Hæstiréttur íslands

Mál nr. 144/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


           

Þriðjudaginn 24. mars 2009.

Nr. 144/2009.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

X

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns

Úrskurður héraðsdóms um að matsmaður skyldi dómkvaddur var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. mars 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta nánar tilgreind atriði samkvæmt matsbeiðni hans. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað verði  matsbeiðni varnaraðila.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 13. mars 2009.

Með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara hinn 28. janúar sl. á hendur X, kennitala [...], [heimilisfang] og þremur öðrum, var ákærða X gefið að sök að hafa að kvöldi föstudagsins 7. nóvember 2008, að Y, Grímsnes- og Grafningshreppi, framið eftirfarandi brot sem ákæruvaldið kveður varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981:

 „...stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða, með því að hafa slegið A kennitala [...], hnefahögg í höfuðið svo hann féll á gólfið, og með því að hafa skömmu síðar gripið um A og ýtt honum svo hann féll á gólfið af stól sem hann sat á og síðan ítrekað sparkað í og stigið á höfuð hans og efri hluta líkama á meðan hann lá á gólfinu, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut höggáverka á höfði, andliti, hálsi, hnakka, öxlum og herðablöðum, blæðingar í hálsvöðvum og miklar blæðingar inn í höfuðkúpu, sem leiddi til þess að A lést stuttu síðar af völdum undirþrýstings í miðtaugakerfi vegna mikillar blæðingar í heilastofni ásamt dreifðra blæðinga í heila með bjúg aðallega við hægra heilahvel og blæðingar milli heilahimna.“

 Var málið þingfest 27. febrúar sl. og neituðu þá allir ákærðu sök í málinu og óskuðu jafnframt eftir að fá að skila greinargerð í því í samræmi við ákv. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málinu þá frestað í því skyni til þriðjudagsins 11. mars sl. Við fyrirtöku málsins þann dag lagði verjandi ákærða X fram matsbeiðni þar sem þess er farið á leit „að dómkvaddur verði hæfur og óvilhallur maður til þess að skoða og meta eftirfarandi atriði í tengslum við andlát A, kt. [...], er lést þann 7. nóvember sl.:

1.  1.     Hvern þátt vínandaáhrif fórnarlambsins hafi átt í umfangi áverka á honum.

2.  2.     Hvort fleiri skýringar geti verið á svo miklum og alvarlegum áverkum á heila fórnarlambsins en fram kemur í krufningarskýrslu, sérstaklega m.t.t. framburðar ákærða X um hvernig fall A á gólfið bar að.

3.  3.     Samræmi milli blóðbletta á vettvangi og áfallshorns þeirra, annars vegar og hins vegar framburðar ákærða X um hvernig fall A á gólfið bar að.“

 Um rökstuðning fyrir matsbeiðni er af hálfu ákærða vísað til þess að í niðurstöðum krufningarskýrslu segi að bein orsakatengsl séu milli heilaáverka og dauða A. Verði því að skoða betur og meta hvort önnur atvik en þar séu tilgreind hafi getað orsakað svo alvarlega áverka, sérstaklega í ljósi framburðar ákærða X um að hann hafi hent A í gólfið. Um einfalt fall úr eigin líkamshæð hafi því ekki verið að ræða heldur fall sem fylgt hafi verið eftir af miklu afli „þannig að hraðaaukningin jókst margfalt“. Er hvað það varðar vísað til orðalags í tölvubréfi Matthiasar Xavier Woisard meinafræðings til lögreglu, dags. 11. nóvember 2008, en þar ræði hann um snögga hröðun og snögga afhröðun á heilann, sem skelli þá á veggi höfuðkúpunnar. Segi meinafræðingurinn þar að yfirleitt gerist þetta eftir fall. Í krufningarskýrslunni sé hins vegar ekki að finna neina umfjöllun um framburð ákærða X m.t.t. áverkanna. Sé tilgangur matsins þess vegna að sanna að fleiri atvik geti komið til greina í þessu sambandi, önnur en hin meintu ítrekuðu spörk í höfuð hins látna.

 Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að matsbeiðni sé óþörf eins og hér hátti til. Liggi fyrir að ákæruvaldið muni leiða sem vitni þá sérfræðinga sem unnið hafi krufningarskýrslu vegna málsins og aðra helstu sérfræðinga sem komið hafi að tæknirannsóknum vegna þess. Sé þar að hluta til um að ræða sérfræðinga frá hlutlausum rannsóknarstofnunum eins og Rannsóknarstofu í meinafræði og Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði. Geti verjandi þá spurt þessa sérfræðinga þeirra spurninga sem hann óskar eftir í matsbeiðni að matsmaður svari. Þá blasi við að dómkvaðning muni tefja meðferð málsins sem brýnt sé að verði hraðað eins og kostur sé.

 Niðurstaða

Af hálfu ákærða hefur verið vísað til þess að verulegu máli skipti fyrir málsvörn hans að hæfur og óvilhallur maður skoði betur og meti, meðal annars með tilliti til framburðar hans við rannsókn málsins, þau atriði sem tilgreind eru í 1.-3. lið í matsbeiðni, þar á meðal hvort aðrar skýringar geti verið á þeim miklu áverkum á heila hins látna en þær sem fram koma í krufningarskýrslu. Sé tilgangur matsins að sanna að fleiri atvik komi til greina í þessum sambandi en hin meintu spörk í höfuð hins látna. Ljóst er að niðurstaða krufningarskýrslu kann að hafa verulega þýðingu við úrlausn máls þessa. Með það í huga, og með hliðsjón af alvarleika málsins, þykir því rétt, á grundvelli heimildar í 1. mgr. 128. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að ákærði fái að leita álits eins eða eftir atvikum tveggja sérfróðra matsmanna og afla þannig svara við þeim spurningum sem tilgreindar eru í matsbeiðni. Er því fallist á kröfu ákærða um að hin umbeðna dómkvaðning fari fram.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Fallist er á kröfu ákærða X um að hin umbeðna dómkvaðning fari fram.