Hæstiréttur íslands

Mál nr. 29/2000


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Samkeppni
  • Lögbann
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Miðvikudaginn 31

 

Miðvikudaginn 31. maí. 2000.

Nr. 29/2000.

Fínn miðill ehf.

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Jóni G. Kristinssyni og

Sigurjóni Kjartanssyni

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

                                              

Vinnusamningur. Samkeppni. Lögbann. Kröfugerð. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.

 

J og S störfuðu sem dagskrárgerðarmenn við útvarpsstöð F samkvæmt tímabundnum ráðningarsamningum, en hættu störfum áður en ráðningartími þeirra var liðinn. F fékk lagt lögbann við því að J og S störfuðu hjá hlutafélaginu N, þar sem hann taldi þá hafa ráðið sig, eða hjá öðrum nánar tilteknum félögum, fyrr en að loknum gildistíma samninga þeirra við F, en í þessum samningum var kveðið á um að J og S væri óheimilt að starfa beint eða óbeint við útvarp eða sjónvarp á gildistíma samninganna nema með samþykki F. Talið var að kröfugerð F í máli, sem það höfðaði til staðfestingar lögbanninu, væri andstæð 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., þar sem F hafði ekki jafnframt krafist dóms um þau réttindi sem lögbanninu væri ætlað að vernda. Þetta þótti þó ekki leiða til frávísunar málsins. Ekki kom til álita krafa F um að hrundið yrði niðurstöðu héraðsdóms um að vísa frá kröfu F um að staðfest yrði að háttsemi J og S hefði verið ólögmæt, þar sem áfrýjandi hefði þurft að kæra þetta ákvæði héraðsdóms til að koma fram endurskoðun á því. Þótt óumdeilt væri að J og S hefði brostið heimild til að láta af störfum hjá F með áðurgreindum hætti, var ekki talið að samningsákvæðið um að þeim væri óheimilt að starfa beint eða óbeint við útvarp eða sjónvarp fæli það skýrlega í sér að það gæti átt sjálfstæðan gildistíma óháð afdrifum meginefnis samningsins um vinnusamband milli aðilanna. Þótti F verða bera hallann af óskýrleika samningsins að þessu leyti og var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu F um staðfestingu lögbannsins staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 2000. Hann krefst þess að staðfest verði lögbann, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 18. nóvember 1999 við því að stefndu starfi hjá eða fyrir Norðurljós rekstrarfélag hf., Norðurljós samskiptafélag hf. eða Íslenska útvarpsfélagið hf. eða eigi fjárhagslegra hagsmuna að gæta hjá þessum félögum fyrr en eftir 30. júní 2000. Hann krefst þess einnig að staðfest verði með dómi að ólögmæt hafi verið sú háttsemi stefndu að leggja fyrirvaralaust niður störf hjá sér, en um leið verði þá hrundið niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að vísa þeirri kröfu frá héraðsdómi. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.

I.

Með hinum áfrýjaða dómi var vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi áðurgreindri kröfu áfrýjanda um að staðfest yrði að sú háttsemi stefndu, að leggja fyrirvaralaust niður störf hjá honum, hafi verið ólögmæt. Til að koma fram endurskoðun á þeirri niðurstöðu héraðsdóms hefði áfrýjandi þurft að kæra til Hæstaréttar ákvæði hans um frávísun eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í dómasafni 1994, bls. 1293 og 2869.  Með því að þessa hefur ekki verið gætt verður dómkröfu áfrýjanda um þetta efni ekki komið að fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi fékk eins og áður greinir lagt lögbann 18. nóvember 1999 við því að stefndu starfi hjá eða fyrir Norðurljós rekstrarfélag hf., Norðurljós samskiptafélag hf. eða Íslenska útvarpsfélagið hf. eða eigi fjárhagslegra hagsmuna að gæta hjá þessum félögum fyrr en eftir 30. júní 2000. Hann höfðaði í kjölfarið málið með birtingu stefnu, sem var gefin út af dómstjóranum í Reykjavík 24. nóvember 1999. Að frátalinni þeirri kröfu, sem um ræðir hér að framan, gerði áfrýjandi eingöngu þá dómkröfu í héraðsdómsstefnu að lögbannið yrði staðfest, svo og að stefndu yrðu dæmdir til að greiða málskostnað. Var því engin krafa gerð um þau réttindi, sem áfrýjandi leitaði verndar á til bráðabirgða með lögbanni. Kröfugerð áfrýjanda, sem er á sama veg fyrir Hæstarétti, er að þessu leyti í andstöðu við þá reglu 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. að leita skuli í einu og sama máli dóms um staðfestingu á lögbanni og þau réttindi, sem lögbanni var ætlað að vernda, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 1499. Þessi annmarki á málatilbúnaði áfrýjanda getur þó ekki einn og sér valdið því að málinu verði í heild vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi, en áfrýjandi yrði þá að sæta því að dómur honum í vil mundi ekki fela í sér heimild til aðfarar, sem leyst gæti af hólmi bráðabirgðavernd réttinda hans með lögbanni.

II.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi gerðu stefndu samning við áfrýjanda 12. ágúst 1998, þar sem þeir réðu sig til starfa hjá honum frá 1. nóvember 1998 til 31. desember 1999. Ráðningartími stefndu var framlengdur til 30. júní 2000 með nýjum samningi aðilanna 9. september 1999. Stefndu tilkynntu áfrýjanda 3. nóvember 1999 að þeir væru frá þeim tíma að telja hættir störfum hjá honum, en sama dag var gert opinbert að þeir hefðu gert samning við „Norðurljós“ um störf í þágu þess félags. Óumdeilt er í málinu að stefndu hafi brostið heimild til að láta á þennan hátt af störfum hjá áfrýjanda. Um það er hins vegar deilt hvort ákvæði í fyrrnefndum samningum milli aðilanna hafi staðið í vegi fyrir að stefndu tækju upp störf hjá öðrum vinnuveitanda fyrir lok umsamins ráðningartíma þeirra hjá áfrýjanda. Áfrýjandi telur svo vera og skírskotar í því sambandi til ákvæðis, sem var efnislega á sama veg í báðum samningum aðilanna, en í þeim síðari var það svohljóðandi: „Starfsmenn eru ráðnir sem dagskrárgerðarmenn á útvarpsstöðina X-ið með umsjón á þættinum Tvíhöfða. Starfsmönnum er óheimilt að starfa beint eða óbeint við útvarp og/eða sjónvarp á gildistíma samnings þessa, nema með samþykki atvinnurekanda. Starfsmönnum er jafnframt óheimilt, án sérstaks samþykkis atvinnurekanda, að eiga beint eða óbeint fjárhagslegra hagsmuna að gæta hjá fyrirtæki sem að einhverju leyti rekur starfsemi á sama sviði og atvinnurekandi. Starfsmönnum er óheimilt að starfa hjá eða fyrir slík fyrirtæki t.d. í stjórn þeirra, nefndum eða sem ráðgjafar án samþykkis atvinnurekanda.“

Stefndu slitu ráðningarsamningi sínum við áfrýjanda 3. nóvember 1999 með þeim gerðum, sem áður er getið. Orðalag samningsákvæðisins, sem er rakið hér að framan, felur ekki skýrlega í sér að það geti átt sjálfstæðan gildistíma til 30. júní 2000 óháð afdrifum meginefnis samningsins um vinnusamband á milli aðilanna. Áfrýjandi verður að bera hallann af óskýrleika samningsins að þessu leyti. Verður því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu stefndu af kröfu áfrýjanda um staðfestingu lögbanns.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

 

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2000.

 

I

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 3. desember 1999 og dómtekið 4. þ.m.

Stefnandi er Fínn miðill ehf., kt. 490597-3959, Aðalstræti 6, Reykjavík.

Stefndu eru Jón G. Kristinsson, kt. 020167-3439, Hringbraut 102, Reykjavík og Sigurjón Kjartansson, kt. 200968-5659, Gautavík 19, Reykjavík.

Stefnandi gerir þessar dómkröfur:

1.Að staðfest verði lögbann sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði þann 18. nóvember 1999 við því að stefndu störfuðu hjá eða fyrir  Norðurljós rekstrarfélag hf., Norðurljós samskiptafélag hf. eða Íslenska útvarpsfélagið hf. eða ættu fjárhagslegra hagsmuna að gæta hjá sömu aðilum fyrr en eftir 30. júní árið 2000.

2.Að staðfest verði með dómi að sú háttsemi stefndu að leggja fyrirvaralaust niður störf hjá stefnanda hafi verið ólögmæt.

3.Að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda óskipt málskostnað.

Stefndu krefjast þess að synjað verði kröfu stefnanda um staðfestingu lögbanns.  Einnig krefjast þeir þess að verða sýknaðir af málskostnaðarkröfu stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða þeim  óskipt málskostnað. 

 

II

Með samningi 12. ágúst 1998 voru stefndu ráðnir starfsmenn stefnanda frá 1. nóvember 1998 til 31. desember 1999 en að þeim tíma liðnum skyldi samningurinn falla sjálfkrafa niður án uppsagnar.  Samningurinn kvað á um að stefndu skyldu sem dagskrárgerðarmenn á einni af útvarpsstöðvum stefnanda, X – inu, hafa umsjón „á“ þættinum Tvíhöfða.  Þann 9. september 1999 gerðu sömu aðilar með sér annan ráðningarsamning þar sem stefndu skuldbundu sig til að hafa áfram umsjón með sama þætti að loknum fyrri samningstíma, eða frá 1. janúar árið 2000 til 30. júní s.á.

Í 2. gr. beggja samninganna eru svofelld ákvæði:

„Starfsmanni er óheimilt að starfa beint eða óbeint við  útvarp og/eða sjónvarp á gildistíma samnings þessa, nema með samþykki atvinnurekanda.

Starfsmanni er óheimilt án sérstaks samþykkis atvinnurekanda að eiga beint eða óbeint fjárhagslegra hagsmuna að gæta hjá fyrirtæki sem að einhverju leyti rekur starfsemi á sama sviði og atvinnurekandi ef það er í samkeppni við það.  Starfsmanni er óheimilt að starfa hjá eða fyrir slík fyrirtæki t.d. sem stjórnarmaður, nefndarmaður eða ráðgjafi án samþykkis atvinnurekanda.“

Stefndu tilkynntu útvarpsstjóra stefnanda munnlega eftir útsendingu þáttar þeirra 3. nóvember 1999 að þeir væru hættir störfum fyrir stefnanda og hafa þeir ekki eftir það mætt til vinnu hjá honum.  Síðar sama dag var boðað til blaðamannafundar þar sem tilkynnt var að „Norðurljós“ og stefndu hefðu gert með sér langtímasamning um samstarf á sviði fjölmiðlunar og dreifingar á skemmtiefni.

Stefnandi krafðist þess með bréfi til sýslumannsins í Reykjavík, dags. 10. nóvember 1999, að:

1.Lögbann yrði lagt við því að gerðarþolarnir Jón G. Kristinsson og Sigurjón Kjartansson störfuðu hjá eða fyrir gerðarþolana Norðurljós rekstrarfélag hf., Norðurljós samskiptafélag hf. eða Íslenska útvarpsfélagið hf. eða ættu fjárhagslegra hagsmuna að gæta hjá sömu aðilum fyrr en eftir 30. júní 2000.

2.Lögbann yrði lagt við því að gerðarþolarnir Norðurljós rekstrarfélag hf., Norðurljós samskiptafélag hf. og Íslenska útvarpsfélagið hf. fælu gerðarþolunum Jóni G. Kristinssyni og Sigurjóni Kjartanssyni, beint eða óbeint, störf fyrr en eftir 30.  júní 2000.

Við fyrirtöku lögbannsgerðarinnar þann 18. nóvember 1999 var bráða-birgðatrygging gerðarbeiðanda að upphæð 1.000.000 krónur metin fullnægjandi. Með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 var synjað að leggja lögbann við því að Norðurljós rekstrarfélag hf., Norðurljós samskiptafélag hf. og Íslenska útvarpsfélagið hf. feli stefndu í máli þessu beint eða óbeint störf fyrr en eftir 30. júní árið 2000.  Með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 var lagt lögbann við því að stefndu í máli þessu starfi hjá eða fyrir Norðurljós rekstrarfélag hf., Norðurljós samskiptafélag hf. eða Íslenska útvarpsfélagið hf. eða eigi fjárhagslegra hagsmuna að gæta  hjá sömu aðilum fyrr en eftir 30. júní árið 2000.

Í stefnu segir að þau félög, sem lögbannskrafan beindist að, séu eftir því sem næst verði komist í eigu sömu aðila, þau hafi sama tilgang og fyrirsvarsmaður þeirra sé hinn sami.  Í fjölmiðlum hafi þess jafnan verið getið að „Norðurljós“ hafi gert hinn nýja samning við stefndu.  

 

III

Stefnandi kveður þá háttsemi, sem lögbann hafi verið lagt við, þegar vera hafna.  Stefndu hafi ítrekað komið fram í fjölmiðlum og staðfest að þeir hafi gengið til samninga við Norðurljós, m.a. um dreifingu á útvarpsþætti Tvíhöfða.  Þeir hafi ennfremur staðfest að þeir  hyggist  hefja störf fyrir Norðurljós upp úr áramótum.

Stefnandi kveðst eiga verulegra hagsmuna að gæta af því að lögbannið verði staðfest.  Hagsmunir stefndu af því að geta brotið lögvarin réttindi stefnanda séu hins vegar ekki slíkir að þeir geti notið lögverndar.

Þá byggir stefnandi kröfur sínar á því að það tjón, sem hljótast muni af háttsemi stefndu, verði ekki nema að hluta til bætt með skaðabótum, m.a. af eftir­farandi ástæðum:

a)Mjög örðugt sé að færa sönnur fyrir því hvað valdi skerðingu á hlustun á útvarpsstöð eða tiltekna dagskrárliði hennar.  Stefnanda sé því afar örðugt að færa fram nákvæmar tölulegar sannanir fyrir því tjóni sem við blasi að hann verði fyrir.

b)Viðskiptavild og ásýnd stefnanda sé mikil hætta búin vegna brotthvarfs stefndu.  Ráðningarsamband stefnanda við þá hafi ekki verið venjulegt vinnuréttarsamband þar sem þeir hafi verið „ásýnd“ stöðvarinnar í þeim skilningi að þeir hafi verið fulltrúar hennar gagnvart áheyrandanum.  Samningssamband stefndu við „Norðurljós“ sé gróf atlaga að viðskiptavild stefnanda sem verði aldrei bætt með skaðabótum.

c)Ráðstöfun stefndu hafi verið fyrirvaralaus og stefnandi hafi því ekki átt þess kost að takmarka áhrif brotthvarfs þeirra með því að leggja drög að nýjum dagskrárliðum og verja viðskiptavild félagsins.

 

IV

Af hálfu stefndu er því haldið fram að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 fyrir lögbanni sé að engu leyti fullnægt.  Þá fullnægi lögbannsákvörðun sýslumanns, að því er taki til hinna fjárhagslegu hagsmuna, ekki lokamálslið 1. mgr. 31. gr. laga nr. 31/1990 um skýrleika.

Stefndu hafi kosið að víkja frá gerðum ráðningarsamningum.  Vinnuréttarlegir hagsmunir stefnanda hafi þá verið úr sögunni og kunni hann að hafa öðlast skaða-bótarétt á hendur stefndu vegna ólögmætrar riftunar þeirra á vinnusamningi.  Er því haldið fram að til lúkningar á málum sínum gagnvart stefnanda hafi stefndu boðið greiðslu skaðabóta.  Það séu hins vegar ekki rök fyrir  lögbanni að stefnanda kunni að vera örðugt að sanna skaðabótakröfu.  Bannákvæði  í ráðningarsamningunum hafi verið ætlað að vernda þá vinnuréttarlegu hagsmuni stefnanda að hafa stefndu óskipta í störfum fyrir sig.  Ákvæðinu hafi hins vegar ekki verið ætlað að vernda sam-keppnishagsmuni stefnanda þar sem stefndu hafi verið frjálst að vinna fyrir hvaða samkeppnisaðila sem var að loknum ráðningarsamningi.

 

V

Ákvæði ráðningarsamninga um að stefndu sé óheimilt að starfa beint eða óbeint við útvarp og/eða sjónvarp á gildistíma samninganna, nema með samþykki stefnanda, verða skilin þannig að með þeim hafi verið  áréttuð vinnuréttarleg skylda stefndu meðan starfssamband aðila héldist.  Því er ekki haldið fram af hálfu stefndu að einhliða slit þeirra á starfssamningi hafi helgast af lögmætum ástæðum enda er viðurkennt að til bótaskyldu þeirra geti komið.  Lögbann verður ekki réttlætt með örðugleikum stefnanda við að sanna tjón.

Skilyrðum 1. mgr. og 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 er ekki fullnægt fyrir því að umstefnt lögbann verði staðfest við  því að stefndu starfi hjá eða fyrir Norðurljós rekstrarfélag hf., Norðurljós samskiptafélag hf. eða íslenska útvarpsfélagið hf. fyrr en eftir 30. júní árið 2000.  Þegar vegna óskýrleika, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 31/1990, verður ekki fallist á kröfu stefnanda um staðfestingu lögbanns að því er tekur til þess að stefndu eigi fjárhagslegra hagsmuna að gæta hjá sömu aðilum á hinu sama tímabili.

Samkvæmt 25. gr. laga nr. 91/1991 ber að vísa frá dómi af sjálfsdáðum kröfu stefnanda um að staðfest verði með dómi að sú háttsemi stefndu að leggja fyrirvaralaust niður störf hjá stefnanda hafi verið ólögmæt, enda verður hann ekki talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að dæmt verði um kröfuna án tengsla við kröfu sem fullnægt verður með aðför. 

Synja ber staðfestingu lögbanns sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði  þann 18. nóvember 1999 við  því að stefndu starfi hjá eða fyrir Norðurljós rekstrarfélag hf., Norðurljós samskiptafélag hf. eða Íslenska útvarpsfélagið hf. eða eigi fjárhagslegra hagsmuna að gæta hjá sömu aðilum fyrr en eftir 30. júní árið 2000.

Sýkna ber stefndu af málskostnaðarkröfu stefnanda.  Stefnanda verður gert að greiða stefndu óskipt málskostnað sem er ákveðinn 225.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Framangreindri kröfu er vísað frá dómi.

Synjað er kröfu stefnanda, Fíns miðils ehf., um staðfestingu lögbanns sem sýslumaðurinn  í Reykjavík lagði þann 18. nóvember 1999 við því að stefndu, Jón G. Kristinsson og Sigurjón Kjartansson, starfi hjá eða fyrir Norðurljós rekstrarfélag hf., Norðurljós samskiptafélag hf. eða Íslenska útvarpsfélagið hf. eða eigi fjárhagslegra hagsmuna að gæta hjá sömu aðilum fyrr en eftir 30. júní árið 2000.

Stefnandi greiði stefndu óskipt 225.000 krónur í málskostnað.