Hæstiréttur íslands
Mál nr. 298/1998
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Sýkna
- Bótakröfu vísað frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 18. febrúar 1999. |
|
Nr. 298/1998. |
Ákæruvaldið (Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn X (Helgi Birgisson hrl.) |
Kynferðisbrot. Sýkna. Bótakröfu vísað frá héraðsdómi.
X var ákærður fyrir að hafa haft holdlegt samræði við stúlkuna Z, 13 ára. Var X sýknaður þar sem talið var ósannað, gegn eindreginni neitun hans, að hann hafi vitað eða mátt vita að stúlkan væri aðeins 13 ára. Var það ekki metið honum til gáleysis að hafa ekki gengið úr skugga um aldur stúlkunnar áður en atlot þeirra hófust.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Arnljótur Björnsson og Garðar Gíslason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. júlí 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til að greiða miskabætur samkvæmt ákæru að fjárhæð 800.000 krónur.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvalds um refsingu og að miskabótakröfu verði vísað frá dómi. Verði hann sakfelldur krefst hann vægustu refsingar, sem þá verði skilorðsbundin, en sýknu af bótakröfu og til vara lækkunar hennar.
Ákærði kveður verknaðarlýsingu í ákæru rétta að því leyti að hann hafi haft samræði við stúlkuna Z í tjaldi hennar aðfaranótt sunnudagsins 20. júlí 1997 á tjaldstæði í landi Bíldudals. Hins vegar hafi honum ekki verið eða mátt vera kunnugt að stúlkan væri yngri en 14 ára. Hann hafi því ekki gerst brotlegur við 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, sbr. 204. gr. sömu laga.
Í héraðsdómi er lýst framburðum vitna, sem þekktu stúlkuna vel. Bar þeim öllum saman um að hún hafi litið út fyrir að vera eldri en hún var. Einnig er vísað í vottorð sálfræðings, sem stúlkan kom í viðtal til, og þar segir að hún hafi verið „fullorðinsleg í útliti, bráðger og íhugul.“ Stúlkan var að eigin sögn 174 cm á hæð. Hún var í hópi vina sinna og félaga, sem voru eldri en hún, á aldrinum 14 til 18 ára, og enginn undir 14 ára aldri nema hún. Hún tók þátt í gleðskap og neytti áfengis eins og aðrir og var í tjaldi með félögum sínum. Engir fullorðnir höfðu eftirlit á tjaldsvæðinu um kvöldið.
Ákærði, sem þá var 20 ára að aldri, kom á svæðið um kvöldið og hitti þessa unglinga, þar á meðal stúlkuna. Hann tók þátt í gleðskapnum og sá til hennar þar sem hún var með öðrum piltum um kvöldið. Þau höfðu ekki hist áður, en hann þekkti lítillega til föður hennar. Þar kom að þau lögðust saman í tjaldi hennar um nóttina, þar sem aðrir lágu einnig, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Samförum þeirra lauk með því að vinkonur hennar skárust í leikinn og ein þeirra hrópaði að ákærða ókvæðisorðum.
Fallast ber á þá niðurstöðu héraðsdóms, að ósannað sé, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi vitað eða mátt vita að stúlkan væri aðeins 13 ára. Verður það ekki metið honum til gáleysis að hafa ekki gengið úr skugga um aldur stúlkunnar áður en atlot þeirra hófust. Ber því að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður bótakröfu vísað frá héraðsdómi.
Eftir þessum úrslitum skal greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Miskabótakröfu Z er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, samtals 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 5. júní 1998.
Ár 1998, föstudaginn 5. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Vestfjarða, sem háð er í Dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara kveðinn upp dómur í máli nr. S-24/1998: Ákæruvaldið gegn G og X, sem tekið var til dóms 22. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Málið höfðaði ríkissaksóknari með ákæru dagsettri 31. mars 1998 á hendur ákærðu, G, og X,
fyrir kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 20. júlí 1997, á Héraðsmóti H, á tjaldstæði í landi B, haft holdlegt samræði við stúlkuna Z, 13 ára, sem þá var undir áhrifum áfengis, með þeim hætti að ákærði G hafði holdlegt samræði við Z í tjaldi sínu, en síðar sömu nótt hafði ákærði X holdlegt samræði við Z í tjaldi hennar.
Telst framangreind háttsemi beggja ákærðu varða við 1. ml. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“
Í málinu krefst Þórdís Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður 700.000 króna miskabóta úr hendi ákærða G og 800.000 króna miskabóta úr hendi ákærða X, fyrir hönd M, vegna ólögráða dóttur hennar Z, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 20. júlí 1997 til greiðsludags, auk málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Ákærðu halda uppi vörnum í málinu.
I.
Helgina 18.-20. júlí 1997 var héraðsmót H haldið á íþróttasvæði í landi B. Keppendur komu að hvaðanæva úr [...]. Meðal þeirra var 13 ára stúlka Z frá [...]. Að kvöldi laugardagsins 19. júlí kom hópur barna og ungmenna saman á tjaldstæði við mótssvæðið, en þar höfðu unglingarnir slegið upp tjöldum, sem þeir hugðust gista í um nóttina. Áfengi var haft um hönd. Um nóttina hafði Z holdlegt samræði við þrjá karlmenn, GÁ jafnaldra sinn og ákærðu í málinu. Ákærðu og Z greinir ekki á um að þeir hafi ekki spurt hana um aldur og hún ekkert látið uppi um aldur sinn áður en samræði átti sér stað. Fyrir liggur, að ákærðu þekktu ekki hvor annan og höfðu ekki samráð um að hafa holdlegt samræði við Z. Ákærði X hafði hins vegar, áður en hann hafði samræði við stúlkuna í tjaldi hennar, séð meðákærða G og stúlkuna láta vel að hvort öðru inni í tjaldi meðákærða. Þá hafði ákærði G frétt, áður en hann hafði samræði við stúlkuna, að hún hefði fyrr um nóttina átt kynferðislegt samneyti við áðurgreindan GÁ.
Verknaðarlýsing í ákæru styðst við framburði ákærðu og Z, sem eru samhljóða í þeim atriðum er máli skipta og staðreyna að samræði átti sér stað milli aðila. Álitaefni málsins takmarkast því við hvort ákærðu hafi vitað eða mátt vita að stúlkan væri yngri en 14 ára er samræði átti sér stað, sbr. heimfærsla í ákæru til 1. ml. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, eða hvort ákærðu hafi haft hugboð um refsinæmi háttseminnar eða hefðu átt að gera sér grein fyrir henni og þannig framið brot í gáleysi um aldur Z, sbr. 204. gr. hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 40/1992. Var málið flutt einnig með hliðsjón af því, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
II.
Ákærði G og Z ólust upp að [...], sem er lítill þéttbýliskjarni á [...] með níu til tíu íbúðarhúsum, verslun, félagsheimili og grunnskóla, kenndum við [...]. Þar lauk ákærði 10. bekk vorið [...]. Á sama tíma var Z að ljúka 7. bekk.
Z kvaðst hafa verið hrifin af ákærða G sumarið 1997 og hefðu ,,allir“ haldið að þau myndu sofa saman á héraðsmótinu. Þegar á mótið var komið hefði hún hins vegar verið orðin hrifnari af GÁ frá P og hefðu þau notið ásta umrætt kvöld eða nótt. Hún hefði síðan verið sofnuð ölvunarsvefni fyrir utan bifreið J er ákærði G hefði vakið hana og dregið inn í tjaldið sitt, þar sem hann hefði haft við hana samræði. Z kvaðst ekki hafa viljað hafa samræði við ákærða, eftir að hafa verið með GÁ fyrr um kvöldið, en vegna ölvunar og þreytu hefði hún ekki hreyft mótmælum við ákærða. Að samræði loknu hefði ákærði lagst út af, en hún klætt sig og farið út úr tjaldinu.
Z kvað ákærða hafa átt að vita um aldur hennar, enda hefðu þau þekkst um árabil og gengið í sama skóla. Þá hefði ákærði komið í fermingarveislu hennar [...].
Ákærði G kvaðst hafa þekkt Z í mörg ár fyrir hinn kærða atburð. Um samdrátt hefði þó ekki verið að ræða fyrr en umrætt kvöld og nótt, en þá hefði Z sóst eftir nánari kynnum við ákærða og hefðu þau haft samfarir með vilja beggja í tjaldi hans. Ákærði hefði notað verju. Að samförum loknum hefði Z farið út úr tjaldinu og ekkert frekar viljað með hann hafa. Í lögregluskýrslu, sem ákærði gaf á Patreksfirði 21. júlí 1997 að viðstaddri Þuríði Ingimundardóttur formanni barnaverndarnefndar V, er bókað að ákærði hafi vitað, á þeim tíma er samræði átti sér stað, að Z ,,væri á fjórtánda aldursári“. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa sagt yfirheyranda, Skúla Berg aðalvarðstjóra, að hann hefði talið stúlkuna hafa verið ,,fjórtán ára“. Þau ummæli hlytu að hafa skolast til í nefndri bókun.
Vitnið Þuríður Ingmundardóttir staðfesti fyrir dómi, að það hefði verið viðstatt nefnda yfirheyrslu. Í lok hennar hefði yfirheyrandi lesið framburðarskýrsluna fyrir ákærða og hann staðfest efni hennar. Vitnið kvaðst ekki muna orðrétt hvað ákærði hefði sagt um aldur Z, en hann hefði verið spurður hvort hann gerði sér ekki grein fyrir að hún ,,væri undir lögaldri.“ Ákærði hefði játað því og virst gera sér grein fyrir aldri stúlkunnar, en hvort hann hefði sagst hafa vitað að hún hefði verið fjórtán ára eða á fjórtánda ári treysti vitnið sér ekki til að bera.
Vitnið Skúli Berg aðalvarðstjóri bar fyrir dómi, að ákærði hefði skýrt greiðlega frá málsatvikum á þann veg, sem skráð hefði verið í umrædda lögregluskýrslu, en hana hefði ákærði lesið yfir í lok yfirheyrslunnar og staðfest með nafnritun sinni.
III.
Eftir samræði við ákærða G kvaðst Z hafa gengið um tjaldsvæðið, en síðan hafa farið inn í tjaldið sitt. Þar hefði hún hitt ákærða X og fleiri krakka. Eftir að hún hefði lagst fyrir undir svefnpoka eða ábreiðu hefði ákærði losað um buxnastreng hennar og farið að strjúka kynfæri hennar. Jafnframt hefði hann fært aðra hönd hennar á kynfæri sín og hún ,,runkað“ honum um stund. Í framhaldi af því hefði ákærði sagt hinum krökkunum að fara út úr tjaldinu. Því næst hefði hann klætt sig og hana úr buxum og byrjað að hafa við hana samræði. Z kvaðst á greindum tíma hafa verið við það að sofna og því hefði hún ekki hreyft andmælum við samræðinu. Meðan á því stóð hefðu vinkonur hennar JB og B komið inn í tjaldið. B hefði ,,brjálast“ og spurt ákærða hvort hann vissi ekki hvað Z væri gömul. JB hefði því næst dregið ákærða út úr tjaldinu.
Z kvað ákærða hafa átt að vita um aldur hennar, enda hefði hann verið til sjós með föðurbróður hennar og komið á heimili hennar á [...]. Hún hefði þó ekki verið heima í þau skipti.
Ákærði X kvaðst greinda nótt hafa legið inni í tjaldi Z ásamt henni, E, S og OS. Z hefði verið búin að reyna við ákærða fyrr um kvöldið, en þá hefði hann ekkert viljað með hana hafa. Í tjaldinu hefði hann hins vegar byrjað að strjúka kynfæri hennar undir teppi og hún ,,runkað“ honum. Krakkarnir hefðu síðan látið sig hverfa einn af öðrum, síðast E, en þá hefðu ákærði og Z verið að hefja samfarir. Þær hefðu síðan rofnað, án þess að honum yrði sáðlát, er einhver stúlka hefði komið inn í tjaldið og öskrað hvort hann vissi ekki hvað Z væri gömul. Ákærði hefði þá hætt samstundis og farið út úr tjaldinu.
Ákærði kvaðst aldrei hafa séð Z fyrir umrætt kvöld og enga hugmynd hafa haft um aldur hennar áður en samræði átti sér stað. Miðað við hæð stúlkunnar, klæðaburð og hegðun fyrr um nóttina hefði hann talið hana vera fimmtán til sextán ára.
IV.
J, JB, HS, S, OS, B, og H báru vitni við aðalmeðferð máls, en öll höfðu þau verið stödd á tjaldstæðinu aðfaranótt sunnudagsins 20. júlí 1997.
Vitnin J, JB og HS báru að Z hefði verið búin að vera hrifin af ákærða G allt sumarið 1997. Vitnið J bar jafnframt, að Z hefði sagt skömmu fyrir héraðsmótið ,,að hún ætlaði á hann þetta kvöld“. Vitnið JB lýsti hrifningu Z með þeim orðum, að hún hefði verið búin að tala um það ,,rosalega mikið um sumarið að hún ætlaði að vera með G á þessu héraðsmóti“.
Sömu vitni og vitnin S, OS og B báru að þau vissu ekki til þess að aldur Z hefði borið á góma á tjaldstæðinu umrædda nótt. Vitnin JB, S og OS, sem öll eru vinkonur Z, báru einnig að hún hefði litið út fyrir að vera eldri en þrettán ára. Nefndi vitnið JB í því sambandi sautján ár og sagði: ,,Það trúir enginn á hvað hún er gömul“. Vitnin B, sem einnig þekkti Z, og H, sem ekki vissi á henni deili, báru að á greindum tíma hefðu þau haldið að Z væri fjórtán til fimmtán ára.
Einnig komu fyrir dóm sem vitni móðir ákærða G, KP, og móðir Z, M. Þykja ekki efni til að rekja framburði þeirra að öðru leyti en því, að vitnið M staðfesti að ákærði G hefði komið í fermingarveislu Z Jafnframt leiðrétti vitnið frásögn dóttur sinnar varðandi tengsl við ákærða X og kvað ákærða hafa komið í nokkur skipti inn á heimili afa og ömmu Z á [...], en ekki hennar.
V.
Frumrannsóknargögn bera með sér, að málið hafi í upphafi verið kært og rannsakað sem nauðgunarmál á grundvelli fyrstu lýsingar Z á málsatvikum og hún verið færð með sjúkraflugi á Neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur að kvöldi sunnudagsins 20. júlí 1997. Í framhaldi af því var Z vísað til Þórkötlu Aðalsteinsdóttur sálfræðings. Í álitsgerð sálfræðingsins frá 31. mars 1998, segir svo: ,,Z var vísað til undirritaðrar frá Neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur sl. haust en hún hafði orðið fyrir nauðgun um verslunarmannahelgina 1997. Z hefur nú mætt fjórum sinnum í viðtöl, en þar sem Z býr [...] hafa viðtöl verið bundin við dvöl hennar í Reykjavík.
Z er 14 ára gömul stúlka, en var aðeins þrettán ára er hún varð fyrir nauðguninni. Hún er fullorðinsleg í útliti, bráðger og íhugul. Hún dylur vel tilfinningar sínar en stutt er í vanlíðan, og finnst henni í byrjun mjög erfitt að tala um það sem gerðist. Ofan á bætist að Z býr í litlu samfélagi og framan af hausti átti hún erfitt með að mæta félögum og fannst sem allir væru að horfa á hana og einangraði Z sig framan af. Hún á ennþá erfitt með að tala um það sem gerðist og vanlíðan og depurð sækir á hana við og við. Z nýtur þó góðs stuðnings frá fjölskyldu og vinum og hefur það hjálpað henni mikið að jafna sig og vinna úr þessu áfalli. Það er augljóst að þetta áfall mun hafa áhrif á líf Z um ófyrirsjáanlega framtíð. Traust hennar á mannfólkinu hefur beðið mikla hnekki. Þó hjálpar henni að hún er góðum hæfileikum gædd og hefur góðan grunn að standa á.“
Þórkatla Aðalsteinsdóttir sálfræðingur kom fyrir dóm við aðalmeðferð máls. Hún staðfesti framangreinda álitsgerð og leiðrétti augljósar rangfærslur í henni. Vitnið kvað Z hafa lýst atburðum umræddrar nætur sem ,,nauðgun“ og því hefði vitnið notað það orðalag í skýrslu sinni. Vitnið áleit að umrædd atvik myndu hafa áhrif á líf stúlkunnar í framtíðinni og taldi þar skipta máli, að um hefði verið að ræða fyrstu kynni hennar af kynlífi. Nánar aðspurt dró vitnið það atriði til baka og upplýsti að Z hefði sagt sér að hún hefði fyrri reynslu af kynlífi. Fær þetta stoð í lögregluskýrslu Z, en samkvæmt henni hafði stúlkan u.þ.b. mánuði fyrir héraðsmótið haft sínar síðustu samfarir.
VI.
Eins og áður er rakið ólust ákærði G og Z upp að K á [...] og gengu bæði í [...]skóla. Samkvæmt framburði ákærða og vitna í málinu mun skólinn rúma um tuttugu nemendur. Kennt er í tveimur skólastofum og eru bekkir blandaðir, þannig að nemendum í 5.-9. bekk er kennt saman, stundum einnig með nemendum 10. bekkjar. Ákærði lauk námi vorið [...]. Á sama tíma var Z að ljúka 7. bekk, þá tólf ára gömul. Z fermdist ári síðar, í [...], er hún var á fjórtánda ári. Ákærði sótti fermingarveislu stúlkunnar. Tæpum þremur mánuðum síðar höfðu þau samfarir í tjaldi ákærða á héraðsmóti H. K varð fjórtán ára rúmum þremur mánuðum seinna.
Framburður ákærða fyrir lögreglu 21. júlí 1997 bendir til þess að hann hafi gert sér grein fyrir að Z hefði ekki verið orðin fullra fjórtán ára er samræði átti sér stað. Fær það stoð í vætti Skúla Berg, sem stýrði nefndri yfirheyrslu. Vætti Þuríðar Ingimundardóttur, sem var vottur að skýrslugjöfinni, bendir til hins sama. Vitnið treysti sér þó ekki til að fullyrða fyrir dómi hvort ákærði hefði sagst hafa vitað að stúlkan hefði verið ,,á fjórtánda ári“ eða ,,fjórtán ára“. Önnur vitni ákæruvalds hafa ekki borið gegn ákærða að þessu leyti og sjálf segist Z aldrei hafa upplýst ákærða um aldur sinn.
Samkvæmt framanröktu og gegn eindreginni neitun ákærða fyrir dómi þykir varhugavert að telja nægjanlega sannað að ákærði hafi vitað eða mátt vita að Z hefði verið þrettán ára er samræði þeirra átti sér stað. Dómurinn telur hins vegar, að í ljósi vinskapar ákærða og Z um árabil, sameiginlegrar skólagöngu í fámennum grunnskóla og loks vitneskju um fermingu stúlkunnar vorið [...], hefði ákærði, sem var sextán ára, átt að gera sér grein fyrir að Z var barnung og því full ástæða til að sýna sérstaka varkárni í kynferðislegum samskiptum við hana. Bar ákærða í ljósi alls þessa að ganga úr skugga um aldur hennar áður en samræði hófst. Með því að láta slíkt undir höfuð leggjast og hafa samfarir við stúlkuna vann ákærði sér til refsingar samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, sbr. 204. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 40/1992. Eftir atvikum og með hliðsjón af aldri ákærða og hreinum sakaferli þykir refsing hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi, en þó skal fresta fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum 3 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Þórdís Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður krefst þess í málinu, fyrir hönd M vegna ólögráða dóttur hennar Z, að ákærði verði dæmdur til greiðslu 700.000 króna miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan er studd þeim rökum, að ákærði hafi brotið svo gróflega gegn persónu Z að vart sé að vænta að hún nái sér nokkurn tíma að fullu. Samkvæmt framanröktu þykja allar aðstæður hafa verið með þeim hætti, að Z eigi rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkvæmt téðri lagagrein fyrir hina ólögmætu meingerð. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum þykja bæturnar hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. Skulu þær bera dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 5. nóvember 1997 til greiðsludags, en bótakrafan var sett fram með bréfi 5. október sama ár. Að kröfu lögmannsins og með vísan til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber jafnframt að dæma ákærða til greiðslu bóta vegna kostnaðar við að halda fram miskabótakröfunni. Þykir sú fjárhæð hæfilega ákveðin 50.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar lögmannsins og skyldu hans til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
VII.
Samkvæmt því sem rakið er í köflum I og III að framan um kynni og samskipti ákærða X og Z á héraðsmóti H aðfaranótt sunnudagsins 20. júlí 1997 er ósannað, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi vitað eða mátt vita að Z var aðeins þrettán ára er þau höfðu samræði í tjaldi hennar. Framburður vitna, sem stödd voru á tjaldstæðinu greinda nótt styðja þá niðurstöðu. Á hitt er að líta, að ákærði var rúmlega tvítugur er samræðið átti sér stað. Hann var aðkomumaður á svæðinu og vissi engin deili á Z. Hvíldi því á honum sérstök skylda til að sýna ýtrustu varkárni í kynferðislegum samskiptum við stúlkuna og ganga úr skugga um aldur hennar áður en samræði hófst. Breytir engu í þeim efnum þótt vinkonur Z og önnur vitni hafi borið fyrir dómi, að stúlkan hafi verið fullorðinslegri í útliti en raun var, enda mátti ákærða vera ljóst, að hér var um mjög unga stúlku að ræða. Með samræði við Z vann ákærði sér því til refsingar samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, sbr. 204. gr. hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 40/1992. Eftir atvikum og með hliðsjón af hreinum sakaferli ákærða þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi 2 mánuði. Með hliðsjón af aldri ákærða og alvarleika brotsins þykja ekki efni til að skilorðsbinda þá refsingu.
Þórdís Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður krefst þess, fyrir hönd M vegna ólögráða dóttur hennar Z, að ákærði verði dæmdur til greiðslu 800.000 króna miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan er studd þeim rökum, að ákærði hafi brotið svo gróflega gegn persónu Z að vart sé að vænta að hún nái sér nokkurn tíma að fullu. Samkvæmt framanröktu þykja allar aðstæður hafa verið með þeim hætti, að Z eigi rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkvæmt téðri lagagrein fyrir ólögmæta meingerð. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og með vísan til atvika að broti ákærða þykja bætur til Z hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Skulu þær bera dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 5. nóvember 1997 til greiðsludags, en bótakrafan var sett fram með bréfi 5. október sama ár. Að kröfu lögmannsins og með vísan til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber jafnframt að dæma ákærða til greiðslu bóta vegna kostnaðar við að halda fram miskabótakröfunni. Þykir sú fjárhæð hæfilega ákveðin 50.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar lögmannsins og skyldu hans til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
VIII.
Samkvæmt 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða G til að greiða málsvarnarlaun Péturs Gauts Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða við rannsókn (frá 1. desember 1997) og meðferð málsins, krónur 120.000. Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, krónur 100.000. Annan sakarkostnað greiði ákærðu til helminga hvor fyrir sig, þar með talin 100.000 króna saksóknarlaun, sem renni í ríkissjóð, en Símon Sigvaldason saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvalds.
Dómsorð:
Ákærði G sæti fangelsi 45 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum 3 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði X sæti fangelsi 2 mánuði.
Ákærði G greiði M, fyrir hönd ólögráða dóttur hennar Z, 150.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 5. nóvember 1997 til greiðsludags og vegna lögmannsaðstoðar, 50.000 krónur.
Ákærði X greiði M, fyrir hönd Z, 250.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga, frá 5. nóvember 1997 til greiðsludags og vegna lögmannsaðstoðar, 50.000 krónur.
Ákærði G greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Péturs Gauts Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 120.000 krónur.
Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu til helminga hvor fyrir sig, þar með talin 100.000 króna saksóknarlaun í ríkissjóð.