Hæstiréttur íslands
Mál nr. 426/2012
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Aðild
- Endurgreiðsla ofgreidds fjár
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2013. |
|
Nr. 426/2012.
|
Vélfang ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Ljósuborg ehf. (Skarphéðinn Pétursson hrl.) |
Lausafjárkaup. Aðild. Endurgreiðsla ofgreidds fjár.
L ehf. krafði V ehf. um endurgreiðslu ofgreidds fjár með vísan til þess að L ehf. hefði verið krafið um og innt af hendi til V ehf. hærri greiðslu en þá sem umsamin var vegna kaupa L ehf. á þreskivél. Eftir birtingu stefnu fyrir V ehf. upplýsti félagið að upphaflegt samkomulag um kaup á vélinni hefði verið á milli milli L ehf. og VF ehf., en bú síðarnefnda félagsins hefði þá verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í kjölfarið féll L ehf. frá þingfestingu þess máls og höfðaði þess í stað nýtt mál á hendur V ehf. til heimtu alls kaupverðsins. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið að V ehf. hefði ekki verið réttur viðtakandi greiðslu kaupverðsins fyrir þreskivélina og var krafa L ehf. um endurgreiðslu þess því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2012. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Engin efni eru til að verða við aðalkröfu áfrýjanda, sem reist er annars vegar á málsástæðu, sem getið er í hinum áfrýjaða dómi og hann telur varða því að málinu verði vísað frá héraðsdómi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og hins vegar á því að málið sé vanreifað af hendi stefnda.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Vélfang ehf., greiði stefnda, Ljósuborg ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2012.
I.
Mál þetta, sem var dómtekið 15. mars 2012, er höfðað 3. nóvember 2011, af Ljósaborg ehf., kt. 681103-2870, Austurvegi 42 á Selfossi, gegn Vélfangi ehf., kt. 560909-1520, Gylfaflöt 32 í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.631.500 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 8. júlí 2011 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 635.500 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 8. júlí 2011 til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum kefst hann málskostaðar í samræmi við málskostnaðaryfirlit.
II.
Málsatvik
Mál þetta lýtur að ráðstöfun á þreskivél af gerðinni Fiatagri Laverda með skráningarnúmerið IB-427. Í stefnu er því haldið fram að samningar hafi náðst milli stefnanda, sem er félag sem hefur lagt stund á kornrækt, og einkahlutafélagsins VF-45 um kaup stefnanda á vélinni árið 2008. Hafi samkomulagið verið gert milli forsvarsmanns stefnanda og þáverandi sölumanns VF-45 ehf. Umsamið kaupverð vélarinnar hafi verið 800.000 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 996.000 krónur. Hafi kaupverðið verið lægra en ásett verð vélarinnar enda hafi hún þarfnast umtalsverðrar lagfæringar. Enginn reikningur hafi verið gefinn út vegna kaupa á vélinni og því hafi stefnandi dregið að greiða umsamið kaupverð. Á vordögum 2010 hafi verið haft samband við fyrirsvarsmann stefnanda og honum bent á að kaupverðið væri enn þá ógreitt. Jafnframt hafi verið tilkynnt að ekki yrði staðið við fyrrgreint samkomulag um kaupverð. Þess í stað hafi stefnandi verið krafinn um greiðslu á 1.631.500 krónum, sem hafi verið kaupverð að fjárhæð 1.300.000 krónur auk virðisaukaskatts. Hafi stefnandi greitt þá fjárhæð með sérstökum fyrirvara um greiðsluskyldu. Samkvæmt gögnum málsins virðist hann hafa innt þessar greiðslur af hendi í áföngum og síðast með millifærslu 531.500 króna inn á reikning stefnda 10. maí 2011
Hið stefnda félag lýsir atvikum á annan veg. Hafi söluþreifingar verið milli VF-45 ehf. og Spjaldakurs ehf., kt. 660308-1990 um kaup á umræddri þreskivél. Ekki hafi verið búið að ganga frá viðskiptunum og enginn reikningur hafði því verið gefinn út þegar VF-45 ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun árs 2010. Umræddri þreskivél hafi því næst verið ráðstafað af þrotabúi félagsins til LS1 ehf., kt. 540110-1230, sennilega á grundvelli veðréttar í vélinni. Hið stefnda félag hafi síðan verið beðið um að ljúka sölu á þreskivélinni til stefnanda. Gefinn hafi verið út reikningur frá LS1 ehf. 15. september 2010 til hins stefnda félags að fjárhæð 1.631.500 krónur vegna vélarinnar. Sölumenn stefnda hafi verið í sambandi við forsvarsmann stefnanda til að ljúka málinu með greiðslu fyrir vélina svo unnt yrði að færa hana á nafn nýs eiganda. Hafi stefndi gefið út reikning á stefnanda málsins 11. maí 2011 að fjárhæð 1.631.500 krónur sem stefnandi hafi greitt.
Af framlögðu yfirliti úr vinnuvélaskrá var umrædd þreskivél fyrst skráð eign VF-45 ehf. (Vélfangs ehf.) 20. september 2009. Hinn 19. maí 2010 færðist skráð eignarhald vélarinnar til LS1 ehf. Hún varð síðan skráð eign stefnanda 11. maí 2011.
Samkvæmt gögnum málsins krafðist stefnandi þess með bréfi, dags. 8. júní 2011, að stefndi endurgreiddi honum mismuninn á því verði, sem hann taldi að samið hefði verið um árið 2008, og þeirri fjárhæð sem hann greiddi stefnda, eða samtals 635.500 krónur. Stefnandi birti forsvarsmanni stefnda stefnu 17. október 2011 þar sem stefndi var krafinn um þessa fjárhæð. Í stefnu segir að eftir þetta hafi forsvarsmaður stefnda haft samband við lögmann stefnanda og tjáð honum að fyrrgreint samkomulag um kaup á vélinni hefði ekki verið gert við hið stefnda félag heldur við einkahlutafélagið VF-45 ehf. með kennitöluna 521285-0449 (áður Vélfang ehf.). Í ljósi þessara upplýsinga kveðst stefnanda hafa ákveðið að falla frá þingfestingu stefnunnar og höfða mál til endurgreiðslu á öllu kaupverðinu fyrir vélina.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir aðalkröfu sína á því að hann hafi árið 2008 gert munnlegan samning um kaup á umræddri þreskivél af VF-45 ehf. sem áður hét Vélfang ehf. Stefnandi hafi hins vegar ekki greitt kaupverðið við afhendingu vélarinnar árið 2008, þar sem enginn reikningur hafi verið gefinn út af hálfu VF-45 ehf. í samræmi við ákvæði laga nr. 50/1988, sbr. reglugerð nr. 50/1993.
Hinn 11. maí 2011 hafi stefndi gefið út reikning á hendur stefnanda að fjárhæð 1.300.000 krónur auk virðisaukaskatts, 331.500 krónur, eða alls 1.631.500 krónur. Stefnandi hafi greitt stefnda þá fjárhæð enda hafi hann álitið á þeim tíma að stefndi væri réttur viðtakandi greiðslu kaupverðsins. Stefnandi hafi þó greitt umrædda fjárhæð með sérstökum fyrirvara um réttmæti kröfunnar, enda hafi hann talið að reikningur vegna vélarinnar væri allt of hár.
Stefnandi vísar til fyrirliggjandi tölvuskeyta forsvarsmanns stefnda, dags. 19. og 20. október 2011, en af þeim megi eindregið ráða að stefndi telji sig ekki aðila málsins, þar sem hann hafi ekki gert samkomulag við stefnanda um kaupin á vélinni árið 2008. Hafi hið stefnda félag ekki verið stofnað fyrr en á árinu 2009.
Með vísan til gagna málsins, þ. á m. þeirra upplýsinga sem fram komi í tilgreindum tölvupóstum forsvarsmanns stefnda, álítur stefnandi augljóst að stefnda hafi ekki verið unnt að krefja stefnanda um greiðslu kaupverðsins, þar sem samningur um kaup á þreskivélinni hafi ekki verið gerður á milli stefnanda og stefnda. Ekkert samningssamband hafi því að mati stefnanda verið milli stefnanda og stefnda. Hafi stefndi í raun þvingað og blekkt stefnanda til greiðslu reikningsins, og hótað í því sambandi að vélin yrði tekin úr vörslum stefnanda. Stefndi hafi því vitað eða mátt vita að hann hefði ekki haft nokkra heimild til innheimtu kaupverðsins enda hafi krafan ekki verið byggð á samningi milli stefnanda og stefnda. Því hafi í raun verið um að ræða fullkomna vanheimild af hálfu stefnda til útgáfu reiknings og innheimtu söluverðs vélarinnar.
Endurgreiðslukröfu sína styður stefnandi við almennar reglur kröfuréttar þess efnis að skuldari sem greitt hafi umfram lagaskyldu eigi endurkröfurétt á hendur kröfuhafa, enda hafi stefnda verið fullkunnugt um að hann væri ekki aðili að samkomulagi um kaup á umræddri þreskivél og því ekki haft lögvarinn rétt til að heimta greiðslu kaupverðs hennar. Þá vísar stefnandi til þess að hann greiddi stefnda kaupverð vélarinnar með sérstökum fyrirvara um réttmæti kröfu.
Til stuðnings varakröfu stefnanda, þar sem þess er krafist að stefndi greiði stefnanda mismun á þeirri fjárhæð sem stefnandi greiddi stefnda og umsamins kaupverðs vélarinnar, vísar stefnandi einkum til munnlegs samkomulags sem stefnandi gerði við VF-45 ehf. árið 2008 um kaup á vélinni fyrir 800.000 krónur auk virðisaukaskatts. Byggir stefnandi á því að komist hafi á bindandi tilboð um kaupverð vélarinnar og á grundvelli þess hafi komist á samningur milli aðila um kaupverð hennar, sem stefndi sé bundinn við í samræmi við almennar reglur samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga. Enginn áskilnaður er gerður um að slíkir samningar skuli vera skriflegir.
Stefnandi telur hér engu máli skipta að kaupverð vélarinnar hafi ekki verið greitt stefnda þegar við afhendingu vélarinnar árið 2008. Bendir stefnandi í því sambandi á að þrátt fyrir ítrekaðar óskir stefnanda hafi stefndi ekki gefið út reikning vegna kaupanna fyrr en 11. maí 2011, en stefnandi hafi ekki talið rétt að inna umsamdar kaupsamningsgreiðslur af hendi fyrr en slíkur reikningur hefði verið gefinn út, í samræmi við ákvæði laga nr. 50/1988, einkum 23. gr. þeirra.
Af hálfu stefnanda er á því byggt, að þáverandi sölumaður VF-45 ehf., Gestur Jensson, sem hafi annaðist samningsgerð fyrir hönd félagsins, hafi í krafti stöðu sinnar haft fullt og ótakmarkað umboð til samningsgerðarinnar. Allt að einu sé á því byggt, að stefnandi hafi mátt ætla, að umræddur sölumaður hafi haft umboð til slíkrar samningsgerðar.
Stefnandi vísar enn fremur til þess að ástand vélarinnar hafi verið að nokkru ábótavant, sem skýri að umsamið kaupverð hennar hafi verið nokkru lægra en ásett verð hennar á þeim tíma. Stefnandi hafi hins vegar sjálfur tekið að sér úrbætur og lagfæringar á vélinni á eigin kostnað.
Að mati stefnanda verði að byggja á þeim munnlega samningi sem hafi náðst um kaupverð vélarinnar. Stefnandi hafi hins vegar síðar verið nauðbeygður til að greiða stefnda hærra verð fyrir vélina en um var samið. Endurgreiðslukröfu sína styður stefnandi að öðru leyti við sömu sjónarmið og rakin eru til stuðnings aðalkröfu.
Stefnandi kveður dráttarvaxtakröfu, bæði í aðal- og varakröfu, vera setta fram með stoð í 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. málslið 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, en krafa um dráttarvexti miðist við þá dagsetningu er mánuður hafi verið liðinn frá bréfi stefnanda til stefnda dags. 8. júní 2011, þar sem krafist hafi verið endurgreiðslu á hinni ofgreiddu fjárhæð.
Auk framangreindra lagatilvísana vísar stefnandi máli sínu til stuðnings til almennra reglna kröfuréttar um réttar efndir og um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Þá vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar um óréttmæta auðgun og endurgreiðslu ofgreidds fjár. Þá vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um loforð og skuldbindingargildi samninga. Um dráttarvexti sé vísað til fyrrgreindrar 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. málslið 9. gr. laga nr. 38/2001. Þá styðjist krafa um málskostnað við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. þeirra. Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti sóknarmegin. Það liggi fyrir að einkahlutafélagið Spjaldakur ehf., kt. 660308-1990, hafi verið sá aðili sem taldi sig hafa gert bindandi samning við seljanda þreskivélarinnar. Í bréfi frá lögmanni stefnanda sé tekið fram að stefnandi, Ljósaborg ehf., hafi tekið við öllum réttindum og skyldum Spjaldakurs ehf. vegna kaupanna án þess að það sé útskýrt nánar. Hlýtur aðildarskortur sóknarmegin að leiða til sýknu með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um einkamál. Ef svo ólíklega vilji til að stefnandi verði talinn réttur aðili að máli þessu bendir stefnda á að Spjaldakur ehf. kunni að eiga réttindi í viðkomandi málsókn. Það kunni að leiða til frávísunar sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þó sé ekki höfð uppi sjálfstæð krafa um frávísun í máli þessu, en dóminum bent á sjálfkrafa frávísun (ex officio).
Stefndi bendir á að stefnandi byggi á því að samið hafi verið við VF-45 ehf. Af hálfu stefnda er á því byggt að hann geti ekki borið ábyrgð á vanefndum eða mistökum gjaldþrota lögpersónu líkt og stefnandi haldi fram. Ef stefnandi telji sig eiga einhverja lögvarða kröfu í þessu máli þá beinist hún að þrotabúi VF-45 ehf. og þá trúlega sem skaðabótakrafa. Stefndi byggir á því að hann sé ekki réttur aðili að máli þessu og skorti því aðild að lögum með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Slíkt leiði til sýknu.
Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á því að hann hafi aldrei gert samning við stefnanda né annan um að söluverð viðkomandi tækis ætti að vera annað og lægra en reikningur hafi verið gefinn út fyrir. Stefndi hafi verið beðinn um að ganga frá viðskiptum við Spjaldakur ehf. þar sem Spjaldakur ehf. hafi haft vélina undir höndum frá árinu 1999 (svo), þar sem stefnandi hafi ætlað að kaupa tækið af VF 45 ehf. sem síðar hafi farið í gjaldþrot. Vélin hafi eins og áður segir verið í eigu VF 45 ehf. frá 20.9.2009 til 19.5.2010. LS1 ehf. hafi eignast vélina á grundvelli eignarréttarfyrirvara þann 19.5.2010. LS1 ehf. hafi síðan verið eigandi að vélinni þar til nýr eigandi hafi greitt fyrir tækið. Hinn nýi eigandi sé stefnandi máls þessa. Hið stefnda félag geti ekki borið ábyrgð á meintum vanefndum eða mistökum sölumanna eða starfsfólks eldri gjaldþrota lögaðila, þar sem aðkoma stefnda hafi eingöngu falist í því að ganga frá sölu á viðkomandi tæki til stefnanda máls þessa á því verði sem kynnt hafði verið fyrir stefnanda og hann hafi greitt. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Stefndi byggir á því að hann hafi haft fullt og ótakmarkað umboð til þess að selja stefnanda viðkomandi söluhlut. Engar kvaðir hafi verið á viðkomandi tæki og félagið hafi ekki samþykkt neinn fyrirvara af hálfu stefnanda eða Spjaldakurs ehf.
Um aðildarskort sóknar- og varnarmegin vísar stefndi til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þá kveðst stefndi byggja á þeirri meginreglu kröfuréttar að sá sem haldi fram kröfu beri sönnunarbyrði fyrir tilvist hennar. Hvað varðar sýknukröfur sé vísað til reglna um sönnun og sönnunarfærslu kröfuhafa. Um málskostnað sé vísað til 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Auk fyrirsvarsmanns stefnanda, Guðjóns Þóris Sigfússonar, og fyrirsvarsmanns stefnda, Eyjólfs Péturs Pálmasonar, gáfu þeir Gestur Jensson, fyrrverandi sölumaður hjá VF-45 ehf., og Jón Elvar Hjörleifsson, sem er sameigandi Guðjóns Þóris í Spjaldakri ehf. og bóndi að Hrafnagili í Eyjafirði, skýrslu í málinu. Af skýrslum þeirra Guðjóns Þóris og Jóns Elvars verður ráðið að sá síðarnefndi hafi fyrir hönd Spjaldakurs ehf. átt í viðræðum um kaup á umræddri þreskivél árið 2008, en ekki fyrir hönd stefnanda eins og haldið er fram í stefnu. Taldi Jón Elvar að komist hefði á samningur um kaup Spjaldakurs ehf. á vélinni, en að félagið hafi síðar sagt sig frá þessum kaupum og framselt stefnanda réttinn samkvæmt kaupsamningnum. Guðjón Þórir, fyrirsvarsmaður stefnanda, kvað stefnanda einnig hafa með munnlegu samkomulagi við Spjaldakur ehf. tekið yfir réttindi og skyldur samkvæmt kaupsamningnum. Á þessu var enn fremur byggt við munnlegan málflutning af hálfu stefnanda.
Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir byggist málatilbúnaður stefnanda á því að samningur hafi komist á milli Spjaldakurs ehf. og VF-45 ehf. um kaup fyrrnefnda félagsins á umræddri þreskivél og að stefnandi hafi síðan gengið inn í kaupsamninginn með munnlegu samkomulagi við Spjaldakur ehf. Skilja verður málatilbúnað stefnda þannig að hann mótmæli því að slíkur samningur hafi verið kominn á um kaup Spjaldakurs ehf. á vélinni, þegar viðskiptin með vélina áttu sér stað milli stefnda og stefnanda árið 2011, enda hafi kauptilboð Spjaldakurs ehf. aldrei verið samþykkt af hálfu VF-45 ehf.
Framburður vitna um ráðstöfun vélarinnar árið 2008 er ekki á einn veg. Jón Elvar, fyrirsvarsmaður Spjaldakurs ehf., kveður Gest, sölumann VF-45 ehf., hafa komið að Hrafnagili og boðist til að selja þreskivélina á u.þ.b. eina og hálfa milljón króna, en á því verði hafði VF-45 ehf. tekið hana upp í. Kveðst Jón Elvar þá hafa boðið 800 þúsund krónur í vélina auk virðisaukaskatts eftir að hafa ráðfært sig við fyrri eiganda hennar um ástand vélarinnar. Hafi Gestur þá hringt í Eyjólf Pétur, framkvæmdastjóra seljanda, til að fá samþykki hans fyrir kaupverðinu. Hafi orðið úr að Spjaldakur ehf. fengi vélina á þessu verði gegn því að Jón Elvar og Guðjón Þórir lagfærðu hana. Hafi Jón Elvar litið svo á að Gestur hefði fengið samþykki Eyjólfs Péturs fyrir því að vélin færi á þessu verði enda hafi þeir fengið vélina senda að sunnan.
Gestur Jensson ber á annan veg. Hann kveðst hafa fengið tilboð frá Jóni Elvari um kaup á vélinni fyrir ákveðið verð sem hann mundi ekki hvert hefði verið. Hafi hann látið Eyjólf Pétur vita um þetta kauptilboð, en minntist þess ekki að hafa hringt í hann meðan hann var að Hrafnagili til að fá samþykki við tilboðinu. Gestur skýrði frá því að hann hafi aldrei samþykkt tilboðið enda hafi hann ekki haft heimild til að samþykkja verð sem hafi verið svona langt undir ásettu verði. Hafi það alfarið verið í höndum Eyjólfs Péturs að taka ákvörðun um framhaldið fyrir hönd VF-45 ehf. Gestur kvaðst hafa hætt störfum hjá félaginu skömmu eftir að þetta gerðist.
Eyjólfur Pétur Pálmason, sem er framkvæmdastjóri stefnda, var eigandi og framkvæmdastjóri VF-45 ehf. þegar umrædd viðskipti eiga að hafa átt sér stað. Hann þvertók fyrir að tilboð Jóns Elvars hefði verið samþykkt af hálfu VF-45 ehf. Eftir sem áður hafi verið fallist á að senda vélina norður. Mátti af skýrslu Eyjólfs Péturs ráða að það hafi verið gert af greiðasemi þar sem Jón Elvar hafi vantað þreskivél fyrir kornuppskeruna 2008. Hafi Jón Elvar og Gestur fengið að nota vélina endurgjaldslaust gegn því að þeir lagfærðu hana.
Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að Jón Elvar gerði fyrir hönd Spjaldakurs ehf. VF-45 ehf. tilboð um kaup á umræddri þreskivél fyrir 800 þúsund krónur auk virðisaukaskatts og taldi að samningur þess efnis hefði komist á. Gestur Jensson kveðst ekki hafa haft heimild til að samþykkja tilboðið þar sem það hafi verið töluvert undir ásettu verði. Hafi framkvæmdastjóri seljanda, Eyjólfur Pálmi, þurft að taka afstöðu til tilboðsins og málið verið í hans höndum. Framburð Eyjólfs Péturs í málinu verður að meta í ljósi þess að hann gefur skýrslu sem aðili í málinu, sbr. 4. mgr. 48. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fyrir liggur að þreskivélin var send norður í land og afhent eigendum Spjaldakurs ehf. Þá er óumdeilt að vélin hafi við afhendingu þarfnast lagfæringa sem eigendur Spjaldakurs ehf. hafi annast. Í ljósi atvika stóð það seljanda vélarinnar nær að tryggja sér sönnur um það ef vélina átti að afhenda tilboðsgjafa af annarri ástæðu en þeirri að tilboðinu hefði verið tekið. Ekkert liggur fyrir um að vélin hafi verið afhent með þeim skilmálum að hún yrði í vörslum tilboðsgjafa til prufu eða að eigendur Spjaldakurs ehf. fengju hana að láni endurgjaldslaust. Með afhendingu vélarinnar án frekari skilmála gaf seljandi loforðsgjafa því fullt tilefni til að ætla að komist hefði á bindandi samkomulag um kaup þess síðarnefnda á vélinni á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs. Af þessum sökum ber að líta svo á að komist hafi á bindandi samningur um kaup Spjaldakurs ehf. á vélinni fyrir 800 þúsund krónur auk virðisaukaskatts.
Réttindi samkvæmt kaupsamningi, eins og hér um ræðir, getur kaupandi framselt þriðja aðila, þó að það leysi hann ekki undan skyldum samkvæmt samningnum nema að fyrir liggi samþykki seljanda. Eins og áður hefur verið rakið hafa bæði Jón Elvar og Guðjón Þórir, sem eru eigendur Spjaldakurs ehf., auk þess sem sá síðarnefndi er eigandi og fyrirsvarsmaður stefnanda, skýrt frá því að réttindi samkvæmt kaupsamningi Spjaldakurs ehf. við VF-45 ehf. frá 2008 hafi verið framseld stefnanda með munnlegu samkomulagi milli félaganna. Á grundvelli samningsins átti seljandinn, VF-45 ehf., eftir sem áður kröfu um greiðslu hins umsamda kaupverðs á hendur Spjaldakri ehf. óháð framangreindu framsali. Þó að sú krafa hafi ekki verið innheimt rýrði það ekki rétt framsalshafa samkvæmt kaupsamningi. Gat stefnandi því borið kaupsamninginn fyrir sig þegar seljandi eða annar aðili fyrir hans hönd krafðist efnda á greiðslu kaupverðsins. Stefnandi greiddi þá fjárhæð sem stefndi krafði hann um fyrir vélina en með fyrirvara um réttmæti hennar. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður hvorki fallist á það með stefnda að stefnanda skorti aðild að málinu sóknarmegin né að stefndi eigi ekki aðild að því varnarmegin.
Hvorki Spjaldakur ehf. né stefnandi voru krafðir um greiðslu kaupverðsins fyrr en stefndi leitaði eftir því að greitt yrði fyrir þreskivélina árið 2010. Þá hafði seljandi vélarinnar, VF-45 ehf., verið tekið til gjaldþrotaskipta, en stefndi bar sama heiti og hið gjaldþrota félag hafði áður borið. Eins og málið liggur fyrir dóminum verður að ganga út frá því að þrotabú VF-45 ehf. hafi ekki átt önnur réttindi í tilefni af viðskiptum þessum en kröfu á hendur kaupanda vélarinnar eða framsalshafa til greiðslu umsamins kaupverðs. Í framburði fyrirsvarsmanns stefnda fyrir dómi kom skýrt fram að stefnda hafi ekki verið falið að innheimta kröfur þrotabúsins samkvæmt óuppgerðum kaupsamningum, aðeins að selja vélar og tæki sem LS1 ehf. hefði leyst til sín frá þrotabúi VF-45 ehf. Ber að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins. Í framlagðri yfirlýsingu frá stjórn LS1 ehf. kemur einnig fram að stefnda hafi verið veitt fullt og ótakmarkað umboð til að „annast sölu á umræddri vél fyrir hönd LS1 ehf.“. Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að stefndi geti ekki hafa verið réttur viðtakandi greiðslu kaupverðsins fyrir þreskivélina samkvæmt kaupsamningnum frá 2008. Af þeim sökum ber að taka til greina aðalkröfu stefnanda um að stefndi endurgreiði stefnanda alla þá fjárhæð sem stefnandi greiddi stefnda eins og nánar greinir í dómsorði. Ekki er ágreiningur um kröfu stefnanda um dráttarvexti.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Vélfang ehf., greiði stefnanda, Ljósaborg ehf., 1.631.500 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. júlí 2011 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.