Hæstiréttur íslands
Mál nr. 90/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Þriðjudaginn 8. apríl 2003. |
|
Nr. 90/2003. |
Lífeyrissjóðurinn Framsýn(Atli Gíslason hrl.) gegn Metnaði ehf. (enginn) |
Kærumál. Aðför. Gjaldþrotaskipti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu L um að bú M yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Fyrir lá í málinu að lögreglan hafði sent fyrirsvarsmanni M kvaðningu í fyrirtöku á aðfararbeiðni L og hringt í sama skyni, en ekkert lá fyrir um að tilraun hafi verið gerð til að handtaka fyrirsvarsmanninn og færa hann fyrir sýslumann. Talið var að L hafi ekki tekist að sýna fram á að fyrirsvarsmaður M færi huldu höfði í merkingu 1. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Væru skilyrði ákvæðisins því ekki uppfyllt til að taka mætti kröfu L um gjaldþrotaskipti á búi M til greina. Þá var talið, að samkvæmt langri dómvenju væri það skilyrði þess að bú skuldara yrði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. sömu laga, að mætt hafi verið af hálfu gerðarþola við aðför, en það skilyrði var ekki uppfyllt í málinu. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
I.
Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði var að beiðni sóknaraðila gert fjárnám hjá varnaraðila 19. júní 2002. Var fjárnáminu lokið án árangurs með vísan til 62. gr. laga nr. 90/1989 um aðför að fjarstöddum fyrirsvarsmanni varnaraðila, en ekki hafði tekist að boða hann til gerðarinnar. Samkvæmt gögnum málsins var greiðsluáskorun og boðun til fyrirsvarsmanns varnaraðila vegna fjárnáms birt fyrir móður hans á heimili hans. Þar sem ekki var mætt fyrir hönd varnaraðila við fjárnámsgerðina leitaði sýslumaðurinn í Reykjavík, með vísan til 3. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989, aðstoðar lögreglu við að boða fyrirsvarsmann hans til fyrirtöku 6. mars 2002, en án árangurs. Þá óskaði sýslumaður eftir því í maí sama árs að lögregla færði fyrirsvarsmanninn til sýslumanns en það tókst ekki. Einnig kveðst lögmaður sóknaraðila hafa farið ásamt fulltrúa sýslumanns á lögheimili varnaraðila í janúar 2002. Hafi þá komið í ljós að varnaraðili væri hættur starfsemi. Einnig hafi verið farið að lögheimili fyrirsvarsmanns varnaraðila, en samkvæmt frásögn íbúa þar hafi hann ekki lengur átt þar heima og ekki vitað um aðsetur hans. Í gögnum, sem stafa frá sýslumanninum í Reykjavík og sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt, kemur einnig fram að leitað hafi verið aðstoðar lögreglu við að boða fyrirsvarsmann varnaraðila til fyrirtöku hjá sýslumanni 3. október 2002 og 13. febrúar 2003 vegna krafna annarra á hendur varnaraðila, en lögreglu ekki tekist að hafa upp á honum.
Til stuðnings kröfu sinni vísar sóknaraðili einkum til 1. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, en að henni frágenginni telur hann að taka beri kröfu sína til greina á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. sömu laga.
Samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta ef skuldarinn hefur strokið af landi brott eða fer annars huldu höfði og ætla megi að það sé sökum skulda, enda megi telja að hætta sé á að dráttur á gjaldþrotaskiptum geti bakað lánardrottninum tjón. Telur sóknaraðili að sú aðstaða sé fyrir hendi í málinu, sem fram komi í lagaákvæðinu. Samkvæmt vottorði hlutafélagaskrár fari áðurnefndur fyrirsvarsmaður einn með stjórn varnaraðila, sem sé einkahlutafélag, og gegni þar starfi framkvæmdastjóra og stjórnarformanns og fari einn með prókúru fyrir félagið. Hann fari nú huldu höfði og greiðsluáskorun og boðun til hans vegna fjárnáms hafi verið birt skyldmennum fyrirsvarsmannsins á lögheimili hans án þess að þeim væri sinnt. Starfsemi varnaraðila hafi verið hætt og skattframtölum ekki skilað. Verði að ætla að fyrirsvarsmaðurinn fari huldu höfði vegna skulda, enda séu fjölmargir aðrir kröfuhafar einnig á höttunum eftir honum vegna langvarandi vanskila varnaraðila við þá. Sóknaraðili hafi gert ítrekaðar tilraunir til að ná fram fullnustu á kröfu sinni hjá sýslumanninum í Reykjavík, sem hafi leitað aðstoðar lögreglu á grundvelli 3. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989, en án árangurs. Krafa sóknaraðila sé meðal annars vegna iðgjalda fyrrum starfsmanna varnaraðila í lífeyrissjóð á árinu 1999 og sé sóknaraðila brýn nauðsyn á að ná fram gjaldþrotaskiptum á búi varnaraðila til að ganga úr skugga um hvort einhverjar ráðstafanir hafi verið gerðar, sem unnt sé að rifta samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991.
II.
Meðal málsgagna er tölvubréf sýslumannsins í Reykjavík til lögmanns sóknaraðila 18. mars 2003 þar sem staðfest var að sýslumaður hafi óskað eftir því við „fyrirkallsdeild lögreglunnar í Reykjavík“ að fyrirsvarsmaður varnaraðila yrði færður til sýslumanns 6. maí 2002 kl. 14.20 með vísan til 3. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989. Þetta hafi ekki tekist, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík sé vaninn að hringja í menn til að byrja með, sem ráða megi að hafi verið gert í þessu tilviki. Ekki sé þó að finna formlega skráningu hjá lögreglunni um hvað fleira hafi verið gert í málinu. Sóknaraðili hefur einnig lagt fram bréf sýslumannsins 17. mars 2003, sem beint er til „þeirra sem málið varða.“ Segir þar að 21. febrúar 2002 hafi verið leitað eftir aðstoð lögreglu í Reykjavík til að boða fyrirsvarsmann varnaraðila til fyrirtöku á aðfararbeiðni sóknaraðila. Lögreglan hafi sent honum kvaðningu og hringt í tiltekið símanúmer til að minna á boðunina, en ekki hafi verið mætt af hálfu varnaraðila. Loks hefur sóknaraðili lagt fram þrjú tölvubréf sýslumannsins til lögreglu í Reykjavík frá árunum 2002 og 2003, þar sem óskað var eftir því með vísan til 3. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989, að tilgreindir gerðarþolar yrðu boðaðir fyrir sýslumann, en meðal þeirra var fyrirsvarsmaður varnaraðila.
Áðurnefnd 3. mgr. 24. gr. laga nr. 90/1989 hefur að geyma ákvæði um þá aðstöðu að ekki er mætt af hálfu gerðarþola við aðför. Segir þar að meðal annars sé lögreglumönnum í þessu skyni skylt að boði sýslumanns að leita gerðarþola eða fyrirsvarsmanns hans og boða hann til að mæta til gerðarinnar eða færa hann til hennar. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli sýslumannsins, þar sem vísað var til þessa lagaákvæðis, hafa viðbrögð lögreglunnar í Reykjavík ekki orðið önnur en þau að senda fyrirsvarsmanni varnaraðila kvaðningu og hringja í sama skyni. Liggur ekkert fyrir um að tilraun hafi verið gerð til að handtaka fyrirsvarsmanninn og færa hann fyrir sýslumann, svo sem lögreglu er þó skylt að gera ef þörf er á. Við þær aðstæður, sem hér eru, hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að fyrirsvarsmaður varnaraðila fari huldu höfði í merkingu 1. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 og getur þá engum úrslitum ráðið að hann virðir allar kvaðningar að vettugi. Skilyrði ákvæðisins eru því þegar af þeirri ástæðu ekki uppfyllt til að taka megi kröfu sóknaraðila til greina. Reynir þá ekki sérstaklega á hvort hann hafi sýnt fram á að hætta sé á að dráttur á gjaldþrotaskiptum geti valdið honum tjóni.
Samkvæmt langri dómvenju er það skilyrði þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 að mætt hafi verið af hálfu gerðarþola við aðför. Svo sem fram er komið er það skilyrði ekki uppfyllt í málinu. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdómara verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2003.
Með beiðni dagsettri 3. janúar 2003 krafðist Lífeyrissjóðurinn Framsýn, kt. 562295-2779, þess að bú Metnaðar ehf., kt. 521098-2879, yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Með bókun 9. desember 2002 vísaði héraðsdómur fyrri kröfu sama efnis á bug, en sú beiðni var móttekin 22. ágúst 2002. Kveðst gjaldþrotabeiðandi leggja kröfu sína fyrir dóm að nýju og vísar til 3. ml. 1. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991. Héraðsdómur boðaði til fyrirtöku málsins og var forsvarsmaður skuldara kvaddur til að mæta. Hann sótti ekki þing.
Gjaldþrotabeiðandi segir í beiðni sinni að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá skuldara 19. júní 2002 samkvæmt 62. gr. laga nr. 90/1989. Í framhaldi af því hafi hann krafist gjaldþrotaskipta, en þeirri beiðni hafi verið vísað á bug eins og áður segir.
Nánar segir gjaldþrotabeiðandi að skuldari sé hættur starfsemi. Gögn er fylgi kröfu hans sýni að ekki sé ástæða til að ætla að hin árangurslausa fjárnámsgerð gefi ranga mynd af fjárhag hans. Sé fullnægt skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 eða 1. mgr. 65. gr. sömu laga.
Í beiðni er sundurliðuð fjárkrafa gjalþrotabeiðanda á hendur skuldara, en hún nemur 2.905.153 krónum.
Niðurstaða.
Heimilt var að ljúka fjárnámi án árangurs eins og gert var. Samkvæmt þeim gögnum sem lögð voru fyrir dóminn hefur verið reynt að boða fyrirsvarsmann skuldara til fjárnáms hjá Sýslumanninum í Reykjavík, en það ekki tekist. Hann hefur skráð lögheimili í Reykjavík og hafa boðanir verið birtar þar fyrir móður hans.
Engar upplýsingar liggja frammi í málinu sem gefa ákveðnar vísbendingar um fjárhag skuldara. Staðfest er þó með vottorðum að hann er ekki skráður eigandi fasteignar eða bifreiðar.
Samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 nægir að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá skuldara á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag. Þó er hnýtt við þeim fyrirvara að ekki sé ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans. Gerð sú sem gjaldþrotabeiðandi skírskotar til gefur enga mynd af fjárhag skuldara.
Tilvísun gjaldþrotabeiðanda til 1. mgr. 65. gr. laganna fylgir engin frekari útskýring. Verður því ekki unnt að fallast á kröfu um gjaldþrotaskipti.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan. Uppkvaðning hefur tafist vegna mikilla anna við dóminn.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Beiðni Lífeyrissjóðsins Framsýnar um töku bús Metnaðar ehf. til gjaldþrotaskipta er hafnað.