Hæstiréttur íslands
Mál nr. 279/2004
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Aðfinnslur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 10. febrúar 2005. |
|
Nr. 279/2004. |
M(Sveinn Andri Sveinsson hrl. Hákon Stefánsson hdl.) gegn K (Dögg Pálsdóttir hrl. Steinunn Guðbjartsdóttir hdl.) |
Börn. Forsjá. Aðfinnslur. Gjafsókn.
M og K deildu um forsjá fimm ára dóttur sinnar, B. Talið var mikilvægt eftir það umrót og þá erfiðleika í samskiptum aðila, sem B hafði mátt búa við, að ró skapaðist um hana og hún fengi að búa við stöðugleika. Öryggi og festa virtist hafa ríkt í lífi hennar síðastliðið eitt og hálft ár sem hún hafði búið hjá K. Á þessum tíma virtist B hafa náð ágætu jafnvægi og ekki annað komið fram en að henni liði vel í dag og dafnaði vel. Því yrði ekki séð að breyting á umhverfi og aðstæðum yrði henni til góðs. Þegar litið væri til framangreinds og ungs aldurs B yrði að telja hagsmunum hennar betur borgið fengi móðir forsjá hennar. Var K því falin forsjá B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu upphaflega til Hæstaréttar 7. apríl 2004. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 2. júní, en áfrýjandi skaut því á ný til Hæstaréttar 30. sama mánaðar. Hann krefst þess aðallega, að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að honum verði fengin forsjá dóttur aðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
Aðilar máls þessa eru [erlendir] ríkisborgarar, sem gengu í hjúskap hér á landi [...] 1996. Þau fluttust til Íslands 1998 og bjuggu þar saman þar til þau slitu samvistum í júní 2001. Dóttir þeirra, sem deilt er um forsjá á, fæddist hér [...] 1999. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2003, sem staðfestur var í Hæstarétti 28. október 2004, var aðilum veittur skilnaður að borði og sæng.
Áfrýjandi reisir frávísunarkröfu sína á því, að mál þetta heyri undir lögsögu franskra dómstóla en ekki íslenskra. Stefnda höfðaði mál þetta 19. júní 2001 en áfrýjandi höfðaði skilnaðarmál í Frakklandi 5. september 2001. Þegar af þeirri ástæðu verður málinu ekki vísað frá dómi.
Frá því að héraðsdómur gekk hafa orðið þær breytingar á högum stefndu, að hún hefur fest kaup á nýrri og stærri íbúð, þar sem hún býr með dóttur sinni og sambúðarmanni, og eiga þau von á barni. Sýslumaðurinn í Reykjavík kvað upp úrskurð 7. júní 2004 um umgengni áfrýjanda við dóttur sína aðra hverja helgi frá föstudegi til sunnudags og frá þriðjudegi til miðvikudagsmorguns í þeirri viku, sem helgarumgengni nýtur ekki við. Fyrir liggur, að aðilar komust að samkomulagi 18. júní 2004 um enn rýmri umgengni en kveðið var á um í úrskurðinum, og kom fram í málflutningi fyrir Hæstarétti að umgengnin hafi gengið vel frá þeim tíma.
Með vísan til forsendna héraðsdóms, sem var kveðinn upp með sérfróðum meðdómendum, ber að staðfesta hann.
Það athugist, að meðferð máls þessa hefur dregist úr hófi, en að verulegum hluta verður áfrýjanda um það kennt.
Rétt þykir, að áfrýjandi greiði 150.000 krónur upp í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð. Um gjafsóknarkostnað stefndu fer svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, M, greiði 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. desember sl., er höfðað með stefnu þingfestri 19. júní 2001 af K, [ ] gegn M, [ ].
Með gagnstefnu þingfestri 28. júní 2001 höfðaði stefndi gagnsök í málinu.
Dómkröfur
Aðalstefnandi gerir þá kröfu að vegna hjónaskilnaðar hennar og aðalstefnda verði henni dæmd forsjá dótturinnar, B, kt. [ ], til 18 ára aldurs hennar.
Dómkröfur aðalstefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfu aðalstefnanda um að henni verði dæmd forsjá dótturinnar, B.
Gagnstefnandi gerir þær kröfur að honum verði vegna hjónaskilnaðar hans og gagnstefndu dæmd forsjá dótturinnar, B, til 18 ára aldurs hennar.
Gagnstefnda gerir þær kröfur að kröfu gagnstefnanda um forsjá verði hafnað og gagnstefndu dæmd forsjá dótturinnar.
Báðir málsaðilar gera þær kröfur í aðalsök og gagnsök að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi hins eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts.
[ ]
Niðurstaða
[...]
Málsaðilar, sem átt hafa í langvarandi og erfiðri forsjárdeilu, gera báðir kröfu um að fá forsjá barnsins. Í 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992 segir að í úrlausn dómstóls verði ekki mælt fyrir um sameiginlega forsjá barns nema foreldrar séu sammála um þá skipan, en eins og fram hefur komið er ekki um slíkt að ræða í þessu máli. Ber því, samkvæmt lögum, að dæma öðru hvoru foreldra forsjá barnsins, enda er ekki gerð krafa um sameiginlega forsjá í málinu.
[...]
Barnið, B, er í dag 4 ára gömul. Tæpum tveimur árum eftir fæðingu hennar slitu málsaðilar samvistum og hafa síðan þá deilt hatrammlega um forsjá hennar og umgengni við hana. Hefur ekki komið fram í málinu hvað það er í raun sem veldur því að þau deila svo hart, en samkvæmt niðurstöðum Odda Erlingssonar eru báðir foreldrar mjög hæfir til þess að fara með forsjá barnsins og tengsl þeirra beggja við barnið góð, sbr. það sem áður er rakið. Þá virðast þau bæði líta svo á, þrátt fyrir ágreining, að hitt foreldrið sé hæft foreldri.
Telja verður, samkvæmt því sem fram er komið, að báðir aðilar hafi annast barnið meðan á sambúð þeirra stóð. Eftir samvistarslitin hefur barnið hins vegar verið lengur í umsjá móður en föður. Samkvæmt framburði Odda Erlingssonar virðast þau reyna að halda barninu utan við deilurnar en ljóst þykir að gagnkvæm tortryggni hafi komið niður á barninu.
B hefur verið í leikskóla síðan í maí 2002. Samkvæmt umsögn leikskólakennara er B hraust, úthaldsgóð, samvinnuþýð glöð og jákvæð. Samskipti kennarana við móður, sem virðist halda uppi góðri reglu, ganga mjög vel og barnið er sótt á svipuðum tíma.
Aðalstefnandi er í [starfi] [...] og hún býr í eigin húsnæði. Félagsleg og fjárhagsleg staða hennar er góð. Hún er í sambúð með manni. Bar hún fyrir dómi að samband þeirra væri gott og einnig samband hans við B. Bar hún að hún hygðist áfram búa og starfa á Íslandi.
Aðalstefndi hefur búið á Íslandi frá því í janúar 2003. Hann starfar sem [...]. Hann býr í leiguhúsnæði. [...].
[...]
Dómurinn telur mikilvægt, eftir það umrót og erfiðleika í samskiptum málsaðila, sem barnið hefur mátt búa við, að ró skapist um barnið og það fái að búa við stöðugleika. Virðist öryggi og festa hafa hafa ríkt í lífi B sl. eitt og hálft ár sem hún hefur búið hjá móður. Á þessum tíma virðist barnið hafa náð ágætu jafnvægi, þrátt fyrir hatrammar deilur foreldranna og ásakanir þeirra í garð hvors annars, og þykir ekki annað fram komið en að því líði vel í dag og dafni vel. Verður því ekki séð að breyting á umhverfi og aðstæðum verði því til góðs.
Þegar litið er til ungs aldurs barnsins og þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að hagsmunum B sé betur borgið fái móðir forsjá hennar. Ber því að fallast á kröfur aðalstefnanda og gagnstefndu í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður aðalstefnanda og gagnstefndu, þ.e. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hrl., 1.200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Tveir lögmenn hafa aðallega haldið uppi vörnum fyrir aðalstefnda í málinu, fyrst Guðmundur St. Ragnarsson hdl. og síðar Ólafur Ragnarsson hrl. Er gerð krafa um þóknun vegna vinnu þeirra beggja. Ekki er litið á þóknun Guðmundar St. Ragnarssonar hdl. sem útlagðan kostnað heldur er hæfileg þóknun til hans metin með sama hætti og þóknun hinna lögmannanna
Gjafsóknarkostnaður aðalstefnda og gagnstefnanda, þ.e. þóknun Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 400.000 krónur, þóknun Ólafs Ragnarssonar hrl., 500.000 krónur, og útlagður kostnaður, 200.479 krónur, eða samtals 1.100.479 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Við ákvörðun máflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóminn kváðu upp Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Tómas Zoëga geðlæknir.
D Ó M S O R Ð
Aðalstefnandi og gagnstefnda, K, skal fara með forsjá telpunnar B, kt. [ ], til 18 ára aldurs hennar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður aðalstefnanda og gagnstefndu, þ.e. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hrl., 1.200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Gjafsóknarkostnaður aðalstefnda og gagnstefnanda, þ.e. þóknun til Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 400.000 krónur, þóknun til Ólafs Ragnarssonar hrl., 500.000 krónur, og útlagður kostnaður 200.479 krónur, eða samtals 1.100.479 krónur, greiðist úr ríkissjóði.