Hæstiréttur íslands
Mál nr. 451/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Úrskurður
- Ómerking úrskurðar héraðsdóms
|
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
|
Nr. 451/2014.
|
Skúli Einarsson Jónína Einarsdóttir Jóhanna Lilja Einarsdóttir Valdís Einarsdóttir Ólöf Björg Einarsdóttir Svanborg Þuríður Einarsdóttir Jón Ægisson Harald Óskar Haraldsson Bjarni Hermannsson og Unnsteinn Kristinn Hermannsson (Ólafur Björnsson hrl.) gegn Veiðifélagi Laxdæla (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Úrskurður. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli S o.fl. á hendur V. Hæstiréttur ómerkti hinn kærða úrskurð og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar, með skírskotun til þess að úrskurðurinn uppfyllti ekki áskilnað fyrri máliðar 4. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og e. liðar 1. mgr. 114. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. júní 2014, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta gegn varnaraðila með stefnu 10. júní 2013 og var það þingfest 18. sama mánaðar. Í greinargerð varnaraðila, sem var lögð fram á dómþingi 17. september 2013, var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að hann yrði sýknaður af kröfum sóknaraðila. Málið var flutt um aðalkröfu varnaraðila 11. apríl 2014 og var hún tekin til greina með hinum kærða úrskurði.
Í fyrri málslið 4. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991 er mælt svo fyrir að feli úrskurður í sér lokaniðurstöðu máls skuli forsendur fylgja úrskurðarorði með sama hætti og ef um dóm væri að ræða, en samkvæmt síðari málslið sömu málsgreinar má þó víkja frá þessu sé máli vísað frá dómi án kröfu stefnda, sem ekki á hér við eftir áðursögðu. Í hinum kærða úrskurði er í engu greint frá atvikum málsins, ágreiningsefnum eða málsástæðum aðilanna, svo sem ber að gera í dómi samkvæmt d. og e. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Að því virtu verður ekki komist hjá því að ómerkja hinn kærða úrskurð og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Í ljósi þessara úrslita málsins er rétt að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. júní 2014.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 11. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 12. júní 2013.
Stefnendur eru Skúli Einarsson Melshúsum, Álftanesi, Jónína Einarsdóttir Tjarnargötu 16, Reykjavík, Jóhanna Lilja Einarsdóttir, Jóruseli 11, Reykjavík, Valdís Einarsdóttir Lambeyrum, Búðardal, Ólöf Björg Einarsdóttir, Heiðarbæ 1, Selfossi, Svanborg Þuríður Einarsdóttir og Jón Ægisson Gillastöðum 2, Búðardal, Haraldur Óskar Haraldsson Svarfhóli, Búðardal, Bjarni Hermannsson og Unnsteinn Kristinn Hermannsson, Leiðólfsstöðum, Búðardal.
Stefndi er Veiðifélag Laxdæla, Þrándargili l, 371 Búðardal, fyrirsvarsmaður er formaður veiðifélagsins, Jón Egilsson, Sauðhúsum, Búðardal.
Stefnendur gera bær kröfur að viðurkennt verði með dómi, eignartilkall þeirra til jarðarinnar Ljárskóga, lnr. 137576, Dalabyggð, og að stefnda, Veiðifélagi Laxdæla, verði gert skylt með dómi að gefa út afsal til stefnenda, fyrir hlutdeild þeirra í jörðinni, þ.e. í hlutfalli við arð- og eignarhlutaskrá Veiðifélags Laxdæla, vegna Ljárskóga, dagsettri 8. apríl 1993, með þeim breytingum sem á henni urðu með afsali Laxárdalshrepps, dagsettu 31. maí 1994 og með afsali eigenda Hrappsstaða dagsettu 10. maí 2004.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Skúla Einarssonar kt. [...], Melshúsum, 225 Álftanesi, fyrir 1,48275 % hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jónínu Einarsdóttur kt. [...], Tjarnargötu 16, 101 Reykjavík, fyrir 1,48275 % hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jóhönnu Lilju Einarsdóttur kt. [...], Jóruseli 11, 109 Reykjavík, fyrir 1,48275 % hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim h1ut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Valdísar Einarsdóttur, kt. [...], Lambeyrum, 371 Búðardal, fyrir 1,48275 % hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Ólafar Bjargar Einarsdóttur kt. [...], Heiðarbæ 1, 801 Selfossi, fyrir 1,48275 % hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Svanborgar Þuríðar Einarsdóttur kt. [...], Gillastöðum 2, 371 Búðardal, fyrir 1,48275% hlut i jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jóns Ægissonar, kt. [...] Gillastöðum 2, 371 Búðarda1, fyrir 4,19900% hlut í jörðinni Ljárskógum og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Haraldar Óskars Haraldssonar kt. [...], Svarfhóli, 371 Búðardal, fyrir 8,23800 % hlut jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Bjarna Hermannssonar, kt. [...], Leiðó1fsstöðttm, 371 Búðardal, fyrir 2,27200% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut.
Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Unnsteins Kristins Hermannssonar, kt. [...], Leiðólfsstöðum, 371 Búðardal, fyrir 2,27200% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir Þeim hlut.
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.
Krafa stefnda um frávísun er til úrlausnar hér.
Af hálfu stefnda segir að ljóst sé og óumdeilt í málinu að stefndi sé skráður 100% eigandi Ljárskóga og hafi svo verið frá því að jörðin hafi verið var keypt á árinu 1987. Hafi jafnframt verið staðfest í dómi Hæstaréttar nr. 209/2010 að jörðin sé eign stefnda en ekki einstakra félagsmanna i veiðifélaginu. Þá sé jafnframt óumdeilt að á sínum tíma hafi verið haldin sérstök arðskrá fyrir jörðina Ljárskóga og félagsmenn þar tilgreindir sem eigendur tiltekins prósentuhluta jarðarinnar í hlutfalli við framlög sín í upphafi og á síðari tímamörkum. Kröfugerð stefnenda sé ekki sú að hin sérstaka arðskrá haldi gildi heldur að stefnendur verði beinir eigendur að tilteknum hluta jarðarinnar og að stefnandi gefi út afsal þeim til handa. Að mati stefnda sé þessi kröfugerð ótæk fyrir dómi.
Þannig sé i fyrsta lagi ljóst, að hlutur stefnenda í arðskrá stefnda sé samtals um 14,51% (2,8725+(0,1731*6)+(2,555*2)+5,49). Ef kröfugerð stefnenda nái fram að ganga muni þeir verða beinir eigendur samtals um 25,8775% eignarhluta í Ljárskógum (8,238+4,199+(2,272*2)+(1,48275*6)). Það leiði óhjákvæmilega til þess að stefndi verði eigandi 74,1225% (100-25,8775) jarðarinnar á móti stefnendum. Stefnendur, sem eiga 14,51% arðskrárhlut í stefnda, muni því til víðbótar eiga óbeint í gegnum stefnda um 10,76% i Ljárskógum (14,51% af 74,1225%). Stefnendur hafa því i raun hagað málatilbúnaði sínum með þeim hætti að þeir munu eiga, með beinum og óbeinum hætti, tæplega 37% Ljárskógum ef fallist verður á kröfur þeirra.
Það er ljóst að það er ekki tilgangur malsóknar stefnenda að þau eignist svo stóran hluta jörðinni. Þvert á móti er tilgangurinn sá að stefnendur eignist 25,8775% hlut í jörðinni í samræmi við töflu sem sé í stefnu. Málatilbúnaður stefnenda sé því illa ígrundaður og kröfugerð þeirra ekki til þess fallin að ná þeim markmiðum sem að er stefnt með malsókninni. Stefna sé því í andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í öðru lagi sé ljóst að málshöfðun stefnenda hafi ekki einungis áhrif á stefnda heldur einnig óhjákvæmilega á alla félagsmenn hans. Í því sambandi megi sérstaklega nefna aõ Dalabyggð, Svavar Jensson og Alvilda Þóra Elísdóttir hafi ekki verið aðilar að hinni sérstöku arðskrá vegna Ljárskóga vegna (heimildarlausrar) sölu þeirra á hlut sínum í jörðinni á sínum tíma. Stefndi hafi nú lagt af hina sérstöku arðskrá fyrir Ljárskóga og fari með þessa eign sína í samræmi við fyrirmæli laga um lax- og silungsveiði. Ákváðu Dalabyggð, Svavar og Avilda að endurgreiða öllum þeim sem höfðu reitt af hendi fjármuni vegna umræddra gerninga. Margir stefnendur hafa móttekið greiðslur frá þeim án fyrirvara og án þess að hreyfa við andmælum. Þá hafi Alvilda og Svavar geymslugreitt stefnendunum Jóni Ægissyni og Bjarna Hermannssyni, sem ekki hafi viljað taka við greiðslunum, og þar með uppfyllt greiðsluskyldu sína gagnvart þeim í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 9/1978 um geymslufé. Það sé ljóst að Dalabyggð, Svavar og Alvilda hafi verulegra og sérstakra hagsmuna að gæta vegna þess máls og nauðsynlegt að þeim sé gefinn kostur á að verjast dómkröfum stefnenda. Þannig sé enda ljóst að ef Dalabyggð, Svavar og Alvilda ættu aðild að málinu gætu þau komið að þeirri kröfu að ekki ætti að fallast á kröfur stefnenda nema gegn endurgreiðslu þeirra fjármuna sem margir stefnendur hafi nú þegar móttekið fyrirvaralaust og án athugasemda. Þá er enn fremur ljóst að verði dómkrafa stefnenda tekin til greina muni hún hafa þau áhrif að hlutur stefnda, og þar með hlutdeild allra félagsmanna hans, í jörðinni Ljárskógum muni minnka.
Málatilbúnaður stefnenda sé þannig úr garði gerður að réttarfarsnauðsyn standi til þess aõ gefa öllum félagsmönnum stefnda kost á að láta málið til sín taka Skilyrði séu því til samaðildar samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem skilyrði hafi verið til samaðildar í málinu, en stefnendur hafi einungis stefnt stefnda en ekki félagsmönnum hans, verði ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefnanda er frávísunarkröfu mótmælt og krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins. Lögmaður þeirra gaf þá yfirlýsingu við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefnda að verði fallist á að gefið verði út afsal til stefnenda eigi þeir enga frekari hlutdeild í jörðinni Ljárskógum sem félagsmenn í stefnda. Þá sé fráleitt að stefna þurfi fleirum en hér er gert þar sem stefndi sé fyllilega fær til að vera einn aðili máls. Ekki sé þörf á að stefna öðrum en Veiðifélagi Laxdæla
Svo sem rakið er hér að framan og bent hefur verið á af hálfu stefnda myndu dómkröfur stefnenda eins og þær eru gerðar í stefnu leiða til þess að eignarhluti stefnenda í jörðinni Ljárskógum yrði samtals um 36% sem er miklum mun hærra hlutfall en stefnendur kveða vera markmið málsóknar þeirra. Verður að fallast á það með stefnda að stefna í máli þessu sé í andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður þegar af þeirri ástæðu fallist á kröfu stefnda um að vísa máli þessu frá dómi. Skiptir hér ekki máli þótt lögmaður stefnenda hafi gefið framangreinda málflutningsyfirlýsingu við málflutning um ágreining aðila. Skv. 130. gr. laga um meðferð einkamála verður stefnendum gert að greiða stefnda in solidum 300.000 krónur í málskostnað þ.m.t. virðisaukaskattur.
Við uppkvaðningu úrskurðar þessa er gætt ákvæð 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Allan V. Magnússon dómstjóri kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur Skúli Einarsson, Jónína Einarsdóttir, Jóhanna Lilja Einarsdóttir, Valdís Einarsdóttir, Ólöf Björg Einarsdóttir, Svanborg Þuríður Einarsdóttir og Jón Ægisson, Haraldur Óskar Haraldsson, Bjarni Hermannsson og Unnsteinn Kristinn Hermannsson greiði stefnda Veiðifélagi Laxdæla 300.000 krónur í málskostnað.