Hæstiréttur íslands

Mál nr. 763/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Skýrslugjöf
  • Þinghald


                                     

Föstudaginn 6. desember 2013.

Nr. 763/2013.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(enginn)

Y

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Z

(enginn)

Þ og

(enginn)

Æ

(Ingi Freyr Ágústsson hdl.)

(Björn Jóhannesson hrl. réttargæslumaður)

Kærumál. Vitni. Skýrslugjöf. Þinghald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að sakborningunum X o.fl. skyldi gert að víkja úr þinghaldi á meðan brotaþoli gæfi skýrslu í málinu.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðilarnir Y og Æ skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2013, þar sem fallist var á kröfu brotaþolans A um að varnaraðilum skuli vikið úr dómsal þegar hann gefur skýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti en fyrrgreindur brotaþoli krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2013.

Einn brotaþola í málinu hefur krafist þess að ákærðu verðið vikið úr dómsal meðan hann gefur skýrslu. Telur hann að sér væri það mjög þungbært að gefa skýrslu að ákærðu viðstöddum og vísar til ákæru máli sínu til stuðnings. Einnig hefur hann lagt fram vottorð sálfræðings sem hann hefur leitað til vegna andlegrar vanlíðunar sem hann rekur til ákæruefnisins. Hann kvaðst hafa fengið áfallahjálp í kjölfar þess sem um getur í II. kafla ákæru. Í vottorði sálfræðings kemur fram að brotaþoli hafi upplifað talsverða vanlíðan sem birtist í kvíða, depurð og angist. Þá sæki minningar um atburðinn á hann og komi honum í uppnám og aukist þetta eftir því sem nær dregur aðalmeðferð.

Verjendur þriggja ákærðu hafa mótmælt þessu og krefjast þess að ákærðu fái að vera viðstaddir alla aðalmeðferð málsins eins og þeir eigi rétt á.

Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari, að kröfu ákæranda eða vitnis, ákveðið að ákærða verði vikið úr dómsal meðan vitnið gefur skýrslu, telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Samkvæmt ákærunni er ákærðu gefið að sök að hafa svipt brotaþola frelsi, beitt hann ólögmætri nauðung og staðið að sérstaklega hættulegri líkamsárás á hann. Þá hefur verið lagt fram vottorð sálfræðings sem reifað var hér að framan. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði framangreindrar lagagreinar og verður því orðið við kröfunni eins og í úrskurðarorði greinir. Þess verður gætt við aðalmeðferð að ákærðu geti fylgst með skýrslutökunni af brotaþola um leið og hún fer fram og spurningar verði lagðar fyrir hann eftir því sem þeim þyki tilefni til.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð

Ákærðu, X, Y, Z, Þ og Æ, skal vikið úr dómsal þegar vitnið A gefur skýrslu.