Hæstiréttur íslands
Mál nr. 265/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. maí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum „verði gert að dvelja að Vogi og í framhaldi af því í lokuðu meðferðarúrræði á vegum SÁÁ og/eða Hlaðgerðarkoti.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Samkvæmt yfirliti yfir reikning varnaraðila hjá [...] hf. voru annars vegar 1.000.100 krónur og hins vegar 51.005 krónur lagðar inn á reikninginn af bankareikningi A sem varnaraðili er sakaður um að hafa ógnað með hnífi og fylgt hótuninni eftir með því að stinga A með hnífnum í handarbak hans. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna úrskurðarins verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2017.
Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. maí 2017, kl. 16.00.
Í greinargerð saksóknarfulltrúa kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi þann 31. mars sl. kl. 17.05 fengið tilkynningu þess efnis að aðili hefði verið rændur við Skautahöllina í Laugardal við Múlaveg í Reykjavík. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi hún hitt fyrir árásarþola inni í Skautahöllinni. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hefði kærði neytt árásarþola með hníf/stunguvopni til að millifæra af reikningi sínum í gegnum síma yfir á reikning kærða. Samkvæmt lýsingu brotaþola hefði honum verið ógnað með hníf/stunguvopni sem hafi verið borið að hálsi hans og hann krafinn um fjármuni. Kvæðist brotaþoli í fyrstu hafa neitað að aflæsa símanum og fara í heimabankann, en þá hafi kærði tekið upp hnífinn/stunguvopnið og stungið brotaþola í handarbak vinstri handar. Kvæði brotaþoli kærða einnig hafa haft uppi hótanir um að stinga og skera hann, jafnframt hótað að nauðga honum ef hann segði frá atvikinu. Brotaþoli kvæðist hafa orðið af 1.050.000 krónum í tveimur færslum, annars vegar 1.000.000 króna og hins vegar 50.000 krónum. Hafi kærði þá beitt hníf/stunguvopni að hálsi árásarþola. Þá hafði kærði einnig rænt svörtum bakpoka með fartölvu, sem og síma brotaþola. Brotaþoli hafi getað gefið lýsingu á kærða og m.a. getað lýst tattúi á annari hendi kærða.
Þá er þess getið að maður sem hafi verið við vinnu á [...] í Laugardalnum kvæðist hafa séð mann vera að reyna að brjótast inn í bifreiðina sína fyrr um daginn. Kvæðist vitnið hafa náð að stöðva kærða. Hafi kærði þá farið í burtu en hótað að stinga vitnið. Kærði hafi svo ekið í burtu á bifreiðinni [...]. Vitnið hafi getað lýst kærða en sú lýsing gæti átt við lýsingu brotaþola í ránsmálinu. Samkvæmt upplýsingum lögreglu teldi vitnið að kærði hefði verið með sólgleraugu og að hann teldi sig geta þekkt kærða á myndum.
Í greinargerð saksóknarfulltrúa kemur einnig fram að lögregla hafi fljótlega komist að kennitölu og reikningsnúmeri eiganda reikningsins sem millifært hafi verið á, en um hafi verið að ræða reikningsnúmer skráð á kærða. Kærði hafi verið handtekinn að kvöldi 31. mars sl. í Kópavogi á bifreiðinni [...], en við leit í bifreiðinni og á kærða hafi fundist sími brotaþola, bakpoki og fartalva. Einnig hafi fundist sólgleraugu á kærða, sem gætu átt við lýsingu brotaþola. Kærði neiti að tjá sig og gefi ekki skýringar á ferðum sínum eða þeim munum sem fundist hafi í fórum hans, sem og greiðslunni sem borist hafi inn á reikning hans. Kærði liggi því að mati héraðssaksóknara undir sterkum grun um að hafa rænt brotaþola með grófum hætti og látið millifæra á reikning sinn 1.050.000 krónur og rænt síma, bakpoka og fartölvu.
Saksóknarfulltrúi tekur fram að mál þetta hafi borist héraðssaksóknara 24. apríl sl. Ákvörðun um saksókn verði tekin innan tíðar. Brot það sem kærði sé sterklega grunaður um sé sérstaklega alvarlegt og telji héraðssaksóknari að það geti varðað við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en slíkt brot geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannist. Þá kunni brotið eftir atvikum að falla undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Það sé mat lögreglu að nauðsyn sé til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna þar sem hann sé undir sterkum grun um að hafa með ofbeldi rænt einstakling og stungið í hönd hans með hníf/stunguvopni. Einnig sé það mat héraðssaksóknara að óeðlilegt sé að kærði gangi laus þar sem hann hafi framið gróft ránsbrot og að réttarvitund almennings krefjist þess að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi allt þar til að ákæra verði gefin út og dómur fellur vegna eðli brotsins.
Í greinargerð saksóknarfulltrúa kemur einnig fram að samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi kærði hlotið níu mánaða fangelsisdóm fyrir rán í [...] 2014, sbr. [...] og síðast tveggja mánaða fangelsidóm í [...] 2016 fyrir vörslur fíkniefna og umferðarlagabrot, sbr. [...]. Þrjú önnur mál bíði afgreiðslu hjá lögreglu, mál nr. [...], rannsókn á líkamsárás frá 26. mars sl., [...], umferðarlagabrot frá 22. mars sl., svipting ökuréttar og mál nr. [...], tilraun til fjársvika í [...] 18. mars sl. Þá sé mál lögreglunnar á Vesturlandi í Borgarnesi frá 12. júlí 2016 [...], þar sem kærði, ásamt fleiri mönnum, sé kærður fyrir rán, eftir atvikum fjárkúgun, frelsissviptingu og hótanir, til meðferðar hjá héraðssaksóknara.
Þá kemur fram að kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald 1. apríl sl. með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...]. Úrskurðurinn hafi verið staðfestur af Hæstarétti Íslands í máli réttarins nr. 214/2017. Að mati ákæruvaldsins sé því uppfyllt skilyrði ákvæðis 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, þar sem um sterkan grun sé að ræða. Einnig sé það mat ákæruvaldsins að almannahagsmunir krefjist þess að ákærði, sem sé undir sterkum grun um að hafa gerst sekur um jafn alvarlegt ránsbrot, sem varði allt að 16 ára fangelsi, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt þar til máli hans sé lokið hjá lögreglu, ákæruvaldi og fyrir dómi.
Niðurstaða
Ljóst er af framlögðum gögnum að kærði er undir sterkum grun um að hafa gerst sekur um brot gegn 233. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot gegn 233. gr. laganna varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum en brot gegn 252. gr. þeirra varða fangelsi allt að 10 árum, en allt að 16 árum hafi mjög mikil hætta verið samfara ráninu. Kærði er jafnframt talinn hafa otað hnífi að brotaþola og stungið hann í handarbakið. Fyrir liggur fyrir að kærði hefur áður hlotið fangelsisdóma, m.a. fyrir rán í [...] 2014. Kærði hefur nú dvalið á Litla-Hrauni í gæsluvarðhaldi frá 3. apríl sl. Hann hefur lagt fram bréf meðferðarfulltrúa þar sem fram kemur að þar hafi hann leitað eftir því að komast á svokallaðan meðferðargang og er á biðlista til þess.
Með dómi Hæstaréttar Íslands 4. apríl sl. í máli nr. 214/2017 var fallist á að nauðsynlegt sé, með tilliti til almannahagsmuna, að tryggja að kærði gangi ekki laus á meðan þetta mál er til meðferðar og að uppfyllt væru skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að gera kærða að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli þess ákvæðis. Hefur ekkert nýtt komið fram í málinu sem breytt geti því mati. Að þessu virtu og í ljósi alvarleika brotsins og sakarferils ákærða verður ekki fallist á að fyrrnefndri nauðsyn á því að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna verði mætt með öðrum hætti en þeim sem krafist er.
Að öllu framangreindu virtu verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 24. maí 2017, kl. 16.00.