Hæstiréttur íslands

Mál nr. 135/2000


Lykilorð

  • Hjón
  • Skilnaðarsamningur
  • Meðlag
  • Börn
  • Fjárslit milli hjóna
  • Brostnar forsendur
  • Tómlæti
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. nóvember 2000.

Nr. 135/2000.

Ólafur Arnbjörnsson

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Bergþóru Bertu Guðjónsdóttur

(Sigurður Georgsson hrl.)

og gagnsök

                                                   

Hjón. Skilnaðarsamningur. Meðlag. Börn. Fjárslit milli hjóna. Brostnar forsendur. Tómlæti. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

 

Ó og B fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng 23. apríl 1993. Samkvæmt samningi þeirra um skilnaðarkjör fékk B forsjá tveggja sona þeirra og átti Ó að greiða einfalt meðlag frá 1. apríl 1993 til 18 ára aldurs þeirra. Gerðu B og Ó með sér skriflegt samkomulag, sem ekki var lagt fyrir sýslumann, um að B leysti til sín tilteknar eignir við fjárslit þeirra og að meðlag Ó gengi upp í kaupverðið. Taldist meðlagið að fullu greitt með þeim hætti og B skuldbatt sig til að innheimta ekki meðlag fyrir milligöngu opinberra aðila. Í kjölfar fjárhagserfiðleika leitaði B til Tryggingastofnunar ríkisins í lok árs 1997 um að fá greitt meðlag úr hendi Ó og fékk frá byrjun árs 1998. Ó höfðaði mál til viðurkenningar á því að hann hefði í samræmi við nefndan samning þegar greitt meðlag að fullu. Til vara krafðist hann viðurkenningar á að B hefði með samningnum tekið yfir framfærsluskyldu hans með sonunum. Til þrautavara krafðist Ó ógildingar á skilnaðarsamningum og endurgreiðslu frá B samkvæmt helmingaskiptareglunni. B höfðaði gagnsök og krafði Ó um greiðslu meðlags frá 1. apríl 1993 til 1. janúar 1998. Var kröfum beggja hafnað í héraðsdómi, en fallist var á kröfu B um lögskilnað. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm að því er kröfu B varðaði. Hún var talin hafa glatað kröfu til meðlags frá 1. apríl 1993 fyrir tómlæti með því að hafa allt til ársloka 1997 hagað gerðum sínum eins og samkomulag um eingreiðslu meðlags væri bindandi fyrir báða aðila. Fyrir Hæstarétti féll Ó frá aðalkröfu og varakröfu fyrir héraðsdómi og hélt aðeins til streitu þrautavarakröfu um ógildingu samninga aðilanna um skilnaðarkjör frá héraðsdómi. Hæstiréttur vísaði henni frá vegna misræmis í rökstuðningi fyrir kröfugerð Ó.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 20. janúar 2000, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. mars sama árs. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994, áfrýjaði hann á ný 31. mars 2000. Hann krefst þess að skilnaðarsamningur aðilanna og samkomulag frá apríl 1993 verði fellt úr gildi og gagnáfrýjanda gert að greiða sér 1.305.935 krónur ásamt meðalvöxtum óverðtryggðra útlána samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 1. febrúar 1998 til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 18. júlí 2000. Hún krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.224.636 krónur ásamt meðalvöxtum óverðtryggðra útlána samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands af nánar tilteknum fjárhæðum frá 1. janúar 1994 til 24. mars 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.224.636 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Gagnáfrýjandi krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gengu aðilarnir í hjúskap 1978 og eignuðust tvo syni, annan fæddan 1983 og hinn 1985. Gagnáfrýjandi mun á árinu 1989 hafa byrjað að reka sem einkafirma sitt líkamsræktarstöð í Njarðvík með heitinu Æfingastúdíó. Frá árinu 1990 mun aðaláfrýjandi jafnframt hafa starfað þar uns aðilarnir slitu samvistum á árinu 1992. Sýslumaðurinn í Keflavík veitti þeim leyfi til skilnaðar að borði og sæng 23. apríl 1993. Sagði meðal annars í leyfisbréfi sýslumanns að samkomulag væri um fjárskipti aðilanna samkvæmt samningi 19. apríl 1993, svo og að gagnáfrýjandi færi með forsjá sona þeirra, sem aðaláfrýjandi skyldi greiða einfalt meðlag með frá 1. sama mánaðar til fullnaðs 18 ára aldurs.

Í samningnum, sem vísað var til í leyfisbréfinu, var meðal annars mælt fyrir á sama hátt og áður greinir um forsjá sona aðilanna og greiðslu meðlags, en einnig um umgengni sonanna við aðaláfrýjanda. Varðandi fjárslit milli aðilanna var þar ákveðið að gagnáfrýjandi fengi í sinn hlut íbúð að Brekkustíg 35c í Njarðvík, en tæki jafnframt að sér nánar tilgreindar áhvílandi veðskuldir að fjárhæð alls 5.451.549,90 krónur. Átti gagnáfrýjandi einnig að fá í sinn hlut áðurnefnt einkafirma ásamt öllu, sem tilheyrði rekstrinum, en þess var getið að firmað væri „nokkuð skuldsett“. Aðaláfrýjandi átti hins vegar að fá við fjárslitin 1/8 hluta sumarbústaðar í landi Þórsstaða í Grímsnesi. Aðilarnir áttu hvort um sig að bera þær fjárskuldbindingar, sem þau stofnuðu til eftir 1. ágúst 1992, og greiða opinber gjöld af tekjum sínum á árinu 1993.

Samhliða þessum samningi gerðu aðilarnir skriflegt samkomulag, þar sem fram kom að þau hefðu samið um að gagnáfrýjandi keypti af aðaláfrýjanda „eignarhluta“ hans í fasteigninni að Brekkustíg 35c og firmanu Æfingastúdíó með öllu, sem því tilheyrði. Væri samkomulag um að meðlag aðaláfrýjanda með sonum þeirra allt til 18 ára aldurs gengi upp í kaupverðið, sem teldist þar með greitt að fullu. Lýsti gagnáfrýjandi sig skuldbundna til að innheimta ekki meðlag með sonunum fyrir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins og Innheimtustofnunar sveitarfélaga, enda teldist það greitt með því að hún hefði umræddar eignir til fullrar ráðstöfunar frá undirritun samkomulagsins að telja. Í niðurlagi þess sagði síðan eftirfarandi: „Samkomulag þetta undirritum við að vel íhuguðu máli. Hvorugt okkar telur ástæðu til þess að frekara mat fari fram á þeim verðmætum sem við hér erum að ráðstafa og grundvallast sú ákvörðun á þeirri afstöðu undirritaðs Ólafs, að þótt verðmæti fyrirtækisins Æfingastudío, tækja og búnaðar o.fl. ásamt eignarhluta í fasteigninni sé meira en sem nemur verðmæti framreiknaðs meðlags með drengjunum til 18 ára aldurs þá hafi það ekki áhrif til breytinga á þeim vilja mínum, Ólafs, að eignauppgjör okkar hjónanna vegna skilnaðarins fari fram með þessum hætti ...“. Óumdeilt er að þetta samkomulag var ekki lagt fyrir sýslumann þegar aðilarnir leituðu skilnaðar að borði og sæng.

Fram er komið í málinu að við gerð þeirra samninga, sem hér var getið, lá fyrir mat Eignamiðlunar Suðurnesja frá 22. mars 1993 á íbúðinni að Brekkustíg 35c, en þar var söluverð hennar talið nema 8.700.000 krónum. Einnig hefur verið lagt fram í málinu handrituð samantekt frá aðaláfrýjanda um verðmæti líkamsræktarstöðvarinnar, sem var sundurliðað og talið alls 9.200.000 krónur, en ekki var þar vikið að skuldum vegna rekstrarins. Aðaláfrýjandi kveður þessa samantekt hafa verið gerða undir samræðum aðilanna þegar þau lögðu drög að skilnaði. Gagnáfrýjandi hefur hins vegar ekki kannast við að hafa átt hlut að gerð þessarar samantektar, en segir að aðilarnir hafi á þessum tíma talið að söluverð líkamsræktarstöðvarinnar gæti verið um sjö til átta milljón krónur. Þá hefur verið lagt fram í málinu yfirlit um fjárhæð meðlags með sonum aðilanna frá og með apríl 1993 og þar til þeir hafa hvor um sig náð 18 ára aldri, en hún sé í heild 2.554.981 króna. Því er ekki haldið fram í málinu að þetta yfirlit hafi legið fyrir við samningsgerð aðilanna, en þau eru sammála um að áþekkar upplýsingar hafi verið fyrir hendi á þeim tíma.

Eftir hjónaskilnað aðilanna mun aðaláfrýjandi hafa dvalist erlendis við störf allt til ársins 1997. Á því tímabili kveðst gagnáfrýjandi hafa haldið áfram rekstri líkamsræktarstöðvarinnar, en illa hafi gengið. Samkvæmt skattframtali gagnáfrýjanda 1994 var halli á rekstrinum á árinu 1993 1.006.973 krónur. Þá voru eignir vegna rekstrarins í lok ársins 1993 að andvirði alls 2.335.224 krónur, en skuldir samtals 2.912.458 krónur eða 577.234 krónur umfram eignir. Gagnáfrýjandi kveðst hafa árangurslaust reynt að selja líkamsræktarstöðina um langt skeið, en loks hætt rekstrinum 1997 og komið í verð eignum í tengslum við hann. Hún hafi einnig orðið að selja áðurnefnda íbúð í Njarðvík í nóvember 1995 fyrir 8.350.000 krónur. Þá hafi hún á tímabilinu frá febrúar 1995 til loka árs 1998 fengið greiddar frá vátryggingafélagi bætur vegna slysa að fjárhæð alls 4.100.179 krónur. Þessum bótum ásamt söluverði fyrrnefndra eigna hafi að nær öllu leyti verið varið til greiðslu skulda.

Fyrir liggur í málinu að gagnáfrýjandi leitaði til Tryggingastofnunar ríkisins 9. desember 1997 um að fá greitt meðlag úr hendi aðaláfrýjanda með sonum þeirra. Tryggingastofnunin varð við þeirri málaleitan og tilkynnti aðaláfrýjanda 22. desember 1997 að honum bæri að greiða meðlag frá 1. næsta mánaðar. Þessu mótmælti aðaláfrýjandi í bréfi til tryggingastofnunarinnar 9. janúar 1998 með vísan til áðurnefndra samninga aðilanna. Vegna þessara mótmæla ákvað tryggingastofnunin að stöðva greiðslu meðlags til gagnáfrýjanda frá 1. febrúar 1998 að telja. Þeirri ákvörðun skaut gagnáfrýjandi til tryggingaráðs 12. mars 1998, sem með úrskurði 15. maí sama árs felldi ákvörðunina úr gildi. Hefur meðlag verið greitt gagnáfrýjanda síðan og aðaláfrýjandi krafinn um endurgreiðslu þess.

II.

Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi með stefnu 5. febrúar 1999 og var það þingfest 24. sama mánaðar. Dómkröfur hans samkvæmt stefnunni voru aðallega að viðurkennt yrði að meðlag hans með sonum aðilanna allt til 18 ára aldurs þeirra hefði verið greitt gagnáfrýjanda að fullu með áðurgreindum ráðstöfunum samkvæmt samningi þeirra og samkomulagi í tengslum við skilnað að borði og sæng. Til vara krafðist aðaláfrýjandi þess að viðurkennt yrði að gagnáfrýjandi hefði með sömu löggerningum tekið yfir framfærsluskyldu hans með sonum aðilanna til 18 ára aldurs. Til þrautavara krafðist aðaláfrýjandi þess að umræddur samningur aðilanna og samkomulag yrðu felld úr gildi að öllu leyti og gagnáfrýjanda gert að „endurgreiða ... skv. helmingaskiptareglu hjúskaparlaga kr. 7.208.669,00 ásamt meðalvöxtum óverðtryggðra útlána skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands frá og með 1. maí 1993 til greiðsludags.“ Í öllum tilvikum krafðist aðaláfrýjandi þess jafnframt að sér yrði fengin forsjá sona aðilanna.

Áðurgreind þrautavarakrafa aðaláfrýjanda var skýrð þannig í héraðsdómsstefnu að um endurgreiðslukröfu væri að ræða vegna fjármuna, sem gagnáfrýjandi hafi fengið á árinu 1993 til greiðslu meðlags með sonum þeirra. Ef ekki yrði fallist á aðalkröfu eða varakröfu væru brostnar forsendur fyrir því samkomulagi, sem aðilarnir gerðu í tengslum við skilnað að borði og sæng. Endurgreiðslukrafa aðaláfrýjanda tæki mið af því að endurskoða yrði fjárskipti milli aðilanna á grundvelli helmingaskipta. Fjárhæð í þrautavarakröfu skýrði aðaláfrýjandi þannig að gagnáfrýjandi hefði fengið í sinn hlut íbúðina að Brekkustíg 35c, að andvirði 8.700.000 krónur, en áhvílandi veðskuldir í lok árs 1992 hefðu numið 3.165.662 krónum samkvæmt skattframtali. Hefði gagnáfrýjandi fengið með þessu verðmæti sem svari 5.534.338 krónum og aðaláfrýjandi þannig afsalað sér helmingi þess, 2.767.169 krónum. Þá hefði gagnáfrýjandi haldið líkamsræktarstöðinni, sem aðilarnir hefðu verið sammála um að væri 9.200.000 króna virði. Helmingi þeirrar fjárhæðar, 4.600.000 krónum, hefði aðaláfrýjandi afsalað sér. Á móti kæmi að hann hefði fengið við fjárslitin eignarhlut í sumarbústað, sem aðilarnir hefðu á sínum tíma metið á 317.000 krónur. Helming þeirrar fjárhæðar, 158.500 krónur, ætti því að draga frá samtölu þess, sem aðaláfrýjandi hefði afsalað sér samkvæmt áðursögðu. Niðurstaðan væri þá að hallað hefði á hann við fjárslitin sem nam 7.208.669 krónum.

Í greinargerð fyrir héraðsdómi krafðist gagnáfrýjandi sýknu af framangreindum kröfum. Hún höfðaði gagnsök í málinu 22. mars 1999, þar sem hún krafðist þess annars vegar að sér yrði með dómi veittur lögskilnaður við aðaláfrýjanda og hins vegar að honum yrði gert að greiða sér 1.224.636 krónur með vöxtum frá 1. janúar 1994. Í stefnu í gagnsök var fjárkrafa þessi skýrð með því að um væri að ræða meðlag með sonum aðilanna fyrir tímabilið frá 1. apríl 1993 til 1. janúar 1998.

Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi féll aðaláfrýjandi frá kröfu sinni um að fá forsjá sona aðilanna. Hann lækkaði einnig fjárhæð í þrautavarakröfu sinni í 6.065.725 krónur. Þá breytingu skýrði hann með því að hann féllist á að andvirði íbúðarinnar að Brekkustíg 35c, sem gagnáfrýjandi fékk í sinn hlut, yrði ákveðið með tilliti til fjárhæðar áhvílandi veðskulda samkvæmt skilnaðarsamningi þeirra, 5.451.549 krónur, í stað þess að miða við áðurgreinda fjárhæð samkvæmt skattframtali.

Með hinum áfrýjaða dómi var öllum kröfum aðaláfrýjanda hrundið, svo og kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu meðlags. Fallist var hins vegar á kröfu gagnáfrýjanda um lögskilnað.

III.

Aðaláfrýjandi kveðst með dómkröfu sinni fyrir Hæstarétti hafa fallið frá aðalkröfu og varakröfu fyrir héraðsdómi. Haldi hann þannig aðeins til streitu þrautavarakröfu sinni í héraði, sem hafi þó tekið lækkun að því er fjárhæð varðar. Sem fyrr haldi hann fram að gagnáfrýjandi hafi með fráviki frá helmingaskiptum fengið verulega meira í sinn hlut en sem svaraði meðlagi með sonum þeirra. Fjárhæð kröfunnar sé hins vegar nú miðuð við samanlagðar meðlagsgreiðslur aðaláfrýjanda frá 1. febrúar 1998 að telja til þess tíma, sem hvor sona aðilanna um sig nær 18 ára aldri. Sé þar lögð til grundvallar fjárhæð meðlags eins og hún var við upphaf þessa tímabils.

Sem fyrr segir reisti aðaláfrýjandi kröfur sínar í héraði aðallega á því að samkomulag aðilanna um fullnaðargreiðslu meðlags úr hendi hans með sonum þeirra væri skuldbindandi fyrir gagnáfrýjanda. Í þrautavarakröfu var hins vegar krafist ógildingar samninga aðilanna varðandi skilnaðarkjör og gerð fjárkrafa á þeirri forsendu. Krafa á þeim grunni stendur nú ein eftir í málinu af hálfu aðaláfrýjanda, þótt málsókn hans hafi í öndverðu aðallega verið byggð á röksemdum fyrir því gagnstæða. Í dómkröfum aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti segir meðal annars að hann krefjist að „skilnaðarsamkomulag og viðbótarsamningur sem gerður var í apríl 1993, verði felldur úr gildi að öllu leyti“. Þrátt fyrir að krafist sé samkvæmt orðanna hljóðan ógildingar þessara samninga í heild, lýtur málatilbúnaður aðaláfrýjanda nú að því einu að fá efni þeirra breytt um afmarkað atriði, en hvergi er þó skýrlega kveðið þar á um hver ættu að verða afdrif annars þess, sem samningarnir tóku til. Eins og áður kom fram var fjárhæð þrautavarakröfu aðaláfrýjanda fyrir héraðsdómi reist á því að með henni yrði hann eins settur að eigin mati og ef helmingaskiptum hefði verið beitt við fjárslit milli aðilanna. Með málsástæðum á þeim grunni markaði aðaláfrýjandi farveg fyrir málatilbúnað sinn jafnt sem gagnáfrýjanda. Fjárhæð dómkröfu aðaláfrýjanda er hins vegar nú byggð á öðrum og um margt frábrugðnum grundvelli. Þá verður og að líta til þess að krafa aðaláfrýjanda um ógildingu samninga aðilanna er rökstudd með því að forsendur fyrir þeim hafi brostið vegna þess að gagnáfrýjandi hafi í andstöðu við það, sem samið var um, knúið á um að fá meðlag með sonum þeirra, sem aðaláfrýjandi telur þegar greitt að fullu með afhendingu eigna til gagnáfrýjanda. Með þessu er því í raun borið við að vanefndir gagnáfrýjanda á samningum aðilanna eigi að leiða til ógildingar þeirra vegna brostinna forsendna, sem fær þó ekki staðist að lögum. Í sömu andrá gerir aðaláfrýjandi kröfu um greiðslu, sem ætti í reynd að gera hann eins settan og ef samningar aðilanna væru gildir og gagnáfrýjandi hefði efnt þá fyrir sitt leyti. Gætir í þessu slíks misræmis að efnisdómur verður ekki felldur á kröfur aðaláfrýjanda.

Þegar litið er til alls þess, sem að framan greinir, gætir slíkra annmarka á málatilbúnaði aðaláfrýjanda að ekki verður komist hjá að vísa kröfum hans í aðalsök í héraði sjálfkrafa frá héraðsdómi.

IV.

Eins og aðilarnir haga kröfum sínum fyrir Hæstarétti er ekki til endurskoðunar ákvæði hins áfrýjaða dóms um lögskilnað þeirra. Skal héraðsdómur því standa óraskaður um það efni.

Gagnáfrýjandi krefst sem áður segir að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.224.636 krónur. Er þetta sama krafa og hún gerði í fyrrnefndri gagnsök í héraði um meðlag með sonum aðilanna fyrir tímabilið frá 1. apríl 1993 til 1. janúar 1998. Af gögnum málsins verður ekki séð að gagnáfrýjandi hafi haldið þeirri kröfu fram fyrr en með höfðun gagnsakarinnar 22. mars 1999. Allt til desembermánaðar 1997 hagaði hún gerðum sínum eins og samkomulag aðilanna um eingreiðslu meðlagsins væri bindandi fyrir sig. Þegar þáttaskil urðu í þessu efni með beiðni gagnáfrýjanda hinn 9. þess mánaðar til Tryggingastofnunar ríkisins var kröfu hennar um greiðslu meðlags markaður tími frá 1. janúar 1998. Í skýrslu fyrir héraðsdómi skýrði gagnáfrýjandi svo frá að um þær mundir hafi hún í símtali borið upp við aðaláfrýjanda hvort hann vildi greiða fjárhæð samsvarandi meðlagi inn á bankareikning sem eins konar menntunarstyrk handa sonum þeirra. Hann hafi hafnað því. Gagnáfrýjandi kvaðst þá hafa sagt eftirfarandi við aðaláfrýjanda: „Ég er að hugsa um að sækja um meðlag, ekkert aftur í tímann, bara frá og með deginum í dag. Ég vildi bara láta þig vita, þá geri ég það.“ Með þessu gaf gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda ótvírætt tilefni til að ætla að aðgerðarleysi hennar um margra ára skeið um að leita eftir greiðslu meðlags fæli í sér að hún hygðist ekki hafa slíka kröfu uppi. Verður því að fallast á með héraðsdómara að gagnáfrýjandi hafi glatað rétti til að halda fram þeirri kröfu, sem hér um ræðir, og sýkna aðaláfrýjanda af henni.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfum aðaláfrýjanda, Ólafs Arnbjörnssonar, í aðalsök í héraði er vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms skulu vera óröskuð um lögskilnað aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda, Bergþóru Bertu Guðjónsdóttur, og um sýknu aðaláfrýjanda af kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu á 1.224.636 krónum.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. október 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. október sl., var þingfest 3. mars 1999. Aðalstefnandi er Ólafur Arnbjörnsson, kt. 220257-3399, Vatnsholti 20, Keflavík. Aðalstefnda er Bergþóra Berta Guðjónsdóttir, kt. 050955-3549, Sóleyjarhlíð 3, Hafnarfirði.

Endanlegar dómkröfur aðalstefnanda eru þær aðallega að viðurkennt verði að meðlag hans með sonum hans, Guðjóni, kt. 190283-4299 og Herði, kt. 081185-3449, hafi verið að fullu greitt stefndu til 18 ára aldurs drengjanna með skilnaðarsamningi og samkomulagi sem gert var við skilnað að borði og sæng í apríl 1993. Til vara krefst stefnandi viðurkenningar á því að stefnda hafi yfirtekið framfærsluskyldu hans til 18 ára aldurs sona þeirra, með skilnaðarsamningi og samkomulagi frá apríl 1993. Til þrautavara gerir stefnandi kröfu um að skilnaðarsamkomulag og viðbótarsamningur sem gerður var í apríl 1993, verði felldur úr gildi að öllu leyti og stefndu verði gert að endurgreiða stefnanda samkvæmt helmingarskiptaeglu hjúskaparlaga  7.208.669 krónur ásamt meðalvöxtum óverðtryggðra útlána samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands frá og með 1. maí 1993 til greiðsludags. Í öllum tilfellum er krafist málskostnaðar.

Aðalstefnda krefst sýknu og málskostnaðar í aðalsök.

Í gagnsök krefst gagnstefnandi Bergþóra Berta  að sér verði með dómi veittur lögskilnaður frá gagnstefnda samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga. Þá krefst gagnstefnandi þess að gagnstefndi verði dæmdur til þess að greiða sér 1.224.636 krónur ásamt meðalvöxtum óverðtryggðra útlána samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands sem hér segir:Af  185.400 krónum frá 1.1.1994 til 1.1.1995, af  432.600 krónum frá þeim degi til 1.1.1996, af  689.680 krónum frá þeim degi til 1.1.1997, af  948.736 krónum frá þeim degi til 1.1.1998, en af  1.224.636 krónum frá þeim degi til 24. mars 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar í gagnsök að mati dómsins ásamt virðisaukaskatti og þess að gagnsökin verði sameinuð aðalsökinni.

Gagnstefndi Ólafur  krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum fjárkröfum gagnstefnanda í gagnsök. Til vara er þess krafist að gagnstefndi verði sýknaður að hluta. Gagnstefndi getur fyrir sitt leyti fallist á kröfu um lögskilnað, svo framarlega sem kröfur hans í aðalsök verða teknar til greina. Þá krefst gagnstefndi málskostnaðar í gagnsök að mati dómsins ásamt virðisaukaskatti. Aðalsök og gagnsök hafa verið sameinuð og voru sótt og varin sem eitt og sama mál.

I.

Aðilar skildu að borði og sæng í apríl 1993. Gerðu þau með sér skilnaðarsamkomulag þar sem segir m.a.:

,,2. gr.

Með drengjunum greiðir maðurinn sem nemur einföldu meðlagi samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á hverjum tíma frá 01. apríl 1993 til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra.

3. gr.

Á fasteigninni Brekkustígur 35 c, Njarðvík íbúð 0103, sem konan keypti með kaupsamningi dags. 07.03.1991 hvíla eftirtalin lán:

1.        Byggingasj. ríkisins dags. 20.07.1989 upphafl. kr. 1.941.000.- að eftirstöðvum kr. 2.447.243.38.

2.        Byggingasj. ríkisins dags. 24.01.1990 upphafl. kr. 2.142.000.- að eftirstöðvum kr. 2.484.306.52.

3.        Sparisjóðurinn í Njarðvík dags. 18.09.1991 upphafl. kr. 475.000.- að eftirstöðvum kr. 45.000.-

4.        Sparisjóðurinn í Keflavík dags. 28.09.1992 upphafl. kr. 500.000.- að eftirstöðvum um kr. 475.000.-.

Fasteignin kemur í hlut konunnar, sem ábyrgist ein greiðslu áhvílandi veðskulda á eigninni.

4. gr.

Skrásett firma konunnar, Æfingastúdíó Njarðvíkur. Firmað er nokkuð skuldsett. Með ábyrgð konunnar á öllum skuldbindingum firmans kemur það með öllu því sem tilheyrir rekstri þess, þ.m.t. tæki og tækjabúnaður, í hlut konunnar.

 

1 / 8 hluti sumarbústaðar í landi Þórsstaða í Grímsnesi kemur í hlut mannsins.

5. gr.

Hvort hjónanna um sig ber ábyrgð á öðrum fjárskuldbindinum sem það hefur stofnað til frá og með 01. ágúst 1992. Hvort hjónanna um sig skal greiða opinber gjöld af tekjum sem það hefur á yfirstandandi ári."

Á grundvelli þessa samnings gaf sýslumaður út leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng þann 23. apríl 1993.

Til viðbótar skilnaðarsamkomulaginu gerðu aðilar með sér sérstakt samkomulag  í apríl 1993 sem ekki var lagt fram hjá sýslumanni og hlaut því ekki staðfestingu hans. Það er svohljóðandi:

"Við undirrituð, Bergþóra Berta Guðjónsdóttir, kt. 050955-3549 til heimilis að Brekkustíg 35, Njarðvík og Ólafur Arnbjörnsson, kt. 220257-3399, til heimilis að Mávabraut 2g, Keflavík:

Samkomulag er um það okkar á milli, að undirrituð Berta kaupir eignarhluta undirritaðs Ólafs í fasteigninni Brekkustíg 35c, Njarðvík og í firmanu Æfingastúdíó Njarðvíkur með tæknibúnaði, tækjum og öllum því sem því tilheyrir. Samkomulag er um það okkar á milli að meðlagsgreiðslur Ólafs með drengjunum Guðjóni, kt. 190283-4299 og Herði, kt. 081185-3449,- sem lúta forsjá Bertu,- til fullnaðs 18 ára aldurs drengjanna gangi upp í kaupverð eignarhluta Ólafs og telst kaupverðið með því greitt að fullu. Undirrituð Berta skuldbindur sig til að innheimta ekki meðlag með drengjunum til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra fyrir milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins og Innheimtustofnunar sveitarfélaga, enda telst meðlag greitt með því að Berta hefur eignarhluta Ólafs til fullrar ráðstöfunar frá og með undirritun þessa samkomulags, sbr. skilnaðarsamning okkar dags. í  apríl 1993 og staðfestur hjá sýslumanninum í Keflavík hinn 19. apríl 1993. Hér er miðað við fjárhæð meðlags skv. ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er samkomulag þetta er undirritað.

Samkomulag þetta undirritum við að vel íhuguðu máli. Hvorugt okkar telur ástæðu til þess að frekara mat fari fram á þeim verðmætum sem við hér erum að ráðstafa og grundvallast sú ákvörðun á þeirri afstöðu undirritaðs Ólafs, að þótt verðmæti fyrirtækisins Æfingastúdíó, tækja og búnaðar o.fl. ásamt eignarhluta á fasteigninni sé meira en sem nemur verðmæti framreiknaðs meðlags með drengjunum til 18 ára aldurs þá hafi það ekki áhrif til breytinga á þeim vilja mínum, Ólafs, að eignaruppgjör okkar hjónanna vegna skilnaðarins fari fram með þessum hætti, sbr. framangreint."

Í málinu hefur verð lagt fram mat fasteignasalans Sigurðar V. Ragnarssonar um að fasteign aðila að Brekkustíg 35c, Njarðvík hafi verið metin á 8.700.000 krónur í mars 1993. Þá hefur verið lagður fram í málinu útreikningur  frá þessum tíma þar sem   firmað "Æfingastúdíó," sem var líkamsræktarstöð,  er metið á kr. 9.200.000 krónur. Fram hefur einnig komið að aðilar létu reikna út fyrir sig meðlag barnanna til 18 ára aldurs þeirra til þess að hafa til hliðsjónar við skiptin.

Stefnandi segir að eftir samkomulagi aðila hafi stefnda fengið fasteign þeirra hjóna, sem metin var á 8.700.000 krónur. Áhvílandi uppreiknaðar veðskuldir samkvæmt skattframtali 1993 hafi verið 3.165.662 krónur. Nettóvirði eignarinnar hafi því numið a.m.k. 5.534.338 krónum. Firmað "Æfingastúdíó" í Njarðvík var líkamsræktarstöð sem hjónin höfðu rekið saman. Á fundi hjá lögmanni konunnar hafi þau metið firmað á 9.200.000 krónur. Stefnda hafi fengið allan reksturinn og lausafé sem honum fylgdi í sinn hlut. Það eina sem stefnandi hafi fengið hafi verið hlutur í sumarbústað að fasteignamati 317.000 krónur.

Samkomulag hafi verið um það með aðilum að með þessari skiptingu væri stefnandi einnig að greiða meðlag með sonum aðila til 18 ára aldurs þeirra.

Stefnandi kveður stefndu hafa virt samkomulag aðila þar til 9. desember 1997 að stefnda sótti um það hjá Tryggingastofnun ríkisins að fá greitt meðlag. Gerði stefnda það á grundvelli skilnaðarleyfisbréfs. Almannatryggingar í Hafnarfirði úrskurðuðu 22. desember 1997 um greiðslu meðlags frá 1. janúar 1998 og með bréfi 9. s.m. krafðist stefnandi þess að úrskurðinum yrði breytt. Almannatryggingar stöðvuðu greiðslur til stefndu sem stefnandi kærði til tryggingaráðs. Í úrskurði tryggingaráðs segir m.a.:

"Í leyfisbréfi til skilnaðar að borði og sæng dags. 23. apríl 1993 féll forræði yfir sonum hjóna til móður og skuldbatt faðir sig til þess að greiða einfalt meðlag með hvorum drengjanna frá 1. apríl 1993 til 18 ára aldurs þeirra.

Samkvæmt 19. gr. barnalaga  tilheyrir meðlag barni og er talið óheimilt að svifta barnið þeim rétti meðlagsins.

Í framkvæmd hefur verið litið svo á að annað foreldri geti afsalað sér rétti til að krefjast meðlags úr hendi hins. Hefur þessi ráðstöfun verið rökstudd með því að annað foreldri sé að semja um yfirtöku á framfærsluskyldum hins. Það er hins vegar ekki á færi Tryggingastofnunar ríkisins að taka afstöðu til breyttrar samningsskyldu hjóna, ef upp koma deilur.

Skv. 15. gr. barnalaga nr. 20/1992, sbr. 59. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, var Tryggingastofnun fortakslaust skylt að greiða Bergþóru Bertu meðlag með sonum hennar og Ólafs Arnbjörnssonar eins og kveðið var á um í leyfisbréfi skilnaðar, enda hafði Bergþóra Berta forræði drengjanna og setti fram kröfur þar að lútandi.

Er það niðurstaða tryggingaráðs að stöðvun á meðlagsgreiðslum til Bergþóru Bertu frá og með 1. febrúar s.l. eigi sér ekki lagastoð."

II.

Stefnda bendir á að í skilnaðarsamkomulagi séu áhvílandi uppreiknaðar skuldir á fasteigninni Brekkustíg 35c, Njarðvík taldar 5.451.549 krónur en ekki 3.165.662 krónur eins og í stefnu greinir. Fasteignamatsverð eignarinnar hafi þá verið 6.555.000 krónur. Í skattframtali 1993 hafi skuldir alls verið 6.449.259 krónur. Á þessum tíma hafi fasteignaverð almennt verið mjög lágt, ekki síst í Njarðvík og nágrenni.

Í framtali 1993 sé einnig að finna efnahags- og rekstrarreikning "Æfingastúdíós" sem stefnda rak. Samkvæmt efnahagsreikningi hafi eigið fé verið neikvætt um 577.234 krónur.

Fyrir dómi sagði stefnda að hún hefði unnið fulla vinnu úti öll sín hjúskaparár. Hún hefði rekið snyrtistofu í 7 ár en síðar byrjað að kenna ,,erobik” í leigusal. Tveimur árum síðar, eða 1989, hefði hún opnað líkamsræktarstöðina "Æfingastúdíó" og hefði reksturinn gengið vel. Stefnandi hefði stundað sjómennsku en á þessum tíma hefði hann farið í land og stofnað fyrirtækið "Sjófisk". Sá rekstur hefði gengið illa og endað með gjaldþroti fyrirtækisins og stefnanda persónulega. Á árinu 1990 hefði stefnandi byrjað að vinna með stefndu í líkamsræktarstöðinni. Hefði stefnandi séð um daglegan rekstur en stefnda kennt ,,erobik” og sinnt heimilinu. Þegar ljóst var orðið á miðju ári að sambúðarslit blöstu við hefðu þau reynt að selja fyrirtækið en án árangurs. Hún hefði þá tekið þá ákvörðun að reka fyrirtækið áfram þar sem hún bar ein ábyrgð á skuldum þess. Hún hefði áfram reynt að selja en mikill samdráttur hefði verið í þjóðfélaginu á þessum tíma. Hefði hún verið tilbúin að selja fyrir 2.000.000 krónur en engin kaupandi fundist. Að lokum hefði hún ekki treyst sér til þess að halda rekstri áfram vegna gífulegrar vinnu sem kom niður á heimilisstörfum og uppeldi barnanna, en stefnandi var þá fluttur til Afríku. Hefði hún lokað stöðinni í júní 1997 og selt það sem hægt var að selja, þ.á.m. íbúðina til þess að greiða upp skuldir. Hefði hún fengið inni í félagslegri íbúð í Hafnarfirði þar sem hún byggi nú með börnunum.

III.

Aðalsök

Málsástæður stefnanda í aðalsök eru þær að með viðbótarsamkomulagi aðila varðandi skipti eigna við skilnað að borði og sæng hafi verið áskilið að með afhendingu þessara eigna til konunnar hefði stefnandi greitt að fullu meðlag með sonum þeirra tveimur, Guðjóni og Herði, til 18 ára aldurs þeirra. Hafi sérstaklega verið tekið fram í samkomulagi þessu, sem lögmaður konunnar gerði fyrir aðila, að stefnanda væri ljóst að hann væri að afhenda eignir að verðmæti sem næmi mun hærri fjárhæðum en framreiknuðu verðmæti meðlags með drengjunum tveimur. Þessi afhending fjármuna hafi verið í samræmi við 1. mgr. 19. gr. barnalaga.

Stefnandi hafi afhent stefndu þessa fjármuni til greiðslu meðlags og  hún tekið við þeim sem lögráðamaður drengjanna. Hafi henni borið að nota fjármunina til framfærslu þeirra eins og tilgangur meðlags sé. Stefnda hafi forsjá barnanna og því einnig fjárhald þeirra þar sem þeir voru ólögráða fyrir æsku sakir, sbr. 26. gr. þágildandi lögræðislaga nr. 68/1984. Henni hafi borið að varðveita og ávaxta það fé sem hún fékk í hendur fyrir þeirra hönd með afhendingu eignanna sem um ræddi, sbr. 33. og 38. gr. þágildandi lögræðislaga. Eignarhluti stefnanda í fasteigninni, sem afhentur var stefndu, hafi verið  skráður á hennar nafn en ekki drengjanna. Hafi þó í raun verið um meðlagsgreiðslur vegna þeirra að ræða, þar sem nafnabreyting hefði haft í för með sér að samþykki yfirlögráðanda hefði þurft til allra ráðstafana og skuldbindingar en veð voru áhvílandi á eigninni. Stefnda hafi hins vegar eignina, lausafé og rekstrarmuni í sinni vörslu og hafi haft lögmæta ráðstöfunarheimild yfir þessum fjármunum fyrir drengjanna hönd. Ekkert sé því til fyrirstöðu að meðlag sé greitt fyrirfram með einni heildargreiðslu að mati fræðimanna á sviði sifjaréttar. Meðlag hafi því verið að fullu greitt. Stefnanda sé því nauðsynlegt að fá viðurkenningardóm um fullnaðargreiðslu meðlags með sonum sínum, þannig að ekki verði um tvöfaldar meðlagsgreiðslur hans að ræða, þar sem hann hafi þegar uppfyllt skyldur sínar skv. III. kafla barnalaga nr. 20/1992.

Varakrafa stefnanda byggist á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa. Verði ekki talið að meðlag hafi verið að fullu greitt með afhendingu eignanna, sé a.m.k. ljóst að stefnda hafi með samningi þeim sem gerður var, yfirtekið með bindandi og varanlegum hætti framfærsluskyldu stefnanda til 18 ára aldurs drengjanna. Það hafi verið forsenda samningsins um að stefnda fékk sem móðir drengjanna afhentar nær allar eigur stefnanda að ekki yrði innheimt frekara meðlag með þeim. Þannig hafi stefnda yfirtekið framfærsluskyldu stefnanda auk þess sem hún hafi sjálf borið framfærsluskyldu gagnvart þeim. Stefnda hafi þannig leyst stefnanda undan framfærsluskyldu sinni og staðið við samning sinn fyrstu 5 árin eftir skilnaðinn. Þar sem Tryggingarráð hafi ekki treyst sér  til að taka afstöðu í deilu aðila um framfærsluskyldu hafi innheimta verið  hafin á hendur stefnanda og hafi svo verið frá því að úrskurður ráðsins gekk.

Þrautavarakrafa stefnanda sé endurgreiðslukrafa á hendur stefndu vegna þeirra fjármuna sem henni hafi verið afhentir 1993 til greiðslu meðlags með drengjunum tveimur. Verði ekki fallist á að með afhendingu þessara fjármuna til stefndu hafi verið greitt meðlag að fullu og meira en það, til 18 ára aldurs sona þeirra, séu forsendur brostnar fyrir því samkomulagi sem stefnandi og stefnda gerðu þegar gengið var frá skilnaði þeirra að borði og sæng. Sé stefnanda þá nauðsynlegt að endurkrefja stefndu um þá fjármuni sem hún fékk til ráðstöfunar sem meðlagsgreiðslur, þar sem samningur aðila sé þá úr gildi fallinn og nauðsynlegt að endurskoða skipti milli hjóna miðað við venjulega helmingaskiptareglu í samræmi við ákvæði C-þáttar XIV. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993, enda ljóst að fella þurfi samkomulagið og samninginn úr gildi í samræmi við reglu 95. gr. A-þáttar XIV. kafla hjúskaparlaga.

Stefnandi vísar um málatilbúnað sinn til ákvæða barnalaga nr. 20/1992, einkum III. og VI. kafla  svo og VIII. kafla varðandi réttarreglur um forsjármál. Vísað er til ákvæða eldri lögræðislaga nr. 68/1984, einkum V. kafla,  sbr. einnig núgildandi lögræðislög nr. 71/1997. Vísað er til ákvæða hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum XIV. kafla þeirra laga. Ennfremur er vísað til almennra reglna fjármunaréttar og kröfuréttar varðandi áhrif brostinna forsendna á samningssamband.

Stefnda byggir á að miða eigi við fasteignamat eignarinnar Brekkustígs 35c, Njarðvík þegar eignarstaða sé metin við skilnað. En jafnvel þó að mat fasteignasalans sé lagt til grundvallar komi í ljós að stefnda hafi aðeins borið lítillega meira úr býtum við skiptin, sem sé alls ekki óeðlilegt þar sem hún hafi haldið áfram að reka heimili sitt og sona aðila. Afsal á meðlagi með drengjunum um alla framtíð hafi því verið bersýnilega ósanngjarnt.

Eins og sjáist á efnahags- og rekstrarreikningi fyrirtækisins hafi eigið fé verið neikvætt um 577.234 krónur. Mat aðila að eignin væri 9.200.000 króna virði, hafi verið fjarstæðukennt. Forsendur séu því brostnar fyrir samkomulagi aðila í apríl 1993. Verðmæti þau er hún átti að fá hafi reynst mun minni en samkomulag gerði ráð fyrir.

Gagnsök.

Kröfu sína um lögskilnað byggir gagnstefnandi á ákvæðum hjúskaparlaga. Gagnkrafa er að öðru leyti sú fjárhæð sem nemur andvirði meðlags með börnum aðila frá 1. apríl 1993 til 1. janúar 1998.

Gagnstefnandi Ólafur styður sýknu í gagnsök þeim rökum að hann hafi nú þegar greitt meðlag að fullu með sonum sínum eins og rakið sé í aðalsök. Í öðru lagi ber gagnstefndi fyrir sig tómlæti og að krafa gagnstefnanda sé fyrnd sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905. Þessi krafa um greiðslu meðlags komi ekki fram fyrr en sex árum eftir samning aðila.

IV.

Aðilar voru í hjúskap í 15 ár. Aðalstefnda vann úti alla tíð og aðalstefnandi stundaði sjómennsku. Á árinu 1989 fór aðalstefnandi í land og stofnaði fyrirtæki sem síðar varð gjaldþrota. Aðalstefnandi varð einnig gjaldþrota sjálfur og seldu aðilar þá raðhús sitt og keyptu íbúð í fjölbýli. Þau slitu samvistum um mitt ár 1992 og skildu að borði og sæng 23. apríl 1993. Fljótlega upp úr því fluttist aðalstefnandi til Afríku þar sem hann bjó næstu 4 ár.

Við skilnað aðila fékk aðalstefnda allar eignir þeirra fyrir utan hlut í sumarbústað að fasteignamatsverði 317.000 krónur, sem rann til aðalstefnanda. Aðalstefnda fékk því íbúð að Brekkustíg 35c, Njarðvík í sinn hlut og líkamsræktarstöðina ,,Æfingastúdíó". Þegar aðilar gengu til skipta reyndu þau að gera sér grein fyrir verðmæti eigna sinna og létu einnig uppreikna meðlagsgreiðslur til 18 ára aldurs barnanna.

Þau deila nú um þetta mat sitt. Þannig mótmælir aðalstefnda mati fasteignasala á íbúðinni að fárhæð 8.700.000  krónur. Segir aðalstefnda að þetta mat hafi ekki verið fengið með hennar samþykki og fasteignasalinn sé reyndar frændi aðalstefnanda. Þá hefur verið lagt fram handskrifað mat á fyrirtækinu. Kemur þar fram að lausafé, innréttingar og tæki eru metin á 9.200.000  krónur. Eru stefnukröfur á þessu mati byggðar. Fram hefur komið í málinu að þetta handskrifaða plagg er frá aðalstefnanda komið og segir hann að aðilar hafi í sameiningu metið fyrirtækið með þessum hætti. Aðalstefnda  mótmælir þessu en segist þó hafa talið fyrirtækið um 7-8.000.000  króna virði.

Dómurinn telur að rétt sé að miða við að verðmæti íbúðarinnar hafi verið 8.200.000  krónur við skilnað aðila. Stefnda seldi íbúðina á því verði 1997 en á árunum þar á undan stóð fasteignaverð víðast hvar í stað. Samkvæmt skilnaðarsamkomulagi námu uppreiknaðar skuldir áhvílandi á fasteigninni 5.451.549 krónum. Verður talið að nettóeign í íbúðinni hafi því numið 2.745.451 krónu. Hlutur hvors var því 1.372.725 krónur miðað við helmingaskiptaregluna.

Mikið ber á milli aðila varðandi mat á fyrirtækinu. Eru kröfur aðalstefnanda miðaðar við 9.200.000 krónur, en aðalstefnda heldur því aftur á móti fram að fyrirtækið hafi ekki hrokkið fyrir skuldum þegar upp var staðið. Frásögn aðalstefndu af rekstri fyrirtækisins og sölutilraunum er studd ýmsum gögnum. Segir aðalstefnda að hún hafi reynt að selja en engin kaupandi fengist. Hún hafi því ekki séð aðra lausn en að halda áfram rekstri, enda fyrirtækið nokkuð skuldsett og hún ein ábyrg fyrir skuldum. Þegar útséð var með að kaupandi fyndist, þrátt fyrir að verðið væri komið niður í 2.000.000 króna, hefði hún ákveðið að loka í júní 1997. Hefði hún selt það sem unnt var að selja af lausafé og hefði það runnið upp í skuldir. Verður þessi frásögn lögð til grundvallar enda styðst hún við efnahagsreikning fyrirtækisins 31. desember 1993, en þar er eigið fé talið neikvætt um 577.234 krónur og skuldir taldar 2.604.578 krónur.  Endanlegt mat á fyrirtæki er jafnan það verð sem fæst við sölu þess.  Þykir aðalstefnda hafa fært sönnur á að verðmætamat aðila á fyrirtækinu við skilnað hafi  byggst á alltof mikilli bjartsýni og reynst óraunhæft.

Að fenginni þessari niðurstöðu þykir í ljós leitt að þegar upp var staðið  fékk aðalstefnda í raun aðeins um 1.400.000 króna umfram aðalstefnanda við skiptin og  er þá ekki tekið  tillit til sumarbústaðrins. Verður því fallist á með aðalstefndu að forsendur hafi brostið fyrir samningi aðila um að aðalstefnda afsalaði sér meðlagi með dengjunum um alla framtíð.  Þykir heldur ekki óeðlilegt að aðalstefnda beri eitthvað meira úr  býtum við skiptin þar sem hún hafði og hefur fyrir börnum þeirra að sjá.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. barnalaga nr. 20/1992 tilheyrir framfærslueyrir barni. Kjósi meðlagsskylt foreldri að fullnægja framfærsluskyldu sinni með því að greiða fúlgu við skilnað þá skal varðveita fúlguféð með þeim hætti sem mælt er fyrir um í lögræðislögum eða með greiðslu í verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Þá segir í 17. gr. barnalaga að samningur um framfærslueyri með barni sé því aðeins gildur að sýslumaður staðfesti hann.

Í samningi aðila við skiptin var horft fram hjá þessum ákvæðum barnalaga. Réttur barnanna til framfærslueyris var ekki tryggður heldur bundinn við óraunhæfar og óljósar væntingar aðila um sölu eigna, sem síðar brugðust. Þá var þessi samningur ekki staðfestur af sýslumanni eins og áskilið er í 17. gr barnalaga. Samningurinn telst því þegar af þeirri  ástæðu óskuldbindandi fyrir stefndu. Samkvæmt ofansögðu verður aðal-, vara- og þrautavarakrafa aðalstefnanda í aðalsök ekki tekin til greina.

Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að henni verði veittur lögskilnaður frá gagnstefnda. Samkvæmt 2. tl. 113. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 2. mgr. 41. gr. ber að fallast á þá kröfu, enda kemur ágreiningur um framfærslueyri ekki í veg fyrir að skilnaður verði veittur, sbr. 2. mgr. 44. gr. hjúskaparlaga.

Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess einnig að gagnstefndi verði dæmdur til þess að greiða meðlag með drengjunum frá 1. janúar 1994. Það var  ekki fyrr en í gagnstefnu, sem fram var lögð 22. mars 1999, að gerð var krafa um meðlag aftur í tímann. Vor þá tæp 6 ár liðin frá því að skilnaðarsamkomulagið var undirritað. Þykir því bera að hafna þessari kröfu gagnstefnanda vegna tómlætis.

Niðurstaða í málinu verður því sú að í aðalsök verður stefnda sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Í gagnsök verður krafa gagnstefnanda um lögskilnað tekin til greina. Gagnstefndi verður sýknaður af kröfu um framfæruslueyri aftur í tímann.

Eftir þessari niðurstöðu verður málskostnaður ákveðinn fyrir báðar sakir, þannig að aðalstefnandi greiði aðalstefndu 240.000 krónur í málskostnað. Ekki er þá tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Aðalstefnda, Bergþóra Berta Guðjónsdóttir, skal vera sýkn af öllum kröfum

aðalstefnanda, Ólafs Arnbjörssonar, í aðalsök.

Gagnstefnanda, Bergþóru Bertu Guðjónsdóttur, er veittur lögskilnaður frá gagnstefnda, Ólafi Arnbjörnssyni, frá deginum í dag að telja.

Gagnstefndi er sýknaður af kröfu gagnstefnanda um greiðslu framfærslueyris með börnum aðila frá 1. apríl 1993 til 1. janúar 1998.

Aðalstefnandi Ólafur greiði aðalstefndu Bergþóru Bertu 240.000 krónur í málskostnað.