Hæstiréttur íslands
Mál nr. 382/2007
Lykilorð
- Börn
- Forsjársvipting
- Meðdómsmaður
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2008. |
|
Nr. 382/2007. |
Félagsmálaráð Kópavogs(Helgi Birgisson hrl. Ólafur Helgi Árnason hdl.) gegn A (Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Börn. Forsjársvipting. Meðdómsmenn. Gjafsókn.
F krafðist þess að A yrði með dómi svipt forsjá dóttur sinnar B. B var tekin úr umsjón A 14. september 2006 á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þann 19. nóvember 2006 ritaði A undir yfirlýsingu þess efnis að hún samþykkti vistun barnsins utan heimilis í tólf mánuði, sbr. 25. gr. barnaverndarlaga. Að mati F var ekki forsenda fyrir þessu úrræði eftir 4. febrúar 2007 en þá þurfti lögregla og barnaverndaryfirvöld að hafa afskipti af A meðan hún var með barnið í umgengni. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga skuli því aðeins gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðru og vægari úrræði. Slíkt vægari úrræði sé að finna í 28. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að heimilt sé að úrskurða um vistun barns utan heimilis í allt að 12 mánuði í senn. Að mati dómsins hafi F horft fram hjá þessu ákvæði við meðferð málsins. Með fyrrgreindri yfirlýsingu 19. nóvember 2006 hafi A fallist á vistun barnsins utan heimilis í 12 mánuði en samt hafi F ekki látið þann tíma líða heldur krafist forsjársviptingar. Hafi F því ekki veitt A tækifæri að fullu og því ekki unnt að verða við kröfu hans. Kröfu F um ómerkingu héraðsdómsins á þeirri forsendu að sérfróðir meðdómsmenn hefðu ekki verið kvaddir í dóminn, sbr. 54. gr. barnaverndarlaga, var hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júlí 2007. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að stefnda verði með dómi svipt forsjá dóttur sinnar B.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er það háð mati héraðsdómara hvort kveðja skuli til sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi, þótt það skuli að jafnaði gert. Eins og leyst var úr málinu voru ekki efni til að kveðja meðdómsmenn til starfa og verður aðalkröfu áfrýjanda því hafnað.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað fyrir Hæstarétti, en um hann og gjafsóknarkostnað stefndu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Félagsmálaráð Kópavogs, greiði í ríkissjóð 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2007.
Mál þetta var þingfest 4. apríl 2007 og tekið til dóms 12. júní sl.
Stefnandi er Félagsmálaráð Kópavogs, Fannborg 2, Kópavogi en stefnda A, [...], Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði með dómi svipt forsjá dóttur sinnar, B, sem fædd er [...] 2001. Ekki er gerð krafa um málskostnað.
Stefnda krefst sýknu og málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
I.
Stefnandi kveður afskipti barnaverndaryfirvalda í Kópavogi af máli stefndu og dóttur hennar hafa hafist 1. ágúst 2002 er tilkynning hafi borist frá lækni á læknavakt sem kallaður hafi verið til á heimili stefndu. Í tilkynningunni segi að foreldrar hafi verið undir áhrifum áfengis þegar læknirinn hafi vitjað heimilisins og mikið ósamkomulag verið milli þeirra og ásakanir gengið á víxl. Stefnda hafi óskað þess að fá svefnlyf og róandi lyf en læknirinn látið henni í té lyf vegna magaverkja.
Í framhaldi af þessu hafi stefnda komið í viðtal hjá félagsráðgjafa 13. september 2002. Hún kvaðst hafa kallað á lækni vegna magaverkja en neitaði að hafa verið drukkin. Hún hafi aðeins fengið sér einn bjór en barnsfaðir hennar hafi verið búinn að fá sér nokkra bjóra.
Stefnda hafi í kjölfarið leitað til sálfræðings hjá meðferðareiningu fjölskyldudeildar. Í ódagsettri greinargerð sálfræðingsins komi fram að stefnda hafi mætt í þrjú viðtöl en svo hætt að mæta.
Á árinu 2004 hafi starfsmönnum stefnanda borist ítrekaðar tilkynningar um alvarlegar misfellur í aðbúnaði barns stefndu. Þessar tilkynningar hafi ýmist verið frá leikskóla, lögreglu, sem kvödd hafi verið á vettvang vegna heimilisófriðar, og frá öðrum aðilum sem lýst hafi áhyggjum sínum vegna ástandsins á heimilinu og aðbúnaðar barnsins. Allar þessar tilkynningar hafi verið vegna áfengisneyslu stefndu og sambýlismanns hennar.
Stefnandi kveður að ítrekað hafi verið rætt við stefndu og barnsföður hennar vegna ástandsins. Í viðtali þann 30. júní 2004 hafi barnsfaðir stefndu, C, sagst hafa fulla stjórn á neyslu sinni. Stefnda hafi aftur á móti sagt að hún hafi ekki við neinn vanda að stríða og þyrfti ekki á neinni aðstoð að halda. Dóttir hennar gæti ekki búið við betri kjör. Haft hafi verið eftir C í einu viðtali að foreldrarnir væru mjög sjaldan í neyslu saman en ef það gerðist væri dóttir þeirra hjá foreldrum hans. Hann hafi áhyggjur af neyslu stefndu, sérstaklega lyfjaneyslu hennar ofaní drykkju. Þann 28. júlí 2004 hafi félagsráðgjafi farið á heimili stefndu og rætt ofangreindar tilkynningar við hana. Stefnda hafi aftur á móti hafnað því að hún ætti við áfengis- eða lyfjavanda að etja.
Þann 29. júlí 2004 hafi starfsmaður stefnanda sent heilsugæslunni í Kópavogi bréf þar sem farið hafi verið fram á upplýsingar um andlega og líkamlega heilsu foreldra sem snert gæti hæfni þeirra sem uppeldisaðila. Jafnframt hafi verið farið fram á upplýsingar um hvort foreldrar hafi komið með barnið í þær skoðanir og sprautur sem óskað væri eftir í ungbarnaeftirliti og hvort einhverjar áhyggjur hafi komið upp vegna heilsu barnsins og þroska. Í svari læknis komi meðal annars fram að blóðprufur sem teknar hafi verið í febrúar 2003 sýni hækkun á ákveðnu lifraenzymi hjá stefndu sem styrki grunsemdir um drykkjuvandamál. Þá hafi stefnda átt við svefnvandamál að stríða og fengið svefnlyf. Einnig hafi hún á tímabili haft kvíðaröskun og jafnvel þunglyndi og fengið lyf við því. Í bréfi læknisins komi jafnframt fram að B hafi farið í allar þær skoðanir og sprautur sem ungbarnaeftirlit ætlaðist til. Að þessu leyti væri ekki annað að sjá en hugsað væri vel um telpuna.
Þann 17. september 2004 hafi borist svarbréf frá leikskólanum D vegna fyrirspurnar stefnanda um B. Telpan hafi byrjað í leikskólanum 2. september 2003 og segir meðal annars í bréfinu að hún sé til baka félagslega, eigi það til að ógna öðrum börnum, sé oft þreytt og virki stundum vansæl. Hún hafi ekki tengst neinu barni sérstaklega en leiti meira til starfsfólksins. Jafnframt segi í bréfinu að B sé snyrtileg og hrein og yfirleitt séu öll aukaföt með henni. Foreldrar hafi verið í góðri samvinnu við starfsfólk leikskólans.
Stefnda hafi komið til viðtals hjá stefnanda 20. desember 2004. Þar hafi tilkynningar um óreglu og árekstra milli hennar og C verið ræddar. Stefnda hafi kynnt sér framangreint bréf leikskóla og bréf heilsugæslunnar. Hún hafi viðurkennt að hún þyrfti að taka á sínum málum en hafi viljað benda á C sem rót vandans. Erfitt hafi reynst að ræða við stefndu um samvinnu.
Á árinu 2005 hafi áfram borist tilkynningar um misfellur í aðbúnaði B. Þann 19. apríl 2005 hafi verið tilkynnt um drykkju stefndu og C og vanrækslu á barni þeirra. Þann 12. maí 2005 hafi C mætt í viðtal og borið af sér alla vanrækslu og drykkjuskap þegar barnið væri á heimilinu.
Þann 25. nóvember 2005 hafi leikskóla B aftur verið sent bréf þar sem farið hafi verið fram á upplýsingar varðandi barnið. Í svarbréfi 14. desember 2005 segi að B sé farin að sýna mikið skap og matarlyst hafi minnkað. Hún virðist daufari og meiri einfari en áður. Hún neiti að borða, sýni mótþróa, reiði, gefi lítið af sér og virðist vera sama um allar reglur. Samskipti hennar við önnur börn séu lítil. Þá segi ennfremur í bréfinu að starfsfólki leikskólans finnist andleg líðan hennar vera í ójafnvægi. Hún kunni ekki að leika sér, dragi sig úr leikjum og sé oft reið. Hún virki lítil og létt eftir aldri. Einnig finnist starfsfólki hún orkulaus, hafi litla frásagnargleði og taki lítið frumkvæði. Hún sé ekki brosmild og starfsfólkið upplifi hana sem dapra litla stúlku. Þá komi jafnframt fram í bréfi leikskólans að illa hafi gengið að fá foreldra til að mæta í foreldraviðtal. Deildarstjóri hafi hringt í stefndu til að minna á fund en stefnda ekki munað eftir símtalinu daginn eftir.
Þann 29. nóvember 2005 hafi verið haldinn fundur með foreldrum, starfsmönnum stefnanda, sálfræðingi og leikskólastjóra. Ákveðið hafi verið að E, sálfræðingur, legði þroskapróf fyrir telpuna. E hafi skilað skýrslu 9. janúar 2006 og komi þar meðal annars fram að vitsmunaþroski telpunnar sé aldurssvarandi og hún hafi marga góða styrkleika en mælt hafi verið með áframhaldandi vinnu með hegðun og líðan telpunnar, heima og í leikskóla. Ákveðið hafi verið að tilsjónarmaður kæmi inn á heimilið til stuðnings fjölskyldunni. Af því hafi þó aldrei orðið þar sem stefnda hafi hafnað því þegar til hafi átt að taka.
Þann 6. febrúar 2006 hafi verið óskað eftir könnunarviðtali í Barnahúsi vegna vanlíðunar barnsins. Í skýrslu Barnahúss 21. mars 2006 komi fram að ekkert athugavert hafi komið í ljós í viðtali við stúlkuna.
Bréf hafi borist frá leikskóla til stefnanda um að starfsmenn hafi grun um að stefnda hafi komið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna með dóttur sína á leikskólann 20. og 21. mars 2006. Hún hafi verið utan við sig og sljó og svarað samhengislaust spurningum starfsfólks. Þann 14. mars 2006 hafi borist tilkynning frá F, lækni, þar sem meðal annars komi fram að hann hafi þungar áhyggjur af velferð barnsins og þeim aðstæðum sem það búi við heima hjá sér. Hafi F talað við stefndu daginn áður og fundist hún ekki í góðu ásigkomulagi.
Á fundi 8. júní 2006 með sérkennslustjóra, aðilum frá leikskóla og stefndu hafi komið fram að mun betur gengi nú með telpuna. Stefnda hafi upplýst að hún væri ekki lengur í neinu sambandi við C. Viku síðar hafi báðir foreldrar mætt í viðtal hjá stefnanda og að sögn þeirra gengi allt vel. C hafi sagst mæta á AA fundi eftir að hafa fallið nokkrum dögum fyrr. Þann 13. september 2006 hafi stefnda komið í viðtal og sagt að allt gengi vel hjá sér og að starfsmenn stefnanda ættu að snúa sér að eftirliti með öðrum börnum. Stefnda hafi upplýst að hún og C væru ekki lengur saman en hann fengi að umgangast B aðra hverja viku. Stefnda hafi reiðst eftir því sem liðið hafi á viðtalið og hafi því lokið með því að hún hafi rokið á dyr.
Þann 14. september 2006 hafi verið hringt frá leikskólanum í starfsmann stefnanda þar sem B hafi komið hjólandi í leikskólann og sagt að foreldrar sínir væru sofandi heima. Hún hafi klætt sig sjálf, sett á sig hjálm og hjólað í leikskólann. Hún hafi verið svöng er hún hafi komið í leikskólann. Starfsfólk skólans hafi hringt heim til telpunnar í kjölfarið og hafi stefnda verið lengi að svara í símann. Stefnda hafi sagt að hún hafi horft á eftir B hjóla og fylgst með henni þannig á leið í leikskólann.
Síðar þennan sama dag hafi tveir starfsmenn stefnanda ásamt lögreglu farið á heimili stefndu. Rætt hafi verið við nágranna sem hafi lýst áhyggjum sínum á aðstæðum B, drykkju foreldra og heimilisófriði. Nágrannarnir hafi sagt að um langvarandi ástand væri að ræða. Nokkru eftir að starfsmenn hafi komið á vettvang hafi C opnað fyrir þeim. Honum hafi verið greint frá því að lögreglu hafi verið tilkynnt um læti í íbúðinni nóttina áður og að dóttir þeirra hafi komið ein á hjóli í leikskóla. Stefnda og C hafi brugðist þannig við að þau hafi öskrað að starfsmönnum stefnanda og lögreglu og sífellt ítrekað að ekkert væri athugavert á heimili þeirra. Skyndilega hafi C rokið á dyr en starfsmenn stefnanda hafi rætt við stefndu um að dóttir hennar yrði vistuð tímabundið á meðan á könnun málsins stæði. Stefnda hafi hafnað því. Í ljósi alvarleika málsins og skorts foreldra á samvinnu hafi stefnandi tekið þá ákvörðun að taka barnið þegar úr umsjón foreldra og vista utan heimilis til 29. september á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Stefnandi hafi staðfest þessa ákvörðun með úrskurði 26. sama mánaðar.
Þann 20. september 2006 hafi C mætt í viðtal hjá starfsmönnum stefnanda. Þar hafi hann lýst alvarlegri misnotkun stefndu á áfengi og lyfjum og sagt að hún þyrfti langa meðferð. Fram hafi komið í máli C að hann og stefnda hafi búið saman meira og minna í gegnum árin en á þessum tíma hafi þau skipst á að sjá um telpuna viku í senn. Þá hafi C viðurkennt að eiga við áfengisvanda að stríða. Hann hafi gefið samþykki sitt fyrir því að vista B hjá hjónunum G og H næstu tvo mánuði en H sé systir stefndu. Stefnda hafi mætt til viðtals 21. september 2006. Aðspurð hafi hún sagt að hún ætti ekki við vímuefnavanda að stríða. Hún hafi farið í meðferð fyrir nokkrum árum en ekki fundist hún eiga erindi þar. Þá hafi hún ítrekað þá skoðun sína að ekkert væri athugavert við heimilisaðstæður hennar. Þær uppákomur sem hefðu orðið á heimili hennar væru tengdar drykkju C. Þá hafi stefnda sagst vera að byrja í nýrri vinnu en neitað að upplýsa hver sú vinna væri. Stefnda hafi í þessu viðtali hafnað því að dóttir hennar yrði vistuð utan heimilis í tvo mánuði til þess að hún gæti tekið á vímuefnavanda sínum. Á fundi 26. september 2006 hafi stefnda lýst samþykki sínu um tveggja mánaða vistun B hjá systur stefndu og manni hennar. Þá hafi stefnda samþykkt meðferðaráætlun þar sem meðal annars hafi verið kveðið á um að hún færi í meðferð vegna lyfja- og áfengisneyslu sinnar.
Stefnda hafi farið í Hlaðgerðarkot 3. október 2006. Árangur hafi verið lítill í meðferðinni og hafi ráðgjöfum á Hlaðgerðarkoti sýnst að stefnda afneitaði vanda sínum. Hún hafi ekki talið sig eiga við áfengisvanda að stríða en kennt öðrum um. Frá Hlaðgerðarkoti hafi stefnda farið á áfangaheimilið Brú í byrjun janúar. Til að byrja með hafi hún ekki tekið þátt í meðferð og komið í ljós að hún hafi dvalið á heimili móður sinnar. Þegar henni hafi verið greint frá því að hún myndi missa plássið á Brú hafi hún tekið þátt í meðferðardagskrá.
Mál stefndu og dóttur hennar hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi 21. nóvember 2006. Í ljósi langvarandi vanda stefndu og að hún hafi ekki verið í samvinnu um að tryggja öryggi og viðunandi uppeldisaðstæður dóttur sinnar hafi starfsmaður stefnanda lagt til að hún afsalaði sér forsjá. Ella yrði höfðað mál í héraðsdómi til forsjársviptingar. Þá hafi enn fremur verið lagt til að B yrði vistuð utan heimilis í 12 mánuði og áfram unnið með C í að styrkja hann í áfengisbindindi sínu með það markmið að hann tæki við forsjá telpunnar. C hafi fallist á þetta með yfirlýsingu 17. nóvember 2006. Stefnda hafi einnig fallist á með yfirlýsingu 19. nóvember 2006 að barnið yrði vistað í 12 mánuði utan heimilis. Í ljósi þessa hafi stefnandi fundið barninu tímabundið fósturheimili.
Stefnandi kveður stefndu hafa dvalið með B annan hvern sunnudag milli kl. 10:00 og 20:00 á meðan hún hafi dvalið á Brú. Sunnudaginn 4. febrúar 2007 hafi stefnda sótt B til fósturforeldra í umgengni og hafi verið ákveðið að hún kæmi með telpuna í fjölskylduafmæli kl. 15:00 þennan dag. Nokkru síðar hafi stefnda hringt og sagst myndi koma með B í afmælið kl. 17:00. Grunsemdir hafi vaknað um að stefnda væri undir áhrifum áfengis og hafi starfsmenn bakvaktar á áfangaheimilinu Brú ásamt lögregluþjóni farið á vettvang. Í lögregluskýrslu segir að greinilegt hafi verið að stefnda hafi verið undir áhrifum áfengis og jafnvel lyfja. Stefnda hafi veist ítrekað að lögreglu að dóttur ásjáandi og hafi þurft að kalla á liðsauka. Að endingu hafi hún verið handtekin og vistuð í fangaklefa. Lögreglan hafi tekið af henni öndunarpróf og hafi áfengismagn mælst 2,50 . Þá hafi stefnandi fengið upplýsingar um að C hafi einnig verið í neyslu sömu helgi og dagana á eftir. Eftir þessa uppákomu hafi stefnda þurft að skila plássi sínu á Brú og því orðið húsnæðislaus því að hún hafi verið búin að leigja út íbúð sína við [...] í Kópavogi. Telur stefnandi að hún hafi flutt inn á C þar sem hann hafi búið á heimili foreldra sinna.
Stefnandi kveður foreldra hafa með þessu vanefnt það samkomulag sem gert hafi verið í nóvember sem snúi að samvinnu þeirra í málinu og að þeir skyldu taka á drykkjuvanda sína til þess að geta tryggt barninu viðunandi uppeldisskilyrði. Þar sem ekki hafi verið forsendur fyrir því að vinna málið áfram samkvæmt fyrirliggjandi meðferðaráætlun hafi stefnandi ákveðið samkvæmt 27. gr. barnaverndarlaga að kyrrsetja barnið næstu tvo mánuði og undirbúa mál fyrir héraðsdómi um forsjársviptingu.
II.
Stefnda kveðst ekki hafa haft aðstöðu til að annast barnið á undanförnu ári sökum óreglu og meðvirkni. Hún kveðst sjálfviljug hafa farið í áfengismeðferð á Hlaðgerðarkoti 30. október 2006 og verið í meðferð til 7. janúar 2007. Tilgangurinn hafi verið að takast á við áfengisvanda sinn sem hún hafi glímt við undanfarin ár og því miður oft þurft að láta í minni pokann fyrir. Hún kveðst telja að hún sé frekar meðvirk heldur en að hún sé alkóhólisti og kveðst muni sækja Al-anon fundi í framtíðinni. Takist henni að vera án vímu sé hún þess fullviss að hún geti skapað sér og dóttur sinni gott og hamingjuríkt líf sem hún þrái fyrir þær mæðgur. Hún eigi íbúð í Kópavogi sem sé í útleigu en losni í haust. Hún stundi nú reglulega fundi á vegum AA samtakanna einu sinni í viku. Hún gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi fundarsóknar.
Stefnda kveðst ekki ósátt við aðbúnað barnsins á núverandi fósturheimili og telur að betra heimili verði vart fundið.
III.
Fyrir dóminn kom I, félagsráðgjafi hjá stefnanda. Hún kvaðst hafa unnið að þessu máli í um það bil eitt ár. Hún hafi oft hitt foreldrana og jafnframt komið á heimili þeirra. Hafi hún horft upp á mikla vanlíðan hjá stúlkunni. Henni hafi virst vera mikil óregla á heimili stefndu. Móðir hafi virst vera samvinnufús og reynt að fara eftir því sem félagsmálayfirvöld hafi lagt til. Loforð hennar hafi þó ekki alltaf haldið. Félagsmálayfirvöldum hafi borist tilkynningar um drykkju stefndu eftir að hún lauk meðferð í janúar sl.
J, forstöðumaður hjá stefnanda, sagði að undirmenn sínir hafi séð um daglega meðferð málsins. Hún hafi þó komið að þeirri ákvörðun að krefjast skyldi forsjársviptingar. Það hafi verið mat stefnanda að stefnda væri í afneitun og hefði ekki innsæi í sjúkdóm sinn. Hún hafi ekki staðið við meðferðarsamning sem gerður hafi verið við hana, hætt sjálf í meðferð og neytt áfengis. Hún hafi verið undir áhrifum áfengis er hún hafi haft barnið í umgengni. Ljóst sé að stúlkan hafi sýnt miklar framfarir er hún hafi komist í öruggt skjól. Aðspurð um af hverju stefnandi gerði ekki vægari kröfur í málinu, með því að krefjast þess að barnið væri vistað utan heimilis til eins árs til að byrja með, svaraði J því til að skammtímavistun væri ekki heppileg fyrir svona ung börn. Svona ung börn þyrftu að fá langvarandi öryggi til þess að geta liðið vel.
Stefnda sagði fyrir dómi að hún ætti vissulega við vanda að stríða þó að hún teldi sjálf að fyrrverandi sambýlismaður hennar hafi átt stóran þátt í vanda hennar. Þau hafi nú skilið að skiptum og telji hún nú að hún geti haldið sig frá áfengi. Hún kvaðst eiga íbúð sem hún hafi leigt út en íbúðin verði laus í haust. Hún búi núna hjá móður sinni og hafi leigt út íbúðina til þess að taka á fjárhagsvanda sínum. A kvaðst ekki hafa verið á vinnumarkaði undanfarin ár og þegið örorkubætur.
Þá komu einnig fyrir dóminn þeir feðgar K og G. G er eiginmaður systur stefndu. Var B vistuð hjá G í nóvember 2006 en K sonur hans og eiginkona K tóku við fósturhlutverkinu 10. janúar 2007 og dvelur barnið nú hjá þeim. Lýstu þeir líðan barnsins er það kom fyrst í fóstur og hvernig framfarir hafi orðið. G kvaðst hafa annast fjármál fyrir stefndu. Sagði hann að hún hafi ætíð verið passasöm í fjármálum og hafi hún leigt út íbúðina til eins árs til þess að losa sig undan skuldum. Núna séu fjármál hennar í góðu lagi.
IV.
Stefnandi kveðst byggja málssókn sína á 1. og 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem lögfest sé sú meginregla að foreldrum beri að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Í 28. gr. laganna sé fjallað um inntak forsjár þar sem mælt sé fyrir um skyldu foreldra að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best henti hag þess og þörfum. Beri foreldrum að vernda barn sitt gegn hvers konar vanvirðandi háttsemi. Barnaverndaryfirvöldum sé falið það verkefni að tryggja að börn sem búi við óviðunandi aðstæður fái nauðsynlega aðstoð. B hafi búið með móður sinni en jafnframt hafi faðir verið mikið inni á heimili þeirra. B hafi þurft að búa við mikið óöryggi og vanrækslu vegna drykkju foreldra og lyfjamisnotkunar móður. Ítrekað hafi hún orðið vitni að átökum milli foreldra sinna er þau hafi verið drukkin. Því til staðfestingar sé fjöldi tilkynninga og sé barnið farið að sýna merki vanrækslu og vanlíðunar.
E, sálfræðingur, hafi lagt sálfræðipróf fyrir stúlkuna í nóvember og desember 2005. Í skýrslu hennar segi meðal annars að B hafi verið á varðbergi gagnvart spjalli og spurningum. Hún hafi gefið greinargóð svör um lífið á leikskólanum en verið fámál og forðast að svara spurningum um lífið heima og sagt að sér fyndist skemmtilegast að sofa. Samkvæmt spurningarlista yfir atferli barna hafi greinst hlédrægni, líkamlegar kvartanir og tilfinningaleg viðkvæmni hjá B, meira en gengur og gerist meðal jafnaldra. E hafi framkvæmt endurmat á hegðun og líðan telpunnar eftir að hún hafi verið í fóstri í fimm mánuði. Hafi hegðun hennar þá breyst mikið til batnaðar og hún sé almennt glöð og kát og skeri sig ekki lengur úr meðal jafnaldra.
Samkvæmt umsögn L sálfræðings 19. mars 2007 hafi B myndað góð tengsl við fósturforeldra.
Samkvæmt bréfi Hlaðgerðarkots 12. febrúar 2007 hafi stefnda verið í afneitun á áfengisvanda sínum í þá þrjá mánuði sem hún hafi dvalið þar og séu batahorfur því ekki góðar.
Miðað við aðstæður í þessu máli og þau atriði sem rakin hafi verið hér að framan telur stefnandi sýnt fram á að stefnda sé ekki fær um að veita dóttur sinni það öryggi og þá umönnun sem hún hafi þörf fyrir. Telur stefnandi að daglegri umönnun og uppeldi hjá stefndu sé alvarlega ábótavant. Fullvíst megi telja að á heimili stefndu séu líkamlegri og andlegri heilsu B og þroska hætta búin sökum vanhæfis stefndu til að fara með forsjá vegna vímuefnaneyslu. Þannig eru að mati stefnanda uppfyllt skilyrði a og d liða 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta stefndu forsjá. Starfsmenn stefnanda hafi reynt að vanda til meðferðar og könnunar þessa máls eins og kostur sé. Mikil vinna hafi verið lögð í að aðstoða foreldra og leiðbeina en án árangurs. Af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að líðan B hafi stórlega batnað og telur stefnandi einsýnt að henni verði best tryggð viðunandi uppeldisskilyrði með áframhaldandi veru hjá fósturforeldrum.
Stefnandi byggir kröfu sína á ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002 og vísar hann sérstaklega til 1., 2. og 4. gr. laganna og ákvæða 3., 6. og 8. kafla laganna. Forsjárkrafan grundvallist á a og d liðum 29. gr. laganna. Um málsmeðferð er byggt á ákvæðum 10. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 og ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 eftir því sem við á.
Stefnda hafnar því með öllu að hún verði svipt forsjá dóttur sinnar. Forsjársvipting sé alvarlegt inngrip og verði slík krafa ekki tekin til greina nema ríkar ástæður búi þar á baki.
Náin tengsl séu milli stefndu og barnsins. Stefnda telur sig góðan uppalanda sem geti búið barninu gott heimili. Stefnda neitar því ekki að hún hafi átt við áfengisvanda að stríða en hún hafi hins vegar tekið sig verulega á og haldið sig frá áfengi undanfarnar vikur. Hún búi nú hjá móður sinni í einbýlishúsi í Reykjavík þar sem aðstæður séu góðar. Hún hyggist flytja aftur í eigin íbúð í Kópavogi í haust með barnið þar sem það hafi áður átt heima. Hún telur sig geta veitt barninu ástúð og öryggi og festu í uppeldi. Allar ytri aðstæður stefndu séu góðar, sérstaklega ef henni tekst að halda sig frá áfengi.
Neikvæð hegðun barnsins á leikskóla sé að mati stefndu ekki vegna lélegrar umönnunar heldur geti verið fjölmargar skýringar á því. Þau sérfræðigögn sem liggi frammi í málinu séu ekki hlutlaus enda séu umræddir sérfræðingar starfsmenn stefnanda.
Um lagarök vísar stefnda til meginreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum til 2. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 og jafnframt til 6. kafla sömu laga. Einnig er vísað til barnalaga nr. 76/2002. Til grundvallar kröfu stefndu um málskostnað úr hendi stefnanda vísar stefnda til 21. kafla laga nr. 91/1991.
V.
Við aðalmeðferð lagði lögmaður stefnanda fram bókun þar sem segir að hann geri alvarlegar athugasemdir við þá ákvörðun dómarans að kveðja ekki til sérfróða meðdómsmenn til setu í málinu þrátt fyrir ákvæði 54. gr. barnalaga nr. 80/2002. Dómari tekur fram af þessu tilefni að hann hafi ekki séð ástæðu til þess að láta sérfróða meðdómsmenn taka sæti í dómi eins og kröfugerð stefnanda er háttað í málinu, sbr. það sem hér á eftir greinir.
Eins og framan er rakið var barnið B tekið úr umsjón stefndu 14. september 2006 á grundvelli 31. gr. barnalaga. Í framhaldi af því samþykkti stefnda vistun barnsins hjá systur sinni og eiginmanni hennar meðan stefnda fór í áfengismeðferð. Þann 19. nóvember 2006 ritaði stefnda undir yfirlýsingu þess efnis að hún samþykkti vistun barnsins utan heimilis í tólf mánuði, sbr. 25. gr. barnalaga. Að mati stefnanda var ekki forsenda fyrir þessu úrræði eftir 4. febrúar 2007 en þá þurfti lögregla og barnaverndaryfirvöld að hafa afskipti af stefndu meðan hún var með barnið í umgengni. Var barnið kyrrsett 12. mars 2007 í tvo mánuði eftir ákvæðum a liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Hefur barnið dvalið hjá systursyni stefndu og eiginkonu hans frá 10. janúar 2007 í sátt við stefndu og hefur tekið miklum framförum að sögn þeirra sem hafa komið að málinu.
Af gögnum málsins má ráða að stefnda hafi verið samvinnufús í samskiptum sínum við stefnanda en efndir skort af hennar hálfu. Afskipti stefnanda af stefndu hafa staðið í nokkur ár. Stefnda hefur farið í áfengismeðferð án þess að það hafi borið tilætlaðan árangur. Heimilisaðstæður og aðbúnaður dóttur hennar hafa oft verið óviðunandi. Vistun barnsins í skemmri tíma hefur ekki orðið til þess að stefnda hafi náð áttum. Af meðferðarsögu stefndu og skýrslu hennar hér fyrir dómi má ráða að hún afneiti enn vanda sínum og hafi lítið innsæi í sjúkdóm sinn. Hún er því ekki enn í stakk búin til að sjá barni sínu fyrir sómasamlegu heimili og uppeldi.
Í þinghaldi 22. maí sl. leitaði dómari sátta í málinu og lagði til við lögmann stefnanda að vægari úrræðum yrði beitt og stefndu gefið enn eitt tækifæri áður en til forsjársviptingar kæmi. Féllst stefnda á þessa tillögu dómara um að barnið yrði vistað áfram utan heimilis í eitt ár en að hálfu stefnanda var því alfarið hafnað og sagt að aðeins forsjársvipting til 18 ára aldur barnsins kæmi til greina. Í framburði J, félagsráðgjafa, en hún annaðist ákvörðunartöku af hálfu stefnanda í málinu, kom fram að hún telur skammtímavistun ekki heppilega fyrir ung börn því þau þurfi öryggi til lengri tíma. Því sé krafist forsjársviptingar en ekki vistunar barns utan heimilis í tólf mánuði eins og ákvæði 28. gr. barnarverndarlaga heimili.
Krafa stefnanda er reist á a og d lið 1. mgr. 29. gr. barnalaga og þeim rökum að stefnda sé ekki hæf til að fara með forsjá dóttur sinnar. Í 29. gr. segir að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðru og vægara úrræði til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Slíkt vægara úrræði er að finna í 28. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að heimilt sé að úrskurða um vistun barns utan heimilis í allt að 12 mánuði í senn.
Að mati dómsins hefur stefnandi horft fram hjá þessu ákvæði við meðferð málsins. Með yfirlýsingu 9. nóvember 2006 féllst stefnda á vistun barnsins utan heimilis í 12 mánuði en samt lét stefnandi þann tíma ekki líða heldur krafðist forsjársviptingar 4. apríl 2007. Undir rekstri málsins hefur stefnda enn fremur lýst sig fúsa til að samþykkja vistun barnsins utan heimilis í tólf mánuði. Stefnandi á auk þess kost á að krefjast slíkrar vistunar að nýju að ári liðnu ef hann telur þörf á. Með ákvæði 28. gr. barnaverndarlaga er foreldri í raun gefið tækifæri til að láta af óreglu og ná tökum á lífi sínu áður en kemur til varanlegrar forsjársviptingar. Stefnandi hefur aftur á móti ekki veitt stefndu þetta tækifæri að fullu en þekkt er að oft dugar ein áfengismeðferð ekki til þess að áfengissjúklingur nái bata.
Að framangreindri ástæðu þykir ekki unnt að verða við kröfum stefnanda í málinu og verður stefnda því sýknuð að kröfum stefnanda.
Stefnda hefur gjafsókn í málinu. Málflutningsþóknun lögmanns hennar ákveðst 350.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun að fjárhæð 85.750 krónur eða samtals 435.750 krónur. Samkvæmt 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða sömu fjárhæð í málskostnað til ríkissjóðs.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefnda, A, er sýkn af kröfum stefnanda, félagsmálaráðs Kópavogs, í málinu.
Stefnandi greiði 435.750 krónur í ríkissjóð.
Málskostnaður stefndu, 435.750 krónur, greiðist úr ríkissjóði.