Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-91

LS Retail ehf. (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
Norðurturninum hf. (Halldór Jónsson lögmaður), Íslandbanka hf. (Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður ) og til réttargæslu Annata ehf. (Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Húsaleigusamningur
  • Hlutafélag
  • Aðild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 4. mars 2019 leitar LS Retail ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. febrúar sama ár í málinu nr. 476/2018: LS Retail ehf. gegn Norðurturninum hf. og Íslandsbanka hf. og til réttargæslu Annata ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Norðurturninn hf. og Íslandsbanki hf. leggjast gegn beiðninni. Annata ehf. telur að verða eigi við umsókn um áfrýjunarleyfi.

Ágreiningur aðila lýtur að rétti leyfisbeiðanda til að setja upp vörumerki sitt á nánar tilgreindum stað á ytra byrði fasteignar að Hagasmára 3 í Kópavogi sem hann að hluta er leigutaki að eftir samningi við gagnaðilann Norðurturninn hf. en samkvæmt ákvörðun stjórnar síðarnefnda félagsins hefur gagnaðilinn Íslandsbanki hf. einn leigutaka heimild til að setja upp vörumerki sitt á umræddum stað. Landsréttur sem og héraðsdómur sýknuðu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda á þeim grunni að hann gæti ekki átt aðild að kröfu um ógildingu ákvörðunar stjórnar gagnaðilans Norðurturnsins hf. og færi um réttarsamband þeirra samkvæmt húsaleigusamningi. Þá var ekki talið að 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða meginreglum samningaréttar yrði neytt til að víkja til hliðar ákvæði í viðauka við húsaleigusamning leyfisbeiðanda og gagnaðilans Norðurturnsins hf. um að leyfisbeiðanda væri óheimilt að merkja sér húsið að utanverðu nema með sérstöku samkomulagi við leigusala. Voru ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, samkeppnislaga nr. 44/2005 eða laga nr. 45/1997 um vörumerki heldur ekki talin geta leitt til þess að kröfur leyfisbeiðanda næðu fram að ganga.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem skera þurfi úr um hvort ákvæði laga nr. 26/1994 gildi um réttarsamband sem þetta. Þá telur hann að málið geti haft áhrif á skýringu fjölda húsaleigusamninga sem hafi að geyma sambærilegt orðalag um réttindi leigutaka. Málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þar sem skuldbinding hans vegna leigusamningsins nemi rúmlega 1.000.000.000 krónum yfir leigutímann allan auk þess sem það varði ásýnd hans. Að lokum telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé að efni til rangur.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.