Hæstiréttur íslands
Mál nr. 445/2011
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Verjandi
- Gögn
- Vítur
|
|
Fimmtudaginn 26. janúar 2012. |
|
Nr. 445/2011.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Verjandi. Gögn. Vítur.
X var ákærður fyrir innflutning á fíkniefnum ætluðum til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi og var hann sakfelldur í héraði. Í Hæstarétti var ekki talin fram komin lögfull sönnun fyrir sekt X og var hann því sýknaður. Hæstiréttur taldi að meðferð málsins í héraði hefði farið úr skorðum. Hefði m.a. verið brotið gegn ákvæðum laga um meðferð sakamála um trúnað sakbornings og verjanda og um bann við framlagningu gagna sem hafa að geyma upplýsingar um það þeim hefur farið á milli.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júlí 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða en að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara mildunar refsingar.
I
Ákærða og Y var gefið að sök í máli þessu að hafa staðið að innflutningi á tæplega tveimur kílóum af kókaíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi. Var ákærði talinn hafa skipulagt innflutninginn, fengið Y til þátttöku í verknaðinum og tekið á móti fíkniefnunum á heimili sínu í Reykjavík. Var háttsemi ákærða heimfærð undir 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærði og Y sakfelldir fyrir þessa háttsemi. Var þáttur ákærða í innflutningi fíkniefnanna talinn mun veigameiri en Y og hafi skipulagning innflutningsins verið á herðum ákærða sem hafi ætlað sér lungann af ágóða af sölu þeirra. Í dóminum var Y á hinn bóginn talinn hafa verið „í þjónustu“ ákærða við innflutninginn og hafi hann með broti sínu reynt að grynnka á skuldum sínum við ákærða. Y undi dómi héraðsdóms.
II
Hinn 15. janúar 2010 lagði lögregla hald á marihuana sem barst með póstsendingu til landsins. Í framhaldi af því var gerð húsleit á heimili skráðs viðtakanda sendingarinnar, sem var annar en ákærði. Við þá húsleit fundust meðal annars leifar af kókaíni og handfang af ferðatösku með límmiða af þeirri gerð sem notuð er til að merkja töskur. Nafn meðákærða Y var á miðanum sem bar með sér að taskan hefði farið frá Alicante á Spáni til Keflavíkur 7. nóvember 2009.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu í janúar 2010 kvaðst Y hafa farið til Spánar ásamt vinkonu sinni, A. Játaði hann að hafa flutt þaðan til landsins tæp tvö kíló af kókaíni fyrir ákærða, sem kallaður væri „[...]“, gegn því að fá í sinn hlut fíkniefni og niðurfellingu skuldar við ákærða, en A hafi ekkert vitað af innflutningnum. Í framhaldi af þessu gaf A skýrslu sem sakborningur hjá lögreglu. Þar var hún spurð eftirfarandi spurningar: „Hver sagði þér hvað Y ætti að fá fyrir ferðina?“ Svar hennar var: „X [...] í [...]. Y segir við mig að hann hafi skuldað X [...] pening og þess vegna hafi hann gert þetta en þegar ég spyr X [...] þá segir hann við mig að Y hafi fengið 100 grömm af kókaíni, 500 þúsund króna skuld niðurfellda og 300 grömm af spítti. Y átti að fá 200 grömm af kókaíni fyrir þetta en 100 grömm fóru upp í skuld þannig að hann fékk í staðinn 100 grömm af kókaíni og 300 af spítti.“ Aðspurð sagðist A telja að nefndur X byggi í [...] í [...], en að öðru leyti bar ákærða ekki frekar á góma í skýrslu hennar hjá lögreglu.
Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi kvað Y ákærða ekkert hafa komið nálægt innflutningnum, heldur hafi hann gefið ranglega upp nafn ákærða til að hlífa ónefndum manni sem átt hafi fíkniefnin. A, sem gaf skýrslu sem vitni fyrir dóminum, sagði ákærða ekki verið þann sem sagt hafi sér frá innflutningnum, heldur hafi hún frétt það frá nafngreindum [...] sínum. Ekki kom fram hjá henni að ákærði hafi staðið að innflutningnum.
Ákærði var ekki yfirheyrður vegna málsins hjá lögreglu fyrr en í maí 2010. Hann hefur, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, staðfastlega neitað sök. Fíkniefni þau sem um ræðir hafa ekki fundist.
III
Eins og rakið hefur verið verður hvorki ráðið af framburði A hjá lögreglu né fyrir dómi að ákærði hafi staðið að innflutningi á umræddum fíkniefnum. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Þrátt fyrir að fallast megi á með héraðsdómi að skýringar meðákærða Y á breyttum framburði hans fyrir dómi, frá því sem hann bar hjá lögreglu, séu ekki trúverðugar, verður að líta til þess að engin gögn hafa verið færð fram fyrir dómi um sekt ákærða. Frásögn Y hjá lögreglu er hið eina sem tengir ákærða við það brot sem honum er gefið að sök. Samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði verður sakfelling ákærða ekki reist á þessum framburði einum og sér. Gegn eindreginni neitun ákærða er því ekki fram komin lögfull sönnun fyrir sekt hans og verður hann því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.
Eftir þessum úrslitum skal sakarkostnaður í héraði að því er ákærða varðar og fyrir Hæstarétti greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans eins og þau voru ákveðin í héraði og málsvarnarlaun verjandans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.
IV
Við meðferð málsins í héraði var lagður fram mynddiskur með skýrslu meðákærða Y hjá lögreglu 21. janúar 2010. Hafði hann verið í haldi lögreglunnar rúmlega 26 klukkustundir er yfirheyrsla yfir honum hófst, án þess að hann væri færður fyrir dómara, svo sem boðið er í 94. gr. laga nr. 88/2008. Fram kemur á mynddiskinum að gert var hlé á skýrslutöku svo ákærði gæti ráðfært sig einslega við verjanda sinn. Yfirgáfu lögreglumenn herbergið þar sem yfirheyrslan fór fram eftir að annar þeirra hafði tilkynnt að slökkt yrði á upptöku meðan á samtalinu stæði. Í hinum áfrýjaða dómi er tekið fram að dómendur hafi hlýtt og horft á mynddiskinn með þessari skýrslu Y.
Það að lögregla slökkti ekki á upptöku þannig að trúnaðarsamtal Y og verjanda hans var tekið upp á mynddisk braut í bága við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 88/2008 þar sem verjanda er veitt heimild til að ráðfæra sig einslega við skjólstæðing sinn um hvað eina sem málið varðar. Með því að ákæruvaldið lagði fram fyrrgreindan mynddisk við meðferð málsins í héraði og héraðsdómarar vísuðu athugasemdalaust til þess í dómi sínum að þeir hafi hlýtt og horft á hann, var brotið gegn 4. mgr. 134. gr. laganna þar sem lagt er bann við framlagningu hvers konar gagna sem hafa að geyma upplýsingar um það sem sakborningi og verjanda hans hefur farið á milli. Er þetta vítavert.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 753.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. júní 2011.
Mál þetta sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þann 15. þ.m. er höfðað með ákæru ríkissaksóknara útgefinni 9. mars 2011 á hendur X, kennitala [...], [...], [...], og Y, kennitala [...], [...], [...], fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa á árinu 2009 staðið saman að ólögmætum innflutningi á tæpum tveimur kílóum af kókaíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi, eins og hér að neðan greinir:
- Ákærði X skipulagði innflutning fíkniefnanna, fékk meðákærða til þátttöku í verknaðnum og móttók fíkniefnin frá meðákærða á heimili sínu að[...], [...], þann 8. nóvember.
- Ákærði Y móttók fíkniefnin frá óþekktum aðila á Alicante á Spáni og flutti þaðan til Íslands um Keflavíkurflugvöll með flugi AE-184, sunnudaginn 7. nóvember og afhenti meðákærða fíkniefnin, eins og lýst er í 1. ákærulið.
Telst þetta varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og 32/2001.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Við upphaf aðalmeðferðar óskaði sækjandi eftir því að leiðrétta ákæruskjal á þá leið að í stað rúmlega tveggja kílóa af kókaíni standi tæpum tveimur kílóum af kókaíni.
Verjandi ákærða X krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að málsvarnarlaun hans og annar sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Verjandi ákærða Y krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og til vara að hann honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og verði honum gerð fangelsisrefsing verði hún skilorðsbundin. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun verjanda.
I.
Mál þetta hófst með þeim hætti að þann 15. janúar 2010 var haldlögð póstsending í tolli sem talið var að innihéldi maríhúana. Leiddi þetta til húsleitar að [...]. þann 20. s.m. þar sem fannst m.a. grá og rauð íþróttataska sem innihélt klippur, einnota hanska og margs konar verkfæri en á klippunum voru leifar af hvítu efni sem talið var kókaín. Í tösku þessari fannst einnig plastpoki sem í voru plastbútar einnig með hvítum efnisleifum á og við hlið töskunnar fannst annar plastpoki sem í voru sams konar plastbútar. Reyndust þessir plastbútar vera brot úr plasthlífum eins og eru inni í ferðatöskum. Þá fannst einnig m.a. handfang af ferðatösku með límmiða sem flugfélög nota til þess að merkja töskurnar og á þessum miða var nafnið Y auk þess sem þar stóð að taskan hefði farið frá Alicante á Spáni til Keflavíkur 7. nóvember 2009. Við eftirgrennslan kom í ljós að ákærði Y hafði komið frá Alicante þennan dag ásamt vinkonu sinni, A, og játaði Y að hafa tekið við tösku úti í Alicante sem honum var sagt að í væru efni sem ekki næðu tveimur kg en hann hefði sjálfur ekki vigtað þetta og væri því ekki 100% viss. Komst ákærði Y með töskuna í gegnum eftirlit á flugvellinum í Keflavík en daginn eftir að hann kom heim hafi hann farið með þetta til X, meðákærða í málinu, sem hann sagði búa við [...] í [...]. Hið síðastnefnda er haft eftir ákærða Y í skýrslu hans hjá lögreglu 21. janúar 2010.
II.
Í framburði ákærða X fyrir dóminum kom fram að hann segist ekkert vita um þetta mál annað en það sem honum hefur verið sagt við yfirheyrslur. Kvaðst X hafa kynnst meðákærða árið 2005 í meðferð og hafi samskipti verið upp og niður síðan en einhver samskipti hafi verið milli þeirra seinni hluta ársins 2009 og hafi þeir tekið á leigu íbúð 2008 eða 2009 en ákærði Y hafi fljótlega flutt út vegna þess að samskiptin gengu ekki upp. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann hafði að láni greiðslukort meðákærða sem hann gat lagt inn á og notað til að spila póker á netinu en sjálfur hafði hann ekki slíkt kort. Sagði ákærði að hann hafi verið í fíkniefnaneyslu allt þar til hann var handtekinn á apríl í fyrra en hann sé nú búinn að vera í fangelsi síðustu fjórtán mánuðina þar sem hann afplánar fíkniefnadóm. Ákærði kvaðst aðspurður hafa hitt A á sama stað og hann kynntist ákærða Y en A er [...] [...] sem stjórnaði meðferðinni sem þeir voru í á þeim tíma. Hann kvaðst ekki hafa hitt hana síðan 2006 og ekki talað við hana síðan. Er X spurður um það sem haft er eftir A í lögregluskýrslu, þegar hún segir að þegar hún hafi spurt X þá hafi hann sagt við hana að Y hafi fengið 100 g af kókaíni og 500.000 þúsund króna skuld niðurfellda og 300 g af spítti, og segir hann þetta hljóta að vera tilbúning og ósannindi. Kannast ákærði X ekki við að hafa látið meðákærða hafa nein fíkniefni eftir að sá innflutningur sem hér er fjallað um átti sér stað.
Ákærði Y sagði í dómsskýrslu sinni að hann hefði farið til Spánar að sækja tösku og komið með hana heim. Sagðist ákærði hafa gert þetta fyrir annað fólk en á þessum tíma hafi hann verið í mikilli neyslu og búinn að koma sér í skuldir og hafi þetta verið leið til þess að koma sér úr því. Átti hann að fá í staðinn niðurfellingu skulda og eitthvað af efnum. Sagði ákærði að hann hefði getað gefið sér það sjálfur að það væru fíkniefni í töskunni en hann minni að skuldin sem hann fékk niðurfellda hafi verið þrjú til fjögur hundruð þúsund. Ekki vill ákærði gefa upp fyrir hvern hann sótti töskuna og segir ástæðu þess vera að hann þori það ekki en vill ekki svara hvers vegna; hann hafi sótt þetta fyrir ákveðinn mann sem hann vilji ekki nefna en sá hafi ekki haft í hótunum við hann. Sagði ákærði að enginn hafi haft í hótunum við hann vegna þessa máls og enginn hafi reynt að hafa áhrif á framburð hans. Þegar ákærða er bent á það að framburður hans nú sé ekki í samræmi við það sem hann lét hafa eftir sér hjá lögreglu ber hann því við að lögreglan hafa þjarmað svolítið að honum við skýrslutöku sem varð til þess að hann nefndi nafn meðákærða X vegna þess að þeir hafi átt margt slæmt á milli sín, eins og hann orðaði það, þrátt fyrir að X hafi ekki átt neinn þátt í þessu. Gaf ákærði þá skýringu á því að hann hafi nefnt X til leiks að lögreglumennirnir hafi þráspurt hann og sagt honum að hann væri í vondum málum án þess að um neinar hótanir hafi verið að ræða og man hann ekki eftir neinum lögreglumanni sérstaklega. Sagði ákærði að hann hafi vísvitandi ranglega gefið upp nafn X til þess að hlífa öðrum. Ekki vill ákærði upplýsa hverjum hann skuldi en sá aðili sé ekki tengdur beint inn í þetta mál. Sagði ákærði að honum hafi verið boðið að fara út til þess að losna undan vandræðum sínum og hann hafi ákveðið að taka því boði en það sé ekki sami aðili sem bauð honum þetta og sá aðili sem hann skuldaði. Sagði ákærði að samskipti hans og X hafi verið upp og niður gegnum árin og að þeir hafi í stuttan tíma verið neyslufélagar en samskiptin hafi verið mjög slæm síðla árs 2009 án þess að hann vilji greina nánar hvers vegna en segir það hafa verið persónulegt en ekki vegna þess að hann hafi skuldað X peninga. A, sem fór með honum í Spánarferðina, vissi að sögn ákærða ekkert um að það væru efni í töskunni en hún hafi hins vegar frétt það síðar hjá honum sem þó hafi verið áður en hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Sagðist ákærði ekki hafa séð neina aðra leið út úr vandræðum sínum en að fara í þessa ferð í trausti þess að lítil hætta væri á að upp um hann kæmist. Hann sagðist hafa greitt farseðil sinn með greiðslukorti sínu. Aðspurður sagði ákærði að honum hafi á sínum tíma aldrei verið sagt hvaða efni þetta væru sem voru í töskunni, þó að hann hafi að sjálfsögðu ætlað að í henni væru fíkniefni, en honum hafi ekki verið sagt hversu mikið magnið var nema hvað þetta væri undir tveimur kg og færi ekki yfir það. Samsinnir ákærði því að hann hafi átt að fá 300 g af einhverjum efnum, 100 g af kóki og skuld lækkaða úr 600 þúsundum niður í 200 þúsund fyrir að fara í umrædda ferð til Spánar, en hann hvorki geti né vilji giska á hvort þessi umbun gefi vísbendingu um hversu mikið magn hann hafi verið með í töskunni. Sagði ákærði að honum hafi verið ljóst að hann hafi átt að ná í tösku með fíkniefnum en hann hafi ekki hugsað mikið út í það hvað var í töskunni. Sagði ákærði að þegar hann kom til landsins hafi hann farið heim með töskuna en skilað henni daginn eftir til mannsins sem fékk hann til fararinnar, sem hann þekki en vilji ekki nefna. Sagði ákærði að hann haldi að A hafi ekki verið sátt við það þegar hann sagði henni að hann hafi verið að flytja fíkniefni í ferðinni en segist þó ekki muna hver viðbrögð hennar voru nákvæmlega. Þegar bornar voru undir ákærða þær skýrslur sem hann hefur gefið hjá lögreglu og eru fyrirliggjandi í málinu kannast hann við þær og efni þeirra.
III.
Verður nú rakinn framburður vitna eftir því sem þurfa þykir.
Vitnið B rannsóknarlögreglumaður sagði að hann hefði farið ásamt fleirum í húsleit að [...] og þar hafi þeir fundið tösku og töskubrot sem á voru hvítar efnisleifar auk handfangs af tösku sem var merkt og síðan rakin til ákærða Y. Kvaðst vitnið hafa yfirheyrt ákærða Y vegna málsins en hann muni ekki á hvaða stigi ákærði nefndi meðákærða X til leiks, en vitnið heldur að það hafi ekki verið fyrr en eftir að A benti á X, meðákærða í málinu, sem ákærði Y bendir á hann sem skipuleggjanda. Þegar vitnið var innt eftir því hvort settur hafi verið einhver óeðlilegur þrýstingur á ákærða Y við yfirheyrslur hjá lögreglu sagði B að hann líti ekki svo á og vísar til upptöku í hljóð og mynd af yfirheyrslum. Að sjálfsögðu væri lögð á það mikil áhersla í slíkum málum að komast til botns í því hverjir væru skipuleggjendur brotastarfseminnar sem svona ferðir eru og að Y hafi í fyrstu verið hræddur við að gefa upp hver væri samstarfsmaður eða skipuleggjandi en samt bent áX eins og A gerði líka við yfirheyrslu hjá lögreglu.
Vitnið C, lögreglumaður hjá ríkislögreglustjóra, staðfesti að samkvæmt mælingum sem hann vann við í tengslum við málið hafi komið fram að efnið sem fannst á leifum ferðatösku sem kemur við sögu hafi einungis sýnt að um kókaín hafi verið að ræða.
Vitnið D [...] staðfesti fyrirliggjandi matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræðum, og sagði að styrkur kókaíns hafi verið 66% í samanburði við meðalstyrk áranna 2006 til 2010 sem reyndist 48% þannig að um töluvert meiri styrk var að ræða miðað við meðaltalið.
Vitnið A sagðist hafa verið handtekin í janúar 2010 út af málinu en ákærði Y, sem hún hafði verið í vinfengi við áður, hafði boðið henni með sér til útlanda þrátt fyrir að hann væri farinn að vera með annarri stelpu. Hún hafi seinna komist að því að hann hafi í ferðinni verið að flytja inn fíkniefni og notað hana til þess, sem leiddi til þess að þau urðu óvinir. Segir vitnið að [...] hennar, E, hafi sagt henni að ákærði Y hafi bara notað hana til þess að komast með fíkniefnin til landsins og að hann væri enginn vinur hennar. Sagði vitnið að [...] hennar hafi verið illa við ákærða Y en svo skyndilega rétt áður en þetta gerðist þá hafi þeir allt í einu verið orðnir bestu vinir, ákærði Y og E, [...] vitnisins. Sagði vitnið að þegar hún spurði ákærða Y út í þetta þá hafi hann komið með að minnsta kosti þrjár útgáfur sem hafi verið tómt bull og lygi og ekki viðurkennt beint að hafa komið með efnin. Sagðist vitnið hafa sagt ákærða Y að hún vildi fá peninga í sinn hlut úr því að verið var að nota hana í þetta en af því hafi aldrei orðið. Sagðist vitið ekkert hafa hitt ákærða X síðan fyrir löngu í Byrginu og ekkert rætt þessi mál við hann. Vitnið segir aðspurt að það hafi aldrei verið í neyslu. Sagðist vitnið hafa farið með handrukkurum heim til ákærða Y, sem ekki hafi verið heima, þegar hann bjó, að því er vitnið minnir, við [...]. Vitnið E, [...] A, kvaðst ekki vita neitt um umræddan innflutning. Það eina sem hann vissi um þetta fólk væri að Y væri kominn á kaf í neyslu og peningavandræði og hafi hann grunað að Y gripi til þess að taka að sér slíkan innflutning. Kannaðist vitnið við að hafa fengið fíkniefni hjá Y, m.a. á þessum tíma sem um ræðir, og jafnframt vissi vitnið að Y var orðinn skuldugur og hann hafi sagt sér hvað væri í boði fyrir að fara svona ferð og talaði um eina milljón króna eða 200 til 300 g. Sagði vitnið að A hafi sagt sér aðY skuldaði X eitthvað á bilinu 700.000 til 900.000 þúsund krónur.
IV.
Í þinghaldi þann 3. maí sl. neitaði ákærði Y sök. Í skýrslu sem hann gaf við aðalmeðferð málsins sagði hann að hann hafi farið til Spánar að sækja tösku sem hann kom með heim. Sagðist ákærði hafa gert þetta fyrir annað fólk en á þessum tíma hafi hann verið í mikilli neyslu og búinn að koma sér í skuldir og hafi þetta verið leið til þess að koma sér úr því. Átti hann að fá í staðinn niðurfellingu skulda og eitthvað af efnum. Sagði ákærði að hann hefði getað sagt sér það sjálfur að það væru fíkniefni í töskunni. Samsinnti ákærði því að hann hafi átt að fá 300 g af einhverjum efnum, 100 g af kóki og skuld lækkaða úr 600 þúsundum niður í 200 þúsund fyrir að fara í umrædda ferð til Spánar en hann hvorki geti né vilji giska á hversu mikið magn hann hafi verið með í töskunni. Sagði ákærði að honum hafi verið ljóst að hann hafi átt að ná í tösku með fíkniefnum en hann hafi ekki hugsað mikið út í það hvað var í töskunni. Sagði ákærði að þegar hann kom til landsins hafi hann farið heim með töskuna en skilað henni daginn eftir til mannsins sem fékk hann til fararinnar, sem hann þekki en vilji ekki nefna. Þegar ákærða var bent á það að framburður hans nú væri ekki í samræmi við það sem hann lét hafa eftir sér hjá lögreglu bar hann því við að lögreglan hefði þjarmað svolítið að honum við skýrslutöku sem varð til þess að hann nefndi nafn meðákærða, X. Gaf ákærði þá skýringu á því að hann hafi nefnt X til leiks að lögreglumennirnir hafi þráspurt hann og sagt honum að hann væri í vondum málum, án þess að um neinar hótanir hafi verið að ræða, og aðspurður nefndi hann engan lögreglumann sérstaklega. Sagði ákærði að hann hafi vísvitandi ranglega gefið upp nafn X til þess að hlífa öðrum. Ekki vildi ákærði upplýsa hverjum hann hafi skuldað. Í dóminum eru til staðar upptökur í hljóði og mynd af framburði ákærða Y hjá lögreglu þann 21. janúar 2010. Þar segir ákærði Y að haft hafi verið samband við hann tveimur eða þremur vikum áður en hann fór út og að það hafi verið X, nánar tiltekið, sem kallaður er X. Við skoðun dómenda á þessari mynd- og hljóðupptöku var enga vísbendingu að sjá um að ákærði hafi verið þráspurður eða verið undir neinum sérstökum þrýstingi. Vitnið A hefur borið fyrir dóminum að E, [...] hennar, hafi sagt henni að ákærði Y hafi skuldað ákærða X peninga og þess vegna hafi hann tekið að sér flutninginn. En hún hafi aldrei komið heim til ákærða X né rætt þessi mál við hann og því hljóti að vera ranglega eftir henni haft í lögregluskýrslu að það hafi hún gert. Í lögregluskýrslu sé einnig ranglega eftir henni haft að X hafi sagt henni hvað ákærði Y hafi átt að fá í sinn hlut fyrir ferðina því að E hafi sagt henni þetta eftir X. Vitnið kannaðist ekki við að hafa talað við ákærða X í síma á þessum tíma. Dómendur hafa einnig skoðað upptöku af skýrslutöku yfir vitninu A en þar segir hún að [...] hennar hafi sagt henni að ákærði Y hafi ætlað að flytja inn fíkniefni og tekur skýrt fram að það hafi ekki verið [...] hennar sem sagði henni hvað Y átti að fá fyrir flutninginn heldur hafi það verið ákærði X, sem hún nefndi X, sem sagði henni, þegar hún hitti hann heima hjá honum með strákunum, eins og hún orðaði það, að hann hafi fengið 100 g af kókaíni, 500.000 króna skuld niðurfellda og 300 g af spítti auk 100 g af kókaíni sem fóru upp í skuld. Ákærði X sagðist ekki hafa séð eða talað við vitnið A síðan 2005 eða 2006. Fyrir dóminum sagði A að [...] hennar hafi sagt sér að Y hafi átt að fá tvær milljónir fyrir flutninginn eða 100 g á kg sem hafi verið tvö. Í skýrslu sinni hjá lögreglu bar ákærði Y að magnið af fíkniefnum hefði verið undir 2 kg en fyrir dóminum hefur hann ekki borið það til baka. Hjá lögreglu sagði ákærði Y að hann hafi skuldað ákærða X 600.000 krónur; hann hafi farið út og tekið þessar töskur og farið með þær til hans og átt að fá fyrir þetta 200 g af kóki en á endanum hafi hann fengið 300 g alls, 100 g af kókaíni og skuldina fellda niður í 200 þúsund. Fyrir dóminum sagðist ákærði Y aldrei hafa skuldað X nema í mesta lagi nokkra þúsundkalla.
Vitnið E, [...] A, kvaðst ekki vita neitt um umræddan innflutning og það eina sem hann hafi vitað um þetta fólk var að Y hafi verið kominn á kaf í neyslu og peningavandræði. Kannaðist vitnið við að hafa fengið fíkniefni hjá Y, m.a. á þessum tíma sem um ræðir, og jafnframt vissi hann að Y var orðinn skuldugur, og hann hafi sagt sér hvað væri í boði fyrir að fara svona ferð og talaði um eina milljón eða 200 til 300 g. Sagði vitnið að A hafi sagt sér að Y skuldaði X eitthvað á bilinu 700.000 til 900.000 þúsund.
Eftir það sem nú hefur verið rakið er ljóst að bæði ákærði Y og vitnið A hafa breytt verulega fyrir dóminum framburði þeim sem eftir þeim er hafður hjá lögreglu. Dómendur hafa hlýtt og horft á, í hljóði og mynd, framburð þeirra hjá lögreglu. Þegar ákærði Y var inntur eftir því hvers vegna hann vilji hverfa frá fyrri framburði voru þær skýringar fjarskalega ótrúverðugar eins og áður segir, t.d. um þrýsting við yfirheyrslur, sem á sér bersýnilega enga stoð í raunveruleikanum. Fyrir dóminum hefur ákærði ekki viljað gefa upp fyrir hvern hann sótti töskuna, sem hann upplýsti hjá lögreglu að hafi verið fyrir meðákærða X, og segir ástæðu þess vera að hann þori það ekki en hann vill ekki svara hvers vegna; hann hafi sótt þetta fyrir ákveðinn mann sem hann vilji ekki nefna en sá hafi ekki haft í hótunum við hann. Sagði ákærði að enginn hafi haft í hótunum við hann vegna þessa máls og enginn hafi reynt að hafa áhrif á framburð hans. Vitnið A hefur borið líkt og ákærði Y hjá lögreglu að Y hafi skuldað ákærða X peninga og þess vegna hafi hann tekið flutninginn á fíkniefnunum að sér. Í skýrslutöku yfir vitninu A hjá lögreglu sagði hún að [...] hennar hafi sagt henni að ákærði Y hafi ætlað að flytja inn fíkniefni en tók skýrt fram að það hafi ekki verið [...] hennar sem sagði henni hvað Y átti að fá fyrir flutninginn heldur hafi það verið X sem sagði henni það. Frávik fyrir dómi frá fyrri framburði hjá lögreglu eru öll því marki brennd að beina athyglinni frá hugsanlegri sekt ákærða X í málinu. Hvorki ákærði Y né vitnið A hafa komið fram með neinar sennilegar skýringar á breyttum framburði. Ákærði Y bar hjá lögreglu með þeim hætti að það verður ekki skilið á annan veg en að ákærði X hafi lagt á ráðin þegar hann hafði samband við hann tveimur til þremur vikum áður en hann fór út að sækja töskuna og að hann hafi daginn eftir að hann kom aftur farið með fíkniefnin til hans. Er sú skýring að hann hafi með þessari frásögn verið að hlífa einhverjum öðrum sem hann ekki vill nefna ekki tekin trúanleg. Sama er að segja um fráhvarf ákærða Y frá þeim framburði að hann hafi skuldað X 600.000 krónur, enda fær framburður hans hjá lögreglu stoð í framburði vitnisins A sem upplýsti einnig hjá lögreglu hvað ákærði Y átti að fá í sinn hlut fyrir flutninginn samkvæmt upplýsingum frá ákærða X. Á hina nýju útgáfu A um þetta atriði, sem hún bar fram í dómi á þá leið að þessar síðastnefndu upplýsingar hefði hún fengið hjá [...] sínum, er ekki lagður trúnaður, enda hefur [...] hennar þverneitað að hafa búið yfir slíkum upplýsingum.
Þegar allt er virt, sem nú var rakið, telur dómurinn sannað að ákærðu hafi staðið saman að ólögmætum innflutningi á kókaíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi. Þótt ákærði Y hafi í upphafi neitað sök hefur hann í raun viðurkennt að hafa vísvitandi flutt efnin til landsins. Engin ástæða þykir til að vefengja framburð ákærða Y hjá lögreglu þar sem hann bendir á ákærða X sem skipuleggjanda brotsins gagnvart sér og móttakanda efnanna þegar hann kæmi með þau til landsins, auk þess sem framburður vitnisins A rennir stoðum undir framburð Y og vitneskju X um greiðslu þá sem ákærði Y átti að fá að launum. Þá styður það einnig þessa ályktun að leitt er í ljós að ákærði Y skuldaði ákærða X samkvæmt framburði A og Y hjá lögreglu sem þau síðan reyndu að drepa á dreif með ótrúverðugum framburði sínum fyrir dóminum. Varðandi hið innflutta magn þykir rétt, í ljósi framburðar ákærða Y um að magnið hafi verið undir tveimur kg, að miða við það að ákærðu njóti vafans með þeim hætti að hin tæplega tvö kg sem þeir eru sakaðir um innflutning á verði við refsiákvörðun metin sem 1,5 kg en styrkur þess hins vegar miðaður við niðurstöðu matsgerðar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræðum eða 66% á móti 48% meðalstyrk áranna 2006 til 2010.
Brot ákærðu eru rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
Að mati dómsins er þáttur ákærða X veigamestur og skipulag innflutningsins greinilega á hans herðum og ekkert sem bendir til annars en að hann hafi ætlað sér lungann af ágóðanum af sölu efnanna. Ákærði Y er hins vegar í stöðu svokallaðs burðardýrs í þjónustu ákærða X og er með broti sínu að reyna að grynnka á skuldum síum við hann. Brot ákærðu nú er þaulskipulagt og eiga þeir sér engar málsbætur.
Ákærði X hefur tvívegis verið sektaður fyrir fíkniefnabrot á árunum 2005 og 2006 og 2003 var ákæru frestað skilorðsbundið fyrir þjófnað og nytjastuld en þann 12. júlí 2010 var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa staðið að því ásamt fleirum að flytja inn 1,765,18 g af kókaíni frá Spáni ætluðu til söludreifingar á ágóðaskyni. Fyrir brot hans nú verður honum því dæmdur hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem þykir hæfilega ákveðinn tveggja ára fangelsi.
Ákærði Y hefur tvívegis verið dæmdur í fangelsi fyrir þjófnað á árinu 2002 og 2003. Í lok árs 2003 var honum ekki gerð sérstök refsing vegna þjófnaðar og 19. desember 2005 var hann dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi.
Í samræmi við ákvæði 218. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.m.t. kostnaður við matsgerð, 82.603 krónur, sem þeim ber að greiða óskipt auk þess sem þeir skulu greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og segir í dómsorði.
Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari sótti málið.
Dómsformaður var Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari og meðdómendur Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari og Finnbogi H. Alexandersson dómstjóri.
D ó m s o r ð:
Ákærði X sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði Y sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærðu greiði óskipt 82.603 krónur í sakarkostnað.
Ákærði X greiði sem sakarkostnað málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hrl., 376.500 krónur.
Ákærði Y greiði sem sakarkostnað málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 376.500 krónur.