Hæstiréttur íslands
Mál nr. 524/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Lausafjárkaup
- Eignarréttur
- Sértökuréttur
- Réttindaröð
|
|
Föstudaginn 29. ágúst 2014. |
|
Nr. 524/2014.
|
Þrotabú Norðurstrandar ehf. (Arnar Sigfússon hdl., skiptastjóri) gegn Arctic Linefish A/S (Einar Baldvin Axelsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Lausafjárkaup. Eignarréttur. Sértökuréttur. Réttindaröð.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um kröfu A við slit N ehf. Krafa A var til komin vegna viðskiptasambands milli A og N ehf., en A hafði á árinu 2009 og framan af árinu 2010 selt N ehf. frystan fisk frá Noregi gegn fyrirframgreiðslu. Á árinu 2010 varð breyting á fyrirkomulaginu þannig að N ehf. pantaði meira magn af fiski í einu sem var fluttur með S hf. í frystigeymslu þess á Íslandi og afhentur N ehf. smátt og smátt. Deildu aðilar einkum um það hvort A hefði verið eigandi að þeim fiski sem var til staðar í frystigeymslunni þegar bú N ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta og hvort A bæri þannig að fá söluandvirði fisksins greitt úr þrotabúinu á grundvelli 2. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hélt A því fram að á árinu 2010 hefðu aðilar samið um það að fiskurinn yrði fluttur í frystigeymslu S hf. á Íslandi og ekki afhentur N ehf. fyrr en félagið hefði greitt kaupverð hans og lagði fram ýmis gögn því til stuðnings. Taldi Hæstiréttur að A hefði fært fullnægjandi sönnur á að hann hefði verið eigandi að fiskinum þegar bú N ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að kröfu A um greiðslu á söluandvirði fisksins skyldi skipað í réttindaröð samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, en það sem eftir stóð af kröfu hans samkvæmt 113. gr. laganna.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. júlí 2014 þar sem viðurkennt var að krafa varnaraðila að fjárhæð 440.000 evrur nyti stöðu í réttindaröð við gjaldþrotaskipti sóknaraðila samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og krafa hans að fjárhæð 210.737,33 evrur stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. sömu laga. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 verði hafnað, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að krafa sín að fjárhæð 650.737,33 evrur verði viðurkennd á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt krefst hann kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins hóf varnaraðili, sem er norskt fyrirtæki, á árinu 2009 að selja Norðurströnd ehf., sem var fiskvinnslufyrirtæki á Dalvík, frystan fisk. Í upphafi mun viðskiptunum hafa verið háttað þannig að Norðurströnd ehf. pantaði tiltekið magn af fiski hjá varnaraðila og greiddi fyrir hann fyrir fram. Eftir að greiðsla hafði borist mun fiskurinn hafa verið afhentur íslenska einkahlutafélaginu í Tromsö í Noregi og það séð um flutning hans hingað til lands. Að sögn varnaraðila fór Norðurströnd ehf. fram á það á árinu 2010 að fá að panta meira magn af fiski í einu sem yrði fluttur hingað til lands og síðan afhentur félaginu smátt og smátt úr frystigeymslu Samskipa hf. á Dalvík eftir því sem greitt væri fyrir hann. Heldur varnaraðili því fram að samið hafi verið svo um að Norðurströnd ehf. skyldi greiða fyrir flutning á fiskinum hingað til lands og geymslu hans hjá Samskipum hf. Því til stuðnings hefur varnaraðili lagt fram óundirritaða skilmála fyrir pöntun 7. september 2010 þar sem meðal annars kom fram að fiskurinn, sem pantaður hafði verið, skyldi geymdur í frystigeymslu Samskipa hf. „under ALF´s account“, en Norðurströnd ehf. bæri að greiða geymslukostnaðinn. Greiðsluskilmálar væru þeir að 10% af kaupverðinu skyldu greidd þegar fiskurinn yrði sendur frá Vadsø í Noregi og 90% áður en hann yrði afhentur úr frystigeymslunni. Þá hefur þáverandi framkvæmdastjóri Norðurstrandar ehf. borið fyrir dómi að viðskiptunum hafi verið með framangreindum hætti frá árinu 2010. Í hinum kærða úrskurði er lýst tölvupóstsamskiptum milli varnaraðila og Samskipa hf. á tímabilinu frá nóvember 2011 til desember 2012 þar sem sá fyrrnefndi veitti skipafélaginu oftsinnis heimild til að afhenda Norðurströnd ehf. nánar tiltekið magn fisks og starfsmenn félagsins staðfestu að svo yrði gert.
Á tímabilinu frá maí til júlí 2012 fluttu Samskip hf. hingað til lands alls 377.002 kg af frystum fiski frá varnaraðila til vinnslu hjá Norðurströnd ehf. og var fiskinum komið fyrir í frystigeymslu skipafélagsins á Dalvík. Í samræmi við fyrirmæli varnaraðila 18. júní og 31. júlí 2012 til Samskipa hf. voru Norðurströnd ehf. afhent samtals 110.525 kg af fiski úr frystigeymslunni eftir að fyrirtækið mun hafa greitt umsamið kaupverð fyrir hann. Samkvæmt reikningum, útgefnum af varnaraðila, nam kaupverð þeirra 266.477 kg af fiski, sem eftir stóðu í lok júlí og ekki hafði verið greitt fyrir, 650.737,33 evrum. Á síðari hluta árs 2012 fékk Norðurströnd ehf. afhent 73.789 kg af fiski úr frystigeymslunni án þess að greitt væri fyrir fiskinn og fyrir lægi heimild varnaraðila til afhendingar hans, en aðila greinir á um hvort þörf hafi verið á að afla slíks leyfis fyrir afhendingunni eins og síðar verður vikið að. Í desember 2012 voru því enn í frystigeymslunni 192.688 kg af fiski sem ekki höfðu verið afhent Norðurströnd ehf. Samkvæmt áðurgreindum reikningum varnaraðila fyrir kaupunum var fiskurinn sendur hingað til lands „FOB“. Eru málsaðilar sammála um að Norðurströnd ehf. hafi borið kostnað við flutnings farmsins og vátryggingu hans og þar með hafi áhættan af hinu selda flust yfir á félagið um leið og farmurinn fór um borð í skip. Á farmbréfum, sem varnaraðili mun hafa útbúið, var hann skráður sendandi. Á sumum þeirra var hann jafnframt sagður viðtakandi farmsins, en á öðrum var í stað viðtakanda skráð „TO ORDER“.
Bú Norðurstrandar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 13. desember 2012. Hinn 20. mars 2013 gerðu aðilar þessa máls, Íslandsbanki hf. og Marúlfur ehf. með sér samkomulag um að síðastnefnda félagið keypti þau 192.688 kg af fiski, sem voru í frystigeymslu Samskipa hf. á Dalvík, fyrir 440.000 evrur „til þess að forða tjóni á fisknum og spara geymslugjöld“ eins og komist var að orði í 1. gr. samkomulagsins. Í 2. gr. þess sagði ennfremur: „Þegar fyrir liggur hver er eigandi fisksins skal Marúlfur ehf. greiða framangreint söluverð, annað hvort gegn reikningi frá þrotabúi Norðurstrandar ehf., ef þrotabúið er talið eigandi fisksins, eða gegn reikningi frá Arctic Linefish a/s, ef félagið er talið eiga fiskinn.“ Sóknaraðili kveðst hafa greitt Samskipum hf. 19.109.147 krónur svo að unnt yrði „að losa hráefnið úr vörugeymslu og selja“ Marúlfi ehf. fiskinn á grundvelli samkomulagsins, en skipafélagið hafði lýst kröfu að þeirri fjárhæð á hendur sóknaraðila og hún verið viðurkennd við gjaldþrotaskiptin með stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991.
Ágreiningur í máli þessu lýtur fyrst og fremst að því hvort varnaraðili hafi verið eigandi að þeim 192.688 kg af fiski sem voru til staðar í frystigeymslu Samskipa hf. þegar bú Norðurstrandar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta og seld voru fyrir 440.000 evrur. Verði á það fallist greinir aðila á um það hvort draga skuli frá söluandvirðinu þá fjárhæð sem sóknaraðili innti samkvæmt framansögðu af hendi til Samskipa hf.
II
Í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um að afhenda skuli eign í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að henni. Hafi þrotabúið selt eignina getur þriðji maður samkvæmt 2. mgr. krafist greiðslu þess sem þrotabúið fékk við söluna, eftir atvikum að frádregnum kostnaði sem búið hefur haft af varðveislu og sölu eignarinnar. Slík krafa skal greidd á undan öllum öðrum kröfum á hendur búinu.
Samkvæmt þessari lagagrein hvílir á varnaraðila sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi verið eigandi að fiskinum sem sendur hafði verið til vinnslu hjá Norðurströnd ehf. og var í frystigeymslu Samskipa hf. þegar bú fyrrnefnda félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Þótt ekki hafi verið gerður skriflegur samningur milli varnaraðila og Norðurstrandar ehf. um kaup á þeim fiski, sem hér um ræðir, heldur varnaraðili því fram að svo hafi verið um samið milli þeirra að fiskurinn yrði fluttur hingað til lands í áðurgreinda frystigeymslu og ekki afhentur einkahlutafélaginu fyrr en það hefði greitt kaupverð hans. Samkvæmt því kveðst varnaraðili hafa verið eigandi fisksins þar til greitt hefði verið fyrir hann af Norðurströnd ehf. og hann verið afhentur því félagi. Hefur varnaraðili fært fram ýmis sönnunargögn til stuðnings þessari staðhæfingu sinni eins og gerð er grein fyrir að framan. Sóknaraðili hefur dregið sönnunargildi sumra þessara gagna í efa, en ekki lagt fram af sinni hálfu nein gögn sem styðja að öðru vísi hafi verið um samið. Að þessu hvoru tveggja virtu verður að telja að varnaraðili hafi fært fullnægjandi sönnur á að hann hafi verið eigandi að fiskinum þegar bú Norðurstrandar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt því er fallist á að krafa hans um greiðslu á söluandvirði fisksins, að fjárhæð 440.000 evrur, njóti stöðu í réttindaröð við skiptin samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991.
Eftir áðurgreindu lagaákvæði ber að draga frá kröfufjárhæðinni þann kostnað sem sóknaraðili hefur sannanlega haft af varðveislu fisksins og sölu hans. Í samræmi við það krefst sóknaraðili þess að krafa varnaraðila verði lækkuð um þær 19.109.147 krónur sem hann kveðst hafa greitt Samskipum hf. til að unnt væri að fá fiskinn afhentan og selja hann. Því telur sóknaraðili að greiðslan sé beintengd sölunni. Hann hefur hins vegar ekki fært fram nein sönnunargögn til stuðnings þessari staðhæfingu, svo sem yfirlýsingu frá skipafélaginu um að greiðsla á þessari fjárhæð hafi verið forsenda fyrir afhendingu fisksins. Þótt fullt tilefni væri til hefur sóknaraðili heldur ekki lagt fram sundurliðun á greiðslunni, en því er haldið fram af varnaraðila að hluti hennar hafi ekki tengst flutningi og geymslu á þeim fiski sem hér um ræðir. Er krafa sóknaraðila því svo vanreifuð að ekki er unnt að leggja dóm á hana.
Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, þrotabú Norðurstrandar ehf., greiði varnaraðila, Arctic Linefish A/S, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 2. júlí 2014.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 7. maí, er komið til dómsins með bréfi skiptastjóra varnaraðila, þrotabús Norðurstrandar, kt. [...], dagsettu 1. júlí 2013, þar sem hann vísaði til dómsins ágreiningi sem komið hefði upp við skiptin.
Sóknaraðili málsins, Artic Linefish A/S, Otneimneset, Strandlandet, Noregi, gerir í málinu þá endanlegu aðalkröfu að viðurkennd verði sértökukrafa sín, samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, í bú Norðurstrandar ehf. að fjárhæð 440.000 evrur, en 210.737,33 evrur sem almenn krafa. Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa sín í þrotabúið er lúti að greiðslu 650.737,33 evrum fyrir samtals 266.477 kg af línuveiddum sjófrystum fiski, hlýra og steinbít, sem sendur hafi verið hingað til lands með sendingum nr. 900 530, 900 560 og 900 572 verði viðurkennd sem almenn krafa á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991.
Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili þess að krafa hans um greiðslu 500.000 króna innheimtukostnaðar og dráttarvaxta á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 ofan á höfuðstól kröfunnar frá 13. desember 2012 til greiðsludags, verði viðurkennd sem eftirstæð krafa á grundvelli 114. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili krefst málskostnaðar að mati dómsins úr hendi varnaraðila. Við ákvörðun hans verði litið til þess að sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur á Íslandi.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og honum gert að greiða varnaraðila málskostnað að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
Málavextir
Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, upp kveðnum 13. desember 2012, var bú Norðurstrandar ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið hafði rekið fiskvinnslu en ekki útgerð og því keypt hráefni til vinnslu. Sóknaraðili, sem er norskt félag er sinnir sölu fiskhráefnis, var svonefndur birgir félagsins. Við skiptin lýsti sóknaraðili kröfu um að nánar tilgreint hráefni, 266.477 kg af línuveiddum sjófrystum fiski, hlýra og steinbít, sem geymt var í kæligeymslu Samskipa hf. á Dalvík, yrði afhent sér utan skuldaraðar skv. 109. gr. laga nr. 21/1991. Til vara var kröfunni lýst sem skaðabótakröfu á grundvelli 3. mgr. 110. gr. laganna og til þrautavara sem kröfu á grundvelli 111. og 112. gr. laganna. Skiptastjóri hafnaði kröfunni með því að afhending hráefnisins til Norðurstrandar ehf. hefði farið fram, enda hefði hráefnið verið í vörzlu félagsins. Um lánsviðskipti hefði verið að ræða. Á skiptafundi tók fulltrúi Íslandsbanka hf. undir afstöðu skiptastjóra. Ágreiningur málsins snýst um hvort hráefnið hafi á þessum tíma verið eign sóknaraðila eða komið úr hans eigu til Norðurstrandar ehf. og síðar þrotabús félagsins.
Með samkomulagi dags. 20. marz 2013 gerðu aðilar þessa máls, Íslandsbanki hf. og fiskvinnslufyrirtækið Marúlfur ehf. með sér samkomulag um að Marúlfur ehf. keypti umræddan fisk og greiddi fyrir 440.000 evrur auk vaxta af sérstökum geymslureikningi er það fé skyldi geymt á, þar til niðurstaða fengist um eignarhald hráefnisins. Var samkomulagið gert til að „forða tjóni á fisknum og spara geymslukostnað“.
Óumdeilt er í málinu að hráefnið sem um ræðir var pantað frá sóknaraðila, flutt árið 2012 til Íslands í sendingum sem númeraðar voru 900 530, 900 560 og 900 572, og geymt í kæligeymslu Samskipa hf. á Dalvík. Á reikningum vegna sendinganna stendur um greiðsluskilmála „Payment before release“ eða „Net cash before release“. Á farmbréfum er sóknaraðili tilgreindur sem sendandi og viðtakandi.
Óumdeilt er að hráefnið hafi í kæligeymslunni verið geymt á nafni Norðurstrandar ehf. og hafi það félag greitt geymslukostnaðinn.
Þá er óumdeilt að Samskip hf. hafi afhent Norðurströnd ehf. hluta þessa hráefnis án þess að um slíkt hafi komið sérstakt leyfi sóknaraðila.
Í málinu eru útprentuð tölvubréf milli sóknaraðila og Samskipa hf. frá nóvember 2011 og fram í desember 2012, þar sem sóknaraðili segist heimila afhendingu nánar tiltekins fjölda bretta, „pallets“, til Norðurstrandar ehf. Í mörgum tilvikum svarar starfsmaður Samskipa hf. og segir svo verða gert.
Með bréfi, dagsettu 25. október 2011, staðfestir nafngreindur yfirmaður hjá Samskipum hf. á Akureyri, „operation manager & sales manager domestic“, að „products according to proforma invoice no: 900 402 will stay in Samskip coldstore located at Ránarbraut 9, 620 Dalvík until products have been released by Artic Linefish A/S.“
Með yfirlýsingu til sóknaraðila, dagsettri 12. desember 2012, staðfestir Guðmundur St. Jónsson, framkvæmdastjóri Norðurstrandar ehf., að það sem sé ógreitt af sendingum, sem mál þetta varðar, sé eign sóknaraðila.
Hinn 4. desember 2012 tilkynntu Samskip hf. Norðurströnd ehf. að lagt hefði verið hald á þær vörur sem fluttar hefðu verið fyrir Norðurströnd ehf. og geymdar væru í frystigeymslum Samskipa hf. á Dalvík. Væri þetta gert vegna útistandandi skuldar Norðurstrandar ehf. við Samskip hf. vegna ógreiddra flutningsgjalda/geymslugjalda og annars kostnaðar, alls 17.169.835 króna. Sama dag skrifuðu Samskip hf. sóknaraðila bréf þar sem upplýst var um þetta, en í bréfinu segir meðal annars að Samskip hf. hafi „for the past few months transported and stored goods for Norðurströnd ehf. among which have belonged to Artic Linefish a/s.“ Í bréfinu er tekið fram að það sé einungis sent í upplýsingaskyni en skapi sóknaraðila engin réttindi.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveðst byggja aðalkröfu sína á því að hann hafi, þegar bú Norðurstrandar ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, verið eigandi þess fiskhráefnis sem sóknaraðili hafi sent í Íslands í sendingum sem borið hafi tilvísunarnúmerin 900 530, 900 560 og 900 572, og að sá eignarréttur hafi hvorki færzt yfir til Norðurstrandar ehf. né varnaraðila. Kveðst sóknaraðili byggja þetta einkum á þeim forsendum að Norðurströnd ehf. hafi ekki greitt fyrir hráefnið, að samningur aðila og sameiginlegur skilningur allra þeirra sem málið hafi varðað hafi gert ráð fyrir að hráefnið tilheyrði sóknaraðila þar til fyrir það hefði verið greitt, og að hráefnið hafi aldrei verið afhent. Verður nú rakið það sem sóknaraðili kveðst styðja þessi sjónarmið við.
Um að ekki hafi verið greitt fyrir hráefnið
Sóknaraðili segir óumdeilanlegt að ekki hafi verið greitt fyrir þann hluta sendinga nr. 900 530, 900 560 og 900 572, sem sóknaraðili hafi lýst í þrotabú varnaraðila, samtals 266.477 kg af fiskhráefni sem hafi verið að andvirði 650.737,33 evrur. Af gögnum málsins megi sjá að sóknaraðili og Norðurströnd ehf. hafi samið með þeim hætti að yfirfærsla eignarréttar skyldi ekki verða fyrr en greitt hefði verið. Megi það sjá af „undirliggjandi pro-forma reikningum“ þar sem vísað sé til þess að afhending fari einungis fram gegn greiðslu kaupverðsins, „payment before release“ eða „net cash before release“. Þannig hafi staðgreiðsluviðskipti verið stunduð. Megi með engum hætti jafna viðskiptum aðila til lánsviðskipta eins og skiptastjóri hafi byggt á. Fullyrði skiptastjóri þar án rökstuðnings enda styðji engin gögn eða skjöl slíka niðurstöðu. Sé afstöðu skiptastjóra alfarið mótmælt.
Sóknaraðili segir það meginreglu að hönd selji hendi. Þannig beri seljanda ekki skylda til að láta seldan hlut af hendi nema kaupverðið sé greitt samtímis, og kaupanda ekki skylda til að greiða nema hann fái hið selda samtímis til umráða. Gildi þessi regla nema öðruvísi sé samið. Svo lengi sem kaupverðið sé ógreitt geti seljandi gripið til vanefndaúrræða, svo sem haldið eftir greiðslu og rift kaupum. Svo lengi sem seljandi hafi þennan rétt verði að líta svo á að eignin heyri honum enn til.
Sóknaraðili segir að á samkomulagi sínu og Norðurstrandar ehf. sem gert hafi verið um sendingu 900 165 og af allri framkvæmd viðskiptanna eftir þann tíma sem staðfest sé í umfangsmiklum tölvupóstsamskiptum milli sóknaraðila og Samskipa hf., pro-forma reikningum vegna sendinga 900 530, 900 560 og 900 572, sem og öðrum gögnum málsins, megi sjá að sóknaraðili hafi aldrei afhent Norðurströnd ehf. hráefni án þess að Norðurströnd ehf. hafi áður greitt fyrir það. Staðfesti þetta jafnframt að fyrirtækin hafi ekki ætlað sér að stunda lánsviðskipti með þeim hætti að Norðurströnd ehf. yrði eigandi hráefnisins við afhendingu gegn gjaldfresti. Staðgreiðsluviðskipti hafi verið stunduð og afhending aldrei nema gegn greiðslu kaupverðs.
Sóknaraðili segir að af framangreindu megi ráða að grundvallarforsenda fyrir yfirfærslu eignarréttar að greitt hafi verið fyrir hráefnið. Afhending hafi ekki farið fram nema gegn greiðslu og þannig sé ljóst að ekki hafi verið um lánsviðskipti að ræða. Þar sem ekki hafi verið greitt fyrir töku bús Norðurstrandar ehf. til gjaldþrotaskipta verði að telja ógreitt hráefni enn hafa verið í eigu sóknaraðila við gjaldþrotið. Beri varnaraðila því að afhenda hráefnið á grundvelli 109. gr. gjaldþrotalaga.
Um að hráefnið hafi tilheyrt sóknaraðila þar til greitt hafi verið fyrir það
Sóknaraðili segir að eignarréttur að hráefninu heyri honum til á grundvelli samnings við Norðurströnd ehf. sem og sameiginlegum skilningi allra þeirra er að málinu hafi komið. Sóknaraðili og Norðurströnd ehf. hafi samið um að hráefnið yrði afhent gegn greiðslu og samningurinn þannig verið miðaður við að eignarréttur að því tilheyrði sóknaraðila þar til fyrir það hefði verið greitt og það afhent Norðurströnd ehf.
Sóknaraðili segir að framkvæmdastjóri Norðurstrandar ehf., Guðmundur St. Jónsson, hafi staðfest slíkt samkomulag, þar á meðal að hráefnið sem flutt hafi verið til Íslands hafi alfarið verið í eigu sóknaraðila þar til Norðurströnd ehf. hafi greitt fyrir það. Þetta hafi Guðmundur gert með yfirlýsingu 12. desember 2012 og síðar með annarri 5. júní 2013. Þá hafi forsvarsmaður sóknaraðila, Rune Dalsbö, jafnframt lýst því yfir að samkomulag sóknaraðila og Norðurstrandar ehf. hafi verið með þessum hætti. Sé því ljóst að sóknaraðili og Norðurströnd ehf. hafi haft nákvæmlega sama skilning á viðskiptasambandi aðila auk þess sem ritað hafi verið undir samkomulag þar sem skýrt hafi verið kveðið á um eignarrétt sóknaraðila að fiskhráefninu þar til Norðurströnd ehf. hafi greitt fyrir það.
Þá kveðst sóknaraðili vísa til birgðalista Norðurstrandar ehf. sem afhentir hafi verið Íslandsbanka hf. Bankinn hafi fjármagnað öll hráefniskaup Norðurstrandar ehf. og hafi tekið allsherjarveð í eigin sjávarafurðum, afla, afurðum og rekstrarvörum Norðurstrandar ehf. Til að skilyrði lánasamningsins væru uppfyllt hafi lán Norðurstrandar ehf. aldrei mátt nema hærri fjárhæð en sem svarað hafi til 75% samanlagðs áætlaðs kostnaðarverðmætis birgða, afurða og útistandandi viðskiptakrafna og til að ganga úr skugga um að svo væri ekki hafi bankanum reglulega verið sendir birgðalistar yfir þær birgðir sem verið hafi í eigu Norðurstrandar ehf. á hverjum tíma. Á birgðalistum frá 23. marz 2012 sé ekki að finna neitt hráefni frá sóknaraðila en á listum frá 26. september 2012 sé getið steinbíts að verðmæti 22.838 evrur sem hluta af birgðum Norðurstrandar ehf. Þessi steinbítur sé hluti hráefnis sem Norðurstrandar ehf. hafi greitt fyrir og í framhaldinu fengið afhent, úr sendingu nr. 900 530. Annað hráefni úr sendingu 900 530 sé hins vegar ekki tilgreint á birgðalistunum. Þá hafi ekkert hráefni úr sendingum 900 560 og 900 572 verið tilgreint á listunum. Styðji þetta þá fullyrðingu að bæði Norðurströnd ehf. og Íslandsbanki hf. hafi staðið í þeirri trú að hráefnið tilheyrði sóknaraðila þar til Norðurströnd ehf. hefði greitt fyrir það og fengið afhent. Þá segir sóknaraðili að geta megi þess að það hafi verið Íslandsbanki hf. sem farið hafi fram á að bú Norðurstrandar ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta á þeim grundvelli að fyrirtækið hafi ekki getað sýnt fram á að verðmæti birgða á lager næmi 75% fjárhæðar lánsins. Hefði það hráefni, sem verið hafi í geymslu Samskipa hf. og Norðurströnd ehf. hafi ekki greitt, verið tekið með í birgðaútreikninginn hefði Norðurströnd ehf. að líkindum uppfyllt skilyrði lánssamnings og þá ekki verið unnt að fara fram á gjaldþrotaskipti.
Um að hráefnið hafi ekki verið afhent
Sóknaraðili segir að afhending til kaupanda verði fyrst talin hafa farið fram þegar kaupandi hafi fengið raunveruleg umráð hins selda, þannig að hann geti ráðstafað því að vild. Verði að gera þá kröfu að hið selda sé komið í slík umráð kaupanda að hann einn hafi ráðstöfunarrétt yfir því. Þá fyrst sé hægt að segja að afhending hafi átt sér stað. Afhending hlutar til þriðja aðila sem sjái um flutning eða geymslu hlutarins teljist þannig ekki sjálfkrafa vera afhending til kaupanda vörunnar. Til að svo verði talið verði að vera um að ræða að ráðstöfunarréttur hafi, við afhendingu söluhlutar til þessa þriðja aðila, flutzt frá seljanda til kaupanda. Sóknaraðili segir að sé söluhlutur afhentur sjálfstæðum flutningsaðila til flutnings verði talið að sá flutningsaðili komi fram fyrir hönd seljanda og gildi það eins þótt kaupandi hafi samið um flutninginn. Það að kaupandi leiti eftir þjónustu flutningsaðila sem flytji vöruna á áfangastað feli þannig ekki í sér að varan verði talin afhent kaupanda þegar hún er afhent um borð í skip. Í þessu máli sé sóknaraðili tilgreindur í farmbréfum sem bæði seljandi og móttakandi fiskhráefnisins en Norðurströnd ehf. hvergi tilgreint sem viðtakandi og staðfesti það að hráefnið hafi ekki verið afhent Norðurströnd ehf. við flutninginn. Þá verði að telja það hafa sama gildi þegar söluhlutur sé afhentur sjálfstæðum geymsluaðila.
Sóknaraðili segir að í máli þessu hafi afhending átt sér stað til þriðja aðila, Samskipa hf. Það hafi hins vegar verið undir sóknaraðila komið hvenær Samskip hf. afhentu Norðurströnd ehf. hráefnið. Raunverulegur ráðstöfunarréttur hafi því verið hjá sóknaraðila en ekki Norðurströnd ehf.
Sóknaraðili segir að Norðurströnd ehf. hafi engan möguleika átt á að ráðstafa hráefninu á meðan það hafi verið í geymslu Samskipa hf. Það hafi ekki verið fyrr en Norðurströnd ehf. hafi greitt fyrir hráefnið og sóknaraðili gefið Samskipum fyrirmæli um afhendingu, að raunveruleg afhending hafi getað átt sér stað.
Sóknaraðili segir að engu breyti þótt Norðurströnd ehf. hafi greitt flutnings- og geymslukostnað. Þá breyti engu þótt Samskip hf. hafi í leyfisleysi afhent Norðurströnd ehf. nánar tilgreint magn fiskhráefnis án samþykkis sóknaraðila, rétt áður en Norðurströnd ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Af gögnum málsins megi sjá að slík afhending hafi ekki verið í samræmi við samkomulag aðila og hefði mál þetta aldrei risið ef ekki hefði verið fyrir þessa háttsemi Samskipa hf.
Sóknaraðili segir að við gjaldþrotið hafi sér verið heimilt að beita vanefndaúrræðum, þar á meðal stöðvunarrétti á grundvelli 90. gr. laga um gjaldþrotaskipti, þar sem ekki hefði verið greitt fyrir hráefnið. Hafi sóknaraðili þannig átt rétt á að fá hráefnið afhent utan skuldaraðar. Samskip hf. hafi hins vegar gert sóknaraðila ókleift að nýta þennan rétt sinn þar sem Samskip hf. hafi ákveðið upp á sitt eindæmi að afhenda varnaraðila fiskhráefnið.
Sóknaraðili segir, að jafnvel þótt dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu, gegn andmælum sóknaraðila, að fiskhráefnið teljist hafa verið afhent Norðurströnd ehf. fyrir gjaldþrot fyrirtækisins, myndi slík afhending ekki leiða til þess að eignarréttur hefði færzt yfir. Líta verði til fleiri atriða, svo sem þess hvað samið hafi verið um og þess að ekki hafi verið greitt fyrir hráefnið. Líta verði til réttinda og skyldna sóknaraðila og Norðurstrandar ehf. en möguleg réttarstaða þriðja aðila gagnvart þeim komi ekki til skoðunar við mat því hvort eignarréttaryfirfærsla hafi orðið.
Loks kveðst sóknaraðili vilja taka fram, vegna afstöðu skiptastjóra, að flutningsskilmálar hafi ekkert með yfirfærslu eignarréttar að gera. Það að fiskafurðir hafi verið sendar til Íslands á grundvelli fob, „Free on board“ INCOTERMS hafi ekkert með yfirfærslu eignarréttar að gera enda feli þessi INCOTERM skilmáli ekki í sér reglur um afhendingu söluhlutar heldur aðeins reglur um kostnaðarskiptingu og áhættuskipti.
Sóknaraðili kveðst styðja varakröfu sína við sömu sjónarmið og aðalkröfu.
Sóknaraðili segir kröfu sína um greiðslu innheimtukostnaðar sé til komin vegna ritunar kröfulýsingar, mætinga á skiptafundi og frekari samskipta við skiptastjóra. Krefjist sóknaraðili þess að krafan verði viðurkennd sem eftirstæð krafa á grundvelli 114. gr. gjaldþrotalaga. Þá sé krafa um greiðslu dráttarvaxta á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og sé þess krafizt að dráttarvextir verði greiddir af heildarfjárhæðinni, 650.737.33 evrum frá þeim tíma er bú Norðurstrandar ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og varnaraðila borið skylda til að afhenda sóknaraðila hráefnið. Krefst sóknaraðili þess að þessi krafa verði viðurkennd sem eftirstæð krafa á grundvelli 114. gr. gjaldþrotalaga.
Sóknaraðili segist einkum vísa til laga nr. 21/1991, til almennra reglna samninga- og kröfuréttar sem og meginreglna eignaréttar. Þá kveðst hann vísa til laga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað sé byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili segir að sóknaraðili byggi á því að fiskhráefni það sem hér um ræði hafi verið hluti sendinga nr. 900 530, 900 560 og 900 572. Varnaraðili segist byggja á því að sóknaraðili hafi ekki sannað eignarrétt sinn að þessu hráefni og því sé ekki hægt að fallast á að krafa hans sé sértökukrafa. Um lánsviðskipti hafi verið að ræða þar sem eignarréttur hafi flutzt til Norðurstrandar ehf. við afhendingu en á móti hafi sóknaraðili eignazt kröfu á Norðurströnd ehf. um greiðslu kaupverðsins.
Varnaraðili segist byggja á því að eftir afhendingu hafi sóknaraðili engan umráðarétt haft yfir vörunni og hafi hann afsalað sér fullum eignarrétti með afhendingu. Megi sjá í gögnum málsins að sóknaraðili hafi engan umráðarétt átt yfir vörunni eftir að hún hafi verið afhent í skip í Vadsö í Noregi og að Norðurströnd ehf. hafi greitt 10% af kaupverðinu strax við það tímamark. Hvergi í gögnum málsins megi finna samning milli Norðurstrandar ehf. og sóknaraðila eða yfirlýsingu frá Samskipum hf. eða öðrum geymsluaðilum er geri ráð fyrir að sóknaraðili geti ráðstafað vörum úr þeim sendingum, sem mál þetta varði, eftir að varan hafi verið komin um borð í skip í Vadsö. Hafi umráðarétturinn því verið í höndum Norðurstrandar ehf. sem hafi haft fulla heimild til að sækja vöruna í vöruskemmu Samskipa hf. og selja hana á eigin reikning. Sóknaraðili geti ekki byggt rétt á einhliða yfirlýsingum á proforma reikningum um að vöruna skuli greiða áður en hún verði sókt í vörugeymslu Samskipa hf. Þá sé ekki unnt að skýra slík fyrirmæli þannig að um staðgreiðsluviðskipti hafi verið að ræða heldur fremur að gjalddagi kröfu sóknaraðila á hendur Norðurströnd ehf. hafi átt að vera á afhendingardegi.
Varnaraðili kveðst mótmæla því að gerður hafi verið samningur um að vara úr sendingum nr. 900 530, 900 560 og 900 572 skyldi ekki afhendast Norðurströnd ehf. nema gegn greiðslu. Í gögnum málsins megi sjá að sóknaraðili hafi talið þörf á að fá sérstaka yfirlýsingu slíks efnis frá Samskipum hf. varðandi sendingu 900 402 og frá Ramma hf. vegna sendingar 900 353. Af þessum yfirlýsingum verði ekki dregin sú ályktun að þetta fyrirkomulag hafi verið almennt heldur að semja hafi þurft um það sérstaklega þegar takmarka hafi átt umráðarétt Norðurstrandar ehf. á tiltekinni sendingu.
Varnaraðili segist byggja á meginreglu lausafjárkauparéttar um að eignarréttur flytjist milli aðila við sama tímamark og áhættuskipti verði, við afhendingu hins keypta. Þó að val aðila á flutningsskilmálum ráði ekki eitt og sér hvenær eignarréttur flytjist milli aðila hafi með flutningsskilmálum verið samið um að varan yrði afhent kaupanda á skipsfjöl í Vadsö í Noregi. Þar sem ekki sé til að dreifa samningi milli sóknaraðila og Norðurstrandar ehf., um þær sendingar sem deilt sé um í þessu máli, sem kveði á um að eignarréttur haldist hjá sóknaraðila þrátt fyrir afhendingu, hafi afhendingin þau áhrif að umráðaréttur og eignarréttur flytjist til Norðurstrandar ehf.
Varnaraðili segir að um sendingar í viðskiptum sóknaraðila og Norðurstrandar ehf. hafi gilt farmskilmálar Incoterms 2010, staðlaðir skilmálar um sölu í samningi milli kaupanda og seljanda og samkvæmt þeim gildi „Free on board“-regla, eða „frítt um borð“, sem segi að afhending eigi sér stað þegar vörur hafi farið yfir borðstokk skips sem tilgreint sé af kaupanda. Í samræmi við reglur lausafjárkauparéttar hafi eignarréttur fiskhráefnisins þá flutzt til Norðurstrandar ehf.
Varnaraðili segir að í greinargerð sóknaraðila sé því lýst að fyrirkomulag flutnings fiskafurðanna hafi breytzt frá því Norðurströnd ehf. hafi flutt þær sjálft til Íslands á eigin kostnað og til þess að Norðurströnd ehf. pantaði stærri sendingar í einu sem yrðu fluttar til landsins í geymslu þriðja aðila. Varnaraðili segir að þrátt fyrir breytt fyrirkomulag hafi Norðurströnd ehf. enn greitt fyrir flutningana, nauðsynlegar tryggingar og geymslu hjá Samskipum hf. Breytt fyrirkomulag breyti því engu um afhendingartíma vörunnar. Áhættuskipti hafi orðið er sóknaraðili hafi afhent vöruna á skipsfjöl í Noregi. Varnaraðili segist byggja á því að ef litið yrði svo á að að „frítt um borð“-regla ætti ekki lengur við í viðskiptunum eftir þessar breytingar, taki við „Cost, Insurance and Freight“-regla, og samkvæmt henni eigi afhending sér stað til kaupanda strax og varan er lestuð yfir borðstokk á áfangastað. Hafi afhending því átt sér stað í síðasta lagi um leið og varan hafi verið lestuð yfir borðstokk á Dalvík.
Varnaraðili segist mótmæla því að skriflegar yfirlýsingar þrotamanns um efni meintra samninga hafi nokkurt sönnunargildi. Enn síður geti yfirlýsingar sóknaraðila um efnið verið sönnun um tilvist hans eða efni.
Varnaraðili segir að raunverulegur umráðaréttur yfir vörunni, í þeim sendingum sem deilt sé um í málinu, sjáist bezt af því að Samskip hf. hafi afhent þrotabúinu vöruna án þess að þrotabúið hafi greitt reikninga sóknaraðila. Þá sé viðurkennt í greinargerð sóknaraðila að sóknaraðili hafi alllengi vitað að Samskip hf. hafi afhent Norðurströnd ehf. vörur án greiðslu til sóknaraðila og án sérstakra fyrirmæla sóknaraðila. Varnaraðili segir að hefði sóknaraðili haft raunveruleg yfirráð yfir vörunni hefði hann ekki þurft að lýsa sértökukröfu í þrotabúið enda hafi varan ekki verið staðsett á starfsstöð Norðurstrandar ehf. Hefði sóknaraðili haft umráð vörunnar hefði honum átt að nægja að beina kröfu um afhendingu til Samskipa hf. Telji sóknaraðili sig hafa verið búinn að semja við Samskip hf. um geymslu vörunnar og skyldi hún ekki afhent Norðurströnd ehf. nema samkvæmt fyrirmælum sóknaraðila, sé eðlilegast að sóknaraðili beini kröfu sinn að Samskipum hf.
Varnaraðili segir að í greinargerð sóknaraðila sé viðurkennt að sóknaraðili hafi fengið alls 73.789 kg úr þeim sendingum, sem um sé deilt, frá Samskipum hf. á síðari hluta ársins 2012. Þá liggi fyrir í gögnum málsins skýr fyrirmæli sóknaraðila um að afhenda Norðurströnd ehf. eftirstöðvar sendingar 900 530. Hverjar sem niðurstöður málsins verði að öðru leyti, sé ljóst að þessar vörur hafi verið afhentar Norðurströnd ehf. Eini gildi hvort Samskipum hf. hafi verið það heimilt enda sé afhendingin óumdeild auk þess sem ósannað sé að þessar vörur hafi verið aðgreindar frá öðrum í vörzlu Norðurstrandar ehf. og því geti sértökukrafa sóknaraðila ekki náð til þeirra.
Í málavaxtalýsingu varnaraðila segir meðal annars að til að samkomulag aðila, Íslandsbanka hf. og Marúlfs ehf. gæti gengið eftir hafi verið nauðsynlegt að þrotabúið greiddi Samskipum hf. kröfur sem alls hafi numið 25.054.927 krónum. Hafi hún verið greidd úr þrotabúinu, með fyrirvara sóknaraðila og Íslandsbanka hf. um réttmæti hennar sem haldsréttarkröfu.
Varnaraðili segist krefjast þess að varakröfu sóknaraðila verði hafnað. Samkvæmt skýrum fyrirmælum 3. mgr. 99. gr. gjaldþrotalaga skuli kröfur á hendur þrotabúi í erlendum gjaldmiðli færðar til íslenzks eftir skráðu sölugengi á þeim degi sem úrskurður hafi gengið um töku bús til gjaldþrotaskipta, að því leyti sem þeim verði ekki fullnægt samkvæmt 109. til 111. gr. laganna. Varakrafa sóknaraðila feli í sér að krafan yrði samþykkt á grundvelli 113. gr. en engu að síður sé krafa sóknaraðila sett fram í erlendum gjaldmiðli. Þar sem krafa sóknaraðila sé ekki reifuð í samræmi við skýrt lagaboð verði ekki komizt hjá því að hafna henni. Þá sé hún einnig of seint fram komin og fullnægi ekki skilyrðum 117. gr. laganna. Í kröfulýsingu sóknaraðila sé kröfu hans hvergi lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. gjaldþrotalaga en samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laganna skuli tiltekið í kröfulýsingu svo skýrt sem verða megi hverrar stöðu sé krafizt í skuldaröð. Varakrafa sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði greinarinnar og beri að hafna henni.
Varnaraðili segist hafna kröfu um greiðslu innheimtukostnaðar að fjárhæð 500.000 krónur og greiðslu dráttarvaxta frá 13. desember 2012 til greiðsludags. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að innheimtuaðgerðir hafi hafizt á grundvelli laga nr. 77/1998 sbr. 24. gr. a, vegna ógreiddra reikninga til Norðurstrandar ehf. Þá hafi ekki verið lögð fram innheimtuviðvörun í samræmi við ákvæði laga nr. 95/2008, sbr. 7. gr. Enginn innheimtukostnaður hafi því fallið á kröfu sóknaraðila til viðbótar kröfu hans um tildæmdan málskostnað í máli þessu og beri því að hafna kröfu hans um að krafan verði viðurkennd sem eftirstæð krafa.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 skal afhenda þriðja manni eign eða réttindi í vörzlu þrotabús, sanni hann eignarrétt sinn að þeim. Hafi þrotabúið selt þessa eign eða réttindi getur þriðji maður samkvæmt 2. mgr. sömu greinar krafizt greiðslu þess sem þrotabúið fékk í sinn hlut við söluna. Í upphaflegum kröfum sínum í málinu krafðist sóknaraðili þess að greiðsla á alls 650.737,33 evrum, fyrir samtals 266.477 kg af nánar greindum fiski, yrði viðurkennd sem sértökukrafa, en undir rekstri málsins breytti sóknaraðili dómkröfum sínum þannig að hann krafðist þess að fjárhæð, sem svarar til þeirrar upphæðar sem óumdeilt er að varnaraðili hafi í raun fengið greidda fyrir hráefnið, verði viðurkennd sem sértökukrafa, en önnur fjárhæð lægri sem almenn krafa.
Ekkert bendir til þess að Norðurströnd ehf. hafi greitt sóknaraðila fyrir það hráefni sem hér skiptir máli.
Fyrir dómi báru vitnin Rune Dalsbö, Kjartan Jónsson og Guðmundur Stefán Jónsson að fyrirkomulag viðskipta sóknaraðila og Norðurstrandar ehf. hefði verið þannig að sóknaraðili væri eigandi þess hráefnis sem ógreitt væri hverju sinni. Það væri ekki fyrr en eftir greiðslu Norðurstrandar ehf. sem því félagi væri afhent hráefni og það eignaðist hráefnið. Rune Dalsbö er starfsmaður sóknaraðila, Kjartan umboðsmaður sóknaraðila á Íslandi en Guðmundur Stefán, sem var framkvæmdastjóri Norðurstrandar ehf. er nú framkvæmdastjóri Marúlfs ehf. sem að hans sögn stundar samskonar rekstur og Norðurströnd ehf. áður og kaupir fisk til vinnslu af sóknaraðila. Við mat á sönnunargildi vitnisburðar þeirra í málinu verður að horfa til þessa og eins þegar horft er til áðurrakinnar yfirlýsingar vitnisins Guðmundar Stefáns.
Ágreiningur máls þessa er um það hver hafi verið eigandi þess hráefnis sem var á geymdur á nafni Norðurstrandar ehf. í frystigeymslum Samskipa hf. þegar Norðurströnd ehf. var tekin til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili byggir á því sú regla hafi gilt að hann ætti hráefnið en Norðurströnd ehf. fengi umráð og eignarrétt í samræmi við þær greiðslur sem félagið innti af hendi til sóknaraðila. Varnaraðili byggir á því að enginn samningur liggi fyrir í málinu milli sóknaraðila og Norðurstrandar ehf. um eignarhald sóknaraðila, og miða verði við að Norðurströnd ehf. hafi verið eigandinn.
Í málinu liggur fyrir að sóknaraðili sendi Samskipum hf. margoft tilkynningar að nú mætti afhenda Norðurströnd ehf. hráefni af svo og svo mörgum brettum í frystigeymslu, og Samskip hf. svara alloft þar sem þau staðfesta að þau muni gera svo. Þykir þetta sterk vísbending í þá átt að sóknaraðili hafi talið sig eiganda hráefnisins á þeim tíma, en að öðrum kosti hefðu þessar tilkynningar verið æði sérstakar.
Sóknaraðili byggir á því að á birgðalistum Norðurstrandar ehf. til Íslandsbanka hf. séu umþrættar birgðir ekki taldar til birgða í eigu Norðurstrandar ehf. Þessari staðhæfingu hefur ekki verið mótmælt og hún fær stoð í gögnum málsins og verður miðað við hana. Bendir þetta til þess að Norðurströnd ehf. hafi ekki talið sig eiga umræddar birgðir.
Á reikningum vegna sendinganna eru skráðir skilmálarnir „payment before release“ eða „net cash before release“. Þykir þetta styðja að um viðskiptin hafi gilt sú regla að vara yrði ekki afhent óborguð.
Farmbréf sendinganna tilgreina sóknaraðila sem bæði sendanda þeirra og viðtakanda.
Þegar á framanritað er horft, bréfaskipti sóknaraðila og Samskipa hf. um heimila afhendingu bretta, birgðalista Norðurstrandar ehf., farmbréfin og skilmála reikninga, þykir sóknaraðili hafa fært sönnur á að í viðskiptum hans og Norðurstrandar ehf. hafi gilt sú regla að sóknaraðili hafi verið eigandi þess hráefnis sem ógreitt hafi verið hverju sinni.
Í tölvubréfi sóknaraðila til Samskipa hf. 13. júlí 2013 biður sóknaraðili Samskip hf. um að „release balance on order 900 530.“ Í öðru tölvubréfi í framhaldi af hinu fyrra, 19. júlí 2013, segir sóknaraðili hins vegar: „Did you transfer balance, or is it still in our position? I sent wrong release message last week.“ Ekkert er komið fram í gögnum málsins sem bendir til að fyrra tölvubréfinu hafi verið framfylgt, en í næsta skeyti í framhaldi af þessu biður sóknaraðili um tiltekna afhendingu, og fær svarið „ok“.
Þar sem telja verður að sóknaraðili hafi sannað hann hafi verið eigandi alls ógreidds hráefnis og ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að Norðurströnd ehf. hafi verið búin að greiða fyrir það hráefni sem hér skiptir máli, verður að líta svo á að sóknaraðili hafi verið eigandi þess er Norðurströnd ehf. var tekin til gjaldþrotaskipta. Óumdeilt er að hráefnið var selt og fengust fyrir það 440.000 evrur. Eins og málinu er háttað þykir verða að fallast á að sú fjárhæð verði viðurkennd sem sértökukrafa sóknaraðila samkvæmt 109. gr. laga nr. 91/1991. Ekkert er því til fyrirstöðu að krafa sé gerð í erlendum gjaldmiðli þótt við úthlutun úr búinu verði greitt í krónum eftir umreiknun. Þá verður ekki talið að sóknaraðila sé óheimilt að breyta kröfu sinni, frá kröfulýsingu, þannig að hluta kröfu, sem krafizt hafi verið samkvæmt 109. gr. verði krafizt sem almennrar kröfu. Verður einnig fallizt á að krafa um 210.737,33 evrur verði viðurkennd sem almenn krafa.
Í málavaxtalýsingu sinni segir varnaraðili að Samskipum hf. hafi verið greiddar alls 25.054.927 krónur sem hafi verið nauðsynlegt svo koma hafi mátt hráefninu í verð. Sú fjárhæð er ekki sundurliðuð frekar í greinargerð varnaraðila og þar ekki krafizt lækkunar krafna vegna hennar, en við munnlegan málflutning var af hálfu varnaraðila sagt að slík greiðsla hlyti að lækka kröfu sóknaraðila og reifað að fram kæmi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 824/2013 að þrotabúið hefði greitt Samskipum hf. 19.109.147 krónur í vangreidd flutnings- og geymslugjöld. Af hálfu sóknaraðila var því mótmælt að þessi fjárhæð skyldi dregin frá kröfum sóknaraðila, en krafan væri ekki sundurliðuð og ekki kæmi fram hvað væri vegna flutnings og hvað vegna geymslu þess hráefnis sem hér skipti máli. Væru miklar líkur á að stór hluti fjárhæðarinnar varðaði kostnað sem ekki kæmi sóknaraðila við. Að mati dómsins hefur varnaraðili ekki sýnt fram á í málinu að sú greiðsla, sem greidd hafi verið Samskipum hf. með þessum hætti, hafi verið þess eðlis að hana eigi óhjákvæmilega að draga frá sértökukröfu sóknaraðila og ekki þykir hafa verið sýnt fram á að hvaða leyti þessi fjárhæð kunni að vera vegna kostnaðar sem búið hafi haft af varðveizlu hráefnisins eða nauðsynleg vegna sölu þess. Með því er engin efnisleg afstaða tekin til þeirrar greiðslu til Samskipa hf. að öðru leyti. Krafa sóknaraðila um greiðslu 500.000 króna innheimtukostnaðar og dráttarvexti þykir vanreifuð og verður vísað frá dómi.
Með vísan til framanritaðs verður fallizt á aðalkröfu sóknaraðila svo sem í úrskurðarorði greinir og krafa hans um 440.000 evrur viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 við skipti þrotabús Norðurstrandar ehf. en krafa um 210.737,33 evrur viðurkennd sem almenn krafa. Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila 1.255.000 krónur í málskostnað en við ákvörðun málskostnaðarins var litið til reglna um greiðslu virðisaukaskatts. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu sóknaraðila fór Áslaug Björgvinsdóttir hdl. með málið en Ásgerður Þ. Hannesdóttir hdl. af hálfu varnaraðila.
Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Við skipti varnaraðila, þrotabús Norðurstrandar ehf., er viðurkennd krafa sóknaraðila, Artic Linefish A/S, að fjárhæð 440.000 evrur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Krafa sóknaraðila að fjárhæð 210.737,33 evrur er viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 1.255.000 krónur í málskostnað.