Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-304
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Réttindaröð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 23. desember 2020 leitar Umhverfisstofnun leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 17. sama mánaðar í málinu nr. 598/2020: Umhverfisstofnun gegn þrotabúi WOW air hf., á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði að krafa hans um skil á nánar tilgreindum fjölda heimilda vegna losunar koldíoxíðs, sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti gagnaðila, njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 og að gagnaðila verði gert að skila honum sama fjölda heimilda „í skráningarkerfi ETS með losunarheimildir.“ Óumdeilt er að eftir töku WOW air hf. til gjaldþrotaskipta 28. mars 2019 seldi þrotabúið allar losunarheimildir sem því tilheyrðu. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Í úrskurði Landsréttar var vísað til þess að þrátt fyrir að þrotabúið hefði þegar selt losunarheimildirnar hefði leyfisbeiðandi kosið að haga kröfugerð sinni á þann hátt að krefja gagnaðila um skil á heimildunum en ekki söluandvirði þeirra. Ágreiningnum yrði því ekki ráðið til lykta á grundvelli 2. mgr. 109. gr. laganna heldur 1. mgr. sama lagaákvæðis. Gengi úrskurður um kröfu leyfisbeiðanda á þeim grunni yrði komist að niðurstöðu sem ekki væri unnt að fullnægja samkvæmt efni sínu.
Leyfisbeiðandi reisir leyfisbeiðni sína á því að málið lúti að mikilsverðum almannahagsmunum og hafi fordæmisgildi um það hver afdrif losunarheimilda verði við gjaldþrot en á sambærileg álitaefni kunni að reyna í framtíðinni. Við gjaldþrot WOW air hf. hafi gagnaðili tekið við öllum réttindum og skyldum þess í viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS-kerfinu) þar með talinni lögbundinni skilaskyldu á losunarheimildum. Kerfið sé meginstjórntæki EES-ríkja á sviði loftslagsmála og sé ætlað að mynda hagrænan hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á svæðinu. Mikilvægt sé að heimildunum sé skilað til að tryggja virkni kerfisins. Leyfisbeiðandi telur ákvæði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 ekki gera kröfu um að nákvæmlega sömu eign eða réttindum og kröfuhafi hafi átt tilkall til sé skilað heldur nægi að afhenda sams konar eign eða réttindi. Losunarheimildir séu réttindi sem skráð séu í rafrænt kerfi og um úthlutun þeirra, kaup og sölu og uppgjör í kerfinu gildi nánar tilgreind lög og reglugerðir. Gagnaðili geti fullnægt skyldu sinni með því að kaupa aftur heimildir á markaði og skila þeim inn í skráningarkerfið rétt eins og mögulegt væri fyrir hann að afhenda peningagreiðslu úr búinu. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.
Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.