Hæstiréttur íslands
Mál nr. 499/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 20. september 2006. |
|
Nr. 499/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. september 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 27. október 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Að því frágengnu er þess krafist að hann verði vistaður á sjúkrahúsi með vísan til 110. gr. laga nr. 19/1991.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt.], óstaðsettur í hús í Kópavogi, verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi, uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 27. október 2006 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í gær kl. 13:10 á Urðarstíg í Reykjavík á bifreiðinni [...], en bifreiðin hafði verið tilkynnt stolin hjá lögreglunni í Keflavík miðvikudaginn 13. september (mnr. 034-2006-9730). Kærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar en hann hafi verið sviptur ökuréttindum í 3 ár þann 29. apríl sl (mnr. 010-2006-45728). Í bifreiðinni hafi fundist ýmsir munir sem lögregla hafi unnið að sl. sólarhring að finna stað.
Mnr. 036-2006-9236 Í bifreiðinni hafi fundist fartölva og tékki sem stolið hafi verið í innbroti í íbúðarhúsnæði að [...] í Hafnarfirði þann 25. júlí sl.
Mnr. 010-2006-48758 Í bifreiðinni hafi fundist pappírar og greiðslukort á nafni A. Til rannsóknar hjá lögreglu sé mál er varðar tilraun til fjársvika í versluninni Bang og Olufsen að verðmæti kr. 678.000 þar sem reynt hafi verið að svíkja út vörur á nafni A. Þetta hafi átt sér stað í gær 14. september.
Kærði eigi fleiri mál sem séu til rannsóknar hjá lögreglu:
Mnr. 037-2006-8294 Stolið kortaveski inni á starfsmannasvæði veitingarstaðarins TGI Fridays í Smáralind miðvikuaginn 6. september sem innihélt ýmis skilríki og greiðslukort. Í kjölfarið hafi kortin verið notuð í verslununum í Smáralind, Hamraborg og Laugavegi. Samtals hafi verið svikin út vara og þjónusta að andvirði kr. 120.000. Lögregla hafi borið kennsl á kærða af myndum úr eftirlitskerfi.
Mnr. 010-2006-40840 Stolið símaskafkortum að andvirði kr. 421.000 af bensínafgreiðslustöð Olís við Sæbraut mánudaginn 20. ágúst sl. Kærði hafi viðurkennt að hann hafi verið á staðnum, og á honum hafi fundist kort.
Mnr. 010-2006-41700 Fjársvik, með því að hafa tekið á leigu 5 tæki, að andvirði kr. 1.419.000, í tækjaleigu Húsasmiðjunnar 5. júlí sl. og slegið eign sinni á þau.
Mnr. 010-2006-21056 Vörslur á 1,62 g af amfetamíni þann 8. maí 2006.
Mnr. 010-2006-19635 Þjófnaður á fartölvu að andvirði kr. 300.000 laugardaginn 29. apríl 2006. Fingraför kærða hafi fundist á vettvangi auk þess sem símanúmer hans hafi verið rakið í síma brotaþola en honum hafi borist símtal þar. Tölvan hafi verið boðin aftur til (sic) gegn greiðslu.
Mnr. 010-2006-12505 Fjársvik að andvirði kr. 738.394 þar sem sviknar hafi verið út vörur í Húsasmiðjunni hf.
Mnr. 010-2006-11521 Þjófnaður á 30 kartonum af sígarettum laugardaginn 11. mars að verðmæti kr. 163.860. Myndir séu til af kærða úr öryggismyndavélum.
Mnr. 010-2006-11795 Þjófnaðar á kr. 341.655 í reiðufé. Myndir sem svipi til X úr öryggismyndavélum.
Kærði neiti sök í öllum ofangreindum málum.
Kærði hafi langan sakarferil og nái sakarferill hans aftur til ársins 1982. Hann hafi undanfarin ár verið í mikilli brotastarfsemi. Margsinnis afplánað refsidóma en ávallt hafið brotastarfsemi aftur. Þann 18. október 2005 hafi kærði hlotið reynslulausn á 900 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar. Öll þau brot sem að framan séu reifuð séu framin eftir að honum hafi verið veitt reynslulausn og því um rof á skilorði að ræða. Lögreglan telji ljóst að kærði hafi hafið brotastarfsemi að nýju og telji yfirgnæfandi líkur á, með vísan til ferils kærða og hegðunar undanfarna mánuði, að fari hann frjáls ferða sinna muni hann halda brotastarfseminni áfram. Mikilvægt sé að orðið verði við kröfu lögreglunnar til þess að kærða verði ókleyft að halda brotahrinunni áfram, svo að lögreglu gefist ráðrúm til að ljúka rannsókn ofangreindra mála og unnt verði að ljúka meðferð mála hans fyrir dómi.
Kærði sé grunaður um brot gegn 244. gr., 248. gr., 254. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga, brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og umferðarlögum. Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19/1991, er þess krafist að krafan verði tekin til greina eins og hún er fram sett.
Fyrir liggur að kærði á að baki langan sakarferil. Hann liggur nú undir rökstuddum grun um að hafa framið fjölmörg brot á síðustu dögum og mánuðum sem eru til rannsóknar hjá lögreglu og geta varðað fangelsisrefsingu. Þá má ætla að kærði muni halda áfram brotum á meðan málum hans er ekki lokið, fari hann frjáls ferða sinna. Með vísan til þessa svo og til rannsóknargagna málsins verður krafa lögreglustjóra tekin til greina eins og hún er fram sett sbr. c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma með vísan til umfangs málsins. Þá þykja ekki efni til að taka til greina þrautavarakröfu um vistun á sjúkrahúsi.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi, uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 27. október 2006 kl. 16:00.