Hæstiréttur íslands
Mál nr. 544/2002
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Opinberir starfsmenn
- Sönnunargögn
|
|
Fimmtudaginn 15. maí 2003. |
|
Nr. 544/2002. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Opinberir starfsmenn. Sönnunargögn.
X, sjúkraflutningamaður, var sakaður um að hafa áreitt Y kynferðislega þegar hún var flutt með sjúkrabifreið á sjúkrahús. Þegar litið var til lýsinga X á því hvað honum bar að gera samkvæmt starfsreglum þar um og athöfnum hans í greint sinn þótti ekki útilokað að eðlilegar skýringar gætu legið til þess að DNA-snið úr X fannst á vinstra brjósti Y, hvort sem það var komið úr munnvatni hans eða á annan hátt, en annarra gagn naut ekki um ætlað áreiti hans við Y. Yrði ekki útilokað eins og aðstæðum var háttað að Y hefði getað mistúlkað athafnir X. Þóttu sönnunargögn málsins metin í heild ekki nægileg til þess að dómur yrði á þeim reistur um sakfellingu X en endurtekið mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar Y var ekki talið geta haft áhrif á þá niðurstöðu. Með vísan til þessa var talið að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna sekt X og var hann því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. desember 2002 að ósk ákærða og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins. Ákæruvaldið krefst staðfestingar á sakfellingu, þyngingar refsingar og að dómfelldi verði dæmdur til greiðslu 2.000.000 króna miskabóta til kæranda auk vaxta.
Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann mildunar refsingar, hún verði skilorðsbundin og að skaðabætur verði lækkaðar
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð bréfaskipti saksóknara og Gunnlaugs Geirssonar prófessors varðandi lífsýni sem tekin voru af kæranda á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi nokkru eftir að ásakanir hennar á hendur ákærða komu fram.
I.
Ákærði er sakaður um alvarlegt brot í opinberu starfi sem sjúkraflutningamaður. Á hann að hafa áreitt kæranda kynferðislega þegar hún var flutt frá heimili sínu á Landspítalann við Hringbraut laugardagskvöldið 18. ágúst 2001. Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Fram kom fyrir Hæstarétti að ákærði hefur að baki umtalsvert starfsnám og mikla starfsreynslu sem sjúkraflutningamaður.
Fyrir dómi sagðist ákærða svo frá að hann og vitnið A hafi verið kallaðir í sjúkrabifreið að heimili kæranda og hafi ástæða útkallsins verið meðvitundarleysi vegna lyfjatöku. Þeir hafi farið inn með tæki sín og þar hitt fyrir kæranda, sem hafi legið fullklædd í hjónarúmi, og virst vera með litla meðvitund fyrst í stað. Hún hafi í byrjun engu svarað þeim, en síðar sagt að hún vildi ekkert með þá hafa og vildi svipta sig lífi. Bað hún þá að koma sér út. Í því hafi borið að Þórdísi Guðmundsdóttur lækni og aðstoðarmann hennar. Eftir að hafa hugað lítillega að kæranda hafi þeir A skilið hana eftir í umsjá læknisins en farið út og sótt sjúkrakörfu og komið með hana alveg inn að rúmi kæranda. Þórdís hafi þá verið búin að ræða meira við hana og setja upp nál hjá henni og æðalegg í handlegg hennar og verið að reyna að fá fram hvaða lyf hún hefði tekið. Þeir hafi sett hana í körfuna og hafi hún ekkert eða lítið hjálpað til við það, verið slöpp og hafi þeir eiginlega farið með hana eins og meðvitundarlausa manneskju. Þeir hafi síðan flutt hana út úr húsinu og sett hana á börunum inn í bifreiðina. Hann og Þórdís læknir hafi farið aftur í bifreiðina með kæranda. Hann hafi setið framar á bekknum til hliðar við börurnar eða á móts við höfuðið en Þórdís setið við fótagaflinn. Samkvæmt vinnureglum eigi þeir að vinna ákveðin verk og sagðist hann hafa hafið þau, tekið vinstri handlegg kæranda og lagt yfir sig og mælt blóðþrýsting og súrefnismettun í blóði með viðeigandi áhöldum. Þórdís læknir hafi á meðan lokið við að skrifa sína skýrslu. Hún hafi ákveðið að farið skyldi með sjúklinginn á Landspítalann við Hringbraut og hafi hún síðan kvatt þá. A hafi ekið en hann verið einn aftur í hjá kæranda. Þar sem Þórdís hafi talið að ekki væri mikil alvara á ferðum, hafi verið ákveðið að þeir ækju ekki með forgangi á sjúkrahúsið. Þeir sjúkraflutningamennirnir hafi í upphafi rætt saman um hvaða leið þeir ættu að fara út úr hverfinu, en síðan hafi hann snúið sér aftur að kæranda. Hafi hann fyrst límt á hana fjórar elektróður, en þær séu með lími og geli. Tvær þeirra eigi að límast um það bil neðan við viðbein og hinar tvær á kvið sitt hvoru megin alveg út á síðu í línu út frá nafla. Þetta eigi að gefa sjúkraflutningamönnum færi á að fylgjast með hjartslætti. Í þessu tilviki hafi hann rennt efri elektróðunum niður um hálsmál bols, sem kærandi var í, en að neðan tekið bolinn upp. Þegar hann hafi séð að hjartað vann eðlilega hafi hann hlustað hana með hlustunarpípu til þess að athuga hvort lungun fylltu sig eðlilega. Hann hafi hlustað hana yfir lungnasvæðið og til þess farið með hlustunarpípuna niður um hálsmál bolsins og lyft honum upp á móts við neðstu rifbein. Eftir þetta hafi hann tekið „súrefnisgleraugu“, þ.e. glæra slöngu með tveimur litlum opum, sem fara eigi upp í nasirnar og fest sé bak við eyrun en komi saman undir hökunni. Slangan sé fest við súrefnisgeyma bílsins. Hann hafi reynt að spjalla við kæranda meðan á þessu stóð og sagt henni hvert þau væru að fara, en hún hafi engu eða litlu svarað. Hafi hann því viljað fá frekari viðbrögð og nuddað bringubein hennar með fingurhnúunum. Hún hafi þá kveinkað sér lítillega. Þeir hafi síðan ekið sem leið lá á sjúkrahúsið. Kærandi hafi verið með teppi yfir sér og neðri ól á sjúkrabörunum spennta. Hann hafi annað slagið ýtt á bringuna á kæranda en ekki fengið of góð svör og því ýtt einu sinni eða tvisvar undir kjálkabörð hennar. Þá hafi hún hreyft sig svo að hann vissi að hún var ekki meðvitundarlaus. Þegar á sjúkrahúsið kom hafi hann tekið til sín vírana sem hann hafði sett upp með því að toga í þá. Þá hafi hann tekið af henni súrefnisgleraugun. Á sjúkrahúsinu hafi tveir hjúkrunarfræðingar tekið við kæranda og hafi hann sagt þeim að hún væri ekki meðvitundarlaus en með skerta meðvitund. Ákærði hefur lagt fram leiðbeiningar til sjúkraflutningamanna um vinnuferli þegar sjúklingur hefur skerta meðvitund eða er meðvitundarlaus.
Af hálfu saksóknara hefur ekki verið sýnt fram á að framangreind lýsing ákærða stangist í nokkru á við venjubundið vinnuferli sjúkraflutningamanna í tilviki sem þessu. Styðst lýsing hans og við frásögn Þórdísar læknis svo langt sem hún nær. Fram kom að bæði hún og ákærði voru með latexhanska meðan þau önnuðust kæranda. Hún taldi að kærandi hefði verið með slævða meðvitund. Hún hafi svarað hægt, eins og hún væri undir áhrifum lyfja, en hún hafi samt svarað öllu skýrt, það sem það var.
Vitnið A sjúkraflutningamaður, sem var með ákærða í greint sinn, skýrði fyrir dómi frá komu þeirra á heimili kæranda með líkum hætti og ákærði. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt óeðlilegt í framkomu ákærða við kæranda. Hann taldi sig sjá vel aftur í bifreiðina um baksýnisspegilinn. Ljóst virðist þó að hann getur ekki úr bifreiðastjórasætinu séð á efri hluta sjúklings sem liggur í körfunni.
Fyrir dómi sagði kærandi að hún hefði tekið lyf umrætt kvöld. Henni hefði liðið illa og langað til að deyja. Hún muni að hún hafi skammast sín þegar sjúkraflutningamennirnir komu fyrir að hafa gert þetta en ekki tekist ætlunarverk sitt. Hún hafi því haft lokuð augun og hvorugan sjúkraflutningamanninn séð. Annar þeirra hafi ýtt við henni og spurt hvaða lyf hún hefði tekið og hún þá bent honum inn í annað herbergi. Hann hafi síðan athugað meðvitund sína og ýtt nokkrum sinnum við sér. Læknirinn hafi svo komið og talað við sig, spurt hvað hún héti og hvar lyfin væru og hversu mikið hún hefði tekið. Hún hafi svarað henni. Hún sagði að sjúkraflutningamennirnir hefðu verið inni á meðan læknirinn talaði við sig. Síðan hafi þeir beðið sig að setjast á sjúkrabörurnar þegar læknirinn hafði skoðað sig. Hún hefði alltaf haldið fyrir andlitið með höndunum. Hún kvaðst sjálf hafa getað farið í börurnar. Þeir hafi síðan farið með sig út í bifreiðina og hafi annar sjúkraflutningamaðurinn og læknirinn farið aftur í með sér. Sá fyrrnefndi hafi setið nær höfðagafli sínum en læknirinn nær mittinu. Læknirinn hafi beðið um að bifreiðin yrði aðeins stöðvuð, eftir að hún var farin af stað, því að þurft hefði að setja nál í höndina á sér. Hún hafi síðan heyrt að læknirinn hafi sagt við sjúkraflutningamanninn að þetta væri ekkert alvarlegt og því væri allt í lagi að hann færi úr bílnum. Sjúkraflutningamaðurinn hafi því verið einn í bifreiðinni hjá sér. Hann hafi tekið bolinn, sem hún var í, upp og hafi sennilega ætlað að setja á hana elektróður. Hún muni þó þegar hún kom inn á “geðdeildina” hafi hún aðeins haft eina slíka undir hægra brjóstinu og ekki hafi virst sem aðrar hafi verið settar á sig. Hún sagðist ekki hafa verið tengd við nein mælitæki. Hún kvaðst hafa verið í brjóstahaldara en hlýrarnir hafi báðir dottið niður svo að skálarnar beggja megin höfðu farið undir brjóstin. Þessi frásögn er ekki í samræmi við fyrstu skýrslu hennar fyrir lögreglu en þá hélt hún því fram að ákærði hefði tekið brjóstahaldarana niður fyrir brjóstin. Kærandi sagði að sig hafi bara langað til að sofna en sjúkraflutningamaðurinn hafi kallað til sín nokkrum sinnum og ýtt á bringuna á sér. Hún hafi ekki svarað honum og hafi þá orðið þess vör að hann kleip og þuklaði á vinstra brjóstinu á sér og muni að hún hugsaði hvort hann ætti að gera þetta til að athuga vökuástand hennar. Hún hafi verið fljót að ýta þeirri hugsun frá sér. Hann hafi haldið þessu áfram og þuklað bæði brjóstin og farið með höndina ofan í buxurnar og snert skapahárin en ekki farið neðar. Hún hafi stífnað öll upp og hann þá fært höndina. Hann hafi þá kallað aftur til hennar og ýtt aftur á bringuna á henni. Hún hafi ekki svarað honum og hann hafi farið með höndina strax upp á hægra brjóst og þuklað á sér þar. Síðan hafi hún orðið þess vör að hann nartaði í vinstri geirvörtuna. Þetta hafi ekki verið langur tími, en fyrir sér heil eilífð. Síðan muni hún eftir því þegar verið var að bakka að sjúkrahúsinu hafi hann staðið upp og glennt fætur sína í sundur, en hún hafi verið með bogna fætur, og síðan hafi hann káfað á lærum sínum og sköpum að utanverðu. Loks hafi hann lagt fæturna niður og lagað bolinn. Hún hafi allan tímann haft hendur fyrir andlitinu. Þegar sjúkraflutningamaðurinn hafi örugglega verið farinn hafi hún sagt hjúkrunarkonu frá því að hann hefði káfað á sér.
Hjúkrunarfræðingarnir, sem tóku á móti kæranda, sögðu fyrir dómi að hún hefði eflaust verið eitthvað undir áhrifum lyfja en ekkert „útslegin“, bara miður sín, og staðfestu að hún hafi strax sagt þeim að ákærði hefði leitað á sig. Þær töldu að sjúkraflutningamaðurinn hefði lýst meðvitund kæranda minni en þær upplifðu hana. Hulda María Einarsdóttir læknir, sem síðan var kölluð til, kvaðst muna óljóst eftir atvikum. Tilfellið hafi verið tilkynnt sem lyfjaeitrun, en hún taldi þó að kærandi hefði rætt við sig með fullri meðvitund. Hún hafi sagt að sjúkraflutningamaðurinn hefði leitað á sig og sleikt geirvörturnar. Hún kvaðst ekki hafa viljað trúa þessu og þótt þetta út í hött og viljað spyrja hana um lyfin, sem hún hefði tekið, en kærandi hefði alltaf komið aftur að þessu. Þar sem hún var þetta stöðug í framburði sínum hafi hún kallað til geðlækni sem var á bakvakt. Þorsteinn Gíslason geðlæknir kvaðst muna greinilega eftir samtali við kæranda. Hún hafi verið ágætlega vakandi, ef til vill eitthvað merkt því að vera undir áhrifum lyfja. Hún hafi sagt sér frá því að sjúkraflutningamaður hefði þreifað á brjóstum sér og kysst þau. Hún hafi komist í uppnám við að segja frá þessu. Hann hafi rætt frekar við hana og síðan deildarlækninn og þar sem sagan sem kærandi sagði þeim hvoru í sínu lagi var samhljóða, hafi í raun ekki verið um annað að ræða en að senda kæranda á neyðarmóttöku.
Arnar Hauksson læknir, sem skoðaði kæranda á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi, hefur eftir henni líka frásögu um áreiti sjúkraflutningamannsins og aðrir. Segir í skýrslu hans að kæranda hafi liðið illa og grátið einkum þegar hún rifjaði atburðinn upp. Kærandi hafi virst eðlileg við almenna skoðun og hafi síðan verið tekin strok frá geirvörtum í von um að finna lífsýni úr munnvatni. Arnar kom fyrir dóm og sagði þá að eina sem þeir hafi getað gert hafi verið að taka strok með saltvatnsupplausn í kring um geirvörtur fyrir hugsanleg lífsýni, en engir áverkar hafi sést á kæranda. Hann kvaðst hafa spurt hana hvort um einhvern misskilning hennar hefði getað verið að ræða, hvort sjúkraflutningamaðurinn hefði ekki bara verið að strjúkast við hana, en hún hafi tjáð þeim að hún hafi verið með lokuð augun. Hún hafi hins vegar haldið því fram að þetta hefði verið eins og hann hefði eftir henni.
II.
Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík sendi lífsýni þau, sem Arnar Hauksson læknir hafði tekið, til Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði ásamt fylgiseðlum, þar sem greint var frá því að um væri að ræða brjóstahaldara og bómullarpinna í máli sem varðaði hugsanlegt kynferðisbrot. Beðið var um rannsókn á því hvort munnvatn greindist í sýnunum og hvort unnt væri að nota það til kennslagreiningar. Rannsóknarstofan sendi sýnin til rannsóknar á Rettsmedisinsk Institutt í Noregi. Í ljós kom þar við fjölmögnunaraðferð að DNA-snið karlmanns og konu voru í tveimur bómullarpinnum frá vinstri geirvörtu, en eingöngu konunnar í öðrum tveimur pinnum frá sömu geirvörtu. Ekki reyndist unnt að framkalla DNA-snið úr þremur sýnum sem tekin voru frá hægri geirvörtu og ekki þóttu efni til að rannsaka brjóstahaldara. Að þessari niðurstöðu fenginni þótti ástæða til að tekin yrðu blóðsýni úr kæranda og ákærða til rannsóknar og samanburðar við lífsýnin sem fyrir voru. Voru þau bæði til samvinnu þar um. Sýnin voru send Rettsmedisinsk Institutt sem fyrr. Í málinu liggur fyrir túlkun Gunnlaugs Geirsonar prófessors á niðurstöðu rannsóknarstofnunarinnar. Segir þar að merki um munnvatn hafi fundist í einum bómullarpinna af þremur, sem teknir hafi verið frá hægri geirvörtu, og öllum fjórum pinnunum, sem teknir hafi verið frá vinstri geirvörtu kæranda. Einnig hafi fundist vottur af munnvatni í brjóstahaldara svarandi til vinstra brjósts. Eins og áður greinir var eingöngu unnt að magna upp DNA-snið í bómullarpinnum, sem höfðu verið teknir frá vinstri geirvörtu kæranda. Mátti greina DNAsnið frá bæði kæranda og ákærða í tveimur bómullarpinnum af fjórum, en í hinum tveimur eingöngu frá kæranda. Segir í skýrslu prófessorsins að munnvatn hafi verið að finna á báðum geirvörtum kæranda og í brjóstahaldara og frumur með DNA-sniði ákærða hafi fundist á vinstri geirvörtu kæranda. Þegar þessar niðurstöður voru bornar undir kæranda og ákærða taldi hún að þær styddu framburð sinn en hann kvaðst ekki geta skýrt það að DNA-snið hans fyndist á brjósti konunnar en gat þess þó að hann hefði þann kæk að þurrka sér um munnvikin með handarbakinu. Þessi tilgáta hans virðist ekki hafa verið könnuð nánar.
Í röksemdum héraðsdóms er fullyrt að með niðurstöðu framangreindrar DNA-rannsóknar sé fram komið að munnvatn úr ákærða hafi greinst á vinstra brjósti kæranda skömmu eftir ætlað atvik. Bæði í greinargerð saksóknara og ákærða er því haldið fram að hér sé of sterkt til orða tekið. Af þessu tilefni ritaði saksóknari Gunnlaugi Geirssyni prófessor bréf og spurði hvort þessi fullyrðing héraðsdóms væri rétt og jafnframt að því hvort tiltekið magn af frumum þurfi að vera í sýni svo að magna megi upp DNA-snið. Í svari prófessorsins segir meðal annars að vitnisburður um að vessi með lífsýni geti verið til staðar leiði til þess að strokið sé yfir staðinn þar sem vessinn sé talinn vera með rökum bómullarpinna, sem síðan sé látinn þorna. Sé leitað að munnvatni sé skimað í sýninu fyrir alfa-amylasa (efnakljúf, sem sé í miklum mæli í munnvatni) og sé það jákvætt sé kannað hvort þar séu frumur og DNA-efnið einangrað úr kjörnum þeirra og DNA-sniðið, sem því næst sé framkallað, borið saman við DNA-snið grunaða. Munnvatnið sé tær vökvi með nokkru slími. Frumurnar sem finnist í munnvatninu séu að mestu þekjufrumur innan úr klæðningu munnslímhúðarinnar og yfirleitt sé talsvert mikið af þeim í munnvatninu og stuðst við það til kennslagreiningar í rannsókn brotamála, til dæmis þar sem sígarettustubbar finnast á vettvangi, brún á drykkjaríláti o.s.frv. Tilvist alfa-amylasa og frumna með DNA-sniði grunaðs í umræddu sýni bendi til þess að sniðið sé úr munnvatni (munnslímhúðarfrumum) hans komið, en að öðru leyti sé ekki kleift að leggja mat á orðalag dómsins. Þá kom fram í svarbréfi prófessorsins að unnt sé að magna DNA-snið frá einni frumu, en í raun sé jafnan um að ræða umtalsverðan fjölda frumna, þó að ekki sé unnt að tilgreina tölu þeirra.
Svar prófessorsins leiddi til frekari bréfaskipta. Í tölvupósti sem prófessorinn sendir saksóknara segir: „Vegna spurningar þinnar um húðþekjufrumur verður að undirstrika að slíkar þekjufrumur skipta sér í neðsta lagi húðarinnar en þroskast og þokast upp á við að yfirborði og tapa kjarnanum þegar ofar dregur. Eftir því sem húðlagið er þykkara er minna af kjarnaefni (DNA) við yfirborðið og er því yfirleitt afar lítið af slíku efni í sýnum sem tekin eru af yfirborði hörunds. Hins vegar hefur kjarnsýru-mögnunaraðferðin gert kleift að ná fram DNA-sniði þótt afar lítið sé af kjarnaefni í stroki frá húðyfirborði og er því ekki unnt fortakslaust að hafna því að unnt sé að magna upp DNA-snið úr slíku sýni heldur verður að kanna slíkt í hverju máli fyrir sig. Slímhúðir, svo sem í munni, kynfærum og víðar, eru klæddar frumum sem einnig skipta sér í neðsta lagi þekjunnar en þær mynda aðeins þunnt lag (þess vegna eru slímhúðir rauðar að þær eru svo þunnar að blóðið skín í gegn) og tapa ekki kjarnanum er þær þokast ofar í þekjunni við þroska. Því er mikið kjarnaefni í frumum sem koma af yfirborði slímhúða, t.d. er mikið af því í munnvatni og öðrum vessa sem tekur við frumum af yfirborði slímhúða. Ef húð rofnar kemur yfirleitt til blæðingar og DNA getur þar með komið frá blóðfrumum (hvítum blóðkornum)“.
Samkvæmt skýringum saksóknara fyrir Hæstarétti ber að skilja svör og útskýringar prófessorsins svo að munnvatn hafi fundist á brjóstum kæranda. Ekki verði fullyrt hvort það stafi frá kæranda sjálfri, ákærða eða þeim báðum. Í munnvatninu á vinstra brjósti hennar hafi verið unnt að magna DNA-snið bæði úr henni sjálfri og honum að því er varðaði tvo bómullarpinna af fjórum, þ.e. að húðþekjufrumur hafi verið í munnvatninu með kjarnaefni (DNA).
Lögreglan í Reykjavík sendi jafnframt sýni úr kæranda til Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfjafræði og bað um að þau yrðu rannsökuð. Lögreglan óskaði eftir alkóhólrannsókn og lyfjaleit við þá rannsókn. Í beiðninni eru þau lyf, sem talin eru koma við sögu, noprilan, exan og imóvan. Í matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents segir um sermissýni merkt NM-760, sem mun vera viðkomandi sýni, að etanól hafi ekki verið í mælanlegu magni. Í serminu hafi verið klórdíazepoxíð 1,35 µg/ml og vottur af demoxepami (minna en 0,5 µg/ml). Tramadól (Nobligan eða Imovane hafi ekki verið í mælanlegu magni í serminu. Sýnið hafi verið of lítið til ákvörðunar á búspíróni (Exan). Dósentinn segir að klórdíazepoxíð sé róandi lyf af völdum benzódíazepín sambanda og sé demoxepam virkt umbrotsefni þess. Þéttni klórdíazepoxíðs í serminu bendi til töku þess í stórum lækningalegum skömmtum. Sýnið hafi aðeins nægt til takmarkaðrar lyfjaleitar. Niðurstöðurnar útiloki því ekki önnur algeng lyf. Lögreglan virðist ekki hafa kannað áhrif greindra lyfja á veruleikaskyn þeirra sem taka þau inn og engin álitsgerð liggur fyrir um slík áhrif.
III.
Í niðurstöðu héraðsdóms er sagt að framburður kæranda sé helsta sönnunargagnið í málinu og því haldið fram að hún sé staðföst í þeim framburði sínum að ákærði hafi sleikt brjóst hennar og káfað á kynfærum þegar hún var flutt með sjúkrabifreið á Landspítalann við Hringbraut. Á það er bent að hún hafi strax sagt frá atvikinu er ákærði og samstarfsmaður hans voru farnir af sjúkrahúsinu og frásögn hennar hafi, samkvæmt framburði hjúkrunarfólks þar og á neyðarmóttöku Landspítalans, verið í samræmi við framburð hennar síðar fyrir dómi og skýrslugjöf hjá lögreglu. Þá er talið að trúverðugleiki kæranda styrkist af þeim ákveðnu vísbendingum sem fram komi um að ákærði hafi talið meðvitund hennar skerta. Þó ráði úrslitum að munnvatn úr ákærða hafi greinst á vinstra brjósti kæranda.
Við framangreindan rökstuðning er það að athuga að ekki er annað fram komið en að ákærði hafi vitað að kærandi var við einhverja meðvitund. Þótt ásakanir kæranda á hendur ákærða hafi verið staðfastar verður að fallast á það með verjanda ákærða að nokkrar breytingar hafa orðið á frásögn hennar frá fyrstu skýrslutöku 19. ágúst 2001, bæði við skýrslugjöf hjá lögreglu 11. desember 2001 um nokkur atriði og síðar fyrir dómi varðandi stöðu brjóstahaldarans. Þá hefur hún frá upphafi borið að hún hafi allan tímann haft hendur fyrir augunum og ekki séð athafnir ákærða heldur skynjað þær. Framburður hennar um hversu margar elektróður voru settar á hana getur vart staðist. Þótt hjúkrunarfræðingarnir sem fyrst sáu hana á sjúkrahúsinu beri að hún hafi verið með meiri meðvitund en sjúkraflutningamennirnir sögðu þeim, liggur ekkert fyrir um veruleikaskyn hennar meðan á flutningi þeirra stóð. Fram hjá því verður ekki horft að hún hafði tekið lyf í stórum skömmtum í því augnmiði að fyrirfara sér og hlaut eðlilega að vera í miklu uppnámi þegar af þeim sökum. Álitsgerð um áhrif lyfja þeirra sem hún tók liggur ekki fyrir. Héraðsdómur segir í röksemdum sínum að ákærði hafi verið staðfastur í framburði sínum. Vitnið A, sem ók sjúkraflutningabifreiðinni, varð einskis óvenjulegs var og sat hann þó rétt fyrir framan kæranda og ákærða og gat fylgst að hluta með því sem fór fram á milli þeirra um baksýnisspegil bifreiðarinnar. Kærandi vissi samkvæmt framburði sínum af honum en lét ekkert vita af ætluðu broti. Áður er því lýst að ekki liggur annað fyrir en að lýsing ákærða sé í samræmi við starfsreglur hans og svo langt sem framburður Þórdísar læknis nær hóf ákærði að fara eftir þeim fyrirmælum.
Saksóknari og verjandi eru um það sammála að héraðsdómur oftúlki niðurstöðu DNA-rannsóknar, svo sem að framan er lýst. Þegar litið er til lýsinga ákærða á því hvað honum bar að gera og athöfnum hans í greint sinn þykir ekki útilokað að eðlilegar skýringar geti legið til þess að DNA-snið úr ákærða fannst á vinstra brjósti kæranda, hvort sem það var komið úr munnvatni hans eða á annan hátt. Annarra gagna nýtur ekki um ætlað áreiti ákærða við kæranda. Verður ekki útilokað eins og aðstæðum var háttað að kærandi hafi getað mistúlkað athafnir ákærða.
Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar gefi vitni eða ákærði ekki skýrslu þar fyrir dómi. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar getur rétturinn hins vegar, telji hann líkur fyrir því að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng, svo að einhverju skipti um úrslit máls, fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð máls í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram á ný, eftir því sem þurfa þykir. Að framan er því lýst að Hæstiréttur gerir nokkrar athugasemdir við mat héraðsdóms um sönnunargildi framburðar kæranda og telur hugsanlegt að það sé ekki rétt að öllu leyti og því má hreyfa því að ómerkja eigi héraðsdóm og vísa málinu til nýrrar meðferðar þar fyrir dómi. Hins vegar þykja framangreind sönnunargögn málsins metin í heild ekki nægileg til þess að dómur verði á þeim reistur um sakfellingu ákærða og verður ekki talið að endurtekið mat héraðsdóms á sönnunargildi framburðar kæranda geti haft áhrif á þá niðurstöðu. Verður málið því dæmt efnislega.
Af því sem að framan er rakið leiðir að ákæruvaldinu hefur ekki tekist að sanna sekt ákærða. Ber því að sýkna hann af öllum kröfum þess. Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 verður bótakröfu kæranda vísað frá dómi.
Ákvörðun héraðsdóms um málsvarnarlaun ákærða og þóknun til réttargæslumanns er staðfest.
Sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkisjóði, þar með talin málsvarnarlaun ákærða og þóknun réttargæslumanns kæranda, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, skal sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Bótakröfu kæranda á hendur ákærða er vísað frá dómi.
Ákvörðun héraðsdóms um málsvarnarlaun ákærða og þóknun til réttargæslumanns kæranda í héraði er staðfest.
Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun til réttargæslumanns kæranda í héraði og fyrir Hæstarétti. Málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, ákveðast 250.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns kæranda, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2002.
Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 9. september 2002,
„... á hendur X, fyrir kynferðisbrot og brot í opinberu starfi, með því að hafa laugardaginn 18. ágúst 2001, í sjúkrabifreið á leið á Landspítalann við Hringbraut, er ákærði sinnti sjúklingnum Y, sem sjúkraflutningamaður í Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, tekið brjóstahaldara niður fyrir brjóst konunnar, káfað á og sleikt brjóst hennar, strokið hendi yfir skapahár hennar innan klæða og káfað á innanverðum lærum og kynfærum hennar utan klæða.
Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40, 1992 og 138. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Y krefst miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta og dráttarvaxta skv. lögum um vexti og verðbætur nr. 38, 2001 og þóknunar vegna réttargæslu.”
Ákærði krefst sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Verjandi hans krefst málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 31. fyrra mánaðar.
Að kvöldi laugardagsins 18. ágúst 2001 var Y flutt frá heimili sínu við [...] með sjúkrabifreið á Landspítalann við Hringbraut. Hafði hún tekið talsvert magn lyfja í því skyni að svipta sig lífi. Er á sjúkrahúsið kom skýrði hún frá því að sjúkraflutningamaður hefði áreitt sig kynferðislega í sjúkrabifreiðinni. Hún hefði haldið höndum fyrir andliti alla leið frá heimili sínu í [...] og á Landspítalann. Sagðist hún skammast sín fyrir að hafa reynt að svipta sig lífi.
Samkvæmt tímaskráningum kom bifreið, sem ákærði var í og A ók, á vettvang á heimili Y kl. 19.06, fór þaðan kl. 19.23 og er skráður laus við Landspítalann kl. 19.34.
Lögreglan var kölluð á bráðamóttöku spítalans og segir í lögregluskýrslu að hún hafi komið á vettvang kl. 23.45. Af gögnum og framburði lögreglumannsins má ætla að það hafi í raun verið kl. 22.45. Þar sögðu þær Hulda María Einarsdóttir, læknir, og Þóra Björk Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur, lögreglumönnum frá því að Y hefði sagt þeim frá því að hún hefði verið áreitt kynferðislega í sjúkrabifreiðinni á leið á spítalann.
Í frumskýrslu er bókað eftir Y að hún hefði reynt sjálfsvíg um kl. 19 þetta kvöld. Það hefði ekki tekist þar sem dóttir hennar hefði komið að henni og kallað eftir aðstoð. Þá er haft eftir henni að er hún var aftur í sjúkrabifreiðinni ásamt einum sjúkraflutningamanni hafi sá losað brjóstahaldara hennar til að festa á hana mælitæki. Hann hafi þá einnig klipið í geirvörtur hennar og sleikt þær. Síðan hefði hann sett aðra höndina ofan í nærbuxur hennar. Y kvaðst þá hafa orðið stjörf. Hún hafi ekki sagt neitt og hafi hún haft lokuð augun á meðan á þessu stóð. Sagðist hún halda að sjúkraflutningamaðurinn hafi talið hana meðvitundarlausa.
Lögreglan flutti Y frá Landspítalanum við Hringbraut á svokallaða neyðarmóttöku á Landspítalanum í Fossvogi. Síðar verður greint frá skýrslu Arnars Haukssonar, læknis á neyðarmóttökunni. Þar var tekið sýni með strokum af brjóstum Y og send til athugunar á Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði. Voru sýnin send til rannsóknar á Rettsmedisinsk Institutt í Noregi. Gerð er grein fyrir endanlegum niðurstöðum í álitsgerð rannsóknastofnunnar, sem dagsett er 1. mars 2002. Þar er í byrjun vísað til fyrri álitsgerðar stofunnar, dagsettrar 13. nóvember 2001, þar sem komið hafi fram að í sýni af vinstri geirvörtu Y hafi fundist frumur frá karlmanni. Hafi verið tekin blóðsýni af Y og ákærða. Síðan eru niðurstöðurnar raktar. Í niðurstöðukafla segir m.a.:
"Merki um munnvatn finnast á einum bómullarpinna af þremur, sem teknir voru frá hægri geirvörtu og öllum fjórum pinnum, sem teknir voru frá vinstri geirvörtu kæranda. Einnig fannst vottur af munnvatni í brjóstahaldara svarandi til vinstra brjósts.
Ekki var unnt að magna upp DNA-snið frá bómullarpinnum 1a og 1b og 2, sem teknir höfðu verið af hægra brjósti.
Í bómullarpinnum þeim, sem teknir voru af vinstri geirvörtu kæranda, mátti greina blöndu af DNA-sniði frá karli og konu í bómullarpinnum 3a og 3b. Bómullarpinnar 4a og 4b höfðu að geyma DNA frá einum einstaklingi og var það frá konu og var samkyns kvenhluta þess, sem fannst í bómullarpinnum 3a og 3b og svarar til þess að vera kærandi
DNA-snið það, sem er frá karlmanni og fannst á vinstri geirvörtu kæranda er sömu tegundar og fannst í blóði kærða [...].
Samkvæmt framanskráðu liggur fyrir að munnvatn var að finna á báðum geirvörtum konunnar og í brjóstahaldara og frumur með DNA-sniði kærða fundust á vinstri geirvörtu kæranda
Í svari Rettsmedisinsk Institutt er greint frá þeim aðferðum, sem stuðst er við svo og segir um áreiðanleika niðurstöðunnar að líkurnar til þess að finna samskonar snið frá óskyldum einstaklingi eru ávallt lægri en 0,001% eða 1:10.000. Unnt er að reikna líkurnar í hverju máli fyrir sig ef þurfa þykir."
Framburður prófessors Gunnlaugs Geirssonar fyrir dómi verður rakinn síðar.
Verða nú raktar skýrslur fyrir dómi.
Ákærði lýsti umræddu útkalli í skýrslu sinni fyrir dómi. Hann sagði að hann og A hefðu farið í þetta útkall. Tilkynnt hefði verið um meðvitundarleysi og lyfjaeitrun eða lyfjainntöku. Y hefði legið í hjónarúmi og hafi hún virst meðvitundarlaus. Hún hafi fyrst ekki svarað en síðan sagt að hún vildi deyja. Hafi hún sagt þeim að fara. Í því hafi læknir komið á vettvang, Þórdís Guðmundsdóttir. Þeir hafi þá sótt sjúkrakörfu. Í sjúkrabifreiðinni kvaðst ákærði hafa farið eftir vinnureglum um slík tilfelli.
Þeir hefðu ekið án forgangs á Landspítalann. Fljótlega eftir að þeir lögðu af stað hafi A spurt hann um val á leið og hann svarað honum. Eftir það hafi hann fest fjórar elektróður á Y, tvær fyrir neðan viðbein, og tvær á kvið. Hann kvaðst hafa farið inn undir hálsmálið á bol Y til að koma efri elektróðunum fyrir og tengja vírana við þær. Hann hafi séð að hjartsláttur var eðlilegur. Þvínæst hafi hann sett á Y svokölluð súrefnisgleraugu. Hann kvaðst við það hafa sagt eitthvað við hana, en hún hafi aðeins sýnt lítil viðbrögð. Hann kveðst þá hafa nuddað hraustlega á henni bringubeinið, sem eigi að kalla fram mikil sársaukaviðbrögð, en viðbrögð hennar hafi verið lítil. Y hefði á leiðinni verið með teppi yfir sér og neðra beltið á körfunni hefði verið spennt. Ákærði kvaðst annað slagið hafa ýtt í bringuna á henni, en viðbrögð hafi ekki verið góð. Þá hafi hann einu sinni eða tvisvar ýtt undir kjálkabarðið á henni og fengið fram viðbrögð. Þá hafi hann vitað að hún var ekki meðvitundarlaus. Hann hafi á leiðinni hlustað hana, sett hlustunarpípuna undir hálsmálið og eins undir bolinn að neðanverðu og hlustað við rifbeinin.
Í þann mund er þau komu á spítalann hafi hann tekið elektróðurnar. Það hafi hann gert einfaldlega með því að toga í vírana. Hann hafi ekki lyft bol Y.
Við komuna á Landspítalann kvaðst ákærði hafa sagt að Y hefði litlu svarað, væri með skerta meðvitund. Hann minnti að tveir hjúkrunarfræðingar hefðu tekið á móti þeim.
Aðspurður kannaðist ákærði ekki við að hafa sagt að Y væri mjög sofandi. Kvað hann það ekki vera meðal þeirra lýsinga sem þeir notuðu.
Ákærði kvaðst ekki geta skýrt niðurstöður DNA-rannsóknar sem lýst er að framan. Hann neitaði alfarið að hafa áreitt Y kynferðislega.
Ákærði kvaðst hafa verið með sérstaka hanska. Hann hefði sett þá upp áður en farið var inn á heimili Y og tekið þá af sér eftir að flutningnum var lokið. Ákærði kvaðst vera með kæk, hann þurrkaði sífellt úr munnvikjunum með hendinni.
Y gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst hafa tekið inn lyf umrætt sinn. Henni hefði liðið illa og hafi langað til að deyja. Hún kvaðst muna að sjúkraflutningamennirnir hefðu komið inn og hún hefði skammast sín fyrir að hafa gert þetta. Því hafi hún verið með lokuð augun. Hún hefði verið flutt út í sjúkrabifreið og kvaðst hún hafa farið sjálf í börurnar. Á leiðinni niður stigann hefði hún tekið fyrir andlitið. Læknirinn hefði verið í bílnum fyrst, en síðan farið og þá hefði sjúkraflutningamaðurinn verið einn með henni.
Y kvaðst hafa verið í svörtum bol. Hún hefði verið með brjóstahaldara, en hlírarnir hefðu verið verið farnir útaf öxlunum þannig að skálarnar hefðu farið undir brjóstin. Sjúkraflutningamaðurinn hefði tekið upp bolinn, en hún hefði þá enn verið með hendur fyrir andliti. Hún kvaðst hafa verið með teppi bara yfir fótunum.
Y gaf tvívegis formlega skýrslu hjá lögreglu að viðstöddum réttargæslumanni sínum. Fyrri skýrslan var tekin síðdegis sunnudaginn 19. ágúst 2001, tæpum sólarhring eftir að meint brot var framið. Sú síðari var tekin 11. desember 2001. Í fyrri skýrslunni lýsir hún því að ákærði hafi tekið brjóstahaldarann niður fyrir og frá brjóstunum án þess að taka frá hlírana eða losa þá. Hún nefnir ekki í þessari skýrslu að þeir hafi legið útfyrir axlir. Aðspurð gat hún ekki skýrt þennan mun með öðru en því að hún hafi verið í mikilli geðshræringu er hún gaf skýrsluna.
Y lýsti því að sjúkraflutningamaðurinn hefði ýtt á bringuna á henni, en hún ekki svarað honum. Síðan hafi hún fundið að hann kleip í og þuklaði á vinstra brjósti hennar. Hún kvaðst hafa hugsað hvort hann ætti að gera þetta til að kanna hvort hún væri vakandi. Nánar sagði hún að hann hefði þuklað á báðum brjóstunum og þvínæst farið með höndina ofan í buxur hennar. Þar hafi hann snert skapahár hennar. Hún kvaðst hafa verið í “leggings” og í nærbuxum. Hún kvaðst hafa stífnað upp og hann þá fært höndina strax í burtu. Hann hafi kallað Y og ýtt á bringuna á henni. Hún hafi ekki svarað honum og hann hafi þá þuklað á henni hægra brjóstið og nartaði í vinstri geirvörtuna. Síðan þegar þau nálguðust sjúkrahúsið og bílnum var bakkað inn, hafi hann staðið upp og glennt í sundur á henni fæturna og káfað á lærunum á henni og kynfærum utan klæða. Síðan hafi hann lagt fætur hennar niður og lagað hana, sett bolinn niður, en hún hafi enn verið með hendur fyrir andliti. Hún kvaðst hafa haldið höndum fyrir andlitinu allt þar til hún var viss um að sjúkraflutningamaðurinn væri farinn. Þá hefði hún sagt hjúkrunarfræðingnum frá því að káfað hefði verið á sér. Sama hefði hún síðan sagt lækninum. Í framhaldinu hefðu tveir lögreglumenn komið. Er henni var sagt að hún þyrfti að fara niður á neyðarmóttöku hefði hún kviðið því að fara í sjúkrabifreið, en lögreglan hefði keyrt hana.
Y sagði að sér hefði virst hjúkrunarfólkið vera hissa er þau sáu ástand hennar, en ákærði hefði sagt þeim að hún væri sofandi og slegið á ennið á henni.
Y sagðist hafa verið lengi að ná sér eftir þennan atburð. Hún hafi verið niðurbrotin og mjög hrædd, sérstaklega við sjúkrabíla. Hún kvaðst hafa verið lögð inn á geðdeild nokkrum sinnum, þar á meðal í kjölfar atburðarins. Kvaðst hún telja að orsökin fyrir innlögnunum hafi verið þetta atvik, en ekki fyrri veikindi hennar.
A, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann fór í umrætt útkall ásamt ákærða. Hann lýsti aðgerðum þeirra á sama hátt og ákærði, en hann ók bílnum. Hann sagði að Y hefði verið með skerta meðvitund. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt sérstakt aftur í bílnum á leiðinni á Landspítalann. Hann kvaðst geta séð stóran hluta sjúklingsins úr bílstjórasætinu. Kom ekki annað fram í skýrslu hans sem ástæða er til að rekja.
Við aðalmeðferð málsins var tekin skýrsla af Þórdísi Guðmundsdóttur, lækni. Skýrslan var tekin í gegnum síma, en vitnið er nú búsett í Svíþjóð. Þórdís fór á vettvang í [...] umrætt sinn. Hún kvaðst hafa talað við Y og hafi hún ákveðið að flytja hana á sjúkrahús vegna gruns um lyfjaeitrun. Hún kvaðst ekki hafa fylgst með flutningi hennar í bílinn, en síðan rætt við hana í bílnum áður en lagt var af stað á sjúkrahúsið. Hún hafi ekki farið með sama bíl. Um meðvitund Y sagði Þórdís að hún hefði verið slævð, svör hafi komið hægt en tal hafi verið skýrt.
Ása Fríða Kjartansdóttir, hjúkrunarfræðingur, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst hafa tekið á móti Y umrætt sinn og keyrt hana inn. Hafi verið með henni í fimmtán til tuttugu mínútur. Y hafi verið hálfgrátandi, en ekki mjög “dröggeruð”. Hún hafi verið miður sín. Hún hafi haldið fyrir andlitið. Er hún hafi verið spurð hvers vegna hún væri að gráta hafi hún sagt að sjúkraflutningamaðurinn hefði leitað á hana. Vitnið mundi ekki nákvæmlega hvernig Y hefði lýst því, þeim hafi fundist þetta frekar ótrúlegt. Margir sem komi inn séu bara ruglandi. Y hafi ekki talað um annað á meðan Ása heyrði til, en hún kvaðst hafa lokið vakt skömmu síðar.
Aðspurð sagði Ása að hún hefði búist við að Y væri meira lyfjuð en hún reyndist vera. Hafi hún byggt það á því sem henni hafði verið sagt. Hún gat hins vegar ekki tilgreint þann sem hefði sagt henni þetta.
Þóra Björk Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún var á vakt umrætt sinn og tók á móti Y. Hún kvaðst eiga erfitt með að rifja atvik upp. Hana minnti að Y hefði verið lyfjuð en ekki með skerta meðvitund. Hún mundi ekki hvað sjúkraflutningamennirnir höfðu sagt um meðvitund hennar. Sér hafi þó fundist að þeir hefðu lýst henni með skertari meðvitund en henni hefði síðan fundist sjálfri er hún talaði við hana. Y hafi strax farið að tala um áreiti sjúkraflutningamannsins. Treysti vitnið sér ekki til að rifja upp lýsingar hennar.
Hulda María Einarsdóttir, læknir, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst muna óljóst eftir atvikinu, en hún hitti Y fljótlega eftir að hún kom inn á Landspítalann umrætt sinn. Hulda sagði að Y hefði verið með fullri meðvitund. Vitnið kvaðst muna eftir því að Y hefði sagt að sjúkraflutningamaðurinn hefði leitað á hana og að hann hefði sleikt á henni geirvörturnar. Á endanum kvaðst vitnið hafa kallað til geðlækni. Meiri afskipti kvaðst hún ekki hafa haft af Y.
Við aðalmeðferð málsins var tekin skýrsla af Þorsteini Gíslasyni, geðlækni. Skýrslan var tekin í gegnum síma, en vitnið er nú búsett í Svíþjóð. Hann var umrætt kvöld vakthafandi læknir á geðdeild Landspítalans og var kallaður til að meta Y. Hann kvaðst muna eftir því að þegar hann ræddi við hana, sem hafi verið sennilega tveimur til tveimur og hálfum tíma eftir að hún kom á sjúkrahúsið. Hún hafi verið ágætlega vakandi og áttuð, væg merki hafi verið um lyfjaáhrif. Hún hafi lýst fyrir sér atvikinu í sjúkrabílnum og er hann bar sig saman við deildarlækninn hafi það reynst vera sama sagan og hún sagði honum. Því hafi verið ákveðið að senda Y á neyðarmóttökuna. Eftir það kvaðst vitnið ekki hafa komið að málum hennar, taldi þó að hún hefði verið lögð inn á geðdeild sjúkrahússins.
Rögnvaldur Ólafsson, flokksstjóri hjá lögreglunni, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann fór á vettvang á Landspítalanum umrætt sinn. Þangað hefði verið komið með sjúkling sem hélt því fram að hún hefði verið áreitt kynferðislega í sjúkrabíl. Hann sagði að Y hefði verið í miklu uppnámi. Þeir hefðu farið með hana á neyðarmóttökuna á Landspítalanum í Fossvogi.
Vitnið sagði að Y hefði lýst því hvernig sjúkraflutningamaðurinn hefði þuklað á henni í bílnum og sleikt brjóst hennar. Hún hefði þá legið alveg kyrr og ekki sýnt nein viðbrögð.
Ingólfur Bruun, rannsóknarlögreglumaður, var kallaður til og hitti Y á neyðarmóttökunni í Fossvogi þessa nótt. Hann sagði að Y hefðu verið mikið niðri fyrir, en ekki með óráði. Hún hafi verið staðföst í sínum framburði. Hún hefði lýst því að sjúkraflutningamaður hefði leitað á hana, káfað á henni og sleikt á henni brjóstin.
Arnar Hauksson, læknir, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann var læknir á neyðarmóttökunni umrætt sinn. Hann kvaðst hafa tekið strok með saltvatnsupplausn í kringum geirvörturnar á Y, til að kanna hvort þar fyndust lífssýni. Sjálfur hafi hann ekki getað séð það. Hún hafi ekki verið með sjáanlega áverka. Þá punktaði hann niður frásögn hennar af atvikinu. Hann sagði að hún hefði ekki breytt þeirri frásögn neitt þá eða síðar.
Gunnlaugur Geirsson, prófessor, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann staðfesti að fram hefði komið í rannóknum á sýnunum í Noregi staðfesting á því að um munnvatn hefði verið að ræða. Hann sagði að sýnin hefðu verið send utan til rannsóknar án nokkurrar rannsóknar hér, þar sem um mjög lítil sýni væri að ræða og því nauðsynlegt að taka þau strax til fullrar rannsóknar.
Guðlaug Þorsteinsdóttir, geðlæknir, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún hitti Y er hún var flutt á geðdeild þann 19. ágúst. Hún sagði að Y hefði þá verið í miklu uppnámi og þurft mikið að tjá sig um atvikið í sjúkrabílnum. Hún hefði lýst því að maðurinn hefði þuklað á henni brjóstin og kynfærin og sleikt á henni geirvörturnar. Fyrst hefði hann kannað hvort hún væri með meðvitund. Hún hefði sagt að hún hefði ekki sýnt nein viðbrögð.
Guðlaug sagði erfitt að greina á milli orsaka fyrir því sem hún greindi sem áfallastreituröskun í vottorði sínu. Gömul áföll vakni oft til lífsins þegar viðkomandi verður fyrir nýju áfalli. Hún sagði að Y hefði ekki verið í góðu jafnvægi á þessum tíma.
Frammi liggur í málinu vottorð Heiðdísar Sigurðardóttur, sálfræðings, en hún gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Hún lýsir því í vottorði sínu að Y hafi verið í viðtölum hjá sér á tímabilinu frá 28. ágúst 2001 til 11. júní 2002. Í viðtölunum hafi komið fram skýr einkenni áfallastreituröskunar. Hafi hún sýnt áberandi einkenni er samræmist því að hafa orðið fyrir umræddu áfalli. Lýsti Heiðdís þessu nánar í skýrslu sinni fyrir dómi, en ekki er nauðsynlegt að rekja það á þessu stigi. Verður að því vikið í niðurstöðukafla dómsins.
Niðurstaða.
Helsta sönnunargagn í málinu er framburður Y. Hún er staðföst í þeim framburði sínum að ákærði hafi sleikt brjóst hennar og káfað á kynfærum hennar er hún var flutt með sjúkrabifreiða á Landspítalann við Hringbraut.
Y hóf að segja frá atvikinu strax og ákærði og samstarfsmaður hans voru farnir af sjúkrahúsinu. Framburður tveggja hjúkrunarfræðinga, deildarlæknis og geðlæknis, er ræddu við Y á Landspítalanum við Hringbraut, staðfestir það og fram kemur að frásögn hennar er í samræmi við framburð hennar síðar fyrir dómi og við skýrslugjöf hjá lögreglu. Sömu sögu segir Y á neyðarmóttökunni á Landspítalanum í Fossvogi. Það litla misræmi sem fram kemur í lýsingu hennar á stöðu brjóstahaldara hennar skiptir ekki máli.
Þá styrkist trúverðugleiki framburðar Y af þeim ákveðnu vísbendingum sem fram koma um að ákærði hafi talið meðvitund hennar skerta.
Ákærði neitar sök og er staðfastur í framburði sínum.
A var ökumaður sjúkrabifreiðarinnar. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við neitt óvenjulegt, að hann hefði ekki séð til ákærða áreita Y kynferðislega. Framburður hans sker ekki úr í málinu.
Með niðurstöðu DNA-rannsóknar, sem áður er lýst, er fram komið að munnvatn úr ákærða greindist á vinstra brjósti Y skömmu eftir meint atvik. Önnur skýring en sú að ákærði hafi sleikt brjóst hennar er fjarlæg og verður ekki hjá því komist að telja þetta atriði, svo mjög sem það styrkir einbeittan framburð Y, ráða úrslitum svo að telja verði hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi áreitt Y kynferðislega eins og lýst er í ákæru. Er sú lýsing í samræmi við framburð Y hjá lögreglu og fyrir dómi Verður ákærði samkvæmt því sakfelldur eins og krafist er, en brotið er í ákæru réttilega fært til 209. gr. almennra hegningarlaga. Þá felur það einnig í sér brot gegn 138. gr. laganna þar sem ákærði framdi það í opinberu starfi sínu.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum. Brotið er alvarlegt og hefur ákærði brugðist miklu trausti sem til hans er borið. Refsing hans er ákveðin fangelsi í níu mánuði. Brotið er alvarlegra en svo að skilorðsbinding komi til greina.
Bótakrafa Y er studd nokkrum gögnum um andlegt ástand hennar og áhrif brotsins. Er það einkum vottorð Heiðdísar Sigurðardóttur, sálfræðings, svo og Guðlaugar Þorsteinsdóttur, geðlæknis. Í vottorði sínu kveðst Guðlaug Þorsteinsdóttir ekki hafa forsendur til að meta hvaða langtímaáhrif atvikið hafi á Y. Hins vegar sé líklegt að til skemmri tíma hafi atburðurinn aukið á vanlíðan hennar og átt þátt í að hún átti erfiðara með að að vinna í þunglyndi sínu og takast á við önnur mál. Heiðdís Sigurðardóttir segir í vottorði sínu að í viðtölum komi fram skýr einkenni áfallastreituröskunar.
Bótakrafan er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af framansögðu og með tilliti til dómvenju eru bætur til Y ákveðnar 400.000 krónur, er beri vexti eins og í dómsorði greinir, en ákærða var kynnt bótakrafan 19. mars 2002.
Ákærði verður dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar. Málsvarnarlaun verjanda ákærða eru ákveðin 220.000 krónur, en þóknun réttargæslumanns brotaþola 120.000 krónur.
Mál þetta dæma héraðsdómararnir Jón Finnbjörnsson, dómsformaður, Kristjana Jónsdóttir og Skúli J. Pálmason.
D ó m s o r ð
Ákærði, X, sæti fangelsi í níu mánuði.
Ákærði greiði Y 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. ágúst 2001 til 19. apríl 2002, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Guðmundar Ágústssonar, héraðsdómslögmanns, 220.000 krónur, og þóknun Helgu Leifsdóttur, héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.