Hæstiréttur íslands
Mál nr. 359/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. júní 2017. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. maí 2017 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að honum yrðu afhentar dagbókarfærslur og endurrit af skýrslutökum hjá lögreglu. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sóknaraðila gert að afhenda umbeðin gögn.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 skal í skriflegri kæru til héraðsdómara greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í kæru varnaraðila er í engu vikið að þeim ástæðum sem kæran er reist á. Samkvæmt þessu eru slíkir annmarkar á kærunni að vísa verður málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. maí 2017.
Mál þetta sem þingfest var fimmtudaginn 2. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi þann 12. desember 2016, á hendur X, kt. [...], til heimilis að [...],
„ I.
fyrir þjófnað
með því að hafa, laugardaginn 4. október 2014 á landi í vegkanti [...] við [...], stolið tíu bráðabirgða-girðingarstaurum og þar til gerðum rafmagnsgirðingarþræði að óþekktu verðmæti sem ákærði hafði á brott með sér.
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
033-2014-5485
II.
fyrir þjófnað
með því að hafa einhvern tímann á tímabilinu frá því á vormánuðum 2014 og fram til 10. október 2014 stolið úr sumarhúsi [...] einum þriggja sæta sófa, einum tveggja sæta sófa og tveimur stólum, allt að óþekktu verðmæti sem ákærði kom fyrir í veiðihúsi á [...].
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
033-2014-5587
III.
fyrir líkamsárás
með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 19. september 2016 á [...], veist að A, kt. X, tekið í hægri hönd hennar og snúið upp á hana.
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
318-2016-10793
IV.
fyrir brot á vegalögum
með því að hafa á tímabilinu frá kvöldi þriðjudagsins 11. október fram undir hádegi miðvikudaginn 12. október 2016 komið fyrir stórgrýti á vegi er liggur frá [...] þannig að vegurinn lokaðist og öryggi umferðar um veginn var raskað.
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 47. gr. vegalaga nr. 80, 2007 sbr. 1. mgr. 59. gr. nefndra vegalaga.
318-2016-11602
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Þá er í ákæru, sem og framhaldsákæru, upp teknar einkaréttarkröfur brotaþola, sem ekki þykir þörf á að rekja sérstaklega í þessum þætti málsins. Við fyrirtöku málsins þann 9. mars sl., kom fram að ákærði teldi sig ekki hafa fengið öll gögn málsins og krafðist hans þess að ákæruvaldinu yrði veittur frekari frestur til að leggja fram gögn málsins. Krafðist ákærði þá úrskurðar um að honum yrðu afhent umbeðin gögn. Framangreind krafa ákærða var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann þann 26. apríl sl. Varðar þessi hluti málsins kröfu ákærða um afhendingu gagna.
Við munnlegan málflutning kom fram að þau gögn sem ákærði krefst afhendingar á eru annars vegar allar dagbókarfærslur lögreglu er varða ákæruefnið og hins vegar endurrit af skýrslum þeim sem teknar voru af ákærða við rannsókn sakarefnisins. Sækjandi hafnar kröfu ákærða og vísar til þess að öll þau gögn sem hafa sönnunargildi í málinu hafi þegar verið lögð fram og ákærði fengið afrit þeirra. Þá sé ákærða heimilt að hlusta á hljóðritun skýrslna á lögreglustöð.
Við þingfestingu máls þessa voru ákærða afhent afrit þeirra gagna sem ákæruvaldið byggir málatilbúnað sinn á, þar á meðal frumskýrsla lögreglu þar sem fram kemur hvert tilefni rannsóknar var, sem og samantekt úr skýrslum þeim sem lögregla tók af ákærða og vitnum.
Að mati dómsins verður ekki séð hverju gögn þau sem ákærði krefst afhendingar á, eiga að bæta við gögn þau sem ákæruvaldið byggir málatilbúnað sinn á og lögð hafa verið fram í málinu. Þá verður ekki litið fram hjá því að ákærða er heimilt að hlusta á hljóðritanir þeirra skýrslna er teknar voru hjá lögreglu við rannsókn málsins. Að framansögðu virtu og með vísan til XVI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamál, sér í lagi 3. mgr. 110. gr. laganna verður kröfu ákærða um afhendingu gagna hafnað.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómar kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu ákærða um afhendingu dagbókarfærslna og endurrita af skýrslutökum hjá lögreglu.