dómi. 

Stefnandi, Elín ÞH 82 ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað.