Hæstiréttur íslands

Mál nr. 421/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám


Föstudaginn 16

 

Föstudaginn 16. nóvember 2001.

Nr. 421/2001.

Friðrik Gunnar Gíslason

(Ólafur Thóroddsen hdl.)

gegn

Löggarði ehf.

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

 

Kærumál. Fjárnám.

F krafðist þess að ógilt yrði aðfarargerð sem gerð var í eign hans að beiðni L. Með hliðsjón af gögnum málsins þótti ósönnuð sú fullyrðing F að krafa L á hendur honum væri að fullu greidd. Ekki þótti F heldur hafa sýnt fram á að umrædd krafa ætti að sæta lækkun. Þá var ennfremur hafnað þeirri málsástæðu F að aðfararbeiðni L fullnægði ekki skilyrðum 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989. Kröfum F var því hafnað og aðfarargerðin staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. október 2001, þar sem staðfest var aðfarargerð sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði í eign sóknaraðila 27. júlí 2001.  Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að umrædd aðfarargerð verði úr gildi felld. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Friðrik Gunnar Gíslason, greiði varnaraðila, Löggarði ehf., 60.000 krónur í kærumálskostnað.

           

                                    Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. október 2001.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 19. þ.m.

Sóknaraðili er Friðrik Gunnar Gíslason, kt. 230763-2759, Burknabergi 10, Hafnarfirði.

Varnaraðili er Löggarður ehf., kt. 450789-6269, Kringlunni 7, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að aðallega að ógilt verði aðfarargerð nr. 36-2001-00863, sem fram fór hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 27. júlí 2001. Til vara er þess krafist „að með úrskurði héraðsdómara verði aðfarargerð sýslumanns breytt til lækkunar”. Í aðal- og varakröfu er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Fallist dómurinn ekki á kröfu sóknaraðila um ógildingu aðfarargerðar eða lækkun samkvæmt framansögðu krefst sóknaraðili þess að mælt verði fyrir um það í úrskurði að málskot til Hæstaréttar fresti frekari fullnustuaðgerðum varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að framangreind aðfarargerð á hendur sóknaraðila verði staðfest. Þá er krafist málskostnaðar.

I.

Hinn 27. júlí 2001 var tekin fyrir hjá sýslumanninum í Hafnarfirði beiðni varnaraðila um fjárnám hjá sóknaraðila til tryggingar skuld að fjárhæð 2.536.100 krónur. Studdist beiðnin við dóm bæjarþings Reykjavíkur frá 14. febrúar 1991 í máli sem Myndbandaleiga kvikmyndahúsanna hf. höfðaði á hendur sóknaraðila. Með dóminum var sóknaraðili dæmdur til að greiða stefnanda málsins 2.536.600 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. maí 1989 til greiðsludags og 365.000 krónur í málskostnað. Hinn 10. desember 1994 framseldi stefnandi varnaraðila kröfu sína samkvæmt dóminum. Í aðfararbeiðni varnaraðila var krafist fjárnáms fyrir höfuðstól og málskostnaði samkvæmt framansögðu, fjárnámsgjaldi í ríkissjóð og kostnaði vegna ritunar fjárnámsbeiðni, samtals að fjárhæð 14.500 krónur, og dráttarvöxtum að fjárhæð 2.120.000, en að frádreginni innborgun að fjárhæð 2.500.000 krónur. Við fyrirtöku málsins krafðist sóknaraðili þess að beiðninni yrði vísað frá þar sem ekki væri tilgreint í henni hvenær innborgunin hefði verið innt af hendi. Þá hélt hann því ennfremur fram að krafan væri að fullu greidd. Af hálfu varnaraðila var þess hins vegar krafist að umbeðin gerð færi fram, enda hefði sóknaraðili ekki hnekkt þeim dómi sem aðfararbeiðnin styddist við né þeirri tilgreiningu á innborgun sem sett væri fram í henni. Fulltrúi sýslumanns tók andmæli sóknaraðila ekki til greina og ákvað að beiðni varnaraðila um aðfarargerð skyldi ná fram að ganga. Var því þá lýst yfir af hálfu sóknaraðila að hann gæti ekki greitt kröfuna og ekki bent á eignir sem dygðu til tryggingar henni eins og hún væri fram borin. Var gerðinni þá að kröfu varnaraðila lokið án árangurs. Leitast sóknaraðila nú aðallega við að fá gerð þessa fellda úr gilda og barst héraðsdómi krafa þess efnis 5. f.m.  

II.

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila er krafa hans um ógildingu aðfarargerðarinnar frá 27. júlí 2001 annars vegar byggð á því að fjárkrafa varnaraðila samkvæmt dóminum frá 14. febrúar 1991 sé að fullu greidd. Hins vegar heldur sóknaraðili því fram að aðfararbeiðni varnaraðila hafi ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og aðfarargerð á grundvelli hennar hafi því ekki átt að ná fram að ganga. Varakröfu sína reisir sóknaraðili á því að fjárkrafa varnaraðila á hendur honum sé í öllu falli umtalsvert lægri en aðfararbeiðni segi til um.

III.

Samkvæmt gögnum málsins gekkst sóknaraðili undir dómsátt 18. janúar 1991 þar sem hann skuldbatt sig til að greiða Hólmaseli 4 sf. 550.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 15. febrúar 1989 til greiðsludags og 63.000 krónur í málskostnað. Í greinargerð varnaraðila kemur fram að Hólmasel 4 sf. hafi verið í eigu sömu aðila og stóðu að Myndabandaleigu kvikmyndahúsanna hf. Sóknaraðili greiddi ekki skuld sína samkvæmt dómsáttinni og dóminum frá 14. febrúar 1991. Eftir að farið hafði verið fram á fjárnám hjá sóknaraðila vegna þessara skulda hans var hinn 8. mars 1993 gerður samningur á milli aðila um uppgjör á þeim. Er hann svohljóðandi: „Við undirritaðir, Hólmasel s.f. og Myndbandaleiga kvikmyndahúsanna h.f. annars vegar og Friðrik Gíslason hins vegar gerum með okkur eftirgreint samkomulag varðandi uppgreiðslu skuldar Friðriks við Hólmasel s.f. skv. dómsátt og M.K. h.f. skv. dómi: 1.  Samkomulag er um að heildarskuldin teljist vera kr. 2.400.000 [...] og afhendir Friðrik 11 ávísanir til greiðslu á mánaðar fresti. 2. Reynist innistæða einnar ávísunar ekki fyrir hendi þá er samkomulag þetta niðurfallið og verða skuldir Friðriks innheimtar miðað við raunverulega stöðu þeirra.”

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að fimm af þeim ellefu ávísunum, sem kröfuhöfum voru afhentar í samræmi við samninginn, hafi fengist innleystar en hinar sex ekki. Nam þessi innborgun 1.100.000 krónum. Kom fram í ræðu lögmanns varnaraðila við aðalmeðferð málsins að sóknaraðili hafi óskað eftir því þegar fimm fyrstu ávísanirnar, sem gefnar voru út af eiginkonu hans, höfðu verið innleystar, að þeim ávísunum sem eftir stæðu yrði ekki framvísað í banka. Segir í greinargerð varnaraðila að sóknaraðili hafi verið í sambandi við lögmann varnaraðila, sem hafi haft báðar kröfurnar til innheimtu, fyrst eftir að greiðslufall varð og meðal annars afhent honum tvö veðskuldabréf til innheimtu vorið 1994. Hafi andvirði þeirra átt að renna til greiðslu á framangreindri skuld sóknaraðila. Við nauðungarsölu á hinni veðsettu eign 13. maí 1996 hafi engin greiðsla fengist upp í kröfu samkvæmt veðskuldabréfum þessum. Frekari greiðslur hafi ekki borist frá sóknaraðila. Samningurinn frá 8. mars 1993 hafi með vísan til þessa og efnis hans fallið úr gildi. Engu að síður hafi verið ákveðið að falla frá frekari kröfum á hendur sóknaraðili samkvæmt dómsáttinni, en innborgunum sóknaraðila hafi alfarið verið ráðstafað til greiðslu á henni. Tekur varnaraðili í því sambandi fram að krafa samkvæmt sáttinni hafi í desember 1992 numið tæpum 1.500.000 krónum. Þá hafi varnaraðili af ástæðum sem gerð er grein fyrir í greinargerð hans ákveðið að gefa sóknaraðila afslátt af kröfu sinni upp á 2.500.000 krónur. Hafi þessi afsláttur verið veittur þá er aðfararbeiðni var rituð 13. febrúar 2001 og sé þar kominn sá frádráttarliður sem í beiðninni er tilgreindur sem innborgun. 

Í greinargerð varnaraðila er tekið fram að fjárhæð dráttarvaxta samkvæmt aðfararbeiðni svari til áfallinna dráttarvaxta á höfuðstól dómkröfu og málskostnað frá 14. febrúar 1997 til 14. febrúar 2001.

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að sóknaraðili hafi ekki lagt fram gögn er sýni það að hann hafi innt af hendi greiðslur inn á fjárkröfu varnaraðila. Þá hafi hann ekki með öðrum hætti rennt stoðum undir málatilbúnað sinn. Samkvæmt þessu og með vísan til atvika samkvæmt framansögðu beri að hafna kröfum sóknaraðila í máli þessu og úrskurða hann til greiðslu málskostnaðar.

Í ræðu lögmanns sóknaraðila við aðalmeðferð málsins var því mótmælt að sóknaraðili hafi ekki staðið við samninginn frá 8. mars 1993. Sóknaraðili hafi aldrei óskað eftir því að sex af þeim ellefu ávísunum sem hann afhenti til greiðslu á skuld sinni yrðu ekki innleystar, svo sem varnaraðili haldi fram. Eigendur þeirra fjárkrafna sem samningurinn varðaði hafi ekki látið á það reyna hvort innstæða væri fyrir þeim. Því verði að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins að sóknaraðili hafi fyrir sitt leyti staðið við samninginn. Af því leiði að skuld sóknaraðila samkvæmt dóminum frá 14. febrúar 1991 sé að fullu greidd. Þá mótmælir sóknaraðili því að heimilt hafi verið að ráðstafa innborgunum hans á árinu 1993 með þeim hætti sem að framan er lýst og telur að við það verði að miða að þær hafi með réttu átt að ganga til greiðslu á skuld hans samkvæmt dóminum. 

IV.

Við úrlausn málsins kemur það fyrst til skoðunar hvort líta megi svo á að sóknaraðili hafi fyrir sitt leyti efnt samninginn frá 8. mars 1993 og að fjárkrafa varnaraðila samkvæmt dómi frá 14. febrúar 1991, sem hann leitaði fjárnáms fyrir með aðfararbeiðni 13. febrúar 2001, sé þar með að fullu greidd. Svo sem áður er rakið bar sóknaraðila samkvæmt samningnum að afhenda viðsemjendum sínum ellefu tékka, samtals að fjárhæð 2.400.000 krónur. Við það stóð hann. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að sex af þessum ellefu tékkum hafi að beiðni sóknaraðila ekki verið innleystir, en þeir áttu að koma til innlausnar á tímabilinu 26. júlí 1993 til 31. janúar 1994. Þessu mótmælir sóknaraðili. Varðandi þennan ágreining aðila er fyrst til þess að líta að ekkert hefur komið fram í málinu sem gerir það líklegt að eigandi þeirrar kröfu sem hér um ræðir hafi kosið að falla frá samningi sínum við sóknaraðila um greiðslu á henni eða að rekja megi ástæður þess að umræddir tékkar voru ekki innleystir til annarra atvika sem séu á ábyrgð kröfuhafans. Þvert á móti rennir afhending sóknaraðila á tveimur veðskuldabréfum, samtals að fjárhæð 1.300.000 krónur, stoðum undir framangreinda staðhæfingu varnaraðila og að þeim hafi þannig verið ætlað að koma í stað hinna óinnleystu tékka. Þykir að þessu virtu mega leggja það til grundvallar við úrlausn málsins að sóknaraðili hafi ekki efnt samninginn samkvæmt efni hans. Þá hefur sóknaraðili ekki andmælt þeirri fullyrðingu varnaraðila að veðskuldabréfin hafi ekki fengist greidd. Verður því fallist á það með varnaraðila að þar með hafi samningurinn endanlega fallið úr gildi. Að svo komnu og í samræmi við niðurlagsákvæði hans röknuðu fjárkröfur samkvæmt dómsáttinni frá 18. janúar 1991 og dóminum frá 14. febrúar 1991 við að nýju. Þá hefur sóknaraðili ekki borið því við að hann hafi innt af hendi greiðslur vegna þessara krafna umfram það sem að framan greinir. Samkvæmt þessu og enda þótt ekki liggi fyrir staðfesting greiðslubanka um að innstæða fyrir umræddum sex tékkum hafi ekki verið fyrir hendi á viðkomandi tékkareikningi á tilgreindum útgáfudegi þeirra verður að hafna þeirri viðbáru sóknaraðila að sú krafa hans, sem hin umdeilda aðfarargerð tók til og hann fékk framselda 14. desember 1994, sé að fullu greidd.

Varnaraðili byggir kröfugerð sína á hendur sóknaraðila á því að greiðslum þeim, sem sóknaraðili telst samkvæmt framansögðu hafa innt af hendi árið 1993, hafi í engu verið ráðstafað til lækkunar á höfuðstól dómkröfu hans. Heldur varnaraðili því fram að þær hafi alfarið gengið til greiðslu á kröfu samkvæmt dómsáttinni frá 18. janúar 1991. Greiðslur þær sem hér um ræðir studdust við samninginn frá 8. mars 1993. Lítur dómurinn svo á að þegar hann féll úr gildi hafi kröfuhafar átt val um það með hvaða hætti þeim yrði ráðstafað inn á þær kröfur sem samningurinn tók til og þá miðað við stöðu þeirra á hverjum tíma. Samkvæmt aðfararbeiðnum á hendur sóknaraðila, sem varnaraðili hefur lagt fram í málinu, nam skuld hans samkvæmt dómsáttinni 1.459.459 krónum í desember 1992, en 6.414.575 krónum samkvæmt dóminum. Þessu hefur sóknaraðili ekki andmælt sérstaklega. Innborganir frá sóknaraðila nema svo sem fram er komið 1.100.000 krónum. Í málinu er ekki annað fram komið en að eigandi kröfunnar samkvæmt dómsáttinni hafi ákveðið í ljósi þessara innborgana að falla frá frekari kröfum á grundvelli hennar. Þá er krafa varnaraðila um greiðslu dráttarvaxta samkvæmt aðfararbeiðni einskorðuð við vexti sem fallið hafa á tildæmdar fjárhæðir frá 14. febrúar 1997, en beiðnin var móttekin af sýslumanni 14. febrúar 2001. Loks leggur varnaraðili það til grundvallar kröfugerð sinni samkvæmt aðfararbeiðni að sá afsláttur sem hann hefur veitt sóknaraðila eigi að koma til frádráttar kröfu hans miðað við stöðu hennar 13. febrúar 2001. Gegn öllu framangreindu hefur sóknaraðili ekki fært fram rök sem leitt geta til þess að fjárkrafa varnaraðila eigi að sæta frekari lækkun en í aðfararbeiðni greinir.

Í aðfararbeiðni varnaraðila var svo sem fram er komið krafist fjárnáms fyrir höfuðstól og málskostnaði samkvæmt dóminum frá 14. febrúar 1991, fjárnámsgjaldi í ríkissjóð og kostnaði vegna ritunar fjárnámsbeiðni, samtals að fjárhæð 14.500 krónur, og dráttarvöxtum að fjárhæð 2.120.000, en að frádreginni innborgun að fjárhæð 2.500.000 krónur. Samkvæmt þessu og með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan verður ekki fallist á það með sóknaraðila að aðfararbeiðni varnaraðila hafi ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Er í því sambandi sérstaklega til þess að líta að enda þótt það tímabil sem dráttarvaxtakrafa nær til sé ekki tilgreint í beiðninni er sundurliðun kröfunnar samkvæmt henni í samræmi við ákvæði lokamálsliðar tilvitnaðs ákvæðis.

Samkvæmt öllu framansögðu verður kröfum sóknaraðila um ógildingu eða breytingu á umræddri aðfarargerð hafnað og fallist á kröfu varnaraðila um staðfestingu hennar.

Ekki eru næg efni til að fallast á þá kröfu sóknaraðila að kæra á úrskurði þessum til Hæstaréttar fresti frekari fullnustuaðgerðum varnaraðila.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 60.000 krónur. 

Það athugast að af endurriti úr gerðabók sýslumannsins í Hafnarfirði um aðfarargerð þá sem hér er til umfjöllunar verður ráðið að sóknaraðili sé ekki eignalaus, en eigi ekki eignir sem nægi sem trygging fyrir fjárkröfu varnaraðila eins og hún er sett fram í aðfararbeiðni. Að réttu lagi hefði að fenginni yfirlýsingu sóknaraðili þessa efnis átt að skora á hann að benda á eignir til fjárnáms og ljúka gerðinni eftir atvikum án árangurs að hluta að ábendingu hans fenginni. Sóknaraðili hefur ekki borið því við að þessi annmarki á gerðinni eigi að leiða til ógildingar hennar. Þá er ennfremur til þess að líta að fjárnám sem er árangurslaust að hluta er grundvöllur gjaldþrotaskipta með sama hætti og fjárnám sem alfarið er árangurslaust, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.     

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðfarargerð nr. 036-2001-00863, sem framkvæmd var af sýslumanninum í Hafnarfirði 27. júlí 2001, er staðfest.

Kæra á úrskurði þessum frestar ekki frekari fullnustuaðgerðum varnaraðila.

Sóknaraðili, Friðrik Gunnar Gíslason, greiði varnaraðila, Löggarði ehf., 60.000 krónur í málskostnað.