Hæstiréttur íslands

Mál nr. 716/2017

A (Eiríkur Gunnsteinsson hrl.)
gegn
B, C, D (Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.), E og F (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að dómstjóri viki sæti í máli B, C og D gegn A, E og F.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 25. október 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Ásgeir Magnússon dómstjóri víki sæti í máli varnaraðilanna B, C og D gegn sóknaraðila og varnaraðilunum E og F. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir B, C og D krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir E og F hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilunum B, C og D kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en að öðru leyti fellur sá kostnaður niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilunum, B, C og D, hverjum um sig, 125.000 krónur í kærumálskostnað. Kærumálskostnaður fellur að öðru leyti niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 25. október 2017

Mál þetta sem hér er til úrlausnar barst héraðsdómi með bréfi skiptastjóra mótteknu 16. mars 2017 vegna dánarbús G, sem lést [...] 2006. Var málið þingfest 18. apríl sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 11. október sl.

Sóknaraðilarnir B og C gera í málinu eftirgreindar dómkröfur:

Aðalkrafa:

  1. Að frumvarp skiptastjóra til úthlutunar í dánarbúi G, sem lagt var fyrir skiptafund 15. mars 2017, verði fellt úr gildi og lagt verði fyrir skiptastjóra að selja eignir dánarbúsins, að undanskilinni fasteigninni [...], Snæfellsbæ, landnúmer [...], fastanúmer [...], og að söluandvirði þeirra verði skipt á milli erfingja í samræmi við arfstilkall þeirra samkvæmt ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962.
  2. Þá er þess krafist að söluandvirði eignanna [...], Reykjavík, fastanúmer [...], og [...], Strandabyggð, landnúmer [...] og fastanúmer [...], að teknu tilliti til áhvílandi lána, komi til frádráttar eignarhluta varnaraðilans A í samræmi við arfstilkall hennar, líkt og andvirði eignanna hefði verið meðal eigna dánarbúsins og komið til skipta.
  3. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að kostnaður við matsgerð H hrl., dags. 18. janúar 2017, sé dánarbúinu óviðkomandi, en til vara að sóknaraðilum verði ekki gert að standa straum af þeim kostnaði.
  4. Jafnframt er krafist lækkunar skiptaþóknunar, þar með talið kostnaðar vegna sumarhúsanna [...] og [...] árin 2015 og 2016.

Varakrafa:

  1. Að frumvarpi skiptastjóra verði breytt á þann veg að í hlut sóknaraðila komi greiðsla í peningum sem samsvari arfstilkalli þeirra í samræmi við ákvæði laga nr. 8/1962.
  2. Þá er þess krafist að söluandvirði eignanna [...], Reykjavík, fastanúmer [...], og [....], Strandabyggð, landnúmer [...] og fastanúmer [...], komi til frádráttar eignarhluta varnaraðilans A í samræmi við arfstilkall hennar, líkt og andvirði eignanna hefði verið meðal eigna dánarbúsins og komið til skipta.
  3. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að kostnaður við matsgerð H hrl. sé dánarbúinu óviðkomandi, en til vara að sóknaraðilum verði ekki gert að standa straum af þeim kostnaði.
  4. Þá er krafist lækkunar skiptaþóknunar skiptastjóra, þar með talið kostnaðar vegna sumarhúsanna [...] og [...] árin 2015 og 2016.

Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar að skaðlausu skv. mati réttarins.

Varnaraðilinn A krefst þess í málinu að liðum 2-4 í aðalkröfu verði vísað frá dómi. Þá krefst varnaraðilinn þess að frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr dánarbúi G, sem lagt var fram á skiptafundi 15. mars 2017, verði staðfest og að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Loks krefst varnaraðilinn þess að sóknaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað óháð úrslitum málsins. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið ágreining málsins til sín taka.

Í þinghaldi í málinu 11. október sl. lýsti lögmaður varnaraðilans A því yfir að hún liti svo á að dómarinn Ásgeir Magnússon væri vanhæfur til að fara með mál þetta, með vísan til g-liðar 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og krafðist þess að hann viki sæti. Lögmaður sóknaraðila mótmælti þessari kröfu og var málið tekið til úrskurðar um þennan ágreining í þinghaldinu að undangengnum málflutningi þar um.

Varnaraðili A vísar til þess að á fyrri stigum málareksturs á milli aðila hafi verið deilt um gildi kaupmála og að í úrskurði dómsins, í málinu nr. Q-2/2015, hafi m.a. verið á því byggt að um fölsun á kaupmála hafi verið að ræða. Úrskurðurinn hafi verið kærður til Hæstaréttar, sem staðfest hafi niðurstöðuna, í máli nr. 320/2016, án þess þó að í dómi réttarins hafi verið byggt á sjónarmiðum um fölsun. Telji varnaraðilinn að í rökstuðningi héraðsdómara að þessu leyti hafi birst ákveðin afstaða hans til varnaraðila, sem leiði til þess að draga megi óhlutdrægni hans í þessu máli í efa. Sé hann því vanhæfur til að dæma í máli þessu, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, og verði að víkja sæti.

Sóknaraðilar telja að krafa varnaraðilans eigi ekki við rök að styðjast og mótmæla því að á hana verði fallist. Ljóst sé að í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar hafi engin afstaða verið tekin til þess hvort um fölsun á kaupmálanum hafi verið að ræða eða ekki, enda megi af orðalagi dómsins ráða að rétturinn hafi ekki talið það nauðsynlegt til stuðnings niðurstöðu sinni. Þá sé ljóst að efnisleg afstaða dómara í fyrra máli geti ekki leitt til vanhæfis hans við úrlausn á tengdu ágreiningsmáli.

Niðurstaða

Til stuðnings kröfu sinni vísa sóknaraðilar til eftirfarandi orðalags í úrskurði dómsins í framangreindu máli nr. Q-2/2015: „Þegar allt framangreint er virt, annars vegar niðurstaða fyrrnefndrar skýrslu um að afar sterkar vísbendingar séu um að undirskriftir G á kaupmálana séu falsaðar og hins vegar að ekki liggur ótvírætt fyrir að lögmæltra krafna um vottun kaupmálanna hafi verið gætt, verður að telja nægilega fram komið að undirritun og vottun kaupmálanna hafi ekki verið með þeim hætti að þeir geti talist gildir kaupmálar í skilningi hjúskaparlaga nr. 31/1993.“ Telur varnaraðili A að með framangreindu orðalagi í úrskurðinum hafi dómarinn látið í ljós slíka afstöðu til varnaraðila að draga megi óhlutdrægni hans í þessu máli með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

Enda þótt dómari í máli þessu hafi áður leyst úr ágreiningi í fyrrgreindu máli sem reis við opinber skipti á sama dánarbúinu og mál þetta lýtur að, og að niðurstaða fyrra málsins kunni í einhverju að hafa þýðingu í máli þessu, veldur það eitt ekki vanhæfi dómarans. Þá verður ekki á það fallist að dómarinn hafi með framangreindum rökstuðningi í fyrra málinu lýst einhverjum þeim viðhorfum til varnaraðilans A eða annarra varnaraðila málsins að draga megi óhlutdrægni hans í þessu máli með réttu í efa. Af þessum sökum verður ekki talið að varnaraðili hafi sýnt fram á atvik sem valdið geta því að dómari teljist vanhæfur til að fara með málið vegna ákvæðis g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Verður kröfu um að héraðsdómari víki sæti því hafnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Dómari málsins, Ásgeir Magnússon, víkur ekki sæti í málinu.