Hæstiréttur íslands

Mál nr. 165/2003


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Ölvunarakstur
  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Vanaafbrotamaður
  • Svipting ökuréttar
  • Líkamsmeiðing af gáleysi


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. október 2003.

Nr. 165/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Agnari Víði Bragasyni

(Sigurður Georgsson hrl.)

 

Þjófnaður. Akstur án ökuréttar. Ölvunarakstur. Fíkniefni. Ítrekun. Vanaafbrotamaður. Svipting ökuréttar. Líkamsmeiðing af gáleysi.

A var sakfelldur fyrir hegningar-, umferðar- og fíkniefnalagabrot. Með tilliti til eldri dóma sem höfðu ítrekunaráhrif, svo og þess að ákærði var vanaafbrotamaður, var refsing hans ákveðin fangelsi í níu mánuði. Ökuréttarsvipting hans þótti hæfilega ákveðin í þrjú ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms, þyngingar á refsingu ákærða og frekari sviptingar ökuréttar hans en gert var í héraðsdómi.

Ákærði krefst í fyrsta lagi sýknu af þeirri háttsemi, sem lýst er í I. kafla ákæru 15. janúar 2002 og talin er varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 25. gr. og 1. mgr. og a. og c. liði 2. mgr. 36. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í öðru lagi krefst hann sýknu af sakargiftum um þjófnað samkvæmt ákæru 5. febrúar 2002. Að öðru leyti er þess krafist að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um að sakfella ákærða fyrir þá háttsemi, sem hann krefst nú að vera sýkn af fyrir Hæstarétti, og um er getið hér að framan.

Ákærði var dæmdur í fangelsi í níu mánuði 4. júní 1999 fyrir þjófnað og 23. desember sama árs í fangelsi í þrjá mánuði fyrir sams konar brot. Þá var hann dæmdur 17. mars 2000 fyrir þjófnað og þjófnaðartilraun í fangelsi í sex mánuði. Hann fékk reynslulausn 12. maí 2000 í eitt ár á 180 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt eldri dómum og mun hafa staðist þá reynslulausn. Þann 9. september 2001, eða tæpum fjórum mánuðum eftir að henni lauk, gerðist hann sekur um auðgunarbrotið, sem fjallað er um í ákæru 5. febrúar 2002. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að hann hefur margsinnis gerst sekur um auðgunarbrot og þess að áðurnefndir þrír dómar hafa allir ítrekunaráhrif á þjófnaði hans 9. september 2001 og 21. febrúar 2002. Ber því að ákveða honum refsingu með vísan til 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði er vanaafbrotamaður og verður því einnig litið til 72. gr. sömu laga. Að öllu þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er refsing hans ákveðin fangelsi í níu mánuði, en ekki eru efni til að beita jafnhliða sektarrefsingu.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. janúar 2001 var ákærði vegna ölvunar við akstur sviptur ökurétti í fjóra mánuði frá 1. febrúar sama árs, en þá var honum birtur dómurinn. Hann hefur nú í tvígang með ölvunarakstri sínum 6. nóvember 2001 og 17. desember sama árs ítrekað gerst sekur um sams konar brot. Bæði brot hans verða heimfærð undir 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga með áorðnum breytingum og hvort þeirra um sig varðar sviptingu ökuréttar eigi skemur en í tvö ár eftir 1. málslið 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga, ef dæmd væru hvort í sínu lagi. Ákærði hefur enn á ný unnið sér til ökuréttarsviptingar eins og krafist er í ákæru 15. janúar 2002. Er hún hæfilega ákveðin í þrjú ár frá 14. mars 2003, en þá var ákærða birtur hinn áfrýjaði dómur.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði. 

Dómsorð:

Ákærði, Agnar Víðir Bragason, sæti fangelsi í níu mánuði.

Ákærði skal vera sviptur ökurétti í þrjú ár frá 14. mars 2003.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2003.

                                Mál þetta, sem dómtekið var 23. janúar sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 15. janúar 2002 á hendur ákærða Agnari Víði Bragasyni, [ . . . ], fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2001 í Reykjavík:

I.

                Hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, laugardaginn 30. júní, á leið norður Kringlumýrarbraut af aðrein frá Nýbýlavegi í Kópavogi, ekið bifreiðinni JP-839 án nægjanlegrar aðgæslu þar við gatnamótin og of hratt miðað við aðstæður, við vegamót í þéttbýli, með þeim afleiðingum að þegar hjólreiðamaður á leið norður Kringlumýrar­braut ók til hægri inn á akreinina í veg fyrir hann hafði hann eigi fullt vald á bifreiðinni og tókst eigi að stöðva hana í tæka tíð, ók aftan á hjólið og maðurinn, M, fæddur […], féll í götuna og hlaut stóran skurð á hnakka, nefbrot og skurð á nefi og undir höku og hrufl og mar á rasskinn og ökkla, að hafa þá ekki haft gilt ökuskírteini og að hafa síðan farið af vettvangi áður en lögregla og sjúkralið kom á staðinn og eigi tilkynnt um slysið svo fljótt sem auðið var.

                Þetta er talið varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. og 2. mgr. 10. gr., 1. mgr. 25. gr., 1. mgr. og a- og c-liði 2. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

II.

Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt þriðjudagsins 25. september, ekið bifreið­inni R-78472 án þess að hafa gilt ökuskírteini austur Hverfisgötu og suður Rauðarárstíg þar til lögreglan stöðvaði aksturinn við gatnamót Háteigsvegar.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga.

III.

Fíkniefnalagabrot með því að hafa, aðfaranótt miðvikudagsins 17. október, í bifreið­inni R-78472 við Hraunbæ, haft í vörslum sínum 0,96 g af hassi sem lögreglan fann við leit á ákærða og 2,59 g amfetamíni sem fannst við leit í bifreiðinni.

Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, 9. gr. laga nr. 75/1982, lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 1. mgr. 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlits­skyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 490/2001.

IV.

Umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðum undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti svo sem hér er rakið:

1.        Aðfaranótt þriðjudagsins 6. nóvember, bifreiðinni R-78472 frá Mosfellsbæ til Reykjavíkur þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn á mótum Baldursgötu og Sóleyjar­götu.

2.        Aðfaranótt mánudagsins 17. desember, bifreiðinni JE-885 vestur Tryggvagötu og Geirsgötu og inn á bifreiðastæði við Miðbakka þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn.

Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

V.

Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 30. desember, ekið bifreiðinni JV-559 sviptur ökurétti vestur Hverfisgötu þar til lögreglan stöðvaði aksturinn rétt vestan Ingólfsstrætis.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga.

 

Hinn 11. apríl sl. var sakamálið nr. 351/2002 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök, með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 5. febrúar sl., þjófnaður með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 9. september 2001 brotist inn í húsnæði myndbandaleigunnar og söluturnsins B, […], með því að kasta gangstéttarhellu í gegnum gler í útidyrahurð og stolið um 17.000 krónum í peningum úr afgreiðslukassa.

Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Hinn 10. maí sl. var sakamálið nr. 813/2002 sameinað þessu máli en áður höfðu verið sameinuð því máli sakamál nr. 954/2002 og 1074/2002.

Þar er ákærða gefið að sök, með ákæru útgefinni af lög­reglu­stjóranum í Reykjavík 12. mars sl., umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðum sviptur ökurétti um götur í Reykjavík svo sem hér er rakið:

 

I.

Bifreiðinni JX-322, sunnudaginn 11. nóvember 2001 um Hafnarstræti.

 

II.

Bifreiðinni R-22996, laugardaginn 19. janúar 2002, um húsagötu við Háaleitis­braut skammt norðan gatnamóta Háaleitisbrautar og Safamýrar.

 

III.

                Bifreiðinni R-22996, að kvöldi mánudagsins 21. janúar 2002, um Hverfisgötu og svo óvarlega við hús nr. 54 að hann ók á bifreiðina UM-290 sem var kyrrstæð og mannlaus í bifreiðastæði og þegar í stað brott af vettvangi án þess að gera lögboðnar ráðstafanir vegna árekstursins.

                Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr. og brotið í lið III að auki við 1. mgr. 4. gr. og 1. og 2. mgr. 10. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.

 

                Einnig er ákærða gefið að sök, með ákæru útgefinni af lög­reglu­stjóranum í Reykjavík 25. mars sl. umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni JX-322, mánudaginn 11. mars 2002, sviptur ökurétti frá húsi í Vogahverfi í Reykjavík uns lögregla stöðvaði aksturinn við Laugaveg 170.

                Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.

 

                Að lokum er ákærða gefið að sök, með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 9. apríl 2002, þjófnaður með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 21. febrúar 2002 brotist inn í húsnæði Úrsmíðaverslunar H […], með því að brjóta gler í útidyrahurð og stolið um 8.000 krónum í skiptimynt úr afgreiðslukassa og bakka ásamt um 20 úrum, sem á honum voru, samtals að verðmæti um 550.000 krónur.

                Þetta er talið varða til 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

                Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998, og að fíkniefni, sem lögreglan lagði hald á, sbr. III. ákærulið ákæru frá 15. janúar 2002, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

                Í málinu gerir H, kt.[…], kröfu um skaðabætur að fjárhæð 592.791 króna.

                Verjandi gerir eftirfarandi kröfur fyrir hönd ákærða:

Vegna ákæru frá 15. janúar 2002 er krafist sýknu af I. lið en til vara vægustu refsingar; af refsikröfu ákæruliðar II er krafist vægustu refsingar í formi sektar; krafist sýknu af refsikröfu ákæruliðar III fyrir akstur sviptur ökurétti, en vægustu refsingar vegna ölvunarakstursbrota; af ákærulið V er krafist sýknu.

Krafist er sýknu af refsikröfu ákæra frá 5. febrúar, 12. mars og 21. mars 2002.

Vegna ákæru frá 9. apríl 2002 er krafist er vægustu refsingar sem lög leyfa og frávísunar skaðabótakröfu.

Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.

 

Ákæra frá 15. janúar 2002.

I. ákæruliður.

                Þessi ákæruliður skiptist í þrjá þætti. Ákærða er gefið að sök að hafa brotið tilgreindar umferðarreglur og með því átt sök á því að hjólreiðamaður lenti fyrir bifreiðinni og slasaðist, þessu neitar ákærði. Þá er honum gefið að sök að fara af vettvangi án þess að gera þær ráðstafanir sem honum bar, þessu játar ákærði. Loks er hann sakaður um að hafa í umrætt sinn ekið bifreið án þess að hafa gilt ökuskírteini, þessu neitar ákærði.

                Verður nú fyrst fjallað um umferðaslysið.

                Samkvæmt frumskýrslu lögreglu varð slys þetta á Kringlumýrarbraut á móts við Nesti um kl. 13.44 laugardaginn 30. júní 2001. Spænskur karlmaður á reiðhjóli varð þar fyrir bifreið ákærða og slasaðist nokkuð, en meiðslin reyndust þó ekki mjög alvarleg. Haft er eftir sjónarvotti í frumskýrslu lögreglu að hjólreiðamaðurinn hafi verið yst á hægri akrein, þar sem akreinarnar eru tvær á Kringlumýrarbrautinni og hjólað beint áfram á sömu akrein þar sem aðrein frá Kópavogi liggur niður á Kringlumýrarbrautina, sem þá skiptist í þrjár akreinar. Þar hafi hjólreiðamaðurinn ætlað að skipta um akrein og fara yfir þá akrein sem nú var yst til hægri og hafi beygt til hægri og í veg fyrir bifreiðina JP-839. Sama vitni tjáði lögreglu að ökumaðurinn, ákærði, hefði ekki verið viðræðuhæfur vegna geðshræringar og hefði hann síðan hlaupið af vettvangi. Klukkan 16.52 sama dag gaf ákærði sig fram á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.

                Hjólreiðamaðurinn M býr á Spáni og kom ekki fyrir dóminn. Skýrsla var tekin af honum hjá lögreglu 3. júlí 2001. Þar kemur fram að hann hafði komið til Íslands sama dag og ferðast á reiðhjólinu frá Keflavíkurflugvelli og ætlað til Reykjavíkur og verið á þessari leið þegar slysið varð. Hann kvaðst hafa hjólað við hægri brún og kvaðst muna eftir að aðrein kom inn á akbrautina, sem hann hafi hjólað eftir og skyndilega fundið að eitthvað lenti aftan á honum. Hann taldi að hann hefði hjólað frekar rólega þar sem hann hafði nýlega lokið við að borða. Hann kvaðst ekki muna eftir sér fyrr en á sjúkrahúsinu.

                Ákærði kvaðst fyrir dómi hafa verið að koma úr Kópavogi og hafa ekið eftir aðrein inn á Kringlumýrarbraut, hafi hann verið á eftir mjög hægfara bifreið, sem hafi gefið stefnuljós en síðan ekki beygt, hafi bifreiðin skyggt á hjólreiðamanninn og hafi hann ekki séð hann fyrr en bifreiðin lenti á honum. Hann hefði áður ætlað að beygja inn á Kringlumýrarbraut, en orðið að hætta við vegna bifreiðar sem hann hafði ekki séð. Hann kvaðst ekki hafa getað gert neitt til að forða árekstri annað en að bremsa. Hann kvaðst ekki vita á hversu miklum hraða hann var, en telja sig hafa fylgt umferðarhraða. Hann kvað geta verið rétt að hann hafi ekið aðeins of hratt, en neitaði því að hann hefði ekið óvarlega. Ákærði kvaðst vera fíkniefnaneytandi en neitaði því að hafa neytt fíkniefna fyrir aksturinn og kvaðst aðeins hafa drukkið áfengi daginn áður.

                Vitnið Þ kvaðst hafa verið farþegi í bifreið ákærða þegar slysið varð. Hún kvað ákærða hafa verið að taka fram úr bifreið sem ók mjög hægt og hafi þau ekki séð hjólreiðamanninn, sem hafi verið fyrir framan þá bifreið, fyrr en þau lentu á honum og hafi hann kastast upp á framrúðuna. Hún kvað ekkert óeðlilegt hafa verið við akstur ákærða og hefði hann verið á sama hraða og aðrir, hún hefði þó dálítið verið að segja við hann að gæta sín, vegna þess að þau voru í þéttbýli og kvaðst hún hugsanlega hafa séð hjólreiðamanninn rétt á undan honum. Þegar vitninu var bent á að þessi framburður væri ekki alveg í samræmi við það sem hún hafði sagt hjá lögreglu, kvaðst hún mjög ósátt við framgöngu lögreglunnar við skýrslutökuna, hún kvaðst hafa verið drukkin og einnig haldin geðsjúkdómi og hefði ekki átt að láta hana undirrita skýrsluna.

                Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvað vitnið ákærða hafa ekið hratt, verið með töffarastæla við aksturinn, skipt oft um akrein og verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

                Vitnið Gísli Breiðfjörð Árnason rannsóknarlögreglumaður, sem yfirheyrði vitnið Þ, hafnaði því að vitnið hefði ekki verið fær um að gefa skýrslu og að hranalega hefði verið að henni farið. Þvert á móti hefði hún verið ódrukkin og skýrt greiðlega frá. Vitnið Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður, sem vottar undirritun skýrslunnar, kvaðst ekkert muna eftir þessu tilviki.

                Vitnið Á kvaðst hafa séð slysið þar sem hann ók norður Kringlumýrarbraut. Kvað hann ekkert sérstakt hafa vakið athygli við akstur ákærða og hafi hann ekki ekið hraðar en önnur umferð. Hann kvaðst hafa séð hjólreiðamanninn koma niður brekkuna frá Kópavogi og hafi hann verið að reyna að komast á akreinina lengst til vinstri, hann hafi litið aftur fyrir sig og beygt síðan yfir akreinina og í því hafi ákærði komið á grárri bifreið. Ákærði hafi klossbremsað og hafi bíllinn runnið og hjólreiðamaðurinn lent á framrúðunni. Honum hafi virst eins og hjólreiðamaðurinn passaði ekki inn í umhverfið, umferðin hafi verið frekar grimm, hann hafi litið einu sinni við og beygt svo. Skilyrði til aksturs hafi verið góð og þurrt úti. Vitnið kvaðst hafa hringt í Neyðarlínuna og talað við ökumanninn sem hafi virst vera í sjokki og hafi farið af vettvangi áður en lögregla kom.

                Vitnið Katrín Eva Erlarsdóttir lögreglumaður ritar frumskýrslu vegna slyssins. Hún kvað ökumann hafa verið farinn af vettvangi og staðfesti það sem hún hefur eftir vitninu Þ um að hann hafi verið óöruggur. Hún kvaðst hafa mælt hemlaför 43 metra.

                Vitnið Rúnar Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður kvað ákærða hafa gefið sig fram og hafi hann þá verið langt niðri, hann hafi ekki vitað hversu mikið slasaður hjólreiðamaðurinn var.

                Vitnið HÞ kvaðst hafa átt bifreiðina sem ákærði ók í umrætt sinn. Ákærði hafi verið í verulegu sjokki þegar hann kom til hans á barinn Mónakó á Laugavegi eftir slysið. Taldi hann jafnvel að slys á hjólreiðamanninum væri alvarlegra en það var. Hafi ákærði skýrt sér frá því sem komið hafði fyrir og síðan farið til lögreglunnar. Hann hafi drukkið áfengi til að róa sig niður á meðan hann talaði við hann. Hann kvað sjálfskiptinguna í bifreiðinn hafa verið bilaða, hafi hún snuðað.

 

                Að því er varðar það sakarefni að ákærði hafi ekki haft gild réttindi til aksturs, hélt ákærði því fram að hann hefði ökuskírteini útgefið af lögreglustjóranum í Óðinsvéum í Danmörku. Lagt hefur verið fram í málinu svar Interpol Kaupmannahöfn við fyrirspurn Interpol Reykjavík um ökuskírteini ákærða. Í því kemur fram að gefið var út ökuskírteini til ákærða af lögreglunni í Óðinsvéum hinn 18. febrúar 1994 og er gildistími þess til 16. september 2036, númer skírteinis er 13064576. Einnig kemur fram að skírteini þetta hafi verið útgefið á grundvelli íslensks ökuskírteinis sem útgefið var 25. september 1991. Samkvæmt ökuskírteinaskrá lögreglunnar í Reykjavík fékk ákærði útgefið ökuskírteini 25. september 1991 og var gildistími þess til 25. september 1993.

 

Niðurstaða.

                Tekin var blóð- og þvagprufa af ákærða tæpum fjórum klukkustundum eftir slysið, þá mældist alkóhól í blóði 1.12‰ og í þvagi 1.69‰. Einnig fannst amfetamín í þvagi og blóði, 70 ng/ml í blóði. Þetta magn amfetamíns samsvarar, samkvæmt matsgerð Lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands, töku efnisins í stórum læknisfræði­legum skömmtum, og er það ekki talið hafa marktæk áhrif á hæfni manna til þess að stjórna ökutæki. Vitnið Þ bar hjá lögreglu um fíkniefnaneyslu ákærða fyrir aksturinn en breytti þeim framburði fyrir dómi. Vitnið kvaðst stríða við geðsjúkdóm og var það trúverðugt. Henni var mikið niðri fyrir vegna lögregluskýrslunnar. Er það mat dómsins að skoða verði framburð hennar í ljósi þessa og að ekki verði byggt á lögregluskýrslu hennar, sem tekin var sama dag og slysið varð. Ákærði fór af vettvangi og kveðst hann hafa drukkið eftir aksturinn, styður vitnið HÞ þann framburð hans. Verður af þessu að telja ósannað að ákærði hafi vegna neyslu áfengis eða fíkniefna eigi haft fullnægjandi vald á bifreiðinni þegar slysið varð.

Samkvæmt málsgögnum og framburði lögreglumanns mældust hemlaför bifreiðarinnar 43 metrar. Veður var þurrt og yfirborð vegar slétt. Bendir þetta til þess að ákærði hafi ekið eitthvað yfir leyfilegum hámarkshraða, sem var 70 km/klst á akbraut. Kannast ákærði við að hafa ekið of hratt. Slysið varð þar sem aðrein sameinaðist mikilli umferðargötu og hún breyttist úr tveggja í þriggja akreina akbraut. Við slíkar aðstæður er sérstakrar aðgæslu þörf. Er af framburði ákærða ljóst að hann lét hægfara bifreið á undan angra sig og var að reyna að skipta um akreinar. Telja verður sannað með þessu að ákærði hafi eigi sýnt fullnægjandi aðgæslu við aksturinn í umrætt sinn og að það hafi átt þátt í slysinu. Samkvæmt framburði vitnisins Á sveigði hjólreiðamaðurinn hins vegar í veg fyrir bifreið ákærða eins og gert er ráð fyrir í atvikalýsingu ákæru. Brotaþoli var ekki kunnugur staðháttum, hann var erlendur ferðamaður, sem komið hafði til landsins sama dag, og var búinn að hjóla frá Keflavík í Fossvoginn þegar slysið varð. Brotaþoli hefur ekki komið fyrir dóminn, en samkvæmt lögregluskýrslu mundi hann ekkert frá sjálfu slysinu, en ber þó að hann hafi ekki séð neina bifreið áður en hann beygði. Bendir þetta og framburður vitnisins Á til þess að hjólreiðamaðurinn hafi einnig sjálfur átt einhverja sök á slysinu. Skal ákærði njóta vafa um þetta, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991, en það firrir ákærða þó ekki allri ábyrgð á akstri sínum. Meiðsli hjólreiðamannsins eru staðfest með læknisvottorði. Það er samkvæmt framangreindu niðurstaða dómsins að ákærði hafi sýnt af sér gáleysi við aksturinn sem hafi átt þátt í slysinu. Ákærði játar að hafa farið af vettvangi og er það í samræmi við önnur málsgögn. Samkvæmt þessu er hann fundinn sekur um brot samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga, 1. mgr. 4. gr., 1. og 2. mgr. 10. gr., 1. mgr. 25. gr. og 1. mgr. og a- og c-liði 2. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

                Ákærða er einnig gefið að sök að hafa ekið bifreið án þess að hafa til þess gilt ökuskírteini. Þykir um þetta atriði mega byggja á þeim upplýsingum sem borist hafa um útgáfu ökuskírteinis honum til handa í Danmörku og lýst er hér að framan. Samkvæmt 73. gr. reglugerðar nr. 501/1997 um ökuskírteini er mönnum, sem hér hafa fasta búsetu, heimilt að stjórna ökutæki á Íslandi ef þeir eru handhafar ökuskírteinis sem gefið er út í ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Danmörk uppfyllir það skilyrði. Ákærði telst því hafa haft ökuréttindi í lagi og er hann sýknaður af þessu sakarefni.

 

II. ákæruliður.

                Ákærði játar þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið. Svo sem rakið er í ákærulið I. verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að ákærði hafi í umrætt sinn haft ökuréttindi samkvæmt dönsku ökuskírteini. Játning hans er því ekki í samræmi við gögn málsins og skal hann vera sýkn af þessum ákærulið þrátt fyrir játningu. Hann er ekki ákærður fyrir að hafa ekki haft ökuskírteini meðferðis.

 

III. ákæruliður.

                Ákærði kveðst ekkert muna eftir þessu tilviki og því hvorki geta játað né neitað sök. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var ákærði farþegi í bifreiðinni JN-694, sem lögregla stöðvaði 17. október 2001 í því skyni að kanna hvort þar fyndust fíkniefni. Fannst efni í hægri buxnavasa ákærða og undir framsæti farþegamegin. Við leitina kvaðst ákærði eiga efnið. Við litaprófun tæknideildar lögreglu reyndist efnið, sem fannst í vasa ákærða, vera 0.96 g af hassi og efnið, sem fannst undir framsæti bifreiðarinnar í þremur pokum, vera amfetamín, samtal 2.59 g. Ákærði var yfirheyrður vegna þessa hjá lögreglu sömu nótt. Kvaðst hann þá vera eigandi efnisins og hafa keypt það fyrr um kvöldið fyrir 17.000 krónur, sagði hann það eiga að vera 1 g af hassi og 3 g af amfetamíni.

                Fyrir dómi vísaði ákærði til skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu og taldi að hún væri í meginatriðum rétt.

Vitnið J var með ákærða þegar lögregla hafði afskipti af þeim. Hann kvaðst ekki sjálfur hafa verið með fíkniefni og ekki hafa vitað um að ákærði væri með fíkniefni. Hann kvaðst hafa ekið bifreiðinni sem ákærði átti. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að lögregla fyndi fíkniefni, en þeir ákærði hefðu verið fluttir sinn með hvorri bifreiðinni á lögreglustöð.

Lögreglumennirnir Lúðvík Kristinsson, Gunnar Helgi Stefánsson og Guð­mundur Sævarsson, lýstu aðkomu sinni að málinu, fíkniefnaleit og fundi og handtöku mannanna.

 

Niðurstaða

Telja verður að játning felist í tilvísun ákærða til skýrslu sinnar hjá lögreglu, hann kveðst hins vegar ekki muna eftir þessu nú. Þykir með framburði ákærða sama dag hjá lögreglu, vætti lögreglumannanna og efnaprófun tæknideildar lögreglu sannað að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem í ákæruliðnum greinir og er brotið þar rétt fært til refsiákvæða.

 

IV. ákæruliður.

                Ákærða er hér gefið að sök að hafa tvívegis ekið undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, annars vegar 6. nóvember 2001 og hins vegar 17. desember 2001. Hann játar aksturinn og að hafa verið undir áhrifum áfengis. Hann neitar hins vegar að hafa ekið sviptur ökurétti og krefst sýknu af því ákæruatriði á þeirri forsendu að Hæstiréttur hafi með dómi sínum hinn 14. mars 2002 sýknað hann af broti því sem í héraði leiddi til ökuleyfissviptingar 29. október 2001, en þar var honum gert að sæta sviptingu ökuréttar í sex mánuði frá birtingu héraðsdómsins að telja. Dómurinn var birtur 5. nóvember 2001.

 

Niðurstaða

                Samkvæmt skýlausri játningu ákærða bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, sem er í samræmi við gögn málsins, er hann fundinn sekur um ölvunarakstur í tvígang. Hinn 6. nóvember 2001 mældist áfengismagn í blóði hans 0.78‰ og hinn 17. desember sama ár 0.58‰. Eru brot þessi rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

                Dómur Héraðsdóms Suðurlands frá 29. október 2001, þar sem hann var sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu dómsins, var birtur ákærða hinn 5. nóvember sama ár. Samkvæmt því ók ákærði sviptur ökurétti í báðum ofangreindum tilvikum. Hann áfrýjaði héraðsdóminum og var sýknaður af því ákæruatriði sem leiddi til ökuleyfissviptingar með dómi Hæstaréttar 14. mars 2002. Ákærði heldur því fram að þar sem hann var sýknaður af broti því í Hæstarétti sem leiddi til ökuleyfissviptingar í héraði verði hann ekki sakfelldur fyrir akstur sviptur ökurétti á tímabilinu frá birtingu héraðsdóms fram að því að dómur Hæstaréttar féll.

                Í 104. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum segir að áfrýjun dóms, þar sem kveðið er á um sviptingu ökuréttar, fresti ekki verkun hans að því leyti. Þó má með úrskurði dómara ákveða að áfrýjun fresti framkvæmd sviptingar, ef sérstaklega stendur á. Enginn slíkur úrskurður var kveðinn upp. Samkvæmt skýru orðalagi téðrar lagagreinar var ákærði sviptur ökurétti frá birtingu héraðsdóms 5. nóvember 2001 til uppsögu Hæstaréttardómsins hinn 14. mars 2002. Hann er því fundinn sekur um að hafa ekið bifreið í umrædd skipti sviptur ökurétti. Eru brotin réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.

 

V. ákæruliður.

                Ákærði er sakaður um að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti 30. desember 2001. Samkvæmt skýrslu, sem hann undirritar á staðnum, kveðst ákærði ekki hafa vitað að hann væri sviptur ökurétti. Samkvæmt framansögðu, sbr. um ákærulið IV, var hann sviptur ökurétti með dómi Héraðsdóms Suðurlands hinn 29. október 2001 í sex mánuði og var dómurinn birtur honum 5. nóvember 2001. Áfrýjun dómsins frestaði því ekki að ökuleyfissviptingin tæki gildi samanber 104. gr. umferðarlaga svo sem nánar er rökstutt í niðurstöðu um IV. ákærulið. Er ákærði fundinn sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og er brotið rétt heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

 

Ákæra frá 5. febrúar 2002.

                Ákærða er hér gefið að sök að hafa brotist inn í fyrirtækið  [...] aðfaranótt sunnudagsins 9. september 2001. Hann kvaðst fyrir dóminum ekki vilja tjá sig um sakarefnið þar sem hann myndi mjög lítið eftir þessu atviki.

                Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var tilkynnt um innbrot í  [...] kl. 02.48 aðfaranótt sunnudagsins 9. september 2001. Kvaðst tilkynnandi veita innbrotsaðilanum eftirför og kvað hann stefna í átt að Hlégarði. Þegar lögregla kom að Hlégarði sást ákærði hlaupa í átt að Varmá, var honum skipað með kalltæki að stöðva og ljósum lögreglubifreiðarinnar beint að honum. Sást hann þá fara í hægri jakkavasa sinn og henda frá sér pappírsseðlum og síðan hægja för sína. Var hann handtekinn. Á svæðinu þar sem hann sást henda frá sér pappírsseðlum fundu lögreglumenn peningaseðla, samtals 6 þúsund krónur. Við leit í vösum ákærða fundust 15.300 krónur. Ákærði var handtekinn og yfirheyrður síðar sama dag. Kvaðst hann þá ekki muna eftir því að hafa brotist inn og kvaðst ekki muna eftir hvað hann gerði kvöldið áður, þó kvaðst hann hafi drukkið og tekið inn róandi lyf. Hann var aftur yfirheyrður af lögreglu 14. janúar 2002 og kvaðst þá ekkert frekar muna eftir þessu og kvaðst hafa verið algjörlega ruglaður á þessum tíma vegna neyslu lyfja og áfengis.

Á vettvangi var rætt við tilkynnanda, vitnið A. Hann kvaðst hafa verið á gangi fyrir ofan húsið er hann heyrði að öryggiskerfi fór í gang og hefði þá flýtt sér niður fyrir húsið að […]. Þar hefði hann séð mann koma út úr söluturninum og hlaupa í burtu. Kvaðst hann hafa hlaupið á eftir manninum og jafnframt hafa hringt til lögreglu. Eigandi söluturnsins kom á vettvang og kvaðst sakna 17 þúsund króna úr afgreiðslukassanum. Menn frá tæknideild lögreglu rann­sökuðu vettvang.

Við rannsóknina kom í ljós að rúða við aðalinngang hafði verið brotin með gangstéttarhellu. Ný skóför voru á gólfi og sýndu þau að farið hafði verið inn fyrir afgreiðsluborð. Á myndbandi úr eftirlitskerfi sást, á 40 sekúndna myndskeiði, hvar aðili í dökkri yfirhöfn með hettu kom inn og hljóp inn fyrir afgreiðsluborðið, opnaði sjóðvél tók þar skiptimynt og fór út. Var klæðnaður mannsins í samræmi við klæðnað ákærða þegar hann var handtekinn. Skófari var lyft af gólfi á brotavettvangi og samanburðarsýni tekið af skósólum ákærða. Niðurstaða tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík var að sjá mætti nokkur einkenni sem bentu til þess að vettvangsfarið og samanburðarfarið samkenndust, og miklar líkur væru á að vettvangsfarið væri eftir þá skó er ákærði klæddist er hann var handtekinn. Gögn þessi voru send tæknirann­sóknar­stofu ríkislögreglustjóra til frekari skoðunar og er niðurstaða hennar að skór ákærða geti hafa skilið eftir sig vettvangsfarið.

Ákærði kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir að hafa verið þarna að verki og taldi orðalag sitt í lögregluskýrslu vera „óheppilegt.“

Vitnið Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir lögreglumaður lýsti aðkomu sinni að málinu og var lýsing hennar í samræmi við það sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu. Huginn M. Egilsson lögreglumaður mundi lítið eftir málinu þegar hann kom fyrir dóminn, en hafði áður gefið lögregluskýrslu sem er í samræmi við annað sem komið hefur fram. Bjarni Jóhann Bogason aðstoðaryfirlögregluþjónn, Sævar Þorbjörn Jóhannesson lögreglufulltrúi og Guðmundur Ásgeirsson rannsóknarlögreglumaður lýstu tæknirannsókn og kom þar ekkert fram umfram það sem er fyrirliggjandi í gögnum.

Vitnið A kvaðst hafa verið á leið fram hjá […] á þeim tíma sem innbrotið átti sér stað. Hann kvaðst hafa heyrt brothljóð og gengið að hurðinni og þá hafi innbrotsþjófurinn hlaupið út. Maðurinn hafi verið í svörtum jakka með hettu. Hann kvaðst hafa elt manninn og aldrei misst sjónar á honum. Hann kvaðst hafa verið 10 til 15 metra á eftir manninum. Hann kvaðst hafa séð að maðurinn henti einhverju frá sér. Hann kvaðst hafa verið með gsm síma og hringt úr honum til lögreglu. Þegar lögregla kom á vettvang hafi hann bent lögreglu á manninn.

Vitnið S, verslunareigandi, kvað lagfæringar á skemmdum á útihurð hafa kostað 20 til 30 þúsund krónur. Úr sjóðvél hafi verið stolið uppgjörinu, 17 þúsund krónum.

 

Niðurstaða

                Ákærði sást af vitninu A koma út úr […]. Vitnið fylgdi honum fast eftir af brotavettvangi og þar til lögregla handtók hann. Skófar á vettvangi samræmdist því að vera eftir þá skó sem ákærði klæddist í umrætt sinn. Innbrotið náðist á öryggismyndband og er klæðnaður geranda í samræmi við klæðnað ákærða. Vitnið A og lögregla sáu ákærða henda frá sér einhverju sem reyndust vera peningaseðlar. Einnig fannst fé á honum. Samtals var þetta aðeins hærri upphæð en það sem tekið var í innbrotinu, en um þá fjárhæð þykir mega leggja til grundvallar framburð verslunareigandans.

                Með framangreindum framburði sjónarvotta, myndbandi, klæðnaði ákærða og tæknirannsókn þykir hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir samkvæmt þessum ákærulið og er hann sakfelldur fyrir brotið. Er brotið rétt heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

 

Ákæra frá 12. mars 2002.

Um I. og II. ákærulið.

                Ákærði neitar sök samkvæmt I. og II. ákærulið á þeirri forsendu að Hæstiréttur hafi með dómi sínum hinn 14. mars 2002 sýknað hann af broti því sem hann hafði áður verið sakfelldur fyrir í héraði 29. október 2001 en þar var honum gert að sæta sviptingu ökuréttar í sex mánuði frá birtingu héraðsdómsins að telja. Birting fór fram 5. nóvember 2001. Vegna sýknudóms Hæstaréttar hafi hann verið í fullum rétti að aka. Ákærði játar hins vegar að hafa ekið bifreiðunum á þeim tíma og stað sem í ákæru greinir.

 

Niðurstaða um ákæruliði I og II.

                Ákærði ók sviptur ökurétti bæði 11. nóvember 2001 og 19. janúar 2002, samkvæmt dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 29. október 2001, en með honum var hann sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu dómsins. Áfrýjun dómsins frestaði því ekki að ökuleyfissviptingin tæki gildi samanber 104. gr. umferðarlaga svo sem nánar er rökstutt hér að framan í niðurstöðu um IV. ákærulið ákæru frá 15. janúar 2002. Ákærði er því fundinn sekur um að hafa ekið bifreið í umrædd skipti sviptur ökurétti. Eru brotin réttilega heimfærð til refsiákvæðis í ákæru.

 

Um III. ákærulið.

                Í III. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa hinn 21. janúar 2002 ekið bifreiðinni R-22996 sviptur ökurétti um Hverfisgötu og svo óvarlega að hann ók á kyrrstæða og mannlausa bifreið UM-290 og að aka áfram af vettvangi án þess að stöðva og gera tilætlaðar ráðstafanir. Bifreiðin fannst skömmu síðar, samkvæmt ábendingu vitnis, yfirgefin við innkeyrslu að bifreiðastæði austan við Frakkastíg. Vitnið kvaðst, samkvæmt frumskýrslu, ekki hafa séð ökumann almennilega. Í frumskýrslu er haft eftir sjónarvottunum HÖ og HS að ökumaðurinn hafi verið einn í bifreiðinni, klæddur dökkbláum Kraft-kuldagalla, 30 til 40 ára, dökkhærður, grannur í andliti og með skegghýjung. Ekki var tekin lögregluskýrsla af þessum vitnum.

Ákærði neitar að hafa verið á umræddri bifreið þennan dag, en staðfestir að hann hafi verið með hana í láni tveimur dögum áður. Hann var spurður út í lögregluskýrslu sem tekin var af honum 11. febrúar sama ár vegna atburðarins, þar er haft eftir honum: „Ég hef verið á þessari bifreið, á þessum tíma var ég í rugli, vel getur verið að ég hafi ekið utan í bifreið við Regnbogann á Hverfisgötu og farið af vettvangi, en ég man lítið eftir þessum tíma. Ég mótmæli því ekki að ég hafi verið á bifreiðinni R-22996 í umrætt sinn. Ég hef ekki meir um málið að segja.“ Ákærði kvaðst muna eftir þessari yfirheyrslu, kvað hann lögreglu hafa þrýst mjög á sig og hótað að hann færi í fangaklefa, hann kvað lögregluna hafa orðað skýrsluna.

Vitnin HS og HÖ, kváðust hafa verið á leið á kvikmyndasýningu í Regnboganum þegar þeir urðu vitni að akstri bifreiðarinnar R-22996 sem hafi komið niður hliðargötu og keyrt inn á Hverfisgötu og inn á öfugan vegarhelming. Hafi ökumaðurinn rykkt í stýrið til hægri með þeim afleiðingum að hann keyrði beint inn í kyrrstæðan bíl en setti svo í bakkgírinn og hélt áfram upp Hverfisgötu og ók þá greitt. Þeir hafi tilkynnt þetta til lögreglu og haft uppi á eiganda bifreiðarinnar sem ekið var á. Náðu bæði vitnin bílnúmerinu. HS kvað ökumanninn hafa verið með sítt hár og klæddan kraftgalla, hann hafi verið eins og í annarlegu ástandi, eins og hann væri sofandi við stýrið og sljór. Hreyfingar hans hafi verið eins og hann væri ölvaður. HÖ kvað manninn hafa verið í dökkbláum kraftgalla.

Vitnið MG var skráður eigandi bifreiðarinnar R-22996, hann kvaðst þekkja til bifreiðarinnar en ekki hafa verið eigandi hennar í raun á þessum tíma. Vitnið B, kvaðst hafa átt bifreiðina á þessum tíma en þá ekki hafa séð hana í langan tíma, kvaðst hún hafa beðið nafngreindan kunningja sinn að gera við bifreiðina, en hann hafi sagt að það tæki því ekki að gera við hana og að hann hefði látið vin sinn hafa hana. Hún kvaðst ekki þekkja ákærða.

Vitnið Birgir Straumfjörð Jóhannesson rannsóknarlögreglumaður kom að frumrannsókn málsins og lýsti henni. Vitnið Pétur Sveinsson rannsóknarlögreglu­maður kvað það hafa komið fram við rannsóknina að ákærði hefði haft viðkomandi bifreið til umráða, hafi það verið ástæða þess að hann var yfirheyrður. Hann kvaðst muna eftir yfirheyrslunni, hefði ákærði verið allsgáður og rangt væri að hann hefði verið beittur líkamlegum eða andlegum þvingunum.

 

Niðurstaða um ákærulið III.

Bifreiðin fannst strax stutt frá vettvangi, en ökumaður ekki. Einu tengsl ákærða við málið eru þau að hann hafði haft bifreiðina undir höndum, en hann var stöðvaður á henni tveimur dögum fyrir atvikið, sbr. ákærulið II. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu þá segist ákærði „einungis hafa verið að prufukeyra bifreiðina þar sem hann væri að hugleiða að kaupa hana.“ Ákærði var yfirheyrður af lögreglu tæpum hálfum mánuði eftir áreksturinn á Hverfisgötu og mundi þá ógreinilega eftir ferðum sínum, svo sem að framan er rakið. Ekki þykir framburður hans hjá lögreglu fela í sér skýlausa játningu. Tekin var mynd af ákærða þar sem hann var ekki með skilríki, sú mynd fylgir ekki málsgögnum. Hins vegar fylgir með málsgögnum ákæruliða I og II útprentun úr ökuskírteinaskrá ásamt ljósmynd, ekki kemur fram hvenær sú ljósmynd er tekin. Myndgæði eru slæm en þar er hann frekar síðhærður, virðist vera með skegg og er ljóshærður. Sjónarvottarnir hafa ekki getað lýst ökumanni R-22996 af neinni nákvæmni, utan fatnaði hans. Ekkert er fram komið um að slíkur klæðnaður tengist ákærða. Lýsing vitnanna gæti átt við ákærða eins og hann er á framangreindri mynd, utan háralitur, myndin er hins vegar líklega 10 ára gömul þar sem ákærði fékk útgefið ökuskírteini árið 1991. Með framangreindu þykir, geng neitun ákærða, ekki fram komin fullnægjandi sönnun fyrir því að hann hafi verið ökumaður bifreiðarinnar R-22996 í umrætt sinn. Skal ákærði vera sýkn af refsikröfu samkvæmt þessum ákærulið.

 

Ákæra frá 25. mars 2002.

                Í þessu máli er ákærði sakaður um að aka bifreið sviptur ökurétti hinn 11. mars 2002. Ákærði neitar sök á þeirri forsendu að Hæstiréttur hafi með dómi sínum hinn 14. mars 2002 sýknað hann af broti því sem hann hafði áður verið sakfelldur fyrir í héraði 29. október 2001 en þar var honum gert að sæta sviptingu ökuréttar í sex mánuði frá birtingu héraðsdómsins að telja. Dómurinn var birtur 5. nóvember 2001. Ákærði játar hins vegar að hafa ekið greindri bifreið á þeim tíma og stað sem í ákæru greinir.

 

Niðurstaða.

Ákærði ók sviptur ökurétti hinn 11. mars 2002, samkvæmt dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 29. október 2001, en með honum var hann sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu dómsins. Áfrýjun dómsins frestaði því ekki að ökuleyfissviptingin tæki gildi samanber 104. gr. umferðarlaga svo sem nánar er rökstutt hér að framan í niðurstöðu um IV. ákærulið ákæru frá 15. janúar 2002. Ákærði er því fundinn sekur um að hafa ekið bifreið í umrætt skipti sviptur ökurétti. Er brotið réttilega heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

 

Ákæra frá 9. apríl 2002.

                Í þessari ákæru er ákærða gefið að sök að hafa brotist inn í Úrsmíðaverslun H við Skólavörðustíg hinn 21. febrúar 2002 og stolið þar 8.000 krónum í peningum og 20 úrum að andvirði 550.000 krónur.

                Vitnið H eigandi verslunarinnar kvaðst ekki hafa verið á landinu þegar þetta innbrot var framið og hafi það verið ástæða þess að svo mikið fé var í kassa. Venjulega væru þar aðeins 1.000 til 1.500 krónur en hann hefði viljað tryggja að nægileg skiptimynt væri til staðar í fjarveru hans. Hann kvað 20 úr hafa verið tekin í umrætt sinn og staðfesti að hann hefði fengið tvö til baka. Hann taldi andvirði úranna hafa verið frá 13 þúsund til 37 þúsund krónur. Hann kvaðst hafa fengið tjón sitt bætt hjá tryggingarfélaginu og tilheyrði bótakrafa því félaginu, kvaðst hann sjálfur ekki gera neina bótakröfu.

Ákærði hefur játað þennan verknað, en telur verðmæti þýfisins hins vegar vera ofmetið. Nákvæmt mat á verðmæti því sem stolið var liggur ekki fyrir, en ekki þykir varhugavert í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið fyrir dóminum að ætla að það hafi verið nálægt 500.000 krónum. Með játningu ákærða, sem er í samræmi við rannsóknargögn, þykir sök ákærða sönnuð og er hann sakfelldur fyrir brotið, sem er rétt fært til refsiákvæðis í ákæru.

 

Skaðbótakrafa

                Í máli þessu er gerð skaðabótakrafa samkvæmt ákæru frá 9. apríl sl. Þar krefst H, kt. […], skaðabóta að fjárhæð 592.791. Kröfunni er hafnað af ákærða. Svo sem að framan greinir kveðst H hafa fengið tjón þetta bætt hjá tryggingarfélagi sínu og ekki sjálfur gera frekari kröfur. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa kröfunni frá dómi.

 

Refsiákvörðun.

                Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir tvö innbrot, líkamsmeiðingar vegna gáleysislegs aksturs, ölvunarakstur í tvígang, akstur sviptur ökurétti í sex skipti og fíkniefnabrot.

                Ákærði hefur langan sakarferil. Hann er fæddur í september árið 1966. Honum var fyrst gerð refsing árið 1983 og hafði áður en hann náði 18 ára aldri gerst sekur um ýmis auðgunarbrot, auk umferðar- og áfengislagabrota. Var hann dæmdur til átta mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar 1. október 1984 og hafði þá að baki tvo dóma og tvær sáttir og var í nóvember sama ár sakfelldur fyrir auðgunarbrot, en þá ekki gerð sérstök refsing. Brotaferill hans var síðan nokkuð samfelldur til ársloka 1990, en þá er hlé á brotaferli til ársins 1999. Það ár hlýtur hann fjóra refsidóma fyrir auðgunarbrot og fíkniefnabrot, á árinu 2000 er hann dæmdur fyrir auðgunarbrot, á árinu 2001 er honum sex sinnum gerð refsing, fimm sinnum fyrir umferðarlagabrot og síðast lögreglustjórasekt vegna fíkniefnabrots í september. Loks gengur framan­greindur Hæstaréttardómur 14. mars 2002 þar sem hann var aðeins sakfelldur fyrir smávægilegt umferðarlagabrot en sýknaður af ákæru vegna umferðarslyss. Honum hefur samtals verið gerð óskilorðsbundin fangelsisrefsing í 94 mánuði og er þar að langmestu leyti um ýmis auðgunarbrot að ræða. Að því er varðar umferðarlagabrot, sem hér hafa áhrif á ákvörðun refsingar, var hann dæmdur til greiðslu 40.000 króna sektar og sviptingar ökuréttar í fjóra mánuði hinn 16. janúar 2001 fyrir ölvunarakstur, hinn 21. maí sama ár gekkst hann undir greiðslu sektar samtals 150.000 krónur með þremur lögreglustjórasáttum vegna sviptingaraksturs, hinn 8. ágúst sama ár var hann dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar vegna sviptingaraksturs.

                Innbrot þau, sem ákærði er hér sakfelldur fyrir, voru framin 9. september 2001 og 21. febrúar 2002; umferðarslysið varð 30. júní 2001; ölvunarakstursbrotin voru framin 6. nóvember og 17. desember 2001; sviptingarakstursbrotin voru framin 6. og 11. nóvember, 17. og 30. desember 2001, 19. janúar og 11. mars 2002 og fíkniefna­brotið var framið 17. október 2001. Samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga er í öllum tilvikum um að ræða hegningarauka við dóm Hæstaréttar frá 14. mars 2002 en þar var honum ekki gerð sérstök refsing, og vegna sakfellingar fyrir líkamstjóns af gáleysi og umferðalagabrot við umferðarslys er að auki um að ræða hegningarauka við sektardóm frá 8. ágúst 2001 vegna sviptingaraksturs og lögreglustjórasátt vegna fíkniefnabrots frá 4. september 2001.

Andvirði þýfis í tveimur innbrotum er áætlað um 500.000 krónur. Við ölvunar­aksturs­brotin mældist áfengismagn í blóði 0.78‰ og 0.58‰. Sviptingarakstursbrotin eru framin á tímabilinu frá 6. nóvember 2001 til 11. mars 2002. Á þeim tíma var ákærði sviptur ökurétti samkvæmt dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 29. október 2001, en með dómi Hæstaréttar frá 14. mars 2002 var hann sýknaður af broti því sem leiddi til ökuleyfissviptingarinnar. Fíkniefnabrotið var smávægilegt.

                Við ákvörðun refsingar er litið til þess að um nokkur brot er að ræða, samanber 77. gr. almennra hegningarlaga, sakarferils ákærða, ítrekunar að því er varðar þjófnað, sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga, að hann telst brotlegur öðru sinni frá 1999 vegna ölvunaraksturs og þriðja sinni vegna sviptingaraksturs í sex skipti. Að því er varðar sviptingaraksturinn er þó einnig litið til þess að ákærði var síðar sýknaður af því broti sem til ökuleyfissviptingarinnar leiddi. Þá er litið til þess að ákærði játaði brot sín að hluta. Ennfremur að hann telst ekki einn eiga sök á umferðarslysi samkvæmt ákæru frá 15. janúar 2002.

                Þegar allt það sem hér að framan hefur verið rakið er metið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði og 250.000 króna sekt í ríkissjóð sem greiða skal innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en ella sæti hann fangelsi í 32 daga. 

Ákærði skal sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði skal sæta upptöku á 0,96 g af hassi og 2,59 g af amfetamíni.

Ákærði skal greiða þrjá fjórðu alls sakarkostnað af málinu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns. Mál þetta hefur tekið alllangan tíma sem að mestu verður rakið til ákærða sjálfs, fimm ákærur hafa verið sameinaðar á málsmeðferðartímanum og mikill fjöldi vitna verið leiddur. Þó sakarefnin séu ekki flókin hefur málið því orðið all umfangsmikið. Að þessu virtu ákvarðast málsvarnarlaun verjanda 160.000 krónur. Einn fjórði hluti sakarkostnaðar skal greiddur úr ríkissjóði.

                Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Þorsteini Skúlasyni fulltrúa lögreglu­stjórans í Reykjavík.

Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn..

D ó m s o r ð

                Ákærði, Agnar Víðir Bragason, sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákærði skal greiða 250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæta ella fangelsi í 32 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá birtingu dómsins að telja.

                Skaðabótakröfu H er vísað frá dómi.

Ákærði skal greiða sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 160.000 krónur, að þremur fjórðu hlutum, en einn fjórði hluti skal greiddur úr ríkissjóði.