Hæstiréttur íslands

Mál nr. 133/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Föstudaginn 5

 

Föstudaginn 5. apríl 2002.

Nr. 133/2002.

Tinna Jóhannsdóttir

 

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

 

gegn

 

Stáltaki hf.

 

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.     

T krafðist þess að S hf. yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur henni. Til stuðnings kröfunni lagði hún fram gögn um að S hf. hefði notið heimildar til greiðslu­stöðvunar og til að leita nauðasamnings, svo og að félagið hefði á ákveðnum tíma verið talið í vanskilum með níu tilgreindar kröfur samkvæmt svo­kallaðri vanskilaskrá. Í málinu lá fyrir að frumvarp að nauðasamningi S hf. hafði verið samþykkt og félagið krafist staðfestingar nauðasamningsins fyrir héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar segir að fáist nauðasamningurinn staðfestur muni hann í engu skerða kröfu T um máls­kostnað í málinu, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. T hafi ekki hnekkt því mati umsjónarmanns með nauða­samningsumleitunum að S hf. eigi að verða fært að standa í skilum við lánar­drottna sína ef samningurinn verði staðfestur. Hafi T því ekki á þessu stigi fært fram nægar líkur fyrir því að S hf. verði ekki fært að greiða málskostnað, sem kynni að verða lagður á það í málinu. Var kröfu T hafnað.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur henni. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja tryggingu að fjárhæð 1.000.000 krónur fyrir greiðslu málskostnaðar í málinu. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður. Til vara krefst hann þess að málskostnaðartrygging verði ekki ákveðin hærri en 250.000 krónur og falli þá kærumálskostnaður niður.

Varnaraðili höfðaði mál þetta gegn sóknaraðila með stefnu 9. janúar 2002 og var það þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 12. febrúar sama árs. Í málinu krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða sér skuld samkvæmt þremur reikningum að eftirstöðvum alls 1.254.324 krónur. Sóknaraðili lét sækja þing við þingfestingu málsins og krafðist þess að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 1.000.000 krónur. Þá kröfu hefur sóknaraðili rökstutt með því að varnaraðili hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar 26. september 2001, en henni hafi lokið 9. janúar 2002, sama dag og héraðsdómsstefna í málinu var gefin út. Varnaraðila hafi síðan 11. janúar 2002 verið veitt heimild til að leita nauðasamnings. Innköllun vegna nauðasamningsumleitana hafi verið gefin út 15. sama mánaðar og standi þær enn yfir. Telur sóknaraðili að leiða megi af þessum atvikum líkur að því að varnaraðili sé ófær um að greiða málskostnað í máli þessu. Þar fái engu breytt að varnaraðili hafi í þinghaldi í héraði 22. febrúar 2002 lagt fram yfirlýsingu 21. sama mánaðar frá lögmanni, sem var aðstoðarmaður hans við greiðslustöðvun, þar sem staðfest hafi verið að aðstoðarmaðurinn hafi á greiðslustöðvunartímanum samþykkt þessa málshöfðun, svo og að hann telji ekkert benda til annars en að eignir varnaraðila nægi til greiðslu krafna, sem falli undir ákvæði 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., ef til gjaldþrotaskipta komi á búi hans.

Samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila fyrir Hæstarétti var frumvarp hans að nauðasamningi samþykkt 7. mars 2002 á fundi, sem haldinn var samkvæmt 48. gr. laga nr. 21/1991 með atkvæðismönnum um samninginn. Hafi verið krafist staðfestingar héraðsdómara á nauðasamningi. Ekki hafi enn verið leyst úr þeirri kröfu, en varnaraðili búist ekki við öðru en að við henni verði orðið. Þá hefur varnaraðili lagt fram yfirlýsingu 8. mars 2002 frá umsjónarmanni með nauðasamningsumleitunum hans, sem gerð var samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 21/1991. Í þeirri yfirlýsingu greinir meðal annars að umsjónarmaðurinn hafi í störfum sínum notið liðsinnis löggilts endurskoðanda. Það sé sameiginlegt mat þeirra að eftirgjöf og greiðslukjör, sem varnaraðili hafi boðið atkvæðismönnum og fengið samþykkt, séu sanngjörn og að ekkert bendi til annars en að honum eigi að vera fært að standa í fullum skilum við lánardrottna sína ef nauðasamningurinn verður staðfestur.

Sóknaraðili hefur ekki lagt fram í málinu gögn um fjárhag varnaraðila að öðru leyti en til að sýna að hann hafi eins og áður greinir notið heimildar til greiðslustöðvunar og til að leita nauðasamnings, svo og að hann hafi á síðari hluta árs 2001 verið talinn í vanskilum með níu tilgreindar kröfur samkvæmt svokallaðri vanskilaskrá. Varnaraðili kveðst sem áður segir hafa krafist staðfestingar nauðasamnings fyrir héraðsdómi. Verður að ætla að niðurstaða fáist um þá kröfu áður en mál þetta verður dæmt í héraði. Fáist nauðasamningur staðfestur mundi hann í engu skerða kröfu sóknaraðila um málskostnað í máli þessu, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hefur ekki með fyrrnefndum gögnum hnekkt því mati umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum varnaraðila að honum eigi að verða fært að standa í skilum við lánardrottna sína ef samningurinn verður staðfestur. Hefur sóknaraðili því ekki á þessu stigi fært fram nægar líkur fyrir því að varnaraðila verði ekki fært að greiða málskostnað, sem kynni að verða lagður á hann í málinu. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                           

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2002.

Tinna Jóhannsdóttir, kt. 131172-3119, Bjargarstíg 14, Reykjavík, stefnda í máli þessu, krefst málskostnaðartryggingar að fjárhæð 1.000.000 króna úr hendi Stáltaks hf., kt. 620269-1079, Mýrargötu 10-12, Reykjavík, stefnanda í máli þessu.

 Stefnda byggir á því að leiða megi líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar sökum þess að félagið hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar og leiti nú nauðasamninga.  Af hálfu stefnanda er mótmælt kröfu um málskostnaðartryggingu, sérstaklega fjárhæð kröfunnar.  Fari svo að fallist verði á málskostnaðartryggingu, óskar stefnandi eftir ríflegum fresti til að leggja hana fram sökum þess að nauðasamningsumleitanir standi yfir.  Af hálfu stefnanda er bent á að Kristinn Bjarnason  hrl., skipaður aðstoðarmaður félagsins á greiðslustöðvunartímanum, hafi samþykkt að Tinnu Jóhannsdóttir væri stefnt til greiðslu reikningsskuldar við stefnanda á greiðslustöðvunartímanum.  Hafi Kristinn jafnframt lýst því yfir að ekkert benti til annars en að eignir Stáltaks hf. kæmu til með að duga til greiðslu krafna, sem falla undir 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl..

Álykta verður að tryggt sé með framangreindri yfirlýsingu Kristins Bjarnasonar hrl. að stefnda fái greiddan málskostnað fari svo að henni verði dæmdur málskostnaður í máli þessu.  Er því hafnað kröfu stefndu um að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfu stefndu, Tinnu Jóhannsdóttur, um að stefnanda, Stáltaki hf., verði gert að setja málskostnaðartryggingu að fjárhæð 1.000.000 króna.