Hæstiréttur íslands

Mál nr. 392/2006


Lykilorð

  • Umboðssvik
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Virðisaukaskattur
  • Lögreglurannsókn
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Skilorð


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31. maí 2007.

Nr. 392/2006.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson settur saksóknari)

gegn

Eyjólfi Sveinssyni

(Karl Axelsson hrl.)

Svavari Ásbjörnssyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

X

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

Þ

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Y

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

Ólafi Hauki Magnússyni og

(Brynjar Níelsson hrl.)

Z

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Umboðssvik. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Virðisaukaskattur. Lögreglurannsókn. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi. Skilorð.

 

E og S voru sakfelldir fyrir umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína hjá einkahlutafélaginu V og yfirdregið nánar tilgreindan reikning án þess að slík heimild væri fyrir hendi. E, Þ, Ó, X, Y og Z, sem starfað höfðu hjá einu eða fleiri af átta félögum, var jafnframt gefið að sök brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki staðið réttilega skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Að því er varðar skil á virðisaukaskatti héldu ákærðu því fram að ekki hefðu verið innheimtar allar þær kröfur, sem virðisaukaskattur hafði lagst á og ákæra laut að, og að einhverjar af þessum kröfum kynnu að vera tapaðar, en ófullnægjandi rannsókn hefði farið fram á þessum atriðum. Af gögnum málsins varð ráðið að framkvæmd skattyfirvalda, sem ákæruvaldið hafði fylgt, væri með þeim hætti að afskrift tapaðra krafna hefði bein áhrif á þá fjárhæð, sem vanskil vegna síðasta tímabils í rekstri félags voru talin nema, og þar með þá fjárhæð, sem miðað var við í ákæru. Gæti því skipt verulegu máli fyrir þá, sem sakaðir væru um vanskil á virðisaukaskatti félags, sem hætt hefði rekstri, að rannsókn beindist meðal annars að töpuðum kröfum félagsins. Þar sem slík rannsókn fór ekki fram í neinu þeirra tilvika sem ákæra laut að var málinu að þessu leyti vísað frá héraðsdómi. Hvað varðar skil á staðgreiðslu opinberra gjalda héldu ákærðu því fram að hluti þeirra launa, sem ákæra varðaði, hefði ekki verið greiddur áður en félögin voru tekin til gjaldþrotaskipta og að fullnægjandi rannsókn hefði ekki farið fram í þeim efnum Vísað var til þess að ólíkt því, sem varðar uppgjör á virðisaukaskatti, ráðist sú fjárhæð sem skila beri í staðgreiðslu með öllu af staðreyndum um útborgun launa, sem liggi fyrir þegar skilagrein sé gerð og geti ekki breyst vegna síðari atvika. Væri því ekki ástæða til að vísa þessum ákæruliðum frá dómi vegna ófullnægjandi rannsóknar á því hvort laun hefðu í raun verið greidd starfsmönnum, nema rökstuddar ábendingar frá ákærðu um þörf á slíku hefðu komið fram við rannsókn málsins eða fyrirliggjandi upplýsingar bentu eindregið til þess að upphaflegar skilagreinar hefðu verið rangar. Atvik voru eingöngu með þeim hætti varðandi einn ákærulið og var honum vísað frá héraðsdómi, en á aðra ákæruliði var lagður efnisdómur. E, Þ og Ó voru sakfelldir fyrir brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og voru brot þeirra talin meiri háttar þannig að þau vörðuðu einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. X var sýknaður af sakargiftum samkvæmt tilteknum ákæruliðum en öðrum vísað frá dómi og þeim ákæruliðum sem vörðuðu Y og Z var vísað frá dómi. Refsing E þótti hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði og var hún að hluta skilorðsbundin, auk þess sem honum var gert að greiða sekt að fjárhæð 20.500.000 krónur. S var gert að sæta fangelsi í 8 mánuði og var sá tími að hluta skilorðsbundinn. Refsing Þ þótti hæfilega ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 2 mánuði og var honum einnig gert að greiða sekt að fjárhæð 12.200.000 krónur. Refsing Ó þótti hæfilega ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 30 daga og var honum einnig gert að greiða sekt að fjárhæð 8.600.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí og 15. september 2006 í samræmi við yfirlýsingar annarra ákærðu en Y um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu Eyjólfs Sveinssonar, Svavars Ásbjörnssonar, X, Þ, Ólafs Hauks Magnússonar og Z, þó í samræmi við leiðréttar fjárhæðir í I. lið B kafla, II. lið D kafla, II. lið F kafla og II. lið G kafla ákæru, og að refsing þeirra verði þyngd. Þá er þess krafist að ákærði Y verði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru og honum ákveðin refsing.

Ákærði Eyjólfur krefst aðallega sýknu af sakargiftum samkvæmt A kafla ákæru og til vara að héraðsdómur verði ómerktur varðandi þann kafla, en að öðru leyti verði málinu vísað frá héraðsdómi. Til þrautavara krefst hann sýknu, en að því frágengnu sýknu af sakargiftum samkvæmt A kafla ákæru, svo og að refsing verði milduð hver sem niðurstaðan verði að öðru leyti.

Ákærði Svavar krefst sýknu.

Ákærðu X, Ólafur Haukur og Z krefjast aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Ákærði Þ krefst mildunar refsingar.

Ákærði Y krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi að því er hann varðar, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, en að því frágengnu að refsing verði svo væg sem lög leyfi.

I.

Í A kafla ákæru eru ákærði Svavar, sem fjármálastjóri einkahlutafélagsins Vísir.is og svonefndur prókúruhafi á nánar tilgreindum reikningi þess hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, og ákærði Eyjólfur, sem stjórnarformaður félagsins, daglegur stjórnandi þess og yfirmaður ákærða Svavars, sakaðir um að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína með því að ákærði Svavar hafi að fyrirskipan ákærða Eyjólfs á tímabilinu 29. apríl til 27. maí 2002 með nánar tilgreindum 24 millifærslum samtals að fjárhæð 24.821.980 krónur yfirdregið reikninginn um 23.931.464 krónur án þess að heimild til yfirdráttar væri fyrir hendi. Hafi þessum fjármunum að stórum hluta verið ráðstafað inn á bankareikninga Fréttablaðsins ehf., sem ákærði Eyjólfur hafi verið í fyrirsvari fyrir og ákærði Svavar verið fjármálastjóri hjá, þrátt fyrir að báðum væri fullkunnugt um að hvorki væri innistæða á reikningnum né heimild til yfirdráttar á honum og skuldastaða félagsins með þeim hætti að ljóst hafi verið að veruleg hætta væri á að það gæti ekki endurgreitt sparisjóðnum það fé, sem fært var af reikningnum. Eru ætluð brot ákærðu talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt gögnum málsins var ákærði Svavar ráðinn til starfa hjá Vísi.is ehf. 1. júlí 2001. Um stöðu hans þar virðast ýmist hafa verið notuð starfsheitin fjármálastjóri eða rekstrarstjóri. Um áramótin 2001 og 2002 var hann ráðinn til starfa hjá Fréttablaðinu ehf. og nefndur þar fjármálastjóri, skrifstofustjóri eða rekstrarstjóri. Bæði félögin höfðu þegar hér var komið starfsaðstöðu í sama húsnæði og hélt ákærði Svavar áfram störfum í þágu Vísis.is ehf. eftir að hann hóf störf hjá Fréttablaðinu ehf. Hafði hann meðal annars umsjón með bókhaldi beggja félaganna. Ákærði Svavar hefur frá upphafi rannsóknar málsins viðurkennt að hafa annast þær millifærslur af þeim reikningi Vísis.is ehf., sem í ákæru greinir. Með framburði A, staðgengils útibússtjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, er sannað að ákærða Svavari var gert ljóst um fjórum mánuðum áður en atvik samkvæmt þessum kafla gerðust að ekki væri heimild til yfirdráttar á reikningnum. Viðurkenndi hann raunar í skýrslu, sem hann gaf hjá lögreglu 21. júní 2002, að hafa haft vitneskju um að fram til þess tíma hafi ekki verið heimild til að yfirdraga reikninginn. Ákærði Svavar varð síðan, eins og nánar er rakið í héraðsdómi, margsaga um hvernig hann taldi sig hafa orðið þess áskynja í lok apríl 2002 að líklega hefði slíkur yfirdráttur þrátt fyrir það verið heimilaður. Taldi héraðsdómur ekki unnt að byggja á framburði hans um það efni fyrir dómi. Verður með vísan til þess og vitneskju ákærða Svavars um eðli reikningsins og fyrri heimildir, er honum fylgdu, að telja sannað að hann hafi vitað að ekki var til staðar heimild til að yfirdraga reikninginn þegar hann gerði þær 24 millifærslur í apríl og maí 2002, sem í ákæru greinir. Vegna starfa í þágu Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. var honum ljós fjárhagsleg staða félaganna og að veruleg hætta hlyti að vera á því að ekki yrði unnt að endurgreiða féð, sem var millifært af reikningnum. Stofnaði hann því í hættu fjármunum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða Svavars fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Eyjólfur var á þeim tíma, sem hér skiptir máli, formaður í stjórn Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. Samkvæmt framburði hans fyrir héraðsdómi starfaði B sem framkvæmdastjóri Vísis.is ehf. frá stofnun þess til haustsins 2001. Tilkynnt var til hlutafélagaskrár 3. október 2001 að C hefði tekið við starfi framkvæmdastjóra félagsins. Ákærði Eyjólfur bar fyrir dómi að C hafi þurft verulegan stuðning í starfi og hafi afskipti sín af félaginu aukist eftir að hann tók við sem framkvæmdastjóri þess. C bar fyrir dómi að hann hafi hætt störfum hjá félaginu um miðjan mars 2002, en tilkynning um það barst hlutafélagaskrá 3. maí sama ár. Verður samkvæmt þessu að miða við að ekki hafi verið starfandi framkvæmdastjóri hjá Vísi.is ehf. á því tímabili, sem sakarefni þessa kafla ákæru varðar. Hjá Fréttablaðinu ehf. var heldur ekki starfandi framkvæmdastjóri á þessum tíma.

Framburður þeirra, sem gáfu skýrslur hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi, er ekki glöggur um í hve ríkum mæli ákærði Eyjólfur hafi komið að daglegri fjármálastjórn félaganna tveggja. D, sem gegndi starfi ritstjóra Fréttablaðsins, bar fyrir lögreglu að ákærði Eyjólfur hafi látið útbúa fyrir sig skrifstofu í húsakynnum blaðsins í byrjun árs 2002 og blandað sér meira í daglegan rekstur eftir það. Taldi hann að allar stærri ákvarðanir innan félagsins hafi verið bornar undir ákærða Eyjólf. Fyrir dómi svaraði D spurningu þannig að það gæti verið að ákærði Eyjólfur hafi verið rekstrarlegur framkvæmdastjóri, en sagðist seinna í skýrslu sinni ekki vita hvort hann hafi gegnt slíku starfi. Z, sem var innheimtustjóri Fréttablaðsins ehf., bar fyrir héraðsdómi að D hafi verið ritstjóri og séð um að blaðið kæmi út, ákærði Svavar hafi haft umsjón með fjármálum og ákærði Eyjólfur hafi verið „þarna einhvers staðar á bak við og hægt að hóa í hann.“ Við mat á því hvert hafi verið raunverulegt hlutverk ákærða Eyjólfs við daglega stjórn einkahlutafélaganna tveggja er óhjákvæmilegt að líta til þeirrar formlegu stöðu, sem stjórnarformaður hefur samkvæmt ákvæðum laga nr. 139/1994 um einkahlutafélög, og þeirra skyldna, sem hann hefur að gegna varðandi daglega stjórn í þeim tilvikum, sem enginn framkvæmdastjóri er starfandi hjá slíku félagi. Verður að meta framburð annarra stjórnenda í því ljósi og telja það hafið yfir vafa að ákærði Eyjólfur hafi komið að og borið ábyrgð á daglegri stjórn félaganna tveggja. Er í því ljósi með ólíkindum að hann hafi verið í góðri trú um að fjárstreymi í lok apríl og í maí 2002 inn á bankareikninga Fréttablaðsins ehf. hafi getað skýrst eingöngu af aukinni auglýsingasölu og greiðslu söluverðs fyrir netmiðilinn Vísir.is. Í héraðsdómi er rakið ósamræmi í framburði ákærða Svavars hjá lögreglu og fyrir dómi um hvernig ákærði Eyjólfur hafi komið að einstökum millifærslum, sem ákæran varðar. Fyrir héraðsdómi bar hann að hann hafi upplýst ákærða Eyjólf nánast alltaf þegar hann gerði þær millifærslur af reikningi Vísis.is ehf., sem getið er í ákæru. Ákærði Eyjólfur bar hins vegar hjá lögreglu og fyrir dómi að honum hafi verið ókunnugt um yfirdráttinn og einstakar millifærslur af reikningnum. Þegar litið er til þess, sem að framan er rakið, svo og að ekki verður séð hvaða ástæðu ákærði Svavar hefði haft til að yfirdraga reikninginn með fyrrgreindum millifærslum án tilhlutunar ákærða Eyjólfs, að hluti fjárins rann inn á bankareikning Blaðavinnslunnar ehf. og aðra reikninga tengda ákærða Eyjólfi og að fjölskipaður héraðsdómur taldi ekki unnt að byggja á framburði ákærða Eyjólfs, verður að telja sannað að ákærði Svavar hafi framkvæmt umræddar millifærslur að tilhlutan ákærða Eyjólfs og að honum hafi verið kunnugt um að með þeim væri reikningurinn yfirdreginn án heimildar og að verulegar líkur væru á ekki yrði unnt að endurgreiða Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis þá fjármuni. Ákærði Eyjólfur verður því einnig sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga.

II.

Í I. lið kafla C til I í ákæru eru öðrum ákærðu en Svavari gefin að sök brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum með því að hafa ekki staðið skil á nánar tilteknum virðisaukaskatti í rekstri sjö nafngreindra félaga. Hvað þessa ákæruliði varðar halda ákærðu því í fyrsta lagi fram að ekki hafi verið innheimtar allar þær kröfur, sem virðisaukaskatturinn hafi lagst á og ákæran lýtur að, og í öðru lagi að einhverjar af þessum kröfum kunni að vera tapaðar. Gera þeir athugasemd við að engin eða ófullnægjandi rannsókn hafi farið fram á þessum atriðum og krefjast af því tilefni frávísunar málsins frá héraðsdómi að því er þessa ákæruliði varðar eða sýknu af þeim.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 telst skattskyld velta á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskatts heildarskattverð allra vara, sem afhentar hafa verið á tímabilinu, svo og heildarskattverð allrar skattskyldrar vinnu og þjónustu, sem þá hefur verið innt af hendi. Skattskyld velta hvers tímabils er því ákveðin án tillits til þess hvort selt er gegn staðgreiðslu eða gjaldfresti. Í 1. mgr. 40. gr. laganna er refsing meðal annars lögð við því að maður afhendi ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt, sem hann hefur innheimt eða bar að innheimta. Brot er samkvæmt þessu fullframið með því að afhenda ekki á lögmæltum tíma skýrslu eða skatt, sem innheimtur var eða innheimta bar, og er refsinæmi verknaðarins óháð því hvort selt var gegn gjaldfresti eða hvort andvirði þeirrar vöru og þjónustu, sem var andlag skattheimtunnar, var þá innheimt. Þrátt fyrir þetta hefur um langt skeið ríkt sú venja að orða brotalýsingu í ákæru í málum um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 á þá leið, líkt og gert er í máli þessu, að ákærða sé gefið að sök brot á lögum um virðisaukaskatt með því að hafa ekki í samræmi við það, sem lög áskilja, staðið viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs „skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var“. Slíkt orðalag í ákæru hefur engu breytt um það að föst dómvenja er fyrir því að miða sakfellingu fyrir brot sem þessi við vanskil samkvæmt virðisaukaskattskýrslum fyrir einstök tímabil og sköttum, sem til þess tímabils skyldu teljast, óháð því hvort kröfur, sem skattur reiknaðist af, voru innheimtar á gjalddaga hans. Verður því að hafna röksemdum ákærðu fyrir því að brotalýsing í ákæru í máli þessu taki eingöngu til skila á virðisaukaskatti af kröfum, sem félögin, sem hér áttu í hlut, höfðu fengið greiddar.

Að því er tapaðar útistandandi viðskiptaskuldir varðar ber á hinn bóginn að líta til ákvæðis 2. töluliðar 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, en samkvæmt því er seljanda við uppgjör á skattskyldri veltu heimilt að draga frá 80,32% af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til skattskyldrar veltu. Þessarar heimildar verður neytt á því uppgjörstímabili, þegar í ljós er leitt að krafa er töpuð, og á því ekki með réttu að hafa áhrif á uppgjör þess tímabils, þegar hin afskrifaða krafa varð til með sölu á vöru eða þjónustu. Samkvæmt því ætti það ekki að hafa áhrif á refsinæmi brots gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 að síðar komi í ljós að tilteknar kröfur tapist, sem virðisaukaskattur var reiknaður af á uppgjörstímabili, sem ákæra varðar. Í þessu máli snýr ákæra að virðisaukaskattskilum félaga, sem öll voru tekin til gjaldþrotaskipta skömmu eftir lok þeirra uppgjörstímabila, sem skatturinn stafaði frá. Er athugunarefni hvort þetta fái í einhverju breytt því, sem að framan er rakið og gildir ella um áhrif afskrifaðra krafna á virðisaukaskattskil. Komi í ljós eftir að rekstri virðisaukaskattskylds félags er hætt að krafa, sem virðisaukaskattur var á sínum tíma reiknaður af, fáist ekki innheimt, væri í samræmi við framangreinda reglu 2. töluliðar 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 að hún myndi inneign á því uppgjörstímabili þegar hún er afskrifuð og gæti sú inneign síðan komið til skuldajafnaðar við ógreiddan virðisaukaskatt félagsins frá fyrri uppgjörstímabilum. Þannig hefði afskrift kröfu í tilvikum sem þessum ekki áhrif á refsinæmi vanskila á virðisaukaskatti á síðustu tímabilum í rekstri félagsins, en gæti hins vegar, eftir gildistöku laga nr. 134/2005, haft áhrif við mat á því hvort sektarlágmarki 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 verði beitt, enda hefði þá afskriftin sömu áhrif og greiðsla upp í skattskuld. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að framkvæmd skattyfirvalda sé á annan veg og hafi henni verið fylgt af hálfu ákæruvaldsins. Ekki virðist hafa reynt á þetta við rannsókn á þeim sakargiftum, sem málið varðar, í öðrum tilvikum en því, sem I. liður E kafla ákæru tekur til, en sá kafli snýr að ætluðum brotum í rekstri […] ehf. Skattrannsóknarstjóri fékk 20. október 2003 yfirlit frá lögmannsstofu um tapaðar kröfur þessa félags, sem studdust við reikninga frá ýmsum uppgjörstímabilum. Í niðurstöðum skattrannsóknar var fjárhæð, sem svaraði virðisaukaskatti af þessum töpuðu kröfum, færð til lækkunar höfuðstól uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2002, sem mun hafa verið síðasta tímabilið sem félagið var í rekstri. Afskrift þessara töpuðu krafna hafði þannig í framkvæmd bein áhrif á þá fjárhæð, sem vanskil vegna þessa tímabils voru talin nema, og þar með þá fjárhæð, sem miðað var við í ákæru. Þegar þessi framkvæmd er virt er ljóst að verulegu máli getur skipt fyrir þá, sem sökum eru bornir fyrir vanskil á virðisaukaskatti félags, er hætt hefur rekstri, að rannsókn beinist meðal annars að töpuðum kröfum virðisaukaskattskylds aðila. Slík rannsókn fór ekki fram með fullnægjandi hætti í neinu þeirra tilvika sem um er fjallað í I. lið kafla C til I í ákæru og er því óhjákvæmilegt að vísa málinu að þessu leyti frá héraðsdómi.

III.

Í B kafla og II. lið kafla D til I í ákæru er öðrum ákærðu en Svavari og Z gefin að sök brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið skil á nánar tilteknum fjárhæðum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, sem hafi verið haldið eftir af launum starfsmanna sjö nafngreindra félaga. Hvað þessa ákæruliði varðar, að undanskildum II. lið E kafla ákæru, er því haldið fram af hálfu ákærðu að svo kunni að vera að hluti þeirra launa, sem ákæra varðar, hafi ekki verið greiddur áður en félögin, sem hér um ræðir, voru tekin til gjaldþrotaskipta. Gera ákærðu athugasemd við að fullnægjandi rannsókn í þeim efnum hafi ekki farið fram.

Samkvæmt 15. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 45/1987, skal launagreiðandi draga staðgreiðslu af launum launamanns og greiða það fé, sem hann þannig heldur eftir eða bar að halda eftir, til innheimtumanns og skal greiðslunni fylgja sundurliðuð skilagrein. Samkvæmt þessum ákvæðum er launagreiðanda aðeins skylt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af launum, sem hann í raun innir af hendi á hverju tímabili. Dragist greiðsla launa fram yfir gjalddaga þeirra frestast skylda til afdráttar opinberra gjalda að sama skapi. Í öllum þeim tilvikum, sem fyrrgreindir ákæruliðir varða, er fjárhæð ógreiddrar staðgreiðslu reist á skilagreinum launagreiðandans sjálfs. Ólíkt því, sem varðar uppgjör á virðisaukaskatti, ræðst fjárhæðin, sem skila ber í staðgreiðslu, með öllu af staðreyndum um útborgun launa, sem liggja fyrir þegar skilagrein er gerð, og getur ekki breyst vegna síðari atvika. Fjárhæð staðgreiðslu opinberra gjalda getur því einungis tekið breytingum frá því, sem tilgreint var í skilagrein, að hún hafi frá upphafi verið röng. Þegar til þessa er litið er ekki ástæða til að vísa ákæruliðum, sem varða vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda, frá dómi vegna ófullnægjandi rannsóknar á því hvort laun hafi í öllum tilvikum í raun verið greidd starfsmönnum, nema rökstuddar ábendingar frá ákærðu, sem voru forsvarsmenn viðkomandi launagreiðanda, um þörf á slíku hafi komið fram meðan á rannsókn málsins stóð eða fyrirliggjandi upplýsingar bendi eindregið til þess að upphaflegar skilagreinar hafi verið rangar. Atvik eru eingöngu með þeim hætti, sem hér um ræðir, varðandi þær sakir, sem greinir í II. lið D kafla ákæru. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá héraðsdómi að því er þann lið varðar, en á aðra ákæruliði, sem varða vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda, verður lagður efnisdómur.

IV.

Í B kafla ákæru eru ákærðu Eyjólfur og X bornir þeim sökum að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna […] hf., vegna greiðslutímabilanna mars, maí, júní og ágúst 2001, samtals 2.021.617 krónur. Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sakfelldir fyrir að hafa brotið með þessu gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með síðari breytingum. Samkvæmt dómkröfum ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti hefur fjárhæðin, sem ákærðu eru í þessum lið bornir sökum um að hafa ekki staðið skil á, verið lækkuð þannig að vanskil vegna mars 2001 eru nú talin nema 1.444.130 krónum, vegna maí 184.243 krónum, vegna júní 213.855 krónum og vegna ágúst 55.078 krónum, eða samtals 1.897.306 krónum. Stafar lækkunin af því að ákæruvaldið hefur í tilefni af athugun af hálfu ákærða Eyjólfs á vangreiddum launum til starfsmanna félagsins komist að þeirri niðurstöðu að fjórum nafngreindum starfsmönnum þess hafi ekki verið greidd laun og vanskil staðgreiðslu því verið oftalin.

Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá var ákærði Eyjólfur formaður stjórnar […] hf. frá 12. júní 1997, en ákærði X einn þriggja meðstjórnenda. Á aðalfundi félagsins 19. mars 2001 var samþykkt tillaga um breytingu á ákvæðum samþykkta þess um skipan stjórnar og var ný stjórn kosin í framhaldi af því. Í hinni nýju stjórn átti ákærði Eyjólfur áfram að vera formaður, en ekki var ráðgert að ákærði X ætti þar lengur sæti. Samkvæmt gögnum málsins lýsti fundarstjóri því yfir að aðalfundurinn hefði ekki heimild til að breyta samþykktum félagsins og væri kjör stjórnar samkvæmt hinum breyttu samþykktum því ekki lögmætt. Þessi breyting á samþykktum félagsins og stjórn var ekki tilkynnt til hlutafélagaskrár. Á fyrri hluta árs 2002 tilkynntu þeir tveir menn, sem auk ákærðu höfðu skipað aðalstjórn félagsins frá júní 1997, úrsögn sína úr stjórninni. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 21. júní 2002.

Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. júlí 2001 var […] hf. veitt heimild til að leita nauðasamnings. Frumvarp félagsins til nauðasamnings mun hafa verið samþykkt 18. september 2001 og var hann staðfestur með úrskurði héraðsdóms 10. október sama ár. Í úrskurðinum sagði að í hinu samþykkta samningsfrumvarpi hafi félagið boðist „til að greiða 25% af höfuðstól krafna miðað við 31. mars 2001 á tilgreindum gjalddögum“, sem ekki var greint nánar frá. Ákvæði nauðasamningsins um að greiðslur skyldu taka mið af stöðu krafna rúmum þremur og hálfum mánuði áður en heimild var veitt til að leita nauðasamnings, svo og að greiðslur yrðu einungis reiknaðar af höfuðstól þeirra, áttu sér ekki stoð í 3. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá var ekkert ákveðið í samningnum um hvort hann ætti að hafa áhrif á greiðslur, sem voru inntar af hendi upp í samningskröfur á tímabilinu frá 31. mars til 18. júlí 2001.

Skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn 16. janúar 2002 á skilum […] hf. á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins. Rannsókninni var lokið með skýrslu 8. maí sama ár, en samkvæmt henni var vangoldin skilaskyld staðgreiðsla samtals 2.836.434 krónur vegna tímabilanna mars til ágúst 2001. Við lögreglurannsókn var lagt til grundvallar að vangreidd staðgreiðsla eftir eindaga greiðslutímabilanna mars, maí, júní og ágúst 2001 hafi samtals numið 2.021.617 krónum, en heildargreiðslur eftir eindaga 1.229.095 krónum. Við rannsókn lögreglu var tekið saman yfirlit um greiðslur […] hf. á tímabilinu 18. apríl 2001 til 13. ágúst sama ár til innheimtumanns ríkissjóðs á afdreginni staðgreiðslu. Reyndust þessar greiðslur samtals hafa verið 6.053.490 krónur. Þar af höfðu 5.053.490 krónur verið greiddar fyrir 18. júlí 2001, en þann dag var félaginu sem áður segir veitt heimild til að leita nauðasamnings. Öllum þessum greiðslum hafði verið ráðstafað upp í skuldir vegna staðgreiðslu greiðslutímabila á árinu 2000 og í janúar 2001. Við mat lögreglu á því hve mikið hefði greiðst eftir eindaga var að vissu marki tekið tillit til framangreinds nauðasamnings og hluti af þessum greiðslum af þeim sökum talinn vera vegna þeirra tímabila, sem ákæran varðar. Meðal gagna málsins er bréf sýslumannsins á Akureyri til ríkislögreglustjóra 7. maí 2003. Þar kemur fram að í febrúar 2002 hafi orðið að samkomulagi milli sýslumanns og fjármálastjóra […] hf., meðal annars vegna nauðasamnings félagins, að embættið reyndi að hlutast til um að þær fjárhæðir, sem inntar hefðu verið af hendi á tímabilinu 15. apríl 2001 til 13. ágúst sama ár vegna staðgreiðsluskulda félagsins, yrðu látnar ganga til greiðslu skulda vegna greiðutímabila í mars 2001 og síðar, en ekki upp í skuldir vegna eldri greiðslutímabila eins og gert hafði verið. Embættið hefði hins vegar þegar á reyndi ekki getað fært greiðslur milli tímabila af tæknilegum ástæðum.

Ákærði Eyjólfur var formaður stjórnar […] hf. á þeim tíma, sem hér skiptir máli. Hlutafélagaskrá barst 6. febrúar 2001 tilkynning, sem undirrituð var af fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins, um að hann hefði látið af starfinu 1. mars 2000, en E tekið við því. Í yfirlýsingu framkvæmdastjórans fyrrverandi 10. september 2003 kom á hinn bóginn fram að þessi tilkynning hefði verið send að fyrirmælum stjórnarformanns félagsins en án samþykkis E. Í skýrslu, sem E gaf hjá lögreglu 11. september 2003, kvaðst hann aldrei hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra og ekki vitað af þessari tilkynningu, en hann hafi starfað sem fjármálastjóri félagsins. Verður á grundvelli þessa að miða við að framkvæmdastjóri hafi ekki verið við störf í félaginu á þeim tíma, sem þau vanskil urðu á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna þess, sem um ræðir í ákæru. Í vitnisburði E fyrir héraðsdómi kom fram að ákærði Eyjólfur hafi fengið upplýsingar um erfiða stöðu félagsins, útvegun fjár til rekstrar þess hafi verið mikið til í hans höndum og ráðstöfun fjár ákveðin í samráði við hann. Í ljósi þessa og þeirra skyldna, sem hvíla á formanni stjórnar félags þar sem ekki starfar framkvæmdastjóri, verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákærði Eyjólfur hafi gerst sekur um brot á 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna […] hf. á greiðslutímabilunum mars, maí, júní og ágúst 2001, samtals að fjárhæð 1.897.306 krónur. Að framan er lýst stjórnarkjöri á aðalfundi félagsins 19. mars 2001. Af gögnum málsins verður ráðið að nokkur óvissa hafi ríkt um hverjir sætu í stjórn félagsins eftir þann fund og að ákærði X hafi lítið eða ekkert komið að málefnum þess eftir það. Þannig liggur meðal annars fyrir að frumvarp að nauðasamningi fyrir félagið var undirritað af hinni nýkjörnu stjórn, en ekki ákærða X. Verður hann því sýknaður af þessum lið ákæru.

Við ákvörðun viðurlaga fyrir þessi brot verður að líta til þess að með breytingum, sem gerðar voru á 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með 1. gr. laga nr. 134/2005, gilda fyrirmæli ákvæðisins um lágmark sektar ekki þegar brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Að framan var rakið að […] hf. var heimilað að leita nauðasamnings 18. júlí 2001, nauðasamningur var staðfestur með úrskurði 10. október sama ár og í honum var kveðið á um að greiða skyldi 25% af höfuðstól krafna miðað við stöðu þeirra 31. mars 2001. Þá er áður rakið að á tímabilinu 18. apríl 2001 til 18. júlí sama ár greiddi […] hf. samtals 5.053.490 krónur upp í skuld vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda og var allri þeirri fjárhæð varið til greiðslu vanskila vegna greiðslutímabila á árinu 2000 og í janúar 2001. Loks er þess áður getið að sýslumaður virðist í ljósi nauðasamningsins hafa talið að réttara hefði verið að láta þessar greiðslur ganga upp í vanskil vegna mars 2001 og síðari greiðslutímabila. Þótt heimild standi ekki til þess í 3. mgr. 30. gr. laga nr. 21/1991 var engu að síður ákveðið í nauðasamningi […] hf., sem staðfestur var 10. október 2001, að greitt yrði tiltekið hlutfall af höfuðstól samningskrafna eins og þær stóðu 31. mars sama ár, alllöngu áður en heimild var veitt til nauðasamningsumleitana. Eins og málið liggur fyrir er af þessum sökum engan veginn ljóst hvernig fara eigi með greiðslur, sem félagið innti af hendi til sýslumannsins á Akureyri á tímabilinu frá 31. mars 2001 til 18. júlí sama ár vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Verður að þessu öllu virtu að líta svo á að með greiðslum á þessum tíma hafi full skil verið gerð á skuld vegna þeirra greiðslutímabila, sem ákæra lýtur að. Gildir því undanþága samkvæmt 1. gr. laga nr. 134/1995 frá sektarlágmarki um alla vanskilafjárhæðina.

V.

Í II. lið E kafla ákæru var ákærði Þ borinn sökum um að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna […] ehf. á tímabilinu frá júlí 2002 til janúar 2003, alls 8.629.938 krónum. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þetta brot og unir hann þeirri niðurstöðu, en leitar eftir mildun refsingar.

Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá var ákærði einn skráður stjórnarmaður í félaginu frá 1. apríl 2002 og gegndi hann starfi framkvæmdastjóra þess með prókúruumboð. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 25. apríl 2003. Skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn 5. maí sama ár á skilum félagsins á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda og var henni lokið með skýrslu 23. desember 2003, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að vangoldin staðgreiðsla vegna tímabilanna júlí 2002 til janúar 2003 væri samtals 6.447.979 krónur. Málinu var vísað til ríkislögreglustjóra 7. apríl 2004. Við lögreglurannsókn var lagt til grundvallar að ógreidd staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna félagsins eftir eindaga greiðslutímabilanna frá júlí 2002 til janúar 2003 hafi samtals numið 8.899.938 krónum, en heildargreiðslur eftir eindaga 2.324.557 krónum. Í ákæru var upphaflega miðað við þá niðurstöðu, en við aðalmeðferð málsins í héraði var fjárhæðin lækkuð í fyrrnefndar 8.629.938 krónur, eins og nánar er gerð grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Af hálfu ákæruvaldsins hefur verið lagt fyrir Hæstarétt yfirlit, þar sem gerð er frekari grein fyrir fjárhæðum, sem um ræðir í þessum þætti málsins. Af því verður ráðið að upp í skuld vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir greiðslutímabilið júlí 2002, að höfuðstól 1.094.558 krónur, hafi verið greiddar 742.424 krónur þegar greiðsla á álagi vegna fyrri tímabila hefur verið metin sem innborgun á höfuðstól skuldarinnar og telst þessi skuld því hafa verið greidd að verulegu leyti. Þá hefur skuld vegna greiðslutímabilsins október 2002, að höfuðstól 1.582.133 krónur, verið að fullu greidd.

Ákærði Þ var framkvæmdastjóri og eini stjórnarmaður félagsins. Verður hann því sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki lögmæltum tíma staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins á greiðslutímabilunum júlí 2002 til janúar 2003, samtals að fjárhæð 8.629.838 krónur. Viðurlög vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda á tímabilunum júlí og október 2002, samtals 2.676.691 króna, verða samkvæmt ofangreindu ákveðin í samræmi við undanþágur frá lágmarki sektar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Á hinn bóginn gildir sektarlágmark sama ákvæðis um önnur brot ákærða samkvæmt þessum lið ákæru, en þau taka til vanskila á gjöldum að fjárhæð 5.953.247 krónur.

VI.

Í II. lið F kafla ákæru voru ákærði Eyjólfur og F bornir þeim sökum að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna […] ehf. vegna greiðslutímabilanna nóvember og desember 2001, samtals 781.215 krónum. Með hinum áfrýjaða dómi var F sýknaður og unir ákæruvaldið þeirri niðurstöðu. Samkvæmt dómkröfum ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti hefur fjárhæðin, sem ákærði Eyjólfur er borinn sökum um að hafa ekki staðið skil á, verið lækkuð þannig að vanskil vegna nóvember 2001 eru nú talin 457.917 krónur og vegna desember sama ár 304.486 krónur. Nemur fjárhæð vanskila því samtals 762.403 krónum. Stafar lækkunin af því að ákæruvaldið hefur í tilefni af athugun af hálfu ákærða komist að þeirri niðurstöðu að tveimur nafngreindum starfsmönnum félagsins hafi ekki verið greidd að fullu laun í framangreindum mánuðum og vanskil því verið oftalin.

[…] ehf. var stofnað 23. ágúst 2000 og var nafni þess breytt 15. nóvember sama ár í […] ehf. Með bréfi til hlutafélagaskrár 2. maí 2001 var tilkynnt að á hluthafafundi 30. apríl sama ár hafi nafni félagsins enn verið breytt og nú í […] ehf. og að formaður stjórnar þess væri X, en aðrir stjórnarmenn ákærði Eyjólfur og Þ. Jafnframt var tilkynnt að F væri ráðinn framkvæmdastjóri félagsins með prókúruumboð. X og Þ sögðu sig úr stjórninni frá 1. október 2001 og barst tilkynning Þ um það til hlutafélagaskrár 17. sama mánaðar, en tilkynning X 8. ágúst 2002. Ákærði Eyjólfur tilkynnti um úrsögn sína úr stjórninni með bréfi 20. desember 2002. Um starfslok F 3. október 2001 er fjallað í hinum áfrýjaða dómi.

Skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn á skilum […] ehf. á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins 25. febrúar 2002. Rannsókninni var lokið með skýrslu 24. júní sama ár, en samkvæmt henni var ógreidd staðgreiðsla 781.215 krónur. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til ríkislögreglustjóra 21. janúar 2003. Við lögreglurannsókn var lagt til grundvallar að ógreidd staðgreiðsla opinberra gjalda eftir eindaga greiðslutímabilanna nóvember og desember 2001 hafi numið sömu fjárhæðum og miðað var við í skýrslu skattrannsóknarstjóra og ekkert verið greitt upp í þá skuld eftir þann tíma.

Fyrir liggur að F hætti störfum sem framkvæmdastjóri félagsins 3. október 2001 og að ákærði Eyjólfur var eini stjórnarmaður félagsins á gjalddaga þeirra greiðslutímabila, sem ákæran varðar. Er því ljóst að á honum einum hvíldi skylda til að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda. Verður hann því sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins á greiðslutímabilunum nóvember og desember 2001, samtals 762.403 krónum. Þar sem ekkert hefur verið greitt upp í skuld vegna vanskilanna gilda ákvæði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um lágmark sektar við ákvörðun viðurlaga vegna þessa brots ákærða Eyjólfs.

VII.

Í II. lið G kafla ákæru voru ákærði Eyjólfur og C sóttir til saka fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna Vísis.is ehf. á greiðslutímabilunum september til desember 2001, alls 5.047.389 krónum. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði Eyjólfur sakfelldur samkvæmt ákæru, en C sýknaður og unir ákæruvaldið þeirri niðurstöðu. Samkvæmt dómkröfum ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti hefur fjárhæð staðgreiðslu opinberra gjalda, sem ákærði er borinn sökum um að hafa ekki staðið skil á, verið lækkuð þannig að vanskil vegna desember 2001 eru nú talin 719.582 krónur og heildarfjárhæðin því 4.850.727 krónur. Er lækkunin í samræmi við yfirlit, sem lagt hefur verið fram af hálfu ákærða Eyjólfs, um vangreidd laun fimm starfsmanna félagsins vegna greiðslutímabilsins desember 2002.

Samkvæmt vottorði úr hlutafélagaskrá var ákærði Eyjólfur formaður stjórnar félagsins frá 14. desember 1998, en X meðstjórnandi. Eins og nánar er rakið að framan í umfjöllun um A kafla ákæru var tilkynnt til hlutafélagaskrár 3. október 2001 að C hefði tekið við starfi framkvæmdastjóra félagsins. Hann kvaðst hafa látið af störfum í mars 2002, en tilkynning um það barst hlutafélagaskrá 3. maí sama ár. Bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta 6. nóvember 2002.

Skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn 25. febrúar 2002 á skilum Vísis.is ehf. á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda og var henni lokið með skýrslu 24. júní sama ár. Samkvæmt skýrslunni var vangoldin staðgreiðsla vegna greiðslutímabilanna september til desember 2001 samtals 3.878.405 krónur. Málinu var vísað til ríkislögreglustjóra 21. janúar 2003. Við lögreglurannsókn var lagt til grundvallar að vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins eftir eindaga greiðslutímabilanna frá september til desember 2001 hafi samtals numið 5.197.389 krónum, en heildargreiðslur eftir eindaga verið 1.408.205 krónur. Samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins, þar sem gerð er frekari grein fyrir fjárhæðum, sem um ræðir í þessum þætti málsins, hefur skuld vegna staðgreiðslu opinberra gjalda frá september 2001, að höfuðstól 1.126.131 króna, verið að fullu greidd, en ráðstöfun greidds álags vegna þessa tímabils til greiðslu skuldar vegna október 2001 nær ekki þriðjungi höfuðstóls hennar og telst hún samkvæmt því ekki hafa verið greidd að verulegu leyti.

Ákærði Eyjólfur var stjórnarformaður félagsins á þeim tíma, sem hér skiptir máli. Samkvæmt framburði hans fyrir dómi jukust afskipti hans af félaginu verulega eftir að C var ráðinn framkvæmdastjóri þess í október 2001. Hafi C og Svavar Ásbjörnsson, fjármálastjóri félagsins, borið undir hann mál og hann aðstoðað þá meira en hann hafi gert í öðrum félögum. Tók hann fram að honum hafi verið fullkunnugt um að launagreiðslur hafi dregist mikið. Af framburði C verður ráðið að hann hafi haft samband við ákærða Eyjólf þegar honum varð ljóst að félagið væri í vanskilum með virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda. Leit hann svo á að ákærði Eyjólfur og Svavar réðu fjármálum félagsins, en að hans mati hefði ákærði Eyjólfur í raun tekið ákvarðanir vegna rekstrarins. Í framburði Svavars fyrir dómi kom fram að ákærði Eyjólfur hafi tekið allar ákvarðanir um fjármálastjórn félagsins eftir að fyrrum framkvæmdastjóri þess, B, lét af störfum. Að þessu gættu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að ákærði Eyjólfur hafi gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins vegna greiðslutímabilanna september til desember 2001, samtals að fjárhæð 4.850.727 krónur. Viðurlög vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda á greiðslutímabilinu september 2001, 1.126.131 króna, verða samkvæmt ofangreindu ákveðin í samræmi við undanþágu frá lágmarki sektar í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Á hinn bóginn gildir sektarlágmark greinarinnar um vanskil að fjárhæð 3.724.596 krónur.

VIII.

Í II. lið H kafla ákæru var ákærðu Eyjólfi og X gefið að sök að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna Fréttablaðsins ehf. á tímabilinu janúar til ágúst 2002, alls 10.425.212 krónum. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi var fallið frá sakargiftum varðandi greiðslutímabilin júní, júlí og ágúst 2002 og lækkaði fjárhæð vanskila samkvæmt þessum lið ákæru því til samræmis í 8.977.513 krónur. Í héraðsdómi voru ákærðu sakfelldir fyrir þá háttsemi, sem þeim var gefin að sök að fram kominni þessari breytingu á ákæru.

Samkvæmt vottorði úr hlutafélagaskrá var ákærði Eyjólfur formaður stjórnar Fréttablaðsins ehf., en ákærði X meðstjórnandi frá 2. mars 2001. Enginn var þar skráður framkvæmdastjóri félagsins eða prókúruhafi.

Skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn 14. nóvember 2002 á skilum Fréttablaðsins ehf. á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Rannsókninni var lokið með skýrslu 23. september 2003. Samkvæmt henni var vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna félagsins samtals 9.552.429 krónur vegna greiðslutímabilanna janúar til ágúst 2002. Málinu var vísað til ríkislögreglustjóra 19. janúar 2004. Við lögreglurannsókn var lagt til grundvallar að ógreidd staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna félagsins eftir eindaga greiðslutímabilanna frá janúar til ágúst 2002 hafi samtals numið 10.425.212 krónum, en að eftir það tímamark hefðu 2.564.262 krónur verið greiddar inn á skuldina. Samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins, þar sem gerð er frekari grein fyrir fjárhæðum, sem um ræðir í þessum þætti málsins, voru 635.195 krónur greiddar inn á skuld vegna staðgreiðslu opinberra gjalda frá janúar 2002, sem var að höfuðstól 2.176.368 krónur. Þá voru 653.545 krónur greiddar inn á skuld vegna febrúar 2002, sem var að höfuðstól 2.083.421 króna, og 643.022 krónur greiddar upp í skuld frá mars 2002, að höfuðstól 1.849.395 krónur. Jafnframt voru 632.500 krónur greiddar inn á skuld vegna tímabilsins apríl 2002, sem var að höfuðstól 1.730.748 krónur. Ekkert hefur hins vegar verið greitt inn á skuld vegna tímabilsins maí 2002 sem nam 1.137.581 krónu. Teljast því skuldir vegna greiðslutímabilanna mars og apríl 2002 hafa verið greiddar að verulegu leyti, en ekki skuldir vegna annarra tímabila, sem þessi liður ákæru tekur til.

Ákærði Eyjólfur var á umræddum tíma formaður stjórnar félagsins, en enginn framkvæmdastjóri var þar við störf. Svavar Ásbjörnsson bar fyrir héraðsdómi að ákærði Eyjólfur og D hefðu tekið ákvarðanir um skil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins til innheimtumanns ríkissjóðs. Í ljósi þessa og þeirra skyldna, sem hvíla á formanni stjórnar félags þar sem ekki starfar framkvæmdastjóri, verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákærði Eyjólfur hafi gerst sekur um brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins á greiðslutímabilunum janúar til maí 2002, samtals að fjárhæð 8.977.513 krónur. Af framburði vitna verður ráðið að ákærði X hafi lítið komið að málefnum félagsins og ekkert að ákvörðun um ráðstöfun fjármuna. Verður hann því sýknaður af þessum lið ákæru. Viðurlög vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna Fréttablaðsins ehf. á tímabilunum mars og apríl 2002, samtals 3.580.143 krónur, verða samkvæmt ofangreindu ákveðin í samræmi við undanþágur frá lágmarki sektar samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Á hinn bóginn gildir ákvæði sömu lagagreinar um lágmark sektar um önnur brot ákærða Eyjólfs, sem hér um ræðir, en þau taka til vanskila á gjöldum að fjárhæð alls 5.397.370 krónur.

IX.

Í II. lið I kafla ákæru eru ákærðu Eyjólfur, X og Ólafur Haukur bornir þeim sökum að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna ÍP-prentþjónustunnar ehf. á greiðslutímabilunum frá nóvember 2001 til apríl 2002, alls 4.265.326 krónum. Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sakfelldir samkvæmt ákæru að öðru leyti en því að ákærðu Eyjólfur og X voru sýknaðir af sakargiftum um að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda frá apríl 2002 að fjárhæð 557.324 krónur og unir ákæruvaldið þeirri niðurstöðu.

Samkvæmt vottorði úr hlutafélagaskrá var ákærði X formaður stjórnar félagsins, en ákærði Eyjólfur einn meðstjórnenda þess frá 4. júlí 2001 til 8. maí 2002. Ákærði Ólafur Haukur var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins 26. september 2001 og honum veitt prókúruumboð. Hann átti sæti í stjórn félagsins frá 8. maí 2002 og gegndi áfram starfi framkvæmdastjóra þar til bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta 3. júní sama ár.

Skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn 25. febrúar 2002 á skilum ÍP-prentþjónustunnar ehf. á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins og lauk henni með skýrslu 12. mars 2003. Samkvæmt skýrslunni var vangoldin staðgreiðsla samtals 4.265.326 krónur vegna greiðslutímabilanna frá nóvember 2001 til apríl 2002. Málinu var vísað til ríkislögreglustjóra 16. júlí 2003. Við lögreglurannsókn var lagt til grundvallar að ógreidd staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna félagsins eftir eindaga greiðslutímabilanna frá nóvember 2001 til apríl 2002 hafi samtals numið 4.265.326 krónum og ekkert verið greitt eftir það tímamark. Samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins, þar sem gerð er frekari grein fyrir fjárhæðum, hefur ekkert verið greitt inn á þessa skuld.

Eins og að framan er rakið var ákærði Ólafur Haukur framkvæmdastjóri félagsins allt það tímabil, sem vanskil á staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna þess taka til. Verður hann því sakfelldur fyrir brot á 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki á lögmæltum tíma staðið skil á gjöldum á tímabilinu frá nóvember 2001 til apríl 2002, samtals að fjárhæð 4.265.326 krónur. Skiptir í því sambandi engu þótt heildargreiðslur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins hafi á þeim tíma, sem hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra, numið hærri fjárhæð en sú staðgreiðsla, sem til féll á því tímabili. Greiðslur fylgdu ekki einstökum skilagreinum staðgreiðslu, en þegar þær bárust voru þær látnar ganga upp í elstu skuld samkvæmt almennum reglum. Ákærði X var sem áður segir formaður stjórnar félagsins til 8. maí 2002. Af gögnum málsins sést að honum voru ljósir erfiðleikar í rekstri þess og leitaðist við að leysa úr þeim. Félagið laut á hinn bóginn daglegri stjórn framkvæmdastjóra og liggja ekki fyrir gögn um að ákærði X hafi komið að daglegum rekstri eða stýrt því hvað skyldi greitt. Verður hann því sýknaður af sökum samkvæmt þessum lið ákæru. Ákærði Eyjólfur var stjórnarmaður í félaginu til 8. maí 2002. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að hann hafi átt þátt í daglegri stjórn þess eða komið að ákvörðunum um hvað skyldi greitt af skuldum. Verður hann því einnig sýknaður af þessum ákærulið. Viðurlög á hendur ákærða Ólafi Hauki vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda á greiðslutímabilunum frá nóvember 2001 til apríl 2002, samtals 4.265.326 krónur, verða samkvæmt ofangreindu öll ákveðin samkvæmt því lágmarki sektar, sem kveðið er á um í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987.

X.

Samkvæmt framansögðu eru ákærðu Eyjólfur og Svavar sakfelldir fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga. Þá eru ákærðu Eyjólfur, Þ og Ólafur Haukur sakfelldir fyrir brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Í ákæru eru þessi brot þeirra jafnframt talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995. Brot ákærða Eyjólfs eru að hluta slík að undanþága frá sektarlágmarki 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sem tekin var upp með lögum 134/2005, á við um þau, en öðru máli gegnir um brot hans, sem varða vanskil á samtals 9.884.369 krónum, sbr. kafla F, G og H í ákæru. Að þessu virtu og því að brot ákærða Eyjólfs voru framin í rekstri fjögurra félaga verða þau talin meiri háttar og varða þannig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga ásamt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Brot ákærða Þ eru einnig að hluta slík að undanþága frá sektarlágmarki 2. mgr 30. gr. laga nr. 45/1987 á við um þau, en lágmark sektar samkvæmt því ákvæði tekur hins vegar til vanskila á samtals 5.953.247 krónum, sbr. E kafla ákæru. Samkvæmt áðursögðu er ákærði Ólafur Haukur varðandi I kafla ákæru sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með vanskilum á 4.265.326 krónum. Gildir sektarlágmark ákvæðisins að öllu leyti um það brot. Teljast brot ákærðu Þ og Ólafs Hauks því einnig meiri háttar og varða þannig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga ásamt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987.

Ákærði Eyjólfur hefur ekki áður sætt refsingu. Hann er nú sakfelldur fyrir mörg brot og verður refsing hans ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga. Verður einnig að líta til þess að brot hans eru alvarleg og beinast að verulegum fjárhæðum. Þegar þetta er virt er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en hún verður að hluta skilorðbundin eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verður honum gert að greiða 20.500.000 krónur í sekt vegna þeirra brota, sem hann er sakfelldur fyrir samkvæmt köflum B, F, G og H í ákæru, en um vararefsingu fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir. Ákærði Svavar hlaut dóm 29. júní 2004 fyrir tékkalagabrot og var þar gerð 100.000 króna sekt. Brot það, sem hann er nú sakfelldur fyrir, var framið fyrir uppkvaðningu þess dóms og verður refsing hans því ákveðin með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga. Að teknu tilliti til þess að brot hans beindist ekki að auðgun hans sjálfs er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Verður hún að hluta skilorðsbundin eins og segir í dómsorði. Ákærða Þ hafa ekki fyrr verið gerð viðurlög fyrir refsiverða háttsemi. Með tilliti til umfangs brots hans er refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, sem verður skilorðsbundin eins og í dómsorði greinir. Þá verður honum gert að greiða sekt að fjárhæð 12.200.000 krónur, en um vararefsingu fer samkvæmt því, sem segir í dómsorði. Ákærði Ólafur Haukur hefur ekki áður sætt refsingu. Hann á sér nokkrar málsbætur og er refsing hans með hliðsjón af því hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, sem verður skilorðsbundin eins og í dómsorði greinir. Þá verður honum gert að greiða 8.600.000 krónur í sekt, en um vararefsingu fer eins og segir í dómsorði.

Samkvæmt framangreindu er ákærði X sýknaður af sökum samkvæmt B kafla, II. lið H kafla og II. lið I kafla ákæru, en sökum á hendur honum í I. lið H kafla og I. lið I kafla er vísað frá héraðsdómi. Ákærði Z var borinn sökum í C kafla ákæru og ákærði Y í D kafla hennar, en málinu er sem fyrr segir vísað frá héraðsdómi að því er varðar þessa ákæruliði. Með því að þessir ákærðu eru í engu sakfelldir verður allur sakarkostnaður varðandi þá í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.

Ákærðu Eyjólfur, Þ og Ólafur Haukur eru samkvæmt framansögðu að hluta sakfelldir fyrir þá háttsemi, sem þeim er gefin að sök, en að öðru leyti ýmist sýknaðir eða málinu vísað frá héraðsdómi að því er varðar einstaka ákæruliði, sem að þeim beinast. Verður þeim því gert að greiða hluta sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Ákærði Svavar er á hinn bóginn sakfelldur fyrir það brot, sem hann er borinn sökum um í ákæru, og verður honum gert að greiða sakarkostnað fyrir sitt leyti á báðum dómstigum. Málsvarnarlaun skipaðra verjenda þessara ákærðu eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað varðandi þá ákærðu, sem ekki eiga aðild að málinu fyrir Hæstarétti, skulu vera óröskuð.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar kafla C og D í ákæru, svo og I. lið E kafla, I. lið F kafla, I. lið G kafla, I. lið H kafla og I. lið I kafla hennar, og þar með öllum sökum á hendur ákærðu Y og Z. Ákærði X er að öðru leyti sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærði Eyjólfur Sveinsson sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af þeirri refsingu og sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Svavar Ásbjörnsson sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu 5 mánaða af þeirri refsingu og sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Þ sæti fangelsi í 2 mánuði.

Ákærði Ólafur Haukur Magnússon sæti fangelsi í 30 daga.

Fresta skal fullnustu refsingar ákærðu Þ og Ólafs Hauks og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu dóms þessa, haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Eyjólfur greiði 20.500.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 9 mánuði.

Ákærði Þ greiði 12.200.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 7 mánuði.

Ákærði Ólafur Haukur greiði 8.600.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 5 mánuði.

Ákærði Eyjólfur greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns í héraði, Halldórs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, og fyrir Hæstarétti, Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns, sem í heild eru ákveðin 4.500.000 krónur og 1.498.000 krónur, svo og ¼ hluta af áfrýjunarkostnaði málsins, 151.490 krónur.

Ákærði Svavar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 1.498.000 krónur, svo og 1/10 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, 60.596 krónur.

Ákærði Þ greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, sem í heild eru ákveðin 1.698.000 krónur, og helming þóknunar verjanda síns á rannsóknarstigi, Sveins Skúlasonar héraðsdómslögmanns, sem alls er ákveðin 111.677 krónur. Þá greiði ákærði Þ einnig 1/10 hluta af áfrýjunarkostnaði málsins, 60.596 krónur.

Ákærði Ólafur Haukur greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns í héraði, Sigurðar A. Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, og fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem í heild eru ákveðin 1.000.000 krónur og 498.000 krónur, svo og 1/10 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, 60.596 krónur.

Allur annar sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda annarra ákærðu en að framan greinir í héraði með þeim fjárhæðum, sem ákveðnar voru í hinum áfrýjaða dómi, og málsvarnarlaun fyrir Hæstarétti til skipaðs verjanda ákærða X, Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns, ákærða Y, Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns, og ákærða Z, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 498.000 krónur í hlut hvers.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. mars sl., endurupptekið 30. mars og dómtekið á ný sama dag, er höfðað með ákæru Ríkislögreglustjórans útgefinni 9. júní 2005.

A.

Á hendur Eyjólfi Sveinssyni og Svavari Ásbjörnssyni fyrir umboðssvik í sameiningu

Ákærða Svavari, sem var fjármálastjóri einkahlutafélagsins Visir.is, kt. […], og prókúruhafi á reikningi félagsins nr. 1154-26-252 hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, og ákærða Eyjólfi stjórnarformanni félagsins, daglegum stjórnanda þess og yfirmanni meðákærða, er gefið að sök að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína með því að ákærði Svavar millifærði, að fyrirskipan ákærða Eyjólfs, á tímabilinu frá 29. apríl til 27. maí 2002, með eftirtöldum 24 millifærslum, alls 24.821.980 krónur af umræddum tékkareikningi, og yfirdró reikninginn um 23.931.464,- krónur án þess að heimild til yfirdráttar væri fyrir hendi, og var þessum fjármunum ráðstafað að stórum hluta inn á reikninga Fréttablaðsins ehf., sem ákærði Eyjólfur var í fyrirsvari fyrir og ákærði Svavar fjármálastjóri hjá, þrátt fyrir að báðum væri fullkunnugt um að hvorki var innistæða á reikningnum né heimild til yfirdráttar af honum og skuldastaða Visir.is ehf. með þeim hætti að ljóst var að veruleg hætta væri á að félagið gæti ekki greitt Sparisjóðnum til baka þá fjármuni sem færðir voru af reikningnum:

1. 29. apríl – kr. 500.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0303-13-100125.

2. 30. apríl – kr. 2.500.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0303-13-100125.

3. 2. maí – kr. 1.000.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0303-13-100125.

4. 2. maí – kr. 149.469,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

5. 2. maí – kr. 401.881,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

6. 2. maí – kr. 370.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0303-13-100125.

7. 2. maí – kr. 1.500.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0303-13-100125.

8. 6. maí – kr. 500.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0303-13-100125.

9. 7. maí – kr. 530.630,- á reikning Ferðaskrifstofu Íslands nr. 0318-26-6700.

10. 8. maí – kr. 200.000,- á reikning Visir.is ehf. nr. 0301-26-16001.

11. 8. maí – kr. 500.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0303-13-100125.

12. 10. maí – kr. 1.500.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

13. 13. maí – kr. 920.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

14. 15. maí – kr. 50.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

15. 16. maí – kr. 2.000.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

16. 16. maí – kr. 1.500.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

17. 17. maí – kr. 1.500.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0303-13-100125.

18. 21. maí – 2.500.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0303-13-100125.

19. 21. maí – 1.500.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

20. 22. maí – 1.000.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

21. 23. maí – 1.000.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

22. 23. maí – 1.000.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

23. 24. maí – 1.200.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513-26-2690.

24. 27. maí – 1.000.000,- á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 0513.26.2690.

 

Telst þetta varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

B.

Á hendur Eyjólfi Sveinssyni og X, fyrir brot framin í rekstri […] hf., kt. […]

I. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ákærða Eyjólfi sem stjórnarformanni hlutafélagsins og ákærða X sem stjórnarmanni í því, eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið Sýslumanninum á Akureyri, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna hlutafélagsins árið 2001, samtals að fjárhæð 2.021.617,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2001

Mars                                      kr.             1.488.844

Maí                                        kr.                206.695

Júní                                        kr.                271.000

Ágúst                                     kr.                  55.078

Samtals:                               kr.            2.021.617

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

C.

Á hendur Þ, G og Z, fyrir brot framin í rekstri […] ehf., kt. […].

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða Þ sem stjórnarformanni og ákærða Z sem stjórnarmanni eru gefin að sök brot gegn lögum um virðisaukaskatt, með því að hafa ekki í samræmi við það sem lög áskilja staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árunum 2000 og 2001, samtals að fjárhæð kr. 5.915.885 og sundurliðast sem hér segir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2000

Nóv. – des.                           kr.             4.279.760                                          kr.             4.279.760          

Árið 2001

Jan. – feb.                             kr.             1.636.125                                          kr.             1.636.125

Samtals:                              kr.            5.915.885

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ákærða Þ sem stjórnarformanni, ákærða G sem framkvæmdastjóra til 30. nóvember árið 2000 og ákærða Z sem stjórnarmanni frá 26. janúar 2001 eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins á árunum 2000 og 2001, samtals að fjárhæð 15.617.739,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2000

September                            kr.             2.630.029

Október                                 kr.             2.817.784

Nóvember                            kr.             1.839.848

Desember                             kr.             2.489.999                          kr.             9.777.660

Árið 2001

Janúar                                   kr.             1.930.359

Febrúar                                 kr.             1.867.594

Mars                                      kr.             2.120.715

Apríl                                      kr.             2.247.771                          kr.             8.166.439

                                                                               Samtals:                               kr.          17.944.099

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

D.

Á hendur Þ, Y og Eyjólfi Sveinssyni, fyrir brot framin í rekstri […] hf., kt. […]

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða Þ sem framkvæmdastjóra hlutafélagsins og ákærðu Y og Eyjólfi sem stjórnarmönnum í því eru gefin að sök brot gegn lögum um virðisaukaskatt, með því að hafa ekki í samræmi við það sem lög áskilja staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni hlutafélagsins árið 2001, samtals að fjárhæð kr. 14.850.895,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Júlí – ágúst                           kr.             5.848.287                                         

Sept. – okt.                           Kr.            3.685.834

Nóv. – des.                           kr.             5.316.774                                         

Samtals:                               kr.          14.850.895

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Sömu aðilum eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna hlutafélagsins á árunum 2001 og 2002, samtals að fjárhæð 17.944.099,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2001

September                            kr.             2.630.029

Október                                 kr.             2.817.784

Nóvember                            kr.             1.839.848

Desember                             kr.             2.489.999                          kr.             9.777.660

Árið 2002

Janúar                                   kr.             1.930.359

Febrúar                                 kr.             1.867.594

Mars                                      kr.             2.120.715

Apríl                                      kr.             2.247.771                          kr.             8.166.439

                                                                               Samtals:                               kr.          17.944.099

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

E.

Á hendur Þ, fyrir brot framin í rekstri […] ehf., kt. […]

Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða Þ er gefið að sök brot gegn lögum um virðisaukaskatt, með því að hafa í starfi sínu sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í einkahlutafélaginu, ekki staðið Sýslumanninum í Hafnarfirði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins árið 2002, samtals að fjárhæð kr. 5.748.579,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Maí – júní                            kr.             3.163.851

Júlí – ágúst                           kr.                912.568                                         

Nóv. – des.                           kr.             1.672.160                                         

Samtals:                               kr.            5.748.579

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ákærða Þ er gefið að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið Sýslumanninum í Hafnarfirði, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins á árunum 2002 og 2003, samtals að fjárhæð 8.899.938,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2002

Júlí                                         kr.             1.094.558

Ágúst                                     kr.             1.336.103

September                            kr.             1.140.646

Október                                 kr.             1.582.133

Nóvember                            kr.             1.321.142

Desember                             kr.             1.329.792                          kr.             8.074.374

Árið 2003

Janúar                                   kr.                825.564                                          kr.                825.564

                                                                               Samtals:                               kr.            8.899.938

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

F.

Á hendur F og Eyjólfi Sveinssyni , fyrir brot framin í rekstri […] ehf., kt. […].

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða F sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins og ákærða Eyjólfi sem stjórnarmanni þess og daglegum stjórnanda er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa ekki í samræmi við það sem lög áskilja staðið Sýslumanninum í Hafnarfirði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins árið 2001. Ákærða F er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á kr. 1.587.505,- vegna tímabilsins maí-júní umrætt ár, en ákærða Eyjólfi að hafa ekki staðið skil á samtals kr. 4.616.980,- sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Maí - júní                             kr.             1.587.505

Júlí – ágúst                           kr.             2.246.769

Sept. – okt.                           kr.                782.706                          

Samtals:                               kr.            4.616.980

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ákærða Eyjólfi er gefið að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið Sýslumanninum í Hafnarfirði, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins árið 2001, samtals að fjárhæð 781.215,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Nóvember                            kr.                473.637

Desember                             kr.                307.578          

Samtals:                               kr.               781.215          

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

G.

Á hendur C og Eyjólfi Sveinssyni, fyrir brot framin í rekstri Visir.is ehf., kt. […]

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða C sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins og ákærða Eyjólfi sem stjórnarformanni þess eru gefin að sök brot gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa ekki í samræmi við það sem lög áskilja staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins árið 2001, samtals að fjárhæð kr. 512.448,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Sept. – okt.                           kr.                110.559

Nóv. – des.                           kr.                401.889          

Samtals:                               kr.               512.448

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Sömu aðilum eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins árið 2001, samtals að fjárhæð 5.197.389,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

September                            kr.             1.126.131

Október                                 kr.             1.296.276

Nóvember                            kr.             1.708.738

Desember                             kr.                916.244          

Samtals:                               kr.            5.197.389          

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998

H.

Á hendur Eyjólfi Sveinssyni og X, fyrir brot framin í rekstri Fréttablaðsins  ehf., kt. […].

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða Eyjólfi sem stjórnarformanni einkahlutafélagsins og ákærða X sem stjórnarmanni í því eru gefin að sök brot gegn lögum um virðisaukaskatt, með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins árið 2002, samtals að fjárhæð kr. 2.427.185,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Jan. – feb.                             kr.               -645.535

Mars – apríl                         kr.             2.673.869

Maí - júní                             kr.                849.645

Júlí – ágúst                           kr.               -215.909

Sept. – okt.                           kr.               -234.885                          

Samtals:                               kr.            2.427.185

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Sömu aðilum eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins árið 2002, samtals að fjárhæð 10.425.212,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Janúar                                   kr.             2.176.368

Febrúar                                 kr.             2.083.421

Mars                                      kr.             1.849.395

Apríl                                      kr.             1.730.748

Maí                                        kr.             1.137.581

Júní                                        kr.             1.136.478

Júlí                                         kr.                140.902

Ágúst                                     kr.                170.319          

Samtals:                               kr.          10.425.212          

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998

I.

Á hendur X, Eyjólfi Sveinssyni og Ólafi Hauki Magnússyni, fyrir brot framin í rekstri ÍP-prentþjónustunnar  ehf., kt. […].

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða Ólafi Hauki sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins, ákærða X sem stjórnarformanni og ákærða Eyjólfi sem stjórnarmanni eru gefin að sök brot gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árunum 2001 og 2002, samtals að fjárhæð kr. 2.599.193,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2001

Nóv. – des.                           kr.             2.229.061                                          kr.             2.229.061          

Árið 2002

Jan. – feb.                             kr.                370.132                                          kr.                370.132

Samtals:                              kr.            2.599.193

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Sömu aðilum eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins á árunum 2001 og 2002, samtals að fjárhæð 4.265.326,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2001

Nóvember                            kr.                792.323

Desember                             kr.                999.358                          kr.             1.791.681

Árið 2002

Janúar                                   kr.                690.680

Febrúar                                 kr.                681.664

Mars                                      kr.                543.977

Apríl                                      kr.                557.324                          kr.             2.473.645

                                                                               Samtals:                               kr.            4.265.326

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Með breytingaskjali sem lagt var fram í upphafi aðalmeðferðar 27. febrúar sl., voru gerðar eftirfarandi breytingar á hluta ákæru:

C.

Á hendur Þ, G og Z, fyrir brot framin í rekstri […] ehf., kt. […].

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða Þ sem stjórnarformanni og ákærða Z sem stjórnarmanni eru gefin að sök brot gegn lögum um virðisaukaskatt, með því að hafa ekki í samræmi við það sem lög áskilja staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árunum 2000 og 2001, samtals að fjárhæð kr. 5.915.885 og sundurliðast sem hér segir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2000

Nóv. – des.                           kr.             4.279.760                                          kr.             4.279.760          

Árið 2001

Jan. – feb.                             kr.             1.636.125                                          kr.             1.636.125

Samtals:                              kr.            5.915.885

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ákærða Þ sem stjórnarformanni, ákærða G sem framkvæmdastjóra til 30. nóvember árið 2000 og ákærða Z sem stjórnarmanni frá 26. janúar 2001 eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins á árunum 2000 og 2001, samtals að fjárhæð 15.617.739,- (kr. 10.049.180) og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2000

Athuga að júní (kr. 1.812.481), júlí (kr. 1.711.754) og ágúst (kr. 2.044.324) detta út

September                            kr.             2.630.029 (kr. 1.495.123)

Október                                 kr.             2.817.784 (kr. 1.662.757)

Nóvember                            kr.             1.839.848 (kr. 1.781.034)

Desember                             kr.             2.489.999 (kr. 2.071.871)                              kr.             9.777.660

                                                                                                                                              (kr.         7.010.785)

Árið 2001

Janúar                                   kr.             1.930.359 (kr. 1.026.491)

Febrúar                                 kr.             1.867.594 (kr. 1.153.421)

Mars                                      kr.             2.120.715 (kr. 858.483)

Apríl                                      kr.             2.247.771                                                          kr.             8.166.439

(kr. 3.038.395)

                                                                               Samtals:                               kr.          17.944.099

                                                                                                                              (kr.         10.049.180)        

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

E.

Á hendur Þ, fyrir brot framin í rekstri […] ehf., kt. […].

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða Þ er gefið að sök brot gegn lögum um virðisaukaskatt, með því að hafa í starfi sínu sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í einkahlutafélaginu, ekki staðið Sýslumanninum í Hafnarfirði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins árið 2002, samtals að fjárhæð kr. 5.748.579,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Maí – júní                            kr.             3.163.851

Júlí – ágúst                           kr.                912.568                                         

Nóv. – des.                           kr.             1.672.160                                         

Samtals:                               kr.            5.748.579

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Ákærða Þ er gefið að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið Sýslumanninum í Hafnarfirði, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins á árunum 2002 og 2003, samtals að fjárhæð 8.899.938,- (kr. 8.629.938) og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2002

Júlí                                         kr.             1.094.558

Ágúst                                     kr.             1.336.103

September                            kr.             1.410.646 (kr. 1.140.646)

Október                                 kr.             1.582.133

Nóvember                            kr.             1.321.142

Desember                             kr.             1.329.792                                          kr.             8.074.374

                                                                                                                              (kr.            7.804.374)

Árið 2003

Janúar                                   kr.                825.564                                          kr.                825.564

                                                                               Samtals:                               kr.            8.899.938

                                                                                                                              (kr.         8.629.938)

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

G.

Á hendur C og Eyjólfi Sveinssyni, fyrir brot framin í rekstri Visir.is ehf., kt. […].

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða C sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins og ákærða Eyjólfi sem stjórnarformanni þess eru gefin að sök brot gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa ekki í samræmi við það sem lög áskilja staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins árið 2001, samtals að fjárhæð kr. 512.448,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Sept. – okt.                           kr.                110.559

Nóv. – des.                           kr.                401.889          

Samtals:                               kr.               512.448

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Sömu aðilum eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins árið 2001, samtals að fjárhæð 5.197.389,- (kr. 5.047.389) og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

September                            kr.             1.276.131 (kr. 1.126.131)

Október                                 kr.             1.296.276

Nóvember                            kr.             1.708.738

Desember                             kr.                916.244          

Samtals:                               kr.            5.197.389          

                                               (kr.         5.047.389)

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998

H.

Á hendur Eyjólfi Sveinssyni og X, fyrir brot framin í rekstri Fréttablaðsins  ehf., kt. […].

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða Eyjólfi sem stjórnarformanni einkahlutafélagsins og ákærða X sem stjórnarmanni í því eru gefin að sök brot gegn lögum um virðisaukaskatt, með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins árið 2002, samtals að fjárhæð kr. 2.427.185,- og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Jan. – feb.                             kr.               -645.535

Mars – apríl                         kr.             2.673.869

Maí - júní                             kr.                849.645

Júlí – ágúst                           kr.               -215.909

Sept. – okt.                           kr.               -234.885                          

Samtals:                               kr.            2.427.185

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II. Brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Sömu aðilum eru gefin að sök brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa ekki staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem  haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins árið 2002, samtals að fjárhæð 10.425.212,- (kr. 8.977.513) og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Janúar                                   kr.             2.176.368

Febrúar                                 kr.             2.083.421

Mars                                      kr.             1.849.395

Apríl                                      kr.             1.730.748

Maí                                        kr.             1.137.581

Júní                                        kr.             1.136.478

Júlí                                         kr.                140.902

Ágúst                                     kr.                170.319          

Samtals:                               kr.          10.425.212          

                                               (kr.         8.977.513)

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Ákærukafli A - Visir.is

Með bréfi 29. maí 2002 lagði Kristján Þorbergsson hæstaréttarlögmaður, fh. Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, fram kæru á hendur fyrirsvarsmönnum einkahlutafélagsins Vísis.is. Í kærunni er rakið að starfsmenn útibús sparisjóðsins í Skeifunni hafi 28. maí 2002 orðið þess áskynja að reikningur einkahlutafélagsins nr. 252 hafi verið skuldfærður um 23.900.000 krónur þrátt fyrir að engin heimild hafi verið veitt til stofnunar yfirdráttar á reikninginn. Að sönnu hafi ekki átt að vera unnt að yfirdraga reikninginn án heimildar, en svo hafi virst sem ,,veila” í tölvukerfi bankanna hafi gert yfirdrátt mögulegan. Skuldfærslurnar hafi verið framkvæmdar um tölvu reikningseiganda í ,,heimabanka forriti”. Umboð af hálfu reikningseiganda til að eiga viðskipti með greindan reikning hafi haft Svavar Ásbjörnsson, einn ákærðu í máli þessu. Í bréfinu er tekið fram að hinu dregna fé hafi aðallega verið stefnt inn á reikninga annars félags, tengt reikningseiganda. 

Með kæru sparisjóðsins var sent afrit umsókn um stofnun reiknings nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, undirrituð 18. mars 1999. Einkahlutafélagið Vísir.is er umsækjandi um stofnun reikningsins. Undir umsóknina ritar H. Í umsókn er tilgangur með notkun reikningsins skýrður ,,Internet miðlun”. Umsókninni fylgir yfirlýsing til sparisjóðsins undirrituð af H í stjórn Vísis.is ehf., um að á stjórnarfundi félagsins hafi verið ákveðið að fara þess á leit að fá stofnaðan tékkareikning í nafni félagsins og að ákveðið hafi verið að fela gjaldkera að annast stofnun reikningsins og honum jafnframt gefið umboð til að gefa út tékka á reikninginn. Ekki er getið um fundardag stjórnarfundar þar sem framangreind ákvörðun var tekin. Þá fylgir kæru afrit af samningi um gíróviðskipti. Í samningi, sem undirritaður er 7. apríl 1999 af H fh. Vísis.is ehf., segir að Vísir.is ehf. og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis geri með sér samning um viðskipti vegna A/B-gíróseðla. Í samningi er kveðið á um að kaupandi greiði greiðslugjald til sparisjóðsins af hverjum greiddum A/B-gíróseðli og sé greiðslan skuldfærð af reikningi. Fyrir hönd sparisjóðsins ritar undir samninginn A. Þá er í gögnum er send voru lögreglu umsókn um aðgang að ,,Heimabanka sparisjóðanna”. Undir þá umsókn ritar gjaldkeri fh. Vísis.is ehf. 23. apríl 1999. Í skilmálum er tekið fram að umsækjandi hafi kynnt sér notkunarreglur og skilmála sem gildi um ,,Heimabanka sparisjóðanna” og að hann skuldbindi sig til að lúta þeim að öllu leyti. Með gögnum var sent afrit af umboði til ákærða til úttektar af tékkareikningi nr. 252. Umboðið er dagsett 2. júlí 2001 og undir það ritar B fh. Vísis.is ehf.  

Með kæru fylgdu yfirlit reiknings nr. 252. Bera þau með sér færslur á reikninginn frá 29. apríl 2002 til 28. maí 2002. Upphafsstaða reikningsins 29. apríl 2002 er 711 krónur, en lokastaða þann dag 499.288 krónur í mínus. Yfirlit ber með sér að þennan dag eru 12.000.000 króna færðar inn á reikninginn en út af honum færðar greiðslur í nokkrum færslum allt þar til hann nær upphaflegri stöðu sinni 711 krónum. Eftir það eru færðar út af reikningnum 500.000 krónur. Samkvæmt yfirliti er lögregla hefur tekið saman um reikninginn er sú fjárhæð færð inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 303-13-100125. Samkvæmt yfirliti eru næsta dag teknar út af reikningnum 2.500.000 krónur. Sú fjárhæð er færð inn á reikning Fréttablaðsins ehf. nr. 303-13-100125. Lokastaða reikningsins þann dag er 2.999.288 krónur í mínus. Næsta dag eru færðar inn á reikninginn 149.469 krónur annars vegar og 401.881 króna hins vegar. Út af reikningi eru færðar þær tilteknu fjárhæðir í tveimur færslum inn á reikning nr. 513-26-2690 í eigu Fréttablaðsins ehf. Sama dag eru færðar út af reikningnum 1.000.000 krónur, 370.000 krónur og 1.500.000 krónur. Allar þessar greiðslur eru færðar inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 303-13-100125. Þann 6. maí 2002 eru færðar út af reikningi 500.000 krónur. Greiðslan er færð inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 303-13-100125. Í lok þess dags er reikningurinn alls yfirdreginn um 6.369.288 krónur. Næsta dag eru teknar út af reikningnum 530.630 krónur. Sú fjárhæð er færð inn á reikning Ferðaskrifstofu Íslands. Næsta dag eru færðar inn á reikninginn 31.125 krónur, en út af honum tvær greiðslur, annars vegar 200.000 krónur og hins vegar 500.000 krónur. Fyrri greiðslan er færð inn á reikning Vísis.is ehf., en sú síðari inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 303-13-100125. Í lok dags er reikningurinn yfirdreginn um 7.568.793 krónur. Þann 10. maí 2002 eru tekin út af reikningnum þjónustugjöld að fjárhæð 186 krónur og greiðsla að fjárhæð 1.500.000 krónur, sem færð er inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 513-26-2690. Þann 13. maí 2002 eru teknar út af reikningi 920.000 krónur, sem færðar eru inn á reikning Fréttablaðsins, nr. 513-26-2690. Í lok dags er reikningurinn yfirdreginn um alls 9.999.979 krónur. Þann 15. maí 2002 eru teknar út af reikningi 50.000 krónur, sem færðar eru inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 513-26-2690. Næsta dag eru færðar inn á reikninginn 58.515 krónur en út af honum 2.000.000 króna og 1.500.000 krónur og báðar greiðslurnar færðar inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 513-26-2690. Í lok dags er reikningurinn yfirdreginn um 13.480.464 krónur. Næsta dag, eða 17. maí, eru teknar út af reikningnum 1.500.000 krónur og fjárhæðin færð inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 303-13-100125. Þann 21. maí eru teknar út af reikningnum 2.500.000 krónur og 1.500.000 krónur. Fyrri greiðslan er færð inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 303-13-100125, en sú síðari inn á reikning sama eiganda, nr. 513-26-2690. Í lok dags er reikningurinn yfirdreginn um 18.980.464 krónur. Næsta dag eru teknar út 1.000.000 króna og fjárhæðin færð inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 513-26-2690. Þann 23. maí 2002 eru færðar inn á reikninginn 249.000 krónur, en út af honum tvær færslur að fjárhæð 1.000.000 króna hvor. Báðar þær greiðslur eru færðar inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 513-26-2690. Er reikningurinn í lok dags yfirdreginn um 21.731.464 krónur. Næsta dag, eða 24. maí, eru teknar út af reikningnum 1.200.000 krónur og fjárhæðin færð inn á reikning Fréttablaðsins ehf, nr. 513-26-2690. Þann 27. maí 2002 eru teknar út af reikningnum 1.000.000 króna og sú fjárhæð færð inn á reikning Fréttablaðsins ehf., nr. 513-26-2690. Er reikningurinn í lok dagsins yfirdreginn um samtals 23.931.464 krónur.  

Í rannsóknargögnum er gerð grein fyrir færslum á bankareikningum í eigu Fréttablaðsins ehf. Eru reikningarnir með banka og reikningsnúmerin 0303-13-100125 og 0453-26-2690. Millifærslur út af reikningi Vísis.is ehf. nr. 252 runnu að mestu leyti inn á þessa tvo reikninga Fréttablaðsins. Nokkur hreyfing hefur verið á þessum reikningum á tímabilinu 26. apríl 2002 til 31. maí 2002. Þann 29. apríl 2002 voru 500.000 krónur færðar af reikningi nr. 252 inn á reikning nr. 0303-13-100125. Aðrar innborganir á reikninginn þann dag nema talsverðum fjárhæðum og munar þar einna mest um innborganir að fjárhæð 1.000.000 króna og 3.000.000 króna. Þann 30. apríl voru færðar af reikningi nr. 252 inn á reikninginn 2.500.000 krónur. Er það nánast eina innborgunin á reikninginn þann dag. Þann 2. maí 2002 fara út af reikningi nr. 252 inn á reikninginn 370.000 krónur, 1.000.000 króna og 1.500.000 krónur. Aðrar innborganir á reikninginn þann dag eru óverulegar. Þann 3. maí 2002 eru óverulegar innborganir á reikninginn. Þann 6. maí 2002 fara út af reikningi nr. 252 inn á reikninginn 500.000 krónur. Þennan dag kemur einnig inn á reikninginn greiðsla að fjárhæð 1.000.000 króna. Aðrar innborganir eru óverulegar þennan dag en útgreiðslur margar í litlum fjárhæðum. Þann 7. maí 2002 er ein lítil færsla út af reikningnum en næsta dag fara 500.000 krónur út af reikningi nr. 252 inn á reikninginn. Aðrar innborganir eru óverulegar. Þann 10. maí 2002 eru óverulegar innborganir á reikninginn en fjöldi lágra úttekta. Þann 13. maí 2002 er nánast engin hreyfing á reikningnum og gildir það sama um 14. og 15. maí. Þann 16. maí eru lagðar inn á reikninginn 1.900.000 krónur og 750.000 krónur. Aðrar innborganir nema ekki verulegum fjárhæðum. Þann 17. maí 2002 eru færðar inn á reikninginn 1.500.000 krónur af reikningi nr. 252. Er það eina verulega innborgunin á reikninginn þann dag. Næst er hreyfing á reikningnum 21. maí 2002 er lagðar eru inn á hann 2.500.000 krónur af reikningi nr. 252. Aðrar innborganir eru óverulegar, en talsverðar fjárhæðir færðar út af reikningnum. Næsta dag eru lagðar inn á reikninginn 109.000 krónur og 261.749 krónur. Aðrar innborganir eru óverulegar en nokkrar greiðslur út af reikningi í lágum fjárhæðum. Þann 23. maí 2002 eru lagðar inn á reikninginn 600.000 krónur og 156.870 krónur. Aðrar innborganir nema ekki háum fjárhæðum. Næsta dag er lítið lagt inn á reikninginn. Næst er hreyfing á reikningnum 27. maí 2002, en þann dag eru í tvígang lagðar inn á reikninginn 99.600 krónur. Aðrar innborganir eru óverulegar. Þann 28. maí er ekkert lagt inn á reikninginn. Innborgun að fjárhæð 8.880 krónur er eina hreyfingin á reikningnum 29. maí, en engar teljandi fjárhæðir eru lagðar inn á hann 30. maí 2002. Óveruleg hreyfing er á reikningnum 31. maí og vart teljandi innborganir. Reikningurinn ber með sér að hafa aðallega verið notaður fyrir launagreiðslur.

Að því er varðar tékkareikning Fréttablaðsins ehf. nr. 2690 í banka nr. 0513 voru færðar inn á þann reikning 2. maí 2002 út af reikningi nr. 252 tvær greiðslur vegna flokkaðra auglýsinga. Aðrar innborganir á reikninginn þann dag að ráði voru 500.000 krónur, 165.046 krónur og 150.000 krónur. Nokkur fjöldi er af útgreiðslum af reikningnum þann dag. Þann 3. maí 2002 eru lagðar inn á reikninginn 460.000 krónur, 200.000 krónur, 149.400 krónur og 2.900.000 krónur. Aðrar innborganir eru óverulegar. Næst er hreyfing á reikningnum 6. maí, en þann dag eru lagðar inn á hann 904.000 krónur og 150.000 krónur. Aðrar innborganir eru óverulegar, en nokkur fjöldi af greiðslum út af reikningnum. Næsta dag eru lagðar inn á reikninginn 224.100 krónur, 1.300.000 krónur, 150.000 krónur og 2.400.000 krónur. Aðrar innborganir eru óverulegar. Augljóslega er verið að greiða laun þennan dag og útgreiðslur töluverðar. Næst er hreyfing á reikningnum 10. maí 2002, en þá eru lagðar inn á hann 1.500.000 krónur, sem millifærðar eru út af reikningi nr. 252. Aðrar innborganir eru 268.920 krónur, 360.231 króna, 5.000.000 króna og 1.000.000 króna. Aðrar innborganir eru óverulegar en enn er verið að greiða laun. Þann 13. maí 2002 eru lagðar inn á reikninginn 920.000 krónur sem koma af reikningi nr. 252. Aðrar innborganir eru 1.000.000 króna og 140.063 krónur. Aðrar innborganir eru óverulegar. Næsta dag, eða 14. maí, eru lagðar inn á reikninginn talsverðar fjárhæðir. Innborganir eru 5.000.000 króna, 338.740 krónur, 830.664 krónur og 1.000.000 króna. Talsverðar færslur eru út af reikningnum þann dag. Þann 15. maí 2002 eru lagðar inn á reikninginn 50.000 krónur sem koma af reikningi nr. 252. Aðrar innborganir að ráði eru færslur að fjárhæð 150.000 krónur og 90.027 krónur. Talsverður fjöldi er af greiðslum út af reikningnum. Þann 16. maí eru færðar inn á reikninginn af reikningi nr. 252, tvær greiðslur. Er önnur að fjárhæð 2.000.000 króna en hin 1.500.000 krónur. Aðrar innborganir á reikninginn eru 1.580.000 krónur og 1.000.000 króna. Aðrar innborganir eru óverulegrar fjárhæðar. Töluvert háar fjárhæðir fara út af reikningnum þennan dag. Þann 17. maí 2002 eru lagðar inn á reikninginn 1.283.000 krónur, 500.000 krónur, 124.500 krónur og 950.000 krónur. Aðrar innborganir eru óverulegrar fjárhæðar. Næst er hreyfing á reikningnum 21. maí 2002. Þann dag eru lagðar inn á reikninginn 1.500.000 krónur sem koma af reikningi nr. 252. Aðrar innborganir teljandi fjárhæðar eru 285.728 krónur. Þann 22. maí 2002 eru lagðar inn á reikninginn 1.000.000 króna sem koma af reikningi nr. 252. Aðrar innborganir verulegrar fjárhæðar eru 109.000 krónur, 230.000 krónur, 93.375 krónur og 245.016 krónur. Talsverður fjöldi útborgana er af reikningnum þennan dag. Þann 23. maí eru lagðar inn á reikninginn tvær fjárhæðir sem koma af reikningi Vísis.is ehf. nr. 252. Eru 1.000.000 króna í tvígang lagðar inn á reikninginn. Aðrar innborganir verulegrar fjárhæðar eru 268.320 krónur og 121.600 krónur. Þann 24. maí eru 1.200.000 krónur lagðar inn á reikninginn sem koma af reikningi nr. 252. Önnur greiðsla verulegrar fjárhæðar þennan dag er 550.000 krónur. Næst er hreyfing á reikningnum 27. maí 2002. Þann dag eru lagðar inn á hann 1.000.000 króna sem koma af reikningi nr. 252. Aðrar innborganir verulegrar fjárhæðar eru 178.100 krónur, 253.000 krónur, 336.130 krónur og 204.900 krónur. Þann 28. maí eru lagðar inn á reikninginn 300.000 krónur og 200.000 krónur. Aðrar greiðslur eru óverulegrar fjárhæðar. Þann 29. maí 2002 eru óverulegar fjárhæðir lagðar inn á reikninginn og færslur á reikningi einungis þrjár. Þann 30. maí eru lagðar inn á reikninginn 450.000 krónur, 1.500.000 krónur, 850.000 krónur og 257.578 krónur. Aðrar innborganir eru óverulegar. Loks eru 31. maí 2002 lagðar inn á reikninginn 250.000 krónur, 2.000.000 króna, 416.465 krónur og 2.000.000 króna. Aðrar fjárhæðir eru óverulegar.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá eru samþykktir einkahlutafélagsins Vísis.is, til heimilis að […] í Reykjavík, frá 4. júní 1999. Stjórn félagsins skipa samkvæmt fundi í félaginu 14. desember 1998 Eyjólfur Sveinsson, sem er formaður stjórnar og X meðstjórnandi. Samþykktir félagsins samþykktar 14. desember 1998 liggja frammi í málinu. Undir þær rita ákærði Eyjólfur, X og H. Nýjar samþykktir fyrir félagið frá 17. mars 1999 liggja einnig frammi. Undir þær rita ákærði Eyjólfur og H. Frammi liggur tilkynning til hlutafélagaskrár frá 3. október 2001, sem móttekin hefur verið 23. október sama ár, þar sem ákærði Eyjólfur tilkynnir hlutafélagaskrá, sem stjórnarformaður Vísis.is ehf., að C hafi verið ráðinn sem framkvæmdastjóri fyrir Vísi.is ehf. Með tilkynningu 3. maí 2002 segir C af sér starfi sem framkvæmdastjóri félagsins. Þá fylgir tilkynning til hlutafélagaskrár frá 23. nóvember 2002 þar sem H tilkynnir að hann hafi sagt sig úr stjórn Vísis.is ehf. Tilkynningin er móttekin hjá Hagstofu Íslands 3. desember 2001.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá eru samþykktir einkahlutafélagsins Fréttablaðsins, skráð til heimilis að Þverholti 11 í Reykjavík, frá 2. mars 2001. Á fundi 2. mars 2001 hafi Eyjólfur Sveinsson verið formaður stjórnar. X er skráður meðstjórnandi. Ekki er getið um framkvæmdastjóra fyrir félagið. Samþykktir félagsins frá 2. mars 2001 liggja frammi í málinu.

Í gögnum málsins liggur frammi bréf frá 26. apríl 2002, er ákærði Svavar hefur ritað undir, og beint er til tiltekinnar Elsu. Ekki koma fram upplýsingar um eftirnafn Elsu, né hvar nefndur einstaklingur starfi. Í bréfinu er farið fram á að úttektarheimild í fyrirtækjabanka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, sem skráður sé á Vísi.is ehf., verði hækkuð úr 5.000.000 króna í 20.000.000 króna. 

Í rannsóknargögnum málsins liggur frammi óundirritaður kaupsamningur á milli Vísis.is ehf. og Femin ehf. Samningurinn er dagsettur 24. apríl 2002 og hið selda rekstur á Vísir.is og allar rekstrartengdar eignir þess, t.d. hugbúnaður, tölvubúnaður og annað lausafé samkvæmt viðauka I í samningi. Að auki er selt lénið visir.is og nafnið Vísir.is, viðskiptavild og allt annað markaðstengt efni samkvæmt viðauka I. Umsamið kaupverð er 60.000.000 króna. Við undirritun samnings skal greiða 12.000.000 króna og 18.000.000 króna 29. apríl 2002. Gefa skal út verðtryggt skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð Baugs hf. sem nemur greiðslu að fjárhæð 20.000.000 króna. Þá skulu 25. júlí 2002 greiddar með peningum 10.000.000 króna. Ekki kemur fram í samningi hvar greiðslu skuli inna af hendi. Þá er í gögnum málsins afrit af tölvupóstskeyti sem sent hefur verið 26. apríl 2002 úr tölvupósti ákærða Svavars til Q héraðsdómslögmanns, með afriti til ákærða Eyjólfs, I og J. Skjalið ber fyrirsögnina ,,greiðslufyrirmæli”. Fram kemur að með vísan til kaupsamnings frá 24. apríl 2002 vegna sölu á Vísi.is til Femin ehf. skuli 12.000.000 króna, sem greiðast eigi þennan dag og 18.000.000 króna sem greiðast eigi mánudaginn 29. apríl 2002 greiðast inn á reikning Vísis.is ehf. nr. 1154-26-252. Skjalið ber nafn ákærða Svavars. Tengt þessu skeyti er afrit úr tölvupósti ákærða Svavars frá 30. apríl 2002, aftur sent til Q og með afrit til ákærða Eyjólfs, I og J, sem og X, með skilaboðum um að vegna erfiðleika með netbanka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis þurfi að breyta reikningi í greiðslufyrirmælum. Óskað er eftir að greiðsla verði lögð inn á reikning í eigu Vísis.is ehf. nr. 301-26-16001, ef greiðsla hafi ekki þegar farið fram. Loks ber þetta skjal með sér að hafa verið sent 1. apríl 2004 úr tölvupósti Q til lögreglufulltrúa hjá ríkislögreglustjóra.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2002 var bú Vísis.is ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2002 var bú Fréttablaðsins ehf. tekið til gjaldþrotaskipta.

Föstudaginn 21. júní 2002 var skýrsla tekin af ákærða Svavari Ásbjörnssyni hjá lögreglu. Greindi hann svo frá að hann hafi starfað sem rekstrarstjóri Vísis ehf. frá í júlí 2001 til áramóta 2001 til 2002. Undir hans starfsvið hafi fallið að hafa umsjón með bókhaldi og greiðslu reikninga. Hafi ákærði verið milliliður milli bókhalds og þeirra aðila sem séð hafi um innheimtu fyrir félagið. Þá hafi hann haft með samskipti við lánadrottna félagsins að gera. Yfirmaður ákærða hjá Vísi.is ehf. fram í október 2001 hafi verið B, en eftir það C, sem tekið hafi við sem framkvæmdastjóri. Um áramótin 2001 til 2002 hafi ákærði farið að starfa hjá Fréttablaðinu ehf. Hafi hann þar gegnt stöðu fjármála- og rekstrarstjóra og séð um bókhald og innheimtur. Eyjólfur Sveinsson, meðákærði, hafi verið yfirmaður hans hjá Fréttablaðinu ehf. Ekki kvaðst ákærði vita hvort meðákærði hafi verið titlaður framkvæmdastjóri, en hafa vitneskju um að meðákærði hafi borið titilinn útgáfustjóri. Reikningur nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis væri innheimtureikningur fyrir Vísi.is ehf. og hafi ákærði verið skráður með prókúru á þann reikning. Hafi ákærði notað reikninginn í störfum sínum fyrir félagið og haft fullan aðgang að honum. Vefur Vísis.is ehf. hafi verið seldur í lok apríl 2002. Eftir það hafi reikningurinn verið notaður í samvinnuverkefni Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. á þann hátt að inn á reikninginn hafi borist greiðslur frá VISA Ísland vegna smáauglýsinga sem hafi verið birtar í Fréttablaðinu. Hafi ákærði m.a. millifært fjárhæðir af þessum reikningi yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. 

Meðákærði hafi leitað til sín við stofnun einkahlutafélagsins Blaðavinnslunnar og óskað eftir því að ákærði tæki að sér að verða stjórnarformaður félagsins. Hafi ákærði fallist á það. Hafi hann litið á það sem skyndilausn og eingöngu hafa verið stjórnarformaður að nafninu til. Hafi hann í raun ekkert haft með félagið að gera. Enginn framkvæmdastjóri hafi verið skráður hjá félaginu. Einn varamaður hafi verið skráður í stjórn, en hann hafi starfað sem ritari hjá meðákærða. Félagið hafi verið stofnað í kringum kaup á prentvél. Við sölu á Ísafoldarprentsmiðjunni hafi Blaðavinnslan ehf. verið stofnuð til að standa að kaupum á prentvél frá Ísafoldarprentsmiðju. Sú vél hafi verið notuð til að prenta Fréttablaðið. Eftir þessi viðskipti hafi Blaðavinnslan ehf. leigt Ísafoldarprentsmiðjunni prentvélina til prentunar á Fréttablaðinu. Engin viðskipti hafi verið á milli Blaðavinnslunnar ehf. og Fréttablaðsins ehf. Er ákærði var beðinn um að gera grein fyrir millifærslum af reikningi Fréttablaðsins ehf. yfir á reikning Blaðavinnslunnar ehf. kvað ákærði greiðslur frá meðákærða eiga að vera fyrir hendi á móti öllum greiðslum Fréttablaðsins ehf. til Blaðavinnslunnar ehf. til að stemma fjárhæðir af. Ekki kvaðst ákærði kunna skýringar á þessu fyrirkomulagi, en hann hafi fengið fyrirmæli frá meðákærða um að millifæra fjárhæðir með þessum hætti. Greiðslur frá Fréttablaðinu ehf. inn á reikning Blaðavinnslunnar ehf. hafi komið til vegna kaupa á prentvélinni. Ekki kvaðst ákærði vita hvað prentvélin hafi kostað.  

Ákærði kvaðst hafa framkvæmt allar millifærslur af reikningi nr. 252 lok apríl 2002 og í maí sama ár í góðri trú og talið allt vera í stakasta lagi. Ekki hafi ákærði haft samráð við neinn í varðandi millifærslurnar, en talið sig áður vera búinn að fá beiðni um frá meðákærða að greiða skuldir Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. Kvaðst ákærði telja að þær skuldir hafi numið um 15.000.000 króna, og þær komið til vegna þjónustu og lána. Inn á þennan sama reikning hafi komið greiðslur fyrir sölu á netmiðli Vísis.is ehf. Ákærði kvaðst hafa gert sér grein fyrir því að með millifærslum í lok apríl og í maí 2002 hafi reikningur nr. 252 verið kominn á yfirdrátt. Þá kvaðst hann hafa haft vitneskju um að fram til þess tíma hafi ekki verið til staðar heimild til að yfirdraga reikninginn. Hafi ákærði talið sig hafa orð C fyrrverandi framkvæmdastjóra Vísis.is ehf. fyrir því að komið væri vilyrði um fyrirgreiðslu hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Þó hafi ákærði ekki fengið nánari skýringar á í hvaða formi sú fyrirgreiðsla ætti að vera. Hafi ákærði ,,gefið sér” þegar hann hafi getað skuldfært reikning nr. 252 að þar væri komin sú fyrirgreiðsla er C hefði verið að vísa til. Ákærði hafi þó aldrei fengið neinar upplýsingar um hve há sú fyrirgreiðsla væri eða hvort hún væri í formi yfirdráttarheimildar á þennan reikning. Um áramótin 2001 til 2002 hafi ákærði gert tilraun til að millifæra af þessum reikningi sem hafi leitt til þess að reikningurinn hafi farið á yfirdrátt. Sú tilraun hafi verið stöðvuð í sparisjóðnum og ákærði ekki getað framkvæmt umrædda millifærslu. Í ljósi þess hafi virst undarlegt að í lok apríl 2002 væri unnt að framkvæma millifærslu án þess að heimild hafi verið fyrir því. Ákærði kvað Z hafa starfað sem innheimtustjóra hjá Vísi.is ehf. og Fréttablaðinu ehf. og hafi hann einnig haft prókúru á reikning nr. 252.

Er undir ákærða voru borin einstök rannsóknartilvik er lutu að færslum á reikningi nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis kvaðst ákærði hafa annast millifærslu að fjárhæð 500.000 krónur 29. apríl 2002 inn á reikning Fréttablaðsins ehf. Ekki myndi hann sérstaklega eftir millifærslunni. Að því er varðaði millifærslu að fjárhæð 2.500.000 krónur 30. apríl 2002 kvaðst ákærði hafa annast þá millifærslu. Beðið hafi verið eftir greiðslu frá Femin ehf. að fjárhæð 12.000.000 króna sem útborgunargreiðsla vegna greiðslu fyrir vefmiðil Vísis.is ehf. Hafi ákærði verið að vinna fram á kvöld þetta sinn og beðið eftir greiðslu inn á reikninginn. Eftir kl. 21.00 hafi ekki alltaf verið unnt að sjá færslur á milli reikninga í netbankanum þar sem færslan væri ekki skráð fyrr en að morgni næsta dags. Greiðslan hafi verið hluti af greiðslu Vísis.is ehf. til Fréttablaðsins ehf. sem þurft hafi til að aflétta veði af hlutabréfum í Vísi.is ehf. vegna sölu á vef Vísis.is. Fréttablaðið ehf. hafi verið veðhafi. Á þessum tímapunkti hafi ákærði gert sér grein fyrir að reikningur nr. 252 hafi verið kominn á yfirdrátt þannig að engin innistæða hafi verið fyrir millifærslunni. Kvaðst ákærði vilja ítreka að hann hafi talið að heimild væri fyrir yfirdrætti á reikningnum. Ákærði kvaðst ekki hafa fengið í hendur sérstakt færsluyfirlit frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis vegna færslna á reikninginn. Öll ,,græn yfirlit” á reikninginn hafi farið beint í bókhald Vísis.is ehf., en ekki í gegnum hendur ákærða. Lítið eftirlit hafi verið með reikningi nr. 252 á þessum tíma, enda rekstur Vísis.is ehf. í lágmarki. Fundir hafi verið haldnir daglega með meðákærða og D, fyrirsvarsmönnum Fréttablaðsins ehf. Á slíkum fundi hafi ákærði fengið þau fyrirmæli að greiða 15.000.000 króna skuld Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. Hafi bæði meðákærða og D verið ljóst að ákærði væri að greiða skuldir Vísis.is ehf. með millifærslum af yfirdrætti í banka nr. 252. Eftir útborgun Femin ehf. að fjárhæð 12.000.000 króna inn á reikning 29. apríl 2002 hafi verið beðið eftir annarri greiðslu samkvæmt kaupsamningi um vefinn. Önnur greiðsla að fjárhæð 18.000.000 króna hafi átt að berast nokkrum dögum síðar. Hafi ákærði því búist við greiðslu inn á reikninginn til að leiðrétta yfirdráttinn. Ákvörðun hafi reyndar verið tekin um að önnur greiðsla færi inn á annan reikning. Ekki kvaðst ákærði geta upplýst um inn á hvaða reikning greiðslan hafi átt að berast né hver hafi tekið ákvörðun um að færa greiðsluna inn á annan reikning. Ekki kvaðst ákærði muna sérstaklega eftir millifærslu að fjárhæð 1.000.000 króna 2. maí 2002. Ákærði hafi annast millifærsluna og væri hún greiðsla Vísis.is ehf. vegna skuldar við Fréttablaðið ehf. Fjárhæðinni hafi sennilega verið varið í að greiða laun starfsmanna Fréttablaðsins ehf., eins og reikningsyfirlit bæri með sér. Hafi ákærði ákveðið sjálfur hve háa fjárhæð hann millifærði hverju sinni. Ákærði kvaðst hafa millifært 149.469 krónur og 401.881 krónur 2. maí 2002. Inn á reikning hafi komið ,,posagreiðslur” frá Europay og VISA Ísland vegna sölu flokkaðra auglýsinga í Fréttablaðinu. Hafi ákærði í kjölfarið millifært þá greiðslu yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. í Íslandsbanka. Ákærði kvaðst hafa millifært 370.000 krónur af reikningi 252 yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. 2. maí 2002. Um hafi verið að ræða greiðslu vegna skuldar Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf., en Fréttablaðið ehf. hafi áður greitt til fyrrum starfsmanns Vísis.is ehf. eins og skýring við millifærsluna tilgreindi. Ákærði kvaðst hafa millifært 1.500.000 krónur af reikningi nr. 252 yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. 2. maí 2002. Greiðslan hafi farið upp í skuld Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. Fjárhæðinni hafi í kjölfarið verið ráðstafað í launagreiðslur starfsmanna Fréttablaðsins ehf., svo sem reikningsyfirlit bæri með sér. Ákærði kvaðst telja að hann hafi staðið að greiðslu á 500.000 krónum út af reikningi 252 yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. 6. maí 2002. Með sama hætti og áður hafi verið um að ræða greiðslu upp í skuld við Fréttablaðið ehf. Greiðslunni hafi í kjölfarið verið ráðstafað inn á reikning sem notaður hafi verið til launakeyrslna starfsmanna Fréttablaðsins ehf. Ákærði hafi 7. maí 2002 millifært út af reikningi 252, 530.630 krónur. Greiðslan hafi runnið til Ferðaskrifstofu Íslands ehf. vegna sölu ódýrra ferða af heimasíðu Vísis.is. Ekki kvaðst ákærði kunna nánari skýringu á þeim viðskiptum, en um hafi verið að ræða lokauppgjör við ferðaskrifstofuna vegna þessara viðskipta. Ákærði kvaðst hafa millifært 200.000 krónur út af reikningi 252 inn á reikning í eigu Vísis.is ehf. í Búnaðarbanka Íslands 8. maí 2002. Ekki kvaðst ákærði muna í hvaða tilgangi millifærslan hafi verið framkvæmd. Þá kvaðst ákærði hafa millifært 500.000 krónur af reikningi 252 yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. 8. maí 2002. Greiðslan hafi verið vegna skuldar við Fréttablaðið ehf. og í framhaldi af millifærslu farið í launagreiðslur starfsmanna Fréttablaðsins ehf. Ákærði hafi millifært 1.500.000 krónur 10. maí 2002 inn á reikning Fréttablaðsins ehf., til greiðslu á skuldum Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. Fjármununum hafi í kjölfarið verið ráðstafað beint í rekstur Fréttablaðsins ehf. Ákærði hafi millifært 920.000 krónur út af reikningi 252 inn á reikning Fréttablaðsins ehf. 13. maí 2002. Um hafi verið að ræða greiðslu á skuld Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. Fjárhæðinni hafi í framhaldinu verið ráðstafað í að greiða laun blaðbera Fréttablaðsins ehf. Ákærði hafi millifært 50.000 krónur út af reikningi 252 inn á reikning Fréttablaðsins ehf. 15. maí 2002. Um hafi verið að ræða greiðslu á skuld við Fréttablaðið ehf. Fjármunum hafi í kjölfarið verið ráðstafað til greiðslu launa blaðbera Fréttablaðsins ehf. Ákærði hafi millifært 2.000.000 króna af reikningi 252 yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. 16. maí 2002. Greiðslan hafi farið upp í skuld við Fréttablaðið ehf. Greiðslunni hafi í kjölfarið verið varið til greiðslu kostnaðarliða varðandi Fréttablaðið ehf. Stór hluti greiðslunnar hafi t.d. farið til Blaðamannafélags Íslands vegna félagsgjalda. Ákærði kvaðst aftur hafa millifært 1.500.000 krónur út af reikningi 252 yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. sama dag. Um hafi verið að ræða greiðslu vegna skuldar Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. Stórum hluta greiðslunnar hafi í framhaldinu verið varið í greiðslu félagsgjalda hjá Blaðamannafélagi Íslands. Einnig hafi verið greiddur kostnaður vegna innflutnings á pappír, sem hafi verið tollafgreiddur á þessum tíma. Ákærði kvaðst hafa millifært 1.500.000 krónur út af reikningi nr. 252 yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. 14. maí 2002. Um hafi verið að ræða greiðslu vegna skuldar við Fréttablaðið ehf. Greiðslunni hafi í kjölfarið verið ráðstafað beint í rekstur Fréttablaðsins ehf. Ákærði kvaðst hafa millifært 2.500.000 krónur út af reikningi nr. 252 yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. 21. maí 2002. Um hafi verið að ræða greiðslu vegna skuldar við Fréttablaðið ehf. Þaðan hafi greiðslunum í kjölfarið verið ráðstafað í rekstur Fréttablaðsins ehf., s.s. í greiðslu launa blaðbera og annarra starfsmanna Fréttablaðsins ehf. Ákærði kvaðst hafa millifært 1.500.000 krónur út af reikningi nr. 252 inn á reikning Fréttablaðsins ehf. 21. maí 2002. Um hafi verið að ræða greiðslu vegna skuldar við Fréttablaðið ehf. Fjármunum hafi í kjölfarið verið varið í rekstur Fréttablaðsins ehf., að stærstum hluta í greiðslu til Ísafoldarprentsmiðjunnar er hafi séð um prentun Fréttablaðsins. Ákærði kvaðst hafa millifært 1.000.000 króna út af reikningi nr. 252 inn á reikning Fréttablaðsins ehf. 22. maí 2002. Um hafi verið að ræða greiðslu vegna skuldar við Fréttablaðið ehf. Fjárhæðinni hafi í kjölfarið verið ráðstafað í rekstur Fréttablaðsins ehf., t.a.m. til greiðslu launa blaðbera. Ákærði kvaðst hafa millifært 1.000.000 króna út af reikningi nr. 252 inn á reikning Fréttablaðsins ehf. 23. maí 2002. Um hafi verið að ræða greiðslu vegna skuldar við Fréttablaðið ehf. Fjármunum hafi í kjölfarið verið varið í rekstur Fréttablaðsins ehf., að stærstum hluta í greiðslu á húsaleigu og launum blaðbera. Ákærði kvaðst hafa millifært 1.200.000 krónur út af reikningi nr. 252 inn á reikning Fréttablaðsins ehf. 24. maí 2002. Um hafi verið að ræða greiðslu vegna skuldar við Fréttablaðið ehf. Fjármunum hafi í kjölfarið verið varið í rekstur Fréttablaðsins ehf., aðallega til greiðslu á pappír frá Noregi. Ákærði kvaðst hafa millifært 1.000.000 króna út af reikningi nr. 252 inn á reikning Fréttablaðsins ehf. 27. maí 2002. Um hafi verið að ræða greiðslu vegna skuldar við Fréttablaðið ehf. Fjármunum hafi í kjölfarið verið varið í rekstur Fréttablaðsins ehf., að stærstum hluta í greiðslu til Ísafoldarprentsmiðju. Einnig hafi fjárhæðinni verið varið til greiðslu launa starfsmanna.   

Ákærði neitaði að hafa átt aðild að umboðssvikum með millifærslum af reikningi Vísis.is ehf. nr. 1154-26-252. Kvaðst hann persónulega hafa lánað Fréttablaðinu ehf. um 800.000 krónur og hafi hann ekki fengið fjárhæðina endurgreidda. Þá hafi hann átt á þessum tíma ógreidd laun hjá Fréttablaðinu ehf. að fjárhæð 500.000 krónur, auk þess sem hann hafi átt eftir að fá greiddar ,,bónusgreiðslur” frá félaginu að fjárhæð 300.000 til 400.000 krónur. Fréttablaðið ehf. hafi staðið í mikilli skuld við meðákærða, sem hafi lagt mikla fjármuni inn í félagið. Um áramótin 2001 til 2002 hafi Vísir.is ehf. verið á barmi gjaldþrots. Fréttablaðið ehf. hafi komið inn og gengið frá skuldajöfnun við lánadrottna, auk þess að leggja fjármagn í rekstur Vísis.is ehf. Ýmsum lánadrottnum hafi t.a.m. verið boðið að auglýsa í Fréttablaðinu til að skuldajafna við kröfu á hendur Vísi.is ehf. 

Föstudaginn 21. júní 2002 hafði ríkislögreglustjóri uppi kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um að ákærða yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. júní 2002 vegna rannsóknar á meðferð reiknings nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Við skýrslugjöf fyrir dómi kvaðst ákærði viðurkenna að hafa framkvæmt allar þær millifærslur af bankareikningi Vísis.is ehf. nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, eru þá voru til rannsóknar hjá lögreglu. Hafi honum ekki verið gefin fyrirmæli varðandi einstaka millifærslur t.a.m. af meðákærða. Hafi ákærða ekki verið kunnugt um að ekki væri heimild til yfirdráttar á nefndum reikningi. Hafi hann því verið í góðri trú um að millifærslur væru í lagi þar sem hann hafi haft vitneskju um að ekki væri hægt að yfirdraga reikning án heimildar. Allar millifærslur hafi verið framkvæmdar í gegnum fyrirtækjabanka á netinu. Greiðslunum hafi almennt verið ráðstafað í rekstur Fréttablaðsins ehf., en ákærði kvaðst vera rekstrarstjóri og fjármálastjóri hjá félaginu. Um mánaðarmótin maí til júní 2002 hafi A, þjónustustjóri hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis í Skeifunni í Reykjavík, símleiðis haft samband við ákærða vegna þessara færslna og hafi það verið fyrstu athugasemdir er ákærði hafi fengið vegna málsins. Meðákærði hafi lagt fram beiðni um að ákærði ætti að greiða skuldir Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. að fjárhæð 15.000.000 króna. Hafi meðákærði orðað það þannig að skuldina þyrfti að greiða þegar peningar væru til. Ákærðu og D hafi hist á mörgum fundum og rætt um skuldir Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. Ekki hafi ákærði fengið nein fyrirmæli frá þeim um greiðslu þessara skulda. Ákærði kvaðst áður hafa orðið þess áskynja, þegar hann hafi millifært í fyrirtækjabanka á netinu, ef næg innistæða væri ekki á reikningi. Hafi hann ekki orðið var við það í þeim tilvikum er hann hafi millifært þær fjárhæðir er um ræddi í málinu. Héraðsdómari tók sér frest til að úrskurða um gæsluvarðhaldskröfuna. Laugardaginn 22. júní 2002 lýsti fulltrúi ríkislögreglustjóra yfir að fallið væri frá kröfu um gæsluvarðhald yfir ákærða.  

Miðvikudaginn 26. júní 2002 mætti ákærði að eigin frumkvæði á skrifstofu lögreglu. Kvaðst hann óska eftir að fá að bæta við fyrri framburð sinn í málinu. Kvaðst hann ekki hafa skýrt nákvæmlega rétt frá málavöxtum í fyrri skýrslum sínum í málinu. Ákærði kvaðst hafa verið ráðinn til starfa hjá Vísi.is ehf. 1. júlí 2001. Hafi hann verið ráðinn sem rekstrarstjóri og ekki hafa haft með fjármálaákvarðanir félagsins að gera. Þær hafi allar verið í hendi framkvæmdastjóra og stjórnarformanns. Þannig kvaðst ákærði aldrei hafa rætt við fyrirsvarsmenn bankastofnana um fyrirgreiðslu eða lántökur í nafni Vísis.is ehf. eða Fréttablaðsins ehf. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Vísis.is ehf., B, hafi séð um öll samskipti við bankastofnanir þann tíma sem hann hafi starfað þar sem framkvæmdastjóri, eða fram í október 2001. Eftir að B hafi hætt störfum hafi C tekið við sem framkvæmdastjóri Vísis.is ehf. C hafi í raun ekkert haft með fjármál félagsins að gera. Samskipti við meðákærða hafi aukist á þessum tíma varðandi fjármál félagsins. Meðákærði hafi þá stjórnað öllu varðandi fjármálalegar ákvarðanir Vísis.is ehf. Mjög ólíklegt hafi verið ef nokkrar ákvarðanir varðandi fjármál hafi verið teknar án þess að meðákærði hafi vitað af þeim og jafnvel X einnig. Ákærði kvaðst hafa athugað með grundvöll þess að fá fyrirgreiðslu hjá Búnaðarbanka Íslands haustið 2001 vegna Vísis.is ehf. en fengið þau svör að þegar væri um það mikla lánafyrirgreiðslu að ræða að ekki væri möguleiki á frekari fyrirgreiðslu frá bankanum. Einungis hafi verið um könnun að ræða, en ef til slíkrar fyrirgreiðslu hefði komið hefði framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins haft með það að gera.

Föstudaginn 26. apríl 2002 hafi 12.000.000 króna verið lagðar inn á reikning Vísis.is ehf., nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, vegna sölu á netmiðli félagsins. Millifærslan hafi verið framkvæmd eftir kl. 18.00 þann dag í skjálínu Íslandsbanka. Sú greiðsla hafi ekki verið uppfærð á reikningi nr. 252 fyrr en á mánudeginum, en hægt hafi verið að millifæra út af þeim reikningi þá helgi. Hafi ákærði 29. apríl 2002 verið að bíða eftir greiðslu númer tvö fyrir netmiðilinn, en sú greiðsla hafi átt að vera að fjárhæð 18.000.000 króna. Þar sem greiðslan hafi ekki verið komin fyrir klukkan 18.00 þann dag hafi hann vitað af fyrri reynslu að sú greiðsla myndi ekki sjást af yfirliti fyrr en daginn eftir þar sem yfirlitið væri ekki uppfært fyrr en að morgni næsta virka dags. Staðið hafi til að millifæra fjárhæðina af reikningi nr. 252 sama dag og hún bærist. Hafi meðákærði minnt ákærða á að kanna hve há heimildin væri hjá fyrirtækjabanka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til að millifæra innan dags, en staðið hafi til að deila út allri fjárhæðinni sama dag. Hafi ákærði hringt í þjónustuver sparisjóðsins og rætt þar við starfsmann. Hafi starfsmaðurinn sagt að ekki væri til staðar heimild til millifærslu slíkrar fjárhæðar innan sama dags, en heimild til hreyfinga innan dags væru 10.000.000 króna. Hafi ákærið fengið upplýsingar um að unnt væri að hækka heimildina í 20.000.000 króna ef send væri beiðni um það. Hafi ákærði sent starfsmanni þjónustuversins símbréf með beiðni um hækkun. Hafi starfsmaðurinn borið að símbréfið hafi borist og að allt væri frágengið. Síðar sama dag hafi ákærði ákveðið að athuga hvort greiðsla hafi borist vegna sölu á netmiðli Vísis.is ehf. Í samráði við og með samþykki meðákærða hafi ákærði ákveðið að gera tilraun með að millifæra 500.000 krónur út af reikningi nr. 252 yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. Hafi ákærði látið meðákærða vita um að millifærslan hafi gengið eftir. Hafi meðákærði í beinu framhaldi beðið ákærða um að millifæra 2.500.000 krónur inn á reikning Fréttablaðsins ehf. Þá millifærslu hafi ákærði framkvæmt eftir miðnætti 30. apríl 2002. Hafi ákærði gefið sér að greiðsla vegna sölu á netmiðlinum hafi verið lögð inn á reikning nr. 252. Næsta bankadag, eða að morgni 30. apríl 2002, hafi ákærði orðið þess áskynja að greiðsla hafi ekki borist vegna sölu á netmiðlinum og að reikningur nr. 252 hafi verið yfirdreginn um 3.000.000 króna. Hafi ákærði látið meðákærða þegar vita um það. Hafi meðákærði greint ákærða frá því að sótt hafi verið um 25.000.000 til 30.000.000 króna yfirdráttarheimild á reikninginn vegna sölu á netmiðlinum. Hafi meðákærði sagt að heimildin væri greinilega komin úr því millifærslan hafi gengið eftir. Hafi ákærði ekki haft neina ástæðu til að rengja meðákærða þar sem ákærði hafi ekki vitað til þess að unnt væri að yfirdraga reikning án þess að heimild væri til staðar.

Ákærði kvað greiðslu númer tvö vegna sölu á netmiðlinum, að fjárhæð 18.000.000 króna, aldrei hafa borist inn á reikning nr. 252. Hafi ákærða ekki verið kunnugt um hvort sú greiðsla hafi yfir höfuð verið innt af hendi. Næstu daga eftir þetta hafi ákærði fengið fyrirmæli frá meðákærða um að millifæra af reikningi nr. 252 yfir á reikninga Fréttablaðsins ehf. Í einhver skipti hafi þurft símgreiðslu til Noregs vegna kaupa á pappír. Í eitt skipti hafi meðákærði sérstaklega beðið ákærða um að millifæra 1.000.000 króna af reikningi nr. 252 yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. og þaðan áfram yfir á einkareikning meðákærða. Hafi ákærði talið það eðlilegt sökum þess að meðákærði hafi átt fjármuni inni hjá Fréttablaðinu ehf. samkvæmt stöðu í bókhaldi. Kvaðst ákærði telja að umrædd millifærsla hafi farið fram 21. maí 2002 og verið að fjárhæð 2.500.000 krónur. Af þeirri fjárhæð hafi ákærði millifært 1.000.000 króna yfir á persónulegan reikning meðákærða. Í öðru tilviki, eða 8. maí 2002, hafi meðákærði beðið ákærða um að millifæra 1.000.000 króna af reikningi Vísis.is ehf. inn á reikning Blaðavinnslunnar ehf. Þaðan hafi ákærði, að beiðni meðákærða, millifært fjármunina inn á reikning Ísafoldarprentsmiðjunnar. Hafi meðákærði greint ákærða frá því að meðákærði myndi útvega 1.000.000 króna til að leggja inn á reikning Fréttablaðsins ehf. í stað þeirrar fjárhæðar er hafi runnið út af reikningi félagsins inn á reikning Blaðavinnslunnar ehf. Millifærsla að fjárhæð 200.000 krónur út af reikningi nr. 252 yfir á reikning Vísis.is ehf. í Búnaðarbanka Íslands hafi verið framkvæmd til að næg innistæða væri á þeim reikningi til að geta millifært af þeim reikningi 2.000.000 króna yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. í Íslandsbanka nr. 2690. Meðákærði hafi hins vegar aldrei lagt nefndar 1.000.000 króna inn á reikning Fréttablaðsins ehf. Meðákærða hafi alla tíð verið ljóst að ákærði væri að millifæra af reikningi nr. 252 yfir á reikninga Fréttablaðsins ehf. Hafi ákærði litið svo á að greiða ætti upp yfirdráttinn með fjármunum er kæmu inn vegna sölu á netmiðli Vísis.is. Hafi hann af þeim ástæðum ekki tekið út af reikningi nr. 252 nema það sem hann hafi komist af með í þeim tilgangi að spara vaxtakostnað. Hafi hann borið það undir meðákærða, sem hafi samþykkt það.

Að því er varðaði samskipti við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis kvaðst ákærði aldrei hafa haft nein samskipti við starfsmenn bankans varðandi lánafyrirgreiðslu vegna reiknings Vísis.is ehf. Varðandi millifærslur á yfirdrætti kvaðst hann 28. eða 29. maí 2002 hafa fengið skilaboð frá B, þjónustustjóra sparisjóðsins í Skeifunni, þess efnis að ákærði ætti að hringja í hana. Hafi ákærði hringt í B og hún þá skýrt honum frá því að reikningur Vísis.is ehf. nr. 252 hafi verið yfirdreginn án heimildar og leyfis sparisjóðsins. Hafi hún við svo búið afhent útibússtjóra sparisjóðsins, K, símann. Hafi K tjáð ákærða að málið væri komið úr höndum bankans og í hendur lögfræðings bankans þar sem kæra ætti málið til lögreglu. Hafi ákærði greint K frá því að hann hafi millifært umræddar greiðslur í góðri trú þar sem hann hafi talið að ekki væri unnt að yfirdraga reikning án heimildar. Hafi ákærða þá verið tjáð að ,,galli” hafi orðið í kerfi bankans sem hafi orðið til þess að unnt hafi verið að yfirdraga reikninginn. Ákærði kvaðst þegar hafa látið meðákærða vita af þessu og jafnframt að hann væri að reyna að ná sambandi við lögfræðinga bankans. Hafi meðákærði ráðlagt ákærða að panta tíma hjá lögfræðingi bankans til að fara yfir málið og semja um endurgreiðslu á yfirdrættinum. Kvaðst ákærði loks hafa náð sambandi við lögfræðinginn og óskað eftir fundi með honum þar sem ákærðu yrðu báðir viðstaddir. Hafi lögfræðingurinn sagt að hann gæti hitt þá hvenær sem væri, en yfirdráttinn yrði að greiða strax, ella yrði málið sent til lögreglu. Hafi ákærði sagt meðákærða frá þessu og meðákærði ætlað að setja I lögmann inn í málið. Hafi meðákærði ætlað I að semja við lögmann bankans um endurgreiðsluna. Hafi ákærði ekki komið frekar að þessum samskiptum við lögmann bankans enda ekki í hans verkahring að sjá um stærri fjármögnunarmál. Hafi ákærði minnt meðákærða á málið tvisvar sinnum næstu daga á eftir og meðákærði þá sagt að hann væri búinn að tala við Jón.

Ákærði kvaðst ítreka það er fram hafi komið í fyrri skýrslutöku varðandi einstaka millifærslur af reikningi nr. 252. Hafi hann framkvæmt allar millifærslurnar að beiðni meðákærða og í nokkur skipti hafi meðákærði gefið ákærða sérstök fyrirmæli um hvernig ráðstafa ætti fjármunum af reikningi Fréttablaðsins ehf. Meðákærði hafi stjórnað öllum rekstri Vísis.is ehf. eftir að B hafi hætt störfum sem framkvæmdastjóri. Stjórnskipuritið hafi verið þannig að B hafi stjórnað daglegum rekstri en borið allar ákvarðanir undir meðákærða. Eftir að B hafi hætt hafi C komið inn sem framkvæmdastjóri. Meðákærði hafi þá tekið alla stjórn félagsins í sínar hendur, þ.m.t. fjármál félagsins. C hafi virkað sem hálfgerður milliliður milli ákærða sem rekstrarstjóra Vísis.is ehf. og meðákærða sem stjórnarformanns og þess sem í raun hafi stjórnað öllu. C hafi hætt störfum í mars 2002. Eftir það hafi ákærði í raun verið einn eftir í félaginu með meðákærða sem sinn yfirmann. Meðákærði og X hafi setið fundi varðandi söluferli á netmiðlinum Vísi.is. Hafi ákærði komið að söluferlinu varðandi tæknimál. D hafi einnig komið að söluferlinu varðandi fréttamiðlun Vísis.is. Ákærði og D hafi ekki tekið þátt í samningaferlinu sjálfu. Samningaferlið hafi verið í höndum meðákærða, X og lögmanna þeirra. Eftir sölu á netmiðlinum hafi meðákærði stjórnað Vísi.is ehf. áfram, en félagið sjálft hafi ekki verið selt. Eftir söluna hafi ákærði fengið þau fyrirmæli að halda áfram að sjá um greiðslu reikninga, launakeyrslur og bókhald, samhliða starfi sem fjármálastjóri Fréttablaðsins ehf. 

Ákærði var á ný boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu 13. apríl 2004. Bar hann að meðákærði og X hafi komið fram fyrir hönd Vísis.is ehf. vegna sölu á netmiðli félagsins til Femin ehf. Þá hafi tveir lögmenn verið aðalmenn í þeim viðræðum fyrir hönd Vísis.is ehf. Ákærði, L og D hafi verið kallaðir til í tilefni tiltekinna útskýringa fyrir kaupendur. Ekki kvaðst ákærði muna hvort hann hafi gefið kaupendum netmiðilsins greiðslufyrirmæli um inn á hvaða reikning greiðsla fyrir miðilinn ætti að berast. Kvaðst hann þó telja að einhverjar breytingar hafi verið gerðar á greiðslufyrirkomulagi. Er undir ákærða voru borin afrit tveggja skeyta úr tölvupósti frá netfangi ákærða kvaðst hann kannast við að hafa 29. apríl 2002 gefið þau fyrirmæli til kaupenda að greiða 12.000.000 króna og 18.000.000 króna inn á reikning nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Þann 30. apríl 2002 hafi hann breytt þeim fyrirmælum og beðið um að greiðslurnar yrðu greiddar inn á tékkareikning nr. 16001 í Búnaðarbanka Íslands. Hafi ákærði sent fyrra skeytið að boði meðákærða en ekki kvaðst ákærði muna eftir að hafa sent seinna skeytið. Reikningur nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hafi verið notaður vegna reksturs Vísis.is ehf. Allt frá því ákærði hóf störf hjá Vísi.is ehf. 1. júlí 2001, allt þar til næstu áramóta á eftir, hafi reikningurinn verið notaður af gjaldkera Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. vegna Vísis.is ehf. Um áramótin 2001 til 2002 hafi Dagblaðið verið selt og gjaldkeri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. fylgt Dagblaðinu til nýrra eigenda. Frá þeim tíma hafi ákærði notað reikninga Vísis.is ehf. samkvæmt fyrirmælum meðákærða. Hafi meðákærði greint ákærða frá því að greiða ætti fyrir hluta af netmiðli Vísis.is ehf. með skuldabréfum sem síðan hafi átt að selja og leggja andvirði þeirra inn á reikning í Búnaðarbanka Íslands. Kvaðst ákærði telja að greiðslur hafi borist inn á reikninginn vegna sölu netmiðilsins en hafa talið að það væru greiðslur vegna sölu skuldabréfa. Kvaðst ákærði hafa verið með prókúru á tékkareikning nr. 16001 í Búnaðarbanka Íslands. Upphaflega hafi ákærði, B og gjaldkeri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. verið með prókúru á reikninginn en B og gjaldkerinn hætt störfum vorið 2002. Ritari meðákærða hafi einnig haft aðgang að heimabanka og getað millifært af reikningum með þeim hætti.

Ákærði kvaðst kannast við greiðslu að fjárhæð 12.000.000 króna sem hann hafi millifært af tékkareikningi nr. 16001 í Búnaðarbanka Íslands inn á reikning Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. hjá Íslandsbanka í Lækjargötu 3. maí 2002. Hafi ákærði fengið fyrirmæli frá meðákærða um það og meðákærði sagt að ritari sinn myndi gefa ákærða fyrirmæli um inn á hvaða reikning greiðslan skyldi berast. Hafi ákærði síðar fengið umræddar upplýsingar frá ritara meðákærða. Nokkrum vikum síðar hafi M, fjármálastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., komið að máli við ákærða og innt ákærða eftir því hvort einhverjar greiðslur hafi borist vegna sölu á netmiðli Vísis.is ehf. Hafi ákærði sagt M að hann hafi lagt 12.000.000 króna inn á reikning í Íslandsbanka í Lækjargötu. Hafi M ekki kannast við þann reikning en skömmu síðar komið aftur að máli við ákærða og sagt að einungis meðákærði og X hefðu aðgang að þeim reikningi og að nefndar 12.000.000 króna hafi verið teknar út af reikningnum. Hafi B orðið reiður vegna þess að þessi tiltekni reikningur hafi verið notaður.

Ákærði kvaðst hafa verið ráðinn til Fréttablaðsins ehf. um áramótin 2001 til 2002 og hafi hann frá því átt að vinna að bókhaldsmálum Vísis.is ehf. og koma þeim saman við bókhald Fréttablaðsins ehf. Það hafi aldrei orðið og hafi meðákærði sagt ákærða að einbeita sér að öðrum málum hjá Fréttablaðinu ehf. Hlutverk ákærða hjá Vísi.is ehf. hafi því ekki verið annað en að millifæra af reikningum Vísis.is ehf. að fyrirmælum meðákærða. Hafi ákærði ekki talið það óeðlilegt þar sem meðákærði hafi í reynd stjórnað báðum félögunum. Ákærði kvað Vísi.is ehf. hafi skuldað Fréttablaðinu ehf. fyrir fréttaþjónustu við netmiðilinn vísir.is, auk annarrar þjónustu sem Fréttablaðið ehf. hafi innt af hendi fyrir Vísi.is ehf. Við stofnun Fréttablaðsins ehf. hafi það félag tekið yfir hluta af starfsemi netmiðilsins vísir.is, m.a. með yfirtöku nokkurra fréttamanna sem starfað hafi hjá Vísi.is ehf. Hafi Fréttablaðið ehf. einnig tekið yfir launagreiðslur við starfsmenn hjá Vísir.is ehf. Við þetta hafi myndast skuld hjá Vísi.is ehf. gagnvart Fréttablaðinu ehf. Ekki kvaðst ákærði vita hve há skuldin hafi verið, þó svo hann hafi verið rekstrarstjóri Vísis.is ehf. og skrifstofu- eða rekstrarstjóri fyrir Fréttablaðið ehf. Skuld Vísis.is ehf. hafi ekki verið til í bókum þessara félaga, en meðákærði og D tjáð ákærða að Vísir.is ehf. hafi skuldað Fréttablaðinu ehf. vegna samninga á milli félaganna. Hafi millifærslur ákærða frá Vísi.is ehf. til Fréttablaðsins ehf. því einungis komið til fyrir fyrirmæli meðákærða vegna skuldastöðu Vísis.is ehf.

  Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins bar ákærði með þeim hætti að hann hafi verið rekstrarstjóri hjá Vísi.is ehf. frá 1. júlí 2001 til áramóta 2001 til 2002. Þá hafi hann fært sig frá Vísi.is ehf. yfir til Fréttablaðsins ehf., en á Fréttablaðinu ehf. hafi ákærði starfað sem skrifstofu- og rekstrarstjóri. Fram til þessara áramóta hafi allt bókhald verið fært hjá Frjálsri fjölmiðlun ehf., en frá þeim tíma hafi það verið tekið yfir á Fréttablaðið ehf. Hjá Fréttablaðinu ehf. hafi ákærði átt að sjá um bókhald fyrir Vísi.is ehf. Hafi Fréttablaðið ehf. verið að þjónusta Vísi.is ehf. og ákærði verið með prókúru á reikning félagsins nr. 252 hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Fjárhagsstaða Vísis.is ehf. hafi verið slæm. Öll starfsemi félagsins hafi meira og minna verið innlimuð inn í eða fléttast saman við rekstur Fréttablaðsins ehf. Frá og með nefndum áramótum hafi starfsfólk Vísis.is ehf. verið komið inn á sama ,,pláss” og starfsfólk Fréttablaðsins ehf. Á árinu 2002 hafi meðákærði Eyjólfur verið yfirmaður ákærða bæði vegna starfa ákærða hjá Fréttablaðinu ehf. og Vísi.is ehf. D hafi stjórnað ritstjórn Fréttablaðsins og haft afskipti af því sem ákærðu hafi verið að gera. Hafi hann verið með ,,fingur í öllu” sem hafi snúið að Fréttablaðinu ehf., hvort sem það hafi varðað innheimtur, greiðslur eða auglýsingasölu. D hafi verið samstarfsmaður ákærða, þar sem meðákærði hafi verið yfirmaður D. Ákærðu hafi átt samskipti með ýmsum hætti, á fundum, í gegnum síma, í gegnum tölvupóst eða í gegnum ritara meðákærða. Í gegnum þessi samskiptaform hafi ákærði fengið fyrirmæli frá meðákærða. Innheimtustjóri hafi séð um innheimtur og ákærði verið með honum í þeim. Ákærði og innheimtustjórinn hafi síðan verið í sambandi við meðákærða og D varðandi ráðstöfun þeirra fjármuna er komið hafi inn á Fréttablaðið ehf. Slík samskipti hafi verið nánast á hverjum degi. Ákærði kvaðst hafa farið í Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis um áramótin 2001 til 2002 og fengið tékkhefti á reikning nr. 252. Hafi ákærði staðið í þeirri trú að reikningurinn væri venjulegur tékkareikningur. Hafi ákærði gefið út tékka á reikninginn en er tékkinn hafi verið innleystur hafi ekki verið næg innistæða á reikningnum. Hafi A staðgengill útibússtjóra sparisjóðsins hringt í ákærða og gert honum grein fyrir því að reikningur nr. 252 væri gíróreikningur en ekki tékkareikningur. Hafi hún farið þess á leit að ákærði afhenti tékkheftið á reikninginn. Ákærði hafi aldrei afhent heftið. Ekki hafi komið fram í þeirra samtali að óheimilt væri að yfirdraga reikninginn.

Netumhverfi Vísis.is ehf. og nafnið visir.is hafi verið selt. Tvær fyrstu greiðslur samkvæmt samningi hafi átt að berast inn á reikning Vísis.is ehf. Meðákærði hafi gefið ákærða fyrirmæli um að senda lögmanni Femin ehf., sem hafi verið kaupandi, fyrirmæli um að greiðslur ættu að berast inn á reikning Vísis.is ehf. nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Til að ákærði gæti millifært þær upphæðir er hafi átt að berast inn á reikninginn hafi ákærði sent beiðni til sparisjóðsins um að heimild til millifærslu innan sama dags í netbanka yrði hækkuð upp í 20.000.000 króna. Inn á reikninginn hafi komið fyrsta greiðsla eða 12.000.000 króna og hafi ákærði að fyrirmælum meðákærða millifært þá greiðslu á viðeigandi staði. Í kjölfarið hafi verið beðið eftir næstu greiðslu að fjárhæð 18.000.000 króna. Heimabanki sparisjóðsins hafi ekki ,,virkað” og hafi ákærðu ákveðið að senda greiðslufyrirmæli um að ef greiðsla hafi ekki verið innt af hendi skyldi hún greidd inn á reikning Vísis.is ehf. í Búnaðarbanka Íslands. Er heimabanki Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hafi aftur komist í lag hafi ákærði gert tilraun til að millifæra 500.000 krónur af reikningi nr. 252 yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. Hafi reikningurinn við það farið í mínus. Hafi ákærði því talið að greiðsla fyrir netmiðil Vísis.is ehf. væri komin inn á reikninginn og að hún myndi ekki koma fram á yfirliti fyrr en næsta dag. Næsta dag hafi ákærði hins vegar séð að reikningurinn hafi enn verið í mínus og því engin greiðsla komið inn á reikninginn. Hafi ákærði rætt við meðákærða um hvort verið gæti að heimild væri á reikningnum þar sem reynsla ákærða hafi verið sú að ekki væri unnt að færa út af reikningi ef engin innistæða væri á reikningi og engin heimild til staðar. Hafi meðákærði spurt hvort það væri nokkuð unnt að yfirdraga reikning án heimildar og að það hlyti þá að vera til staðar heimild því að öðrum kosti gæti ákærði ekki yfirdregið reikninginn. Skyldi ákærði ekki hafa meiri áhyggjur af því. Ákærði kvaðst ekki hafa sótt um heimild til yfirdráttar á reikninginn og hlyti það að hafa verið stjórn Vísis.is ehf. sem hafi gert það.

Rætt hafi verið um að Vísir.is ehf. skuldaði Fréttablaðinu ehf. um 30.000.000 króna fyrir auglýsingar, fréttaumsjón og laun, en þær skuldir að verulegu leyti komið til áður en ákærði hafi komið til starfa hjá Vísi.is ehf. D og meðákærði hafi rætt um að þessar skuldir yrði að greiða. Hafi verið ákveðið að nota fjármuni er kæmu til vegna sölu netmiðilsins til að greiða þessar skuldir. Ákærði kvaðst hafa upplýst meðákærða ,,allt að því” alltaf er hann hafi framkvæmt millifærslur af reikningi nr. 252. Þeim upplýsingum hafi hann komið á framfæri a.m.k. á hverjum einasta degi. Auk þess hafi D og innheimtustjórinn Z,,verið nálægt” ákærðu við þetta. Aðallega hafi ákærðu þó séð um þetta. Eitthvað af greiðslum hafi farið frá Fréttablaðinu ehf. inn á reikning Blaðavinnslunnar ehf., reikninga meðákærða, auk þess sem einhverju hafi verið ráðstafað til Noregs vegna kaupa á pappír. Hafi meðákærði gefið ákærða fyrirmæli um framhaldsráðstöfun fjármunanna hverju sinni. Ákærði kvaðst hafa verið með prókúru á þann reikning í Búnaðarbanka Íslands er hann hafi gefið greiðslufyrirmæli um að setja greiðslu inn á fyrir sölu á netmiðlinum, ef greiðsla væri ekki komin inn á reikning nr. 252. Greiðsla hafi komið inn á þann reikning 3. maí 2002 og fjárhæð hennar numið 15.800.000 krónum. Hafi henni verið ráðstafað samdægurs með millifærslu að fjárhæð 12.700.000 krónur inn á reikning Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. og 2.900.000 krónur inn á reikning Fréttablaðsins ehf. Hafi ákærði framkvæmt umræddar millifærslur að beiðni meðákærða. Ákærði kvaðst ekki hafa verið í þeirri stöðu að geta ákveðið hvernig fjármunum vegna sölu á netmiðli Vísis.is ehf. yrði ráðstafað. Ekki hafi komið fram í heimabanka sparisjóðsins hvort á reikningi væri til staðar yfirdráttarheimild eða ekki. Hafi ákærði einhverjum dögum áður en 12.000.000 króna greiðsla vegna sölu á netmiðli Vísis.is ehf. hafi komið inn á reikninginn gert tilraun til að millifæra og hafi reikningurinn þá ekki gefið færi á því. Hafi það einnig verið fyrri reynsla ákærða af reikningnum. Ákærði kvaðst ekki hafa séð kaupsamning sem gerður hafi verið um netmiðilinn. Hafi ákærða ekki verið kunnugt um hvernig greiða ætti síðari hluta kaupsamningsgreiðslunnar. Hafi ákærði í öllu falli reiknað með að yfirdráttur á reikningi nr. 252 yrði greiddur með því er kæmi inn fyrir sölu á netmiðlinum. Hafi meðákærði upplýst ákærða um að heildarsöluverðið væri 60.000.000 króna. Frekari fjármunir en vegna sölu á netmiðli Vísis.is ehf. hafi komið inn á reikning nr. 252. Netposagreiðslur hafi komið inn vegna sölu á auglýsingum í Fréttablaðinu. Þá hafi reikningurinn verið notaður til að innheimta útistandandi skuldir. Vísir.is ehf. hafi verið með tvo bankareikninga á þessum tíma, nefndan reikning í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og hinn í Búnaðarbanka Íslands. Hafi rekstur Vísis.is ehf. verið erfiður á árinu 2002. Hafi ákærðu og D nánast daglega farið yfir stöðu félagsins til að ákveða hvaða reikninga skyldi greiða. Ákærði kvaðst hafa átt útistandandi laun hjá félaginu er hann hafi hætt störfum, auk þess sem hann hafi látið á bilinu 200.000 til 400.000 krónur úr eigin vasa í rekstur félagsins. Ákærði kvaðst ekki hafa verið í neinum eignatengslum við Vísi.is ehf. Ákærði kvaðst hafa starfað í yfir 14 ár í banka áður en hann hafi ráðið sig til starfa hjá félaginu.

A, staðgengill útibússtjóra í sparisjóðnum, hafi haft samband við ákærða í lok maí 2002. Hafi A þá tjáð honum að reikningur nr. 252 hafi verið yfirdreginn ólöglega og að málið væri farið til lögfræðinga bankans. Kvaðst ákærði hafa innt hana eftir því hvernig það gæti gerst að reikningurinn hafi verið yfirdreginn án þess að heimild hafi verið til staðar. Hafi A tjáð ákærða að galli hjá Reiknistofu bankanna hafi orðið til þess. Að öðru leyti hafi A ekki gefið ákærða færi á að ræða þessa hluti. Ákærði hafi einnig rætt við K útibússtjóra. Hafi K tjáð ákærða að málið væri komið til lögmanna og að bankinn hefði ekki meira með málið að gera. 

Ákærði, Eyjólfur Sveinsson, gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 21. júní 2002. Kvaðst hann telja að vottorð hlutafélagaskrár frá 20. júní 2002 gæfi rétta mynd af stjórn Fréttablaðsins ehf. Kvaðst hann þó vilja taka fram að X og N hafi gefið til kynna að þeir myndu segja sig úr stjórn félagsins. Hafi það átt við um X sökum þess að Frjáls fjölmiðlun ehf. hafi selt hlut sinn í Fréttablaðinu ehf., en N hafi tekið þá ákvörðun til að víkja fyrir nýjum hluthöfum. Félagið hafi í reynd ekki haft neinn framkvæmdastjóra. Hins vegar hafi starfað þar fjármálastjóri. D hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra fyrst eftir að hann hafi komið til starfa hjá Fréttablaðinu ehf. Um áramótin 2001 til 2002 hafi hann verið ráðinn sem ritstjóri Fréttablaðsins og þá dregið mjög úr beinum störfum við rekstur félagsins. Á sama tíma hafi verið ráðinn fjármálastjóri til viðbótar þáverandi starfsfólki á skrifstofu. Ritstjóri Fréttablaðsins hafi séð um útgáfumál og rekstur á ritstjórninni. Þá hafi hann haft með höndum ráðningu starfsmanna við blaðið. Hins vegar hafi fjármálastjóri haft með höndum bókhald, innheimtu og fjármálaumsýslu. Ákærði kvaðst vera útgáfustjóri Fréttablaðsins og stýra útgáfustjórnarfundum og því í raun vera milliliður á milli stjórnar og ritstjórnar blaðsins. Dagleg fjármálastjórn Fréttablaðsins ehf. hafi verið í höndum meðákærða, sem fjármálastjóra. Aðkoma ákærða að daglegri fjármálastjórn Fréttablaðsins ehf. hafi ekki verið með skipulögðum hætti. Varðandi stærri  ákvarðanatökur um fjármál félagsins hafi iðulega verið haft samráð milli stjórnenda blaðsins og ákærða. Hafi ákærði komið að fjármálastjórn með þeim hætti, svo og þegar vantað hafi fjármagn í rekstur og þess háttar. 

Netmiðill Vísis.is ehf. hafi verið seldur og afhentur kaupanda 26. apríl 2002. Hafi ákærði látið af störfum sem stjórnarformaður félagsins í framhaldi af sölu miðilsins. Einkahlutafélagið Vísir.is hafi ekki sjálft verið selt og verið áfram í meirihlutaeigu Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. Kvaðst ákærði hafa sent Vísi.is ehf. bréf um afsögn sína sem stjórnarformaður. Ekki hafi legið fyrir á þessum tíma hver fjárhagsstaða félagsins væri þar sem ekki hafi verið látið á reyna að selja hlutabréf í eigu félagsins. Aðkoma ákærða að félaginu hafi markast af samstarfssamningi Fréttablaðsins ehf. við netmiðilinn Vísi.is sem hafi orðið til við stofnun Fréttablaðsins ehf. og þróast eftir það. Fréttablaðið ehf. hafi gert samning við netmiðilinn um að reka fyrir þá ritstjórn og fréttaþjónustu. Síðar hafi Fréttablaðið ehf. tekið að sér umsjón með ýmsu öðru á netmiðlinum. Þá hafi verið gerður samningur um sölu flokkaðra auglýsinga þar sem Vísir.is ehf. og Fréttablaðið ehf. hafi staðið saman að birtingu auglýsinga bæði í Fréttablaðinu og á netmiðli Vísis.is. Auk þess hafi Fréttablaðið ehf. og Vísir.is ehf. samnýtt starfsmenn við tækniþjónustu, fjármálaumsjón og bókhaldsþjónustu. Eftir sölu á netmiðlinum hafi verið margir lausir endar varðandi samstarfssamninginn. Þannig hafi aðkoma ákærða að netmiðli Vísis.is ehf verið í gegnum störf ákærða hjá Fréttablaðinu ehf. Aðkoma ákærða að Vísi.is ehf. hafi verið í gegnum efndir á kaupsamningi um sölu á netmiðlinum. Söluverð netmiðilsins hafi verið 60.000.000 króna. Söluverðið hafi ekki verið greitt að fullu 21. júní 2002. Greiðslurnar hafi átt að koma í áföngum, auk þess sem kaupandi hafi haldið eftir hluta af greiðslu sem tryggingu fyrir efndum á kaupsamningi.      

Fjárhagsstaða Fréttablaðsins ehf. hafi verið með þeim hætti að félagið hafi mætt áætlun í rekstri hvað afkomu hafi varðað. Félagið hafi átt verulegar óinnheimtar kröfur og kvaðst hann telja að þær hafi getað numið á bilinu 80.000.000 til 90.000.000 króna. Af þeim ástæðum hafi lausafjárstaða félagsins versnað mjög mikið. Að auki hafi félagið fengið í fangið mjög kostnaðarsöm verkefni, þeirra stærst rekstur dreifingarfélags sem í upphafi hafi verið aðskilið frá Fréttablaðinu ehf. Þá hafi félagið stutt starfsemi Vísis.is ehf. með launum, yfirtöku vangoldinna verksamninga og beinum fjárframlögum. Kvaðst ákærði telja að þegar verst hafi látið hafi hvort verkefni um sig bundið 30.000.000 til 40.000.000 króna hjá Fréttablaðinu ehf. Eftir sölu á netmiðli Vísis.is ehf. hafi umsýsla varðandi félagið færst töluvert yfir til Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. Þó hafi Vísir.is ehf. enn keypt tiltekna þjónustu af Fréttablaðinu ehf., aðallega tengt skrifstofuhaldi, þar sem Vísir.is ehf. hafi deilt starfsmönnum með Fréttablaðinu ehf. Þá hafi enn verið í gildi auglýsingasamningur milli Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf., sem í reynd hafi verið rekinn í gegnum Vísi.is ehf. Allar greiðslur vegna auglýsingasamnings um flokkaðar auglýsingar hafi komið inn á reikning Vísis.is ehf. Þaðan hafi greiðslum verið skipt eftir því sem tilefni hafi verið til á milli Fréttablaðsins ehf. og Vísis.is ehf. Við sölu á netmiðlinum hafi Vísir.is ehf. þurft að gera upp skuldir félagsins við Fréttablaðið ehf., en Fréttablaðið ehf. hafi verið með veð í netmiðlinum og þurft að aflétta þeim til að sala á miðlinum væri möguleg. Á þeim tíma er sala hafi átt sér stað hafi heildarskuldir Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. numið um 30.000.000 til 40.000.000 króna. Sú skuld hafi átt að greiðast við sölu á miðlinum og næstu mánuði þar á eftir.

Meðákærði hafi verið fjármálastjóri hjá Vísi.is ehf. fram til áramóta 2001 til 2002. Þá hafi hann færst yfir til Fréttablaðsins ehf. sem fjármála- og skrifstofustjóri. Þó hafi meðákærði að hluta til starfað áfram hjá Vísi.is ehf. sem fjármálastjóri undir stjórn framkvæmdastjóra Vísis.is ehf. Þannig hafi Vísir.is ehf. greitt að hluta laun meðákærða, en það hafi numið áætluðu hlutfalli af þeim tíma sem meðákærði hafi unnið fyrir Vísi.is ehf. C hafi starfað sem framkvæmdastjóri Vísis.is ehf. frá október 2001 til vors 2002. Eftir það hafi ekki verið starfandi framkvæmdastjóri hjá félaginu. Frá þeim tíma er netmiðilinn hafi verið seldur hafi ekki verið kveðið upp úr með skýrum hætti hvernig ákvarðanatöku væri háttað hjá Vísi.is ehf. Félagið hafi verið í meirihlutaeigu Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., en ákærði kvaðst ekki vita hvernig ákvarðanatöku innan þess félags hafi verið háttað eftir sölu netmiðilsins. Sala á miðlinum hafi það nýlega átt sér stað að framtíðaráform Vísis.is ehf. hafi í reynd ekki verið fullmótuð enn. Margir fundir hafi verið haldnir um ýmis mál í félögunum. Oft hafi verið höfð samráð um stærri mál, þó svo um óformlegt spjall hafi verið að ræða. Ljóst hafi verið við sölu á netmiðli Vísis.is ehf. að til að veði Fréttablaðsins ehf. af miðlinum yrði aflétt skipti miklu fyrir Fréttablaðið ehf. að greiðsla á kröfum sem veðið stóð til tryggingar yrði innt af hendi. Við sölu á miðlinum hafi krafan numið 30.000.000 til 40.000.000 króna. Ekki hafi ákærði haft daglegt eftirlit með því hvernig þessar greiðslur, sem fyrst og fremst hafi átt að koma af söluandvirði netmiðilsins, hafi borist Fréttablaðinu ehf. Þó kvaðst ákærði telja líklegt að lögð hafi verið áhersla á af hálfu Fréttablaðsins ehf. að við þá greiðslu yrði staðið. Engin samtöl hafi átt sér stað á milli ákærðu eða D um að þessi skuld yrði greidd að hluta með einhverju eins og óleyfilegum yfirdrætti af bankareikningi. Því hafi ákærða ekki verið kunnugt um óheimilar millifærslur af reikningi nr. 252. Greiðslur sem inna hafi átt af hendi fyrir netmiðil Vísis.is ehf. við afhendingu hafi dregist að hluta og breyst í upphæðum frá því sem upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Vegna þess hafi verið vel líklegt að ráðstöfun greiðslna hafi verið öðruvísi en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Ekki kvaðst ákærði muna nákvæmlega í hverju þær breytingar hafi verið fólgnar né hvernig ákvarðanatökuferlinu hafi verið háttað. Endurgreiðsla á skuld Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. hafi átt að eiga sér stað á tveggja til þriggja mánaða tímabili, en auk þess hafi áfram átt að koma til reglulegar greiðslur vegna samstarfssamningsins. Á því tímabili hafi átt að eiga sér stað áfangagreiðslur varðandi sölu á netmiðlinum. Ákærði hafi hins vegar ekki haft neitt yfirlit um hve hratt endurgreiðslan yrði innt af hendi. Fréttablaðið ehf. hafi átt útistandandi kröfur að fjárhæð 80.000.000 til 90.000.000 króna og sala á auglýsingum hafi sveiflast töluvert á milli mánaða. Uppgjör á rekstri og greiðslustaða Fréttablaðsins ehf. vegna síðasta mánaðar á undan hafi ekki átt að liggja fyrir fyrr en um 20. næsta mánaðar. Því hafi ákærða fyrst á næstu dögum eftir 20. júní 2002 orðið ljóst innstreymi hraðra endurgreiðslna Vísis.is ehf. á skuld sinni, en ekki vegna bættrar innheimtu, aukinnar auglýsingasölu eða aukinna skulda við birgja. Ekki kvaðst ákærði kunna skýringu á því að meðákærði hafi upp á sitt eindæmi skuldfært í heimildarleysi reikning nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 23.900.000 krónur, án þess að hafa átt nokkurra hagsmuna að gæta. Kvaðst ákærði í reynd ekki trúa því að meðákærði hafi gert það.

Blaðavinnslan ehf. hafi leigt Ísafoldarprentsmiðju prentvél sem notuð hafi verið við prentun á Fréttablaðinu. Blaðavinnslan ehf. hafi keypt þá vél í apríl 2002. Því til viðbótar hafi Fréttablaðið ehf. lánað Blaðavinnslunni ehf. fjármuni til kaupa á prentvélinni og í raun hafi Fréttablaðið ehf. átt frumkvæði að þeim viðskiptum. Ákærði hafi ekki átt sæti í stjórn Blaðavinnslunnar ehf. og ekki átt hlut í félaginu. Ekki væru nein bein viðskipti á milli Fréttablaðsins ehf. og Blaðavinnslunnar ehf., en Fréttablaðið ehf. hafi átt viðskipti við Ísafoldarprentsmiðju sem aftur hafi átt viðskipti við Blaðavinnsluna ehf. Ákærði kvaðst kannast við greiðslur í sjö færslum, samtals að fjárhæð 7.100.000 krónur, út af reikningi Fréttablaðsins ehf. yfir á reikning Blaðavinnslunnar ehf. í maí 2002. Um hafi verið að ræða lán frá Fréttablaðinu ehf. til Blaðavinnslunnar ehf., sem síðar yrði skuldajafnað við Ísafoldarprentsmiðju við prentun í prentvél Blaðavinnslunnar ehf. vegna útgáfu Fréttablaðsins. Lán til Blaðavinnslunnar ehf. hafi að mestu verið fjármögnuð með lánum frá ákærða persónulega til Fréttablaðsins ehf. Greiðslur hafi verið framkvæmdar þannig að ákærði hafi lagt inn á reikning Fréttablaðsins ehf. fjármuni sem síðan hafi verið millifærðir yfir á reikning Blaðavinnslunnar ehf. Þær fjárhæðir sem hafi verið millifærðar í maí 2002 og væru að fjárhæð 1.000.000 króna væru allt lánveitingar Fréttablaðsins ehf. til Blaðavinnslunnar ehf. fjármagnaðar af ákærða. Ein greiðslan væri að fjárhæð 2.000.000 króna. Væri um að ræða endurgreiðslu til Blaðavinnslunnar ehf. vegna greiðslna sem Blaðavinnslan ehf. hafi innt af hendi fyrir Fréttablaðið ehf. til Tollstjórans í Reykjavík. Að því er varðaði greiðslur á reikninga Fréttablaðsins ehf. í Íslandsbanka og Búnaðarbanka Íslands og tengdust ákærða persónulega, í apríl, maí og júní 2002, þá kvað ákærði algengt að leitað hafi verið til hans sem hluthafa þegar þörf hafi verið á skyndilánum til Fréttablaðsins ehf. Það hafi verið gert í töluverðum mæli allt frá því Fréttablaðið ehf. hafi farið af stað. Þannig hafi verið töluverð hreyfing á fjármunum frá Fréttablaðinu ehf. til ákærða og öfugt. Þó hafi verið reynt að gæta að því að þessi skyndilán yrðu greidd til baka. Það hafi þó ekki tekist í öllum tilfellum. Kvaðst ákærði eiga inni hjá Fréttablaðinu ehf. 20.000.000 til 30.000.000 króna. Þær greiðslur er hafi átt sér stað í gegnum reikninga Fréttablaðsins ehf. í Íslandsbanka og Búnaðarbanka Íslands í apríl, maí og júní 2002 hafi komið til þar sem verið væri að endurgreiða ákærða útistandandi skuldir sem hann hafi átt hjá Fréttablaðinu ehf.

Ákærði kvaðst persónulega eiga 7,5% hlut í Fréttablaðinu ehf. og vera stjórnarformaður félagsins. Ekki hafi hann átt neitt hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun ehf., en hafa setið í stjórn félagsins sem meðstjórnandi. Hafi hann tengst með eignarhaldi félagi sem hafi átt 10% hlut í Frjálsri fjölmiðlun ehf. allt þar til í september 2000. Ákærði kvaðst ekki eiga neitt hlutafé í Vísi.is ehf. Hafi hann átt hlut í því félagi við stofnun en selt þann hlut fljótlega. Hafi hann verið stjórnarformaður félagsins allt þar til netmiðilinn Vísir.is hafi verið seldur og afhentur kaupanda 26. apríl 2002.

Ákærði bar að honum hafi ekki verið kunnugt um að á tímabilinu 29. apríl 2002 til 27. maí 2002 hafi reikningur Vísis.is ehf., nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, verið yfirdreginn um ríflega 23.000.000 króna. Ákærði kvaðst ekki þekkja til reiknings nr. 252, né vita nokkuð um notkun á honum. Er ákærða var gerð grein fyrir millifærslum af reikningnum frá 29. apríl til 27. maí 2002 kvaðst hann ekki hafa átt neinn þátt í þeim millifærslum, né hafa vitað af þeim. Hins vegar hafi honum verið ljóst að við sölu á netmiðli Vísis.is ehf. hafi töluverðar fjárhæðir komið inn á reikninga Fréttablaðsins ehf. frá Vísi.is ehf. Auk þess hafi komið greiðslur vegna samstarfssamnings félaganna. Það hafi reyndar samanlagt verið hærri fjárhæðir en komið hafi fram á yfirliti er fyrir ákærða var lagt. Honum hafi hins vegar hvorki verið kunnugt um uppruna greiðslnanna, né að hluti þeirra hafi komið af reikningi Vísis.is ehf. nr. 252.

Ákærði var á ný boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu 2. júní 2004. Bar hann að er netmiðill Vísis.is ehf. hafi verið seldur Femin ehf. hafi Frjáls fjölmiðlun ehf., Frjálsi hugbúnaðarsjóðurinn ehf., Vátryggingafélag Íslands og Íslandsbanki verið hluthafar í Vísi.is ehf. H hafi verið stjórnarmaður í Vísi.is ehf. framan af og sennilega verið ætlunin að bíða næsta aðalfundar til að bæta við þriðja stjórnarmanni, en samkvæmt samþykktum félagsins hafi þrír menn átt að sitja í stjórn. Eftir að ákærði hafi sagt sig úr stjórn Vísis.is ehf. hafi hann áfram verið meðstjórnandi í Frjálsri fjölmiðlun ehf. Jafnframt hafi hann verið starfsmaður félagsins. Hafi starf hans snúið að því að gæta hagsmuna Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. við stofnun og rekstur Fréttablaðsins ehf. Ákærði kvaðst hafa sent bréf um úrsögn sína úr stjórn Vísis.is ehf. í pósti á skrifstofu félagsins. Ekki hafi hann hugsað náið útfærsluna og talið nægjanlegt að tilkynna félaginu úrsögnina. Hafi hann ekki sent tilkynningu til hlutafélagaskrár.

Sala á netmiðli Vísis.is ehf. hafi komist á fyrir milligöngu J lögmanns og hafi J haft samskipti við X vegna málsins. Hafi ákærði ekki frétt af málinu fyrr en tilboð hafi verið komið í netmiðilinn. Hafi ákærða ekki verið kunnugt um hver hafi verið tilboðsgjafi en hafa haft ákveðnar grunsemdir í því sambandi. Hafi ákærði fengið það hlutverk hjá Frjálsri fjölmiðlun ehf. að láta starfsmenn Fréttablaðsins ehf. vinna hratt að því að koma á hreint skuldastöðu Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. Hafi ákærði komið mjög stuttlega að sölunni sjálfur. Hafi hann setið fund nokkrum dögum fyrir undirritun kaupsamnings og fundarefnið verið skuldastaða Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. Að auki hafi ákærði setið einn eða tvo fundi við undirritun samnings, en þann fund hafi einnig setið D. Kvaðst ákærði ekki hafa vitað nákvæmlega hverjir hafi komið að sölunni eða hve langan tíma söluferlið hafi tekið. Fyrirsvarsmönnum Fréttablaðsins ehf. hafi verið umhugað um að samstarfssamningur Fréttablaðsins ehf. og Vísis.is ehf. yrði áfram virkur. Vefurinn hafi verið seldur á 60.000.000 króna.

Ákærði kvaðst aldrei hafa gefið meðákærða samþykki sitt fyrir því að gera tilraun með að millifæra af reikningi nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis 500.000 krónur og að meðákærði hafi látið ákærða vita að sú millifærsla hafi gengið eftir. Þá hafi ákærði ekki gefið meðákærða fyrirmæli um að millifæra í kjölfarið 2.500.000 krónur inn á reikning Fréttablaðsins ehf., svo sem meðákærði héldi fram. Meðákærði hafi haft með höndum daglega fjármálaumsýslu Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. og hafi ákærði komið að málefnum Fréttablaðsins ehf. við að útvega skammtímalán og almennt á upplýsingafundum. Þá kvað ákærði einnig rangan þann framburð meðákærða að meðákærði hafi látið ákærða vita að 18.000.000 króna hafi ekki verið lagðar inn á reikning nr. 252 og reikningurinn því farið á yfirdrátt. Ákærði hafi hvorki á þeim tíma né síðar vitað að umræddur bankareikningur væri í uppnámi. Því væri einnig rangt er kæmi fram í framburði meðákærða hjá lögreglu að ákærði hafi tjáð meðákærða að sótt yrði um 25.000.000 til 30.000.000 króna yfirdrátt á reikning nr. 252 vegna sölunnar á netmiðli Vísis.is ehf. og að sú heimild væri komin fyrst millifærslur hafi gengið eftir. Ákærði hafi hvorki á þeim tíma né öðrum rætt við bankastofnanir um reikningsviðskipti Vísis.is ehf. Þau samskipti hafi verið í höndum meðákærða og eftir atvikum framkvæmdastjóra. Að því er varði greiðslur fyrir netmiðilinn kvaðst ákærði ekki muna ,,greiðsluplanið” en útilokað að honum hafi ekki verið kunnugt um að greiðsla að fjárhæð 18.000.000 króna hafi ekki skilað sér inn á reikning samkvæmt samningi. Ekki kvaðst ákærði vita hvert greiðsla að fjárhæð 18.000.000 króna hafi farið. Þá kvaðst ákærði ekki hafa gefið meðákærða nein fyrirmæli um greiðslufyrirmæli til Femin ehf. Meðákærði hafi komið að málum vegna sölu netmiðilsins við lok söluferlisins en ekki væri honum kunnugt um samskipti meðákærða við eigendur Vísis.is ehf. Ákærði kvaðst þó telja að upplýsingar um númer bankareikninga hafi verið komnar frá meðákærða. Frjáls fjölmiðlun ehf. hafi verið með reikning í Íslandsbanka í Lækjargötu. Reikningurinn hafi verið notaður fyrir fjárfestingarhreyfingar og hafi reikningurinn verið utan dagslegs fjárstreymis félagsins. Ákærði kvaðst ítreka að hann hafi ekki tekið ákvarðanir um ráðstöfun kaupverðs netmiðils Vísis.is ehf. og kvaðst ekki minnast þess að hafa gefið meðákærða fyrirmæli né haft milligöngu um að meðákærði fengi fyrirmæli um ráðstöfun fjármuna fyrir miðilinn. Kvaðst ákærði því ekki kannast við þann framburð meðákærða að ákærði hafi gefið meðákærða fyrirmæli um að millifæra af reikningi nr. 0301-26-16001 yfir á reikning Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. 12.700.000 krónur 3. maí 2002 og sama dag út af sama reikningi 2.900.000 krónur inn á reikning Fréttablaðsins ehf.  

Frjáls fjölmiðlun ehf. og dótturfélag þess, Frjálsi hugbúnaðarsjóðurinn ehf., hafi líklega við sölu netmiðils Vísis.is ehf. í apríl 2002 átt yfir 2/3 hlutafjár í Vísi.is ehf. Ekki kvaðst ákærði vita hvort eitthvert samkomulag hafi verið gert á milli hluthafa í Vísi.is ehf. um hvernig söluverði netmiðils félagsins skyldi skipt. Fyrir hafi legið samkomulag á milli Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. um hvað Fréttablaðið ehf. fengi í sinn hlut af söluandvirði miðilsins en það samkomulag hafi verið til komið vegna veðs Fréttablaðsins ehf. í netmiðlinum. Ekki kvaðst ákærði vita til þess að Vísir.is ehf. hafi skuldað Ísafoldarprentsmiðjunni mikið fé. Hugsanlega hafi verið til staðar skuld við prentsmiðjuna vegna smáverka. Meðákærði hafi aldrei rætt um að stofnað væri til yfirdráttar á reikningi nr. 1154-26-252. Hafi ákærði ekki vitað af þeim millifærslum sem átt hafi sér stað frá 29. apríl 2002 til 27. maí 2002, né hafi hann átt möguleika á að vita um þær. Ákærði og D hafi ekki haft neina ástæður til að ætla annað en að þeir fjármunir er hafi borist inn hafi komið vegna reksturs Fréttablaðsins ehf., þ.m.t. vegna innheimtra auglýsingatekna. Apríl og maímánuðir 2002 hafi verið langstærstu auglýsingamánuðir Fréttablaðsins ehf. frá upphafi. Síðar hafi komið í ljós að innheimta hjá stórum viðskiptamönnum, sem meðákærði hafi haft á sinni könnu, hafi gengið illa í maí og virst hafa fallið niður á nokkurra daga tímabili. Skuld Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf. hafi komið til með þeim hætti í fyrsta lagi að Fréttablaðið ehf. hafi verið með fréttaþjónustu við Vísir.is ehf., í öðru lagi hafi verið um að ræða skuldir vegna launa starfsfólks Vísis.is ehf. sem færðar hafi verið til Fréttablaðsins ehf. og greiddar af félaginu, í þriðja lagi hafi verið um að ræða peningalán frá Fréttablaðinu ehf. til Vísis.is ehf. og í fjórða lagi hafi Vísir.is ehf. leigt húsnæði af Fréttablaðinu ehf. Einhverjar greiðslur hafi borist frá Vísi.is ehf. en ekki nægjanlega miklar. Kvaðst ákærði telja að umrædd skuld hafi komið fram í bókhaldi Vísis.is ehf. Vísir.is ehf. hafi átt í rekstrarerfiðleikum í nokkurn tíma þegar netmiðillinn hafi verið seldur. Félagið hafi átt hlutabréfasafn aðallega í hátæknifyrirtækjum, auk netmiðilsins og mat fyrirsvarsmanna félagsins verið að með sölu á netmiðlinum og hlutabréfasafninu ætti að vera unnt að gera upp allar skuldir félagsins. Það mat hafi ekki gengið eftir enda hlutabréfasafnið fallið mjög í verði og félagið tekið til gjaldþrotaskipta um hálfu ári eftir þetta. Kvaðst ákærði telja að heildarskuldir félagsins hafi verið undir 100.000.000 króna. Ítrekað aðspurður um stöðu meðákærða hjá Vísi.is ehf. og Fréttablaðinu ehf. kvað ákærði meðákærða hafa verið fjármálastjóra beggja félaga. Hafi hann haldið utan um og stjórnað fjármálum beggja félaga og verið með prókúru á reikninga félaganna. Á tímabilinu 29. apríl til 27. maí 2002 hafi Vísir.is ehf. verið í meirihlutaeigu Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. Ekki kvaðst ákærði vita til hvers þar á bæ meðákærði hafi sótt fyrirmæli á þessum tíma. Ákærði kvaðst telja að skuldabréf sem gefin hafi verið út á grundvelli kaupsamnings um sölu á netmiðli Vísis.is ehf. hafi verið stíluð á Vísi.is ehf. Bréfin hafi verið með ábyrgð Baugs hf. og sennilega öll verið seld skömmu eftir að þau hafi verið afhent. Þau hafi sennilega verið seld fjármálastofnunum. Ekki kvaðst ákærði vita inn á hvaða reikninga andvirði bréfanna hafi runnið. 

Ákærði bar á sama veg fyrir dómi og við skýrslugjöf hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa verið stjórnarformaður Vísis.is ehf. á tímabilinu eftir áramótin 2001 til 2002. Þá hafi félagið að meginstefnu haft þá starfsemi með höndum að reka netmiðilinn Vísi.is. Á vegum félagsins hafi starfað á bilinu 10 til 20 manns. Hafi félagið jafnframt fjárfest í greininni. Þannig hafi starfsemi félagsins verið allt þar til netmiðill félagsins hafi verið seldur í apríl 2002. Töluverðar breytingar hafi orðið í starfsemi Vísis.is ehf. um áramótin 2001 til 2002. Starfsmenn félagsins hafi að miklu leyti flust yfir til Fréttablaðsins ehf. sem þá hafi á grundvelli samstarfssamnings útvegað Vísi.is ehf. fréttir. Staða meðákærða hafi þá breyst og hann farið á launaskrá hjá Fréttablaðinu ehf. og félagið rukkað Vísi.is ehf. um helming af launum hans með millifærslu í viðskiptareikningi. B hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri Vísis.is ehf. við stofnun félagsins og starfað sem slíkur fram á haustið 2001. Þá hafi C verið ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri Vísis.is ehf. Hafi C og B starfað samhliða í um 2 mánuði. Þar sem aðsetur Vísis.is ehf. hafi flust yfir til Fréttablaðsins ehf. hafi C fengið skrifstofu þar. Honum til aðstoðar hafi verið meðákærði sem fjármála- og rekstrarstjóri fyrir Vísi.is ehf. Fljótlega hafi ákærða orðið ljóst að C hafi þurft töluverðan stuðning. Hafi hann hugsanlega ekki kynnt sér nægjanlega vel hvernig starfsemi félagsins hafi verið og í hverju hún væri fólgin. Hafi ákærði reynt að veita C töluverðan stuðning. Þannig mætti segja að afskipti ákærða af félaginu hafi aukist eftir að C hafi komið inn. Fundir hafi verið haldnir óformlega og símleiðis á milli ákærðu og D um málefni Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. Töluverðar áhyggjur hafi verið innan Fréttablaðsins ehf. af skuldastöðu Vísis.is ehf. gagnvart félaginu þar sem skuldir hafi hlaðist upp. Vísir.is ehf. hafi verið í veikri stöðu. Netmiðillinn hafi tapað peningum og fjárfestingar ekki skilað þeim hagnaði sem vonast hafi verið eftir. Eignir Vísis.is ehf. hafi aðallega verið í fjárfestingum í tengdum félögum og félögum í tengdum rekstri, sem ekki hafi skilað eins miklum hagnaði og vonir hafi staðið til.

Fyrirsvarsmenn Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. hafi ákveðið að selja netmiðil Vísis.is ehf. til að geta að hluta til staðið við skuldbindingar Vísis.is ehf. Fyrir milligöngu J lögmanns hafi X, I lögmaður og M framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., náð samkomulagi við fyrirsvarsmenn Femin ehf. um sölu á netmiðlinum. Ákærði hafi ekki verið aðili að þeim viðræðum og ekki vitað af þeim fyrr en samkomulag um sölu hafi náðst. Hafi ákærði verið beðinn um að aðstoða við að tryggja að réttar upplýsingar um skuldastöðu Vísis.is ehf. næðust út úr félaginu og fengið aðstoð, aðallega meðákærða, við það. Ákærði og D hafi komið að lokafrágangi samnings um kaupin þar sem atbeina þeirra hafi þurft til sölunnar vegna veðs Fréttablaðsins ehf. í miðlinum. Hafi ákærði eflaust reynt að fylgjast með og tryggja að Fréttablaðið ehf. fengi það sem því hafi borið af söluverðinu. Hafi ákærði tekið það fram í þessum samningum að hann og D væru komnir að þeim fyrir hönd Fréttablaðsins ehf. til að gæta hagsmuna þess félags og væru þar með vanhæfir til að fjalla um málið fyrir hönd Vísis.is ehf. Hafi margir fundir verið haldnir á milli Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. og Femin ehf. um viðskiptin sem ákærði hafi ekki setið á.

Fyrirsvarsmenn Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. hafi ákveðið hvernig söluverði af netmiðli félagsins yrði ráðstafað. Ákærði hafi hins vegar fyrir hönd Fréttablaðsins ehf. samið um hvað kæmi í hlut þess félags við söluna. Síðan hafi ákærði haft samráð við meðákærða og D um hvað yrði gert við þá peninga. Kaupsamningur um vefmiðilinn hafi gert ráð fyrir að greiddar yrðu 30.000.000 króna í tveim hlutum, 12.000.000 og 18.000.000 króna. Síðan yrðu afhent skuldabréf í einhverjum áföngum fyrir 30.000.000 króna. Fréttablaðið ehf. hafi í raun átt að taka hluta af greiðslunni aftarlega í röðinni. Femin ehf. hafi ekki greitt 12.500.000 krónur af kaupverðinu. Staða Fréttablaðsins ehf. gagnvart ákærða persónulega hafi alltaf verið ákærða í óhag. Oft hafi verið haft samband við ákærða vegna félagsins og þá sérstaklega þegar þurft hafi að styðja við félagið með lánum. Hafi verið reynt að haga málum þannig að ákærði lánaði félaginu fé á bilinu 100.000 krónur og upp í einhverjar milljónir. Reiknað hafi verið með að um skammtímalán væri að ræða til að brúa eitthvert bil. Þau yrðu síðan greidd til baka. Endurgreiðslur hafi ekki fyllilega gengið eftir og hafi ákærði átt inni hjá félaginu. Hafi hann átt fjármuni inni hjá félaginu og lýst kröfu í þrotabú þess við gjaldþrot. Hafi meðákærði sennilega leitað til ákærða með að útvega skammtímalánin. Aldrei hafi verið rætt nákvæmlega hvaðan sá peningur kæmi en verið skilningur ákærða að hann kæmi úr starfsemi félagsins. Ákærði hafi hins vegar örugglega ekki gengið þannig fram að meðákærði myndi lenda í vandræðum vegna þessa. Hafi ákærði einfaldlega haldið því þannig til haga að hann fengi endurgreiðslu á einhverjum degi síðar. Ákærði kvaðst aldrei hafa verið í samskiptum við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis vegna bankaviðskipta Vísis.is ehf. eða Fréttablaðsins ehf. 

Ákærði hafi aðallega haft yfirlit um starfsemi og stöðu Fréttablaðsins ehf. frá starfsmönnum félagsins. Ákærði hafi ekki verið á launum hjá félaginu eða verið þar með daglega viðveru. Málið í heild sinni hafi verið töluvert áfall. Komið hafi í ljós eftir að mál þetta komst upp að hægt hafi mjög á allri innheimtu í maí 2002 og hafi meðákærði að hluta til borið ábyrgð á þeirri innheimtu. Hafi hann séð um innheimtur reikninga gagnvart stórum viðskiptavinum, sem síðar hafi komið í ljós að hafi ekki verið að skila sér. Hafi meðákærði ekki hringt eitt einasta símtal úr húsi í því skyni að innheimta útistandandi skuldir. Auknar tekjur af sölu auglýsinga hafi komið til bæði í apríl og maí 2002. Hafi því verið gert ráð fyrir að verið væri að greiða af reikningum Vísis.is ehf. með eðlilegum hætti. Að öllu gefnu hafi þannig í raun ekki verið meiri peningar til umráða heldur en búast hafi mátt við. Á vegum Fréttablaðsins ehf. hafi verið gerðar mánaðarlegar skýrslur 20. hvers mánaðar. Þar hafi verið skilað stöðu næsta mánaðar á undan. Þá hefði ákærði eflaust séð, þar sem fyrsti þriðjudagur eftir 20. júní 2002 hafi verið 25. júní 2002, að eitthvað óeðlilegt hafi verið að gerast og að það hafi verið að hlaðast upp inneignir hjá viðskiptavinum. Þangað til hafi ekkert í starfseminni gefið ákærða, D eða Z ástæðu til að efast um annað en að allt væri í stakasta lagi. Ákærða hafi því ekki verið ljóst að innheimtan væri að dragast saman fyrr en 25. júní 2002. Þó svo ákærðu hafi verið í samskiptum frá því meðákærði hófst handa við að yfirdraga reikning nr. 252 hafi meðákærði ekki gert ákærða grein fyrir því eða því að starfsmenn sparisjóðsins hafi haft samband við meðákærða í lok maí 2002 vegna yfirdráttarins.

Ákærði kvaðst ekki þekkja sérstaklega til reiknings Vísis.is ehf. nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Kvaðst ákærði ekki hafa komið að stofnun reikningsins eða hafa verið með prókúru á hann. Eftir að hafa kynnt sér málið hafi ákærða virst sem reikningurinn hafi verið ,,jaðarreikningur” í starfsemi Vísis.is ehf. Þegar rætt hafi verið um bankaviðskipti Vísis.is ehf., aðallega í tíð B, hafi það verið rætt í tengslum við reikning félagsins í Búnaðarbanka Íslands, sem sennilega hafi verið aðalreikningur félagsins. Kvaðst ákærði reikna með að einhver samtöl hafi átt sér stað á milli ákærðu í tengslum við greiðslu frá Femin ehf. á söluverði netmiðils Vísis.is ehf. Kvaðst ákærði, ásamt D, hafa lagt töluverða áherslu á að við sölu netmiðilsins ætti sér stað uppgjör á milli Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. þar sem sala á miðlinum til Femin ehf. hafi ekki getað farið fram nema með samþykki Fréttablaðsins ehf. Þannig hafi í raun átt sér stað samningaviðræður á milli Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. annars vegar og Fréttablaðsins ehf. og ákærða og D hins vegar um hve mikið yrði greitt af þessum skuldum og hve mikið af þeim yrði afskrifað og þar með hve mikið af söluverðinu kæmi til Fréttablaðsins ehf. D hafi verið ritstjóri Fréttablaðsins og tekið þátt í starfsemi þess á mörgum sviðum. Hafi ákærðu og D oft átt samráð um fjármál. Hafi samráðin getað verið óformleg, oft nokkrum sinnum í viku í gegnum síma. Hafi D verið til ráðgjafar og stuðnings um fjármálastjórn. 

Ákærði kvaðst aldrei hafa gefið meðákærða fyrirmæli um að millifæra fé af umræddum reikningi nr. 252. Hafi ákærði örugglega iðulega rætt um fjárhagsstöðu félagsins. Kvaðst ákærði ekki kannast við að meðákærði hafi upplýst sig um neikvæða stöðu á reikningi nr. 252. Því síður hafi ákærði haft vitneskju um að reikningurinn væri yfirdreginn. Ákærði kvaðst telja öruggt að hann hafi einhverju sinni rætt við meðákærða um mikilvægi þess að greiða Norske Skov vegna kaupa á pappír. Hann hafi hins vegar aldrei gefið ákærða fyrirmæli um að millifæra af reikningi nr. 252 greiðslur í því sambandi. Greiðslur vegna reikninga sem hafi verið gefnir út á Vísi.is ehf. hafi átt að koma af reikningum félagsins. Vegna samstöðu við Fréttablaðið ehf. hafi greiðslur einnig komið úr reikningum þess félags. Ársvelta Fréttablaðsins ehf. hafi hugsanlega getað verið um 500.000.000 króna á ári á þessum tíma. Það félag hafi staðið í skilum við sína skuldheimtumenn, eftir bestu getu. Fréttablaðið ehf. hafi orðið gjaldþrota í lok árs 2002, eftir að blaðarekstur félagsins hafi verið afhentur öðrum. Kvaðst ákærði telja að meðákærði hafi ekki sérstaklega upplýst ákærða eða D um hvað af tekjum félaganna væru að koma úr auglýsingum og hvað úr öðrum tekjupóstum. Hafi meðákærði einfaldlega tekið stöðuna, athugað hvað hann hefði til ráðstöfunar og hvort það væru einhver vandamál sem ákærði og D gætu hjálpað til við að leysa. Ákærði kvaðst telja að Fréttablaðið ehf. hafi verið með á milli 5 og 10 reikninga og hafi tekjur félagsins komið inn á þá reikninga af mismunandi ,,póstum”. Það hafi allir reikningar félagsins verið greiddir. Samræður á milli ákærðu hafi einfaldlega snúist um hvað væri til ráðstöfunar hverju sinni, hvað þyrfti að greiða og hvort eitthvað vantaði upp á sem ákærði gæti aðstoðað við. Fréttablaðið ehf. hafi verið með töluverð umsvif og stöðugar greiðslur átt sér stað. Hafi ákærði einfaldlega ekki haft yfirsýn yfir þá reikninga er meðákærði hafi verið að nota við greiðslu á útgjöldum í starfsemi félaganna.

Fyrstu aðgerðir lögreglu í málinu hafi orðið gríðarlegt áfall. Föstudaginn 21. júní 2002 hafi meðákærði verið handtekinn. Í framhaldi af því hafi ákærði verið kallaður í skýrslutöku og þá kynnt um hvað málið snérist. Ákærða hafi hins vegar ekki áður orðið það ljóst og varið föstudeginum í að reyna að átta sig á hvað málið snérist um. Ekki hafi ákærði eða samstarfsmenn hans haft hugmyndaflug í að athuga reikninga Vísis.is ehf. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi ákærða verið gerð grein fyrir hvaða atriði væru til rannsóknar. Fréttablaðið ehf. hafi verið í veikri stöðu fyrir. Þessa helgi hafi fyrirsvarsmenn félagsins sest niður og skoðað hvað væri til ráða. Ljóst hafi verið að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis ætti kröfu á hendur Vísi.is ehf. eða Fréttablaðinu ehf. Fjárhæðin hafi verið gríðarleg og niðurstaða hafi orðið að ómögulegt væri að halda rekstri áfram. Í maí 2002 hafi verið rætt um aðkomu nýrra hluthafa að Fréttablaðinu ehf. og þá settur 250.000.000 króna ,,verðmiði á blaðið”. Ljóst hafi verið að hluthafar myndu verða fljótir að hlaupa burt ef málið yrði opinbert. Þá hefðu starfsmenn misst trú á félagið, sem og birgjar. Á næsta mánudegi og þriðjudegi hafi eigendur tekið ákvörðun um að afhenda blaðið nýjum eigendum, í raun án greiðslu. Nýir eigendur hafi yfirtekið tilteknar lausaskuldir, en fyrri eigendur séð um að félagið gengi áfram á þeirra vegum. 

Þar sem framburður vitna hjá lögreglu og fyrir dómi var mjög samhljóða verður framburður þeirra fyrir lögreglu og fyrir dómi rakinn í einu lagi.

Vitnið, A, staðgengill útibússtjóra í útibúi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Skeifunni í Reykjavík, kvaðst stjórna daglegum störfum í útibúinu. Hafi hún m.a. haft eftirlit með því að unninn væri listi yfir óheimilan yfirdrátt tékkareikninga, sem og svokallaður FIT-listi um innistæðulausa tékka. Kvaðst hún vegna starfa sinna í bankanum þekkja til reiknings nr. 252 í eigu Vísis.is ehf. Hafi hún setið fund í mars 1999 þegar H, þáverandi prókúruhafi fyrir Vísi.is ehf., hafi komið til fundar við yfirmenn bankans og óskað eftir því að fá að stofna gíróreikning í nafni félagsins sem hefði þann tilgang að taka við greiðslum í gegnum útsenda A-gíróseðla. Hafi sparisjóðurinn orðið við beiðni H og reikningur nr. 252 verið stofnaður 25. mars 1999. Þá hafi legið fyrir að einungis ætti að nota reikninginn til að taka við greiðslum í gegnum A-gíróseðla. Kvaðst A telja að ekki hafi komið til tals, eða verið óskað eftir af fyrirsvarsmönnum Vísis.is ehf., að heimilaður yrði yfirdráttur á þennan reikning. Að sama skapi hafi ekki verið til staðar heimild til útgáfu tékka á reikninginn. Í apríl 1999 hafi fyrirsvarsmenn Vísis.is ehf. fengið heimild til að opna svonefndan heimabanka á reikninginn. Með þeirri heimild hafi fyrirsvarsmönnum Vísis.is ehf. verið heimilað að millifæra af gíróreikningnum yfir á aðra bankareikninga. Fyrirsvarsmenn Vísis.is ehf. hafi alla tíð notað reikninginn í samræmi við samning þar um, eða til að taka við greiðslum með gíróseðlum. Innborganir á reikninginn hafi verið millifærðar yfir á annan reikning í nafni Vísis.is ehf. Ákærði Svavar hafi 10. desember 2001 keypt tékkhefti á reikninginn í útibúi bankans á Skólavörðustíg. Í framhaldi af því hafi ákærði gefið út einn tékka á þennan reikning. Haft hafi verið samband frá bankastofnun varðandi þann tékka og A spurð að því hvort heimild væri fyrir útgáfu þessa tékka, en um 38.000 krónur hafi vantað upp á innistæðu reikningsins til að standa undir útgáfu tékkans. Hafi A neitað því að heimila tékkaútgáfuna. Tékkinn hafi hins vegar farið í gegn og verið skráður í bókhaldsdeild Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 12. desember 2001 á skekkjureikning. A kvaðst í framhaldi af því hafa haft samband við ákærða Svavar og ítrekað að tilgangur með reikningnum hafi verið að vera gíróreikningur, en ekki tékkareikningur. Hafi hún krafist þess að ákærði skilaði tékkheftinu, en hún aldrei fengið það afhent. Hafi sparisjóðurinn lokað fyrir frekari útgáfu á þennan gíróreikning um leið og þetta mál hafi komið upp. Við stofnun þessa reiknings hafi Reiknistofu bankanna verið sendar stofnupplýsingar um reikninginn. Þar hafi verið skráður inn vaxtaflokkur og gjaldflokkur sem segi til um fast gjald reikningseiganda fyrir hvern innheimtan gíróseðil, auk annarra upplýsinga sem varði stofnun reikningsins. Við skráningu reikningsins, sem og allra annarra sambærilegra gíróreikninga, virðist sem þeir hafi ekki verið rétt skilgreindir í tölvukerfi Reiknistofu bankanna og ekki fyllilega gengið frá öllum skráningarflokkum varðandi þessa tegund bankareikninga. Þetta hafi leitt til þess að gíróreikningar af þessari tegund hafi verið opnir fyrir yfirdrætti, án þess að heimild hafi verið gefin fyrir slíku. Þannig hafi gíróreikningur Vísis.is ehf. nr. 252 alla tíð verið skilgreindur, án þess að nokkur einstaklingur hafi vitað til þess að hann væri opinn fyrir yfirdrætti. Stofnupplýsingar varðandi þessa tegund bankareikninga hafi þannig ekki verið rétt skilgreindir í beiðni Sparisjóðabankanna til Reiknistofu bankanna og hafi það valdið möguleika á óheimilum yfirdrætti. Villan hafi verið leiðrétt eftir að mál Vísis.is ehf. hafi komið upp. 

Innan Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis væru hafðar þær vinnureglur að prentaður væri út listi yfir reikninga sem færu á óheimilan yfirdrátt. Sá listi væri yfirfarinn þrisvar sinnum yfir einn mánuð. Þá væri listinn unninn þannig að þeim viðskiptamönnum bankans sem færu yfir á óheimilan yfirdrátt væri sent bréf og þeim gefinn kostur á að greiða upp óheimilan yfirdrátt. Þann 27. apríl 2002 hafi verið prentaður út listi yfir óheimilan yfirdrátt, en það hafi verið tveim dögum fyrir yfirdrátt er síðar hafi komið í ljós að hafi orðið á reikningi nr. 252. Næsta yfirferð yfir reikninga með óheimilum yfirdrætti hafi átt sér stað 10. maí 2002. Þann dag hafi A verið í fríi og starfsmönnum sparisjóðsins á þeim tíma ekki orðið ljós yfirdrátturinn. Hafi hún mætt aftur til vinnu 27. maí 2002 og næsta dag farið yfir lista með óheimilum yfirdrætti. Þá hafi henni og öðru starfsfólki sparisjóðsins orðið ljóst að reikningur nr. 252, í eigu Vísis.is ehf., hafi verið yfirdreginn um 23.931.464 krónur. Þá strax hafi verið brugðist við af hálfu bankans. Kvaðst hún hafa ráðfært sig við lögmenn bankans og þeir ráðlagt henni að hafa þegar samband við fyrirsvarsmenn Vísis.is ehf. Hafi hún gert tilraun til þess en ekki náð sambandi við ákærða Svavar. Hafi hún látið liggja fyrir hann skilaboð um að hafa samband við sig. Ákærði hafi hringt 29. maí 2002 og þá sagt að hann vissi ekki betur en að allt væri í lagi varðandi gíróreikninginn. Hafi honum þá verið gerð grein fyrir því að fyrirsvarsmenn Vísis.is ehf. hefðu frest til hádegis þann dag til að leiðrétta hinn óheimila yfirdrátt. Vísi.is ehf. hafi verið sendar tilkynningar um allar hreyfingar á þessum gíróreikningi. Á þeim tilkynningum hafi komið fram nafn reikningseiganda og nafn ákærða Svavars komið fram. Heimilisfang hafi verið að Þverholti 11 í Reykjavík. Því hafi verið alveg ljóst að Vísi.is ehf. hafi verið sendar tilkynningar um allar óheimilar millifærslur af reikningi nr. 252. Reikningur nr. 252 hafi verið með talsverða veltu. Hafi verið heimilað að millifæra af reikningnum allt að 20.000.000 króna innan eins dags. Af þeim sökum hafi verið færi á að taka út af reikningnum þá fjárhæð á einum degi. Óheimilar millifærslur hafi ekki farið á lista yfir innistæðulausa tékka. Á þann lista komi eingöngu debetkortafærslur og tékkar. Að því er varði gíróreikninga, þá væri vaxtanóta send reikningseiganda mánaðarlega. Þannig hafi Vísi.is ehf. ekki borist vaxtanóta vegna þessara óheimilu millifærslna fyrr en 1. júní 2002.

Vitnið, K, útibússtjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Skeifunni, bar að bankinn hafi verið með þjónustu við Vísi.is ehf. um gíróinnheimtu, en það hafi verið einu viðskiptin. Um hafi verið að ræða reikning sem hafi verið bundinn samningi um gíróþjónustu. Reikningurinn hafi virkað eins og venjulegur tékkareikningur en vaxtaflokkur verið annar. Í ljós hafi komið í lok maí 2002 við yfirferð á reikningnum að reikningurinn hafi verið yfirdreginn um 24.000.000 króna. Er það hafi komið í ljós hafi verið talið að um kerfisvillu væri að ræða en það hafi leitt til þess að málið hafi verið skoðað frekar. Þá hafi komið í ljós að fyrir slysni eða handvömm hafi gíróreikningar verið opnaðir, þó svo heimild hafi ekki verið til staðar til að yfirdraga þá. Er yfirdrátturinn hafi komið í ljós hafi verið reynt að ná sambandi við ákærða Svavar. Ekki hafði náðst í hann. Hafi tekist að ná sambandi við M hjá Frjálsri fjölmiðlun ehf. og hann beðinn um að koma boðum til ákærða. Fyrirsvarsmenn Vísis.is ehf. hafi þekkt eðli reiknings nr. 252 í sparisjóðnum og vitað að hann væri einungis innheimtureikningur. Aldrei hafi komið til tals að heimilað yrði að reikningurinn yrði yfirdreginn. Fyrrverandi fyrirsvarsmaður Vísis.is ehf., H, hafi á sínum tíma farið þess á leit að heimilt yrði tímabundið að yfirdraga reikninginn um 2.000.000 króna. Það hafi verið um áramótin 1999 til 2000. Sá yfirdráttur hafi verið gerður upp í nóvember 2001 með því að M hjá Frjálsri fjölmiðlun ehf. hafi gert reikninginn upp. Ákærði Svavar hafi loks haft samband við bankann 28. maí 2002. Hafi K tekið saman minnisblað um samtal þeirra. Kvaðst hann hafa ráðlagt ákærða að ræða málið við lögmann bankans. Hafi ákærði gefið einhverjar skýringar á því er átt hafi sér stað. Hafi K fundist sem það kæmi ákærða á óvart hversu alvarlegt málið væri. K kvað það alveg ljóst að ekki hafi verið fyrir hendi heimild til að yfirdraga reikning Vísis.is ehf. nr. 252. Þá hafi það komið skýrt fram í heimabanka hver heimild inni á reikningnum hafi verið. Fyrir mistök hafi verið unnt að yfirdraga þennan reikning og hafi mistökin ekki uppgötvast strax í bankanum þar sem sá starfsmaður er hafi átt að fara yfir lista um þessa reikninga hafi verið í sumarleyfi. Misskilningur hafi orðið um hver hafi átt að fara yfir þessa lista í fjarveru hins reglulega starfsmanns bankans.      

Vitnið, D, kvaðst hafa verið titlaður ritstjóri Fréttablaðsins. Að auki hafi hann í daglegum störfum sínum reynt að drífa starfsemi Fréttablaðsins ehf. áfram og halda henni gangandi. Ekki kvaðst D hafa stýrt daglegum fjárreiðum félagsins og ekkert hafa haft með fjármunastjórn að gera. Hann næsti yfirmaður hafi verið ákærði Eyjólfur. Ekki kvaðst D vita hver hafi verið framkvæmdastjóri félagsins í apríl og maí 2002. Ákærði Svavar hafi verið fjármálastjóri Fréttablaðsins ehf. Hafi hann séð um alla fjármálastjórn og í raun verið í sambærilegri stöðu og D sjálfur. Þeir hafi báðir heyrt beint undir ákærða Eyjólf. Ákærði Eyjólfur hafi verið titlaður útgáfustjóri Fréttablaðsins og allar stærri ákvarðanir innan Fréttablaðsins verið bornar undir hann. Ákærði Eyjólfur hafi hins vegar ekki verið til staðar í fyrirtækinu alla daga þannig að dagleg stjórn félagsins hafi annars vegar verið á herðum D að því er hafi varðað ritstjórn, auglýsingastarfsemi, dreifingu, starfsmannahald og samskipti við prentsmiðju. Öll dagleg fjármálastjórn hafi hins vegar verið í höndum ákærða Svavars. Ekki hafi verið haldnir skipulagðir fundir stjórnenda Fréttablaðsins ehf. D og ákærðu hafi þó oft hist til að ræða reksturinn. Stundum hafi þeir rætt saman í gegnum síma eða viðræður verið óformlegar. D hafi dregið sig til baka í afskiptum af fjárreiðum Fréttablaðsins ehf. eftir að ákærði Eyjólfur hafi í byrjun árs 2002 fengið útbúna starfsaðstöðu á skrifstofu Fréttablaðsins. Þannig hafi ákærði Eyjólfur blandað sér meira í daglega stjórnun og rekstur félagsins. Upphaflega hafi verið gerður samningur um að fréttastofa Fréttablaðsins tæki að sér að reka fréttaþjónustu fyrir Vísi.is ehf. Það hafi gengið mjög illa, enda engar greiðslur borist frá Vísi.is ehf. vegna þeirrar þjónustu. Hafi D virst sem enginn grundvöllur væri fyrir þessum rekstri á netmiðlinum og það farið svo að Fréttablaðið ehf. hafi tekið yfir flesta starfsmenn ritstjórnar Vísis.is ehf., enda þeir starfsmenn átt inni ógreidd laun hjá Vísi.is ehf. Fréttablaðið ehf. hafi eftir þetta séð um að reyna að halda rekstri Vísis.is ehf. gangandi allt þar til netmiðillinn hafi verið seldur. Hafi D litið svo á að þar með hafi öllum venjubundnum rekstri Vísis.is ehf. lokið og að félagið yrði rekið sem eignarhaldsfélag, enda kvaðst D hafa vitað að félagið ætti hlutabréf í ýmsum félögum í tæknigeiranum. Fjárhagsstaða Fréttablaðsins ehf. hafi verið veik á fyrri hluta árs 2002. Greiðsluerfiðleikar hafi verið verulegir og fjármunir komið ,,í gusum”. Ákærðu og D hafi á hverjum degi farið yfir hvernig ráðstafa ætti þeim fjármunum er væru til skipta.

D kvaðst enga vitneskju hafa haft um þær greiðslur er hafi runnið inn á reikninga Fréttablaðsins ehf. frá 29. apríl til 27. maí 2002 er væru til rannsóknar. Kvaðst D hafa komið að viðræðum um sölu á netmiðli Vísis.is ehf. til að gæta hagsmuna Fréttablaðsins ehf. við söluna. Hafi hann lagt áherslu á að Fréttablaðið ehf. fengi greiddar kröfur sem blaðið hafi átt útistandandi hjá Vísi.is ehf. Hafi hann haft óljósa hugmynd um hvernig kaupendur miðilsins hafi ætlað að greiða fyrir miðilinn. Hann hafi ekki vitað nákvæmlega hvert greiðslurnar ættu að berast eða hvenær. Kvaðst hann þó telja að hann hafi fengið upplýsingar um að Fréttablaðið ehf. hafi átt að fá tiltölulega litla fjárhæð í sinn hlut í upphafi, en að við lokauppgjör hafi stærri fjárhæð átt að renna til félagsins. Er ákærða var kynntur framburður ákærða Svavars kvað D það rétt að ákærðu og hann hafi hist oft og rætt ýmis mál. Meðal annars hafi þar verið rætt um að Vísir.is ehf. þyrfti að greiða skuld félagsins við Fréttablaðið ehf. og hafi D lagt á það áherslu. Engin bein fyrirmæli hafi verið lögð fyrir ákærða Svavar um greiðslu þessara skulda. Hafi D enga hugmynd haft um hvernig ákærði Svavar hafi greitt þessar skuldir og alls ekki með millifærslum af yfirdrætti. Ákærðu og D hafi aldrei rætt þær innborganir er sakarefnið lyti að. Vísir.is ehf. hafi skuldað félaginu tæpar 6.000.000 króna vegna auglýsingatekna og fyrir fréttaþjónustu hafi félagið skuldað Fréttablaðinu ehf. um 15.000.000 króna. Af hálfu Fréttablaðsins ehf. hafi verið litið svo á að kröfur vegna auglýsingatekna hafi hreinlega verið tapaðar. D kvaðst ekki hafa orðið var við í störfum sínum að miklar greiðslur hafi verið að berast Fréttablaðinu ehf. frá Vísi.is ehf. á því tímabili er sakarefnið liti að. Hafi hann ekki orðið var við aukið fjármagn í rekstrarumhverfi Fréttablaðsins ehf. umfram það sem orðið hafi með auknum auglýsingatekjum en sala á auglýsingum hafi aukist til muna eftir páska 2002 og tekjur Fréttablaðsins ehf. til samræmis við það.

Vitnið, O kvaðst hafa verið einn eigenda Femin ehf., en félagið hafi verið rekstraraðili netmiðilsins femin.is. Í apríl 2002 hafi félagið keypt netmiðil einkahlutafélagsins Vísis.is. Kaupin hafi haft þann aðdraganda að skömmu áður hafi fyrirsvarsmönnum Femin ehf. borist til eyrna að netmiðill Vísis.is ehf. væri til sölu. Hafi J lögmaður nálgast fyrirsvarsmenn Femin ehf. og boðið þeim netmiðilinn til kaups. Í kjölfarið hafi verið teknar upp samningaviðræður við fyrirsvarsmenn Vísis.is ehf. Fyrir þeirra hönd hafi komið fram ákærði Eyjólfur, ákærði Svavar og X. Ákærði Svavar hafi starfað sem fjármálastjóri Vísis.is ehf. I lögmaður hafi verið fyrirsvarsmönnum Vísis.is ehf. til ráðgjafar. J hafi hins vegar einungis komið kaupunum á, en ekki gætt hagsmuna annars hvors samningsaðila. Fyrir hönd Femin ehf. hafi komið fram við viðræðurnar O sjálf, P og Q, lögmaður félagsins. Samningaviðræður hafi leitt til þess að Femin ehf. hafi keypt netmiðilinn á 60.000.000 króna. Kaupverðið skyldi greiðast innan viku frá undirritun samnings. Haldið hafi verið eftir 2.500.000 krónum af kaupverði þar sem seljendur hafi tekið að sér að lagfæra viðskiptavef netmiðilsins. Sú lagfæring hafi ekki farið fram og hafi skuldabréfi að þeirri fjárhæð verið eytt í júlí 2002. Inntar hafi verið af hendi 47.500.000 krónur næstu daga eftir undirritun í apríl 2002. Samkvæmt gögnum er Femin ehf. hefði yfir að ráða hafi 12.000.000 króna verið inntar af hendi inn á reikning Vísis.is ehf. nr. 1154-26-252 þann 29. apríl 2002. Þann 3. maí hafi 15.798.106 krónur verið greiddar inn á reikning Vísis.is ehf. nr. 301-26-16001. Sama dag hafi 2.201.894 krónur verið greiddar inn á reikning Landssímans vegna skuldar Vísis.is ehf. við símann. Þann 4. eða 5. maí 2002 hafi verið afhent skuldabréf að fjárhæð 17.500.000 krónur á skrifstofu I. Viðstaddir auk lögmannsins hafi verið ákærði Eyjólfur og X. Samkvæmt kaupsamningi hafi verið gert ráð fyrir að fyrsta og önnur greiðsla hafi átt að fara inn á reikning Vísis.is ehf. nr. 1154-26-252. Fyrsta greiðsla hafi runnið inn á reikninginn. Borist hafi tölvupóstur frá ákærða, Svavari, til Q lögmanns þar sem þess hafi verið farið á leit að fyrsta og önnur greiðsla yrðu lagðar inn á reikning nr. 301-26-16001. Ákærði, Svavar, hafi gefið þá skýringu á breyttum greiðslustað að bilun hafi verið í netbanka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Þá hafi verið búið að inna fyrstu greiðslu af hendi. Önnur greiðsla hafi hins vegar farið inn á reikninginn 301-26-16001, að gættri greiðslu inn á reikning Landssímann. Eitt skuldabréf að fjárhæð 10.000.000 króna hafi átt að afhenda í júlí 2002. Vegna vanefnda hafi eigendur Femin ehf. ákveðið að greiða ekki þá fjárhæð og hafi lögmanni Vísis.is ehf. verið gerð grein fyrir því. Eftir að Vísir.is ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta hafi lögmaður Femin ehf. kynnt skiptastjóra að 10.000.000 króna vegna sölu á netmiðlinum hafi ekki verið inntar af hendi. Jafnframt hafi lögmaður Femin ehf. gert kröfu í þrotabú Vísis.is ehf. vegna vanefnda á samningi um kaup á netmiðlinum. Samtals hafi því verið inntar af hendi með peningum og skuldabréfum 47.500.000 krónur vegna kaupa á netmiðlinum. Ákærði Svavar hafi gefið þá skýringu á breyttum greiðslustað að bilun hafi verið í netbanka Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.

Vitnið, C, kvaðst hafa verið ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri Vísis.is ehf. 18. október 2001 og hafa starfað sem slíkur þar til í lok mars 2002. Kvaðst C hafa verið tilkynntur til hlutafélagaskrár sem framkvæmdastjóri félagsins. Hafi hann í upphafi rætt við B um að taka að sér starf sem framkvæmdastjóri. Er til hafi átt að taka og C komið til starfa hafi annað verið upp á teningnum. Hafi hann í raun orðið verkefnastjóri og sem slíkur haldið utan um þau verkefni sem félagið hafi unnið að. Hafi hann þróað netmiðil félagsins. Hann hafi ekki haft með fjármálastjórn að gera. Fjármálastjórn hafi verið með þeim hætti að ákærði Svavar hafi verið skrifstofu- og rekstrarstjóri félagsins og séð um að greiða reikninga. Hafi ákærði Svavar ekki tekið ákvörðun um hvað skyldi greiða, heldur ákærði Eyjólfur annast daglega fjármálastjórn. Sjaldan hafi náðst í ákærða Eyjólf þegar upp hafi komið mál af einhverju tagi. Hafi C þá iðulega haft samband við ákærða Svavar, en Svavar hafi aldrei getað tekið ákvörðun um greiðslu, heldur einungis borið boð til ákærða Eyjólfs, sem hafi verið sá eini sem hafi getað tekið ákvörðun um ráðstöfun fjár hjá félaginu. Hafi það verið mistök af hálfu C að fallast á að vera framkvæmdastjóri án þess að fá um leið stöðu sem slíkur gagnvart fjármálum félagsins. Þegar C hafi verið ráðinn til félagsins 18. október 2001 hafi ákærði Eyjólfur og fyrrum framkvæmdastjóri Vísis.is ehf., B, tjáð C að fjárhagsstaða félagsins væri allt önnur og betri en hún hafi í raun verið.

Vitnið, F, kvaðst hafa starfað sem framkvæmdastjóri fyrir […] ehf. frá 30. apríl 2001 til 3. október 2001. […] ehf. hafi haft með höndum að dreifa Fréttablaðinu til lesenda. X hafi verið skráður stjórnarformaður fyrir félagið en ákærði Eyjólfur verið stjórnarmaður. Ákærði Eyjólfur hafi í raun ráðið öllu í félaginu, auk þess að koma fram sem stjórnarformaður út á við gagnvart starfsmönnum, þrátt fyrir að X væri skráður stjórnarformaður. Félagið hafi verið í miklu fjársvelti og hafi ákærði Eyjólfur því skipt sér mikið af daglegri stjórnun. Frjáls fjölmiðlun ehf. hafi séð um að færa bókhald fyrir félagið. 

Vitnið, X, kvaðst hafa setið í stjórn Vísis.is ehf. sem meðstjórnandi. Kvaðst hann gera ráð fyrir að dagleg fjármálastjórn hafi verið á hendi framkvæmdastjóra félagsins. Undir það hafi t.a.m. fallið ákvarðanir um skattskil. Umræða um daglega fjármálastjórn hafi hins vegar ekki komið til umræðu á stjórnarfundum, sem reyndar hafi að mestu verið óformlegir. Kvaðst X ekki geta sagt til um hvort ákærði Eyjólfur hafi komið að daglegri fjármálastjórn félagsins. Ekki hafi X verið kunnugt um greiðslur er hafi borist af reikningi Vísis.is ehf. nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis inn á reikning Fréttablaðsins ehf. í lok apríl og í maí 2002. Hafi honum fyrst verið kunnugt um millifærslur milli reikninga er ákærði Svavar hafi verið handtekinn. Þá hafi X ekki verið kunnugt um stöðu skuldar Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf.

Vitnið, Z, kvaðst hafa verið innheimtustjóri hjá Fréttablaðinu ehf. Hafi félagið og Vísir.is ehf. verið með sama fjármálastjóra. Hafi Z haft umsjón með útgáfu og innheimtu reikninga. Z, ákærði Svavar og D hafi skipt með sér verkum varðandi innheimtu reikninga og tekið ákveðinn hluta af reikningum hver. Ekki kvaðst Z hafa haft vitneskju um að millifærðar hafi verið af reikningi Vísis.is ehf., nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, þær fjárhæðir er sakarefni samkvæmt A lið ákæru liti að. Hafi hann eingöngu fylgst með því hvað viðskiptavinir greiddu til félagsins. Hvern þriðjudag eftir 21. hvers mánaðar hafi verið tekið saman yfirlit um útistandandi skuldir Fréttablaðsins ehf. Hafi ákærði Svavar þá gefið stjórn upplýsingar um stöðuna. Hafi Z verið kunnugt um að útistandandi skuldir hafi aukist í maí 2002. Það hafi stjórn félagsins ekki verið ljóst fyrr en síðar.

Niðurstaða.

Tilgreind félög, sem ákærði, Eyjólfur Sveinsson, og X voru í fyrirsvari fyrir, voru rekin í tengslum við Frjálsa fjölmiðlun ehf. Voru nokkur þeirra rekin í blaða- og fréttaútgáfu og tengdri starfsemi. Þannig var Fréttablaðið ehf. rekið til að annast útgáfu Fréttablaðsins. Einkahlutafélagið Vísir.is. var rekið til að annast rekstur netmiðils félagsins, en hann miðlaði fréttum og öðru efni á internetinu. Einkahlutafélagið Blaðavinnslan var stofnað í tengslum við kaup á prentvél. Þeirri vél var komið fyrir í húsakynnum Ísafoldarprentsmiðjunnar ehf. Blaðavinnslan ehf. leigði Ísafoldar- prentsmiðjunni ehf. vélina til að prenta Fréttablaðið. Prentun þar á bæ var rekin undir merkjum Ísafoldarprentsmiðjunnar ehf., ÍP-prentþjónustunnar ehf. og Flateyjar-bókbandsstofu. Ólafur Haukur Magnússon framkvæmdastjóri ÍP-prentþjónustunnar ehf. greindi frá því að þessi þrjú félög hafi verið samstæða þriggja fyrirtækja sem hafi myndað órjúfanlega heild. Hafi þau allt eins getað verið deildir innan sama fyrirtækis, en starfsmenn þessara félaga hafi litið svo á að um væri að ræða eitt fyrirtæki. ÍP-prentþjónustan ehf. hafi haft með höndum setningu á plötu, Ísafoldarprentsmiðjan ehf. prentun og Flatey-bókbandsstofa bókband. Öll hafi félögin verið undir einu og sama þakinu og Ísafoldarprentsmiðjan ehf. leigt allt húsnæðið. Að síðustu var einkahlutafélaginu […] ætlað að dreifa Fréttablaðinu til lesenda. Ákærði Eyjólfur átti sæti í stjórn flestra þessara félaga. Hann kvaðst hafa átt sæti í stjórn Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. Hann var stjórnarformaður í Vísi.is ehf., sem og í Fréttablaðinu ehf. Einnig átti hann sæti í stjórn ÍP-prentþjónustunnar ehf., sem og […] ehf. Hann átti ekki sæti í stjórn Blaðavinnslunnar ehf., en samkvæmt framburði ákærða Svavars, sem var skráður stjórnarformaður félagsins, fór ákærði Eyjólfur þess á leit við Svavar að hann sæti þar sem formaður stjórnar. Hafi Svavar litið á það sem bráðabirgðaráðstöfun, en ákærði Eyjólfur hafi öllu ráðið um félagið. Auk ákærða Svavars hafi ritari ákærða Eyjólfs setið í stjórn félagsins.

Samkvæmt gögnum málsins og framburðum ákærðu og vitna var ákærði, Svavar, ráðinn til Vísis.is ehf. 1. júlí 2001. Um stöðu hans hjá félaginu hafa jöfnum höndum verið notuð starfsheitin fjármálastjóri og rekstrarstjóri. Það starf hafði hann með höndum allt til áramóta 2001 til 2002, er hann færði sig um set og var ráðinn hjá Fréttablaðinu ehf. Bæði þessi félög voru undir sama þaki. Um stöðu hans þar hafa jöfnum höndum verið notuð starfsheitin fjármálastjóri, skrifstofustjóri og rekstrarstjóri. Fram kemur að frá þeim tíma hafi hann áfram gegnt starfi fyrir Vísi.is ehf. og m.a. átt að sjá um bókhald félagsins. Bókhald Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. var unnið hjá Frjálsri fjölmiðlun ehf., allt þar til það var tekið yfir á Fréttablaðið ehf. um áramótin 2001 til 2002. Var í verkahring ákærða, Svavars, að hafa umsjón með bókhaldi beggja þessara félaga í starfi sínu á Fréttablaðinu ehf. Ákærði, Svavar, hefur fullyrt að störf hans, bæði hjá Vísi.is ehf. og Fréttablaðinu ehf., hafi meira og minna beinst að því að hafa umsjón með bókhaldi og greiðslu reikninga. Einnig hafi hann komið að innheimtu reikninga, en innheimtustjóri hafi verið að störfum hjá Fréttablaðinu ehf. Hefur hann lýst því að meðákærði hafi verið yfirmaður hans. Þó svo meðákærði hafi ekki verið skráður framkvæmdastjóri fyrir þessi félög hafi meðákærði að meira eða minna leyti tekið allar ákvarðanir er lotið hafi að daglegri stjórn. Rekstur Vísis.is ehf. hafi gengið illa og rekstur Fréttablaðsins ehf. verið erfiður þar sem mikið hafi verið af útistandandi skuldum. Hafi ákærðu og D nánast daglega rætt saman um fjármál og rekstur. Hafi ákærði engum fjármunum ráðstafað í þágu þessara félaga og Blaðavinnslunnar ehf. án þess að meðákærði gæfi fyrirmæli þar um.

Ákærði, Eyjólfur, hefur borið að meðákærði hafi alfarið stjórnað bókhaldi, innheimtum og meðferð fjármuna í Vísi.is ehf. og Fréttablaðinu ehf. Hafi ákærði ekki fylgst sérstaklega með út af hvaða reikningum fjármunir kæmu hverju sinni, en meðákærði hafi bæði haft umsjón með reikningum í eigu Vísis.is ehf., sem og Fréttablaðsins ehf. Þó svo ákærðu og D hafi oft rætt um fjárhagsstöðu félaganna og rekstur, hafi aðkoma ákærða að þeim málum aðallega tengst því að útvega skammtímalán, oft úr eigin vasa, þegar vantað hafi fjármuni í rekstur, sem og að koma að stærri ákvarðanatökum varðandi fjármál. Ákærði hafi verið milliliður á milli stjórnar og ritstjórnar Fréttablaðsins. Hafi ákærði þó þurft að færa sig nær daglegum rekstri Vísis.is ehf. á þeim tíma er C hafi verið starfandi sem framkvæmdastjóri þess félags.

D staðfesti að rekstur Vísis.is ehf. hafi gengið illa og að fjárhagsstaða Fréttablaðsins ehf. hafi verið veik á fyrri hluta árs 2002. Hafi hann og ákærðu hist nánast daglega til að ræða ráðstöfun fjármuna er hafi verið til skiptanna í starfsemi Fréttablaðsins ehf. Ákærði Eyjólfur hafi látið útbúa fyrir sig skrifstofu á Fréttablaðinu ehf. í byrjun árs 2002 og upp frá því blandað sér meira í daglega stjórnun og rekstur. C var skráður framkvæmdastjóri fyrir Vísi.is ehf. á síðari hluta árs 2001 og fyrri hluta árs 2002. Lýsti hann því að ákærði Svavar hafi aldrei tekið ákvarðanir um greiðslur tengda félaginu. Hafi hann einungis getað borið boð frá C til ákærða Eyjólfs, en Eyjólfur hafi verið sá eini sem hafi getað tekið ákvörðun um ráðstöfun fjármuna hjá félaginu. F var framkvæmdastjóri […] ehf. frá apríl 2001 til 3. október sama ár. Bar hann að ákærði Eyjólfur hafi í raun ráðið öllu í starfsemi […] ehf. og skipt sér mikið af daglegri stjórn. Bókhald félagsins hafi verið fært hjá Frjálsri fjölmiðlun ehf.    

Þegar til þess er litið er hér að framan hefur verið rakið er ótvírætt að ákærði Eyjólfur hafi meira og minna haft með höndum daglega stjórn þeirra félaga er rekin voru í tengslum við Frjálsa fjölmiðlun ehf. og höfðu með höndum útgáfu, prentun og dreifingu Fréttablaðsins og rekstur netmiðils Vísis.is ehf. Félög þessi áttu í umtalsverðum rekstrarerfiðleikum á þessum tíma, sem leiddu til gjaldþrots Vísis.is ehf., Fréttablaðsins ehf., ÍP-prentþjónustunnar ehf. og […] ehf. Að sama skapi tók hann allar ákvarðanir um málefni Blaðavinnslunnar ehf., sem að mestu lutu að millifærslum fjármuna í rekstri félagsins, en eina sjáanlega verkefni þess var að eiga og reka prentvél er prentaði Fréttablaðið. Öll þessi starfsemi myndaði eina heild.

Ákærðu og vitni eru á einu máli um að Vísir.is ehf. hafi skuldað Fréttablaðinu ehf. verulega fjármuni sem til hafi komið vegna samstarfssamnings félaganna um fréttaþjónustu Fréttablaðsins ehf. við Vísi.is ehf., birtingu auglýsinga o.fl. Ekki liggur fyrir nákvæm fjárhæð í þessum efnum, en ákærði Eyjólfur kveður hana hafa verið um 30.000.000 til 40.000.000 króna. Ákærði Svavar kvaðst ekki vita fjárhæðina með vissu. Við fyrstu skýrslutöku kvað hann fjárhæðina getað hafa numið um 15.000.000 króna, en fyrir dómi bar hann að rætt hafi verið um 30.000.000 króna skuld. D kvað skuldina hafa getað numið ríflega 20.000.000 króna. Samstarfssamnings þessa sér ekki stað í skriflegum gögnum málsins. Verður því ekki ráðið með vissu hvernig greiðslum samkvæmt honum skyldi háttað eða skyldum að öðru leyti. Þá skýrði ákærði Svavar frá því að ,,skuld” Vísis.is ehf. gagnvart Fréttablaðinu ehf. hafi ekki komið fram í bókhaldi þessara félaga. Ákærðu og D voru á einu máli um að við sölu á netmiðli Vísis.is ehf. yrðu skuldir þessar greiddar, a.m.k. að talsverðu leyti. Netmiðill Vísis.is var seldur Femin ehf. með kaupsamningi 24. apríl 2002. Samkvæmt samningi er frammi liggur var söluverðið 60.000.000 króna. Við undirritun skyldi greiða 12.000.000 króna og 18.000.000 króna 29. apríl 2002. Gefa skyldi út veðskuldabréf sem nemur greiðslu að fjárhæð 20.000.000 króna og 10.000.000 króna skyldu greiddar 25. júlí 2002.

Við rannsókn og meðferð málsins hefur ekki verið fullt samræmi í framburði ákærða Svavars um atvik í tengslum við reikning nr. 252 í útibúi Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í Skeifunni. Hann hefur þó frá upphafi viðurkennt að hafa annast millifærslur er ákæra tilgreinir að hafi átt sér stað út af reikningi nr. 252, á tímabilinu frá 29. apríl 2002 til 27. maí 2002, og raktar eru í tl. 1-24 í A. hluta ákæru. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 21. júní 2002 bar ákærði að hann hafi gert sér grein fyrir því að með millifærslum í lok apríl 2002 hafi reikningur nr. 252 farið á yfirdrátt. Hafi hann haft vitneskju um að fram til þess tíma hafi ekki verið til staðar heimild til að yfirdraga reikninginn. Hafi hann talið sig hafa orð C, fyrrverandi framkvæmdastjóra Vísis.is ehf., fyrir því að komið væri vilyrði um fyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum. Hafi hann einfaldlega gefið sér, þar sem hann hafi getað skuldfært reikninginn, að fyrirgreiðslan væri komin. Hafi ákærði því talið að allt væri í lagi og hafi hann ekki haft samráð við neinn um millifærslurnar. Hafi ákærði millifært 500.000 krónur út af reikningnum 29. apríl 2002. Inn á reikninginn hafi átt að koma greiðsla vegna sölu á netmiðli Vísis.is ehf. Beðið hafi verið eftir greiðslu frá kaupanda netmiðilsins að fjárhæð 12.000.000 króna 30. apríl 2002. Hafi hann beðið eftir greiðslunni fram á kvöld og millifært af reikningnum 2.500.000 krónur um kvöldið. Eftir kl. 21.00 hafi hins vegar ekki verið unnt að sjá hreyfingar á reikningnum í netbankanum. Hafi hann gert sér grein fyrir að reikningurinn hafi farið á yfirdrátt við færsluna, en talið heimilt að yfirdraga hann. Önnur greiðsla, að fjárhæð 18.000.000 króna, hafi átt að berast inn á reikninginn nokkrum dögum síðar. Hafi ákærði því reiknað með að yfirdrátturinn yrði leiðréttur. Ákvörðun hafi reyndar verið tekin um að sú greiðsla færi inn á annan reikning. Ekki gat ákærði upplýst inn á hvaða reikning greiðslan hafi átt að berast eða hver hafi tekið ákvörðun um breyttan greiðslustað. 

Við skýrslugjöf hjá lögreglu 26. júní 2002 bar ákærði að föstudaginn 26. apríl 2002 hafi 12.000.000 króna verið lagðar inn á reikning nr. 252 vegna sölu á netmiðlinum. Millifærslan hafi verið framkvæmd eftir kl. 18.00 þann dag. Reikningurinn hafi ekki verið uppfærður fyrr en á næsta mánudegi, en unnt hafi verið að millifæra af honum þessa helgi. Mánudaginn 29. apríl 2002 hafi ákærði verið að bíða eftir greiðslu númer tvö. Þar sem greiðslan hafi ekki verið komin kl. 18.00 þann dag hafi ákærði vitað af fyrri reynslu að greiðslan myndi ekki sjást fyrr en að morgni næsta dags. Í samráði við og með samþykki meðákærða hafi ákærði á mánudeginum gert tilraun með að millifæra 500.000 krónur. Hafi millifærslan gengið eftir og meðákærði lagt fyrir ákærða að millifæra 2.500.000 krónur til viðbótar. Millifærslan hafi verið framkvæmd eftir miðnættið. Að morgni næsta dags hafi ákærði orðið þess áskynja að innborgun á reikninginn hafi ekki gengið eftir og að reikningurinn væri yfirdreginn um 3.000.000 króna. Hafi ákærði látið meðákærða vita af þessu. Þá hafi meðákærði greint ákærða frá því að sótt hafi verið um 25.000.000 til 30.000.000 króna yfirdráttarheimild á reikninginn. Hafi meðákærði sagt að heimildin hlyti að vera komin úr því að millifærslan hafi gengið eftir þar sem ekki væri unnt að yfirdraga reikninga ef heimild væri ekki til staðar. Greiðsla að fjárhæð 18.000.000 króna hafi ekki borist inn á reikninginn og ákærða ekki verið kunnugt um hvort sú greiðsla hafi yfir höfuð verið innt af hendi. Allar millifærslur eftir það hafi ákærði framkvæmt að fyrirmælum meðákærða, sem hafi sagt hvað skyldi greiða. Hafi ákærði greint meðákærða frá samtali við þjónustustjóra Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og útibússtjóra sparisjóðsins 28. eða 29. maí 2002. Hafi meðákærði ætlað að láta lögmann Vísis.is ehf. semja við bankann um endurgreiðslur og ákærði ekki komið frekar að málinu þar sem ekki hafi verið í hans verkahring að sjá um stærri fjármögnunarmál.

Ákærði gaf í þriðja sinn skýrslu hjá lögreglu 13. apríl 2004. Þá kvaðst hann ekki muna hvort hann hafi gefið kaupendum netmiðilsins fyrirmæli um inn á hvaða reikning greiða skyldi fyrir miðilinn. Einhverjar breytingar hafi þó sennilega verið gerðar á greiðslufyrirkomulaginu. Er honum voru sýnd afrit tveggja skeyta um greiðslu fyrir miðilinn kvaðst hann kannast við að hafa 29. apríl 2002 gefið fyrirmæli að greiða kaupverðið inn á reikning nr. 252. Þá staðfesti hann að næsta dag hafi þeim fyrirmælum verið breytt og óskað eftir að greiðslurnar yrðu færðar inn á reikning félagsins nr. 16001 í Búnaðarbanka Íslands. Að fyrirmælum meðákærða hafi hann komið fyrstu boðum til kaupenda, en hann myndi ekki eftir að hafa sent síðari boðin sjálfur. Kvaðst hann kannast við að hafa millifært 12.000.000 króna af tékkareikningi nr. 16001 í Búnaðarbanka Íslands 3. maí 2002 og að fjárhæðin hafi runnið inn á reikning Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. í Íslandsbanka í Lækjargötu. 

Fyrir dómi bar ákærði að meðákærði hafi gefið ákærða fyrirmæli um að senda lögmanni kaupanda netmiðilsins boð um að greiðsla fyrir miðilinn ætti að berast inn á reikning nr. 252. Fyrsta greiðsla hafi komið inn á reikninginn og ákærði millifært þá fjárhæð á viðeigandi staði að fyrirmælum meðákærða. Því næst hafi verið beðið eftir greiðslu númer tvö. Heimabanki sparisjóðanna hafi ekki ,,virkað” og ákærðu ákveðið að senda kaupendum fyrirmæli um að færa greiðslurnar inn á reikning nr. 16001 í Búnaðarbankanum. Er heimabankinn hafi komist í lag hafi ákærði gert tilraun til að millifæra 500.000 krónur út af reikningi nr. 252. Millifærslan hafi gengið eftir. Hafi ákærði þá ályktað sem svo að greiðsla fyrir netmiðilinn hafi borist inn á reikninginn. Næsta dag hafi ákærði séð að reikningurinn hafi verið kominn í mínus og greint meðákærða frá því. Hafi ákærði þá spurt meðákærða hvort heimild væri á reikningnum og meðákærði spurt á móti hvort nokkuð væri hægt að yfirdraga reikninga án heimildar. Það hlyti því að vera fyrir hendi heimild. Skyldi ákærði ekki hafa meiri áhyggjur af því. Hafi ákærði upplýst meðákærða ,,allt að því “ alltaf er hann hafi framkvæmt millifærslur af reikningi nr. 252 í maí 2002, a.m.k. á hverjum degi. Ákærði hafi í framhaldi af millifærslum ráðstafað fjármununum á þann veg er meðákærði hafi mælt fyrir um.

Verulegt innbyrðis ósamræmi er í framburði ákærða Svavars. Miðað við gögn er liggja fyrir í málinu um færslur af reikningi nr. 252 og fyrirmæli um greiðslustað sem send voru kaupendum netmiðilsins er það einungis framburður ákærða fyrir dómi er að fullu fær samrýmst gögnum málsins. Ákærði hefur orðið margsaga um hvernig hann hafi ályktað að yfirdráttarheimild væri til staðar á reikningi nr. 252. Bar hann í fyrstu að C hafi nefnt vilyrði frá sparisjóðnum og að ákærði hafi ályktað að það væri í formi yfirdráttar er honum hafi auðnast að millifæra af reikningnum. Síðar bar hann að meðákærði hafi greint frá heimild að fjárhæð 25.000.000 til 30.000.000 króna. Loks bar hann fyrir dómi að meðákærði hafi gefið í skyn að heimild væri til staðar, án þess að það hafi verið rætt til hlítar. Þá hefur ákærði orðið margsaga um greiðslufyrirmælin. Vildi hann í fyrstu ekki kannast við að hafa gefið slík fyrirmæli. Næst kvaðst hann hafa gefið upphafleg fyrirmæli, en ekki fyrirmæli um breyttan greiðslustað. Hann kvaðst jafnvel ekki vita hvort greiðsla númer tvö hafi yfir höfuð verið innt af hendi og þá hvert. Að síðustu kvaðst hann hafa gefið kaupendum fyrirmæli um breyttan greiðslustað þar sem heimabanki ákærða hafi ekki verið í lagi. Sá framburður hans fær stoð í framburði O. Þá gengur gegn gögnum málsins sá framburður ákærða er hann gaf við fyrstu yfirheyrslur hjá lögreglu um að hann hafi 30. apríl 2002 beðið eftir að fyrsta greiðsla bærist inn á reikning nr. 252. Samkvæmt yfirliti um þennan reikning í gögnum málsins og framburði O var sú greiðsla innt af hendi mánudaginn 29. apríl 2002. Yfirlitið ber með sér að auk þeirrar fjárhæðar hafi 700.000 krónur verið lagðar inn á reikninginn þann dag. Út af reikningnum hafi farið alls 9 færslur þennan sama dag samtals að fjárhæð 12.700.000 krónur. Að því loknu hafa 500.000 krónur verið teknar út af reikningnum. 

Ákærði Eyjólfur hefur lýst því að fyrsta þriðjudag eftir 20. hvers mánaðar hafi legið fyrir yfirlit um rekstur Fréttablaðsins ehf. Þar hafi m.a. komið fram hvernig innheimtu útistandandi skulda miðaði. Hafi ákærði Svavar haft með höndum innheimtu gagnvart stórum viðskiptavinum. Verulega aukin sala hafi verið á auglýsingum í apríl og maí 2002. Hafi ákærði ekki orðið þess var að aukið fé væri í umferð hjá Fréttablaðinu ehf. í maí 2002, en reiknað með auknum fjármunum vegna aukinnar sölu. Hafi ákærði ekki heldur orðið var við að fjármunir hafi komið inn til Fréttablaðsins ehf. af yfirdrætti af reikningi Vísis.is ehf. nr. 252. Hafi það fyrst verið er lögregla hafi boðað ákærða til skýrslutöku í lok júní 2002. Yfirlit um útistandandi skuldir maí mánaðar 2002 hafi fyrst legið fyrir 25. júní 2002. Hafi ákærði fyrst þá átt að geta áttað sig á millifærslum meðákærða. Meðákærði hafi hins vegar stórlega vanrækt innheimtur í apríl og maí 2002, sem sést hafi best af því að hann hafi ekkert hringt úr húsi Fréttablaðsins ehf. Þá hafi meðákærði ekki greint ákærða frá því að útibússtjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hafi í lok maí 2002 greint frá því að óheimil meðferð á reikningi nr. 252 yrði kærð til lögreglu. D og Z innheimtustjóri, hafa staðfest þann framburð ákærða Eyjólfs að yfirlit um rekstur hafi verið tekin saman eftir 20. hver mánaðar og að sala á auglýsingum hafi aukist í apríl og maí 2002.

Við rannsókn málsins óskaði lögregla eftir að bankastofnanir létu í té upplýsingar um bankareikninga í eigu Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. Liggja frammi í málinu umfangsmikil gögn um reikninga í eigu félaganna og hreyfingar á þeim. Fram hefur komið í framburðum ákærðu að Vísir.is ehf. hafi átt tvo reikninga. Annar hafi verið tékkareikningur í Búnaðarbanka Íslands nr. 16001, en sá reikningur hafi verið aðalreikningur félagsins. Hinn hafi verið gíróreikningurinn nr. 252 í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Yfirlit um báða þessa reikninga liggja fyrir í gögnum málsins. Er gerð var grein fyrir kæru þessa máls til lögreglu voru raktar hreyfingar í apríl og maí 2002 á reikningi nr. 252. Fyrir utan greiðslu inn á reikninginn að fjárhæð 12.000.000 króna vegna sölu á netmiðlinum 29. apríl 2002, eru innborganir á reikninginn á tímabilinu 29. apríl til 27. maí 2002 samtals 1.839.990 krónur, í alls sjö færslum. Samkvæmt yfirliti tékkareiknings nr. 16001 í Búnaðarbanka Íslands er lokastaða reikningsins 21. maí 2002 39 krónur. Á tímabilinu frá 7. maí 2002 til 21. maí 2002 eru færðar inn á reikninginn 5 færslur og út af honum 9 færslur. Innborganir nema samtals 12.436.035 krónum, en greiðslur út af reikningi samtals 15.051.400 krónur. Svo sem fyrr var rakið er í rannsóknargögnum gerð grein fyrir færslum á bankareikningum 0303-13-100125 og 0453-26-2690 í eigu Fréttablaðsins ehf., en millifærslur af reikningi Vísis.is ehf. nr. 252 inn á reikninga Fréttablaðsins runnu að mestu leyti inn á þessa tvo reikninga. Það sem rakið var er gerð var grein fyrir hreyfingum á þessum reikningum ber augljós merki um að velta á reikningi nr. 100125 í banka nr. 0303, á því tímabili sem gerð var grein fyrir, hefur að meginstefnu snúist um þær innborganir er áttu sér stað inn á reikninginn af reikningi Vísis.is ehf. nr. 252. Reikningurinn ber með sér að hafa aðallega verið notaður fyrir launagreiðslur. Að því er varðar tékkareikning Fréttablaðsins ehf. nr. 2690 í banka nr. 0513 sýna hreyfingar á reikningnum að reikningurinn hefur að verulegu leyti staðið undir fjárstreymi Fréttablaðsins ehf. og virðast laun t.a.m. að einhverju leyti einnig hafa verið greidd út af reikningnum. Á stundum hafa töluverðar fjárhæðir komið inn á reikninginn annars staðar en af reikningi nr. 252. Á öðrum tímabilum hafa millifærslur inn á reikninginn út af reikningi nr. 252 verið þær einu er eitthvað hefur kveðið að og hafa staðið undir greiðslu út af reikningnum. Að öðru leyti en hér hefur verið gerð grein fyrir hafa rannsóknargögn málsins ekki sýnt veltu sem einhverju nemur á öðrum reikningum í eigu Fréttablaðsins ehf. Nefndir tveir reikningar virðast því hafa verið þeir reikningar er Fréttablaðið ehf. hefur byggt rekstur sinn á.   

Dómurinn hefur slegið föstu að ákærði Eyjólfur var í reynd sá er hafði með höndum daglega stjórn fjármuna í rekstri Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. Einnig var getið um mjög svo óvissa skuld Vísis.is ehf. við Fréttablaðið ehf., sem ekki kom fram í bókhaldi félaganna. Þá voru raktar slæmar horfur í rekstri þessara félaga sem leiddi til þess að daglega voru teknar ákvarðanir um hvaða reikninga skyldi greiða, en það tæki mið af fjármunum er kæmu inn á reikninga þessara félaga á hverjum degi. Útibússtjóri sparisjóðsins og þjónustustjóri hafa fullyrt að Reiknistofa bankanna hafi daglega sent yfirlit um hreyfingar á reikningi Vísis.is ehf. nr. 252, að Þverholti 11 í Reykjavík, en slíkt hafi í öllum tilvikum verið gert þegar um hreyfingar á sambærilegum reikningum væri að ræða. Þegar til þessarar stöðu er litið og hreyfinga á reikningum félaganna, er að stórum hluta snérust um innborganir verulegra fjárhæða af reikningi nr. 252 er fóru í daglegan rekstur Fréttablaðsins ehf., fær það með engu móti staðist að ákærði Eyjólfur hafi ekki haft vitneskju um að á tímabilinu 29. apríl 2002 til 27. maí 2002 ættu sér stað millifærslur á um 24.000.000 króna af reikningi Vísis.is ehf. í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Er hér um að ræða gríðarlega fjármuni, svo notuð séu orð ákærða Eyjólfs sjálfs. Ákærði Svavar hefur borið um símtal er hann átti við K útibússtjóra sparisjóðsins í lok maí 2002. K kveður það samtal hafa átt sér stað 28. maí, en hann ritaði minnisblað í kjölfar þess. Eru ákærði Svavar og K á einu máli um að í því símtali hafi komið fram að málið yrði kært til lögreglu ef yfirdráttur yrði ekki leiðréttur samstundis. Ákærði Svavar hefur fullyrt að hann hafi gert ákærða Eyjólfi grein fyrir efni þessa símtals. Ákærði Eyjólfur hefur staðfastlega haldið því fram að svo hafi ekki verið. Verður að telja það einkar ósennilegt í ljósi stöðu ákærða Eyjólfs innan félaganna, hinnar erfiðu skuldastöðu Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. á þessum tíma og þess að kæra vegna notkunar á reikningi nr. 252 var alvarlegur og afdrifaríkur atburður. Kom enda á daginn að sú opinbera umræða er fór af stað á fyrstu stigum rannsóknar málsins leiddi til eigendaskipta á Fréttablaðinu. Að virtu öllu sem hér að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að framburði ákærða Eyjólfs um millifærslur af reikningi nr. 252 er hafnað og við það miðað að hann hafi í félagi við meðákærða tekið ákvörðun um að millifærðar yrðu tilgreindar fjárhæðir af reikningi nr. 252 á tímabilinu 29. apríl til 27. maí 2002. Ákærða Eyjólfi var ljóst að ekki var til staðar heimild til að yfirdraga þennan reikning. Þá var honum ljós erfið fjárhagsstaða Vísis.is ehf. og Fréttablaðsins ehf. og að hætta væri á að Vísir.is ehf. gæti ekki greitt til baka þær fjárhæðir er teknar voru út af reikningnum umfram heimild. Með þessu framferði sínu stofnaði hann vísvitandi í hættu fjármunum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Verður hann því sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot gegn 249. gr. laga nr. 19/1940. Um refsingu sem ákærða er gerð vegna þessarar háttsemi er fjallað í kaflanum um samantekt refsinga.

Ákærði Svavar hefur verið margsaga í málinu um meðferð á gíróreikningi nr. 252. Honum var einnig ljós erfið fjárhagsstaða félaganna og að hætta væri á að ekki væri hægt að endurgreiða fjármuni er teknir voru út af reikningi nr. 252. Í ljósi daglegra verkefna ákærða fyrir Vísi.is ehf. og Fréttablaðið ehf., þess er fram er komið um veltu og ráðstöfun fjármuna á reikningum þessara félaga, þeirra samskipta er ákærðu áttu um rekstur og fjármál félaganna, yfirlita er bárust ákærða frá Reiknistofu bankanna um hreyfingar á reikningi nr. 252 og vitneskju ákærða um mögulegar fyrirgreiðslur hjá lánastofnunum telur dómurinn einnig sannað að ákærði Svavar hafi vitað af því að ekki var til staðar heimild til að yfirdraga þennan reikning, er hann að fyrirmælum meðákærða millifærði af honum títtnefndar 24 færslur í lok apríl og í maí 2002. Með aðgerðum sínum stofnaði ákærði í hættu fjármunum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Verður hann því einnig sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot gegn 249. gr. laga nr. 19/1940. Um refsingu sem ákærða er gerð vegna þessarar háttsemi er fjallað í kaflanum um samantekt refsinga.

Ákærukafli B - [...]hf.

Málsatvik.

Ákærðu neita sök samkvæmt þessum ákærulið og krefjast sýknu. Til vara krefjast þeir vægustu refsingar sem lög leyfa og að málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins frá 21. janúar 2003 til Ríkislögreglustjórans vísaði skattrannsóknarstjóri máli vegna skattaðilans […] hf., síðar þrotabús, til opinberrar rannsóknar vegna meintra brota á ákvæðum laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Bú […] hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum í héraðsdómi Norðurlands eystra 21. júní 2002 og var Örlygur Hnefill Jónsson hdl. skipaður skiptastjóri.

Í kæru skattrannsóknarstjóra kemur fram að tilefni rannsóknar á skattskilum skattaðilans hafi verið athugun skattrannsóknarstjóra á skattskilum í staðgreiðslu. Formlega hafi rannsókn skattrannsóknarstjóra hafist á staðgreiðsluskilum […] hf. 16. janúar 2002 með því að tilkynning hafi verið send á lögheimili skattaðilans og beindist rannsóknin að staðgreiðsluskilum […] hf. á tekjuárinu 2001. Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá var ákærði, Eyjólfur, formaður stjórnar skattaðilans það tímabil sem rannsóknin tók til, R, S og ákærði X voru meðstjórnendur og E var framkvæmdastjóri skattaðilans með prókúruumboð. Samkvæmt aðalfundi í félaginu 19. mars 2001 kom fram tillaga að nýrri stjórn […], þannig að í stjórn skyldu sitja ákærði Eyjólfur, E og Z og var tillagan samþykkt mótatkvæðalaust. Fundarstjóri, T, benti á að fundurinn hefði ekki heimild til að breyta samþykktum félagsins og að stjórn félagsins samkvæmt breyttum samþykktum væri því ekki lögmæt.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra leiddi í ljós að fyrrum fyrirsvarsmenn […] hf., ákærði Eyjólfur og E, stóðu innheimtumanni ríkissjóðs ekki á lögmæltum tíma skil á þeirri staðgreiðsluskilagrein sem þeim bar að standa skil á vegna launamanna skattaðilans fyrir greiðslutímabilið ágúst 2001. Þá leiddi rannsóknin í ljós að fyrrum fyrirsvarsmenn skattaðilans vanræktu að standa skil á þeirri afdregnu staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna skattaðilans sem þeim bar að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs, vegna greiðslutímabilanna mars, apríl, maí, júní, júlí og ágúst tekjuárið 2001.

Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins voru kærðu spurðir um hver hefði tekið ákvörðun um og bæri ábyrgð á að afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna skattaðilans vegna áðurgreindra greiðslutímabila var ekki skilað til innheimtumanns staðgreiðslu. Kærðu sögðust báðir telja að staðin hefðu verið skil á staðgreiðslunni. Ákærði, Eyjólfur, sagði að E væri umsjónarmaður þessara mála hjá félaginu, en E sagði ábyrgðina liggja hjá stjórn skattaðilans. Samkvæmt rannsókninni nam vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra greiðslutímabila 2.836.434 krónum 24. janúar 2002, auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Eftir að skattrannsóknarstjóra höfðu borist upplýsingar frá innheimtumanni ríkissjóðs um hvort greitt hefði verið inn á skattskuldir eftir það tímamark er greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra, þ.e. eftir 24. janúar 2005, kom í ljós að 367.532 krónum hafði verið ráðstafað inn á greiðslutímabil á tekjuárinu 2001, þar af var 276.160 krónum ráðstafað inn á höfuðstól og 91.372 krónum inn á dráttarvexti, álag og kostnað. Að teknu tilliti til þessara greiðslna nam staðgreiðsluskuld skattaðilans samtals 2.560.274 auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar.

Með bréfi 13. maí 2002 var skýrsla skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli […] hf. send ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunar heimilda þess embættis. Með bréfi frá 14. maí 2002 tilkynnti ríkisskattstjóri skattrannsóknarstjóra þá ákvörðun sína að hann hygðist ekki endurákvarða skattfjárhæðir í málinu.

Í yfirliti efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra varðandi […] hf. kemur fram að afdregin staðgreiðsla vegna tímabilanna mars til og með ágúst 2001 nam 2.021.617 króna og hafði þá verið tekið tillit til afdreginnar staðgreiðslu vegna E framkvæmdastjóra og er við þá fjárhæð miðað í ákæru.

                Fyrir liggur í málinu að […] hf. var veitt heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna sína 18. júlí 2001 og var sýslumaðurinn á Akureyri einn skuldheimtumanna. Samningurinn var staðfestur með úrskurði 18. október 2001 og samkvæmt frumvarpi til nauðasamnings bauðst skuldari til að greiða 25% af höfuðstól krafna miðað við 31. mars 2001 á tilgreindum gjalddögum.

                Jafnframt liggur frammi í málinu yfirlit frá sýslumanninum á Akureyri um innborganir […] hf. á árinu 2001, þ.e. á tímabilinu júní til ágúst 2001, á staðgreiðsluskuldir félagsins, að fjárhæð 6.053.490 krónur, en þeirri fjárhæð var allri ráðstafað inn á skuld vegna ársins 2000, sem heyrði undir fyrrgreindan nauðasamning, eins og fram kemur í bréfi Rutar Ófeigsdóttur, skrifstofustjóra sýslumannsins á Akureyri frá 7. maí 2003. Í bréfinu kemur jafnframt fram að embætti sýslumannsins reyndi að færa greiðslunar inn á gjöld vegna ársins 2001, í samræmi við vilja E framkvæmdastjóra […] hf., en það tókst ekki.

                Samkvæmt yfirliti yfir skráningu stjórnar og framkvæmdastjóra hjá hlutafélagaskrá varðandi það tímabil sem í ákæru greinir voru ákærðu í stjórn félagsins og ákærði Eyjólfur formaður stjórnar. Á því tímabili sem meint brot áttu sér stað voru ákærðu einu skráðu aðalmennirnir í stjórn, en E var skráður framkvæmdastjóri. Í yfirlýsingu Þ frá 10. september 2003 kemur fram að hann hafi sent tilkynningu til hlutafélagaskrár um starfslok sín sem framkvæmastjóra og að E hafi þá tekið við framkvæmdastjórn frá 1. mars 2000.

                Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

                Ákærði, Eyjólfur var spurður fyrir dómi um hver hafi borið ábyrgð á rekstri félagsins þann tíma sem ákæra tekur til. Hann kvað E hafa haldið utan um það sem þurft hefði að gera. Ákærði kvaðst hafa verið stjórnarformaður þennan tíma, en kvað að sér hefði ekki verið kunnugt um þá fjárhagsstöðu félagsins að ekki væri hægt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda. Hann kvaðst hafa talið að félagið hefði staðið skil á vörslusköttum sem því bar að greiða.

                Ákærði kvað að tilkynning til hlutafélagaskrár, þar sem tilkynnt var um E sem framkvæmdastjóra, hefði ekki verið send að beiðni ákærða. Þá kvaðst ákærði kannast við yfirlýsingu sem liggur frammi í gögnum málsins um að Frjáls fjölmiðlun  ehf., taki að sér ábyrgð á greiðslu vörsluskatta […] hf.

                Ákæði kvaðst ekki hafa haft prókúru fyrir […] hf. og kvaðst hafa vitað að E hefði átt inni laun hjá félaginu eftir mars 2001.

                Ákærði, X, kvaðst hafa verið meðstjórnandi í félaginu þann tíma sem ákæra tekur til. Hann kvaðst telja að E hefði verið framkvæmdastjóra félagsins. Ákærði var spurður um það hvort hann hefði á einhverju stigi fengið einhverja vitneskju um að staðgreiðsluskattar væru ógreiddir og svaraði ákærði svo: ,,Nei, ekkert sérstaklega“.

                Ákærði var spurður um yfirlýsingu frá 11. maí 2001, frá Frjálsri fjölmiðlun ehf., þar sem segir að Frjáls fjölmiðlun ehf., taki ábyrgð á greiðslu vörsluskatta […] hf., allt að 11.000.000 krónum. Ákærði kvaðst hafa verið stjórnarformaður Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. á þessum tíma, en kvaðst ekkert muna sérstaklega eftir þessari yfirlýsingu, en kvaðst þó viss um að yfirlýsingin hefði verið borin undir hann áður en yfirlýsingin var gefin.

                Ákærði kvað að rekstur félagsins hefði gengið illa alla tíð og það sem hefði gert útslagið hefðu verið erfiðleikar með að innheimta reikninga og mikið hefði verið af óinnheimtum reikningum.

                Vitnið, E, kvaðst hafa verið fjármálastjóri […] hf. á þeim tíma sem ákæra tekur til. Hann kvað stöðu félagsins hafa verið erfiða alla tíð. Hann kvað yfirmenn sína hafa verið Þ, sem var framkvæmdastjóri félagsins á árinu 2000, en eftir það hafi enginn framkvæmdastjóri verið í félaginu og kvaðst vitnið mest hafa verið í sambandi við ákærða, Eyjólf, sem var stjórnarformaður félagsins. Spurður um það hvort vitnið hefði gert ákærða, Eyjólfi grein fyrir þeirri stöðu félagsins að vörsluskattar væru ógreiddir, kvað vitnið það örugglega hafa komið fram í umræðum er vitnið var að leita eftir fjármunum til hvers ætti að nota þá fjármuni.

                Vitnið kvaðst kannast við tilkynningu til hlutafélagaskrár, sem honum var sýnd í réttinum, þar sem tilkynnt er um að Þ láti af störfum sem framkvæmdastjóri og í stað hans komi vitnið. Kvaðst vitnið ekki hafa undirritað þessa tilkynningu og hafi honum ekki verið kunnugt um hana. Er vitnið hefði fengið vitneskju um hana, hefði hann mótmælt henni með bréfi til hlutafélagaskrár.

                Vitnið var spurt um tilurð yfirlýsingar Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., um ábyrgð á skuldum. Kvað vitnið að á þessum tíma hefði innheimtumaður ríkissjóðs lagt mjög hart að félaginu að greiða og kvaðst vitnið hafa komið þeim upplýsingum til stjórnar félagsins, væntanlega ákærða, Eyjólfs, þar sem vitnið kvaðst oftast hafa verið í sambandi við hann.

                Vitnið var spurt um það hvort félagið hafi átt einhverjar útistandandi kröfur á þeim tíma er félagið leitaði eftir nauðasamningsheimild og kvað það hafa átt óverulegar kröfur, en einhverjar þó.

                Vitnið kvað nauðasamning hafa miðast við 1. mars 2001 (sic) og kvað vitnið að töluvert af staðgreiðslu hefði verið greitt til innheimtumanns ríkissjóðs eftir það, en ágreiningur hafi verið milli innheimtumanns ríkissjóðs og félagsins hvernig greiðslunum var ráðstafað inn á skuldina og hafi innheimtumaður ríkissjóðs í reynd tekið allt of mikið upp í það tímabil sem nauðasamningur tók til, en greiðslur hafi hins vegar ekki farið til að greiða staðgreiðslu þessa tímabils. Vitnið kvaðst þó hafa talið að sýslumaður myndi leiðrétta þetta og ráðstafa greiðslunum inn á rétt tímabil.

                Vitnið var spurt um það hvort öll laun hefðu verið greidd á réttum tíma og kvað vitnið það ekki hafa verið svo og  að hluti launa sé ógreiddur enn.

                Vitnið, Þ, var spurður um tilkynningu til hlutafélagaskrár, þar sem tilkynnt er um að hann láti af störfum sem framkvæmdastjóri og að í stað hans komi E. Kvaðst vitnið kannast við að hafa útbúið þessa tilkynningu, en um misskilning hafi verið að ræða hjá vitninu. Hann kvaðst hafa haldið að E ætti að taka við framkvæmdastjórn, en kvaðst hafa komið á framfæri við lögreglu, leiðréttingu á efni tilkynningarinnar.

                Vitnið, M, var spurður um yfirlýsingu Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. um ábyrgð á vörslusköttum. Kvað hann yfirlýsinguna hafa verið gerða að beiðni stjórnarformanns Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., ákærða, Sveins.

                Vitnið, U kvaðst hafa unnið í launadeild Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., á árunum 2000, 2001 og 2002. Hún kvaðst mest hafa verið í samskiptum við E vegna starfa sinna og kvað hann hafa sagt sér að hann væri framkvæmdastjóri  félagsins.

                Vitnið, Rut Ófeigsdóttir, var spurð um meint samkomulag E og sýslumannsins á Akureyri um að greiðslur sem félagið innti af hendi færu fyrst inn á staðgreiðslu opinberra gjalda, en ekki inn á nauðasamninga félagsins. Kvaðst vitnið ekki kannast við samkomulag þess efnis, en kvað E hafa haft samband vegna vörsluskatta félagsins og staðfesti að frásögn í bréfi hennar frá 7. maí 2003 væri rétt.

                Vitnið kvað greiðslur sem E innti af hendi hafa farið með fullri krónutölu inn á skuldina árið 2000 en millifærslu á þeim inn á árið 2001 hefði ekki verið unnt að framkvæma, þrátt fyrir óskir hans þar um. Vitnið kvað E hafa tekið það sérstaklega fram við gjaldkera, er hann greiddi, að hann væri að greiða vegna staðgreiðslu, en ekki vegna nauðasamninganna.

Niðurstaða.

                Í málinu liggur frammi yfirlýsing frá Frjálsri fjölmiðlun ehf., dagsett 11. maí 2001, þar sem fram kemur að Frjáls fjölmiðlun taki ábyrgð á greiðslu vörsluskatta […] hf., allt að 11.000.000 króna. Ákærði, X var stjórnarformaður Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. á þeim tíma er yfirlýsing þessi var gefin og af henni er ljóst að ákærða, X, var fullkunnugt um stöðu félagsins gagnvart vangreiddum vörslusköttum.

                Vitnið, E, kvaðst hafa komið upplýsingum til ákærða, Eyjólfs, um erfiða stöðu félagsins, en vitnið hefði oftast verið í sambandi við hann. Þá kvað vitnið að sýslumaður hafi tekið of mikið af þeim greiðslum sem inntar voru af hendi af hálfu félagsins inn á það tímabil sem nauðasamningur tók til og staðfesti vitnið Rut Ófeigsdóttir þennan framburð vitnisins.

                Þegar litið er til framangreinds er það mat dómsins að ákærðu hafi verið fullkunnugt um stöðu félagsins og að í vanskilum var afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda.

                Í 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög er mælt fyrir um þær ríku skyldur sem hvíla á ákærðu sem stjórnarformanni og stjórnarmanni. Eins og að framan greinir er það mat dómsins að ákærðu hafi verið kunnugt um rekstur félagsins, þar á meðal um hvort félagið stæði í skilum með staðgreiðslu opinberra gjalda. Þeim bar í skjóli stöðu sinnar að annast um að starfsemi félagsins væri jafnan í réttu og góðu horfi. Félagið átti við fjárhagslega erfiðleika að etja á þessum tíma, en það lagði ríkar skyldur á herðar ákærðu að fylgjast með og tryggja að félagið innti af hendi lögboðin gjöld. Með aðgerðaleysi sínu hafa ákærðu af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda til að hlutast til um að afdregin staðgreiðsla yrði greidd. Með háttsemi sinni hafa ákærðu því báðir gerst sekir um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, þó þannig að brot ákærðu samkvæmt þessum ákærulið þykja ekki vera svo stórfelld að fella beri þau undir 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. neðangreinda umfjöllun.

                Í málinu er fram komið að […] hf. var veitt heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna sína 18. júlí 2001 og miðar ákæruvaldið við að  sýslumaðurinn á Akureyri hafi verið bundinn af nauðasamningnum, eins og fram kemur í gögnum málsins, meðal annars bréfum Rutar Ófeigsdóttur skrifstofustjóra sýslumannsins á Akureyri. Samningurinn var staðfestur með úrskurði 18. október 2001 og samkvæmt frumvarpi til nauðasamnings bauðst skuldari til að greiða 25% af höfuðstól krafna miðað við 31. mars 2001 á tilgreindum gjalddögum. Jafnvel þótt brot ákærðu hafi verið fullframin þegar lögboðnum gjöldum var ekki skilað á réttum gjalddögum, er ljóst af  gögnum málsins að á því tímabili er ákæra tekur til, greiddu ákærðu mun hærri fjárhæðir til innheimtumanns ríkissjóðs, en sem nemur ákærufjárhæð og þær greiðslur sem ráðstafað var inn á þau tímabil sem nauðasamningur tók til, voru umfram það sem þeim bar að greiða samkvæmt nauðasamningi.

                Með lögum nr. 134/2005 um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og fleiri lögum voru þær breytingar gerðar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt að fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 er ekki talið eiga við, hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein staðgreiðslu eða réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattskýrslu, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Í lögum nr. 134/2005 er ekki að finna nánari afmörkun á því hvað sé verulegur hluti skattfjárhæðar eða sérstakar málsbætur að því er varðar þessi brot og verður ekki annað séð en að látið hafi verið í hendur dómstóla að skýra þessi atriði. 

                Með hliðsjón af því sem að framan greinir um að ákærðu hafi greitt inn á staðgreiðsluskuld eftir eindaga, umfram ákærufjárhæð, verður ekki talið að fésektarlágmark samkvæmt 30. gr. laga nr. 45/1987, eigi við. Ákærðu verður því, hvorum um sig, gert að greiða í ríkissjóð fésekt að fjárhæð 50.000 krónur, innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Vararefsing ákærðu er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga. 

Ákærukafli C – […] ehf.

Málsatvik varðandi I og II.

                Ákærðu, G og Z, neita sök samkvæmt þessum ákærulið og krefjast sýknu. Til vara krefjast þeir vægustu refsingar sem lög leyfa og að málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði. Ákærði Þ, játar sök, en ber brigður á fjárhæðir í ákæruskjali.

                Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á staðgreiðslu- og virðisaukaskattskilum […] ehf. hófst formlega 30. ágúst 2001 með því að skattaðilanum var sent bréf þess efnis á lögheimili skattaðilans.

                Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins frá 21. janúar 2003 til Ríkislögreglustjórans vísaði skattrannsóknarstjóri máli vegna skattaðilans […] ehf., síðar þrotabús, til opinberrar rannsóknar vegna meintra brota á ákvæðum laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslutímabilanna september til og með desember 2000 og janúar til og með mars 2001, samtals að fjárhæð 10.049.180 krónur, samkvæmt leiðréttri ákæru, og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt vegna tímabilanna nóvember til desember 2000 og janúar til febrúar 2001 samtals að fjárhæð 5.915.885 krónur. 

                Bú […] ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms uppkveðnum 20. september 2001.

                Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá var skráður tilgangur […] ehf. á því tímabili sem rannsókn skattrannsóknarstjóra tók til almenn viðskiptaráðgjöf, alhliða markaðsþjónusta, leigu- og lánastarfsemi, rekstur fasteigna og önnur skyld starfsemi. Bú […] ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2001. Samkvæmt því sem fram kemur í hlutafélagaskrá sat ákærði, Þ, sem stjórnarformaður félagsins frá 20. ágúst 1997 til 20. september 2001, en hann hefur haldið því fram að hann hafi hætt sem stjórnarformaður 29. desember 1999 og gengið aftur í stjórn félagsins í janúar 2001. Ákærði, G, var framkvæmdastjóri félagsins frá 1. nóvember 1996 til 30. nóvember 2000 og ákærði, Z, var meðstjórnandi frá 26. janúar 2001 til 20. september 2001. Í framburði Þ við yfirheyrslu hjá lögreglu 11. nóvember 2003 kvað hann daglega framkvæmdastjórn hafa verið á hendi ákærða, G, þar til hann hætti 30. nóvember 2000, en eftir það hafi ákærði, Z, annast fjármálastjórn, en hafi þó aldrei verið formlega skráður né ráðinn sem framkvæmdastjóri frá því að ákærði, G, hætti og til loka þess tímabils sem um ræði. Ákærði, Þ, kvaðst aldrei hafa komið að neinum ákvörðunum um skattskil af neinu tagi, þau verk hafi verið á hendi framangreindra manna, ákærðu, G og Z.

                Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra voru ákærðu spurðir hver hefði tekið ákvörðun um og bæri ábyrgð á að afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna skattaðilans vegna áðurgreindra greiðslutímabila var ekki skilað til innheimtumanns ríkissjóðs. Kvað ákærði, Þ, að ákærði, G, hefði tekið þá ákvörðun og borið þá ábyrgð, ákærði, Z, sagði að stjórn og framkvæmdastjóri hefðu tekið þá ákvörðun og bæru þá ábyrgð, en ákærði, G, kvaðst ekki vita hver hefði tekið ákvörðunina og bæri ábyrgðina.

                Samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra nam vangoldin afdregin staðgreiðsla vegna framangreindra greiðslutímabila 5. september 2001 10.383.875 krónum auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar, en fjárhæð þessi breyttist í meðförum ákæruvaldsins og var lokaniðurstaða samkvæmt breyttri ákæru 10.049.180 krónur. Skattrannsóknarstjóri ríkisins aflaði upplýsinga frá innheimtumanni ríkissjóðs um hvort greitt hefði verið inn á skuldir skattaðilans vegna staðgreiðslu opinberra gjalda eftir 5. september 2001, en svo reyndist ekki vera. Samkvæmt gögnum málsins skilaði ákærði, Z, inn báðum virðisaukaskattskýrslunum auk skilagreina staðgreiðslu vegna júní 2000 til og með desember 2000, 24. apríl 2001.

                Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi, varðandi þennan ákærulið.

                Ákærði, Z, kvaðst hafa verið stjórnarmaður í félaginu frá 26. janúar 2001. Í nóvember og desember 2000 hafi hann sinnt fjármálastjórn í félaginu, þ.e. séð um laun og launauppgjör og haft yfirumsjón með bókhaldi og færslu þess. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa verið starfandi sem framkvæmdastjóri í […] ehf., eftir áramót og ekki þegið þar laun, né verið á launaskrá. Ákærði kvaðst hafa verið í stjórn […] ehf., frá 26. janúar 2001, í raun til þess að aðstoða stjórnarformanninn. Hann kvaðst hafa skilað virðisaukaskattskýrslum fyrir nóvember/desember 2000 og janúar/febrúar 2001. Skýrslunum hafi verið skilað án greiðslu. Ákærði kvað ástæðu þess að ekki var greitt hafa verið þá að bullandi taprekstur hafi verið á félaginu og útistandandi kröfur hafi verið fyrir hendi. Ákærði ítrekaði að hann hefði aldrei verið framkvæmdastjóri í […] ehf., en kvaðst oft hafa lagt á það áherslu við meðákærða, Þ, og stjórnarformanninn, að greiða þyrfti laun og vörsluskatta. Ákærði var spurður um það hver hefði stjórnað félaginu eftir að meðákærði, G, hætti störfum í félaginu. Kvað ákærði það hafa verið stjórnarformanninn, ákærða Eyjólf.

                Ákærði var spurður um dómskjal nr. 61 og kvað vitnið skjalið sýna útistandandi kröfur í […] ehf., sem ákærði hefði sjálfur prentað út úr miðlægri tölvu í eigu þrotabús Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., þar sem allt bókhald félagsins hafi verið geymt. Sé listi þessi miðaður við þann tíma er félagið hætti rekstri. Þá var ákærða sýnt dómskjal nr. 62 og kvaðst ákærði geta staðfest að um væri að ræða kröfur […] ehf., á hendur ákveðnum aðilum, en dómskjalið geymir upplýsingar um gjaldþrot einstakra viðskiptamanna […] ehf.

                Ákærði kvað félagið hafa greitt virðisaukaskatt af kröfunum, sem aldrei innheimtust.

                Ákærði, Þ, kvaðst hafa sagt sig úr stjórn félagsins 29. desember 1999, en kvaðst hafa gengið aftur í stjórn félagsins í desember 2000, sem stjórnarformaður. Ákærði kvaðst halda að meðákærði, G, hefði sent tilkynningu þess efnis til hlutafélagaskrár. Ákærði kvað meðákærða, G, hafa verið framkvæmdastjóra í nóvember, desember 2000. 

                Ákærði kvaðst vita til þess að stórar kröfur hafi tapast, margar milljónir vegna gjaldþrots Samvinnuferða-Landsýnar hf. og mikið hafi verið um útistandandi kröfur, sem ekki innheimtust vegna gjaldþrots viðskiptamanna félagsins.

                Ákærði kvað meðákærðu, G og Z, sem fjármálastjóra, hafa stjórnað daglegum rekstri félagsins eftir mitt ár 2000. Hann kvaðst telja að eftir að ákærði, G, hætti sem framkvæmdastjóri félagsins, hafi það verið framkvæmdastjóralaust. Þá kvaðst hann einnig telja að ákærði, Z, hefði hætt störfum hjá félaginu um áramótin 2000/2001.

                Ákærði kvaðst ekki vita hvers vegna meðákærði, Z gerðist stjórnarmaður í félaginu 26. janúar 2001 og kvaðst ekki minnast þess að það hefði verið að áeggjan sinni.

                Vitnið, Ú, kvaðst hafa setið í stjórn […] ehf., en gengið úr stjórn 19. desember 2000. Hann kvað ástæðu þess hafa verið að ekki hafi verið haldinn aðalfundur vegn ársins á undan og kvað hann að sér hefði verið ómögulegt að fylgjast með afkomu og rekstri félagsins.

                Vitnið, V, gaf skýrslu varðandi þennan ákærulið, en ekki þykir ástæða til að rekja hans framburð.

                Vitnið, Þ, gaf skýrslu varðandi þennan ákærulið, en ekki þykir ástæða til að rekja hans framburð.

                Vitnið, Æ, kvað Eyjólf Sveinsson hafa beðið hann um taka sæti í stjórn félagsins og hafi hann setið í stjórn […] ehf., frá 28. desember 1998 til 21. janúar 2001. Vitnið kvað að hann minnti að formaður stjórnar hefði verið Þ á þeim tíma sem vitnið sat í stjórn.

                Ákærði, G, gaf skýrslu fyrir dómi, en hann er ákærður vegna meintra brota gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og þykir ekki ástæða til að reifa hans vitnisburð, í ljósi niðurstöðu um þann ákærulið.

                Niðurstaða ákæruliðar I.

                Ákærði, Þ, játar sök samkvæmt þessum ákærulið, en gerir athugasemdir við fjárhæðir. Ákærði, Z, neitar sök samkvæmt þessum ákærulið.

                Af gögnum málsins verður ráðið að ákærði Þ, var stjórnarformaður félagsins þann tíma sem ákæruliður þessi tekur til og ákærði, Z, var stjórnarmaður í félaginu þann tíma. Ákærðu, Z og Þ, hafa byggt vörn sína á því að ekki hafi verið rannsakað að hvaða marki reikningar hafi fengist greiddir sem gefnir voru út á þeim virðisaukaskattstímabilum sem ákært er út af, þ.e. tímabilunum nóvember-desember 2000 og janúar-febrúar 2001. Verjandi ákærða, Z, óskaði eftir þessum upplýsingum frá skiptastjóra þrotabúsins, en engin svör bárust þaðan. Verjandi ákærða lagði sjálfur fram í dóminum yfirlit yfir ógreidda, útistandandi reikninga félagsins á dómskjali nr. 61. Á skjali þessu kemur ekki fram hvort reikningar sem þar eru greindir, voru gefnir út á tímabilinu sem ákæra tekur til. Einnig var lagður fram af hálfu ákærða hreyfingalisti yfir þá viðskiptamenn félagsins sem orðnir voru gjaldþrota.

                Er ákærði, Z, var yfirheyrður hjá lögreglu 26. nóvember 2003 voru bornar undir hann tölulegar niðurstöður ríkislögreglustjóra og ákæra byggir á. Kvaðst hann þá telja að einhverjar kröfur hefðu tapast en kvaðst ekki vita hvort óskað hafi verið leiðréttinga í þeim efnum á skilaskyldum virðisaukaskatti, gagnvart skattyfirvöldum. Kvaðst hann hafa þessar upplýsingar frá skiptastjóra sem hafi sagt að erfitt væri að innheimta sumar kröfur þrotabúsins.

                Ákærði, Þ, kvaðst vita til þess að stórar kröfur hafi tapast, margar milljónir vegna gjaldþrots Samvinnuferða-Landsýnar hf., og mikið hafi verið um útistandandi kröfur, sem ekki innheimtust vegna gjaldþrots viðskiptamanna félagsins.

                Ákærði, Z, tók í sama streng og kvað dómskjal nr. 61 sýna útistandandi kröfur í […] ehf., sem vitnið hafi sjálfur prentað út úr miðlægri tölvu í eigu þrotabús Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., þar sem allt bókhald félagsins hafi verið geymt. Sé listi þessi miðaður við þann tíma er félagið hætti rekstri. Þá staðfesti ákærði að dómskjal 62 hefði að geyma upplýsingar um gjaldþrot einstakra viðskiptamanna […] ehf.

                Af framangreindu má ráða að mörg þeirra fyrirtækja sem voru í viðskiptum við […] ehf. urðu gjaldþrota og kröfur þær sem […] ehf. átti á hendur þeim hafa því líklega tapast. Hafi ákærðu talið að til lækkunar ætti að koma á virðisaukaskatti vegna óinnheimtra krafna, sem stöfuðu af gjaldþroti einstakra viðskiptavina félagsins, hvíldi sú skylda á ákærðu, þegar þeir sáu í hvað stefndi hjá […] ehf., að senda inn leiðréttingaskýrslu vegna virðisaukaskatts í samræmi við lög nr. 50/1988, enda var það í þeirra þágu að sjá til þess að sú leiðrétting kæmi fram. Hefur ákæruvaldið í einum kafla ákæru fært niður ákærufjárhæð á grundvelli leiðréttingaskýrslna virðisaukaskatts. Verður mótbárum ákærðu á þessum grundvelli því hafnað.

                Í 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er mælt fyrir um þær ríku skyldur sem hvíla á ákærðu sem stjórnarformanni og stjórnarmanni. Ákærðu var að mati dómsins kunnugt um rekstur félagsins, þar á meðal um hvort félagið stæði í skilum með virðisaukaskatt. Þeim bar í skjóli stöðu sinnar að annast um að starfsemi félagsins væri jafnan í réttu og góðu horfi. Félagið átti við fjárhagslega erfiðleika að etja á þessum tíma, en það lagði ríkar skyldur á herðar ákærðu að fylgjast með og tryggja að félagið innti af hendi lögboðin gjöld. Með aðgerðarleysi sínu hafa ákærðu af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að hlutast til um að virðisaukaskattur yrði greiddur.

                Brot ákærðu telst fullframið miðað við það tímamark sem þeim bar að skila virðisaukaskattskýrslum og greiðslum samkvæmt þeim. Eru ákærðu sakfelldir fyrir þá háttsemi sem í þessum ákærulið greinir og er háttsemi ákærðu réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

                Brot ákærðu þykja stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varðar brot hans því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Um skilorðsbundna fangelsisrefsingu ákærða, Þ, er fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Ekkert hefur greiðst inn á virðisaukaskattskuld eftir eindaga vegna þeirra tímabila sem ákæra tekur til. Ákærði, Þ, verður, með vísan til 2. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem, á grundvelli dómvenju þykir hæfilega ákveðin 6.000.000 krónur, sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Við ákvörðun vararefsingar var höfð hliðsjón af dómvenju á þessu sviði og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Um skilorðsbundna fangelsisrefsingu ákærða, Z, er fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Fésektarrefsing hans er ákveðin sekt sem á grundvelli dómvenju þykir hæfilega ákveðin 6.000.000 krónur, sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Við ákvörðun vararefsingar var höfð hliðsjón af dómvenju á þessu sviði og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

Niðurstaða ákæruliðar II.

                Í þessum ákærulið eru þrír ákærðir, en ákæruliðurinn tekur til tímabilanna september, október, nóvember og desember 2000 og janúar, febrúar, mars og apríl 2001. Þessir þrír ákærðu sátu ekki allir í stjórn félagsins á sama tíma og sumir ákærðu aðeins hluta þess tímabils sem í ákæruliðnum greinir. Þeim er þó öllum gefið að sök að hafa vangoldið í ríkissjóð samtals 10.049.180 krónur samkvæmt breyttri ákæru. Ekki er tilgreint í ákæru til hvaða tímabils í þessum ákærulið meint háttsemi hvers ákærðu nær og ekki ljóst hvaða fjárhæð hver ákærðu er talinn hafa vangoldið til ríkissjóðs. Verknaðarlýsing í þessum ákærulið er því svo ónákvæm að ekki verður lagður efnisdómur á hann. Auk þessa annmarka hefur ákæruvaldið í tvígang leitast við að leiðrétta tölulegar villur í ákæru, sem meðal annars var að finna í þessum ákærukafla. Þessar endurteknu leiðréttingar voru síst til þess fallnar að skýra málið og málatilbúnaður ákæruvalds að þessu leyti ruglingslegur og óskýr. Ákærulið þessum er með vísan til framangreinds vísað frá dómi, ex officio, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991.

                Símon Sigvaldason meðdómandi vill taka fram að hann telji unnt að leggja efnisdóm á þennan ákærulið, en sjái þó ekki ástæðu til að skila sérstakri niðurstöðu vegna þess.

Ákærukafli D - […] hf.

Málsatvik.

                Ákærðu neita allir sök samkvæmt þessum ákærulið. Þeir krefjast sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði.

                Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega með því að tilkynning þess efnis var send 25. febrúar 2002 á lögheimili skattaðilans. Rannsóknin byggðist aðallega á upplýsingum frá fyrirsvarsmönnum skattaðilans og frá hlutafélagaskrá, staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum, virðisaukaskattskýrslum og tekjubókhaldi ríkissjóðs. Rannsókn lauk með útgáfu skýrslu skattrannsóknarstjóra 19. ágúst 2002 og í kjölfarið var málið sent ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunarheimilda hans. Með bréfi til skattrannsóknarstjóra frá 9. september 2002 tilkynnti ríkisskattstjóri að hann hygðist ekki endurákvarða skattfjárhæðir í málinu. Með bréfi frá 21. janúar 2003 var fyrirsvarsmönnum félagsins síðan tilkynnt um þá ákvörðun skattrannsóknarstjóra að vísa málinu til opinberrar rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá var skráður tilgangur félagsins á því tímabili sem rannsókn tók til, að starfa í upplýsingaiðnaði við hönnun, þróun, framleiðslu og markaðssetningu á efni til kynninga, auglýsinga, upplýsinga og almannatengsla, og silkiprentun, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 22. nóvember 2002.

                Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá var ákærði, Þ, framkvæmdastjóri frá 24. febrúar 2000 til 1. júní 2002, en ákærðu, Eyjólfur og Y sátu í stjórn félagsins frá 24. ágúst 2000 til 18. apríl 2002.

                Ákærðu, Eyjólfur og Þ, neita sök, en ákærði, Y, krefst frávísunar ákæru á hendur sér.

                Í ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafi verið í nafni félagsins á árinu 2001, samtals að fjárhæð 14.850.895 krónur og að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins á árunum 2001 og 2001, samtals að fjárhæð 17.944.099 kónur. Innborganir eftir eindaga námu 8.538.235 krónum vegna vangreiddrar staðgreiðslu og 4.904.745 krónum vegna virðisaukaskatts.

                Í málinu hafa verið lagðar fram fundargerðir og skjöl lögð fram á stjórnarfundum 24. ágúst 2000 til 18. apríl 2002, þar á meðal áætlanir ákærða, Þ, sem sýna áttu jákvæða stöðu félagsins sem og bókun ákærða, Y á stjórnarfundi 18. apríl 2002, þar sem fram kemur að ákærði hafði óskað eftir því að á stjórnarfundi 10. janúar 2002 lægi fyrir listi yfir vörslufé í vanskilum, sundurliðaður listi yfir vanskil, aldur þeirra og innheimtustöðu, hvernig gengi að færa bókhald félagsins og fyrirspurn um hvenær hægt sé að fá ársreikning félagsins. Ekki hafi verið orðið við þessum óskum ákærða á stjórnarfundi 10. janúar 2002. Í bókun frá stjórnarfundinum 18. apríl 2002 kemur fram að ákærði, Y, hafi lesið upp bókun á fundinum 10. janúar 2002, þar sem óskað var eftir að vanskil vörslufjár yrðu þegar greidd upp og þess krafist að slíkt kæmi ekki fyrir oftar, en meðákærði, Þ, hafi ekki viljað að bókun yrði gerð á þann hátt. Í þess stað hafi verið bókuð fyrirmæli stjórnar um tafarlausa uppgreiðslu vörsluskatta og fund með inniheimtumönnum ríkissjóðs. Þá segir í niðurstöðu bókunar Y, frá 18. apríl 2002, að hann lýsi yfir vanþóknun á þeim vinnubrögðum sem beitt hafi verið við vinnslu upplýsinga um rekstrarafkomu fyrir stjórn. Þær hafi ekki reynst á rökum reistar og ljóst sé að vandi fyrirtækisins sé mun alvarlegri en þar hafi komið fram. Jafnframt tilkynnti ákærði úrsögn sína úr stjórn félagsins.

                Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna varðandi þennan ákærulið.

                Ákærði, Eyjólfur, kvaðst hafa verið í stjórn félagsins frá ágúst 2000 til 18. apríl 2002. Ákærði kvað að staðan í lok ársins 2001 hafi verið þannig að menn hafi verið búnir að átta sig á að félaginu yrði ekki bjargað, þannig að þá hafi verið ljóst að grípa þurfti til einhverra aðgerða, t.d. með því að auka hlutafé í félaginu.

                Ákærði kvaðst aldrei hafa boðað stjórnarfundi sjálfur í félaginu, en það hafi verið ákærði Y og ákærði Þ sem mest voru í samskiptum vegna málefna félagsins.

                Ákærði var spurður um það hvort hann hefði á því skýringar að ákærði, Y, hefði litið á ákærða, Eyjólf sem stjórnarformann í félaginu. Kvaðst ákærði ekki kunna skýringar á því. Ákærði kvaðst ekki hafa haft prókúru vegna félagsins.

                Ákærði kvaðst hafa verið upplýstur snemma hausts 2001 um að vörsluskattar væru í vanskilum og hafi ákærði, Þ, jafnframt upplýst að þeir yrðu greiddir á tilteknum tíma. Síðan hafi liðið tveir eða þrír mánuðir þar til menn hafi áttað sig á því að það gekk ekki eftir. Borin var undir ákærða fundargerð félagsins frá 2. júlí 2001 þar sem fram kemur að stjórnarformaður gerði grein fyrir áhyggjum af vörslusköttum í vanskilum. Ákærði kvaðst kannast við þessa fundargerð. Þá kvaðst ákærði kannast við umræðu um að auka þyrfti hlutafé í félaginu, og kvaðst telja að það hafi verið í janúar 2002, sem ákærði, Þ, hafi vakið máls á því.

                Ákærði var spurður um dómskjal nr. 50, á bls. 40, sem er endurrit stjórnarfundar 18. júlí 2001. Kvaðst ákærði kannast við að upplýsingar þær sem greinir á bls. 41 og 42, um að tilgreindur hagnaður eftir almennar fyrningar á árinu 2001 hafi verið sagður vera 25,4 milljónir. Ákærði var spurður um hvort meðákærði, Y, hefði óskað eftir því að leggja fram bókun á stjórnarfundi 10. janúar 2002, en samkomulag hafi orðið um að leggja ekki fram bókunina. Kvaðst ákærða ráma í einhverja umræðu um þetta, en mundi ekki nákvæmlega eftir bókuninni. Ákærði kvað Y hafa haft áhyggjur af þessu á sínum tíma. 

                Ákærði kvaðst kannast við að erfitt hefði verið að fá KPMG endurskoðun til að annast uppgjör í félaginu, vegna fyrri skulda við KPMG. Þá var ákærði spurður um stjórnarfund í félaginu 18. október 2000, þar sem fram kemur að varaformaður sé ákærði, Eyjólfur. Kvað ákærði að breyting hafi gerð á þessu í maí 2000. Þá hafi ákærði beðist undan þessu og ekki verið kosinn varaformaður aftur. Ákærði kvaðst gera ráð fyrir að þetta hefði verið tilkynnt til hlutafélagaskrár, en hann hefði ekki gert það sjálfur.

                Vitnið, Ö, kvað V1 hafa gengið úr stjórn félagsins í október 2001, en kvaðst ekki muna hver hefði tekið við af honum. Vitnið kvaðst hafa sagt sig úr stjórn með tilkynningu til hlutafélagaskrár 30. apríl 2002.

                Ákærði, Þ, kvaðst hafa verið ráðinn framkvæmdastjóri […] hf. í lok ársins 1999 eða byrjun árs 2000, eftir því sem hann best minnti. Hann kvaðst vera menntaður í markaðsfræðum. Hann kvað ástæðu þess að fullnægjandi greiðslum á virðisaukaskatti var ekki skilað á réttum tíma hafa verið þá að stórir reikningar félagsins á hendur öðrum hefðu ekki greiðst og rekstur félagsins hefði ekki gengið sem skyldi. Félagið hefði átt mikið af útistandandi kröfum, sem ekki hafi verið búið að afskrifa og bakfæra þegar félagið varð gjaldþrota. Ákærði kvaðst margítrekað hafa rætt um það við stjórnarmenn, á stjórnarfundum, eins og fundargerðir frá 2. júlí og fram í janúar eða febrúar 2002 beri með sér, að hlutafé yrði aukið vegna þess að ekki væru nægir fjármunir í félaginu til þess að greiða staðgreiðslu og virðisaukaskatt.

                Ákærði var spurður um áætlanir um tekjur og gjöld félagsins, sem hann lagði fyrir stjórnarfundi. Kvað ákærði að stjórnarmenn hefðu sagt að þær væru ,,bjartsýnar“, en ákærði kvaðst alltaf hafa verið að reyna að sjá eitthvert ljós í rekstrinum. Áætlanir þessar hefðu ekki verið lagðar fyrir stjórnarfundi til samþykktar, eingöngu til þess að umræða gæti farið fram um þær. Stjórnin hafi heldur aldrei farið fram á að nýjar áætlanir yrðu gerðar, en í ársbyrjun 2002 hafi meðákærði, Y, gripið í taumana og kallað til rekstrarráðgjafa  til þess að fara yfir reksturinn.

                Ákærði kvað meðákærða, Eyjólf, ekki hafa verið í sambandi við hann á milli stjórnarfunda.

                Ákærði kvað daglegan rekstur félagsins hafa verið í höndum fjármálastjóra, en eftir að hann fór hafi ákærði annast daglega ákvarðanatöku innan félagsins. Ákærði kvaðst hafa haft prókúru á bankareikninga félagsins, en ekki vita hvort nokkur annar hafði prókúru.

                Ákærði var spurður um fundargerð stjórnarfundar 18. júlí 2001, hluta af dómskjali nr. 50, þar sem fram kemur í 1. lið að framkvæmdastjóri hefði lagt fram gögn um fjárhagsstöðu félagsins þar sem fram kæmi að vörsluskattar hefðu verið greiddir upp, en hins vegar væri fjárhagsstaða félagsins erfið. Ákærði kvaðst ekki muna nákvæmlega eftir þessum fundi og ekki geta staðfest fundargerðina, þar sem hún sé óundirrituð, en kvaðst þó ekki véfengja það sem kemur fram í fundargerð að vörsluskattar væru greiddir þá, þe. miðað við þann tíma sem fundurinn var 18. júlí 2001.

                Þá kvaðst ákærði staðfesta að hann hefði lagt fram fyrir stjórnarfund 30. ágúst 2001 heildaryfirlit og uppgjör vegna janúar-júlí 2001 og áætlun ágúst-desember, þar sem heildarniðurstaða var sögð vera hagnaður upp á 25, 4 milljónir.

                Ákærði staðfesti að uppgjör vegna september 2001 hefði verið lagt fram á stjórnarfundi 10. janúar 2002. Það hafi sýnt 3,2 milljónir í mínus, en áætlanir hafi sýnt 4 milljónir í hagnað. Ákærði staðfesti að meðákærði, Y, hefði á þeim fundi óskað eftir að leggja fram bókun, en kvaðst ekki muna nákvæmlega efni hennar.

                Ákærði kvað ofangreindar áætlanir hafa verið unnar af honum sjálfum í exel skjali. Hann kvaðst hafa verið:,,Veruleikafirrtur maður að leika sér í exel, það var nú ekki hægt annað í þessari stöðu “...

                Ákærði var spurður um fundargerð félagsins frá 8. október 2001, þar sem fram kemur í 5 lið, að framkvæmdastjóra hafi verið falið að vinna 8 mánaða uppgjör með hjálp endurskoðanda og að á næsta fundi myndu þá liggja fyrir ítarlegar upplýsingar um fjárhagsstöðu, lánardrottna, vanskil og fleira. Sagði ákærði þá að ekki hefðu verið til peningar til að greiða endurskoðandanum, en ákærði, Y, hefði reyndar boðist til að greiða fyrir vinnu endurskoðandans, einhvern tíma í september, október eða nóvember 2001.

                Ákærði kvað stjórnarmenn hafa óskað eftir því að KPMG ynni uppgjör fyrir félagið, en kvað félagið hafa skuldað KPMG fyrir vinnu og því ekki talið líklegt að það tæki það að sér. Ákærði kvaðst hins vegar staðfesta að meðákærði, Y, hefði tjáð ákærða að KPMG vildi taka þetta að sér.

                Ákærði kvað V2 hafa unnið uppgjör fyrir félagið að beiðni meðákærða, Y, eftir áramótin 2001/2002. Niðurstaða V2 hafi verið sú að félagið væri miklu verr statt en uppgjör ákærða hefðu bent til.

                Ákærði, Y bar fyrir dómi að hann hefði verið beðinn um taka sæti í stjórn félagsins haustið 2000. Hann kvað meðákærða, Eyjólf, hafa haft mest um það að segja hvernig stjórnin skipti með sér verkum. Ákærði kvaðst kannast við að í fundarboðum og fundargerðum frá þessum tíma hafi verið fjallað um bága fjárhagsstöðu félagsins og sérstaklega fjallað um vörsluskatta.

                Ákærði kvaðst kannast við greinargerð sína, sem er dagsett 23. september 2002 þar sem segir að hann hafi átt tvo kosti, að fara burt frá þessu eða reyna að hafa áhrif á reksturinn og hann hafi valið þann kostinn. Ákærði kvað að legið hefðu fyrir áætlanir meðákærða, Þ, sem sýndu að ekki var ástæða til annars en að ætla að staðan væri betri en hún var. Ákærði kvað þessar áætlanir hafi verið í ósamræmi við meint vanskil og hafi stjórnarmenn eiginlega ekki trúað því að staðan væri eins slæm og hún var. Ákærði kvað stjórnarmenn hafa gefið meðákærða, Þ, fyrirmæli um að greiða vörsluskatta og setja það í algeran forgang fram yfir aðrar skuldir.

                Ákærða var sýnt dómskjal nr. 50 og fundargerð stjórnarfundar á bls 40 í dómskjalinu og kvaðst hann kannast við að þessi stjórnarfundur hefði verið haldinn, þar sem meðákærði, Þ, hefði lýst því yfir að vörsluskattar væru greiddir.

                Ákærði var spurður um bókun sem hann hefði ætlað að leggja fram á stjórnarfundi 10. janúar 2002. Hann kvaðst hins vegar hafa verið beðinn um að gera það ekki, heldur yrði bókað í nafni stjórnarinnar almennar áhyggjur og andmæli við því að vörslusköttum væri ekki skilað og kvaðst ákærði hafa fallist á það, því miður.

                Ákærði kvaðst hafa fengið V2 til þess að vinna uppgjör fyrir félagið í kringum áramótin 2001/2002, en honum hafi gengið mjög illa að fá tilskilin gögn hjá meðákærða, Þ. Ákærði kvað niðurstöður V2 um afkomu félagsins hafa verið mjög á skjön við áætlanir Þ. Ákærði kvað V2 hafa skilað inn skýrslu rétt fyrir fundinn 18. apríl 2002.

                Vitnið, V2 kvað að óskað hefði verið eftir því við hann af hálfu […] ehf., að hann skoðaði fjármál félagsins og aðstoðaði félagið í erfiðleikum þess. Vitnið kvaðst hafa verið í samskiptum við ákærðu, Þ og Y. Vitnið kvaðst hafa skilað af sér niðurstöðum í febrúar eða byrjun mars 2002, en ekki skilað formlegri skýrslu. Komið hafi í ljós að staða félagsins var mun verri en ætlað var. Ekki hafi legið fyrir endurskoðað uppgjör og þegar vitnið hafi farið að kafa ofan í tiltekna liði, hafi komið í ljós að t.d. eignaliður var ofáætlaður. Þannig hafi eignir ekki vera fyrir hendi þegar á reyndi, t.d meintar útistandandi viðskiptakröfur. Einnig hafi kostnaður verið vanáætlaður.

                Vitnið, V3 kvaðst hafa unnið í bókhaldi félagsins í um tvör ár og kvaðst hafa verið að vinna þar árið 2001. Vitnið kvaðst hafa undirritað virðisaukaskattskýrslu fyrir september og október 2001 og nóvember og desember 2001. Vitnið kvað það ekki hafa verið í sínum verkahring að skila greiðslum með skýrslunum og ekki hafa athugað hvort greiðsla fylgdi með.      

                Vitnið kvaðst kannast við undirritun sína á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda en kvað það ekki hafa verið í sínum verkahring að skila greiðslum með.

                Vitnið, V4 kvað KPMG hafa verið endurskoðunarskrifstofu félagsins […] ehf. Stundum hafi gengið erfiðlega að fá greitt fyrir þá þjónustu sem þeir veittu félaginu. Hún kvað ákærða, Þ, hafa óskað eftir því að fá KPMG til að að vinna átta mánaða uppgjör, en því hafi verið hafnað vegna skulda félagsins við KPMG. Ákærði, Y, hafi svo haft samband við vitnið og sagt að greiðsla á þjónustunni yrði tryggð og var þá ákveðið að veita leyfi fyrir því að þessi uppgjörsvinna færi fram. Sú vinna hefði hins vegar aldrei farið fram.

                Vitnið, V5 kvað ákærða, Y, hafa komið að máli við sig og borið undir vitnið ýmis mál er vörðuðu félagið […] ehf. Síðan hafi vitnið mætt með Y á tvo fundi, annars vegar 10. janúar 2002 og hins vegar 18. apríl 2002. Vitnið kvaðst hafa vitað til þess að fjárhagsstaða félagsins var mjög slæm.

                Vitnið kvaðst minnast þess að á stjórnarfundi 10. janúar 2002 hafi ákærði, Y, ætlað að leggja fram bókun um það hvernig hann vildi að tekið yrði á málefnum félagsins, en meðákærði, Þ, hafi tekið mjög illa í það að slík bókun yrði lögð fram.

                Vitnið, V1, kvaðst hafa horfið úr félaginu 9. október 2001, en hann hefði verið stjórnarformaður þess. Þá hafi staða félagsins verið slæm. Hann kvaðst hafa lesið upp yfirlýsingu á stjórnarfundi í júlí 2001 og óskað að hún yrði færð til bókar. Vitnið kvað að vanskil á vörslusköttum hefðu þá verið þrír til fimm mánuðir. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að einhverjar skýringar hefðu verið gefnar á því hvers vegna vanskil væru og kvaðst ekki muna nákvæmlega hvort ástæða vanskilanna hefði verið tilgreind sem útistandandi kröfur. Vitnið kvað að ákærða, Þ, hefði verið falið á stjórnarfundum 2. júlí 2001 og ágúst 2001, að inna af hendi greiðslur vegna virðisaukaskatts og opinberra gjalda og forgangsraða þeim greiðslum.

                Vitnið, V6 kvaðst hafa verið varastjórnarmaður í […] ehf. árið 2000 og frá 24. ágúst 2000 til 10. desember 2001. Vitnið kvaðst minnast þess að um mitt árið 2001 hefði verið farið yfir stöðu mála varðandi reksturinn á stjórnarfundum sem þá voru haldnir. Vitnið kvað að rætt hefði verið um vörsluskatta og staðgreiðslu opinberra gjalda á þeim fundum og að lagt hefði verið að framkvæmdastjóra að greiða þau gjöld. Vitnið kvaðst minnast þess sérstaklega að á einum fundanna hefði stjórnarmönnum verið tjáð að þessi opinberu gjöld væru komin í skil. 

                Vitnið var spurt um það hvort það kannaðist við að lögð hefðu verið fram á stjórnarfundi 30. ágúst 2001, gögn, meðal annars áætlun um rekstur ársins 2001 og að niðurstaða áætlunar hefði verið hagnaður upp á 25 milljónir. Kannaðist vitnið við það og að rætt hefði verið um hvort þetta væri raunhæf áætlun miðað við hvernig reksturinn hefði gengið.

                Vitnið kvaðst vita til þess að ákærði, Þ, hefði talið að hann gæti ekki fengið endurskoðað uppgjör hjá KPMG vegna skuldar við þá. Vitnið kvað ákærða, Y, hins vegar hafa leitað til KPMG og beðið þá um að annast þetta gegn því að gengist yrði í ábyrgð fyrir greiðslum fyrir uppgjörið. Ekki hafi hins vegar orðið úr því að KPMG annaðist uppgjörið.           

                Vitnið, V7, kvaðst hafa setið í stjórn félagsins frá ágúst 2000 þar til 15. október 2001, en staða félagsins hafi ekki verið góð þegar vitnið gekk úr stjórn. Hann kvað ástæðu þess að hann sagði sig úr stjórn hafa verið þá að hann hafi talið að sér væri ekki greint frá öllu varðandi vanskil félagsins og því ekki getað sem stjórnarmaður brugðist við því. Því hafi hann og V1 sagt sig úr stjórninni.

                Vitnið, V8, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa starfað sem lögmaður Kassagerðarinnar seinni hluta árs 2001 fram á árið 2002. Hann kvaðst hafa verið fenginn til þess að reyna að fylgja eftir hluthafasamkomulagi í […] ehf. sem gert hafði verið um að Kassagerðin yrði losuð úr ábyrgð vegna skuldar […] ehf. við Búnaðarbankann. Skuld þessi hefði orðið til vegna tækjakaupa […] ehf. og kaupin fjármögnuð með yfirdrætti í Búnaðarbanka. […] ehf. hefði aldrei greitt þessa ábyrgð. Vitnið kvaðst hafa átt fundi með ákærða, Y og V6 vegna þessa.

Niðurstaða ákæruliðar I      

                Krafa ákærða, Y, um frávísun kom fram við þingfestingu málsins og kvað dómurinn upp úrskurð 5. september sl., þar sem hafnað var kröfu hans um frávísun. Hann heldur enn fast við kröfu sína um frávísun málsins á hendur sér. Með sömu rökum og fram koma í niðurstöðu fyrrgreinds úrskurðar um frávísun er frávísunarkröfu ákærða hafnað.

                Af gögnum málsins verður ráðið að ákærðu sátu í stjórn félagsins, þann tíma sem ákæruliður þessi tekur til.

                Af framburði ákærða, Eyjólfs, fyrir dómi mátti ráða að honum hafi verið ljóst snemma hausts 2001 að vörsluskattar væru í vanskilum og að þá um sumarið hafi stjórnarformaður haft áhyggjur af greiðslu vörsluskatta, sem væru í vanskilum.

                Af framburði ákærða, Þ, fyrir dómi mátti ráða að hann hafi þegar um mitt sumar 2001 gert stjórnarmönnum félagsins grein fyrir erfiðleikum félagsins við að standa skil á greiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti. Þá kvað hann stjórnarmenn hafa sagt að áætlanir þær sem hann lagði fyrir stjórnina um tekjur og gjöld, væru bjartsýnar. Jafnframt staðfesti hann að ákærði, Y, hefði á fundi 10. janúar 2002 óskað eftir að leggja fram bókun, en kvaðst ekki muna efni hennar.

                Ákærði, Y, kvað ákærða, Eyjólf, hafa haft mest um það að segja hvernig stjórnin skipti með sér verkum. Í fundarboðum og fundargerðum frá þessum tíma hafi verið fjallað um bága fjárhagsstöðu félagsins og sérstaklega fjallað um vörsluskatta. Hann kvaðst hafa óskað eftir að leggja fram bókun á stjórnarfundi í janúar 2002, þar sem hann krafðist þess að sett yrði í algeran forgang að greiða upp öll vanskil á vörslufé, en horfið frá því, þar sem stjórnarmenn hafi lagt að honum að leggja ekki fram slíka bókun.

                Vitnið V1 fyrrum stjórnarformaður félagsins kvaðst hafa gengið úr stjórn félagsins 9. október 2001 og þá hafi staða félagsins verið slæm. Samkvæmt framburði hans las hann upp yfirlýsingu á stjórnarfundi í júlí 2001 og óskaði að hún yrði færð til bókar. Vitnið kvað að ákærða, Þ, hefði verið falið á stjórnarfundum 2. júlí 2001 og ágúst 2001, að inna af hendi greiðslur vegna virðisaukaskatts og opinberra gjalda og forgangsraða þeim greiðslum.

                Af ofangreindum framburði má ráða að allir ákærðu vissu um slæma fjárhagsstöðu félagsins, þar á meðal um það að félagið stóð ekki í skilum með greiðslur á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda. Ákærði, Þ, kvað meðákærða, Y, hafa boðist til þess í október, nóvember eða desember 2001, að greiða fyrir vinnu endurskoðanda, er ákærði, Þ, hefði sagt að ekki væri til nægt fé í félaginu fyrir vinnu endurskoðanda við uppgjör í félaginu. Jafnframt má ráða af framburði vitnisins V4 að ákærði, Y, hafði fengið vilyrði hjá KPMG endurskoðun um að unnið yrði að uppgjöri fyrir félagið, gegn því að greiðsla fyrir þá vinnu yrði tryggð. Af þeirri vinnu varð þó ekki. Þá er einnig fram komið í málinu að ákærði, Y, hafði frumkvæði að því að fá V2 til að vinna að úttekt á stöðu félagsins, um áramótin 2001/2001, sem leiddi í ljós afar slæma stöðu þess og mun verri en áætlanir þær sýndu sem ákærði, Þ, hafði lagt fyrir stjórnarfundi. Samkvæmt framansögðu reyndi ákærði, Y, af afla sér raunhæfra upplýsinga um stöðu félagsins, og sýna ábyrgð í rekstri þess, þegar ljóst var orðið að áætlanir ákærða, Þ, voru byggðar á sandi. Af því sem ákærði, Y, lét færa til bókar á stjórnarfundum má enn fremur ráða að hann hafi einn stjórnarmanna, reynt að spyrna við fótum og sýna ábyrga afstöðu í rekstrinum. Þegar framangreint er virt, er það mat dómsins að saknæmisskilyrði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 séu ekki uppfyllt hvað ákærða, Y, snertir og er hann sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruliðum I og II.

                Verjendur ákærðu, Þ og Eyjólfs, hafa haldið því fram að engin rannsókn hafi farið fram á því hvort virðisaukaskattur hafi í reynd verið innheimtur af þeim kröfum sem félagið átti á hendur öðrum, eða hvort hann var útistandandi. Hafi ákærðu talið að til lækkunar ætti að koma á virðisaukaskatti vegna óinnheimtra krafna, hvíldi sú skylda á ákærðu, þegar þeir sáu í hvað stefndi hjá félaginu, að senda inn leiðréttingaskýrslu vegna virðisaukaskatts í samræmi við lög nr. 50/1988, enda var það í þeirra þágu að sjá til þess að sú leiðrétting kæmi fram.

                Þá hefur og komið fram í vörn ákærðu að samkvæmt ársreikningi […] ehf. hafi útistandandi kröfur 1. janúar 2001 numið 59.367.000 krónum. Ekkert liggur hins vegar fyrir um innheimtu þessara krafna og varða þær ekki það tímabil sem ákæra tekur til. Stoðar því lítið að vísa til útistandandi krafna miðað við 1. janúar 2001. Þá kom fram í vitnisburði V2 fyrir dómi að við könnun hans hafi komið í ljós að meintar eignir, t.d. útistandandi kröfur hafi ekki verið svo miklar sem ráð hafði verið fyrir gert

                Þegar allt framangreint er virt, er það niðurstaða dómsins að ekkert hafi komið fram í málinu er rennt geti stoðum undir það að ákærufjárhæð samkvæmt þessum ákærulið sé röng.

                Í 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög er mælt fyrir um þær ríku skyldur sem hvíla á stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra hlutafélaga. Ákærðu bar, í skjóli stöðu sinnar að annast um að starfsemi félagsins væri jafnan í réttu og góðu horfi. Félagið átti við fjárhagslega erfiðleika að etja á þessum tíma, en það lagði ríkar skyldur á herðar ákærðu að fylgjast með og tryggja að félagið innti af hendi lögboðin gjöld. Með aðgerðarleysi sínu hafa ákærðu af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að hlutast til um að virðisaukaskattur yrði greiddur.

                Brot ákærðu telst fullframið miðað við það tímamark sem þeim bar að skila virðisaukaskattskýrslum og greiðslum samkvæmt þeim. Eru ákærðu sakfelldir fyrir þá háttsemi sem í þessum ákærulið greinir og er háttsemi ákærðu réttilega heimfærð til refsiákvæða.

                Brot ákærðu þykja stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varða brot ákærðu því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.             Um fangelsisrefsingu ákærða, Eyjólfs, er fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Eftir eindaga greiddust inn á virðisaukaskattskuld ákærðu 4.904.745 krónur. Það telst ekki verulegur hluti skattfjárhæðar og á því fésektarlágmark 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 við í máli þessu, sbr. umfjöllun í B kafla ákæru. Ákærði, Eyjólfur, verður, með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, samhliða refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin með hliðsjón af dómvenju, 14.500.000 króna, sem ákærði greiði í ríkissjóð, innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Við ákvörðun vararefsingar er höfð hliðsjón af dómvenju á þessu sviði og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Við ákvörðun sektar hefur verið tekið tillit til greiðslu álags vegna tímabilsins júlí-ágúst, að fjárhæð 584.828 krónur, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988.

                Um skilorðsbundna fangelsisrefsingu ákærða, Þ, er fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Eftir eindaga greiddust inn á virðisaukaskattskuld ákærðu 4.904.745 krónur. Það telst að mati dómsins ekki verulegur hluti skattfjárhæðar, sbr. umfjöllun í B kafla ákæru og á því fésektarlágmark 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 við í máli þessu. Ákærði, Þ, verður með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem þykir, með hliðsjón af dómvenju hæfilega ákveðin 14.500.000 króna, sem ákærði greiði í ríkissjóð, innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Við ákvörðun vararefsingar er höfð hliðsjón af dómvenju á þessu sviði og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Við ákvörðun sektar hefur verið tekið tillit til greiðslu álags vegna tímabilsins júlí-ágúst, að fjárhæð 584.828 krónur, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988.

Niðurstaða ákæruliðar II

                Af hálfu verjenda ákærðu, Þ og Eyjólfs, hefur því verið haldið fram að að rannsókn hafi ekki farið fram á því hvort laun voru í skilum eða ekki og því hvort um refsiverða háttsemi hafi verið að ræða af hálfu ákærðu, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987.

                Hvorki gögn málsins né framburður ákærðu og vitna fyrir dóminum renna stoðum undir þessar staðhæfingar ákærðu og ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur til kynna að ákærufjárhæð sé röng í þessum ákærukafla. Það er álit dómsins að ákærðu geti ekki borið fyrir sig vörn af þessu tagi, án þess að sýna fram á það með óyggjandi hætti að laun vegna þeirra tímabila sem ákært er fyrir hafi verið í vanskilum.

                Vísað er til þess sem greinir í ákærukafla D I um ábyrgð stjórnarmanna og framkvæmdastjóra samkvæmt 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og vitneskju ákærðu um að vanhöld væru á að greiða afdregna staðgreiðslu opinberra gjalda.

                Brot ákærðu telst fullframið miðað við það tímamark sem ákærðu bar að skila staðgreiðslu opinberra gjalda. Eru ákærðu sakfelldir fyrir þá háttsemi sem í þessum ákærulið greinir, þó þannig að ákærði, Eyjólfur, verður ekki látinn sæta refsiábyrgð vegna gjalda fyrir aprílmánuð 2002, sem gjaldféllu eftir að hann hætti sannanlega í stjórn félagsins, en það var 18. apríl 2002. Háttsemi ákærða er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

                Brot ákærða þykja stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varðar brot hans því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Um fangelsisrefsingu ákærða, Eyjólfs, er fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Greiðst hafa inn á staðgreiðsluskuld eftir eindaga 8.538.235 krónur. Sú fjárhæð nær ekki helmingi fjárhæðar þeirrar er vangoldin var og telst að mati dómsins ekki verulegur hluti skattfjárhæðar, sbr. umfjöllun í B kafla ákæru og á því fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 við. Við ákvörðun sektarfjárhæða hefur verið tekið tillit til greidds álags, 783.063 króna, vegna september, október og nóvember 2001.

                Ákærði, Eyjólfur, verður samhliða refsivist dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 15.500.000 króna, sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Um skilorðsbundna fangelsisrefsingu ákærða, Þ, er fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Greiðst hafa inn á staðgreiðsluskuld eftir eindaga 8.538.235 krónur. Sú fjárhæð nær ekki helmingi fjárhæðar þeirrar er vangoldin var og telst að mati dómsins ekki verulegur hluti skattfjárhæðar, sbr. umfjöllun í B kafla ákæru og á því fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 við. Við ákvörðun sektarfjárhæða hefur verið tekið tillit til greidds álags, 786.063 króna, vegna september, október og nóvember 2001.

                Ákærði, Þ verður samhliða skilorðsbundinni refsivist dæmdur til greiðslu sektar, sem þykir með hliðsjón af dómvenju hæfilega ákveðin 20.000.000 króna, sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

Ákærukafli E - […] ehf.

Málsatvik.

                Ákærði játar sök samkvæmt þessum ákærulið, en ber brigður á að fjárhæðir séu réttar.

                Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega með því að tilkynning var send 5. maí 2003 á lögheimili skattaðilans, en tilefni hennar var nafnlaus ábending sem barst skattrannsóknarstjóra vegna meintra vanskila á vörslusköttum. Rannsóknin byggðist aðallega á upplýsingum frá fyrirsvarsmönnum félagsins og hlutafélagaskrá, staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum skattaðilans, virðisaukaskattskýrslum og tekjubókhaldi ríkissjóðs. Rannsókn lauk með útgáfu skýrslu skattrannsóknarstjóra og í kjölfarið var málið sent ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunarheimilda hans. Með bréfi til skattrannsóknarstjóra frá 12. janúar 2004 tilkynnti ríkisskattstjóri að hann hygðist ekki endurákvarða skattfjárhæðir í málinu. Með bréfi frá 7. apríl 2004 var fyrirsvarsmanni félagsins síðan tilkynnt um þá ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins að vísa málinu til opinberrar rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra.

                Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá var skráður tilgangur félagsins á því tímabili sem rannsókn tók til, störf í upplýsingaiðnaði við þróun, hönnun, framleiðslu og markaðssetningu á efni til kynninga, auglýsinga, upplýsinga og almannatengsla, skiltagerð og silkiprentun, rekstur fasteigna og lánastarfsemi og annar skyldur atvinnurekstur.

                Ákærði var einn skráður í stjórn félagsins frá 1. apríl 2002 til 15. apríl 2003 og gegndi þar að auki starfi framkvæmdastjóra félagsins á því tímabili sem ákæra tekur til, með prókúruumboð. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 25. apríl 2003.

                Af hálfu ákæruvaldsins var gefin út framhaldsákæra, sem meðal annars tók til þessa ákæruliðar. Framhaldsákærunni var vísað frá dómi með úrskurði dómsins 7. nóvember 2005 og stendur þá eftir upphafleg ákæra málsins, með þeim fjárhæðum sem þar greinir. Í upphaflegri ákæru var ákærufjárhæð vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir september 2002 sögð vera 1.140.646 krónur. Þar sem sú fjárhæð er lægri en sú sem fram kom í framhaldsákæru og því til hagsbóta fyrir ákærða, verður hún lögð til grundvallar og samtala vegna ágúst, september, október, nóvember og desember er því 7.804.374 krónur og heildarsamtala 8.629.938 krónur 

                Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði undirritað virðisaukaskattskýrslur sem liggja frammi í málinu. Staða félagsins hefði verið herfileg. Ákærði kvaðst gera fyrirvara um þær fjárhæðir sem greinir í ákæru, þar sem ekki hafi verið rannsakað hvaða laun hafi verið ógreidd og hann viti til þess að Ábyrgðarsjóður launa hafa greitt 20 milljónir króna vegna vangoldinna launa. Hann kvaðst ekki skilja hvernig hægt væri að ákæra fyrir að skila ekki staðgreiðslu af launum sem hann hefði ekki greitt.  Einnig kvaðst hann telja að félagið hefði átt útistandandi kröfur. Það hafi þó ekki verið neitt  ,,stórvægilegt“ en það hafi verið ,,einhverjar milljónir“.Ákærði kvaðst hafa farið fram á við lögreglu að þetta yrði sérstaklega rannsakað.

                Niðurstaða ákæruliðar I.

                Ákærði hefur játað sök en borið brigður á fjárhæðir í ákæru. Hann sat einn í stjórn félagsins, og gegndi þar að auki starfi framkvæmdastjóra félagsins á því tímabili sem ákæra tekur til, með prókúruumboð.

                Í 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er mælt fyrir um þær ríku skyldur sem hvíla á stjórnarmönnum í einkahlutafélögum. Ákærða var vel kunnugt um stöðu félagsins, þar á meðal um hvort félagið stæði í skilum með staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatt. Honum bar í skjóli stöðu sinnar að annast um að starfsemi félagsins væri jafnan í réttu og góðu horfi. Félagið átti við fjárhagslega erfiðleika að etja á þessum tíma, en það lagði ríkar skyldur á herðar ákærða að fylgjast með og tryggja að félagið innti af hendi lögboðin gjöld.

                Verjandi ákærða hefur haldið því fram að engin rannsókn hafi farið fram á því hvort virðisaukaskattur hafi í reynd verið innheimtur af þeim kröfum sem félagið átti á hendur öðrum, eða hvort hann var útistandandi. Hafi ákærði talið að til lækkunar ætti að koma á virðisaukaskatti vegna óinnheimtra krafna, hvíldi sú skylda á ákærða, þegar hann sá í hvað stefndi hjá félaginu, að senda inn leiðréttingaskýrslu vegna virðisaukaskatts í samræmi við lög nr. 50/1988, enda var það í hans þágu að sjá til þess að sú leiðrétting kæmi fram. Það gerði ákærði ekki og er því þessi vörn hans haldlaus.

                Með aðgerðaleysi sínu um að greiða lögboðin gjöld hefur ákærði af ásetningi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að hlutast til um að virðisaukaskattur yrði greiddur. Með háttsemi sinni hefur ákærði því gerst sekur um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau verður að telja stórfelld og varða því við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

                Um skilorðsbundna fangelsisrefsingu ákærða er fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Samkvæmt yfirliti sem lagt var fram af hálfu ákæruvaldsins námu innborganir eftir eindaga inn á þau tímabil sem ákært er fyrir, 150.000 krónum vegna virðisaukaskatts fyrir tímabilið maí-júní. Greiddar voru 102.900 krónur, 7. október 2003, sem ráðstafað var inn á tímabilið júlí-ágúst 2003. Að mati dómsins hefði þessari greiðslu átt lögum samkvæmt að vera ráðstafað inn á eldri skuld og kemur hún til frádráttar og telst hluti af greiddu álagi vegna tímabilsins maí-júní.

                Innágreiðslur eftir eindaga teljast ekki verulegur hluti skattfjárhæðar, sbr. umfjöllun í B kafla ákæru, og á því fésektalágmark við samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Ákærði verður, samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdur til að greiða 11.400.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

Niðurstaða ákæruliðar II.

                Ákærði hefur haldið því fram að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi ekki tekið tillit til ákveðinna 15 liða á listum frá Ábyrgðarsjóði launa, í niðurstöðum sínum varðandi vangoldna staðgreiðslu.

                Dómurinn kannaði þetta atriði sérstaklega, og er það niðurstaða dómsins að staðhæfing þessi eigi sér enga stoð í gögnum málsins og ekkert fram komið í málinu að öðru leyti sem gefur til kynna að ákærufjárhæð samkvæmt þessum ákærulið sé röng.

                Með aðgerðarleysi sínu um að greiða afdregna staðgreiðslu hefur ákærði af ásetningi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda til að hlutast til um að afdregin staðgreiðsla yrði greidd. Með háttsemi sinni hefur ákærði því gerst sekur um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau verður að telja stórfelld og varða því við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

                Um skilorðsbundna fangelsisrefsingu ákærða er fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Samkvæmt yfirliti sem lagt var fram af hálfu ákæruvaldsins námu innborganir eftir eindaga inn á þau tímabil sem ákært er fyrir, 2.324.557 krónum vegna vangreiddrar staðgreiðslu. Það telst ekki verulegur hluti skattfjárhæðar, sbr. umfjöllun í B kafla ákæru og á því fésektarlágmark samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 við í málinu.

                Af gögnum málsins verður ráðið að greitt álag vegna júlímánaðar 2002 nam 109.455 krónum. Þá hafa verið greiddar 105.019 krónur vegna októbermánaðar 2002, sem ekki hafa verið sundurgreindar í vexti og álag. Þar sem svo hagar til, verður ákærði látinn njóta vafans um það og litið svo á að um greiðslu á álagi sé að ræða, við ákvörðun fésektar.

                Ákærði verður samhliða skilorðsbundinni refsivist dæmdur til greiðslu sektar sem þykir með hliðsjón af dómvenju hæfilega ákveðin 17.000.000 krónur, sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Vararefsing er ákveðin með hliðsjón af dómvenju á þessu sviði og um hana fjallað í kafla um samantekt refsinga.

Ákærukafli F-[…] ehf.

Málsatvik.

                Ákærðu neita sök samkvæmt þessum ákærulið og krefjast sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.

                Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega með því að tilkynning þess efnis var send 25. febrúar 2002 á lögheimili skattaðilans. Rannsóknin byggðist aðallega á upplýsingum frá fyrirsvarsmönnum félagsins og hlutafélagaskrá, staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum skattaðilans, virðisaukaskattskýrslum, bréfum skattstjórans í Reykjanesumdæmi og tekjubókhaldi ríkissjóðs. Rannsókn lauk með útgáfu skýrslu skattrannsóknarstjóra 24. júní 2002. Í kjölfarið var málið sent ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunarheimilda hans. Með bréfi til skattrannsóknarstjóra dagsettu 1. júlí 2002 tilkynnti ríkisskattstjóri að hann hygðist ekki endurákvarða skattfjárhæðir í málinu. Með bréfi frá 21. janúar 2002 var fyrirsvarsmönnum félagsins síðan tilkynnt um þá ákvörðun skattrannsóknarstjóra að vísa málinu til opinberrar rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra.

                Meðal gagna málsins er bréf frá skattstjóra Reykjanesumdæmis frá 11. desember 2001, þar sem tekið er fram að félagið hafi með úrskurði skattstjóra 29. nóvember 2001 verið tekið af virðisaukaskattskrá og félaginu jafnframt gert að skila útskatti samkvæmt virðisaukaskattskýrslu fyrir tímabilið maí-júní 2001. Í ljósi þessa var óskað eftir því að félagið gerði grein fyrir virðisaukaskattskýrslum fyrir tímabilin júlí-ágúst og september-október 2001. Óskað var eftir upplýsingum um það í hverju tekjur fælust og hvort einhver breyting hefði orðið þar á frá skýrslunni fyrir maí-júní 2001. Óskað var svara innan 15 daga frá dagsetningu bréfsins.

                Í bréfi skattstjóra frá 9. janúar 2002 segir að engin svör hafi borist við framangreindu og verði því að líta þannig á að félagið hafi innheimt virðisaukaskatt af starfsemi undanþeginni virðisaukaskatti. Í samræmi við það var tilkynnt að fyrirhugað væri að tilkynna innheimtumanni ríkissjóðs um þann virðisaukaskatt sem félagið hafði innheimt, þ.e. vegna júlí-ágúst 2.246.769 krónur og vegna september-október 782.706 krónur. Tilkynnt var um í niðurlagi bréfsins að ef félagið vildi gera athugasemdir þyrftu þær að berast innan 16 daga frá dagsetningu bréfsins. Engar athugasemdir bárust frá félaginu og samkvæmt úrskurði skattstjórans í Reykjanesumdæmi frá 1. febrúar 2002 var upplýst að innheimtumanni ríkissjóðs hefði verið tilkynnt um þann virðisaukaskatt sem félagið hefði innheimt samkvæmt virðisaukaskattskýrslum auk 10% álags. Í úrskurðinum segir jafnframt að á skýrslunum sé tilgreindur innskattur til frádráttar, en þar sem félagið sé ekki virðisaukaskattskylt, eigi það engan innskattsrétt og var honum því hafnað. Tilkynnt var um kærufrest í niðurlagi bréfsins, en hvorugur framangreindra úrskurða, frá 1. febrúar 2002 og 29. nóvember 2001 sættu kæru.

                Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá sat ákærði, Eyjólfur, í stjórn félagsins frá 30. apríl 2001 til 20. desember 2002. Ákærði, F, var framkvæmdastjóri félagsins frá 30. apríl 2001 samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá.

                Samkvæmt yfirliti sem lagt hefur verið fram af hálfu ákæruvaldsins greiddist ekkert eftir eindaga inn á þau tímabil sem ákært er fyrir.

                Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá var skráður tilgangur félagsins á því tímabili sem rannsóknin tók til, útgáfustarfsemi, útkeyrsla, pökkun og dreifing, kaup, sala og rekstur fasteigna, kaup og sala hlutabréfa, lánastarfsemi og skyldur rekstur.

                Af framburði ákærða, F, hjá ríkislögreglustjóra 10. september 2003 má ráða að ákærða var kynnt að samkvæmt úrskurði skattstjórans í Reykjanesumdæmi frá 29. nóvember 2001, sem varðaði virðisaukaskattstímabilið maí-júní 2001 hafi félagið […] ehf. verið tekið af virðisaukaskattskrá frá og með upphaflegum skráningardegi sem verið hafi 20. apríl 2001, auk þess sem framtöldum innskatti hafi verið hafnað og félaginu gert að skila innheimtum útskatti að fjárhæð 1.587.505 krónur. Ákærði taldi sig hins vegar hafa verið í góðri trú um að félagið væri ekki virðisaukaskattskylt og hafi gert skýrslu fyrir maí-júní 2001 á þeirri forsendu. Þegar bréf skattstjórans í Reykjanesi frá 23. ágúst 2001 hafi borist, hafi ákærði rætt við starfsmann skattstjóra og síðan sent inn erindi 3. september 2001, þar sem því hafi verið mótmælt að félagið væri ekki virðisaukaskattskylt. Ekki hafi verið komin nein niðurstaða í það mál 3. október 2001 þegar ákærði hafi hætt störfum hjá […] ehf. og kvaðst hafa litið svo á að þá væri félagið skuldlaust vegna virðisaukaskatts. Hann hafi ekki átt nokkra möguleika á að bregðast við úrskurði skattstjóra 29. nóvember 2001, enda hafi hann hætt störfum 3. október 2001.

                Meðal gagna málsins er bréf skattstjórans í Reykjanesumdæmi frá 29. október 2001, til […] ehf., þar sem vísað er til bréfs skattstjóra frá 23. ágúst s.á., en í því bréfi var óskað eftir upplýsingum og bókhaldsgögnum frá félaginu fyrir tímabilið maí-júní 2001. Gögn þessi voru lögð fram 3. september 2001 af hálfu […] ehf. Í niðurlagi bréfsins frá 29. október 2001 kemur fram það mat skattstjórans í Reykjanesumdæmi að félagið hafi ekki stundað neina virðisaukaskattskylda starfsemi og geti því ekki átt neinn innskattsrétt. Sé því fyrirhugað með vísan til 25. og 26. gr. laga nr. 50/1988 að hafna innskatti á virðisaukaskattskýrslu félagsins fyrir tímabilið maí-júní 2001. Hins vegar hafi félaginu borið að skila innheimtum útskatti samkvæmt 22. gr. laga nr. 50/1988 nema leiðréttingu yrði við komið gagnvart kaupanda. Sé því fyrirhugað að ákvarða virðisaukaskattskylda veltu tímabilsins maí-júní 2001 í samræmi við virðisaukaskattskýrslu félagsins 6.479.616 kr. og útskatt 1.587.505 kr., auk 10% álags 158.751 kr. Þá segir í bréfinu að ef félagið vilji gera athugasemdir við ofangreint þurfi þær að berast til skattstjóra Reykjanesumdæmis, innan 16 daga frá dagsetningu bréfsins.

                Með úrskurði skattstjórans í Reykjanesumdæmi frá 29. nóvember 2001 var félagið tekið af virðisaukaskattskrá frá og með þeim degi er það kom á skrá, þ.e. 20. apríl 2001. Jafnframt var innskatti á virðisaukaskattskýrslu fyrir tímabilið maí-júní 2001 hafnað, en hins vegar var félaginu gert að skila þeim útskatti sem það hafði innheimt, 1.587.505 krónum, auk 10% álags.

                Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi varðandi ákærulið I.

                Ákærði, Eyjólfur, kvaðst hafa verið stjórnarmaður í félaginu frá vori 2001. Hann kvað meðákærða, F, hafa verið framkvæmdastjóra félagsins og hafi hann séð um daglegan rekstur þess. F hafi látið af störfum hjá félaginu 3. október 2001. Ákærði kvað ástæðu þess að virðisaukaskattur var ekki greiddur þann tíma sem í ákæru greinir, hafa verið ágreining við skattyfirvöld um það hvort félagið væri virðisaukaskattskylt. Leitað hafi verið ráða hjá endurskoðendum og hafi félagið unnið eftir þeirra ráðum og litið svo á að félagið væri virðisaukaskattskylt. Ákærði kvaðst vita að meðákærði, F, hefði farið á fund hjá skattyfirvöldum til að ræða þessi mál. Þessi mál hefði borið á góma í stjórninni og kvað ákærði meðákærða hafa sagt sér frá þessu. Ákærði kvaðst hafa talið að meðákærði og hann sjálfur hefðu verið að gera rétt og taldi að staðið hefði verið skil á öllum virðisaukaskatti. Ákærði var spurður um það hvort hann kannaðist við að félaginu hefði verið sent bréf 23. ágúst 2001 varðandi þetta frá skattyfirvöldum. Kvaðst ákærði ekki muna dagsetninguna, en setti það í samhengi við þær umræður sem farið hefðu fram um að einhver svona álitamál væru uppi. Spurður um úrskurð skattyfirvalda frá 29. október 2001 kvaðst ákærði ekki hafa séð þann úrskurð, en endurskoðendum félagsins hefði verið gert viðvart og þeir beðnir um að kæra þennan úrskurð. Það hafi hins vegar ekki verið gert. Ákærði kvað að þegar meðákærði, F, hætti í október 2001 hafi hann gert upp öll opinber gjöld, en síðan hafi hann ekki haft frekari afskipti af félaginu.

                Ákærði kvað félagið hafa átt mikið af útistandandi kröfum á þessu tíma og það hafi verið ástæða þess að það hafði ekki burði til að standa skil á skuldbindingum með eðlilegum hætti. Er ákærði var spurður um hvort það skipti hundruðum þúsunda eða milljónum, svaraði ákærði: ,,Ætli það væri ekki milljónir eða tugir milljóna en ég bara kann ekki þá tölu nákvæmlega.”

                Ákærði kvaðst ekki hafa verið með prókúru á bankareikninga félagsins.

                Ákærði, F, kvaðst hafa verið ráðinn sem framkvæmdastjóri félagsins um mánaðamótin apríl/maí 2001 og hafi hann lokið störfum 3. október 2001. Hann kvað að búið hafi verið að skilgreina félagið sem virðisaukaskattskylt áður en hann kom að því sem framkvæmdastjóri. Áður en hann hætti störfum hafi hann gert upp öll opinber gjöld félagsins og skilið eftir nokkur hundruð þúsund krónur upp í laun og annan kostnað. Hann hafi látið stjórn félags það eftir að skila gögnum varðandi það, en hann hafi talið að öll opinber gjöld sem félagið hafi átt að greiða, hafi þar með verið úr sögunni. Ákærði kvað að félaginu hefði verið úthlutað virðisaukaskattsnúmeri og kvaðst ekki kannast við að þegar hann hóf störf hafi það komið til skoðunar hvort félagið væri virðisaukaskattskylt eða ekki. Sú umræða hafi fyrst komið til þegar hann skilaði inn virðisaukaskattskýrslum. Ákærði var spurður um bréf frá skattstjóranum í Reykjanesumdæmi, um að félagið væri ekki virðisaukaskattskylt og kvaðst hann hafa sent andmæli sín bréfleiðis til skattstjóra. Hann kvaðst hins vegar ekki eiga það bréf og kvaðst ekki geta gefið skýringar á því að skattstjóri hefði upplýst um að ekki hefði neitt bréf verið móttekið frá ákærða varðandi þetta. Ákærði kvaðst hafa litið svo á að virðisaukaskatturinn væri í skilum er hann lét af störfum, enda hefði hann gert upp öll opinber gjöld áður en hann hætti hjá félaginu.

                Ákærði var spurður um það hver hefði tekið ákvarðanir í félaginu og kvað hann meðákærða, Eyjólf, hafa gert það. Hann hafi verið eins konar starfandi stjórnarformaður, þótt hann hafi ekki verið skráður stjórnarformaður.

                Ítrekað aðspurður kvaðst hann hafa farið yfir það með stjórn félagsins og endurskoðanda er bréf barst frá skattstjóra varðandi ágreining um hvort félagið væri virðisaukaskattskylt.
                Vitnið, X, var spurður um það hver hefði stjórnað félaginu eftir að vitnið hætti störfum í félaginu í október 2001. Kvað vitnið ákærða, F, hafa stjórnað félaginu, í skamman tíma eftir að hann hætti 3. október 2001. Vitnið kvað deilur hafa verið um það hvort félagið væri virðisaukaskattskylt og hefðu þær deilur varað frá apríl 2001. Endurskoðendur hefðu tjáð þeim að félagið væri virðisaukaskattskylt og félagið hefði unnið eftir því.

                Vitnið, Þ kvaðst hafa verið stjórnarmaður í félaginu frá 30. apríl 2001 til 1. október 2001 og kvaðst muna eftir því að þegar ákærði, F, var að hefja störf hjá félaginu hefði verið uppi ágreiningur um það hvernig haga ætti virðisaukaskattsmálum félagsins.

                Vitnið V9 kvaðst hafa fært bókhald fyrir félagið á árinu 2001. Hún var spurð að því að hvers frumkvæði hún hefði fyllt út virðisaukaskattskýrslur vegna tímabilsins júlí/ágúst 2001 og september/október 2001, sem skilað var inn eftir að  ákærði, F, var hættur. Kvað hún vel hugsanlegt að hún hefði tekið það upp hjá sjálfri sér að fylla út skýrslurnar og senda þær.

                Vitnið, V10, kvaðst hafa verið dreifingastjóri hjá félaginu. Hún var spurð um framburð sinn hjá lögreglu um að ákærði, Eyjólfur, hefði stjórnað öllu í félaginu og kvað hún þá það vera rétt að hann hafi verið yfir þessu öllu, sem eigandi, en ákærði, F, hafi verið framkvæmdastjóri.

                Vitnið, U, kvaðst hafa unnið í launadeild hjá Frjálsri Fjölmiðlun ehf. á árunum 2000-2002. Hún kvaðst hafa undirritað skilagreinar vegna nóvember og desember 2001. Hún kvaðst hafa haft samband við V10 vegna þeirra og kvað að sig minnti að hún hefði tekið við af ákærða, F, er hann hætti hjá félaginu.

Niðurstaða varðandi þátt ákærða, F.

                Af hálfu verjanda ákærða var bent á að […] ehf. sóttu um virðisaukaskattsnúmer og fékk félagið slíkt númer. Þá benti verjandi ákærða á að í máli þessu hafi hvorki ásetningi né stórkostlegu gáleysi af hálfu ákærða, F, verið til að dreifa og skorti því saknæmisskilyrði til að unnt sé að sakfella hann fyrir þessi brot.

                Fyrir liggur í málinu að ákærði var framkvæmdastjóri félagsins frá 30. apríl 2001 og bar hann fyrir dómi að hann hefði hætt störfum fyrir félagið 3. október 2001. Samrýmist sá framburður hans framburði ákærða, Eyjólfs um það hvenær ákærði, F, lét af störfum fyrir félagið. Ákærði, F, undirritaði og skilaði inn virðisaukaskattskýrslu fyrir maí-júní 2001, sem sýndi innskatt hjá félaginu og bar fyrir dómi að hann hefði gert það í þeirri trú að félagið hafi verið virðisaukaskattskylt. Þá bar ákærði fyrir dómi að þegar bréf skattstjórans í Reykjanesi frá 23. ágúst 2001 hefði borist, hafi ákærði rætt við starfsmann skattstjóra og síðan sent inn erindi 3. september 2001, þar sem því hafi verið mótmælt að félagið væri ekki virðisaukaskattskylt. Ekki hafi verið komin nein niðurstaða í það mál 3. október 2001 þegar ákærði hafi hætt störfum hjá […] ehf. og kvaðst hann hafa litið svo á að þá væri félagið skuldlaust vegna virðisaukaskatts. Hann hafi ekki átt nokkra möguleika á að bregðast við úrskurði skattstjóra 29. nóvember 2001, enda hafi hann hætt störfum 3. október 2001.

                Þessi framburður ákærða samrýmist framburði meðákærða, Eyjólfs, um það að ákærði, F, hafi verið í góðri trú um að félagið væri virðisaukaskattskylt. Ákærði, Eyjólfur, bar einnig fyrir dómi, að áður en ákærði, F, hætti störfum hefði hann gert upp öll opinber gjöld.

                Af framburði vitnanna, Þ og X, mátti ráða að ákærði, F, hafi vitað frá upphafi starfa sinna hjá félaginu að ágreiningur væri uppi um það hvort félagið væri virðisaukaskattskylt, en ákærði hefur staðfastlega neitað því og bent á að þegar hann hóf störf hafi verið búið að skilgreina félagið sem virðisaukaskattskylt og því hafði verið úthlutað virðisaukaskattsnúmeri.

                Af gögnum málsins verður ráðið að ákærði hafi sent inn umbeðin gögn til skattstjóra 3. september 2001. Eftir að skattstjóri hafði skoðað þau gögn var félaginu sent bréf 29. október 2001 og í framhaldi þess var kveðinn upp úrskurður hjá skattstjóra 29. nóvember 2001 vegna virðisaukaskattstímabilanna maí-júní 2001. Úrskurðurinn var ekki kærður og byggist ákæra í málinu á þeim fjárhæðum sem tilgreindar eru í úrskurðinum.

                Ákærði var hættur störfum hjá félaginu er fyrrgreint bréf var sent félaginu og úrskurður skattstjóra var upp kveðinn. Hann hafði, áður en hann hætti störfum, komið ákveðnum upplýsingum til skattstjóra er vörðuðu þetta virðisaukaskattstímabil, en kom ekkert að málefnum félagsins eftir 3. október 2001 og gat því ekki fylgst með í hvaða farvegi málið var. Það er mat dómsins, að í ljósi aðstæðna ákærða, sem fyrr er lýst, skorti á að saknæmisskilyrði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 séu uppfyllt hvað hann snertir og verður ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í máli þessu.

                Niðurstaða varðandi þátt ákærða, Eyjólfs.

                Ákærði, Eyjólfur, bar fyrir dómi að ástæða þess að afdreginni staðgreiðslu var ekki skilað, hefði verið sú að í byrjun október hafi meðákærði, F, tekið þá ákvörðun að nota alla tiltæka fjármuni félagsins til þess að gera upp alla vörsluskatta og það sé í raun ástæðan fyrir því að ekki var skilað staðgreiðslu.

                Ákærði, Eyjólfur, hefur haldið því fram að óvíst sé hvort virðisaukaskattur vegna þeirra tímabila sem í ákæru greinir, hafi í raun verið innheimtur eða sé útistandandi og einnig hefur hann haldið því fram að laun hafi verið ógreidd. Ekkert hefur fram komið í málinu er rennir fullnægjandi stoðum undir þessar staðhæfingar ákærða og hafi ákærði talið að til lækkunar ætti að koma á virðisaukaskatti vegna óinnheimtra krafna, hvíldi sú skylda á ákærða, þegar hann sá í hvað stefndi hjá félaginu, að senda inn leiðréttingaskýrslu vegna virðisaukaskatts í samræmi við lög nr. 50/1988, enda var það í hans þágu að sjá til þess að sú leiðrétting kæmi fram. Það gerði ákærði ekki og er því þessi vörn hans haldlaus.

                Ákærði hefur haldið því fram að hann hafi hætt afskiptum af félaginu í október 2001, en samkvæmt vottorði hlutafélagaskrár sat hann engu að síður í stjórn félagsins frá 30. apríl 2001 til 20. desember 2002 og ekkert hefur komið fram í málinu um annað. Hann bar því ábyrgð á því, sem stjórnarmaður að starfsemi og skipulag félagsins væri í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Þar undir fellur ábyrgð á því að staðið sé skil á lögboðnum gjöldum og virðisaukaskatti en skv. 1. málslið 3. mgr. sömu greinar skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Þótt ákærði hafi ekki sjálfur annast gerð skilagreina eða unnið virðisaukaskattskýrslur er ábyrgð hans engu minni og að mati dómsins ekki fram komið með fullnægjandi hætti að fjárhæðir samkvæmt skilagreinum og skýrslum séu rangar. 

                Varðandi vangoldna staðgreiðslu opinberra gjalda er því haldið fram af hálfu verjanda ákærða, að engin rannsókn hafi farið fram á efnisatriðum ákæru, þ.e. hvort laun hafi verið í skilum eða ekki, en það sé skilyrði þess að um refsiverða háttsemi sé að ræða, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Samkvæmt dómskjali nr. 28 og fylgiskjali með því, þ.e. skrá yfir lýstar kröfur í þrotabú […] ehf., námu kröfur launamanna í þrotabú […] ehf. 3.651.651 krónum. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 22. október 2003 og verður ekkert af kröfuskránni ráðið hvort um kröfur er að ræða sem taka til þeirra tímabila er í ákæru greinir, þ.e.í lok árs á árinu 2001. Er því ekki fallist á þessa vörn ákærða.

                Með aðgerðarleysi sínu um að greiða lögboðin gjöld hefur ákærði af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda til að hlutast til um að afdregin staðgreiðsla yrði greidd. Þá hefur hann af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 til að hlutast til um að virðisaukaskattur yrði greiddur. Með háttsemi sinni hefur ákærði því gerst sekur um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau verður að telja stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varða brot ákærða því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í ákæru greinir.

                Um fangelsisrefsingu ákærða er fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Samkvæmt yfirliti sem lagt var fram af hálfu ákæruvaldsins greiddist ekkert eftir eindaga inn á þau þau tímabil sem ákært er fyrir, hvorki vegna afdreginnar staðgreiðslu, né virðisaukaskattskuldar. Fésektarlágmark samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 á því við varðandi þennan ákærulið. 

                Ákærði verður samhliða refsivist dæmdur til greiðslu sektar vegna beggja ákæruliða sem þykir með hliðsjón af dómvenju hæfilega ákveðin 10.800.000 krónur, sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

Ákærukafli G - Vísir.is.

Málsatvik.

Ákærðu neita sök og krefjast sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega með því að tilkynning þess efnis var send þann 25. febrúar 2002 á lögheimili skattaðilans. Rannsóknin byggðist aðallega á upplýsingum frá fyrirsvarsmönnum félagsins og hlutafélagaskrá, staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum skattaðilans, virðisaukaskattskýrslum og tekjubókhaldi ríkissjóðs, en henni lauk með útgáfu skýrslu skattrannsóknarstjóra dagsettri 24. júní 2002. Andmæli bárust frá C, en andmæli hans þóttu ekki gefa tilefni til breytinga á skýrslunni, enda hafi það verið gert varðandi meinta vangoldna staðgreiðslu. Í kjölfarið var málið sent ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunarheimilda hans. Með bréfi til skattrannsóknarstjóra dagsettu 1. júlí 2002 tilkynnti ríkisskattstjóri að hann hygðist ekki endurákvarða skattfjárhæðir í málinu. Með bréfi frá 21. janúar 2003 var fyrirsvarsmönnum félagsins síðan tilkynnt um þá ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins að vísa málinu til opinberrar rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.

                Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá var skráður tilgangur félagsins á því tímabili sem rannsóknin tók til, þátttaka í nýsköpun og hagræðingu í atvinnulífinu, kaup og sala verðbréfa, hlutabréfa og fasteigna, inn- og útflutningur, útgáfustarfsemi, lánastarfsemi, rekstur fasteigna og skyld starfsemi.

                Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2002 var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta.

                Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá var ákærði, C, framkvæmdastjóri félagsins frá október 2001 til 18. febrúar 2002. Ákærði, Eyjólfur, sat í stjórn félagsins frá 14. desember 1998 til 18. febrúar 2002.

                Samkvæmt yfirliti er lagt hefur verið fram af hálfu ákæruvalds námu innborganir eftir eindaga á þau tímabil sem ákært er fyrir 1.408.205 krónur vegna vangreiddrar staðgreiðslu og 78.663 krónum vegna virðisaukaskatts.

                Af hálfu ákæruvaldsins var gefin út framhaldsákæra, sem meðal annars tók til þessa ákæruliðar. Framhaldsákærunni var vísað frá dómi með úrskurði dómsins 7. nóvember 2005 og stendur þá eftir upphafleg ákæra málsins, með þeim fjárhæðum sem þar greinir. Í upphaflegri ákæru var ákærufjárhæð vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir september 2001 sögð vera 1.126.131 krónur og óskaði ákæruvaldið við aðalmeðferð málsins að sú fjárhæð stæði óhögguð. Þar sem það er til hagsbóta fyrir ákærðu, verður sú fjárhæð lögð til grundvallar og samtala vegna september, október, nóvember og desember er því 5.047.389 krónur,

                Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

                Ákærði, C, kvaðst hafa haft umsjón með ákveðnum verkefnum fyrir félagið. Hann var spurður um það hvort hann hefði verið framkvæmdastjóri félagsins og kvað hann þá að það hefði nú ,,bara verið sá starfstitill sem var notaður“. Spurður um það hver hefði þá verið framkvæmdastjóri, kvaðst hann ekki geta svarað því. Hann kvað þó B hafa verið sér innan handar og ákærði, Eyjólfur, hafi einnig verið þarna. Hann kvað Svavar Ásbjörnsson, fjármálastjóra félagsins hafa haft það hlutverk að gera skil á virðisaukaskatti gagnvart skattyfirvöldum. Hann kvaðst aldrei hafa litið svo á sem hann hefði verið yfirmaður Svavars. Ákærði kvaðst þó kannast við skjal sem honum var sýnt, þar sem ákærði tilkynnir sig sem framkvæmdastjóra félagsins til hlutafélagaskrár. Hann kvað virðisaukaskattskil félagsins hafa verið sér algerlega óviðkomandi. Ákærði kvað sér hafa orðið ljóst um einum og hálfum mánuði eftir að hann hóf störf að um vanskil á virðisaukaskatti gæti verið að ræða hjá félaginu og kvaðst hafa lagt þunga áherslu á það við ákærðu, Eyjólf og Svavar, að þau yrðu greidd, en kvað valdsvið sitt ekki hafa náð til þess. Hann kvaðst hafa komið formlega til starfa hjá félaginu, seinni part október, en tilkynning til hlutafélagaskrár er dagsett 3. október 2001.

                Ákærði kvaðst hafa áttað sig á því að vanhöld væru á því að afdreginni staðgreiðslu væri skilað til innheimtumanns ríkissjóð um áramótin 2001/2002. Hann hafi þó ekki fengið nákvæmar tölur. Hann kvaðst hafa rætt þessi mál bæði við ákærða, Eyjólf, og einnig við Svavar.

                Ákærði kvað að ekki hefði verið gerður við hann ráðningarsamningur og hann hefði ekki séð neitt skipurit félagsins. Hann hafi ekki haft prókúru á bankareikninga og ekki haft heimild til að skoða fjárhagsbókhald félagsins. Þá hafi honum aldrei verið gerð grein fyrir því að hann ætti að hafa með höndum fjármálalega ábyrgð af einhverju tagi. Hann áréttaði að hann hefði litið á Svavar og ákærða, Eyjólf sem þá, sem réðu fjármálunum.

                Ákærði kvaðst hafa átt mikil laun inni hjá félaginu og hafi hann oft farið fram á að fá greidd laun, en það hafi ekki gengið.

                Borinn var undir ákærða framburður hans hjá skattrannsóknarstjóra þar sem haft er eftir ákærða að starfsmenn félagsins hafi annast gerð skilagreina undir hans stjórn. Kvaðst ákærði þá ekki kannast við að hafa orðað það á þann hátt.

                Ákærði kvað félagið hafa átt einhverjar útistandandi kröfur.

                Þá kvaðst ákærði ekki geta sagt nákvæmlega til um hvort og að hvaða marki laun hafi verið í vanskilum.

                Ákærði kvaðst ekki hafa afturkallað skráningu í hlutafélagaskrá, þar sem tilkynnt var um hann sem framkvæmdastjóra.

                Ákærði, Eyjólfur, kvaðst hafa verið stjórnarformaður félagsins. Hann kvað B hafa verið framkvæmdastjóra félagsins og haft sér til aðstoðar Svavar Ásbjörnsson. Í október 2001 hafi C verið ráðinn í stað B sem framkvæmdastjóri, en B hafi starfað með honum í um 2 mánuði. Fljótlega hafi orðið ljóst að C þyrfti töluverðan stuðning. Hann kvað að hugsanlega hefði honum ekki verið kynnt nógu vel hvernig starfsemin væri og hafi hann þurft stuðning, sem ákærði hafi reynt að veita. Afskipti ákærða af félaginu hafi því aukist mjög eftir að C varð framkvæmdastjóri. Ákærði kvaðst hafa þurft að sinna fyrirtækinu meira en hann hafði gert þegar B var framkvæmdastjóri, þar sem C hefði ekki verið búinn að ná almennilegum tökum á starfinu. C hafi oft leitað ráða hjá ákærða um ýmis atriði og ákærði aðstoðað hann. Þeir Svavar og C hafi borið undir ákærða fleiri mál en hann átti að venjast úr öðrum störfum sem stjórnarformaður.

                Spurður um ástæðu þess að ekki voru staðin skil á virðisaukaskatti kvað ákærði hana hafa verið þá að félagið hafi átt miklar útistandandi kröfur og það hafi verið mjög þrengt að fjárhag þess. Hann kvað allan innheimtan virðisaukaskatt hafa verið greiddan, en félaginu hafi gengið mjög illa að innheimta útistandandi kröfur og það hafi örugglega átt mun meira í útistandandi kröfum en sem nam vanskilum.

                Spurður um afdregna vangoldna staðgreiðslu kvað ákærði að launagreiðslur hafi dregist mikið á lokamánuðum og kvaðst ákærði gera ráð fyrir að ekki væri greidd staðgreiðsla nema af þeim launum sem greidd voru. Ákærði kvaðst ekki geta sagt til um það hvenær hann vissi af því að að ekki var unnt að greiða staðgreiðslu af launum og kvaðst ekki hafa grennslast fyrir um það hvort afdreginni staðgreiðslu hefði verið skilað.

                Ákærði kvaðst ekki hafa haft prókúru á bankareikninga félagsins og ekki fylgst með því hversu miklar kröfur félagið átti á hendur öðrum, en kvaðst telja að það hafi verið einhverjar milljónir. Spurður um það hvort ákærða C, hafi verið ljóst að hann var að taka að sér fjármálalega framkvæmdastjórn, kvað ákærði ekki hafa verið neina fyrirvara á því hvað fælist í verkefnum framkvæmdastjóra. Ákærði kvað B hafa látið af störfum í október sem framkvæmdastjóri. Ákærði kvaðst standa við það að dagleg framkvæmd og fjármálastjórn félagsins hafi verið í höndum C og Svavars Ásbjörnssonar, en ákærði hefði hins vegar þurft að styðja mjög við C í störfum hans.

                Ákærða var sýnd tilkynning til hlutafélagaskrár, dagsett 3. október 2001 þar sem fram kemur að ákærði, C, hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri Vísis.is. Ákærði kvaðst hins vegar ekki muna nákvæmlega hvort hann réði hann á því tímamarki.

                Vitnið, Svavar Ásbjörnsson, kvað C hafa tekið við starfi framkvæmdastjóra Vísis.is í október 2001. Hann kvað C hafa verið titlaðan sem framkvæmdastjóra, en kvaðst ekki vita hvort hann hafi starfað sem slíkur. Vitnið kvað ákærða, Eyjólf hafa tekið allar ákvarðanir varðandi fjármálin. C hafi ekki verið settur inn í það.

                Vitnið kvað ákærða, C, ekki hafa haft neitt boðvald yfir honum, en forveri hans, B, hafi haft það áður en C tók við starfi framkvæmdastjóra.

                Vitnið var spurt hvort ákærði, Eyjólfur, hefði verið hinn raunverulegi framkvæmdastjóri og kvaðst vitnið ekki vita það, en kvaðst hafa þurft að leita til Eyjólfs eftir að B hætti störfum sem framkvæmdastjóri, varðandi öll fjárhagsmál. Vitnið kvaðst telja að félagið hafi átt útistandandi kröfur, sem námu nokkrum milljónum.

                Vitnið, D,var spurður um það fyrir dómi hver hefði farið með framkvæmdastjórn í félaginu. Kvað hann þá að Svavar ,,hefði séð um heftið“, en hann hefði þó ekki verið eiginlegur framkvæmdastjóri, fremur fjármálastjóri, en ákærði Eyjólfur gæti hafa verið rekstrarlegur framkvæmdastjóri.

                Vitnið, U kvaðst hafa unnið í launadeild Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., á árunum 2000, 2001 og 2002. Hún kvaðst hafa undirritað skilagreinar vegna staðgreiðslu er liggja frammi í málinu. Hún kvað að sig minnti að hún hefði verið í samskiptum við Svavar Ásbjörnsson þegar hún var að skila inn skilagreinum, en hann hafi verið fjármálastjóri félagsins. Hún minntist þess ekki að hafa haft samskipti við ákærða, C, vegna þessa og kvaðst ekki vita hver hann væri.

                Vitnið, V11, kvaðst hafa verið samstarfsmaður ákærða, C, á Vísi.is. Hann kvaðst þó ekki geta lýst starfssviði C en það hafi komið sér fyrir sjónir sem C hafi verið fenginn til þess að ,,reyna að blása lífi í þreytt starfsfólk, sem ekki hafði fengið laun greidd “. Hann hafi þó ekki virst hafa fengið neitt svigrúm eða ráð til þess að gera eitt né neitt. Vitnið kvað félagið hafa skuldað sér laun á þeim tíma, er ákærði, C var framkvæmdastjóri, en vitnið kvað að sér hefði ekki þótt vænlegt til árangurs að ræða það við C. Spurður um það hvers vegna það hefði ekki þótt vænlegt til árangurs, kvaðst vitnið hafa átt í samskiptum við fjármálastjóra sem séð hafi um að greiða launin.

Niðurstaða varðandi þátt ákærða, C.

Í málinu er fram komið að ákærði, C, var skráður framkvæmdastjóri félagsins frá október 2001 til 18. febrúar 2002 og ákærði, Eyjólfur var stjórnarmaður frá 14. desember 1998 til 18. febrúar 2002. 

                Af hálfu verjanda ákærða er því haldið fram að raunveruleg fjármálastjórn félagsins hafi ekki verið í höndum hans. Hann hafi ekki fengið aðgang að bókhaldi félagsins, og ekki haft prókúru á bankareikninga félagsins. Hann hafi ekki gegnt raunverulegri framkvæmdastjórastöðu í félaginu.

                Hann kveður að C beri enga sök í málinu og bendir á að það hljóti að koma til skoðunar, ef refsing verði ákvörðuð, að ákærði C, hafi engin laun fengið greidd.

                Í framburði ákærða fyrir dómi kom fram að Svavar Ásbjörnsson, fjármálastjóri félagsins hafi haft það hlutverk með höndum að gera skil á virðisaukaskatti gagnvart skattyfirvöldum. Hann kvaðst aldrei hafa litið svo á sem hann hefði verið yfirmaður Svavars og kvaðst ekki hafa litið á sig sem raunverulegan framkvæmdastjóra. Í framburði ákærða, Eyjólfs, kom fram að hugsanlega hefði C ekki verið kynnt nógu vel hvernig starfsemin væri og hafi hann þurft mikinn stuðning.

                Í framburði vitnisins, Svavars, kom fram að ákærði, Eyjólfur, hefði tekið allar ákvarðanir varðandi fjármálin og hefði C ekki verið settur inn í þau mál.

                Vitnið kvað ákærða, C, ekki hafa haft neitt boðvald yfir honum, á þann hátt sem forveri C, B, hefði haft.

                Þá kom fram í framburði vitnisins, D, að ákærði, Eyjólfur, gæti hafa verið rekstrarlegur framkvæmdastjóri og vitnið U kvaðst ekki vita hver C væri og kvaðst eingöngu hafa verið í samskiptum við Svavar Ásbjörnsson varðandi skilagreinar.

                Af ofangreindum framburði vitna fyrir dómi, sem renna styrkum stoðum undir framburð ákærða sjálfs fyrir dómi verður ráðið að þrátt fyrir að ákærði hafi verið tilkynntur til hlutafélagaskrár sem framkvæmdastjóri og formlega gegnt því starfi, þann tíma sem greinir í ákæru, hafi valdheimildir ákærða sem framkvæmdastjóra verið svo takmarkaðar að honum hafi verið ómögulegt að taka ákvörðun um hvaða kröfur á hendur félaginu skyldu greiddar og hann hafi ekki verið til þess bær, hvorki varðandi virðisaukaskatt sem félaginu bar að skila á framkvæmdastjóratíma hans, né staðgreiðslu opinberra gjalda. Með vísan til þessa og þess skamma tíma sem ákærði var skráður framkvæmdastjóri hjá félaginu og leiddi til þess að honum var illfært að hafa áhrif á reksturinn, er ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem greinir í þessum ákærulið.     

Niðurstaða varðandi þátt ákærða, Eyjólfs- ákæruliður I.

                Ákærði, Eyjólfur, hefur haldið því fram að óvíst sé hvort virðisaukaskattur vegna þeirra tímabila sem í ákæru greinir, hafi í raun verið innheimtur eða sé útistandandi. Ekkert hefur fram komið í málinu er rennir fullnægjandi stoðum undir þessar staðhæfingar ákærða og hafi ákærði talið að til lækkunar ætti að koma á virðisaukaskatti vegna óinnheimtra krafna, hvíldi sú skylda á ákærða, þegar hann sá í hvað stefndi hjá félaginu, að senda inn leiðréttingaskýrslu vegna virðisaukaskatts í samræmi við lög nr. 50/1988, enda var það í hans þágu að sjá til þess að sú leiðrétting kæmi fram. Það gerði ákærði ekki og er því þessi vörn hans haldlaus.

                Ákærði bar, sem stjórnarformaður félagsins þann tíma sem ákæra tekur til, á því ábyrgð að starfsemi og skipulag félagsins væri í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Þar undir fellur ábyrgð á því að staðið sé skil á virðisaukaskatti en skv. 1. málslið 3. mgr. sömu greinar skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Þótt ákærði hafi ekki sjálfur annast gerð virðisaukaskattskýrslna er ábyrgð hans engu minni og að mati dómsins ekki fram komið með fullnægjandi hætti að fjárhæðir samkvæmt skýrslum séu rangar. 

                Með aðgerðaleysi sínu um að greiða lögboðin gjöld hefur ákærði af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 til að hlutast til um að virðisaukaskattur yrði greiddur. Með háttsemi sinni hefur ákærði því gerst sekur um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau teljast þó að mati dómsins ekki stórfelld og varða samkvæmt þessum ákærulið ekki við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.   

                Samkvæmt yfirliti sem lagt var fram af hálfu ákæruvaldsins greiddust eftir eindaga inn á þau þau tímabil sem ákært er fyrir, 78.663 krónur vegna vangreidds virðisaukaskatts og af þeirri fjárhæð nemur álag 11.055 krónum.

                Þar sem ekki er um verulegan hluta skattfjárhæðar að ræða, sbr. umfjöllun í ákærukafla B, verður fésektarlágmarki samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt beitt. Ákærði verður því dæmdur til greiðslu sektar, sem er með hliðsjón af dómvenju ákveðin 1.000.000 króna sem greiðist í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

Niðurstaða ákæruliðar II.

                Ákærði hefur og haldið því fram varðandi vangoldna staðgreiðslu opinberra gjalda, að engin rannsókn hafi farið fram á efnisatriðum ákæru, þ.e. hvort laun hafi verið í skilum eða ekki, en það sé skilyrði þess að um refsiverða háttsemi sé að ræða, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987.

                Í málinu er fram komið að ákærði, Eyjólfur, var stjórnarformaður frá 14. desember 1998 til 18. febrúar 2002.

                Í framburði ákærða fyrir dómi kom fram að hann hafi komið mjög að málefnum félagsins eftir að B hætti störfum sem framkvæmdastjóri og sett sig meira inn í málefni félagsins, en hann hafði áður gert sem stjórnarformaður. Vitnið D, kvað það hugsanlegt að ákærði, Eyjólfur hefði verið rekstrarlegur framkvæmdastjóri og vitnið Svavar kvað ákærða, Eyjólf hafa tekið allar ákvarðanir varðandi fjármál félagsins. Samkvæmt framangreindu hefur ákærða verið fullkunnugt um slæma fjárhagsstöðu félagsins og að vangreidd var afdregin staðgreiðsla.

                Ákærði bar sem stjórnarformaður ábyrgð á því að starfsemi og skipulag félagsins væri í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Þar undir fellur ábyrgð á því að staðið sé skil á afdreginni staðgreiðslu en samkvæmt 1. málslið 3. mgr. sömu greinar skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Þótt ákærði hafi ekki sjálfur annast gerð skilagreina eða unnið virðisaukaskattskýrslur er ábyrgð hans engu minni. Að mati dómsins er heldur ekkert fram komið í málinu sem rennt geti stoðum undir staðhæfingar ákærða um að laun hafi verið ógreidd vegna þeirra tímabila er ákæra tekur til. Þá hefur ekki verið sýnt fram á annað en að ákærufjárhæðir eigi við rök að styðjast, aðrar en fjárhæð sem ákærða er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á vegna staðgreiðslu fyrir september 2001. Þar sem ákæruvaldið lækkaði þá fjárhæð til samræmis við upphaflegt ákæruskjal og sú lækkun er til hagsbóta fyrir ákærða verður hún lögð til grundvallar.

                Með aðgerðarleysi sínu um að greiða lögboðin gjöld hefur ákærði af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda til að hlutast til um að afdregin staðgreiðsla yrði greidd. Með háttsemi sinni hefur ákærði því gerst sekur um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau verður að telja stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varða brot ákærða því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í ákæru greinir.

                Um fangelsisrefsingu ákærða er fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Inn á staðgreiðsluskuld voru greiddar eftir eindaga 1.408.205 krónur samkvæmt yfirliti er ákæruvaldið hefur lagt fram og 127.613 krónur í álag.

                Innborgun nemur að mati dómsins ekki verulegum hluta skattfjárhæðar, sbr. umfjöllun í ákærukafla B og verður því fésektarlágmarki 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 beitt við ákvörðun refsingar.

                Ákærði verður, samhliða refsivist dæmdur til greiðslu sektar sem þykir með hliðsjón af dómvenju ákveðin 10.000.000 króna, sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Ákærukafli H - Fréttablaðið ehf.

Málsatvik.

                Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega með því að tilkynning þess efnis var send 14. nóvember 2002 á lögheimili skattaðilans, en tilefni hennar má rekja til tilkynningar Tollstjórans í Reykjavík til skattrannsóknarstjóra vegna vanskila félagsins á afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 22. nóvember 2002. Rannsókninni, sem byggði aðallega á upplýsingum frá fyrirsvarsmönnum félagsins og hlutafélagaskrá, staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum skattaðilans, virðisaukaskattskýrslum, gögnum frá Ábyrgðarsjóði launa og tekjubókhaldi ríkissjóðs, lauk síðan með útgáfu skýrslu skattrannsóknarstjóra þann 23. september 2003 og í kjölfarið var málið sent ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunarheimilda hans. Með bréfi til skattrannsóknarstjóra frá 2. október 2003 tilkynnti ríkisskattstjóri að hann hygðist ekki endurákvarða skattfjárhæðir í málinu. Með bréfi frá 19. janúar 2004 var fyrirsvarsmönnum félagsins síðan tilkynnt um þá ákvörðun skattrannsóknarstjóra ríkisins að vísa málinu til opinberrar rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra. Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá var skráður tilgangur félagsins á því tímabili sem rannsóknin tekur til að reka útgáfustarfsemi, hvers konar aðra starfsemi á sviði fjölmiðlunar og skyldan atvinnurekstur. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra að aflað hafi verið gagna hjá Ábyrgðarsjóði launa vegna vangoldinna launa skattaðilans og hafi afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda fyrir launatímabilið janúar til og með ágúst árið 2002 numið samtals 5.874.015 krónum. Lækki því staðgreiðsluskuld skattaðilans sem því nemi.

                Ákærufjárhæð varðandi meint vanskil á virðisaukaskatti grundvallast á leiðréttingarskýrslu skiptastjóra í þrotabúi Fréttablaðsins ehf. Samkvæmt bréfi hans til verjanda ákærða, X, frá 1. febrúar 2006, nemur fjárhæð bakfærðra og afskrifaðra krafna ,,líklega 35.000.000 króna “.

                Samkvæmt yfirliti er ákæruvaldið lagði fram greiddust eftir eindaga 2.564.262 krónur inn á vangreidda staðgreiðslu og 1.027.355 krónur inn á virðisaukaskattskuld

                Ákærði, X, sat í stjórn félagsins frá 19. september 2000 til 22. nóvember 2002 og gegndi stöðu stjórnarformanns frá 19. september 2001 til 2. mars 2001. Ákærði, Eyjólfur, sat í stjórn félagsins frá 19. september 2001 til 22. nóvember 2002, en var stjórnarformaður frá 2. mars 2001. 

                Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

                Ákærði, Eyjólfur, bar fyrir dómi að hann hefði verið stjórnarformaður félagsins frá mars 2001. Hann kvað ástæðu vanskila á virðisaukaskatti hafa verið þá að hrannast hafi upp útistandandi kröfur á viðskiptamenn félagsins. Við gjaldþrot félagsins hafi útistandandi kröfur numið um 85 milljónum. Hann kvaðst ekki hafa vitað af vanskilum á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda fyrr en í maí 2002. Hann kvaðst ekki hafa áttað sig á því að á sama tíma og hann var að semja við tollstjóra hafði ekki verið talið fram fyrir félagið og að tollstjóri væri að innheimta samkvæmt áætlunum. Hann kvaðst ekki hafa farið ofan í saumana á því hvað félagið skuldaði raunverulega.

                Ákærði kvað Svavar Ásbjörnsson hafa séð um að skila inn skilagreinum eftir að hann hætti störfum hjá félaginu. Ákærði kvað laun hafa verið í vanskilum hjá Fréttablaðinu.

                Spurður um aðkomu ákærða, X, að félaginu, kvað ákærði, Eyjólfur, að engin dagleg fjármál hafi verið borin undir hann.

                Ákærði kvað að á tímabilinu mars til maí 2002 hafi ákærði, X sagt sig úr stjórn félagsins og hafi þá ákærði verið einn eftir í stjórninni. Ákærði kvað engin gögn vera því til staðfestingar að ákærði, X, hefði sagt sig úr stjórn á þessu tímabili.

                Ákærði staðfesti það sem haft er eftir honum í skýrslu skattrannsóknarstjóra að yfirstjórn félagsins hafi haft með daglegan rekstur skattaðilans að gera, en stjórn skattaðilans hafi verið kunnugt um vanskil skattaðilans á vörslufé.

                Ákærði, X, kvaðst hafa komið mjög lítið að daglegri fjármálastjórn félagsins. Hann hafi fyrst og fremst verið að skoða hvernig hlutirnir gengju og hafi skipt sér töluvert af hugmyndafræðilegri uppbyggingu Fréttablaðsins. Hann kvað félagið hafa átt í erfiðleikum með að innheimta reikninga og það hafi gert útslagið með að þetta gekk ekki. Hann kvaðst ekki hafa áttað sig á því að ekki hafi verið staðið skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Ákærði kvað Svavar Ásbjörnsson og Z hafa verið yfirmenn í daglegum rekstri. Hann kvaðst hins vegar hafa fengið upplýsingar frá ákærða, Eyjólfi.

                Vitnið, Svavar Ásbjörnsson, kvaðst ekki hafa gegnt stöðu fjármálastjóra hjá félaginu og kvaðst hafa verið rekstrar- og skrifstofustjóri. Vitnið kvaðst vita til þess að ekki var unnt að greiða virðisaukaskatt og skila staðgreiðslu á réttum gjalddögum. Hann kvað ákvarðanir um það hvernig hægt væri að greiða þessar skuldir hafa verið teknar af honum sjálfum, ákærða Eyjólfi og D. Borinn var undir vitnið framburður vitnisins  í skýrslu skattrannsóknarstjóra, þar sem vitnið er spurt að því hver hefði tekið ákvörðun um að skila ekki afdreginni staðgreiðslu og virðisaukaskatti og vitnið svaraði þar, að það hafi verið ákærði, Eyjólfur, og D. Spurt um það hvort það væri rangt eftir vitninu haft, svaraði vitnið að þeir hefðu tekið ákvörðun um hvað greitt yrði, hann hefði skilið spurninguna þannig. Vitnið kvað hins vegar að ekki hefði verið tekin ákvörðun um að greiða ekki virðisaukaskatt.

                Vitnið, D, bar fyrir dómi að hans yfirmaður á Fréttablaðinu ehf., hafi verið ákærði, Eyjólfur, en kvaðst ekki vita hvort hann hafi verið framkvæmdastjóri. Hann kvað mikla erfiðleika hafa verið hjá félaginu á þessum tíma og kvaðst ekki geta sagt til um það hvort Svavar eða ákærði, Eyjólfur, hefði tekið ákvörðun um hvaða reikninga ætti að greiða.

                Vitnið, Z, kvaðst telja að Svavar Ásbjörnsson hafi borið ábyrgð á því að skila afdreginni staðgreiðslu og virðisaukaskatti, hann hafi verið fjármálastjóri félagsins. Borinn var undir vitnið framburður hans hjá skattrannsóknarstjóra þar sem vitnið segir að D hafi í reynd starfað sem framkvæmdastjóri og hafi hann tekið allar stórar ákvarðanir varðandi daglegan rekstur. Kvað þá vitnið þetta eiga við um allan þann tíma sem vitnið starfaði á Fréttablaðinu ehf.

                Vitnið kvaðst hafa komið að vinnu fyrir skiptastjóra Fréttablaðsins ehf., varðandi leiðréttingar á virðisaukaskattskýrslum, með þeim hætti að skiptastjóri hefði beðið hann um að fara yfir útistandandi kröfur hjá Fréttablaðinu til að innheimta þær. Hafi því vitnið aðstoðað við það og bakfært þær kröfur sem í raun og veru séu ónýtar. Taki það til þeirra uppgjörstímabila sem eru í ákæru, þ.e. janúar til og með október 2002. Niðurstaða þessara athugana hafi verið sú að verulegar fjárhæðir séu útistandandi og þurfi því að vera bakfærðar. Taldi vitnið að um gæti verið að ræða kröfur upp á 30-35 milljónir.        

Niðurstaða ákæruliðar I.

                Verjendur ákærðu byggja vörn sína m.a. á því að engin rannsókn hafi farið fram á efnisatriðum ákærðu, þ.e. hvort virðisaukaskattur hafi í raun verið innheimtur eða hvort hann var enn útistandandi og bendir á að samkvæmt bréfi skiptastjóra Fréttablaðsins ehf. komi fram að ekki hafi komið í leitirnar ein útistandandi viðskiptakrafa er skiptastjóri hafi treyst sér til að innheimta. Ljóst sé að rannsókn hefði þurft að fara fram á bókhaldi Fréttablaðsins ehf. til að sannreyna að hvaða marki kröfur félagsins, og virðisaukaskattur þar með, hafi í reynd verið innheimtur eða innheimtanlegur.

                Þá hafi verið upplýst af hálfu verjanda ákærða, X að fjárhæð bakfærðra og afskrifaðra krafna nemi líklega 35.000.000 króna. 

                Í ræðu verjanda ákærða, Eyjólfs, var að því vikið að innheimtumaður ríkissjóðs hafi greitt út 2.525.164 krónur vegna síðara tímabils í stað þess að skuldajafna líkt og gerðist með tímabilin á undan. Leiðrétting þess var gerð eftir að félagið varð gjaldþrota og því var rétt af tollstjóra að greiða fjárhæðina til bústjóra þrotabúsins, svo að hann gæti ráðstafað henni í samræmi við ákvæði gjaldþrotalaga.

                Ákærufjárhæð varðandi meint vanskil á virðisaukaskatti grundvallast á leiðréttingarskýrslu skiptastjóra í þrotabúi Fréttablaðsins ehf. Samkvæmt bréfi hans til verjanda ákærða, X, frá 1. febrúar 2006, nemur fjárhæð bakfærðra og afskrifaðra krafna líklega 35.000.000 króna. Að mati dómsins hvíldu þær skyldur á ákærðu, hafi þeir talið að til lækkunar ætti að koma á virðisaukaskatti vegna óinnheimtra krafna, þegar þeir sáu í hvað stefndi hjá félaginu, að senda inn leiðréttingaskýrslu vegna virðisaukaskatts í samræmi við lög nr. 50/1988, enda var það í þeirra þágu að sjá til þess að sú leiðrétting kæmi fram. Það gerðu ákærðu ekki og er því þessi vörn þeirra haldlaus.

                Ákærðu báru sem stjórnarformaður og stjórnarmaður ábyrgð á því að starfsemi og skipulag félagsins væri í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Stoðar það ákærða, X, lítið að bera því við að hann hafi ,,lítið komið að“ fjármálum félagsins þann tíma sem hann sat í stjórn, enda er jafnframt ljóst af framburði hans fyrir dómi að hann honum var vel kunnugt um fjárhagserfiðleika félagsins. Undir ábyrgð stjórnarmanna fellur ábyrgð á því að staðið sé skil á virðisaukaskatti en samkvæmt 1. málslið 3. mgr. sömu greinar skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Þótt ákærðu hafi ekki sjálfir annast gerð virðisaukaskattskýrslna er ábyrgð þeirra engu minni. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að annað en að ákærufjárhæðir eigi við rök að styðjast.  

                Með aðgerðarleysi sínu um að greiða virðisaukaskatt hafa ákærðu af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt 1. mgr. 40 gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að hlutast til um að virðisaukaskattur yrði greiddur. Með háttsemi sinni hafa ákærðu því gerst sekir um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau verður að telja stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varða brot ákærðu því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í ákæru greinir.

                Fjallað er um fangelsisrefsingu sem ákærðu, Eyjólfi og X, er gerð, undir kaflanum samantekt refsinga.

                Inn á virðisaukaskattskuld ákærðu hafa greiðst 1.027.355 krónur eftir eindaga, en þar sem ekki er um verulegan hluta skattfjárhæðar að ræða, sbr. umfjöllun í B kafla ákæru, verður fésektarlágmarki 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 beitt við ákvörðun sektarrefsingar. Samkvæmt gögnum málsins greiddist ekkert álag vegna þessa tímabils, sem unnt er að taka tillit til við ákvörðun fésektar.

                Ákærði, Eyjólfur, verður samhliða refsivist dæmdur til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin með hliðsjón af dómvenju 2.500.000 krónur, sem ákærði greiði innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

                Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Ákærði, X, verður, samhliða skilorðsbundinni refsivist dæmdur til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af dómvenju 2.500.000 krónur, sem ákærði greiði innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju á þessu sviði og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Niðurstaða ákæruliðar II.

                Varðandi meint vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda bendir verjandi ákærða, Eyjólfs á, að engin rannsókn hafi farið fram á því hvort laun hafi verið í skilum eða ekki og engin rannsókn hafi farið fram með samanburði við bókhald og launaseðla.

                Verjandi ákærða, X, bendir á að ákærði X, hafi aldrei verið stjórnarformaður á þeim tíma sem ákæra tekur til og ekkert þeirra vitna sem fyrir dóminn kom hafi borið um að ákærði, X, hafi borið ábyrgð á því hvað greitt væri af skuldum og hvað ekki.

                Ákæruvaldið lagði fram framhaldsákæru sem meðal annars tók til leiðréttingar á þessum ákærulið. Framhaldsákæru var vísað frá dómi. Í þinghaldi 19. september sl., óskaði verjandi ákærða, X eftir því að upplýst yrði af hálfu ákæruvaldsins hvort fallið væri frá saksókn varðandi uppgjörstímabilin júní, júlí, ágúst 2002 og kvað fulltrúi ákæruvalds svo vera. Verður við það miðað í neðangreindum niðurstöðum.

                Samkvæmt yfirliti ríkislögreglustjóra hefur verið tekið tillit til gagna er bárust úr Ábyrgðarsjóði launa varðandi afdregna staðgreiðslu fyrir tímabilin janúar-maí 2002. Það er mat dómsins að ekki verði ráðið af framlögðum gögnum að frekari frádráttur staðgreiðsluskulda ákærðu hafi átt að koma til, en þar greinir. Í ljósi framangreinds er það mat dómsins að ekki sé fram komið með fullnægjandi hætti að ákærufjárhæðir eigi ekki við rök að styðjast.

                Í framburði beggja ákærðu fyrir dómi kom fram að þeir hefðu í fyrstu ekki áttað sig á því að ekki var unnt að standa skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti.

                Vitnið, Svavar Ásbjörnsson, bar fyrir dómi að ákærði, Eyjólfur, hafi ásamt D tekið ákvarðanir um það hvað greitt yrði á hverjum tíma, en vitnið, D, kvaðst ekki geta sagt til um það á hvers herðum var að taka ákvörðun um það. Hann kvað ákærða, Eyjólf, hafa verið sinn yfirmann er hann starfaði á Fréttablaðinu. Vitnið, Z, kvaðst hins vegar telja að það hefði hvílt á herðum Svavars að skila afdreginni staðgreiðslu og virðisaukaskatti.

                Ákærði, X, sat í stjórn félagsins frá 19. september 2000 til 22. nóvember 2002, en þar af var hann formaður stjórnar frá 19. september 2000 til 2. mars 2002.   

                Ákærði, Eyjólfur, sat í stjórn félagsins á sama tímabili, en hann gegndi stöðu formanns stjórnar frá 2. mars 2001.

                Jafnvel þótt ákærðu hafi haft undir sinni umsjón mann eða menn, sem falið var að sinna ákveðnum verkefnum, eins og að sjá um skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts, hvíldi ábyrgð á þeirra herðum á því að starfsemi og skipulag félagsins væri í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Þar undir fellur ábyrgð á því að staðið sé skil á afdreginni staðgreiðslu en samkvæmt 1. málslið 3. mgr. sömu greinar skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Þótt ákærðu hafi ekki sjálfur annast gerð skilagreina eða unnið virðisaukaskattskýrslur er ábyrgð þeirra engu minni og að mati dómsins fram komið að ákærðu var fullkunnugt um fjárhagserfiðleika félagsins, þar á meðal um erfiðleika við standa skil á lögboðnum gjöldum.

                Með aðgerðaleysi sínu um að greiða lögboðin gjöld hafa ákærðu af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda til að hlutast til um að afdregin staðgreiðsla yrði greidd. Með háttsemi sinni hafa ákærðu því gerst sekir um þau brot sem tilgreind eru í þessum ákærulið, en þau verður að telja stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varða brot ákærðu því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í ákæru greinir.

                Um skilorðsbundna fangelsisrefsingu ákærða, X er fjallað í kaflanum um samantekt refsinga.

                Um fangelsisrefsingu ákærða, Eyjólfs, er fjallað í kaflanum um samantekt refsinga.  

                Samkvæmt yfirliti er ákæruvaldið hefur lagt fram, hafa greiðst eftir eindaga inn á staðgreiðsluskuld ákærðu 2.564.262 krónur. Ekki er um svo verulega fjárhæð skattfjárhæðar að vikið verði frá fésektarlágmarki samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 við ákvörðun sektarrefsingar, sbr. umfjöllun í B kafla ákæru. Hins vegar nema álag og vextir 1.255.381 króna, en ekki hefur sundurgreint hversu mikill hluti þeirrar fjárhæðar er álag, sem til frádráttar fésektar getur komið. Því verða ákærðu látnir njóta vafans um það og til frádráttar sektarfjárhæð kemur öll sú fjárhæð sem greidd hefur verið í vexti og álag. Ákærðu verða því hvor um sig, samhliða refsivist, dæmdir til greiðslu sektar, sem þykir með hliðsjón af dómvenju hæfilega ákveðin 8.500.000 króna sem þeir greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Vararefsing ákærðu er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga

Ákærukafli I-ÍP-prentþjónustan ehf.

Málsatvik.

                Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega með því að tilkynning þess efnis var send 25. febrúar 2002 á lögheimili skattaðilans, en tilefni hennar var athugun skattrannsóknarstjóra á skilum félagsins á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti. Rannsóknin byggðist aðallega á upplýsingum frá fyrirsvarsmönnum félagsins og hlutafélagaskrá, staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum skattaðilans, virðisaukaskattskýrslum og tekjubókhaldi ríkissjóðs, en henni lauk með útgáfu skýrslu skattrannsóknarstjóra og strax í kjölfarið var málið sent ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunarheimilda hans. Með bréfi til skattrannsóknarstjóra frá 19. mars 2003 tilkynnti ríkisskattstjóri að hann hygðist ekki endurákvarða skattfjárhæðir í málinu. Í framhaldi af því var málinu vísað til opinberrar rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra. Samkvæmt upplýsingum frá hlutafélagaskrá var skráður tilgangur félagsins á því tímabili sem rannsóknin tók til, að veita alhliða forvinnsluþjónustu fyrir prentiðnaðinn og annar skyldur rekstur.

                Samkvæmt yfirliti er lagt hefur verið fram af hálfu ákæruvaldsins greiddust eftir eindaga inn á þau tímabil sem ákært er fyrir 6.776 krónur vegna virðisaukaskatts.

                Samkvæmt gögnum málsins var ákærði, Ólafur Haukur, framkvæmdastjóri félagsins frá 26. september 2001 til 3. júní 2002, og sat þar að auki í stjórn félagsins frá 8. maí 2002 til 3. júní 2002. Ákærðu, Eyjólfur og X, sátu í stjórn félagsins á sama tímabili, eða frá 4. júlí 2001 til 8. maí 2002.

                Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 3. júní 2002.          

                Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

                Ákærði, X, kvaðst hafa verið stjórnarformaður í félaginu og að afskipti hans af félaginu hafi verið töluverð. Hann kvaðst hafa haldið reglulega stjórnarfundi og fundi með meðákærða, Ólafi Hauki. Þegar Ólafur Haukur hafi tekið við, hafi verið vissir erfiðleikar hjá félaginu og hafi ákærði þurft að leggja til fé með félaginu. Meðákærði, Ólafur Haukur, hafi síðan viljað fá að kaupa félagið ásamt félögum sínum og hafi sent ákærða bréf þar sem sú ósk kom fram. Þar hafi einnig komið fram að það hafi verið til að auðvelda greiðslu á vörslusköttum. Ákærði, Ólafur Haukur, hafi fengið aðstoð við að greiða skuldir, en það hafi ekki gengið og félagið hafi orðið gjaldþrota. Spurður um þau gögn sem liggja fyrir um greiðslur frá Hilmi hf. og fyrirtækinu Eignir, ráðgjöf og rekstur, kvað ákærði að þær greiðslur hafi átt að liðka til við fjármögnun. Þessi fyrirtæki hafi ekki verið viðskiptamenn Ísafoldarprentsmiðju.

                Ákærði kvaðst aldrei hafa tekið ákvörðun um að greiða ekki vörsluskatta.

                Ákærði kvað rekstur félagsins hafa hvílt á herðum sínum fyrst og fremst, en ekki ákærða, Eyjólfs. Hann kvað Eyjólf hins vegar hafa séð um rekstur Fréttablaðsins ehf.

                Ákærði kvaðst hafa ráðið ákærða, Ólaf Hauk, sem framkvæmdastjóra félagsins, en kvaðst áður hafa reynt að fá Ö til starfa sem framkvæmdastjóra. Hann hafi hafnað starfinu, en kvaðst ekki muna hvaða ástæðu hann gaf fyrir því, þótt ekki sé ólíklegt að það hafi verið vegna vangoldinna vörsluskatta. Hann kvaðst gera ráð fyrir því að ákærða, Ólafi Hauki, hafi verið gerð grein fyrir stöðu félagsins er hann var ráðinn.

                Ákærði, Ólafur Haukur Magnússon, kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri félagsins, en ekki verið á launaskrá hjá félaginu, þar sem félagið sé eitt meðal þriggja fyrirtækja sem myndað hafi samstæðu og hafi verið órjúfanleg heild. Hann kvaðst hafa skilað þeim skilagreinum sem eru undirritaðar af honum og sú skýrsla sem undirrituð er af V13, hafi verið útbúin fyrir atbeina ákærða. Hann kvaðst hafa uppgötvað það þegar hann tók við sem framkvæmdastjóri að veruleg vanskil voru og hafi þá greitt inn á kröfur hjá tollstjóra, en kerfið hjá tollstjóra sé þannig að greiðslur fari alltaf upp í elstu kröfur. Hann kvaðst telja að hann hefði greitt nákvæmlega sömu fjárhæð til tollstjóra og hann innheimti. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa greitt á réttum gjalddögum, þar sem fyrirtækið hafi verið í verulegum fjárhagsvandræðum. Ákærði kvað að stjórnarmenn, þeir X og Eyjólfur, hafi vitað að félagið átti í fjárhagsvandræðum og kvað þá Eyjólf og X hafa verið virka sem stjórnarmenn. Hann kvaðst hafa upplýst þá um þessa stöðu félagsins og þegar ákærða var orðið ljóst hvernig ástandið var, hafi hann gert þeim grein fyrir því. Ákærði gat ekki tímasett nákvæmlega hvenær hann gerði þeim grein fyrir því, en taldi það hafa verið áður en hann sendi bréf til ákærða, X, sem dagsett er 12. apríl 2002. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað af þessum skuldum þegar hann tók við sem framkvæmdastjóri. Ákærði kvað stöðuna hafa verið það erfiða að hætta hafi verið á því að fyrirtækið yrði borið út úr húsnæðinu. Á vormánuðum hafi ákærði ákveðið að kaupa fyrirtækið og reyna að ná því í rekstur sem skilaði sér, en stærsti kröfuhafinn, Landsbankinn, hafi ætlað sér að keyra fyrirtækið í þrot og svo hafi farið.

                Ákærði kvað að aldrei hefði verið tekin formleg ákvörðun um að greiða ekki vörsluskatta.

                Ákærði kvað M, fjármálastjóra Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., hafa staðið að ráðningu ákærða, en ákærði, X, hafi gert ráðningarsamning við ákærða. Ákærði kvað að honum hefði ekki verið gerð grein fyrir skuld á vörslusköttum þegar hann tók við starfinu, enda hafi meðákærðu ekki vitað um þá skuld þá, þar sem engar tölulegar upplýsingar hafi verið til um fyrirtækið.

                Ákærði kvað það ekki rétt að hann hafi fengið tiltekið fé til ráðstöfunar er hann keypti fyrirtækið, til þess að gera upp vörsluskattana. Spurður um dómskjal nr. 46, sem er kauptilboð, sem stílað er á X, þar sem fram kemur að ógreiddir vörsluskattar séu 28 milljónir og skuld við lífeyrissjóð starfsmanna sé 30 milljónir, kvað ákærði það rétt að hann hefði greitt til Tollstjóra þessa upphæð og einnig hefði skuld við lífeyrissjóðinn verið gerð upp. Þá kvað ákærði það rétt sem fram kæmi í kröfu um gjaldþrotaskipti að skammtímakröfur næmu þeirri fjárhæð er þar kæmi fram og virðisaukaskattur af þeirri fjárhæð hafi allur verið útskattaður.

                Vitnið, Ö kvaðst hafa hætt sem framkvæmdastjóri Ísafoldarprentsmiðju í október eða nóvember 2000. Það hafi verið falast eftir honum aftur ári seinna í framkvæmdastjórastöðuna hjá ÍP-prentþjónustu ehf., en hann ekki viljað taka það að sér. Hann kvaðst hafa sett það sem skilyrði fyrir ráðningu sinni að vörsluskattar ,,eða annað slíkt “ sem ógreitt væri, yrði gerð upp.

                Niðurstaða ákæruliðar I.

                Af hálfu verjanda ákærða, Eyjólfs hefur því verið haldið fram að ekkert í málinu bendi til þess að ákærði, Eyjólfur hafi haft nokkur afskipti af bókhalds- fjárhags- eða skattamálum félagsins. Ákærði, Ólafur Haukur, hafi einn haft prókúruumboð fyrir félagið.

                Þá bendir verjandi ákærða á að engin rannsókn hafi farið fram á því hvort virðisaukaskattur hafi í reynd verið innheimtur eða hvort hann var enn útistandandi.  

                Þá liggi fyrir að umtalsverðir fjármunir hafi verið greiddir á tímabilinu frá því að vanskil þau sem ákært er fyrir, byrjuðu að myndast 17. desember 2001. 

                Af hálfu verjanda ákærða, Ólafs Hauks, er því haldið fram að fyrirtækin þrjú, Flatey bókbandsstofa ehf., Ísafoldarprentsmiðja ehf., og ÍP prentþjónustan ehf., hafi öll verið rekin saman. Ákærði kveður að honum hafi ekki verið gerð grein fyrir hinni erfiðu stöðu fyrirtækjanna eða vanskila á vörsluskatti þegar hann var ráðinn. Stjórnarmenn hafi hins vegar vitað eða hlotið að vita um stöðuna og skuldir á vörslusköttum. Ákærði bendir á að þegar félagið hafi farið í gjaldþrot hafi útistandandi viðskiptakröfur numið um 90 milljón krónum, sem aldrei hafi innheimst og virðisaukaskattur af þeirri fjárhæð sé um 18 milljónir króna, en ákærði hafi aldrei haft vörslur þeirra fjármuna. 

                Verjandi ákærða, X, bendir á að félagið hafi ráðið framkvæmdastjóra sem sjálfur hafi annast skilagreinar. Ákærði hafi verið í góðri trú með að verið væri að tryggja fullnustu á greiðslu vörsluskatta, í ljósi þess sem fram komi í kauptilboði ákærða, Ólafs Hauks, sbr. dskj. nr. 46.

                Þá bendir verjandi ákærða á, að félagið hafi átt mjög mikið af útistandandi kröfum þegar það varð gjaldþrota, en viðhlítandi rannsókn á því hafi ekki farið fram af hálfu ákæruvalds.

                Ákærðu, X og Eyjólfur, sátu í stjórn félagsins frá 4. júlí 2001 til 8. maí 2002 og ákærði, Ólafur Haukur var framkvæmdastjóri félagsins frá 26. september 2001 til 3. júní 2002, og sat þar að auki í stjórn félagsins frá 8. maí 2002 til 3. júní 2002.

                Samkvæmt framburði ákærða, X, glímdi fyrirtækið við mikla fjárhagserfiðleika og kvaðst ákærði hafa þurft að leggja til fé með því og kvað rekstur félagsins hafa hvílt á sínum herðum. Hann kvaðst gera ráð fyrir því að ákærða, Ólafi Hauki, hafi verið gerð grein fyrir erfiðri stöðu félagsins, er ákærði, Ólafur  Haukur, var ráðinn framkvæmdastjóri. Í framburði vitnisins Ö kom fram að hann hafi ekki viljað taka að sér framkvæmdastjórastarf í félaginu nema gerð yrðu upp vangreidd afdregin staðgreiðsla og virðisaukaskattur.

                Ákærði, Ólafur Haukur, var framkvæmdastjóri félagsins. Hann kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir er hann tók við framkvæmdastjórastarfi hversu staða félagsins væri alvarleg, en síðar, er honum hafi orðið það ljóst, hafi hann upplýst meðákærðu, Eyjólf og X um stöðu félagsins, þótt hann gæti ekki gert sér grein fyrir því að hvaða tímamarki það var. Sú vörn hans að hann hafi reynt að stýra því að greiðslum yrði ráðstafað inn á þau tímabil sem hann bar ábyrgð á, er haldlaus, enda liggur ekkert fyrir í málinu um það annað en framburður hans auk þess sem telja má það leiða af eðli máls og í samræmi við lög að skattgreiðslur gangi fyrst upp í eldri skuldir, sbr. m.a. hæstaréttardóm frá 22. júní 2000 í máli nr. 49/2000.

                Eins og að framan greinir sátu þeir Eyjólfur og X í stjórn félagsins þann tíma sem ákæruliður þessi tekur til og ákærði, Ólafur Haukur var framkvæmdastjóri félagsins. Að mati dómsins höfðu þeir allir vitneskju um hversu mikla fjárhagserfiðleika glímdi við á þeim tíma er ákærutímabil tekur til, og hlaut að vera ljóst að félagið stóð ekki skil á virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu á því tímabili.

                Þeir báru allir ábyrgð á því að starfsemi og skipulag félagsins væri í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Þar undir fellur ábyrgð á því að staðið sé skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti en skv. 1. málslið 3. mgr. sömu greinar skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. 

                Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að sú staðhæfing ákærða, Ólafs Hauks, eigi við rök að styðjast, að útistandandi viðskiptakröfur hafi numið um 90.000.000 króna og að þær hafi ekki innheimst. Hafi ákærðu talið að til lækkunar ætti að koma á virðisaukaskatti vegna óinnheimtra krafna, hvíldi sú skylda á ákærðu, þegar þeir sáu í hvað stefndi hjá félaginu, að senda inn leiðréttingaskýrslu vegna virðisaukaskatts í samræmi við lög nr. 50/1988, enda var það í þeirra þágu að sjá til þess að sú leiðrétting kæmi fram. Það gerðu ákærðu ekki og er því þessi vörn þeirra haldlaus.

                Með aðgerðarleysi sínu um að greiða lögboðin gjöld hafa ákærðu af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 til að hlutast til um að virðisaukaskattur yrði greiddur. Með háttsemi sinni hafa ákærðu því gerst sekir um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau verður að telja stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varða brot ákærða því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í ákæru greinir.

                Inn á virðisaukaskattskuld greiddust 6.776 krónur eftir eindaga og breytir það engu um ákvörðun sektarrefsingar.

                Um fangelsisrefsingu sem ákærða, Eyjólfi, verður gerð, er fjallað í kaflanum um samantekt refsinga.

                Ákærði, Eyjólfur, verður, með vísan til 2. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 samhliða refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem þykir með hliðsjón af dómvenju hæfilega ákveðin 1.800.000 krónur sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga

                Um fangelsisrefsingu sem ákærða, X, verður gerð, er fjallað í kaflanum um samantekt refsinga.

                Ákærði, X, verður, með vísan til 2. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem þykir, með hliðsjón af dómvenju hæfilega ákveðin 1.800.000 krónur sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Um fangelsisrefsingu sem ákærða, Ólafi Hauki, verður gerð er fjallað í kaflanum um samantekt refsinga.

                Ákærði, Ólafur Haukur, verður, með vísan til 2. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdur til greiðslu sektar sem þykir, með hliðsjón af dómvenju. hæfilega ákveðin 1.800.000 krónur sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

Niðurstaða ákæruliðar II.

                Verjendur ákærðu hafa bent á að engin rannsókn hafi farið fram á efnisatriðum ákæru, þ.e hvort laun hafi verið í skilum eða ekki. 

                Í skjölum málsins er frumvarp til úthlutunar í þrotabú ÍP prentþjónustunnar ehf. Þar á meðal voru launakröfur að fjárhæð 9.486.757 krónur, en ekkert er að finna í skjölum málsins sem gefur vísbendingar um að hve miklu leyti laun þessi eru vegna þeirra tímabila sem ákært er fyrir. Það er álit dómsins að ákærðu geti ekki borið fyrir sig vörn af þessu tagi, án þess að sýna fram á það með óyggjandi hætti að laun vegna þeirra tímabila sem ákært er fyrir hafi verið í vanskilum. Það hafa þeir ekki gert og stoðar þessi vörn þeirra því ekki.

                Með aðgerðaleysi sínu um að greiða lögboðin gjöld hafa ákærðu af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda til að hlutast til um að afdregin staðgreiðsla yrði greidd. Með háttsemi sinni hafa ákærðu því gerst sekir um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, þó þannig að ákærðu Eyjólfi og X verður ekki gert að sæta refsiábyrgð vegna aprílmánaðar 2002, þar sem þeir hættu í stjórn félagsins 8. maí 2002.

                Brot ákærðu verður að telja stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varða brot ákærða því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í ákæru greinir.

                Eftir eindaga greiddist ekkert inn á staðgreiðsluskuld ákærðu.

                Um fangelsisrefsingu sem ákærða, Eyjólfi verður gerð, er fjallað í kaflanum um samantekt refsinga.

                Ákærði verður með vísan til 2. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, samhliða refsivist dæmdur til greiðslu sektar, sem er með hliðsjón af dómvenju hæfilega ákveðin 2.500.000 krónur, sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Um fangelsisrefsingu sem ákærða, X, verður gerð er fjallað í kaflanum um samantekt refsinga.

                Ákærði verður með vísan til 2. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, samhliða skilorðsbundinni refsivist dæmdur til greiðslu sektar, sem þykir með hliðsjón af dómvenju hæfilega ákveðin að fjárhæð 2.500.000 krónur, sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

                Um fangelsisrefsingu sem ákærða, Ólafi Hauki verður gerð, er fjallað í kaflanum um samantekt refsinga.

                Ákærði verður með vísan til 2. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, samhliða skilorðsbundinni refsivist dæmdur til greiðslu sektar, sem þykir með hliðsjón af dómvenju hæfilega ákveðin 3.700.000 krónur, sem ákærði greiði í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af dómvenju og um hana fjallað í sérstökum kafla um samantekt refsinga.

Samantekt refsinga og ákvörðun málsvarnarlauna verjenda ákærðu.

                Við ákvörðun refsingar ákærða, Eyjólfs, hefur verið litið til þess að hann hefur aldrei gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Jafnframt er litið til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir mörg brot, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga og brotaandlag nemur verulegum fjárhæðum. Hann hefur verið sakfelldur samkvæmt ákæruköflum A, B, D, F, G, H og I.

                Vegna alvarleika brots ákærða samkvæmt ákærukafla A og fjölda og umfangs brota ákærða samkvæmt öðrum ákæruköflum, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 15 mánaða fangelsi, sem rétt þykir að skilorðsbinda eins og nánar greinir í dómsorði.

                Samanlögð fésektarrefsing ákærða samkvæmt þeim ákæruköflum nemur 67.150.000 krónum sem ákærða ber að greiða í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en ella sæti ákærði fangelsi í 12 mánuði. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af 54. gr. almennra hegningarlaga.

                Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Halldórs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 4.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ákærði, Svavar, hlaut dóm 29. júní 2004, 100.000 króna sekt fyrir brot á 73. gr. tékkalaga nr. 94/1933. Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu er framið fyrir uppkvaðningu fyrrgreinds dóms og ber því að ákvarða refsingu með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði átti engan hlut í þeim félögum sem högnuðust á brotinu, framkvæmdi millifærslur að fyrirmælum ákærða, Eyjólfs og á ekki slíkan sakarferil að baki að hafi áhrif á ákvörðun refsingar.

                Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 6 mánuði, sem rétt þykir að skilorðsbinda eins og nánar greinir í dómsorði.

                Ákærði greiði sakarkostnað málsins, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Við ákvörðun refsingar ákærða, X, hefur verið litið til þess að hann hefur aldrei gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Jafnframt er litið til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir mörg brot, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga og brotaandlag nemur verulegum fjárhæðum. Hann hefur verið sakfelldur samkvæmt ákæruköflum B, H og I. Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í 6 mánuði, sem rétt þykir að skilorðsbinda eins og nánar greinir í dómsorði. Samanlögð fésektarrefsing ákærða samkvæmt þeim ákæruköflum nemur 15.350.000 krónum, sem ákærða ber að greiða í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en ella sæti ákærði fangelsi í 6 mánuði. Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnars H. Hall hæstaréttarlögmanns 1.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Við ákvörðun refsingar ákærða, Þ, hefur verið litið til þess að hann hefur aldrei gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Jafnframt er litið til þess að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir mörg brot, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga og brotaandlag nemur verulegum fjárhæðum. Hann hefur verið sakfelldur samkvæmt ákæruköflum C, D og E. Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í 10 mánuði sem rétt þykir að skilorðsbinda eins og nánar greinir í dómsorði. Samanlögð fésektarrefsing ákærða samkvæmt þeim ákæruköflum nemur 68.900.000 krónur, sem ákærða ber að greiða í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en ella sæti ákærði fangelsi í 12 mánuði. Vararefsing ákærða er ákveðin með hliðsjón af 54. gr. almennra hegningarlaga.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs verjanda ákærða á rannsóknarstigi, Sveins Skúlasonar héraðsdómslögmanns, 111.677 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Við ákvörðun refsingar ákærða, Ólafs Hauks, hefur verið litið til þess að hann hefur aldrei gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Hann hefur verið sakfelldur samkvæmt ákærukafla I. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 4 mánuði sem rétt þykir að skilorðsbinda eins og nánar greinir í dómsorði. Fésektarrefsing ákærða nemur 5.500.000 krónum, sem ákærða ber að greiða í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en ella sæti ákærði fangelsi í 3 mánuði.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Við ákvörðun refsingar, ákærða Z, hefur verið litið til þess að hann hefur aldrei gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Hann hefur verið sakfelldur samkvæmt ákærukafla C. Er refsing hans ákveðin fangelsi í 4 mánuði, sem rétt þykir að skilorðsbinda eins og nánar greinir í dómsorði. Fésektarrefsing ákærða nemur 6.000.000 krónum, sem ákærða ber að greiða í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en ella sæti ákærði fangelsi í 2 mánuði.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnars Baldurssonar héraðsdómslögmanns, 1.000.000 króna að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ákæru á hendur G, hefur verið vísað frá dómi.

                Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Erlendar Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

                Ákærði, Y er sýkn af kröfum ákæruvaldsins og greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 1.000.000 króna að meðtöldum virðisaukaskatti úr ríkissjóði

                Ákærði, F er sýkn af kröfum ákæruvaldsins og greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti úr ríkissjóði.

                Ákærði, C er sýkn af kröfum ákæruvaldsins og greiðast málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Einars Hálfdánarsonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti úr ríkissjóði.

                Af gögnum málsins verður ekki ráðið að um annan sakarkostnað en málsvarnarlaun skipaðra verjenda sé að ræða í máli þessu.

                Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Símoni Sigvaldasyni héraðsdómara og Ólafi B. Kristinssyni löggiltum endurskoðanda.

Dómsorð:

                Ákærði, Eyjólfur Sveinsson, sæti fangelsi í 15 mánuði, en frestað er fullnustu 12 mánaða refsivistar ákærða og falli sá hluti refsingarinnar niður, að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði, Svavar Ásbjörnsson sæti fangelsi í 6 mánuði.

                Ákærði, X sæti fangelsi í 6 mánuði.

                Ákærði, Þ sæti fangelsi í 10 mánuði.

                Ákærði Z sæti fangelsi í 4 mánuði.

                Ákærði, Ólafur Haukur Magnússon sæti fangelsi í 4 mánuði.

                Frestað er fullnustu refsingar þessara ákærðu og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4.gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærðu, Y, C og F,  eru sýknaðir af kröfu ákæruvaldsins.

                Ákærukafla C II er vísað frá dómi.

                Ákærði, Eyjólfur, greiði í ríkissjóð 67.150.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 12 mánuði.

                Ákærði, X, greiði í ríkissjóð 15.350.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 6 mánuði.

                Ákærði, Þ, greiði í ríkissjóð 68.900.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa sæti ella fangelsi í 12 mánuði.

                Ákærði, Z, greiði í ríkissjóð 6.000.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 2 mánuði.

                Ákærði, Ólafur Haukur, greiði í ríkissjóð 5.500.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 3 mánuði.

                Ákærði, Eyjólfur, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Halldórs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 4.500.000 krónur.

                Ákærði, Svavar, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 1.000.000 króna.

                Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnars H. Hall hæstaréttarlögmanns, 1.500.000 krónur.

                Ákærði, Þ, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar, hæstaréttarlögmanns, 1.200.000 krónur og þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Sveins Skúlasonar héraðsdómslögmanns, 111.677 krónur.

                Ákærði, Z, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnars Baldurssonar héraðsdómslögmanns, 1.000.000 króna.

                Ákærði, Ólafur Haukur greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, 1.000.000 króna.

                Málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu, Y, C, F og G, greiðast úr ríkissjóði sem hér segir:

                Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 1.000.000 króna, Einars Hálfdánarsonar hæstaréttarlögmanns 800.000 krónur, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur og Erlendar Gíslasonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur.