Hæstiréttur íslands
Mál nr. 440/2017
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Brottrekstur úr starfi
- Uppsögn
- Trúnaðarskylda
- Sönnunarbyrði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar og upphafstími dráttarvaxta miðaður við dómsuppsögu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi er einkahlutafélag sem hóf síðari hluta árs 2015 rekstur fataverslunar í Smáralind undir heitinu Superdry. Mun verslunin hafa verið rekin á grundvelli sérleyfissamnings við erlendan eiganda samnefnds vörumerkis, SuperGroup Nordic & Baltics A/S, Danmörku.
Stefndi var ráðinn til starfa sem verslunarstjóri hjá áfrýjanda í lok júlí 2015 og hóf formlega störf fyrri hluta ágúst sama ár. Stefnda var sagt upp störfum með tölvupósti 31. janúar 2016 sem ágreiningslaust er að hann móttók þann dag. Í póstinum var vísað til 2. gr. ráðningarsamnings aðila 31. júlí 2015 þar sem fram kom meðal annars að uppsagnarfestur að loknum reynslutíma væri þrír mánuðir. Af hálfu áfrýjanda var óskað eftir að stefndi ynni út uppsagnarfrestinn til og með 30. apríl 2016 og samþykkti stefndi það. Með bréfi fyrirsvarsmanns áfrýjanda 29. febrúar 2016 var stefnda „sagt upp“ störfum ,,án fyrirvara vegna ítrekaðra trúnaðarbrota“ og féllu launagreiðslur til hans niður frá sama tíma. Fyrirvaralausri uppsögn var mótmælt af hálfu stefnda 17. mars 2016. Með bréfi 14. júní 2016 krafðist stefndi greiðslu launa fyrir mars og apríl 2016, auk nánar tilgreindra orlofsgreiðslna. Í síðastnefndu bréfi krafðist stefndi auk þess greiðslu launa fyrir yfirvinnu á ráðningartímanum.
Ágreiningur máls snýr annars vegar að því hvort stefndi eigi rétt á greiðslu fyrir yfirvinnu og hins vegar hvort áfrýjanda hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningnum fyrirvaralaust í lok febrúar 2016. Stefndi reisir dómkröfu sína á því að hann hafi sinnt starfsskyldum sínum gagnvart áfrýjanda sem beri þar með að greiða honum laun í uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi. Byggir hann jafnframt á því að við gerð ráðningarsamnings hafi verið samið sérstaklega um að hann fengi greitt fyrir yfirvinnu umfram nánar tilgreinda dagvinnutíma. Áfrýjandi reisir dómkröfu sína einkum á því að sannað sé að stefndi hafi brotið trúnaðarskyldur gagnvart sér og að brotin hafi verið þess eðlis að heimilt hafi verið að rifta ráðningarsamningnum. Að því er varðar kröfu stefnda um greiðslu fyrir yfirvinnu byggir áfrýjandi á því að í fyrirliggjandi ráðningarsamningi hafi verið samið sérstaklega um að ekki yrði greitt fyrir yfirvinnu og að ekkert samkomulag hafi náðst um slíkar greiðslur við frágang samningsins eða síðar.
II
Meðal gagna málsins er afrit af óundirrituðum ráðningarsamningi milli áfrýjanda og stefnda. Þótt samningurinn sé óundirritaður er í málatilbúnaði stefnda gengið út frá því að hann hafi í reynd verið undirritaður. Þetta má ráða af héraðsdómsstefnu þar sem vísað er athugasemdalaust hvað þetta varðar til ráðningarsamningsins en auk þess liggja fyrir í málinu bréfa- og tölvupóstsamskipti þar sem út frá þessu er gengið af hans hálfu. Í samræmi við þetta kom fram í aðilaskýrslu stefnda í héraði að hann hefði undirritað ráðningarsamninginn á fundi sem hann átti með fyrirsvarsmönnum áfrýjanda, Erni Valdimarssyni og Lárentsínusi Kristjánssyni. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að samningurinn hafi verið undirritaður af hálfu stefnda.
Stefndi byggir á því að jafnvel þótt hann hafi undirritað ráðningarsamninginn hafi hann ekki samþykkt að öllu leyti þau kjör sem þar var samið um. Hann hafi ekki verið sáttur við ákvæði 7. gr. samningsins sem gerði ráð fyrir að mánaðarlaun hans að fjárhæð 450.000 krónur væru heildarlaun og að engar greiðslur yrðu inntar af hendi fyrir yfirvinnu. Í bréfi hans til áfrýjanda 14. júní 2016 kemur fram að við gerð samningsins hafi hann strax gert ,,athugasemdir við launakjör eins og þeim var lýst í samningi“. Kemur þar fram að samkomulag hafi náðst milli hans og Lárentsínusar Kristjánssonar, sem þá hafi verið stjórnarmaður og eigandi að helmingshlut í áfrýjanda, um ,,að öll yfirvinna umfram dagvinnu (100% vinna) yrði greidd með yfirvinnukaupi skv. kjarasamningi.“ Hafi hann undirritað ráðningarsamninginn á þeim grundvelli. Lárentsínus Kristjánsson staðfesti í vitnaskýrslu í héraði að stefndi hefði gert kröfu um greiðslu fyrir yfirvinnu á fundi sem hann átti með honum og fyrirsvarsmanni áfrýjanda, Erni Valdimarssyni. Ganga hefði átt frá ,,einhvers konar samkomulagi í framhaldi um hvernig staðið yrði að greiðslu yfirvinnu“ og að þeir hafi bundist ,,fastmælum“ um það. Örn Valdimarsson bar á hinn bóginn fyrir dómi að ekkert slíkt samkomulag hafi verið gert við stefnda og að aldrei hafi komið til umræðu að greitt yrði fyrir yfirvinnu.
Af framangreindri skýrslu Lárentsínusar Kristjánssonar verður aðeins ráðið að stefndi hafi gert kröfu um greiðslu yfirvinnu og að til hafi staðið í framhaldinu að ganga frá einhvers konar samkomulagi þar að lútandi. Gögn málsins bera hvorki með sér að það hafi verið gert né að stefndi hafi sett fram kröfu um það á gildistíma ráðningarsamningsins. Þá liggur fyrir að stefndi fékk á ráðningartímanum ekki greitt fyrir yfirvinnu og ekki hafa verið lögð fram gögn um að hann hafi eftir fyrrgreindan fund með fyrirsvarsmönnum áfrýjanda gert kröfu um slíka greiðslu. Krafa þess efnis var fyrst sett fram með fyrrgreindu bréfi 14. júní 2016 en þá voru liðnir tæplega sex mánuðir frá því hann hóf störf hjá áfrýjanda og þrír og hálfur mánuður frá því ráðningarsamningnum var rift. Samkvæmt þessu verður stefndi að bera hallann af sönnunarskorti um að náðst hafi samkomulag milli hans og áfrýjanda um greiðslu launa fyrir yfirvinnu. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda um greiðslu launa fyrir yfirvinnu.
Áfrýjandi byggir á því að honum hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningnum við stefnda vegna brota hans á trúnaðarskyldum. Fram er komið í málinu að stefndi setti sig í samband við fyrirsvarsmann SuperGroup Nordic & Baltics A/S í janúar 2016 og mun hafa haft uppi efasemdir um getu eiganda og fyrirsvarsmanns áfrýjanda til reksturs á versluninni. Á hinn bóginn liggur fyrir að sá síðarnefndi fékk í beinu framhaldi vitneskju um samskiptin en gerði engu að síður ráð fyrir að stefndi starfaði áfram hjá félaginu og sýndi með því í verki að hann taldi sjálfur þessa háttsemi stefnda ekki eina og sér geta réttlætt brottvikningu úr starfi án fyrirvara. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu að ekki liggi fyrir sönnun um að stefndi hafi brotið gegn trúnaðar- og starfsskyldum sínum hjá áfrýjanda með þeim hætti að réttlætt hafi fyrirvaralausa riftun á ráðningarsamningi hans. Samkvæmt þessu er tekin til greina krafa stefnda um greiðslu launa í uppsagnarfresti ásamt kröfum um greiðslu desemberuppbótar, orlofs og orlofsuppbótar en fjárhæð þessara kröfuliða er óumdeild og nemur samtals 1.125.983 krónum. Óumdeilt er að 47.593 krónur voru greiddar inn á kröfuna 7. febrúar 2017 vegna desember- og orlofsuppbóta.
Eftir framangreindum málsúrslitum skal hvor málsaðili bera sinn kostnað af rekstri málsins á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Áfrýjandi, SDR ehf., greiði stefnda, Jóni Helga Sigurðssyni, 1.125.983 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 477.900 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí sama ár en af 1.125.983 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 7. febrúar 2017 að fjárhæð 47.593 krónur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2017
Mál þetta var höfðað 13. október 2016 og dómtekið 15. mars 2017. Stefnandi er Jón Helgi Sigurðsson, Hólmgarði 31, Reykjavík. Stefndi er SDR ehf., Mávanesi 18, Garðabæ.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda vangoldin laun, orlof og desemberuppbót að fjárhæð 1.980.246 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 477.900 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí 2016 og frá þeim degi af 1.980.246 krónum til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. maí 2017 en síðan árlega þann dag. Þá er gerð krafa um málskostnað.
Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
I.
Málsatvik eru þau að stefnandi réð sig í júlí 2015 til starfa sem verslunarstjóri í verslun stefnda í Smáralind í Kópavogi, sem var rekin undir heitinu Superdry á grundvelli sérleyfissamnings (e. franchise agreement), og hóf stefnandi störf 6. ágúst sama ár. Ráðningarfyrirtækið Capacent hafði milligöngu um ráðninguna.
Fyrir liggur óundirritaður ráðningarsamningur, dags. 31. júlí 2015. Í 2. gr. samningsins sagði að reynslutími stefnanda væri þrír mánuðir og að honum loknum skyldi gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir. Í 3. gr. kom fram að yfirmaður stefnanda væri framkvæmdastjóri og eftir atvikum stjórn stefnda, en stefnandi tæki þó ekki við beinum fyrirmælum frá stjórn heldur þá eingöngu í gegnum framkvæmdastjóra. Vinnutími stefnanda skyldi að jafnaði vera a.m.k. frá kl. 10 til kl. 19 alla virka daga auk vinnu á kvöldin og/eða um helgar þegar þess væri þörf að mati hans sjálfs, sbr. 4. gr. samningsins.
Sérstakt ákvæði var um trúnaðar- og þagnarskyldu í 6. gr. samningsins. Þar sagði að stefnandi lofaði að rækja starf sitt með ástundun og samviskusemi og heita því að viðlögðum drengskap að gæta fyllstu þagmælsku um öll atriði sem hann fengi vitneskju um í starfi sínu, þ.m.t. um viðskiptakjör og viðskiptavini fyrirtækisins og samskipti við viðsemjanda stefnda, Superdry. Þagnarskyldan gilti burtséð frá fyrirspyrjanda, nema hann þyrfti sannarlega á upplýsingum þessum að halda vegna starfa sinna í þágu vinnuveitanda. Í henni fælist m.a. að utan starfstíma væri undantekningarlaust óheimilt að veita nokkrar þær upplýsingar sem leynt skyldu fara, s.s. upplýsingar um einstök mál og/eða sölu- og veltutölur, samninga sem og annað og gilti það einnig þótt nafnleynd vinnuveitanda, viðskiptavinar og/eða starfsmanns væri viðhöfð. Þá sagði í ákvæðinu að innihald ráðningarsamningsins væri algjört trúnaðarmál milli málsaðila og stefnanda væri það ljóst að það kostaði stöðumissi ef uppvíst yrði að þagnar- og trúnaðarheit samkvæmt þessari grein væri rofið. Þagnarskylda héldist þótt stefnandi léti af störfum.
Í 7. gr. samningsins sagði að laun stefnanda væru 450.000 krónur á mánuði miðað við vinnu sem tilgreindur væri í 4. gr. samningsins og greiðast mánaðarlega eftirá. Þá sagði í ákvæðinu: „Engar aukagreiðslur hverju nafni sem nefnast koma þannig til vegna yfirvinnu sem starfsmaðurinn telur sig þurfa að vinna til að rækja starfann með fullnægjandi hætti eða vinnuveitandi gerir kröfu um af því tilefni. Launagreiðslur eru fastar og taka ekki breytingum til samræmis við verðlagshækkanir eða þróun launa á almennum vinnumarkaði heldur eru breytingar ætíð háðar samþykki stjórnenda vinnuveitanda.“ Í 7. gr. sagði einnig að stefndi hefði kynnt fyrir stefnanda áform um að greiða bónus ofan á föst laun er tæki mið af annars vegar rýrnun í versluninni og hins vegar á afkomu fyrirtækisins. Aðilar myndu semja sérstaklega um þennan þátt launa og ganga frá samningi í þá veru eigi síðar en 30. september 2015. Launakjör skyldu endurskoðuðu eftir sex mánuði frá því að stefnandi hæfi störf. Samningur um kaup og kjör meðhöndlaðist ætíð af framkvæmdastjóra og stjórnarmanni stefnda.
Stefnandi kveðst hafa við gerð framangreinds ráðningarsamnings aðila, dags. 31. júlí 2015, strax gert athugasemdir við launakjör eins og þeim var lýst í ráðningarsamningi. Samkomulag hafi þá orðið á milli fyrirsvarsmanna stefndu, Arnar Valdimarssonar og Lárentsínusar Kristjánssonar, að öll yfirvinna umfram dagvinnu yrði greidd með yfirvinnukaupi. Þessu mótmælir stefndi og heldur því fram að ekki hafi verið samið um greiðslu yfirvinnu.
Stefndi segir að í lok árs 2015 og byrjun árs 2016 hafi stefnda borist fregnir af ýmsum trúnaðarbrotum stefnanda í starfi sem hafi miðað af því að rýra orðspor félagsins og eigenda þess. Stefnandi hafi sett út á stjórnhætti framkvæmdastjóra stefnda og kvartað undan launakjörum og vinnu við Kim Knudsen, yfirmann útstillinga hjá SuperGroup. Kim hafi komið til landsins í lok nóvember 2015 og stefnandi átt nokkra fundi með honum. Kim hafi upplýst fyrirsvarsmenn stefnda um þetta og að ummæli stefnanda hafi ekki verið forsvaranleg og að slíkum ummælum ætti að beina að framkvæmdastjóra stefnda. Í kjölfarið hafi stefndi áminnt stefnanda munnlega og stefnandi lofað að bæta úr háttsemi sinni.
Stefndi segir að hinn 19. janúar 2016 hafi stefnandi óskað eftir einkafundi við Lars Thygesen, forstjóra Supergroup á Norðurlöndum og á Eystrasaltinu. Stefnandi hafi ekki upplýst stefnda um fundinn og hafi hann því farið fram með leynd af hans hálfu. Á fundi þeirra tveggja hafi stefnandi gagnrýnt starfshætti Arnar Valdimarssonar, eiganda stefnda, auk þess að lýsa því yfir að Örn væri óhæfur til að reka verslunina á grundvelli sérleyfisins. Daginn eftir hafi Lars tilkynnt fyrirsvarsmönnum stefnda um fundinn og hvað þar hafi farið fram enda hafi honum verið ljóst að tilgangur stefnanda væri að sverta orðstír stefnda og fyrirsvarsmanna stefnda. Eftir að Örn hafi fengið fregnir af framangreindu trúnaðarbroti hafi hann krafist útskýringa af hendi stefnanda. Jafnframt hafi Örn upplýst stefnanda um að kvartanir sem þessar ættu að bera undir framkvæmdastjóra og beðið stefnanda um að hugleiða trúnaðarbrot sín. Stefnandi hafi lofað að frekari trúnaðarbrot myndu ekki eiga sér stað.
Daginn eftir hafi stefnandi sent tölvupóst til Lars Thygsen og óskað eftir upplýsingum vegna gallaðrar vöru. Lars hafi strax haft samband við Örn vegna tölvupóstsins, enda hafi það ekki falist í starfssviði stefnanda að eiga í beinum samskiptum við Lars, og stefnanda verið það fullkunnugt.
Stefndi kveður að á þessum tíma hafi verið ljóst að grundvöllur ráðningarsambandsins væri brostinn vegna trúnaðarbrota stefnanda og þau væru þess eðlis að ekki yrði ráðið bót á enda þeim. Á þessum tíma hafi verið frágengið að stefnandi og Örn færu í innkaupaferð 25. janúar 2016 og vegna reynsluleysis fyrirsvarsmanna stefnda á slíkum ferðum hafi verið nauðsynlegt að sú ferð yrði farin svo hægt yrði að panta vörur fyrir verslunina. Í þeirri innkaupaferð hafi stefnandi sýnt af sér ósæmilega hegðun við annan starfsmann verslunarinnar í samtali á samskiptaforritinu Skype, er hann hafi gagnrýnt hana með hæðni er hún hafi gefið upp skoðanir sínar á tilteknum vörum.
Með tölvupósti Arnar Valdimarssonar 31. janúar 2016 var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda og um uppsagnarfrest vísað til kjarasamnings VR og Samtaka atvinnulífsins og 2. gr. ráðningarsamnings frá 31. júlí 2015. Stefndi segir að þar sem verslunin hafi nýlega tekið til starfa hafi stefndi farið fram á að stefnandi myndi vinna upp uppsagnarfrestinn, svo ekki yrði röskun á starfsemi verslunarinnar. Hafi stefndi hugsað sér í millitíðinni að finna nýjan verslunarstjóra, eins fljótt og mögulegt væri enda ljóst að trúnaður væri að öllu leyti brostinn fyrir áframhaldandi samstarfi aðila.
Stefndi kveðst hafa frétt 9. febrúar 2016 af frekari trúnaðarbrotum stefnanda, en stefnandi hefði gagnrýnt einn fyrirsvarsmann stefnda í samtali við aðstoðarverslunarstjóra verslunarinnar og lýst yfir vantrausti á störfum hans. Örn Valdimarsson sendi stefnanda tölvupóst sama dag, 9. febrúar, þar sem fram kom að slík hegðun væri ekki liðin og væri trúnaðarbrot.
Stefndi kveður að hinn 15. febrúar 2016 hafi stefnandi skyndilega farið úr vinnu klukkan 16:00 án þess að tilkynna sérstaklega um ástæðu fjarvistanna, líkt og honum hafi borið skylda til samkvæmt samningi aðila. Framkvæmdastjóra stefnda hafi borist atvikið til fregna frá öðrum starfsmanni, sem hafi sagt að stefnandi hafi ætlað að fara beint á Læknavaktina vegna veikinda. Morguninn eftir hafi stefnandi tilkynnt sig veikan í vinnu. Fyrir liggi læknisvottorð, dags. 19. febrúar 2016, frá heilsugæslunni í Efra-Breiðholti, og því sé ljóst að stefnandi hafi ekki leitað strax til læknis vegna veikinda líkt og hann hafi fullyrt.
Síðar í mánuðinum hafi stefndi frétt að stefnandi hafi þann 19. febrúar borið upp kvartanir við verslunarstjóra annarrar verslunar í Smáralind, s.s. um vangoldna yfirvinnu auk þess að gagnrýna frekar fyrirsvarsmenn stefnda.
Með bréfi stefnda, dags. 29. febrúar 2016, var stefnanda sagt upp störfum án fyrirvara vegna þess að hann hefði ítrekað brotið trúnaðarskyldur sínar.
Með bréfi Verslunarmannafélags Íslands (VR) fyrir hönd stefnanda, dags. 17. mars 2016, var fyrirvaralausri uppsögn mótmælt. Með bréfi 14. júní 2016 voru mótmæli stefnanda áréttuð auk þess að stefnandi krafðist greiðslu bóta, en stefndi hefur hafnað kröfum stefnanda. Stefnandi hefur því höfðað mál þetta.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu, framkvæmdastjóri stefnda, Örn Valdimarsson, Guðbjörg María Sigtryggsdóttir stjórnarformaður stefnda og vitnin Kim Martin Knudsen, Margrét Ýr Sigurjónsdóttir og Lárentsínus Kristjánsson.
II.
Stefnandi byggir á því að við gerð ráðningarsamnings aðila, dags. 31. júlí 2015, hafi hann strax gert athugasemdir við launakjör eins og þeim var lýst í ráðningarsamningi. Samkomulag hafi þá orðið á milli forsvarsmanna stefndu, Arnar Valdimarssonar og Lárentsínusar Kristjánssonar, að öll yfirvinna umfram dagvinnu yrði greidd með yfirvinnukaupi samkvæmt kjarasamningi VR og SA. Samkvæmt tímaskráningu hafi unnir yfirvinnutímar á starfstímanum verið 155,78. Tímakaup í yfirvinnu samkvæmt kjarasamningi nemi 1,0385% af mánaðarlaunum og hafi verið 4.963 krónur á tímann.
Stefnandi hafnar því alfarið að hafa brotið af sér í starfi og telur hann ásakanir stefnda rangar. Stefnanda hafi meðal annars verið gefið að sök að hafa rætt við sænskan aðila sem hafi komið nokkrum sinnum hingað til lands á vegum stefnda til að aðstoða við framsetningu búðarinnar. Stefnandi hafi verið samskipti við umræddan aðila enda hingað kominn til að aðstoða stefnda. Að slík samskipti feli í sér trúnaðarbrot eigi ekki við nokkur rök að styðjast og eigi það sama við um aðrar ávirðingar á hendur stefnanda. Þá hafi stefnandi aldrei fengið áminningu um brot í starfi en það sé forsenda þess að unnt sé að reka starfsmenn fyrirvaralaust.
Stefnandi gerir kröfu um vangoldin laun í uppsagnarfresti sem sé mars og apríl, vangoldna yfirvinnu, auk orlofs og desemberuppbótar 30.978 krónur en full uppbót sé 82.000 krónur og miðist við 45 unnar vikur, og orlofsuppbót 42.000 krónur sem sé full uppbót m.v. maí 2015 til lok apríl 2016.
Samkvæmt 1.9. gr. í kjarasamningi VR og SA eigi laun að greiðast fyrsta dag eftir að mánuði þeim lýkur sem laun eru greidd fyrir. Að auki skuli vinnuveitandi greiða áunnið orlof til launþega við lok ráðningarsambands skv. 8.gr. orlofslaga nr. 30/1987, og áunnið hlutfall launþega af orlofs-og desemberuppbót skv. köflum 1.3.1 og 1.3.2 í kjarasamningi VR og SA.
Krafan sundurliðist þannig:
Vangoldin laun vegna mars 2016 477.900,00
Vangoldin laun vegna apríl 2016 477.900,00
Vangoldið orlof 10.17% (2x477.900,00x0.1017) 97.205,00
Vangoldin desemberuppbót 2016 30.978,00
Vangoldin orlofsuppbót 2015/16 42.000,00
Yfirvinna (155,78 yfirvinnutímar * kr. 4.963,00) 773.135,00
Höfuðstóll 1.980.246,00
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lög um orlof nr. 30/1987, meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitenda og bókanir sem teljast hluti kjarasamninga.
Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.
Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
III.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi efnt að fullu skyldur sínar við stefnanda og eigi stefnandi því engar frekari kröfur á hendur stefnda. Stefndi mótmælir því að hann skuldi stefnanda laun vegna ógreiddrar yfirvinnu auk launa á uppsagnarfresti ásamt orlofi og desemberuppbót, enda hafi aðilar ekki samið um greiðslu yfirvinnu auk þess að stefnanda hafi verið sagt upp fyrirvaralaust vegna alvarlegra brota á ráðningarsamningi og skyldum sínum gagnvart stefnda, sem réttlætt hafi stöðvun frekari launagreiðslna til stefnanda á uppsagnarfresti.
Stefndi segir að engin sönnun liggi fyrir um meintan rétt stefnanda til greiðslu yfirvinnukaups. Þá liggi engin staðfesting fyrir um fjölda tíma eða sundurliðun. Krafa stefnanda sé verulega vanreifuð að þessu leyti. Jafnvel þó svo að fallist yrði á að stefnandi hafi unnið yfirvinnutíma þá sé ljóst að heildarlaun hans hafi verið langt ofan þau laun sem kjarasamningur kveði á um sem lágmarkskjör í starfi. Samkvæmt ráðningarsamningi skyldu laun stefnanda vera 450.000 krónur á mánuði, í samræmi við vinnutíma skv. 4. gr. samningsins. Í 7. gr. samningsins sé skýrt tekið fram að stefnanda yrði ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Laun samningsins hafi verið miðuð við það að mæta hugsanlegri tilfallandi yfirvinnu. Samkvæmt kjarasamningi SA og VR hafi byrjunarlaun sérþjálfaðra starfsmanna sem fela megi verkefnaumsjón verið 239.506 krónur fram að 1. janúar 2016 eða 210.494 krónum minna en samningsbundin laun stefnanda hafi kveðið á um.
Samningar, þar sem kveðið sé á um að yfirvinna skuli vera innifalin í föstum mánaðarlaunum, séu ekki óheimilir, nema kjarasamningar eða lög mæli svo fyrir. Í fyrirliggjandi kjarasamningi, sem gildi um ráðningarsamband aðila, séu slíkir samningar ekki bannaðir.
Þá mótmælir stefndi því að stefnandi hafi gert athugasemdir eða kröfu um greiðslu á yfirvinnustundum á ráðningartíma sínum. Í málinu hafi ekki verið lögð fram gögn sem styðji þessa staðhæfingu stefnanda.
Einnig bendir stefndi á að í ráðningarsamningi sé kveðið á um að framkvæmdastjóri sé næsti yfirmaður stefnanda og að um kaup og kjör skyldi samið við hann. Stefnandi haldi því fram í stefnu að hann hafi komist að munnlegu samkomulagi við þáverandi meðeiganda stefnda um greiðslu yfirvinnukaups. Staðhæfingu þessari sé mótmælt sem ósannaðri og skjóti það skökku við að því sé haldið fram að um yfirvinnu hafi verið samið þvert á það sem komi fram í 7. gr. ráðningarsamningsins. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að tryggja sér sönnun um slíkt hafi sú verið raunin.
Í ráðningarsamningi hafi jafnframt verið kveðið á um að laun skyldu endurskoðuð eftir sex mánuði frá því að starfsmaður hóf störf. Ljóst sé að ekki hafi komið til slíkrar endurskoðunar vegna uppsagnar stefnda á ráðningarsambandinu. Ennfremur bendi fyrirætlanir aðila um bónuskerfi sem kveðið hafi verið á um í 7. gr. ráðningarsamningsins til þess að engin áform hafi verið um greiðslu sérstaks yfirvinnukaup. Umrætt bónuskerfi skyldi taka mið af annars vegar rýrnun í versluninni og hins vegar afkomu fyrirtækisins. Báðir aðilar hafi vitað og mátt vita að skilyrði bónuskerfis hafi ekki verið til staðar fyrstu mánuði í rekstri stefnda enda óraunhæft að ætla nýrri fataverslun að skila hagnaði fyrst um sinn. Téð ákvæði hafi verið til þess hugsað að stefnandi fengi að njóta ávinnings af góðum rekstrarskilyrðum stefnda þegar að því kæmi.
Þá bendir stefndi á að í ráðningarsamningi skyldi vinnutími stefnanda vera frá kl 10-19 virka daga. Í reynd hafi stefnandi ætíð hafið störf kl. 11, en það sé óumdeilt í málinu. Þá hafi stefnandi unnið á fimmtudögum frá kl. 11-17.
Einnig byggir stefndi á því að stefnandi hafi glatað kröfu sinni um greiðslu yfirvinnukaups sökum tómlætis en ekki liggi fyrir að stefnandi hafi gert sérstaka kröfu um greiðslu slíks kaups á ráðningartíma.
Að ofangreindu virtu beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um laun vegna ógreiddrar yfirvinnu.
Enn fremur byggir stefndi á því að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til frekari launa á uppsagnafresti. Nánar tiltekið hafi vanefndir stefnanda á starfsskyldum sínum réttlætt fyrirvaralausa uppsögn sem hafi heimilað stöðvun frekari launa á uppsagnarfresti. Vanefnd þessi hafi fyrst og fremst falist í ítrekuðum alvarlegum trúnaðarbrotum stefnanda gagnvart stefnda og forsvarsmönnum félagsins, m.a. í því skyni að rýra orðstír stjórnenda félagsins og þar með skaða ímynd þess.
Stefndi kveður að samkvæmt almennum reglum vinnuréttar hafi launþegi m.a. þeirri trúnaðarskyldu að gegna gagnvart vinnuveitanda sínum að hann hagi störfum sínum á þann hátt að hagsmunir vinnuveitanda verði ekki fyrir skaða. Enn ríkari skyldur hafi þeir starfsmenn sem séu yfirmenn og beri faglega ábyrgð á rekstri fyrirtækis og jafnvel mannaforráð, eins og í tilfelli stefnanda. Brot á heiðarleika- og trúnaðarskyldu sé alvarlegt brot á ráðningarsambandi og geti það varðað riftun án áminningar. Viðhafi starfsmaður svo alvarlegt trúnaðarbrot að það vegi gegn rekstrargrundvelli vinnuveitanda hans réttlæti slíkt fyrirvaralausa uppsögn, en svo hafi háttað í tilviki stefnanda, sbr. og niðurlag gr. 12.1 í gildandi kjarasamningi vegna starfans.
Á grundvelli ráðningarsamnings aðila sé ennfremur ljóst að stefnandi hafi borið ríka trúnaðar- og þagnarskyldu í starfi, sbr. 6. gr. samningsins auk óskráðra reglna um trúnaðarskyldur starfsmanna gagnvart vinnuveitanda. Í niðurlagi 6. gr. ráðningarsamningsins sé ennfremur sérstaklega áréttað að starfsmanni sé það ljóst að það kosti stöðumissi ef uppvíst verði að þagnar- og trúnaðarheit skv. 6. gr. verði rofið.
Byggir stefnandi á að stefndi hafi gerst sekur í upphafi um alvarleg trúnaðarbrot sem hafi leitt til uppsagnar hans 31. janúar 2016. Trúnaðarbrot þessi hafi falist í því að skaða vinnuveitanda sinn og orðstír hans gagnvart yfirmönnum hjá sérleyfisgjafa stefnda með því að kasta rýrð á hæfni þeirra og fagmennsku í rekstrinum. Stefnda hafi hins vegar verið sá nauðugur kostur búinn í ljósi þess að verslunin hafði nýlega tekið til starfa, að fara fram á að stefnandi ynni upp uppsagnarfrest á meðan að leitað væri nýs verslunarstjóra svo ekki yrði röskun á starfsemi stefnda á jafn viðkvæmum tíma og fyrstu mánuðir í rekstri verslunar eru almennt.
Trúnaðarbrot þessi og alvarleiki þeirra verði að skoða í því ljósi að stefndi reki verslanir sínar á grundvelli sérleyfissamnings (e. franchise agreement) við eiganda vörumerkisins Superdry á alþjóðavísu. Við þess háttar aðstöðu sé gott viðskiptasamband milli sérleyfistaka og sérleyfisgjafa enn mikilvægara en ella enda sé allur rekstur sérleyfishafa grundvallaður á þessum samningi. Verði viðskiptasamband þetta fyrir skaða af völdum þriðja aðila sé því reksturinn allur undir ólíkt því þegar átt sé við einstaka birgja vörumerkja.
Stefnandi, sem hafi starfað sem verslunarstjóri hjá stefnda og hafi m.a. haft á starfssviði sínu að móta verslunina í samræmi við viðskiptahugmyndir sérleyfisgjafans, hafi verið fyllilega meðvitaður um umrætt fyrirkomulag og mikilvægi viðskiptasambandsins fyrir stefnda.
Byggir stefndi í því samhengi á því, að þrátt fyrir að stefnanda hafi verið sagt upp þann 31. janúar, vegna brota sem réttlætt hefðu fyrirvaralausa uppsögn, hafi trúnaðarskylda vinnusambandsins áfram verið í fullu gildi. Í tilviki stefnanda hafi verið um alvarlega framgöngu að ræða, sem hafi falist í áframhaldandi vanefnd á samningi aðila og trúnaðraskyldum. Þá hafi stefndi fengið ítarlegri lýsingar á trúnaðarbrotum stefnanda eftir uppsögnina í janúar 2016.
Um miðjan og í lok febrúar 2016 hafi framkvæmdastjóra stefnda borist til fregna frekari trúnaðarbrot stefnanda. Þar sem stefnandi hafi gerst sekur um ítrekuð trúnaðarbrot, og í raun viðhaldið vanefndum sínum með því að vinna gegn hagsmunum stefnda eftir uppsögnina í lok janúar 2016, hafi verið ákveðið að segja stefnanda upp fyrirvaralaust og stöðva greiðslur launa eftir febrúarmánuð. Það hafi verið ljóst að stefnandi hafi unnið áfram af ásetningi gegn hagsmunum stefnda á þessu tímamarki. Trúnaðarbrot þessi, sem hafi m.a. falist í brotthvarfi úr vinnu án tilkynningar til stefnda og broti á þagnar- og trúnaðarskyldum stefnanda í samtölum við þriðja aðila og samstarfsfólk, hafi falið í sér veigamiklar vanefndir að ráðningarsambandi aðila.
Stefndi telur að með hliðsjón af fyrri atvikum og alvarlegum vanefndum stefnanda sem hafi leitt til uppsagnar hans í janúar hafi ekki verið þörf á sérstakri áminningu enda hafi stefnandi mátt vita að frekari trúnaðarbrot heimiluðu fyrirvaralausa uppsögn. Sérstök áminning í aðdraganda hinnar fyrirvaralausu uppsagnar í febrúar hafi því verið óþörf með hliðsjón af atvikum málsins og alvarleika brotanna.
Stefndi heldur því fram að í raun hafi uppsögnin í janúar og áminningar til stefnanda fyrir það tímamark falið í sér ígildi áminningar enda verði áminning vart skýrari en með uppsögn starfsmanns á grundvelli brota hans. Stefnanda hafi verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt gegn því að hann fengi að halda launum út uppsagnarfrest og vinnu, sem stefnda hafi ekki verið nauðsynlegt að gera í ljósi atvika.
Alvarleika síðari trúnaðarbrot og vanefnda á starfsskyldum verði auk þess að túlka með hliðsjón af þeim trúnaðarbrotum sem stefnandi hafi orðið uppvís að í janúar 2016, þ.e. tæpum mánuði fyrir hina fyrirvaralausu uppsögn. Uppsögnin hafi falið í sér alvarlega áminningu í garð stefnanda og hafi stefndi mátt fara fram á að stefnandi stæði við ákvæði ráðningarsamnings jafnt á uppsagnarfresti sem endranær.
Með áframhaldandi vanefndum stefnanda á uppsagnarfresti hafi stefnandi gefið stefnda fullt tilefni og rétt til að segja stefnanda upp störfum með þeim hætti sem gert var og þar með stöðva frekari launagreiðslur til hans.
Að teknu tilliti til eðlis vanefndar stefnanda og rekstrarfyrirkomulags stefnda hafi verið ómögulegt fyrir stefnda að gefa stefnanda færi á að bæta fyrir vanefnd sína enda hafi um óafturkræfanlegan skaða að ræða og gróft trúnaðarbrot.
Með hliðsjón af ofangreindu hafi hin fyrirvaralausa uppsögn án frekari greiðslna verið lögmæt. Beri því að sýkna stefnda af kröfu um laun á uppsagnarfresti vegna mars og apríl 2016 auk vangoldins orlofs vegna ofangreindra tveggja mánaða.
Stefndi hafnar því að réttur stefnanda til greiðslu bóta vegna ógreiddrar orlofs- og desemberuppbótar hafi verið fyrir hendi enda hafi heildarlaun stefnanda verið með þeim hætti að allar slíkar greiðslur rúmuðust innan þeirra kjara sem kveðið var á um í ráðningarsamningi aðila. Skýrlega sé tekið fram í ráðningarsamningi að launagreiðslur væru fastar og tækju ekki breytingum til samræmis við verðlagshækkanir eða þróun launa á almennum vinnumarkaði heldur væru breytingar ætíð háðar samþykkir stjórnenda vinnuveitanda. Að auki sé útreikningi vegna ofangreindra tveggja kröfuliða mótmælt.
Verði fallist á að stefnandi eigi rétt til greiðslu yfirvinnu í samræmi við kröfu stefnanda byggir stefndi á að greiða skuli eftir taxta VR en ekki reikna yfirvinnu út frá heildarlaunum. Í 7. gr. ráðningarsamningsins komi skýrt fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Þar að leiðandi standist það enga skoðun að reikna yfirvinnutaxta út frá heildarlaunum stefnanda. Ljóst sé að umsamin laun hafi ekki verið eingöngu dagvinnulaun, heldur hafi falist í þeim laun fyrir eftir- og yfirvinnu eftir atvikum, þótt ekki væri greint milli þessa tvenns í ráðningarsamningnum. Leiði af því að stefnandi eigi ekki rétt á að yfirvinna hans sé miðuð við hin umsömdu heildarlaun heldur verði að miða dagvinnulaun samkvæmt gildandi kjarasamningi. Beri að miða yfirvinnukaup við taxta kjarasamnings fyrir dagvinnulaun sérþjálfaðra starfsmanna verslana, sem geti unnið sjálfstætt, sýna frumkvæði og fela megi verkefnaumsjón.
Þá byggir stefndi jafnframt á að tímafjöldi yfirvinnutíma sé vanreifaður og ótækt sé að byggja á fullyrðingum stefnanda um fjölda þeirra, en stefndi hafi mótmælt þeim. Jafnframt sé ljóst að stefnandi hafi aldrei unnið á ráðningartímanum í samræmi við skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi, þ.e. frá 10-17, heldur hafi hann ávallt mætt til vinnu kl 11:00. Með hliðsjón af því verði að lækka kröfu stefnanda um greiðslu yfirvinnukaup sem því nemi, en samtals sé um að ræða 137 klukkustundir á ráðningartímabilinu.
Verði fallist á kröfu stefnanda um skaðabætur vegna mánaðarlauna í mars og apríl gerir stefndi kröfu um lækkun þeirrar fjárhæðar verði leitt í ljós að stefnandi hafi fengið greiðslur frá þriðja aðila á umræddu viðmiðunartímabili. Að auki er upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, meginreglna vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitanda. Þá byggir stefndi á skráðum sem óskráðum reglum um trúnaðarskyldu starfsmann gagnvart vinnuveitanda auk reglna um tómlæti í vinnurétti.
Um málskostnað vísast til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hann eigi inni ógreidd yfirvinnulaun hjá stefnda og laun í uppsagnarfresti auk ógreiddrar orlofs- og desemberuppbótar. Stefnandi hefur mótmælt því að hafa aðhafst nokkuð sem réttlætt geti synjun á launum í uppsagnarfresti.
Svo sem áður segir liggur í málinu fyrir óundirritaður ráðningarsamningur, dagsettur 31. júlí 2015. Þá liggur fyrir tölvupóstur Lárentsínusar Kristjánssonar, þáverandi eiganda að helmingshlut í stefnda og stjórnarmanns, til stefnanda og Arnar Valdimarssonar sama dag, þar sem stefnanda voru send drög að ráðningarsamningi, og tekið fram að stefnandi skyldi gera athugasemdir við samninginn ef einhverjar væru en „annars klárum við þetta á eftir þegar við hittumst“. Í aðilaskýrslu Arnar Valdimarssonar fyrir dómi kom fram að enginn ráðningarsamningur hafi verið undirritaður er þeir hittust, né síðar. Í framburði vitnisins Lárentsínusar Kristjánssonar fyrir dómi kom fram að stefnandi hafi strax gert athugasemdir við að ráðningarsamningurinn gerði ekki ráð fyrir að vinna, umfram 171,15 tíma vinnuskyldu, yrði greidd sérstaklega. Kvaðst hann hafa hitt stefnanda og Arnar í búð stefnda þar sem þetta hafi verið rætt og hafi aðilar bundist fastmæli um að yfirvinna skyldi greidd. Hafi Örn átt að sjá um að ganga frá þessum málum í framhaldinu. Í ljósi þessa verður talið ósannað að samið hafi verið um að stefnandi skyldi ekki fá greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Er þá meðal annars litið til þess að stefnda var í lófa lagið að tryggja sér sönnun um að yfirvinna skyldi vera innifalin í föstum mánaðarlaunum stefnanda með því að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda eða staðfesta ráðningu hans með skriflegum hætti svo sem honum bar skylda til samkvæmt grein 1.11.1 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins.
Stefnandi krefst launa fyrir samtals 155,78 vinnustundir sem hann hafi skilað umfram 171,15 klukkustunda vinnuskyldu á mánuði. Fram er komið að stefnandi hélt utan um eigin tímaskráningu og staðfesti Arnar Valdimarssonar fyrir dómi að stefnandi hefði látið honum skráninguna í té mánaðarlega. Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins rakti stefnandi tíma sem hann vann í yfirvinnu á starfstímanum, dag fyrir dag. Samkvæmt því vann stefnandi 19,85 yfirvinnutíma á tímabilinu frá 25. júlí 2015 til 24. ágúst sama ár, 34,68 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. september sama ár, 23,35 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. október sama ár, 23,35 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. nóvember sama ár, 24,10 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. desember sama ár, 5,10 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. janúar 2016 og 25,35 yfirvinnutíma frá 25. sama mánaðar til 24. febrúar sama ár eða samtals 155,78 klukkustundir. Tímafjöldi að baki kröfu stefnanda byggi á samtímaskráningu. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn né með öðrum hætti hrakið staðhæfingar stefnanda um fjölda yfirvinnutíma og verður stefndi að bera hallann af því. Samkvæmt ákvæði 1.7.1 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins skal vinna afgreiðslufólks umfram 171,15 klukkustundir greiðast með tímakaupi sem nemur 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Áður er komist að þeirri niðurstöðu að mánaðarlaun stefnanda voru greidd fyrir 171,15 klukkustunda mánaðarlega vinnuskyldu stefnanda. Krafa stefnanda um yfirvinnugreiðslur tekur því réttilega mið af umsömdum mánaðarlaunum. Samkvæmt því verður krafa stefnanda um greiðslu á 773.153 krónum vegna ógreiddrar yfirvinnu tekin til greina. Eins og atvikum máls þessa er háttað verður ekki talið að sá tími sem leið þar til stefnandi krafði stefnda sannanlega um greiðslur vegna yfirvinnu í janúar 2016 leiði til þess að réttur hans til launanna sé að nokkru eða öllu niður fallinn.
Svo sem áður segir var stefnanda sagt upp störfum með tölvupósti 31. janúar 2016. Var stefnanda í upphafi gert að vinna þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt 2. gr. hins óundirritaða ráðningarsamnings. Með bréfi 29. febrúar sama ár var stefnanda vikið fyrirvaralaust úr starfi hjá stefnda og sviptur frekari launagreiðslum vegna ítrekaðra trúnaðarbrota í starfi. Í málatilbúnaði sínum byggir stefndi á því að honum hafi verið riftun ráðningarsamningsins heimil án sérstakrar áminningar með hliðsjón af atvikum málsins og alvarleika brota stefnanda. Þá byggir stefndi á því að uppsögn stefnanda í janúar og ávirðingar fyrir það tímamark hafi falið í sér ígildi áminningar.
Í áðurgreindu bréfi stefnda 29. febrúar 2016 eru þau trúnaðarbrot sem stefndi taldi stefnanda sekan um tíunduð. Í bréfinu er í fyrsta lagi vísað til atvika sem sögð eru hafa átt sér stað 18. nóvember 2015 og 19. janúar 2016 þar sem stefnandi hafi sett út á það hvernig fyrirsvarsmaður stefnda, Örn Valdimarsson, ræki verslunina hér á landi, í fyrra skiptið við Kim Knudsen, yfirmann Superdry verslana á Norðurlöndum, og hið síðara við Lars Thygesen, forstjóra Superdry í Danmörku. Hafi síðara atvikið verið rætt við stefnanda 20. janúar 2016 og að hálfu stefnda talið að fullur skilningur væri milli aðila um „að þvílíkt myndi ekki endurtaka sig“. Í öðru lagi er greint frá því að 29. sama mánaðar hafi stefnandi, eftir að hafa ráðfært sig við kjaramálafulltrúa VR, farið fram á að meint yfirvinna skyldi greidd og tilkynnt um að þau mál myndi hann eftirleiðis aðeins ræða í gegnum tölvupóst og með fulltingi kjaramálafulltrúa VR. Eru fyrrgreind atvik, sem stefndi taldi trúnaðarbrot, sögð hafa verið ástæða uppsagnar stefnanda 31. janúar 2016. Því næst er í bréfinu greint frá atvikum sem eru sögð hafa átt sér stað eftir uppsögnina. Þann 2. febrúar 2016 hafi stefnandi rætt við meðeiganda Arnar Valdimarssonar um atvik í innkaupaferð þeirra erlendis 25. janúar sama ár og 15. febrúar sama ár hafi stefnandi farið úr vinnu klukkan 16:00, að sögn vegna veikinda, án þess að tilkynna það sérstaklega til Arnar og 19. sama mánaðar hafi stefnandi sagt við verslunarstjóra Vila í Smáralind að stefndi neitaði að greiða honum yfirvinnu.
Riftun ráðningarsamnings er viðurhluta mikið vanefndaúrræði og eru ríkar kröfur gerðar til vinnuveitanda um sönnun á þeim atvikum sem liggja að baki beitingu þess. Að meginreglu er það skilyrði fyrir riftun ráðningasamnings að starfsmanni hafi áður verið gerð áminning vegna þeirrar háttsemi sem er tilefni riftunarinnar. Áminning getur hvort tveggja verið munnleg eða skrifleg en þá kröfu verður að gera að starfsmanni sé gert grein fyrir því með skýrum hætti að verði hann aftur uppvís af háttseminni kunni það að varða brottrekstri úr starfi. Þá verður starfsmaður að hafa haft raunhæfan kost á að bæta ráð sitt áður en riftun er beitt á grundvelli áminningar.
Að mati dómsins verða þær sakir sem á stefnanda hafa verið bornar samkvæmt framansögðu ekki taldar þess eðlis að heimilað hafi stefnda að rifta ráðningarsamningi við hann án undanfarinnar áminningar.
Kemur þá til skoðunar hvort stefndi hafi með uppsögn stefnanda 31. janúar 2016 eða fyrri aðgerðum sínum áminnt stefnanda í skilningi vinnuréttar. Í tölvupósti stefnda 31. janúar 2016 þar sem stefnanda var sagt upp störfum er ekki getið um ástæður uppsagnarinnar. Þá hefur stefndi í máli þessu ekki fært fram nein gögn eða með öðrum hætti sýnt fram á að við uppsögnina hafi stefnandi verið aðvaraður vegna tiltekinnar háttsemi og honum gert ljóst hvaða afleiðingar það kynni að hafa yrði hann uppvís að háttseminni aftur. Á það sama við um meintar fyrri áminningar. Gegn eindreginn neitun stefnanda þykir því ósannað að stefnandi hafi verið áminntur í skilningi vinnuréttar fyrir riftunina. Verður samkvæmt þessu fallist á það með stefnanda að hann eigi rétt til greiðslu úr hendi stefnda er nemur vangoldnum launum í uppsagnarfresti en útreikningur kröfunnar sætir ekki tölulegum andmælum. Stefnandi var ekki með önnur laun í mars og apríl 2016 og eru því engar slíkar greiðslur sem koma til frádráttar kröfu stefnanda.
Við aðalmeðferð málsins var upplýst að eftir höfðun málsins hefði stefndi greitt stefnanda áunna desemberuppbót 2016, vegna vinnu í janúar og febrúar sama ár, og áunna orlofsuppbót vegna orlofsársins 2015 til 2016, fram til 1. febrúar 2016. Er óumdeilt að stefndi hafi fullnægt greiðsluskyldu að þessu leyti með innborgun að fjárhæð 47.593 krónur 7. febrúar 2017. Að því er varðar orlofs- og desemberuppbót er því aðeins deilt um réttindin vegna mars og apríl 2016. Í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu verður krafa stefnanda að þessu leyti tekin til greina, enda verða starfskjör stefnanda ekki rýrð að þessu leyti á uppsagnarfresti.
Að öllu þessu virtu verður krafa stefnanda tekin að öllu leyti til greina, að virtri innborgun stefnda 17. febrúar 2017. Fallist er á dráttarvaxtakröfu stefnanda. Þá leiðir réttur til höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á tólf mánaða fresti beint af ákvæðum 12. gr. sömu laga og því óþarft að kveða á um slíka höfuðstólsfærslu dráttarvaxta í dómsorði. Verða dráttarvextir dæmdir svo sem nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum og með vísan í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal stefndi greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, SDR ehf., greiði stefnanda, Jóni Helga Sigurðssyni, 1.980.246 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 477.900 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí sama ár en af 1.980.246 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 47.593 krónur hinn 7. febrúar 2017.
Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.