Hæstiréttur íslands

Mál nr. 72/2006


Lykilorð

  • Landamerki


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. september 2006.

Nr. 72/2006.

Óli Þorsteinsson

Skúli Þorsteinsson

Guðbjörn Magnússon

Ólöf Magnúsdóttir

Helgi Frímann Magnússon

Haraldur Magnússon

Jón Magnússon

Magnús Sigurnýjas Magnússon og

Matthías Magnússon

(Halldór H. Backman hrl.

Guðmundur Óli Björgvinson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu                                    

(Óskar Thorarensen hrl.

Björn Jóhannesson hdl.)

og gagnsök

 

Landamerki.

Í málinu var deilt um landamerki jarðanna Læknesstaða og Skoruvíkur í Þórshafnarhreppi. Snerist deilan um staðsetningu Ytri-Bjarghúsa, sem nefnd voru í landamerkjabréfi Læknesstaða frá 1885 og í lýsingu á merkjum jarðanna í gerðabók fasteignamatsnefndar frá 1916, og um það hvort landamerkin lægju að endingu að sjó neðan við Þrætusig í Þrætusigsskúta. Ekki var talið unnt að staðsetja Ytri-Bjarghús með vissu, enda vísuðu aðilar aðeins á grónar rústir sem framburður vitna tók ekki af skarið um hvort væru eftir húsin auk þess sem niðurstöður matsgerðar voru ekki taldar geta ráðið staðsetningu húsanna. Þegar lýsing örnefna í landi Skoruvíkur og lýsing jarðarinnar í gerðabók fasteignamatsnefndar voru virtar saman var ekki talið geta staðist að Ytri-Bjarghús hefðu staðið fyrir vestan Þrætusig svo sem miðað var við í aðalkröfu Í. Við mat á því hvort miða bæri staðsetningu húsanna við varakröfu Í eða kröfu Ó o.fl. var litið til orðalags fyrrnefndrar örnefnalýsingar, staðhátta og þess sem ráða mátti af matsgerð um umfang rústa á þeim stöðum sem aðilar miðuðu kröfugerð sína við. Þá var litið til þess að gögn málsins og staðhættir bentu til þess að matjurtagarður, sem sjá mátti leifar af á milli þeirra staða þar sem aðilar töldu Ytri-Bjarghús hafa staðið, hefði verið í landi Skoruvíkur. Gat garðurinn aðeins verið í landi þeirrar jarðar ef varakrafa Í yrði tekin til greina. Að öllu þessu virtu var talið að miða yrði við að Ytri-Bjarghús hefðu verið á þeim stað sem greindi í varakröfu Í, en ekki þóttu efni til að fallast á að landamerkin lægju að endingu að sjó neðan við Þrætusig. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna því að Í gæti talist hafa unnið ítaksrétt í bjargi í landi Læknesstaða með hefð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 25. nóvember 2005. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 11. janúar 2006 og áfrýjuðu aðaláfrýjendur öðru sinni 6. febrúar sama ár með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Þau krefjast þess að viðurkennt verði að landamerki jarðanna Læknesstaða og Skoruvíkur, beggja í Þórshafnarhreppi, liggi frá Skálakrossi með hnitin N 655771 A 685254 í Byggingarstein, öðru nafni Biskupsstein, með hnitin N 659668 A 685657 og þaðan í Ytri-Bjarghús með hnitin N 660638,022 A 685368,913. Þá krefjast aðaláfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 10. apríl 2006. Hann krefst þess að viðurkennt verði að landamerki fyrrnefndra jarða liggi frá Skálakrossi í Byggingarstein með sömu hnit og áður er getið, en frá honum í Ytri-Bjarghús, sem aðallega verði staðsett með hnitin N 660436,43 A 685040,98 en til vara N 660511,56 A 685148,06, og þaðan í miðjan Þrætusigsskúta með hnitin N 660466,94 A 685050,00. Að þessu frágengnu krefst gagnáfrýjandi þess að viðurkennd verði önnur landamerki milli jarðanna en að framan greinir og eigi hann þá ítaksréttindi í landi Læknesstaða til reka, fuglatekju og eggjatekju meðfram, í og undir Skoruvíkurbjargi frá þeim merkjum, sem ákveðin verði til sjávar, að miðjum Þrætusigsskúta. Í öllum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómendur Hæstaréttar gengu á vettvang 11. september 2006.

I.

Samkvæmt gögnum málsins tilheyrir Skoruvík, sem er austust jarða á norðanverðu Langanesi, gagnáfrýjanda. Hann kveðst hafa eignast hana 1911, en áður hafi hún verið eign Hofskirkju í Vopnafirði að minnsta kosti frá því á 16. öld. Búið hafi verið á jörðinni þar til á árinu 1977, þegar síðasti ábúandinn flutti þaðan, en ábúðarsamningi við hann hafi ekki verið sagt upp fyrr en frá fardögum 1988 að telja. Næsta jörð vestan Skoruvíkur er Læknesstaðir, sem eftir fyrirliggjandi gögnum hafa einnig verið nefndir Læknisstaðir. Aðaláfrýjendur kveðast eiga þessa jörð í óskiptri sameign, en hún mun hafa farið í eyði 1953.

Landamerkjabréf var gert 12. maí 1885 fyrir Læknesstaði og hjáleiguna Höfða í þáverandi Sauðaneshreppi. Þar sagði að land jarðarinnar og Skoruvíkur „skilur Ytri-Bjarghús og Byggingarsteinn (Biskupssteinn), þaðan bein stefna í Skálakross ...“. Einnig kom þar fram að „Læknisstaðir og Höfði eiga reka og fuglbjörg fyrir sínu landi, að því fráskildu: 1. að Sauðaneskirkja á hálfan hvalreka frá Dretavíkurá í Beinþúfu. 2. að Sauðaneskirkja á fuglbjarg frá Lönguhlíðargjá út að Stóra-Sigi, og 3. á Hofskirkja fuglbjarg þaðan og að Ytri-Bjarghúsum.“ Landamerkjabréf þetta, sem var áritað um samþykki af ábúendum aðliggjandi jarða, þar á meðal tveimur ábúendum á Skoruvík, svo og af presti á Sauðanesi, var lesið á manntalsþingi 29. maí 1886 og fært í landamerkjabók Þingeyjarsýslu.

Samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda hefur ekki fundist landamerkjabréf fyrir Skoruvík. Í gerðabók fasteignamatsnefndar Norður-Þingeyjarsýslu frá 1916, þar sem fært var mat á jörðinni, er á hinn bóginn að finna svofellda lýsingu á merkjum hennar og Læknesstaða: „... úr Skálakross í Byggingarstein, úr Byggingarsteini í ytri Bjarghús á Skoruvíkurbjargi, en fuglabjarg og reki nær í miðjan Þrætusigsskúta í Skoruvíkurbjargi.“ Í mati á Læknesstöðum sagði þar meðal annars: „Læknisstaða og Skoruvíkurland skilur ytri Bjarghús og byggingarsteinn (Biskupssteinn), þaðan bein stefna í Skálakross.“ Ekki var þar getið um sérstök mörk á fuglabjargi og reka, svo sem gert var í lýsingu á Skoruvík.

Í samræmi við ákvæði laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum gaf sýslumaður Þingeyjarsýslu út áskorun 20. maí 1953 til þeirra, sem teldu sig eiga önnur ítök í jörðum innan umdæmis hans en skógarítök og veiðiítök í ám og vötnum, að lýsa réttindum sínum innan tólf mánaða frá síðustu birtingu hennar. Áskorun þessi var birt þrívegis í Lögbirtingablaði, síðast 10. júní 1953. Að liðnum þessum fresti strikaði sýslumaður í landamerkjabók yfir áðurgreindan texta úr landamerkjabréfi Læknesstaða frá 12. maí 1885, sem kom í framhaldi af orðunum „Læknisstaðir og Höfði eiga reka og fuglbjörg fyrir sínu landi“, og ritaði þar við svofellda athugasemd: „Ítökum ekki lýst samkv. áskorun 20.5.´53. Því eru þau niður fallin. J. Skaptason.“

Gagnáfrýjandi gerði leigusamning 26. júní 1995 við Þórshafnarhrepp um Skoruvík, þar sem meðal annars var tekið fram að leigutakanum væri heimilt að nýta reka á jörðinni og önnur hlunnindi, sem henni fylgja, þar á meðal æðarvarp og fugla- og eggjatekju í björgum. Leigutíminn skyldi vera eitt ár, en framlengjast um eitt ár í senn ef samningnum yrði ekki sagt upp af hendi annars hvors með þriggja mánaða fyrirvara. Ekki liggur annað fyrir en að samningur þessi sé enn í gildi. Þórshafnarhreppur mun hafa 15. maí 1996 veitt Eggjafélagi Þórshafnar heimild til eggjatöku í björgum austur frá Þrætusigi. Með bréfi til hreppsins 28. sama mánaðar mótmæltu aðaláfrýjendur því að félaginu hafi verið veitt heimild til allrar „eggjatöku í Læknesstaðabjörgum frá Þrætusigi út að Ytri Bjarghúsum.“ Í hinum áfrýjaða dómi er lýst skiptum aðaláfrýjenda við gagnáfrýjanda af þessu tilefni í aðdraganda þess að mál þetta var höfðað með stefnu 29. apríl 2003.

II.

Í málinu er ekki ágreiningur um merki jarðanna Skoruvíkur og Læknesstaða að því leyti, sem þau ráðast sunnan frá Skálakrossi af beinni línu norður að Byggingarsteini, en hnitasetning beggja þessara kennileita er óumdeild. Jafnframt er óumdeilt hvar Þrætusig er við bjargbrún, svo og að þar sé að finna hæsta punkt á landsvæðinu, sem málið varðar. Frá Byggingarsteini er um 1 km að bjargbrún og greinir aðilana á um hvar Ytri-Bjarghús hafi verið, en þau ráða næsta merkjapunkti á þeirri leið. Í aðalkröfu gagnáfrýjanda er miðað við að Ytri-Bjarghús hafi staðið í stefnu norðvestur frá Byggingarsteini, um 50 m suðvestan við Þrætusig, en í varakröfu að Ytri-Bjarghús hafi verið um 100 m í norðaustur frá Þrætusigi. Aðaláfrýjendur telja Ytri-Bjarghús á hinn bóginn hafa verið um 375 m fyrir norðaustan þann stað, sem aðalkrafa gagnáfrýjanda miðast við, eða sem næst 350 m frá Þrætusigi. Auk þessa deila aðilarnir um það hvort landamerkin liggi að endingu að sjó neðan við Þrætusig í Þrætusigsskúta, svo sem gagnáfrýjandi krefst, eða verði dregin í beinni línu frá Byggingarsteini um Ytri-Bjarghús til sjávar, eins og aðaláfrýjendur telja rétt.

Af áðurnefndu landamerkjabréfi fyrir Læknesstaði frá 12. maí 1885 er ljóst að Ytri-Bjarghús voru þekkt á þeim tíma, hvort sem þau hafa þá staðið enn eða ekki, og verður að ætla að svo hafi jafnframt verið þegar lýsingar á Læknesstöðum og Skoruvík voru færðar í áðurnefnda gerðabók fasteignamatsnefndar frá 1916. Eins og málið liggur fyrir verða þessi hús á hinn bóginn ekki staðsett nú með vissu, enda vísa aðilarnir í þessum efnum aðeins á grónar rústir, sem framburður vitna tekur ekki af skarið um hvort séu eftir Ytri-Bjarghús. Samkvæmt matsgerð fornleifafræðings, sem aðaláfrýjendur fengu dómkvaddan eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms, hafa á ýmsum tímum verið hús á öllum þeim þremur stöðum, þar sem aðilarnir telja í dómkröfum sínum að Ytri-Bjarghús hafi staðið. Taldi hann elstu húsin hafa verið reist á 13. öld og aftur á 18. til 20. öld á þeim stað, sem gagnáfrýjandi miðar við í aðalkröfu sinni, næst að aldri hafi verið hús frá 19. öld á staðnum, sem krafa aðaláfrýjenda tekur mið af, og yngst hafi verið hús frá síðustu öld þar sem gagnáfrýjandi finnur varakröfu sinni stað, en við hann var miðað í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Varðandi gildi matsgerðarinnar að þessu leyti er til þess að líta að rannsóknir á þessum rústum, sem matsmaðurinn reisti ályktanir sínar á, voru verulega misjafnar að umfangi. Þær voru minnstar á þeim stað, sem síðast var getið, en þar var ekki grafið í jörðu, heldur látið við það sitja að álykta af ytri ummerkjum, sem nú blasa við. Af þessu verður ekki séð að útilokað hafi verið að eldri hús geti áður hafa verið á þessum stað. Þegar af þessari ástæðu geta niðurstöður matsgerðarinnar engu ráðið um hvar talið verði að Ytri-Bjarghús hafi staðið.

Í málinu liggja fyrir skrár Örnefnastofnunar Íslands frá árinu 1966 með lýsingu á örnefnum í landi Skoruvíkur og Læknesstaða, en þær voru sagðar vera reistar á frásögn nafngreindra manna, sem þekkingu höfðu á staðháttum, meðal annars þáverandi ábúanda fyrrnefndu jarðarinnar. Í lýsingu örnefna varðandi Skoruvík var meðal annars greint frá staðarheitum í Skoruvíkurbjargi í talningu úr austri til vesturs, en henni lauk með eftirfarandi orðum: „Þá eru enn björg inn að svonefndum Þrætusigsskúta ..., sem er við Þrætusig ..., sem er á merkjum í bjarginu móti Læknisstöðum. Þess skal getið, að Skoruvík á bjargið lengra en landið upp af.“ Í áðurnefndri lýsingu jarðarinnar í gerðabók fasteignamatsnefndar, sem gagnáfrýjandi byggir á í málinu, voru landamerki sögð liggja úr Byggingarsteini í Ytri-Bjarghús, en fuglabjarg næði í miðjan Þrætusigsskúta. Þegar þessar tvær heimildir eru virtar saman getur ekki staðist að Ytri-Bjarghús hafi staðið fyrir vestan Þrætusig, svo sem miðað er við í aðalkröfu gagnáfrýjanda.

Í framhaldi af þeim orðum í skrá um örnefni í landi Skoruvíkur, sem vísað var til hér að framan, sagði eftirfarandi: „Á brúninni austan í Bjargkinninni ..., sem er kinn í bjarginu, eru smátættur, sem nefndar eru Ytri-Bjarghús ... Þarna eru merkin. Þaðan er svo línan í Byggingarstein“. Að virtum staðháttum á vettvangi verður að fallast á með gagnáfrýjanda að Bjargkinnin, sem hér um ræðir, hljóti að vera heiti á samfelldu graslendi í aflíðandi halla frá hæsta punkti bjargsins við Þrætusig. Sá staður, þar sem aðaláfrýjendur telja að Ytri-Bjarghús hafi staðið, er sem áður segir um 350 m í norðaustri frá Þrætusigi, en staðurinn, sem varakrafa gagnáfrýjanda miðar við, er um 50 m frá Þrætusigi í sömu stefnu. Af áðurgreindri matsgerð verður ráðið að rústir húsa á fyrrnefnda staðnum eru verulega meiri að umfangi en rúst á þeim síðarnefnda og verða þær vart nefndar „smátættur“. Til þess verður jafnframt að líta að gagnáfrýjandi hefur haldið því fram að matjurtagarður, sem sjá má leifar eftir í graslendinu á milli þessara tveggja staða, hafi tilheyrt Skoruvík. Sú staðhæfing hefur fengið stuðning í framburði vitnis, auk þess sem gæta verður að því að garðurinn hefur staðið við veginn eftir Langanesi til Skoruvíkur, talsvert austan við bæjarhús á Læknesstöðum. Benda staðhættir þannig til þess að garðurinn hafi heyrt til Skoruvíkur. Hann getur því aðeins hafa verið í landi þeirrar jarðar að varakrafa gagnáfrýjanda verði tekin til greina, en teldist ella hafa verið í landi Læknesstaða. Að öllu þessu virtu verður að fallast með héraðsdómara að miða verði við að Ytri-Bjarghús hafi verið á þeim stað, sem um ræðir í varakröfu gagnáfrýjanda.

Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verða niðurstöður hans staðfestar um önnur atriði en málskostnað, en í ljósi úrslita málsins er rétt að aðilarnir beri hver sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2005.

Mál þetta sem dómtekið var 15. ágúst sl. er höfðað með stefnu birtri 2. maí 2003.

Stefnendur eru Óli Þorsteinsson, Fjarðarvegi 17, Þórshöfn, Skúli Þorsteinsson, Hólavegi 9, Laugum, Guðbjörn Magnússon, Leiðhömrum 26, Reykjavík, Ólöf Magnúsdóttir, Fagragarði 12, Keflavík, Helgi Frímann Magnússon, Krummahólum 6, Reykjavík, Haraldur Magnússon, Fjarðarvegi 12, Þórshöfn, Jón Magnússon, Fannafold 27, Reykjavík, Magnús Sigurnýas Magnússon, Búhamri 52, Vestmannaeyjum og Matthías Magnússon, Hraunbæ 31, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnenda í aðalsök eru þær að viðurkennt verði með dómi að landamerki jarðanna Læknesstaða og Skoruvíkur afmarkist af línu er liggi á milli eftirtaldra hnitsettra landamerkja í samræmi við landamerkjalýsingu frá árinu 1885:  Úr Skálakrossi sem er hnitapunktur nr. 3 á dskj. nr. 5 (Norður 655771,717, Austur 685254,450), í Byggingarstein (Biskupsstein) sem er hnitapunktur nr. 2 á dskj. nr. 5 (Norður 659667,450, Austur 685657,117), í Ytri-Bjarghús sem er hnitapunktur nr. 1 á dskj. nr. 5 (Norður 660638,022, Austur 685368,913).

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Af hálfu stefnda í aðalsök er krafist sýknu í aðalsök og málskostnaðar.

Með gagnstefnu birtri 4. júní 2003 höfðaði stefndi gagnsök á hendur stefnanda í aðalsök.

Endanlegar dómkröfur stefnanda í gagnsök eru þær aðallega, að viðurkennt verði með dómi að landamerki jarðanna Skoruvíkur og Læknesstaða afmarkist af línu er liggi á milli eftirtalinna hnitsettra landamerkja: Úr Skálakrossi (Austur: 685254, Norður: 655771), í Byggingarstein (Biskupsstein), (Austur: 685657, Norður: 659668) í hnitpunkt nr. 1 á korti á dskj. Nr. 58 (Austur 685040,98, Norður 660436,43) í miðjan Þrætusigsskúta, hnitpunktur Austur: 685040,98, Norður. 660466,94 sbr. kort á dskj. nr. 58.

Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki jarðanna Skoruvíkur og Læknesstaða afmarkist af línu er liggi á milli eftirtalinna hnitsettra landamerkja: Úr Skálakrossi (Austur: 685254, Norður: 655771), í Byggingarstein (Biskupsstein), (Austur: 685657, Norður: 659668) í hnitpunkt 2 á korti á dskj. nr. 58 (Austur 685148,06, Norður 660511,56) og þaðan í miðjan Þrætusigsskúta, hnitpunkt Austur: 685040,98, Norður. 660466,94 sbr. kort á dskj. nr. 58.

Til þrautavara er þess krafist að dómurinn ákveði aðra landamerkjalínu milli jarðanna Skoruvíkur og Læknesstaða á því svæði sem um er deilt í þessu máli, auk þess  sem viðurkennt verði með dómi að gagnstefnandi eigi ítaksréttindi í landi aðalstefnanda til reka-, fugla- og eggjatöku meðfram, í og undir bjarginu á svæði sem markast frá landamerkjalínu sem viðurkennd verði af dómnum á punkti út við bjargbrún í miðjan Þrætusigsskúta hnitpunkt Austur: 685050,00, Norður: 660466,94 sbr. kort á dskj. nr. 58.

Í öllum tilvikum er þess krafist að aðalstefnendur geriði gagnstefnanda málskostnað að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda í gagnsök eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda og dæmdur málskostnaður úr hendi gagnstefnanda.

MÁLSATVIK

Stefnendur í aðalsök og stefndu í gagnsök, hér eftir nefndir stefnendur, eru afkomendur systkinanna Magnúsar Jónssonar og Þuríðar Jóns­dóttur og eiga jörðina Læknesstaði á Langanesi í óskiptri sameign.  Jörðin Læknes­staðir liggur að sjó og fuglabjörgum á Langanesi.  Hafa Læknesstaðabændur og aðrir bændur í nágrenninu haft í gegnum tíðina hlunnindi af fuglabjargi og reka hver fyrir sínu landi.  Næsta jörð austan við Læknesstaði er Skoruvík.  Jörðin Skoruvík er kirkjujörð og er nú á forræði jarðadeildar Landbúnaðarráðuneytisins. 

Af hálfu stefnenda er því haldið fram að landamerki jarðanna Skoruvíkur og Læknesstaða liggi eins og í kröfugerð þeirra segir.  Árið 1996 hafi Eggjafélag Þórshafnar verið stofnað á Þórshöfn.  Félagsmenn þess félags hafi það vor hafið að taka egg á svæði í bjarginu sem stefnendur hafi talið vera háð eignarrétti sínum.  Stefnendur hafi mótmælt þessu um leið og þeir urðu varir við eggjatökuna og hafi reynt að leita réttar síns hjá stjórnvöldum.  Eggjataka félagsins á þessum stað hafi byggst á eignarrétti ríkisins á jörðinni Skoruvík og verið gerð með samþykki Þórshafnarhrepps sem hafi verið og sé leigutaki jarðarinnar.

Skorað hafi verið á Landbúnaðarráðuneytið, sem fulltrúa stefnda, eiganda jarðar­innar Skoru­víkur, að viðurkenna óskoraðan eignarrétt stefnenda að fuglabjörgum sbr. bréf lögmanns stefnenda til stefnda dags. 20. apríl 1999.  Svar ráðuneytisins hafi borist þann 26. apríl 2000, en þar hafi eignarrétti stefnenda verið hafnað og talið að landamerki jarðanna væru í miðjum Þrætusigsskúta skv. landamerkjalýsingu fasteigna­matsnefndar frá 1920.  Hafi þá einnig komið í ljós að ráðuneytið byggði ekki á ítökum stefnda í bjarginu heldur beinlínis á skráðum heimildum en ráðuneytið hafi viðurkennt í bréfi sínu að ítök væru fallin niður fyrir vanlýsingu.  Sjónarmiðum ráðuneytisins hafi verið mótmælt, sbr. bréf lögmanns stefnenda dags. þann 12. maí 2000.  Árin 2000-2002 hafi Þórshafnar­hreppur bannað  eggjatöku á hinu umdeilda svæði vegna sjónarmiða stefnenda.  Fyrir liggi af hálfu Þórshafnarhrepps að hreppurinn muni ekki leyfa eggjatöku á hinu umdeilda svæði fyrr en málið hefur verið til lykta leitt með dómi.  Vegna þessa telji stefnendur ekki þörf á því að hreppurinn sé aðili að málinu en honum hafi verið tilkynnt um málssóknina.

MÁLSÁSTÆÐUR STEFNENDA Í AÐASLÖK OG STEFNDU Í GAGNSÖK

Stefnendur byggja á því að landamerki Skoruvíkur og Læknesstaða markist af línu frá Skálakrossi í Biskupsstein (Byggingarstein) og frá þeim punkti í Ytri-Bjarghús.  Sé þetta byggt á landamerkjaskrá frá árinu 1885.  Er því mótmælt að þær heimildir sem stefndi vísi til hrindi þinglýstri landamerkjaskrá.

Því er einnig mótmælt að landamerkjabréfið feli í sér einhliða yfirlýsingu þáverandi eigenda Læknesstaða. Þvert á móti sé skjalið fullgild landamerkjaskrá undirrituð af fulltrúum eigenda beggja jarðanna í samræmi við ákvæði þágildandi laga um landamerki frá 17. mars 1882 en þau lög eru forveri laga nr. 41/1919.  Sérstaklega sé mótmælt meintum umboðsskorti þeirra sem ritað hafi undir landamerkjaskrána.  Í fyrsta lagi sé ljóst að skv. ákvæðum landamerkjalaga frá 1882 hafi ábúendur verið fullgildir umboðsmenn landeiganda nema að annar væri fulltrúi væri tilgreindur er byggi í lögsagnarumdæminu sbr. 13. gr. laganna.  Í öðru lagi verði að telja líklegt að V. Sigurðsson prestur að Sauðanesi sem undirritaði landamerkjaskránna hafi verið fulltrúi Hofskirkju við undirritun skráarinnar.  Í þriðja lagi sé ljóst að sýslumaður sem var umboðsmaður ríkisins hafi ekki talið vera fyrir hendi umboðsskort.  Stefnendur byggi á því að staðfesting sýslumanns og athugasemdalaus þinglýsing á skjalinu sanni svo ekki verði um villst að ekki hafi verið um umboðsskort að ræða. 

Jafnvel þó að svo ólíklega vildi til að dómstólar teldu að ábúendur hefðu ekki umboð til að undirrita landamerkjaskránna eða teldu að hún væri ekki gild landamerkjaskrá sé ljóst hvar allir ábúendur jarðanna tveggja hafi talið landamerkin vera árið 1885.  Landamerkjaskráin sé því samtímaheimild um hvar allir aðilar hafi talið landamerkin vera jafnvel þó að hún væri ekki gild sem slík.  Þá benda stefnendur á að stefndi hafi ekki látið gera sambærilega landamerkjaskrá vegna Skoruvíkur þrátt fyrir lagaskyldu og hljóti að bera halla af því.

Landamerkjabréfið jafngildi dómsátt í landamerkjamáli í samræmi við reglur landamerkjalaga frá 1882 og laga nr. 41/1919.  Þá sé á því byggt að ef skjalið hafi ekki ígildi dómsáttar þá sé a.m.k. ljóst að um sé að ræða skjal sem sýslumaður hafi gefið út í embættisnafni um ágreiningsefni það sem í málinu er til umfjöllunar.  Því beri að líta svo á að efni skjalsins sé rétt þar til annað sannist sbr. 71. gr. laga nr. 91/1991.  Beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir hinu gagnstæða.

Þá er á það bent að skjalinu sé þinglýst án athugasemda með öllum þeim réttaráhrifum sem því fylgi.  Stefnendur byggja á því að þinglýst heimild þeirra gangi framar öllum óþinglýstum heimildum þ.á.m. þeim er stefndi byggi á í málatilbúnaði sínum.  Vísast í þessu sambandi til reglna um þinglýsingu sem í gildi hafi verið á þeim tíma sem þinglýsing fór fram og jafnframt til reglna núgildandi þinglýsingarlaga.  Þá byggja stefndu jafnframt á traustfangsreglum þinglýsingarlaga.

Þá er því mótmælt að lýsing á landamerkjum í gerðabók fasteignamatsnefndar hafi einhverja þýðingu í málinu eða teljist opinbert vottorð um landamerkin eins og haldið sé fram af stefndu.

Samkvæmt lýsingu jarðarinnar Skoruvíkur í gerðabókinni séu landamerki jarðanna við Ytri-Bjarghús.  Augljóst sé af lýsingunni að Skoruvík sé ætlað að eiga fuglabjarg og reka í miðjan Þrætusigsskúta en ekki landamerki.  Ýmis önnur réttindi fylgi þeim fulla eignarrétti sem stefnandi haldi fram svo sem netlög, selveiði o.fl.  Mjög undarlegt verði að teljast að lýsingin sé skráð með þessum hætti ef um sé að ræða landamerki.  Engin skýring sé á því af hverju niðurlag lýsingarinnar hljóði ekki á þann veg að línan liggi einfaldlega frá Ytri-Bjarghúsum í miðjan Þrætusigsskúta en það væri eðlilegast ef um landamerki væri að ræða í miðjum Þrætusigsskúta. 

Þá sé einnig ljóst að hvort sem Ytri-Bjarghús séu talin vera þar sem þau eru merkt á dskj. nr. 5 eða á dskj. nr. 58 þá fylgi nánast ekkert land á svæðinu á milli Ytri-Bjarghúsa og Þrætusigsskúta.  Verði að telja í ljósi þessa mjög undarlegt að landeigendur þessara jarða hafi ákveðið landamerkin með þessum hætti.  Einfaldara hefði verið að miða landamerkin við Þrætusigsskúta og sleppa því að láta línuna ganga í gegnum Ytri-Bjarghús. Stefnendur telja í samræmi við ofangreint að eina haldbæra skýringin á lýsingu á landamerkjum Skoruvíkur í gerðabók fasteignamatsnefndar sé að Skoruvík sé talin eiga ítaksréttindi í fuglbjargi og reka frá Ytri-Bjarghúsum í miðjan Þrætusigsskúta eins og standi berum orðum í lýsingunni en ekki sé átt við landamerki jarðanna.  Í þessu sambandi er bent á að skráð ítök Hofskirkju, sem átt hafi Skoruvík á þessum tíma séu nokkuð keimlík þeim réttindum sem skráð séu upp eftir óþekktum heimildarmanni í gerðabók fasteignamatsnefndar.

Þá séu lýsingar í gjörðabók ekki samkvæmar sjálfum sér.  Stefnendur byggja á því að dskj. nr. 6 sé ein heimild en ekki safn margra heimilda.  Tvær lýsingar séu á landamerkjum jarðanna á dskj. nr. 6.  Í lýsingu á landamerkum í kafla um Læknesstaði er þeim lýst nákvæmlega eins og á dskj. nr. 3-4.  Stefndu telja því að stefnandi geti ekki byggt kröfur sínar á þessari heimild enda beri henni ekki saman um hvar landamerkin séu.  Raunar byggi stefnendur á því að dskj. nr. 6 skjóti stoðum undir landamerkjaskrá á dskj. nr. 3-4 enda sé um að ræða tvær samtímaheimildir sem séu nákvæmlega eins orð fyrir orð.  Þá sé því einnig mótmælt að dskj. 6 og dskj. 33-34 séu samhljóða hvað landamerkin varðar.  Lýsingar á dskj. nr. 33 og 34 eru ekki einu sinni samhljóða.

Í þriðja lagi er því mótmælt að lýsingar á dskj. nr. 6 séu opinber skjöl í skilningi 71. gr. laga nr. 91/1991.  Lýsingar á landamerkjum geti ekki talist opinber vottorð embættismanna um það sem gerist í embætti þeirra eða sýslan.  Í besta falli sé hægt að líta svo á að lýsingarnar beri vott um að einhver hafi lýst merkjum með þessum hætti.  Þess utan sé ljóst að lýsingum beri ekki saman svo erfitt sé að sjá hvað stefnandi ætli sér að sanna með því að byggja á dskj. nr. 6.

Í fjórða lagi er því mótmælt að dskj. nr. 6 sé öllum kunnugt og byggt hafi verið á því í framkvæmd um áratuga skeið.  Á dskj. nr. 6 sé að finna tæplega 100 ára gamalt fasteignamat.  Það verður því ekki séð að mönnum sé nauðsynlegt að þekkja þetta skjal né heldur að menn eigi almennt að þekkja til þess nema til að þekkja rétt sinnar jarðar vegna skatta og skyldna sem lagðar voru á þá tilteknu jörð af ríkisvaldinu á meðan fasteignamatið var í gildi.  Mjög vafasamt verði að telja að fasteignamatið hafi verið opinbert plagg á þeim tíma sem það var gert en í seinni tíð hafi dskj. nr. 6 legið á söfnum fólki til sýnis.  Stefnendur benda sérstaklega á að fullyrðingar stefnda um nýtingu og beitingu lýsingarinnar í framkvæmd standist ekki samanburð við bréf fulltrúa stefnda á dskj. nr. 16 en í því bréfi sé ekki byggt á því að Skoruvík eigi landamerki í miðjan Þrætusigsskúta heldur aðeins nytjarétt.  Þá standist fullyrðingarnar ekki samanburð við þau skjöl sem stafi frá heimamönnum t.d. á dskj nr. 57.  Stefnendur byggja á því að stefndi þurfi að sanna nytin og framkvæmdina. 

Stefnendur byggja á því að landamerkjaskrá á dskj. nr. 3-4 sé ekki aðeins fullgild landamerkjaskrá skv. ákvæðum laga og opinber heimild um landamerkin heldur einnig samningur, ígildi dómsáttar, á milli eigenda jarðanna um hvar merkin eigi að vera.  Landamerkjaskráin á dskj. nr. 3-4 hafi því ekki aðeins þýðingu að eignarrétti sem slík heldur sé einnig eignarheimild á því landi sem um ræðir.  Því er mótmælt að svokölluð landamerkjalýsing á dskj. nr. 6 eigi að hrinda landamerkjaskrá á dskj. nr. 3-4 vegna þess að hún sé yngri heimild.  Stefnendur byggja á því að eigi sé hægt að þoka eldri eignarrétti með seinni tíma yfirlýsingum án þess að réttur skv. eldra heimildarskjali sé framseldur af þar til bærum aðila. Þá byggja stefnendur á því að lýsingar á örnefnum sem lagðar hafa verið fram á dskj. nr. 33-34 hrindi ekki landamerkjaskrá á dskj. nr. 3-4.  Um sé að ræða skjöl er sem eðli sínu skv. fjalli um örnefni en ekki landamerki sérstaklega.  Óljóst sé hver frumheimild þessara skjala sé en þeir aðilar sem þau skráðu virðist ekki hafa tekið tillit til þinglýstrar landamerkjaskrár.  Þá er á það bent að lýsingar í örnefnaskrá á dskj. nr. 33 á merkjum jarðanna virðast styðja málatilbúnað stefnenda en ekki stefnda.  Ekki sé samræmi á milli lýsinganna hvað merkin varðar.  Ljóst sé að nokkurrar ónákvæmni gæti í þessum skjölum sem standist ekki fyllilega skoðun á vettvangi.  Þá er því mótmælt að 71. gr. laga nr. 91/1991 gildi um þessar lýsingar í þessu máli en um það atriði vísa stefnendur til sömu sjónarmiða og gerð var grein fyrir vegna dskj. nr. 6. 

Önnur skjöl sem stefndi vísi til kröfu sinni til stuðnings um að landamerki jarðanna eigi að miða við miðjan Þrætusigsskúta innihaldi engar upplýsingar um ætluð landamerki jarðanna.  Samkvæmt dómkröfum stefnda sjálfs sé ljóst að stefnendur eigi allstóran hluta af Skoruvíkurbjargi að mati stefnda.  Vegna þessa styðji þau gögn sem stefndi hefur lagt fram ekki kröfur hans.  Þá sé einnig ljóst að Skoruvík eigi mikil fuglabjörg, m.a. í Skoruvíkurbjargi, og rekahlunnindi.  Enginn ágreiningur sé uppi um það atriði.  Stefnendur mótmæla því að þessi skjöl ein og sér eða með öðrum heimildum víki til hliðar skýrum ákvæðum um landamerki jarðanna á dskj. nr. 3-4.

Eftir ofangreindu styðji sú meginheimild sem stefndi byggi á frekar málstað stefnenda en stefnda.  Þá sýni önnur framlögð skjöl stefnda ekki fram á réttmæti þeirrar kröfu að miða beri landamerki jarðanna við miðjan Þrætusigsskúta.  Með vísan til dskj. nr. 3-4 og 6 beri því að slá því föstu að landamerki Læknesstaða og Skoruvíkur afmarkist af línu úr Skálakrossi í Byggingarstein og úr Byggingarsteini í Ytri-Bjarghús.

Stefnendur byggja á því að aldrei hafi verið ágreiningur fyrr eða síðar um hvar merkin væru.  Í þessu sambandi benda þeir á allar bréfaskriftir sem voru undanfari málshöfðunar.  Hvergi komi fram í þeim þessi ágreiningur þrátt fyrir að alla tíð hafi legið fyrir við hvaða tóftir stefnendur töldu Ytri-Bjarghús vera.  Í þessu sambandi er bent á það að Eggjafélag Þórshafnar, sem hafi í raun hafið ágreininginn með því að reyna að halda fram nytjarétti stefnda, hafi byggt bjarghús rétt innan við landamerkin Skoruvíkurmegin miðað við línu þá sem stefnendur haldi fram í aðalsök á milli Ytri-Bjarghúsa og Byggingarsteins.  Sú bygging sýni svo ekki verði um villst hvar heimamenn er vilja nýta bjargið telja merkin vera.

Stefnendur telja að fullsannað sé að Ytri-Bjarghús séu á þeim stað sem þeir haldi fram.  Verði ekki fallist á þetta telja stefnendur að gögnin geri þá staðsetningu svo sennilega að líta verði svo á að stefndi verði að hnekkja fullyrðingum stefnenda og beri því sönnunarbyrðina að þessu leyti.

Stefnendur mótmæla því að stefndi hafi unnið rétt fyrir hefð hvort sem er eigna-, afnota- eða ítakshefð. Stefndi hafi ekki nýtt landið og farið með það sem sína eign í 20 ár sbr. 2. gr. hefðarlaga.  Stefnendur benda á að stefndi hafi ekki á neinn hátt ráðstafað landi því eða fuglabjörgum sem deilt er um.  Þannig hafi stefndi ekki girt landið, ekki ráðstafað því að lögum á nokkurn hátt né nýtt það sannanlega.  Stefndi hafi enda ekki lagt fram nein gögn um vörslur sínar og ráðstöfun á landinu heldur látið nægja að fullyrða að svo hafi verið.  Stefnendur hafna þeim fullyrðingum sem órökstuddum og ósönnuðum.  Í samræmi við ofangreint telji stefnendur fráleitt að halda fram eignarhaldi stefnda á hinu umdeilda landi eins og gert sé.

Eftir ofangreindu sé málsástæðu stefnda um afnotahefð sbr. 7. gr. fyrningarlaga einnig hafnað. Þá er því einnig hafnað að stefndi hafi unnið ítakshefð með 40 ára óslitinni notkun sbr. 8. gr. hefðarlaga eins og haldið er fram í stefnu. Á það er bent að stefndi hafi ekki sýnt fram á neina nýtingu þeirra ítaka sem hann haldi fram.

Til þess að hægt sé að taka kröfu stefnda til greina þyrfti hann að hafa hefðað ítaksréttindi eftir mitt ár 1953 þegar þau hafi fallið niður fyrir vanlýsingu.  Innkallanir hafi veirð birtar í samræmi við lög nr. 113/1952 og ítakið hafi fallið niður.

Þá er algerlega ósannað skv. framansögðu að stefndi hafi eftir þennan tíma nýtt björgin á þann hátt sem stefndi heldur fram.  Ljóst sé að stefndi hafi ekki nýtt reka á þessu tímabili enda ómögulegt að nýta reka á hinu umdeilda svæði.  Þá liggi ekkert fyrir um nýtingu fugls og eggja á bjarginu. Hins vegar sé ljóst að hluti stefnenda hafi nýtt umdeildan hluta bjarganna frá 1964.  Þá hafi ekki verið búið í Skoruvík frá árinu 1977 og jörðin ekki verið nýtt af stefnda frá þeim tíma.  Þannig sé útilokað að stefndi hafi hefðað þau ítök sem hann heldur fram. 

Í ljósi þessa er mótmælt fullyrðingum stefnda um að stefnendur hafi sýnt af sér tómlæti gagnvart stefnda vegna meintrar nýtingar stefnda á svæðinu.  Stefndu hafi látið nýtingu stefnenda óáreitta frá 1885 enda séu engin gögn um deilur um landamerki eða nýtingu á svæðinu.  Þá sé ljóst að ef stefndi hafi talið sig eiga ítök eða eignarland á svæðinu hefði stefndi átt að bregðast við árið 1953.  Með því að gera það ekki hafi stefndi sýnt af sér tómlæti.  Stefnendur benda á að það var fyrst árið 1996 sem reynt var að nýta það landssvæði sem stefndi heldur fram að sé sitt en við það tækifæri hafi stefnendur strax brugðist við.  Fyrir þann tíma hafi enginn ágreiningur verið um að hið umdeilda landssvæði væri á Læknesstaðalandi og hafi Læknesstaðamenn nytjað landið sem slíkt.

Loks bendir stefnandi á að órökstuddar fullyrðingar stefnda um eignarhald eða nýtingu landsins séu mjög ótrúverðugar í ljósi bréfaskrifta stefnda eftir að mál þetta kom upp á yfirborðið árið 1996.  Þannig hafi það fyrst verið í bréfi landbúnaðarráðuneytisins þann 26. apríl 2000 sem haldið hafi verið fram eignarrétti á hinu umdeilda svæði.  Í því bréfi og fyrra bréfi stefnda hafi aldrei verið haldið fram eignarrétti á grundvelli hefðar eða því haldið fram að hið umdeilda svæði væri í vörslum ríkisins þrátt fyrir að fullt tilefni gæfist til. 

Stefnendur vísa máli sínu til stuðnings til meginreglna eignarréttarins sérstaklega hvað varðar reglur um landamerki.  Um friðhelgi eignarréttarins er vísað til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.  Þá er vísað til landamerkjalaga frá 17. mars 1887 sbr. núgildandi lög nr. 41/1919 um landamerki.  Þá er vísað til reglna laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum.  Um hefð er vísað til hefðarlaga nr. 46/1905.  Um þinglýsingu er vísað til tilskipunar frá 1883 ásamt síðari breytingum sbr. núgildandi lög nr. 39/1978.  Þá vísa stefnendur til reglna laga nr. 91/1991.  Um virðisaukaskatt af málskostnaði er vísað til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNDA Í AÐALSÖK OG STEFNANDA Í GAGNSÖK

Stefndi kveður að enda þótt þinglýst landamerkjalýsing sé ekki til staðar liggi fyrir landamerkjalýsing sem fram komi í gjörðabók fasteignamatsnefndar Norður-Þingeyjarsýslu sem löggilt var af Stjórnarráði Íslands 20. mars 1916 en þar sé landamerkjum Skoruvíkur lýst þannig: 

“Að austanverðu út á miðjum Fonti eru landamerki, einnig fuglabjörg og reki, við vörðu þá er Steinka nefnist; þaðan bein lína í vörðu á Tóuöxl milli Skála og Skoruvíkur.  Þaðan bein lína í vörðu á mel við Bjarnarvatn í Ölvesflóa; þaðan bein lína í vörðu á heiðarbrún, og svo þaðan bein lína í Skálakross; úr Skálakross í Byggingarstein; úr Byggingarsteini í ytri Bjarghús á Skoruvíkurbjargi, en fuglabjarg og reki nær í miðjan Þrætusigsskúta í Skoruvíkurbjargi.”

Stefndi reisir aðalkröfu sína á því að með síðasta hluta framangreindrar setningar, þ.e. “..en fuglabjarg og reki nær í miðjan Þrætusigsskúta í Skoruvíkurbjargi”, sé átt við landamerki jarðanna.   Íslenska ríkið eigi eignarrétt að því landi sem landamerkjalýsing þessi taki til í samræmi við kort á dskj. 58 og hnit þau sem tilgreind eru þar og í kröfugerð stefnda. Afstaða ráðuneytisins komi fram í bréfi landbúnaðarráðuneytis til eins af landeigendum Læknesstaða dags. 7. 5. 1997 og í bréfi ráðuneytisins dags. 26. 4. 2000. Stefndi telur skráningu í gjörðabók þessa hafa farið fram með þessum hætti til að fullnægja lagaskyldu og einnig eftirfarandi löggilding af Stjórnarráði Íslands. Ekki liggi annað fyrir en að landamerkjalýsing sú sem fram komi í framangreindri gjörðabók frá 1916, sé byggð á heimildum frá eigendum jarðanna. Lýsing í gjörðabók fasteignamatsnefndar sé öllum kunn sem eigi að þekkja hana og þurfi að hafa vitneskju um hana.  Jafnframt sé hún sú heimild sem byggt sé á og hafi verið byggt á í framkvæmd um margra áratuga skeið.  Ábúendur og leigutakar jarðarinnar Skoruvíkur hafi alla síðustu öld nýtt reka á því landi sem um sé deilt í þesu máli og haft eggja- og fuglatekju í Skoruvíkubjargi í samræmi við ákvæði þessarar landamerkjalýsingar í gjörðabók fasteignamatsnefndar.  Landamerkjalýsing þessi sé jafnframt yngri en yfirlýsing 1885 og ætti skv. því að ganga framar síðastnefndu lýsingunni. Þessi niðurstaða sé í samræmi við þau viðhorf sem hafa gilt í framkvæmd um margra áratuga skeið bæði af opinberum og einkaréttarlegum aðilum.  Um marga áratuga skeið og sennilega alla síðustu öld, a.m.k. hafi verið litið svo á að þetta land og þessi hluti Skoruvíkurbjargs væri innan landamerkja Skoruvíkur og hluti af jörðinni.  Þetta komi fram í ýmsum heimildum svo sem landamerkjalýsingu sem fram kemur í gjörðabók fasteignamatsnefndar Norður-Þingeyjarsýslu og lýsingar Örnefnastofnunar Íslands á jörðunum.

Landamerkjalýsingar sem fram komi annars vegar í umræddri gjörðabók fasteignamatsnefndar og hins vegar í lýsingum Örnefnastofnunar Íslands séu samhljóða og beri að öllu leyti saman um hvar landamerkin séu milli Skoruvíkur og Læknesstaða.  Þetta séu opinber skjöl og teljist rétt þar til annað hafi verið sannað, sbr. 71.gr. laga nr. 91/1991.  Samkvæmt þessu ættu þessar heimildir að ganga framar þeirri yfirlýsingu sem aðalstefnendur byggja mál sitt aðallega á.  Telur stefndi að stefnendur hafi sönnunarbyrði fyrir því að þessi gögn sem íslenska ríkið byggir kröfur sínar á um landamerki Skoruvíkur og Læknesstaða, séu röng.

Skoruvíkurbjarg sé í ýmsum lýsingum sem frammi liggja í málinu þau björg sem séu vestur frá bænum og bendir það eindregið til þess að Skoruvíkurbjarg og það land sem um sé deilt í þessu máli sé hluti af jörðinni Skoruvík og innan landamerkja hennar.

Ekkert sé fjallað um Skoruvíkurbjarg í lýsingum á Læknesstöðum.

Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 8. 11. 1995 sé einnig byggt á því við lýsingu landamerkja við mat á söluverði jarðarinnar Skoruvíkur að landamerki Skoruvíkur og Læknesstaða séu í Skoruvíkurbjargi í miðjum Þrætusigsskúta.

Hvorki kaupsamningur né afsal hafi fundist hjá sýslumannsembættinu á Húsavík fyrir jörðinni Skoruvík, þegar ríkið eignaðist jörðina um 1911.  Ekkert verði ráðið um stærð Læknesstaða af þeim kaupsamningum og afsölum sem fyrir liggja í málinu.

Stefnendur byggi rétt sinn nánast eingöngu á landamerkjalýsingu.  Stefndi telji skjalið ekkert sönnunargildi hafa í málinu, þar sem það sé aðeins einhliða yfirlýsing að því er virðist þáverandi eiganda Læknesstaða um hans skoðun á því hvar landamerki jarðanna liggi. 

Undirritanir ábúenda Skoruvíkur árið 1885 eða 1886 hafi að sjálfsögðu ekkert lagalegt gildi þar sem þeir hafi ekki verið eigendur Skoruvíkur og ekki getað bundið þá jörð eða eigendur hennar.  Jörðin Skoruvík hafi verið kirkjujörð í eigu Hofskirkju í Vopnafirði á 19. öld og þannig á þeim tíma sem ábúendur Skoruvíkur undirrituðu framangreint skjal. 

Fuglabjarg sem m.a. er deilt um eignarrétt að í þessu máli beri nafnið Skoruvíkurbjarg m.a. í daglegu tali og framkvæmd.  Bendi það eindregið til þess að það dragi nafn sitt af þeirri jörð sem það tilheyri og sé hluti af, þ.e. Skoruvík. Allt bjargið beri nafn jarðar stefnda, þ.e. Skoruvíkurbjarg.  Samkvæmt skrám Fasteignamats ríkisins fylgi jörðinni Skoruvík á Langanesi Þórshafnarhreppi, land, fjós byggt 1927, fjárhús með áburðarkjallara byggt 1944, tvær hlöður byggðar 1944, íbúðarhús byggt 1950 og reki sem metinn er á kr. 813.000.  Jörðinni Læknesstöðum I og II á Langanesi fylgir skv. skrám Fasteignamats ríkisins, land, sumarbústaður og reki sem metinn er samtals á kr. 40.000.

Leigusamningur dags. 26. 6. 1995 milli landbúnaðarráðuneytis og Þórshafnar-hrepps byggi m.a. á nýtingu á reka á jörðinni og öðrum hlunnindum sem tilheyri jörðinni, þ.e. æðarvarp og fugla- og eggjataka í björgum.  Samningurinn hafi verið samþykktur af Jarðanefnd Norður-Þingeyjarsýslu sbr. áritun á hann skv. 6. gr. 1. mgr. jarðalaga nr. 65/1976, en engar athugasemdir hafi verið gerðar af hennar hálfu.

Til að dómkröfur stefnenda nái fram að ganga þurfi þeir að sanna að eignarréttur þeirra nái til þess svæðis sem þeir segjast eiga. Ef dómurinn fallist ekki á að framangreind gögn sanni að landamerki jarðanna séu með þeim hætti sem stefndi haldi fram í gagnkröfu sinni sbr. m.a. dskj. 58 miðað við þau gögn og sjónarmið sem nefnd hafi verið hér að framan, er á því byggt að stefndi hafi öðlast ítaksréttindi fyrir hefð sbr. 2.gr. hefðarlaga nr. 46/1905.  Stefndi telur ótvírætt að skilyrðum hefðarlaga sé fullnægt hér.

Fallist dómurinn ekki á framangreint, er gerð krafa um að dómurinn ákveði aðra landamerkjalínu milli jarðanna Skoruvíkur og Læknesstaða á því svæði sem um er deilt í þessu máli auk þess sem stefndi byggir á því að jörðin Skoruvík/stefndi eigi ítaksréttindi í landi stefnanda til reka- og eggja- og fuglatekju.

Byggt er á því ef ekki er fallist á framangreind sjónarmið, að eftir gildistöku laga nr. 113/1952 og innkallanir sem lögin buðu hafi stefndi nýtt jörð þá sem um er deilt í málinu svo að ný ítaksréttindi hafi stofnast og að stefndi hafi hefðað ítaksréttindi með 40 ára óslitinni notkun frá þeim tíma og að skilyrðum 8. gr. laga nr. 46/1905 sé fullnægt, enda hafa reki, egg og fugl verið nýtt frá þessum tíma fram á daginn í dag.

Stefnendur hafi ekki litið á umdeilt landssvæði sem sína eign í þau u. þ. b.  100 ár sem hér séu til umfjöllunar og það sé ekki fyrr en 1997 að þeir hafi greint stefnda frá afstöðu sinni.  Stefnendur og þeir sem þeir leiða rétt sinn frá hafi sýnt af sér þvílíkt stórkostlegt tómlæti gagnvart nýtingu stefnda á þessu landssvæði að aldrei ætti að taka kröfu þeirra til greina.

Stefndi bendir á að gert er ráð fyrir því að hægt sé að skilja hlunnindi eða ítök frá jörð skv. 3.gr. jarðalaga nr. 65/1976 og er mótmælt fullyrðingu stefnenda um annað.  Byggt er á því að lýsing sem fram kemur í gjörðabók fasteignamatsnefndar Norður- Þingeyjarsýslu sem fyrr er lýst fullnægi skilyrðum laga nr. 41/1919 um landamerki.

Stefndi vísar til meginreglna eignarréttar, en einnig til hefðarlaga nr. 46/1905 sérstaklega til 2. gr., 7. og 8. gr. sbr. 1. gr.  Einnig til laga nr. 41/1919 um landamerki, m.a. 5. gr. og til jarðalaga nr. 65/1976, sérstaklega 3. gr.  Einnig til 71. gr. og 130. gr. sbr. 129.gr. laga nr. 91/1991 og til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um tómlæti og til laga nr. 64/1994, aðallega 8. gr.  Vegna viðurkenningarkröfu í gagnsök er vísað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.  Einnig vísar stefndi um gagnsök til 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.  

NIÐURSTAÐA

Í landamerkjaskrá Þingeyjarsýslu er svofelld lýsing á landamerkjum jarðarinnar Læknesstaða og hjáleigunnar Höfða:

„Læknisstaða og Skoruvíkurland, skilur Ytri-Bjarghús og Byggingarsteinn (Biskupssteinn), þaðan bein stefna í Skálakross. Þá skilur Læknisstaða- og Kumlavíkurland, bein stefna úr Skálakrossi og í Hólmatjörn. Þá skilur Læknisstaða og Brimnesland bein stefna úr Hólmatjörn og í Flóabotnavatn. Þaðan bein stefna þangað sem Dretavíkurá og Rauðilækur falla saman, þaðan ræður Dretavíkurá til sjávar.

Læknisstaðir og Höfði eiga reka og fuglabjörg fyrir sínu landi, (að því fráskildu: 1. Að Sauðanesskirkja á hálfan hvalreka frá Dretavíkurá í Beinþúfu. 2. Að Sauðanesskirkja á fuglbjarg frá Lönguhlíðargjá út að Stóra-Sigi, og 3. á Hófskirkja fuglabjarg þaðan og að Ytri-Bjarghúsum.).”

Þá er eftirfarandi athugasemd árituð á landamerkjalýsinguna:

„Ítökum ekki lýst samkv. áskorun 20. 50 ´53. Því eru þau niður fallin. J. Skaptason.”

Landamerkjalýsingin er árituð af ábúendum á Kumlavík, Hrollaugsstöðum, Brimnesi og Skoruvík og prestinum á Sauðanesi 12. maí 1885. Hún var innfærð í landamerkjabók og þinglesin á manntalsþingi 29. maí 1886.

Landamerkjabréf fyrir Skoruvík fyrirfinnst ekki en í Gjörðabók fasteignamatsnefndar í Norður- Þingeyjarsýslu eru landamerki sögð:

„Að austanverðu út á miðjum Fonti eru landamerki, einnig fuglabjarg og reki, við vörðu þá er Steinka nefnist, þaðan bein lína í vörðu á tóuöxl milli Skála og Skoruvíkur. Þaðan bein lína á vörðu á mel við Bjarnavatn í Ölvesflóa; þaðan bein lína í vörðu á heiðarbrún, og svo þaðan bein lína í Skálakross, úr Skálakross í Byggingarstein; úr Byggingarsteini í ytri Bjarghús á Skoruvíkurbjargi, en fuglabjarg og reki nær í miðjan Þrætusigsskúta í Skoruvíkurbjargi.”

Í örnefnalýsingu fyrir jörðina Skoruvík segir m.a: svo

„…Þá eru enn björg inn að svonefndum Þrætusigsskúta (111) sem er við Þrætusig (fleirt.) (112), sem er á merkjum í bjraginu móti Læknisstöðum. Þess skal getið, að Skoruvík á bjargið lengra en landið upp af.

Á brúninni austan í Bjargkinninni (112a), sem er kinn í bjarginu, eru smátættur sem nefndar eru Ytri-Bjarghús (113). Þarna eru merkin. Þaðan er svo línan í Byggingarstein (114).”

Í upphafi örnefnalýsingar þessarar segir að Skúli Skúlason hafi skráð örnefnin hér og í sumar hafi Björn Kristjánsson vitavörður farið þar yfir það. Ekki kemur fram hvar og hvenær þetta var.  Í lok lýsingar segir að hún hafi verið yfirfarin 14. mars 1966 með Jóhanni Gunnlaugssyni bónda á Eiði og margt verið lagað en Jóhann gjörþekki Langanes utanvert.

Í örnefnalýsingu fyrir jörðina Læknisstaði segir að Skúli Skúlason hafi skráð hér örnefni sem Zofonias Jónsson hafi farið yfir í sumar og aukið við nokkuð. Kemur ekki fram hvar eða hvenær þetta var. Þá segir aftan við lýsinguna að hún hafi verið yfirfarin 14. mars 1966 af Jóhanni Gunnlaugssyni, Eiði sem sé gagnkunnugur á Langanesi.

Ljóst er af landamerkjabréfi Læknesstaða, sem áritað er af ábúanda Skoruvíkur, að merki jarðanna liggja úr Skálakrossi í Biskupsstein og þaðan í Ytri Bjarghús. Stefndi heldur því fram að úr Ytri Bjarghúsum liggi línan í Þrætusigsskúta. Stefnendur krefjast þess að dæmt verði að línan liggi úr Biskupssteini í Ytri Bjarghús. Aðilar deila um hvar Ytri Bjarghús séu. Af hálfu stefnda hefur verið lagður fram uppdráttur á dskj. nr. 58 þar sem er að finna þrjá punkta merkta 1 – 3. Miðast krafa stefnda við að punktur 1 sé Ytri Bjarghús, varakrafa við að punktur 2 sé Ytri Bjarghús en krafa stefnenda miðar við að punktur 3 sé Ytri Bjarghús.

Kemur nú til úrlausnar hvar Ytri-Bjarghús séu og er hér miðað við uppdráttinn á dskj. nr. 58. Punktur 1 liggur vestan Þrætusigs og telur dómari það ekki samrýmast heimildum þeim sem aðilar hafa lagt fram að Þrætusig sé austan Ytri-Bjarghúsa eins og aðalkrafa stefnda byggir á. Þá telur dómari að jarðrask það sem stefnendur halda fram að sé tótt  Ytri-Bjarghúsa og merkt er 3. á dskj. 58 sé allt of stórt til þess að geta verið umrædd tótt. Kemur einnig hér til að samkvæmt örnefnaskrá fyrir Skoruvík er Stóri Karl undan landi hennar en hann er við punkt 3 á uppdrættinum og enn fremur að fram kemur í skýrslum vitna að kartöflugarður sem merktur er á uppdráttinn er í landi Skoruvíkur. Verður því kröfu stefnenda um að punktur 3 sé á mörkum jarðanna hafnað. Við athugun á vettvangi  mátti greinilega sjá að tótt er að finna þar sem punktur 2 er á uppdrættinum. Er það álit dómsins að þar sé að finna Ytri-Bjarghús og sé þessi staður á mörkum jarðanna.

Kemur þá til athugunar hvort fallist verður á það með stefnda að draga beri línu úr punkti 2 í Þrætusig eins og gert er í kröfugerð stefnda, en stefnendur hafa mótmælt því. Í landamerkjabréfi Læknesstaða segir að Læknesstaðir og hjáleigan Höfði eigi reka og fuglabjörg fyrir sínu landi en jafnframt kemur fram að Sauðaneskirkja og Hofskirkja eigi ítök í landinu. Þá kemur fram í örnefnalýsingu Skoruvíkur að jörðin eigi bjargið lengra en landið upp af. Þykir dómara ljóst af þessu að mörk ítaka í bjarginu hafi verið haldin við Þrætusig en ágreiningslaust að landið upp af að Ytri-Bjarghúsum hafi verið innan merkja Læknesstaða. Samkvæmt þessu verður þeirri kröfu stefnda að merki jarðanna liggi á línu úr Ytri Bjarghúsum í Þrætusig hafnað.

Af hálfu stefnda er sú krafa gerð til þrautavara að dómurinn ákveði aðra landamerkjalínu milli jarðanna en krafa er gerð um. Eins og að framan greinir er það niðurstaða dómsins að punktur 2 á dómskjali nr. 2 sé á mörkum en ekki er fallist á þá kröfu stefnda að þaðan sé lína dregin í Þrætusig. Kröfugerð stefnenda nær ekki lengra til norðurs en að Ytri-Bjarghúsum. Dómurinn telur að rétt sé að merki jarðanna til norðurs  liggi eftir línu sem dregin er í beinu framhaldi af línu úr Biskupssteini um Ytri Bjarghús og til sjávar.

Kemur þá til úrlausnar hvort réttindi sem lýst er að Hofskirkja hafi átt samkvæmt landamerkjabréfi Læknesstaða og ekki er ágreiningur um að nýtt hafi verið af ábúendum í Skoruvík séu niður fallin.

Ekki verður annað séð en að réttindi þessi sem taka til fuglabjarga frá Stóra-Sigi að Ytri-Bjarghúsum samkvæmt nefndu landamerkjabréfi hafi verið ítaksréttindi í þeim skilningi, sem um ræðir í 1. gr. laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum. Er jafnframt fullnægt skilyrðum 2. og 3. gr. laga nr. 113/1952 fyrir því, að öðrum ákvæðum laganna verði beitt um réttindi stefnda, svo sem haldið er fram af stefnendum.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 113/1952 skyldu héraðsdómarar á næstu sex mánuðum eftir gildistöku laganna fá birta þrívegis í Lögbirt­ingablaði áskorun til þeirra, sem teldu sig eiga ítök í jörðum í við­komandi umdæmi, um að lýsa réttindum sínum innan tólf mánaða frá síðustu birtingu áskorunarinnar. Samkvæmt 11. gr, laganna skyldu þau þegar öðlast gildi, en þau birtust í Stjórnartíðindum 29. desember 1952. Áskorun samkvæmt lögum þessum um að menn lýstu ítaksrétti sínum var gefin út af sýslumanninum í Þingeyjarsýslu og birtist í Lögbirtingablaði 27. maí, 3. júní  og 10. júní 1953. Samkvæmt áritun sýslumannsins í Þingeyjarsýslu í landamerkjabók var ítaksréttindum ekki lýst.  Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 113/1952 skyldi ítak falla úr gildi, ef því væri ekki lýst innan þess frests, sem greindi í 4. gr. laganna. Verður samkvæmt framansögðu að líta svo á, að nefnd ítaksréttindi séu niður fallin vegna vanlýsingar.

Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á slíka óslitna hagnýtingu framangreindra ítaksréttinda í landi stefnenda, eftir að þau féllu niður, að til greina komi að fallast á það með stefnda að skilyrði hefðarlaga hafi verið uppfyllt.

Verður því kröfu hans um að viðurkennt verði að stefndi eigi réttindi innan landamerkja Læknesstaða eins og þau eru ákvörðuð í dómi þessum hafnað.

Rétt þykir að stefndu í aðalsök og stefnandi í gagnsök greiði stefnendum í aðalsök og stefndu í gagnsök 1.000.000 króna í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Landamerki jarðanna Læknesstaða og Skoruvíkur afmarkast af línu sem dregin er úr Skálakrossi sem er hnitpunktur (Norður: 655771 Austur: 685254), í Byggingarstein (Biskupsstein), (Norður: 659668, Austur 685657), og þaðan bein lína til sjávar um Ytri-Bjarghús, hnitpunkt nr. 2 á dskj. 58 (Norður: 660511,56, Austur: 685148,06).

Kröfu stefnanda í gagnsök, íslenska ríkisins, um viðurkenningu á ítaksréttindum í landi stefndu í gagnsök og stefnenda í aðalsök er hafnað.

Stefndi í aðalsök og stefnandi í gagnsök, íslenska ríkið,  greiði stefnendum í aðalsök og stefndu í gagnsök, Óla Þorsteinssyni, Skúla Þorsteinssyni, Guðbirni Magnússyni, Ólöfu Magnúsdóttur, Helga Frímanni Magnússyni, Haraldi Magnússyni, Jóni Magnússyni, Magnúsi Sigurnýasi Magnússyni og Matthíasi Magnússyni, 1.000.000 króna í málskostnað.