Hæstiréttur íslands

Mál nr. 613/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 27

 

Þriðjudaginn 27. október 2009.

Nr. 613/2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Júlíus Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. október 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. nóvember 2009 klukkan 16, og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að kröfu um einangrun verði hafnað.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili var handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við komu frá Kaupmannahöfn um miðjan dag 23. október 2009. Vegna gruns um innflutning fíkniefna var farangur hans skoðaður og líkamsleit framkvæmd. Við hana komu fram vísbendingar um að hann hefði límt eitthvað við líkama sinn með límbandi. Engin fíkniefni fundust við leitina. Flugvél sú, sem varnaraðili hafði komið með til landsins var þá farin utan aftur. Varnaraðila var sleppt að lokinni yfirheyrslu nokkru síðar. Er flugvélin kom aftur frá Kaupmannahöfn aðfararnótt 24. október fundust fíkniefni á salerni hennar eins og greinir í hinum kærða úrskurði. Var varnaraðili handtekinn um miðjan þann dag, um sólarhring eftir komu til landsins.

Fallist er á með héraðsdómi að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að varnaraðili hafi staðið að innflutningi þeirra fíkniefna sem málið varðar. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. október 2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudags 2. nóvember 2009 kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að krafan sé sett fram með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni.

Lögreglan á Suðurnesjum kveðst hafa til rannsóknar meint stórfellt brot kærða gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

Kærði hafi verið handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar föstudaginn 23. október 2009 vegna rökstudds gruns um að hann stæði að innflutningi á ávana- og fíkniefnum, með flugi nr. FI-205 frá Kaupmannahöfn. Farangur hans hafi verið skoðaður og líkamsleit gerð á kærða. Kærði hafi sagt að hann hefði dvalið í Kaupmannahöfn um sólarhring. Við líkamsleit á kærða hafi komið fram vísbendingar um að hann hefði límt eitthvað við líkama sinn með límbandi. Kærði hafi því verið grunaður um að hafa flutt fíkniefni til landsins og losað sig við þau áður en hann kom í tollhlið. Hafi kærði verið handtekinn.

Á salerni í flugvél þeirri sem kærði kom með til landsins hafi fundist aðfaranótt 24. október s.l., í pakkningum á salerni, samtals 762.45 grömm af efni sem við rannsókn og prófun tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi reynst vera amfetamín.

Rannsókn þessa máls sé á frumstigi. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi og tilgangur ferðar kærða til Danmerkur, tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi eða erlendis, sakarferill kærða auk annarra atriða. Þá þyki nauðsynlegt að hindra að kærði geti verið í sambandi við hugsanlega vitorðsmenn.

Það magn hættulegra fíkniefna, sem hafi fundist, og það að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa flutt til landsins, þyki benda til að um stórfellt brot sé að ræða sem falli undir 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn þeirri grein varði fangelsi allt að 12 árum. Þyki því nauðsynlegt, fyrst og fremst í þágu rannsóknarhagsmuna að svo stöddu, að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Lögregla telur brýna nauðsyn að kærða verði, með vísan til ofanritaðs, gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudags 2. nóvember  2009 kl. 16.00.

Sú krafa er gerð að dómari úrskurði að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa staðið að innflutningi á miklu magni amfetamíns. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudags 2. nóvember 2009 kl. 16.00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.