Hæstiréttur íslands

Mál nr. 405/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                                                                                                 

Þriðjudaginn 5. október 1999.

Nr. 405/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður l. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Talið var L hefði ekki rökstutt á viðhlítandi hátt hvernig X kynni að torvelda rannsókn máls ef hann sætti ekki gæsluvarðhaldi þannig að skilyrði til gæsluvarðhalds væru fyrir hendi samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hins vegar var talið að færðar hefðu verið nægar líkur fyrir því að ætla mætti að X mundi halda áfram afbrotum ef ekki kæmi til gæsluvarðhalds og var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. nóvember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 1999 gerði sóknaraðili kröfu um að varnaraðila, með kennitölu [...] og dvalarstað að [...] í Reykjavík, yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. nóvember nk. kl. 16. Efni bréfsins er að öðru leyti tekið í meginatriðum upp orðrétt í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir nánar hafði varnaraðili neitað að tjá sig um sakarefnið fyrir lögreglu. Þegar krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald var tekin fyrir á dómþingi gaf varnaraðili hins vegar skýrslu, þar sem hann gekkst að verulegu leyti við þeim sökum, sem hann var borinn. Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt nýja skýrslu, sem varnaraðili gaf fyrir lögreglu. Þar áréttaði hann framburð sinn fyrir dómi og gaf í nokkrum atriðum nánari skýringar. Í þessu ljósi eru ekki efni til að fallast á með sóknaraðila að skilyrði séu fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila samkvæmt ákvæði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Í hinum kærða úrskurði er greint frá sakaferli varnaraðila ásamt ákæru, sem sóknaraðili gaf út á hendur honum 28. september sl., og sex öðrum auðgunarbrotum, sem hann hefur gengist við að hafa framið á undangengnum tveimur mánuðum. Að gættu þessu og þeim brotum, sem varnaraðili hefur nú viðurkennt að hafa framið aðfaranótt 1. október sl., má fallast á að færðar hafi verið nægar líkur fyrir að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið, ef ekki komi til gæsluvarðhalds. Samkvæmt þessu og með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Það athugast að í hinum kærða úrskurði er sem fyrr segir rakinn orðrétt meginhluti kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald og með stuttum rökstuðningi tekin afstaða til hennar, í stað þess að greina frá aðild að málinu, kröfum aðilanna, helstu atvikum og röksemdum fyrir kröfum, eins þau atriði voru fram komin eftir meðferð málsins fyrir dómi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 1999.

Í greinargerð lögreglu kemur eftirfarandi fram:

[...]

Með vísan til rannsóknargagna og í ljósi þess að rannsókn málsins er enn á frumstigi má fallast á nauðsyn þess að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi með vísan til a- liðar 1 mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt gögnum málsins hefur sakborningur langan og að því er virðist samfelldan afbrotaferil að baki sem telja verður yfirgnæfandi líkur á að muni halda áfram fari sakborningur frjáls ferða sinna. Er því fallist á gæsluvarðhaldskröfu eins og hún er fram sett sbr. a- og c- lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Sakborningur, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. nóvember 1999 kl. 16:00.