Hæstiréttur íslands

Mál nr. 563/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 20

 

Föstudaginn 20. desember 2002.

Nr. 563/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðmundur Ó. Björgvinsson hdl.)

 

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2002. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 31. janúar 2003. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Fallist verður á með héraðsdómara að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að taka til greina kröfu sóknaraðila um  gæsluvarðhald yfir varnaraðila. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2002.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að ákærða, X, kt. [...], með lögheimili að [...], Reykjavík, nú gæsluvarðhaldsfanga Fangelsinu Litla-Hrauni, verði á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til föstudagsins 31. janúar næstkomandi kl. 16. 

Í kröfunni kemur fram að ríkissaksóknari hafi ákært ofangreindan mann 18. nóvember síðastliðinn fyrir líkamsárás með hnífi þar sem maður hlaut djúpt stungusár í brjóstvegg, 12 sm langan skurð á vinstri kinn sem náði niður að vöðvalögum, skurð á hægra eyra og skurð á hægri framhandlegg. Atvikið átti sér stað á Laugarvegi við Vatnsstíg aðfaranótt laugardagsins 24. ágústs síðastliðins. Eftir lýsingum vitna var ákærði handtekinn á skemmtistað í miðborginni ásamt öðrum manni tæpri klukkustund eftir að árásin átti sér stað. Hann neitar sök og kveðst hafa reynt að draga vin sinn úr átökum á Laugavegi umrædda nótt. Blóð var á fatnaði ákærða, jakka, bol, buxum og ennisbandi, sem samkvæmt niðurstöðu DNA-rannsóknar er úr árásarþola. Tveir menn, sem hafa verið yfirheyrðir í tengslum við árásina, bera um að ákærði hafi átt í átökum við mann við gatnamót Laugavegar og Vatnsstígs sem endað hafi með því að sá síðarnefndi hafi fallið í jörðina með blóðuga áverka. Annar þessara manna vísaði lögreglu á hnífsblað sem hann segir ákærða hafa hent frá sér eftir verknaðinn. Við myndsakbendingu hafa tvö önnur vitni borið kennsl á ákærða sem árásarmanninn. Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 24. ágúst síðastiðnum vegna máls þessa, síðast samkvæmt úrskurði dómsins frá 8. nóvember síðastliðnum. Málið var þingfest 4. þessa mánaðar og aðalmeðferð ákveðin 8. janúar 2003.

Samkvæmt gögnum  málsins er sterkur grunur um að ákærði hafi framið alvarlegt brot þar sem beitt var lífshættulegu vopni. Getur brotið varðað allt að 16 ára fangelsi samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 teljist sök sönnuð. Er það þess eðlis að telja verður nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að ákærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á kröfu ríkissaksóknara eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 31. janúar 2003 kl. 16.