Hæstiréttur íslands
Mál nr. 361/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Úthlutun söluverðs
- Haldsréttur
|
|
Þriðjudaginn 14. september 2004. |
|
Nr. 361/2004. |
Krókur dráttarbílar ehf. (Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn SP Fjármögnun hf. (enginn) Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og(enginn) Ingu Ernu Þórarinsdóttur(enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala. Úthlutun söluverðs. Haldsréttur.
K ehf. taldi sig eiga haldsrétt í bifreið sem það hafði geymt fyrir eiganda hennar. Tekið var fram að ágreiningslaust væri að félagið hefði borið að varðveita bifreiðina fyrir eigandann gegn gjaldi og stuðla þar með að því að hún héldi gildi sínu. Var því fallist á að K ehf. hefði öðlast haldsrétt í bifreiðinni fyrir nauðsynlegum kostnaði sem af þessu leiddi en ósannað þótti að félagið hefði geymt bifreiðina lengur en um var samið.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. apríl 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2004 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um úthlutun af uppboðsandvirði bifreiðarinnar OZ 414, sem seld var nauðungarsölu 6. desember 2003. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að kærðum úrskurði verði hrundið og úr gildi felld ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 3. febrúar 2004 um breytingu á frumvarpi að úthlutun söluandvirðis bifreiðarinnar frá 5. janúar 2004 og lagt fyrir sýslumann að leggja frumvarpið óbreytt til grundvallar úthlutuninni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðila var veitt kæruleyfi fyrir Hæstarétti en hagsmunir hans af niðurstöðu málsins ná ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og henni var breytt með 6. gr. laga nr. 38/1994, sbr. og 4. mgr. 150. gr. sömu laga.
Í héraðsdómi er frá því greint að bifreiðin OZ 414 hafi verið seld nauðungarsölu 6. desember 2003 að kröfu varnaraðila Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Söluverðið hafi numið 800.000 krónum. Sóknaraðili hafi lýst í söluandvirðið reikningskröfu vegna geymslugjalds og flutnings bifreiðarinnar á geymslu- og síðan uppboðsstað. Reikningur sóknaraðila frá 2. desember 2003 sé sundurliðaður svo, að 8.399 krónur séu vegna flutningsins en geymsla í 411 daga sé verðlögð á 328.795 krónur.
Samkvæmt frumvarpi að úthlutun 5. janúar 2004 skyldi greiða kröfu sóknaraðila að fullu. Varnaraðilar, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og SP Fjármögnun hf., mótmæltu þeirri úthlutun. Féllst sýslumaður á mótmæli þeirra að því er varðaði geymslukröfuna og lækkaði því úthlutun til sóknaraðila sem því nam. Var ágreiningi aðila skotið til héraðsdóms sem staðfesti ákvörðun sýslumanns. Vísaði héraðsdómari til dóms Hæstaréttar 23. janúar 2002 í máli nr. 6/2002 og taldi að geymslugjald sem ekki stæði í sambandi við viðgerð nyti ekki haldsréttar í geymdum munum. Hann hafnaði því kröfum sóknaraðila sem viðurkennir að verðmætaaukning hafi ekki orðið við geymslu hans á bifreiðinni en telur sig hins vegar hafa komið í veg fyrir að verðmæti hennar rýrnaði. Sóknaraðili unir ekki niðurstöðu héraðsdóms og hefur skotið úrskurði dómsins til Hæstaréttar.
Á það verður ekki fallist að atvik máls þess, er héraðsdómur vitnar til og leggur til grundvallar niðurstöðu sinni, séu með þeim hætti að hafi fordæmisgildi í máli því sem hér er til meðferðar. Ágreiningslaust er að sóknaraðila bar að varðveita bifreiðina fyrir eiganda hennar gegn gjaldi og stuðla þar með að því að hún héldi gildi sínu. Er því fallist á að hann hafi öðlast haldsrétt í bifreiðinni fyrir nauðsynlegum kostnaði, sem af þessu leiddi, og að honum hafi verið heimilt að leita fullnustu kröfu sinnar með því að selja hana nauðungarsölu, sbr. 6. tl. 6. gr. laga nr. 90/1991. Gengur slík krafa framar rétti varnaraðila í máli þessu. Ósannað er að sóknaraðili hafi geymt bifreiðina lengur en um var samið. Ber því með framangreindum rökum að taka kröfu hans til greina.
Staðfest er málskostnaðarákvæði héraðsdóms.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 3. febrúar 2004 um að breyta frumvarpi 5. janúar 2004 að úthlutun uppboðsandvirðis bifreiðarinnar OZ 414 er felld úr gildi. Ber sýslumanni að leggja frumvarpið til grundvallar úthlutun til sóknaraðila.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2004.
Máli þessu var skotið til dómsins með bréfi sóknaraðila, Króks dráttarbíla ehf., kt. [...], Skeljabrekku 4, Kópavogi, dagsettu 10. febrúar 2004. Varnaraðilar eru SP-Fjármögnun hf., kt. [...], Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, kt. [...], og Inga Erna Þórarinsdóttir, kt. [...]. Málið var tekið til úrskurðar 19. mars sl.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík þann 3. febrúar 2004 að breyta frumvarpi að úthlutun söluandvirðis bifreiðarinnar OZ-414 frá 5. janúar 2004 og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja frumvarpið óbreytt til grundvallar úthlutun söluandvirðis. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðilanna, SP-Fjármögnunar hf. og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis.
Varnaraðili, SP-Fjármögnun hf., krefst þess að sú ákvörðun sýslumanns að breyta frumvarpinu verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðilar, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og Inga Erna Þórarinsdóttir, hafa ekki sótt þing í málinu.
Bifreiðin OZ-414 var seld nauðungarsölu 6. desember 2003 að kröfu varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. Söluverð var 800.000 krónur. Við söluna lýsti sóknaraðili kröfu í söluandvirðið vegna geymslugjalds og flutnings bifreiðarinnar á uppboðsstað. Var lagður fram reikningur þess efnis.
Frumvarp að úthlutun var lagt fram 5. janúar 2004. Samkvæmt því skyldi greiða sölulaun í ríkissjóð og haldsréttarkröfu Vöku hf. Síðan skyldi greiða kröfu sóknaraðila með kr. 337.195 og kröfu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis með kr. 416.878. Var söluverðið þar með uppurið.
Varnaraðilar, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis og SP-Fjármögnun hf., mótmæltu því að úthlutað yrði til sóknaraðila. Féllst sýslumaður á mótmæli þeirra og ákvað 3. febrúar 2004 að lækka úthlutun til sóknaraðila í 8.399 krónur. Lýsti sóknaraðili því þá yfir að hann skyti þessari ákvörðun til héraðsdóms. Ekki kemur fram í bókun hvernig úthlutun skiptist að öðru leyti, en bersýnilegt er af skjölum málsins að þessi lækkun á úthlutun til sóknaraðila kemur ekki öðrum til góða en áðurgreindum varnaraðilum.
Krafa sóknaraðila er sundurliðuð í reikningi sem dagsettur er 2. desember 2003 og var afhentur sýslumanni 4. desember. Þar er tilgreindur flutningur bílsins til geymslu hjá sóknaraðila þann 17. október 2002 og flutningur á uppboðsstað 2. desember 2003, hvort viðvik skráð sem 1 stund fyrir kr. 4.199,95. Þá er geymsla í 411 daga færð á kr. 328.794,74. Það er um þennan síðari lið sem ágreiningur stendur.
Sóknaraðili kveðst reka viðurkennt fyrirtæki er aðstoði lögreglu og tryggingafélög við að fjarlægja og geyma ökutæki. Þá eigi fyrirtækið sérstakt geymsluhúsnæði. Geymsla bifreiðarinnar OZ-414 hafi verið liður í reglulegri starfsemi hans. Sóknaraðili hafi tekið bifreiðina til geymslu að beiðni eiganda hennar og haft af því kostnað. Það sé kostnaður af því að geyma bifreiðina í vöktuðu og upphituðu húsnæði. Bifreiðin hafi verið ógangfær og í reiðileysi er hún var tekin. Eigandi hennar hafi verið á förum til útlanda og því hafi verið hætta á að bifreiðinni eða hlutum úr henni yrði stolið.
Sóknaraðila hafi verið skylt að varðveita bifreiðina og tryggja þannig verðmæti hennar þrátt fyrir að geymslugjald fengist ekki greitt. Bifreiðin hafi verið í geymslu til að viðhalda verðmæti hennar og forða henni frá skemmdum.
Sóknaraðili segir að það sé óskráð regla í íslenskum rétti að vörslumaður verðmæta öðlist haldsrétt í þeim fyrir þeim kostnaði sem af geymslu hlýst. Þetta megi m.a. leiða af 6. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þá vitnar sóknaraðili til grunnreglu 3. mgr. 200. gr. siglingalaga nr. 34/1985.
Sóknaraðili telur að 1. mgr. 60. gr. laga nr. 90/1991 viðurkenni haldsrétt við nauðungarsölu. Þá segir hann að fyrir því sé áratuga löng hefð að kröfur vegna geymslukostnaðar á uppboðsstað og vegna viðgerða á lausafé gangi framar veðkröfum við úthlutun söluandvirðis hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Loks mótmælir sóknaraðili því að gjaldskrá sín sé óeðlilega há.
Varnaraðili, SP-fjármögnun hf., telur að krafa sóknaraðila sé ekki haldsréttarkrafa. Forsenda þess að haldsréttur stofnist sé sú að verðmæti bifreiðarinnar hafi aukist í vörslum kröfuhafa.
Þá telur varnaraðili að krafa sóknaraðila sé óeðlilega há. Sóknaraðili hefði átt að gera reka að því mun fyrr að selja bifreiðina til þess að takmarka tjón sitt. Vísar varnaraðili hér til 38. gr. laga nr. 42/2002 um þjónustukaup.
Varnaraðili mótmælir því að í íslenskum rétti sé viðurkenndur haldsréttur fyrir geymslukostnaði. Þá mótmælir hann fullyrðingum sóknaraðila um venju við embætti sýslumannsins í Reykjavík.
Niðurstaða.
Málflutning sóknaraðila verður að skilja svo að hann viðurkenni að verðmætisaukning hafi ekki orðið af því að hann geymdi bifreiðina, en hann heldur því ekki fram að hann hafi gert við hana. Hann telur sig hins vegar hafa hindrað verðmætarýrnun.
Það er rétt hjá sóknaraðila að venja er og í samræmi við viðteknar hugmyndir um íslenskan rétt, að við nauðungarsölu er viðurkennd staða haldsréttarhafa og að þeir hafi forgang fram yfir veðhafa. Stöðu sóknaraðila verður þó að skýra í samræmi við dóm Hæstaréttar 23. janúar 2002 í máli nr. 6/2002, þannig að geymslugjald sem ekki stendur í sambandi við viðgerð njóti ekki haldsréttar í hinum geymda mun. Verður að slá því föstu að krafa sóknaraðila hafi ekki notið haldsréttar og getur því ekki komið til þess að honum verði úthlutað af söluandvirðinu. Ekki er unnt að líta eingöngu til þess að verðmætarýrnun kunni að hafa verið forðað. Ber því að staðfesta ákvörðun sýslumanns.
Rétt er að málskostnaður falli niður.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Hin kærða ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík er staðfest og er hafnað kröfu sóknaraðila, Króks dráttarbíla ehf., um úthlutun af söluandvirði bifreiðarinnar OZ-414.
Málskostnaður fellur niður.