Hæstiréttur íslands
Mál nr. 542/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Afleiðusamningur
- Riftun
- Niðurfelling samnings
- Kröfugerð
- Vextir
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 10. apríl 2014. |
|
Nr. 542/2013.
|
Atorka Group hf. (Jón Ögmundsson hrl.) gegn Glitni hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Afleiðusamningur. Riftun. Niðurfelling samnings. Kröfugerð. Vextir. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
G hf. krafði A hf. um greiðslu samkvæmt tveimur gjaldmiðlaskiptasamningum og þremur samningum um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti. Skyldi fyrri tveimur samningunum ljúka 14. september 2009, en hinum þremur 10. október 2008. Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar G hf., vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. A hf. taldi sér óskylt að greiða kröfu G hf. og bar því m.a. við að með tiltekinni yfirlýsingu G hf. í lok október 2008 hefðu allir samningarnir fallið niður vegna riftunar. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að þegar G hf. hefði sent út yfirlýsingu sína í lok október 2008 hefðu samningarnir þrír um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti runnið skeið sitt á enda og gat yfirlýsing G hf. af þeim sökum hvorki falið í sér niðurfellingu þeirra né riftun. Þá hefði yfirlýsingin, skýrð samkvæmt efni sínu í heild, hvorki falið í sér riftun né einhliða niðurfellingu afleiðusamninga af öðrum ástæðum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 647/2013. Loks var hvorki fallist á með A hf. að brostnar forsendur skyldu leiða til þess að skyldur hans samkvæmt samningunum féllu niður, að þá skyldi ógilda á grundvelli 31. og 33. gr. laga nr. 7/1936 né að þeim yrði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. sömu laga. Var A hf. því gert að geriða G hf. hina umkröfðu fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. ágúst 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi snúast ágreiningsefni málsins um kröfu stefnda sem reist er á afleiðusamningum, tveimur gjaldmiðlaskiptasamningum og þremur samningum um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti. Fyrri tveimur samningunum skyldi samkvæmt efni sínu ljúka 14. september 2009, en hinum þremur 10. október 2008. Ekki er ágreiningur um útreikning á stöðu hvers samnings við lok hans og með dómi Hæstaréttar 1. desember 2011 í máli nr. 129/2011 var lagt til grundvallar að stefnda hafi verið heimilt að nota kröfu áfrýjanda á hendur honum samkvæmt peningamarkaðslánum að fjárhæð 451.480.232 krónur til skuldajafnaðar. Er tekið tillit til þeirrar greiðslu, sem í því fólst, í kröfugerð stefnda.
Áfrýjandi telur sér óskylt að greiða kröfu stefnda og ber meðal annars fyrir sig að með yfirlýsingu stefnda 27. október 2008 hafi allir samningarnir fimm fallið niður vegna riftunar. Þessi einhliða lokun eða niðurfelling samninganna af hálfu stefnda hafi verið heimildarlaus og sér því óskylt að standa við þá af sinni hálfu.
Þegar stefndi sendi út tilkynningu sína 27. október 2008 höfðu samningarnir þrír um gjaldmiðla- og framvirk gjaldmiðlaviðskipti runnið skeið sitt á enda samkvæmt framansögðu. Gat yfirlýsing stefnda því hvorki falið í sér niðurfellingu þeirra né riftun. Verður þegar af þeirri ástæðu að hafna þessari málsástæðu áfrýjanda um þá samninga.
Áðurnefnd tilkynning stefnda bar yfirskriftina: „Uppgjör afleiðusamninga við Glitni Banka hf.“ Í henni var gerð grein fyrir því að Fjármálaeftirlitið hefði tekið yfir rekstur Glitnis banka hf. og flutt hluta af starfseminni til nýs banka, Nýja Glitnis banka hf. Afleiðuviðskipti hefðu á hinn bóginn ekki verið flutt yfir í nýja bankann og yrðu því gerð upp við þann gamla. Þá sagði að unnið væri að því að loka og gera upp útistandandi samninga. Voru viðtakendur hvattir til þess að hafa samband við tengilið sinn í gamla bankanum til að fara yfir stöðu sinna samninga, leita ráðgjafar og finna leiðir til að ljúka viðskiptunum við hann með því að loka samningum og eftir atvikum með uppgjöri. Þá sagði í yfirlýsingunni: „Viðskiptamenn sem ekki kjósa að flýta uppgjöri í samkomulagi við Gamla Glitni verða krafðir um greiðslur í samræmi við viðkomandi samninga. Hins vegar liggur fyrir að samkvæmt ákvörðun skilanefndar verða kröfur sem viðskiptamenn eiga á hendur Gamla Glitni að meginstefnu ekki greiddar að svo stöddu. Skuldajöfnuður kemur þá fyrst til greina þegar kröfur hafa fallið í gjalddaga, annað hvort samkvæmt efni samnings eða á grundvelli samkomulags um að flýta gjalddaga. Verði bú Gamla Glitnis tekið til gjaldþrotaskipta lokast allir afleiðusamningar sjálfkrafa og kröfur sem stofnast á þeirra grundvelli falla í gjalddaga. Búið mun innheimta kröfur sem stofnast hafa á hendur viðskiptamönnum að fullu, en ótryggðar kröfur viðskiptamanna á hendur búinu verða greiddar út í samræmi við reglur gjaldþrotaskiptalaganna, eins og eignir búsins hrökkva til ... Við hvetjum þig til að hafa samband við fyrsta mögulega hentugleika og leita svara við hverjum þeim spurningum sem kunna að vakna.“
Áfrýjandi brást ekki við tilkynningunni með því að ræða um afleiðusamningana við stefnda eða beina til hans erindum af þessu tilefni.
Við úrlausn um réttaráhrif tilkynningarinnar verður að meta efni hennar í heild sinni. Þannig skýrð felur hún hvorki í sér riftun né einhliða niðurfellingu afleiðusamninga af öðrum ástæðum, sbr. dóm Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 647/2013. Verður því hafnað málsástæðu áfrýjanda um að stefndi hafi 27. október 2008 rift eða með öðrum einhliða hætti fellt niður afleiðusamningana tvo um gjaldmiðlaskipti, er voru með lokadag 14. september 2009.
Fallist er á með héraðsdómi að ekki sé fullnægt skilyrðum til að áfrýjandi teljist laus undan skuldbindingum sínum samkvæmt samningunum fimm vegna brostinna forsendna. Samningarnir voru af hans hálfu gerðir til þess að jafna út gengisáhættu vegna erlendra eigna hans, sem voru meira virði en eignir hans hér á landi. Í því ljósi gat lækkun á gengi íslensku krónunnar ekki verið ákvörðunarástæða af hans hálfu sem eigi að leiða til þess að skyldur hans samkvæmt samningunum falli niður. Er þessi málsástæða hans því haldlaus.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Atorka Group hf., greiði stefnda, Glitni hf., 2.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2013.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 22. apríl sl., er höfðað af Glitni hf., Sóltúni 26, Reykjavík, á hendur Atorku Group hf., Túngötu 14, Reykjavík, með stefnu birtri 6. janúar 2012.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verið dæmdur til að greiða stefnanda 3.131.914.352 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.402.700.000 kr. frá 10. október 2008 til 13. september 2009 og af 3.583.394.584 kr. frá þeim degi til 7. október 2009 og af 3.131.914.352 kr., frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu.
Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.
II
Málavextir
Stefnandi og stefndi gerðu á árunum 2007 og 2008 með sér tvo gjaldmiðlaskiptasamninga og þrjá samninga um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti og snýst mál þetta um uppgjör þeirra. Stefndi sérhæfði sig í alþjóðlegum fjárfestingum og var skráður í Kauphöll Íslands. Voru viðskipti stefnda við stefnanda tilkomin vegna þarfa hans til að takmarka gjaldeyrisáhættu sína en stefndi átti eignir umfram skuldir í erlendri mynt. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum 26. október 2009, var stefnda veitt heimild til að leita nauðasamnings. Þann 30. október 2009 hafi birtist innköllun vegna fyrirhugaðra nauðasamninga stefnda. Stefnandi hafi lýsti kröfum sínum í tvennu lagi í nóvember 2009. Fyrirsvarsmenn stefnda munu hafa mótmælt kröfunum og hefur sáttaumleitan ekki borið árangur.
Stjórn stefnda undirritaði 13. september 2007 almenna skilmála stefnanda vegna markaðsviðskipta stefnda við stefnanda. Samkvæmt 1. gr. skilmálanna var þeim ætlað að gilda um öll markaðsviðskipti milli samningsaðila, svo sem um skammtímalánveitingar, gjaldeyrisviðskipti, afleiðuviðskipti og kaup og sölu verðbréfa. Í skilmálunum var nánar kveðið á um framkvæmd markaðsviðskipta. Fram kom að gerðir skyldu sérstakir samningar um einstök viðskipti, þær tryggingar sem bankinn krefðist þegar stofnað væri til viðskipta, heimild til skuldajöfnunar (nettunar) samninga, vanefndaúrræði stefnanda, heimild hans til að gjaldfella skuldbindingar viðskiptamanns auk ýmissa fleiri atriða er lutu að samningssambandi aðila. Sama dag rituðu stjórnarmenn stefnda undir viðauka I og II við framangreinda skilmála. Samkvæmt 10. gr. almennra skilmála stefnanda vegna markaðsviðskipta gilda, eftir því sem við á, Almennir skilmálar fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og Almennir skilmálar fyrir skiptasamninga, sem útgefnir eru af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998, um framangreinda samninga.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í stefnanda, vék stjórn hans frá og setti yfir hana skilanefnd. Hinn 14. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið jafnframt þá ákvörðun að flytja hluta af starfsemi stefnanda yfir í nýjan banka sem stofnaður hafði verið, Nýja Glitni banka hf., sem nú ber heiti stefnanda. Tekið er fram í lokamálslið 1. töluliðar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins að réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningnum flytjist ekki yfir til Nýja Glitnis banka hf.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi vísar til þess að krafa hans hafi stofnast á grundvelli eftirtalinna þriggja samninga um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti og tveggja samninga um framvirk gjaldmiðlaviðskipti:
1) Gjaldmiðlaskiptasamningur CIRS_2519 með skráðan samningsdag 12. september 2007 og lokadag 14. september 2009. Samningurinn kveði á um höfuðstólsskipti við upphaf og lok samningsins. Þann 13. september 2007 hafi stefnandi afhent 12.702.982 EUR gegn greiðslu stefnda á 1.132.750.000 ISK gegn því að 14. september 2009 myndi stefnandi greiða 1.132.750.000 ISK gegn afhendingu stefnda á 12.702.982 EUR. Stefnda hafi á samningstíma borið að greiða vegna EUR-skuldbindingar sinnar, fljótandi EURIBOR-vexti ársfjórðungslega að viðbættu 2,45% álagi. Stefnanda hafi á móti borið að greiða 15,5% fasta vexti af ISK-skuldbindingu sinni, einu sinni á ári. Samkvæmt greiðslufyrirkomulagi hafi samningarnir verið skuldajafnaðir til uppgjörs. Höfuðstóll skuldar stefnda samkvæmt þessum samningi sé að fjárhæð 1.102.738.243 ISK.
2) Gjaldmiðlaskiptasamningur CIRS_2520 með skráðan samningsdag 12. september 2007 og lokadag 14. september 2009. Samningurinn kveði á um höfuðstólsskipti við upphaf og lok samningsins. Þann 13. september 2007 hafi stefnandi afhent 12.702.982 EUR gegn greiðslu stefnda á 1.132.750.000 ISK gegn því að 14. september 2009 myndi stefnandi greiða 1.132.750.000 ISK gegn afhendingu stefnda á 12.702.982 EUR. Stefnda hafi á samningstíma borið að greiða vegna EUR-skuldbindingar sinnar, fljótandi EURIBOR-vexti ársfjórðungslega að viðbættu 2,35% álagi. Stefnanda hafi á móti borið að greiða fljótandi REIBOR-vexti ársfjórðungslega að viðbættu 2,3% álagi af ISK-skuldbindingu sinni. Samkvæmt greiðslufyrirkomulagi hafi samningarnir verið skuldajafnaðir til uppgjörs. Höfuðstóll skuldar stefnda samkvæmt þessum samningi sé að fjárhæð 1.077.956.341 ISK.
3) Samningur um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti auðkenndur með númer SW0000071385, með samningsdegi 3. október 2008 með afhendingardegi þann 10. október 2008. Samkvæmt samningnum hafi stefndi selt 1.210.200.000 ISK gegn afhendingu stefnanda á 10.000.000 EUR á samningsdegi, sem jafngildir gengi EUR á 121,02 gagnvart ISK á samningsdegi, gegn loforði um að selja stefnanda sama magn af EUR gegn afhendingu á 1.201.300.000 ISK á afhendingardegi 10. október 2008 sem jafngildir framvirku gengi EUR á 120,13 gagnvart ISK. Á afhendingardegi 10. október 2008 hafi gengi EUR gagnvart ISK verið 150,16 samkvæmt skráningu Seðlabanka Ísland á svokölluðu miðgengi. Uppgjör samningsins hafi farið þannig fram að hlutur stefnanda að fjárhæð 1.201.300 ISK hafi verið greiddur með skuldajöfnuði á afhendingardegi, sú fjárhæð jafngildir 8.000.133 EUR. Eftir standi skuld stefnda í 1.999.866 EUR, sem jafngildir 300.300.000 ISK sem sé höfuðstóll skuldar stefnda samkvæmt þessum samningi.
4) Samningur um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti auðkenndur með númer SW0000071386, með samningsdegi 3. október 2008 með afhendingardegi þann 10. október 2008. Samkvæmt samningnum hafi stefndi selt 956.600.000 ISK gegn afhendingu stefnanda á 10.000.000 EUR á samningsdegi, sem jafngildi gengi EUR á 95,66 gagnvart ISK á samningsdegi, gegn loforði um að selja stefnanda sama magn af EUR gegn afhendingu á 946.600.000 ISK á afhendingardegi 10. október 2008 sem jafngildir framvirku gengi EUR á 94,66 gagnvart ISK. Á afhendingardegi 10. október 2008 hafi gengi EUR gagnvart ISK verið 150,16 samkvæmt skráningu Seðlabanka Ísland á svokölluðu miðgengi. Uppgjör samningsins hafi farið þannig fram að hlutur stefnanda að fjárhæð 946.600.000 ISK hafi verið greiddur með skuldajöfnuði á afhendingardegi, sú fjárhæð jafngildi 6.303.942 EUR. Eftir standi skuld stefnda í 3.696.057 EUR, sem jafngildi 555.000.000 ISK sem sé höfuðstóll skuldar stefnda samkvæmt þessum samningi.
5) Samningur um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti auðkenndur með númer SW0000071387, með samningsdegi 3. október 2008 með afhendingardegi 10. október 2008. Samkvæmt samningnum hafi stefndi selt 964.200.000 ISK gegn afhendingu stefnanda á 10.000.000 EUR á samningsdegi, sem jafngildi gengi EUR á 96,42 gagnvart ISK á samningsdegi, gegn loforði um að selja stefnanda sama magn af EUR gegn afhendingu á 954.200.000 ISK á afhendingardegi 10. október 2008 sem jafngildi framvirku gengi EUR á 95,42 gagnvart ISK. Á afhendingardegi 10. október 2008 hafi gengi EUR gagnvart ISK verið 150,16 samkvæmt skráningu Seðlabanka Ísland á svokölluðu miðgengi. Uppgjör samningsins hafi farið þannig fram, samkvæmt stefnanda, að hlutur hans að fjárhæð 954.200.000 ISK hafi verið greiddur með skuldajöfnuði á afhendingardegi, sú fjárhæð jafngildir 6.354.555 EUR. Eftir standi skuld stefnda í 3.645.444 EUR, er jafngildir 547.400.000 ISK sem sé höfuðstóll skuldar stefnda samkvæmt þessum samningi.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að með tilkynningu 7. október 2009 hafi skilanefnd stefnanda lýst yfir skuldajöfnuði (innlausn á tryggingum) gagnvart stefnda vegna samninga um peningamarkaðslán og kröfu bankans á grundvelli samninga aðila um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti SW0000071385, SW0000071386 og SW0000071387. Alls hafi stefnandi skuldajafnað 451.480.232 kr. gagnvart skuldbindingum stefnda. Um framangreinda ráðstöfun stefnanda hafi fallið dómur Hæstaréttar Íslands 1. desember í máli nr. 129/2011. Samtals nemi höfuðstóll skuldar stefnda við stefnanda samkvæmt framangreindum afleiðusamningum, eftir skuldajöfnuð þann 7. október 2009, 3.131.914.352 kr.
Stefnandi byggir heimild sína til skuldajöfnunar á 4. gr. almennra skilmála stefnanda fyrir markaðsviðskipti. Enn fremur byggir hann á almennum reglum kröfuréttar um skuldajöfnun samrættra krafna. Stefnandi vísar til þess að við umreikning fjárhæða í íslenskar krónur sé notast við skráð gengi Seðlabanka Íslands. Dráttarvaxtakrafa stefnanda sé miðuð við lokadag framangreindra afleiðusamninga stefnanda og stefnda, en það sé jafnframt gjalddagi þeirra, samkvæmt heimild í almennum skilmálum um viðskipti aðila.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, þá sérstaklega V. kafla laganna. Kröfur um dráttarvexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 einkum 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. Krafa hans um málskostnað byggist á XXI. kafla laga. nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.
Málsástæður stefnda
Stefndi vísar til stuðnings sýknukröfu sinni í fyrsta lagi til þess að hinir umdeildu afleiðusamningar aðila hafi fallið niður sökum yfirlýsinga stefnanda um að bankinn myndi ekki inna af hendi greiðslur á grundvelli samninganna eftir fall bankans 7. október 2008. Með almennri tilkynningu til viðskiptavina sinna hinn 27. október 2008 hafi stefnandi upplýst hvernig yrði farið með uppgjör afleiðusamninga. Í tilkynningunni segir m.a.: „Viðskiptamenn sem ekki kjósa að flýta uppgjöri í samkomulagi við Gamla Glitni verða krafðir um greiðslur í samræmi við viðkomandi samninga. Hins vegar liggur fyrir að samkvæmt ákvörðun skilanefndar verða kröfur sem viðskiptamenn eiga á hendur Gamla Glitni að meginstefnu ekki greiddar að svo stöddu.“ Eftir fall bankanna hafi upphaflega verið ákveðið af hálfu Fjármálaeftirlitsins, sbr. ákvörðun er varðar ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., dags. 9. október 2008, að nýju bankarnir skyldu taka yfir réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum. Þann 12. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um að breyta fyrri ákvörðun sinni með þeim hætti að afleiðusamningar skyldu ekki flytjast yfir til nýju bankanna. Samkvæmt ákvörðuninni hafi verið talið að Nýi Landsbanki Íslands hf., í þessu tilfelli, myndi vanefna skuldbindingar samkvæmt þeim samningum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins varðandi ráðstöfun eigna og skulda stefnanda hafi byggt á fyrri ákvörðunum eftirlitsins varðandi Landsbanka Íslands hf. og hafi því réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum aðila ekki flust yfir til hins nýstofnaða banka.
Stefndi bendir á að á gjalddaga samninganna þriggja um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti hinn 10. október 2008 hafi legið ljóst fyrir af hálfu stefnanda að samningar sem fælu í sér greiðslur frá stefnanda til stefnda yrðu ekki inntar af hendi og jafnframt að ekki væri kostur á að framlengja umrædda samninga. Þetta hafi síðan verið staðfest með tilkynningu bankans 27. október 2008. Samkvæmt samningunum hafi aðilar skuldbundið sig til að skiptast á greiðslum á gjalddögum þeirra. Hafi umræddir samningar ítrekað verið framlengdir um nokkurra mánaða skeið og telur stefndi ekki unnt að líta einangrað á síðustu samningana, heldur verði að líta til samningslotunnar í heild. Við gerð samninganna í upphafi hafi stefndi mátt treysta því að félagið gæti haft val áfram um að framlengja samningana, ef það kysi, ef það vildi freista gæfunnar og treysta því að breytingar yrðu á þeim breytum sem samningarnir byggðust á til lengri tíma. Sú hafi ekki orðið raunin þar sem stefndi hafi lokast inni með framangreinda samninga vegna þeirra ófyrirsjáanlegu atburða, út frá sjónarhóli stefnda, sem hafi átt sér stað í íslensku efnahagslífi haustið 2008 og við það að Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar stefnanda í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, þann 7. október 2008. Þá hafi jafnframt verið fyrirséð að stefnandi myndi ekki standa stefnda skil á vaxtagreiðslum á næstu vaxtagjalddögum gjaldmiðlaskiptasamninganna sem hafi verið í desember 2008. Með einhliða yfirlýsingum stefnanda um að samningar yrðu ekki efndir af hálfu bankans telur stefndi að allir samningarnir fimm hafi fallið niður sökum riftunar.
Stefndi bendir á að hvorki í skilmálum samninga aðila, almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda, né almennum skilmálum um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga, sé að finna heimild til handa stefnanda til að ljúka afleiðusamningum með einhliða yfirlýsingu af sinni hálfu. Einu heimildir stefnanda til að loka umræddum samningum hafi verið með gjaldfellingu þeirra ef kæmi til vanefnda stefnda á skuldbindingum sínum samkvæmt samningunum. Stefnandi hafi ekki tilkynnti stefnda um fyrirhugaða gjaldfellingu samninganna, eins og honum hafi borið samkvæmt almennu viðskiptaskilmálunum, og heldur ekki lýst yfir gjaldfellingu samninganna, enda hafði stefndi ekki vanefnt samningana fyrir sitt leyti. Einhliða lokun stefnanda eða niðurfelling samninganna hafi því ekki átt sér stoð í samningsskilmálum eða þeim skilmálum sem um viðskipti aðila giltu. Tímaleg tilviljun um stöðu þeirra samninga sem um sé deilt í málinu, þegar illa fari fyrir stefnanda og hann verði ófær um að efna þá af sinni hálfu, eigi ekki að ráða uppgjöri málsaðila, eins og stefnandi krefst. Eftir að yfirlýsingar stefnanda liggi fyrir um að hann muni ekki efna sambærilega samninga og deilt sé um í þessu máli, nema þá sem unnt sé að reikna honum í hagnað, liggur í reynd fyrir einhliða yfirlýsing stefnanda um riftun þeirra af hans hálfu. Stefndi telur að honum hafi verið óskylt að standa við framangreinda afleiðusamninga á gjalddögum/vaxtagjalddögum þeirra þar sem gagnefndir hafi ekki staðið til boða af hálfu stefnanda. Telur hann afstöðu stefnanda þess efnis að samningarnir yrðu ekki efndir og ekki stæði til boða að framlengja framvirku samningana hafa falið í sér einhliða yfirlýsingu stefnanda um riftun samninganna og því beri að sýkna félagið um greiðslu á grundvelli þeirra.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að forsendur fyrir gerð umræddra afleiðusamninga hafi brostið haustið 2008 er stefnandi hafi orðið ófær um að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningunum. Samkvæmt innköllun í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta vegna stefnanda sem hafi birst í Lögbirtingablaðinu þann 26. ágúst 2009 komi fram það álit Fjármálaeftirlitsins að þann 3. október 2008 hafi stefnandi ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna tiltekinna reikninga þeirra viðskiptavina sem þess hafi krafist. Liggi því fyrir að þann 3. október 2008 hafi verið um vanefnd stefnanda að ræða samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningum og framvirkum gjaldmiðlasamningum aðila, og skipti þá ekki máli hver staða samninganna hafi verið á þeirri stundu. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 7. október 2008, um skipan skilanefndar fyrir Glitni banka hf. komi fram „það mat Fjármálaeftirlitsins að skilyrði 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki séu uppfyllt, í ljósi knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleika Glitnis banka hf., kerfislegs mikilvægis hans og þeirra keðjuverkandi áhrifa sem mögulegt gjaldþrot hans kynni að hafa á íslenska hagkerfið, enda telur Fjármálaeftirlitið önnur úrræði þess ekki líkleg til að bera árangur“. Með vísan til framangreinds telur stefnda ljóst að yfirlýsingar stefnanda um að hann hygðist ekki standa við skuldbindingar sínar samkvæmt afleiðusamningum megi rekja til þess að bankinn hafi í reynd verið ógjaldfær. Þegar Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald hluthafafundar bankans í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, þann 7. október 2008, hafi stefnandi jafnframt orðið ófær um að stýra umræddum samningum og að framlengja þá. Þá þegar hafi eðli eðli samninganna breyst úr því að vera tvíhliða í það að vera einhliða. Afleiðing ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sé óumdeilt sú að stefnandi hafi orðið ófær um að efna aðalskyldu samningsins við ýmsar markaðsaðstæður. Frá þeim tíma hafi jafnframt orðið ljóst að stefnandi myndi ekki greiða hagnað sem kynni að verða af samningunum og falla ætti í hlut stefnda við uppgjör, eða vexti af gjaldmiðlaskiptasamningunum. Þrátt fyrir það hafi stefnandi krafist þess að stefndi greiddi þann hagnað sem falla ætti í hlut stefnanda við uppgjör eins og markaðsaðstæður hafi verið á nákvæmlega þeim tíma og greitt vexti sem félaginu hafi borið af gjaldmiðlaskiptasamningunum.
Eftir að stjórn stefnanda hafi leitað til Fjármálaeftirlitsins hafi stefndi engan mögulegan hag haft af umræddum samningum sama hvernig markaðsaðstæður kynnu að þróast. Stefndi hefði aldrei stofnað til umræddra gjaldmiðlaskiptasamninga við stefnanda hefði félagið séð fyrir eða mátt sjá fyrir að stefnandi gæti krafist þess að bankinn yrði ekki bundinn af samningunum ef staðan yrði sú við gjalddaga þeirra að stefnandi ætti að greiða uppgjörsfjárhæð til stefnda.
Við mat á því hvort forsendur samningsgerðarinnar hafi brostið, telur stefndi að sérstaklega verði að hafa í huga umsvif stefnanda á gjaldeyrismarkaði sem kunni að hafa ýtt undir fall krónunnar og þar með eigin sök stefnanda. Vísar stefndi í þessu samhengi til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá 12. apríl 2010 um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði.
Í þriðja lagi byggir stefndi á því að afleiðusamningar aðila séu ógildir á grundvelli 31. og 33. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefnandi hafi haft yfirburði við samningsgerðina og með viðskiptum sínum á gjaldeyrismarkaði haft áhrif á þær miklu sveiflur sem hafi orðið á gjaldeyrismarkaði. Gríðarlegar sveiflur hafi orðið á gjaldeyrismarkaði í aðdraganda bankahrunsins, einkum í september og október 2008. Þá hafi gjaldeyrismarkaðurinn að mestu verið lokaður og stefndi nauðbeygður til þess að framlengja samninga sína hjá stefnanda, enda ekki aðrir skynsamir valkostir í stöðunni. Stefnandi hafi hagnast á umræddum samningum á grundvelli yfirburðarstöðu sinnar í viðskiptum aðila. Hann hafi verið umsvifamikill á gjaldeyrismarkaði og hafi því haft tækifæri til þess að hafa áhrif á virði umræddra samninga, þegar stefndi hafi ekki haft slík tækifæri. Þá sé óheiðarlegt af stefnanda að bera umrædda samninga fyrir sig þar sem hann hafi vitað er samningarnir hafi verið gerðir í hvað stefndi.
Í fjórða lagi byggir stefndi á því að afleiðusamningar aðila séu ógildir á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Þó svo að talið verði að aðstæður við samningsgerðina hafi verið eðlilegar geta atvik sem síðar komu til leitt til þess að talið yrði ósanngjarnt að bera samning fyrir sig. Þær hamfarir sem hafi orðið í íslensku efnahagslífi haustið 2008 með falli krónunnar, setning hinna svokölluðu neyðarlaga og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um yfirtöku stefnanda hljóti að teljast til slíkra atvika, enda verði þau til þess að forsendur fyrir gerð samninganna bresta alfarið. Staða samningsaðilanna, sérstaklega sá aðstöðumunur sem sé á samningsaðilum sökum umsvifa stefnanda á gjaldeyrismarkaði, atvik við samningsgerðina og sérstaklega atvik sem síðar komu til leiði hins vegar til þess að ósanngjarnt sé af hálfu stefnanda að bera umrædda samninga fyrir sig,
Varakröfu sína um lækkun dómkrafna byggir stefndi í fyrsta lagi á því að þeir samningar sem stefnandi byggi kröfugerð sína á séu mismunandi og ekki sjálfgefið að sama niðurstaða eigi að gilda um þá alla. Í öðru lagi vísar stefndi til sanngirnisástæðna. Byggi stefndi varakröfu sína á öllum sömu málsástæðum og reifaðar hafi verið við aðalkröfu hans eftir því sem við geti átt.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008, einkum 100. gr. a laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum 31., 33. og 36. gr. og til laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, einkum 5. og 8. gr. Kröfu sína um málskostnað styður hann við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu deila málsaðilar um uppgjör vegna afleiðusamninga, þ.e. tveggja gjaldmiðlaskiptasamninga og þriggja samninga um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að samningarnir hafi fallið niður fyrir riftun, forsendur samninganna hafi brostið og þeir séu ógildanlegir á grundvelli 31., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Um að samningarnir hafi fallið niður fyrir riftun
Stefndi byggir á því að sú sérstaka aðstaða sem hafi verið uppi eftir fall stefnanda í október 2008 og síðari yfirlýsingar hans um að samningar yrðu ekki efndir leiði til þess að líta megi svo á að samningarnir væru fallnir niður sökum riftunar. Vísar stefndi sérstaklega til almennrar tilkynningar sem stefnandi sendi í tölvupósti til viðskiptavina sinna hinn 27. október 2008. Af hálfu stefnanda hefur þessari málsástæðu verið mótmælt og m.a. bent á það tómlæti sem stefndi hefði sýnt af sér við að halda henni fram. Að mati dómsins er ekkert í málinu sem styður að stefndi hafi litið svo á haustið 2008 að samningar hans við stefnanda væru fallnir niður sökum riftunar. Bar hann fyrst fyrir sig þessa málsástæðu með greinargerð sem lögð var fram 22. mars 2012, þ.e. rúmum þremur árum eftir að hann telur að samningarnir hafi fallið niður. Samt sem áður höfðu mál tengd samningunum þremur um gjaldmiðlaviðskipti og framvirk gjaldmiðlaviðskipti áður verið til umfjöllunar hjá dómstólum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 1. desember 2011, í málinu nr. 129/2011 er varðaði heimild stefnanda til skuldajöfnunar við uppgjör á þeim. Er því fallist á það með stefnanda að stefndi hafi með þessu tómlæti sínu glatað rétti til að bera fyrir sig að umræddir samningar hafi fallið niður sökum riftunar hafi rétturinn á annað borð verið til staðar. Nær sýknukrafa stefnda því ekki fram að ganga á þessari forsendu.
Um að forsendur samninganna hafi brostið
Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi haustið 2008 orðið ófær um að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningunum. Það hafi verið ákvörðunarástæða stefnda við samningsgerðina að stefnandi gæti staðið við samningana og hafi stefnanda verið sú ákvörðunarástæða ljós, eða mátt vera það. Við mat á þessari málsástæðu ber að hafa í huga eðli umræddra afleiðusamninga. Með þeim samþykkir samningsaðili að kaupa eða selja tiltekin verðmæti á fyrir fram ákveðnu verði og tíma, meðal annars til að eyða áhættu í viðskiptum, eins og tilgangur stefnda var, eða til spákaupmennsku, þar sem veðjað er á tiltekna þróun fram að gjalddaga. Verður því að líta til þess að með samningum tók stefndi áhættu af þróun gjaldmiða í von um hagstæða framvindu að gjalddaga. Sú áhætta verður almennt ekki takmörkuð við að hagnaður eða tap sé innan einhverra marka. Skylda stefnda samkvæmt samningunum var skýr og hann tók áhættuna af því hvernig mál þróuðust. Jafnframt setti stefndi ekki fram neinar forsendur við samningsgerðina og þá hefur ekki annað komið fram í málinu en að samningarnir hafi í reynd verið efndir af hálfu stefnda með skuldajöfnuði. Geta brostnar forsendur ekki leitt til þess að stefndi losni undan skyldu til að efna umrædda samninga af sinni hálfu og nær sýknukrafa hans heldur ekki fram að ganga á þessari málsástæðu.
Um ógildingu á grundvelli 31., og 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936
Stefndi byggir á því að afleiðusamningar aðila séu ógildir á grundvelli 31. og 33. gr. laga nr. 7/1936 þar sem stefnandi hafi haft yfirburði við samningsgerðina og með viðskiptum sínum á gjaldeyrismarkaði haft áhrif á þær miklu sveiflur sem hafi orðið á gjaldeyrismarkaði. Þá telur hann samningana ógilda á grundvelli 36. gr. sömu laga og vísar til þess að þær hamfarir sem hafi orðið í íslensku efnahagslífi haustið 2008 með falli krónunnar, setningu hinna svokölluðu neyðarlaga og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um yfirtöku stefnanda hljóti að teljast til síðar tilkominna atvika í skilningi ákvæðisins, enda verði þau til þess að forsendur fyrir gerð samninganna bresta alfarið og ósanngjarnt sé af hálfu stefnanda að bera samningana fyrir sig.
Við mat á þessum málsástæðum stefnda verður að horfa til þess að hann var umsvifamikill í alþjóðlegum fjárfestingum. Enn fremur liggja fyrir gögn sem sýna fram á að stefnda hafi, er umræddir afleiðusamningar voru gerðir, verið kunnugt um að blikur væru á lofti á fjármálamörkuðum, sbr. það sem fram kemur í níu mánaða uppgjöri stefnda árið 2008. Verður því að telja að málsaðilar hafi verið jafnsettir við samningsgerðina. Þá kemur skýrt fram í samningum aðila að stefndi hefði kynnt sér eðli þeirra og notið sérfræðiráðgjafar annarra en stefnanda áður en hann undirritaði samningana. Stefndi hefur ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að stefnandi hafi haft áhrif á sveiflur á gjaldeyrismarkaði. Verður enn fremur að horfa til eðlis umræddra samninga sem fela í sér að stefndi tók við samningsgerðina áhættu af þróun gjaldmiðla. Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að við samningsgerðina eða síðar hafi verið fyrir hendi atvik sem valda ógildingu samninganna á grundvelli 31. gr. eða 33. gr. laga nr. 7/1936 eða því að þeim verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. sömu laga verður þessum lagaákvæðum ekki beitt við úrlausn málsins.
Um varakröfu stefnda
Varakröfu stefnda um lækkun dómkrafna byggir hann á sömu málsástæðum og reifaðar voru vegna aðalkröfu hans eftir því sem við getur átt. Þar sem komist hefur verið að því að þær málsástæður eiga ekki við rök að styðjast er lækkunarkröfu stefnda hafnað.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 3.131.914.352 kr. ásamt dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði en ekki er unnt, gegn andmælum stefnanda, að taka til greina kröfu stefnda, sem fyrst kom fram í munnlegum málflutningi, um breyttan upphafstíma dráttarvaxta.
Þá ber með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.500.000 kr.
Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Arorka Group hf., greiði stefnanda, Glitni hf. 3.131.914.352 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.402.700.000 kr. frá 10. október 2008 til 13. september 2009 en af 3.583.394.584 kr. frá þeim degi til 7. október 2009 og af 3.131.914.352 kr. frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 kr. í málskostnað.