Hæstiréttur íslands

Mál nr. 450/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Húsleit
  • Hald
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Mánudaginn 30

 

Mánudaginn 30. september 2002.

Nr. 450/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

 

Kærumál. Húsleit. Hald. Máli vísað frá héraðsdómi að hluta.

Kröfu X um að úrskurðarð yrði um lögmæti húsleitar, sem lögregla gerði á dvalarstað hennar, var vísað frá héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar segir að húsleitinni hafi verið lokið áður en X hafi krafist úrlausnar dómstóla um lögmæti hennar. Vegna þessa geti X ekki með vísan til 75. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála borið undir dómstóla hvort lögregla hafi mátt framkvæma leitina án dómsúrskurðar, enda geti X allt að einu fengið leyst úr atriðum varðandi lögmæti leitarinnar eða aðferðir við framkvæmd hennar í opinberu máli, sem kunni að verða höfðað um sakarefnið, eða með því að höfða einkamál til heimtu skaðabóta á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 3. maí 2002 í máli nr. 178/2002.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. september 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að úrskurðað yrði um lögmæti húsleitar, sem sóknaraðili gerði á dvalarstað varnaraðila 25. júlí sama árs, og þess að hald var þá lagt á dagbók í eigu hennar. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að leyst verði úr um lögmæti húsleitarinnar.

Varnaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdómara verði staðfest og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Eins og fram kom í dómi Hæstaréttar 2. september 2002 í máli nr. 361/2002 var varnaraðili handtekin aðfaranótt 25. júlí sama árs, þar sem hún dvaldist ásamt syni sínum í vinnuskúr við [] í Reykjavík. Sóknaraðili gerði í framhaldi af því leit á dvalarstað varnaraðila, þar sem lagt var hald á dagbók í eigu hennar. Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júlí 2002 krafðist varnaraðili þess að sóknaraðila yrði með vísan til 79. gr. laga nr. 19/1991 gert að skila henni umræddri dagbók. Var krafan tekin fyrir á dómþingi 31. sama mánaðar, þar sem sóknaraðili afhenti héraðsdómara rannsóknargögn málsins til skoðunar. Lögmaður, sem mættur var í þinghaldinu af hálfu varnaraðila, krafðist þess að fá eintak af þessum gögnum á grundvelli 43. gr. laga nr. 19/1991, en mótmælti því að þau yrðu ella lögð fyrir dómara. Héraðsdómari hafnaði þeirri kröfu varnaraðila, sem kærði hana til Hæstaréttar. Með fyrrnefndum dómi 2. september 2002 var hin kærða ákvörðun staðfest með vísan til þess að lögmaðurinn, sem hafði ekki verið skipaður verjandi varnaraðila, gæti ekki gert kröfu um gögnin á grundvelli 43. gr. laga nr. 19/1991. Var lögmaðurinn í framhaldi af því skipaður verjandi varnaraðila 6. sama mánaðar.

Þegar héraðsdómari tók málið fyrir að nýju 20. september sl. krafðist varnaraðili þess að úrskurðað yrði um lögmæti húsleitar sóknaraðila og haldlagningar á dagbókinni. Taldi héraðsdómari ljóst af upphaflegri kröfugerð varnaraðila að í málinu myndi reyna á lögmæti haldlagningarinnar og við mat á lögmæti hennar kæmi réttmæti húsleitarinnar óhjákvæmilega til skoðunar. Taldi því héraðsdómari með hinni kærðu ákvörðun að kröfur varnaraðila kæmust að í málinu.

II.

Húsleitinni, sem að framan greinir, var lokið áður en varnaraðili krafðist úrlausnar dómstóla um lögmæti hennar. Vegna þessa getur varnaraðili ekki með vísan til 75. gr. laga nr. 19/1991 borið undir dómstóla hvort sóknaraðili hafi mátt framkvæma leitina án dómsúrskurðar, enda getur varnaraðili allt að einu fengið leyst úr atriðum varðandi lögmæti leitarinnar eða aðferðir við framkvæmd hennar í opinberu máli, sem kann að verða höfðað um sakarefnið, eða með því að höfða einkamál til heimtu skaðabóta á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 3. maí 2002 í máli nr. 178/2002. Af þessum sökum verður að vísa frá héraðsdómi þeirri kröfu varnaraðila að úrskurðað verði um lögmæti húsleitarinnar.

Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ekki ráðið að ágreiningur sé uppi um heimild varnaraðila til að leggja fyrir dómstóla kröfu sína, sem lýtur að haldi á áðurnefndri dagbók hennar. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest að því er varðar þá kröfu.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, svo sem þeim var breytt með 38. gr. laga nr. 36/1999.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi kröfu varnaraðila, X, um að úrskurðað verði um lögmæti húsleitar, sem sóknaraðili, lögreglustjórinn í Reykjavík, gerði á dvalarstað varnaraðila 25. júlí 2002.

Að öðru leyti er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2002.

Ár 2002, föstudaginn 20. september, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Eggerti Óskarssyni héraðsdómara.

Af hálfu sóknaraðila sækir þing Jón E. Jakobsson hrl.

Af hálfu varnaraðila sækir þing Katrín Hilmarsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

Rannsóknargögn málsins liggja frammi.  Þá liggur fyrir dómur Hæstaréttar frá 2. september sl. varðandi mál þetta.

Lögmaður sóknaraðila leggur fram nr. 4, ljósrit af skipunarbréfi og nr. 5, bókun verjanda.

Lögmaður varnaraðila lýsir því yfir að eftir skipun talsmanns sóknaraðila sem verjanda hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að hann fengi afrit af rannsóknargögnum málsins. 

Lögmaður varnaraðila lýsir því yfir að lögreglan hafi haldlagt dagbókina og hafi verið í lófa lagið að skoða dagbókina.  Eftir að fram var komin krafa um afhendingu dagbókarinnar hafi eftir atvikum verið ákveðið að skoða hana ekki frekar meðan málið væri til meðferðar fyrir dómi.  Að gefnu tilefni frá lögmanni sóknaraðila segir lögmaður varnaraðila að samkvæmt upplýsingum frá lögreglufulltrúa í viðkomandi rannsóknardeild hafi dagbókin ekki verið skoðuð eftir að málið kom til rannsóknar í þeirri deild.  Lögmaður varnaraðila upplýsir að hún hafi opnað dagbókina og tekið úr henni ökuskírteini og afhent sóknaraðila samkvæmt beiðni hennar.

Lögmaður sóknaraðila tekur fram að auk kröfugerðar sem fram kemur í kæru og greinargerð óski hann eftir því að úrskurðað verði um lögmæti leitar og haldlagningar.

Lögmaður varnaraðila hafnar því að þessi nýja og breytta kröfugerð sóknaraðila komist að í málinu.  Jafnframt lýsir lögmaður varnaraðila því yfir að því sé hafnað að aflétta haldlagningu dagbókarinnar.

 

Samkvæmt kröfugerð sóknaraðila í kæru og greinargerð er ljóst að reyna mun á lögmæti haldlagningar á dagbók sóknaraðila.  Í tengslum við mat á lögmæti þeirrar aðgerðar lögreglu er óhjákvæmilegt að réttmæti leitarinnar í heild komi einnig til skoðunar.

Er það því ákvörðun dómsins að viðbótarkröfugerð sóknaraðila komist að í málinu. 

Lögmaður varnaraðila tekur sér lögboðinn frest til athugunar á kæru til Hæstaréttar.

 

                                                                                                   .