Hæstiréttur íslands
Mál nr. 508/2012
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2013. |
|
Nr. 508/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Ottó Cuong Kim Bui (Kristján Stefánsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Upptaka.
O var sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa ræktað og haft í vörslum sínum 109 kannabisplöntur og 1.194,6 g af kannabislaufum. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en frestað var framkvæmd 3 mánaða af refsingunni skilorðsbundið til 3 ára. Þá var O gert að sæta upptöku á kannabisplöntum og kannabislaufum auk muna sem notaðir voru við ræktunina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. júlí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara mildunar á refsingu og að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin.
Ákærði bendir á að rannsókn málsins hafi verið verulega ábótavant. Í því sambandi tiltekur hann að ekki hafi verið tekin skýrsla af þeim, sem voru með honum við handtöku hans, og heldur ekki af öðrum íbúum hússins að [...] í Reykjavík, en ákærði hafi aðeins leigt eina hæð þess. Ekki hafi heldur verið tekin skýrsla af leigusala.
Þá hefur af hálfu ákærða meðal annars verið teflt fram þeim vörnum fyrir Hæstarétti að leigutíma, samkvæmt þeim skriflega leigusamningi sem gilti milli ákærða og leigusala um húsnæðið að [...], hafi lokið 31. mars 2011. Ósannað sé að ákærði hafi haft umráð húsnæðisins eftir það. Lögregla hafi farið inn í húsið og tekið kannabisplöntur og lauf, ásamt ýmsum munum tengdum ræktun plantnanna, 12. maí sama ár og síðan handtekið ákærða í húsnæðinu 23. sama mánaðar. Ákærði kveður sakfellingu, að minnsta kosti á vörslum hans á plöntunum og kannabislaufunum, reista á því að hann hafi verið umráðamáður fasteignarinnar, sem ekki fái staðist.
Samkvæmt leigusamningi lauk leigutímanum 31. mars 2011. Í skýrslu ákærða fyrir héraðsdómi var hann ekki sérstaklega spurður um hvort leigutíminn hafi verið framlengdur og heldur ekki hvernig hafi, í ljósi upphaflega umsamins leigutíma, staðið á dvöl hans í húsnæðinu við handtökuna. Í skýrslu fyrir dómi kvaðst hann hafa verið að þrífa húsið til þess að geta skilað því þegar handtakan fór fram. Spurður kvaðst hann hann hafa leigt húsnæðið og að hann kannaðist ekki við að aðrir hefðu haft þar lyklavöld. Þetta er efnislega í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu. Ákærði kvaðst síðast fyrir handtökuna hafa verið í húsnæðinu 20. apríl 2011 eða þar um bil. Samkvæmt atvikum málsins, eins og þau eru upplýst, og framburði ákærða fyrir dómi telst því sannað að hann hafi haft umráð húsnæðisins þar sem ræktunin fór fram allt þar til hann var handtekinn 23. maí 2011 og staðið að ræktuninni. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um sakfellingu hans og önnur atriði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ottó Cuong Kim Bui, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 405.626 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2012.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 10. janúar sl. á hendur ákærða, Ottó Cuong Kim Bui, kt. [...], [...], [...], „fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 12. maí 2011, að [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum 109 kannabisplöntur og 1.194,60 g af kannabislaufum, og hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur.
Telst þetta varða við 2. gr., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr., og 4. gr. laganna að því er varðar framleiðslu á kannabis, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að haldlögð fíkniefni verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er krafist upptöku á 7 gróðurhúsalömpum, 3 viftum, 7 spennum, 9 tímarofum og 1 vog, samkvæmt 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“
Málavextir
Í málinu er staðfest skýrsla Þorgeirs Alberts Elíeserssonar lögreglumanns, dagsett 10. maí 2011. Segir þar að upplýsingar hafi borist um það að undanförnu að kannabisræktun færi hugsanlega fram á [...]. Hús þetta væri leigt út og kæmu tveir eða þrír karlmenn í húsið milli kl. 16.30 og 17 og færu þar inn. Hafi þeir einnig nokkrum sinnum sést bera út kannabisplöntur. Lögreglumenn hófu eftirgrennslan og þegar þeir fóru að húsinu 12. maí fundu þeir kannabisþef leggja út um opinn glugga á miðhæð hússins. Var þá látið skríða til skarar með því að lögreglumaður smó inn um gluggann á mannlausu húsinu og gat hann sannreynt að þar var verið að rækta kannabis.
Meðal gagna málsins er staðfest skýrsla Svans Elíssonar rannsóknarlögreglu-manns um vettvangsrannsókn. Með skýrslunni fylgja ljósmyndir með skýringum sem rannsóknarlögreglumaðurinn tók. [...] er lítið járnklætt timburhús með kjallara, hæð og risi. Á íbúðarhæðinni eru fjögur herbergi, eldhús og gangur. Reyndust kannabisplöntur á mismunandi vaxtarstigi vera í þremur herbergjum ásamt tilheyrandi ræktunarbúnaði. Þá voru í íbúðinni pokar með kannabislaufi. Á einni myndinni má sjá rúm með laki og við það inniskór. Þá má á annarri mynd m.a. sjá tannbursta og tannkremstúbu á borði. Hald var lagt á plöntur, lauf og ræktunartilfæringar sem í húsinu voru.
Ein af plöntunum var send rannsóknastofu háskólans í lyfja- og eiturefnafræði þar sem Jakob Kristinsson prófessor rannsakaði sýnishornið með smásjárskoðun, gasgreiningu á súlu og massagreiningu. Samkvæmt staðfestri matsgerð hans reyndist vera um kannabisplöntu að ræða og magn tetrahýdrókannabínóls reyndist vera 31 mg í grammi.
Ákærði, sem reyndist hafa íbúð þessa á leigu, var yfirheyrður með hjálp túlks hjá lögreglu 23. maí 2011. Hann kvaðst hafa tekið íbúðina á leigu fyrir um ári áður. Hann neitaði því að hafa stundað eða vitað um kannabisræktun í íbúðinni. Hann kvaðst vera atvinnulaus en fá bætur, rúmlega 80 þúsund krónur, og komast af. Hann greiddi 70 þúsund krónur í húsaleigu á mánuði og 7 þúsund krónur í meðlag. Þegar upp á vantaði notaði hann fé sem hann hefði sparað sér inn áður en það sé nú uppurið. Hann kannaðist við að eiga tannburstann og aðra brúksmuni sem þarna fundust. Hann kvaðst annars ekki búa þarna sjálfur þar sem hann dvelji ævinlega hjá öðrum. Þó komi stundum fyrir að hann sofi þarna. Þá kvaðst hann hafa farið til Víetnam í mars að heimsækja [...]. Loks kvaðst hann eiga bíl.
Lagður hefur verið fram í málinu leigusamningur milli ákærða og eiganda hússins á [...], dagsettur 7. apríl 2010. Er húsaleigan þar sögð vera 72.000 krónur á mánuði og samningurinn sagður gilda til 31. mars 2011. Þá hefur verið lagt fram ljósrit úr íslensku vegabréfi sem sagt er tilheyra ákærða. Á því er vegabréfsáritun til Víetnam og komustimpill þangað 26. febrúar 2011 og brottfarar-stimpill 12. mars 2011.
Aðalmeðferð málsins
Ákærði neitar sök. Hann er spurður hvaða skýringu hann geti gefið á því að kannabisplönturnar og laufið hafi fundist í íbúð hans. Hann kveðst ekki kannast við þetta. Segir hann auk þess að þegar hann hafi verið handtekinn hafi þetta ekki verið í íbúðinni. Hann kveðst hafa haft íbúðina á leigu á þessum tíma. Hann hafi þó dvalið þar mjög takmarkað og mjög sjaldan komið þar. Síðast hafi hann komið þar daginn sem hann var handtekinn en þá hafi hann verið að þrífa þar. Þar áður hafi hann líklega komið þar fyrir þrem eða fjórum vikum en hann muni þetta ekki alveg. Hafi hann þá aðeins rekið inn nefið og svo farið. Eftir að hann kom frá Víetnam hafi hann lítið komið í íbúðina. Hann segir flugfar til og frá Víetnam kosta rúmlega 100 þúsund krónur. Á þessum tíma hafi hann verið að leita sér að íbúð til þess að kaupa og ekki haft tíma til þess að koma á [...]. Hann segist ekki vita til þess að aðrir en hann hafi haft aðgang að þessari íbúð. Meðan hann bjó þarna hafi hann verið einn. Aðspurður segist hann ekki hafa haft neina atvinnu á tímanum mars til maí á síðasta ári og hefði hann verið atvinnulaus í rúmt ár áður. Hann hafi unnið veitinga- og þjónsstörf. Hann segist hafa fengið um 90 þúsund krónur í atvinnuleysisbætur en húsaleigan hafi verið um 70 þúsund. Hann segist hafa búið lengi í íbúðinni áður en hann fór til Víetnam. Eftir það hafi hann dvalið hjá vinum sínum og þá hafi hann keypt sér íbúð sem hann þurfti að standsetja. Hafi hann því dvalið þar frekar en á [...]. Hann segist ekki hafa aðrar fjárskuldbindingar en 7 þúsund króna barnsmeðlag á mánuði. Segist hann annars hafa lifað á því sem hann hafði áður sparað af vinnulaunum sínum. Hann segist hafa búið hér í mörg ár og unnið fyrir sér. Á þeim tíma sem um ræðir hafi hann haft hluta af eigum sínum á [...] en hluta hafi hann geymt hjá vinum sínum. Ákærði segist hafa átt á þessum tíma bíl af gerðinni [...], vínrauðan en ekki rauðan (sbr. hér að neðan).
Hann segir aðspurður að eftir að hann keypti nýju íbúðina sína hafi A, kona sem áður hafði [...]íbúðina á leigu, flutt í nýju íbúðina til hans. Hann segist hafa þekkt hana áður en hún leigði á [...]. Ekki sé um að ræða sambúð með þeim, heldur búi þau einungis í sömu íbúð.
A hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hún hafi átt heima á [...]. Hafi hún flutt þaðan í marsmánuði 2009 eða 2010 eftir að hún hafði keypt sér íbúð í [...]. Hafi hún ekki komið í íbúðina á [...] nema einu sinni eftir að hún flutti þaðan en þá hafi eigandinn komið þar til þess að skoða hana. Ákærði hafi svo tekið íbúðina á leigu og hún komið þangað eftir það en aðeins mjög sjaldan. Muni hún ekki hvort hún hafi komi þar á tímabilinu mars til maí. Hún kveðst aldrei hafa séð að nein ræktun væri þar í gangi. Hún kveðst ekki vita hvort aðrir en ákærði höfðu aðgang að íbúðinni. Hún segir þau ákærða vera vini og hafa þekkt hann í 5 til 7 ár. Hún segist ekki vita hvar ákærði hafi haldið sig á tímabilinu mars til maí á síðasta ári.
Þorgeir Albert Elíesersson lögregluvarðstjóri hefur skýrt frá því að lögreglunni hafi borist ábendingar með sms-skilaboðum um að verið væri að rækta kannabis á [...]. Þá hafi einnig verið hringt og tilkynnt um þetta 10. maí 2011. Væri um að ræða nokkur umsvif og menn af asísku kyni hefðu sést koma þar reglulega síðdegis að vitja plantnanna. Væri húsið leigt gagngert til þess að rækta þar kannabisplöntur. Hafi lögreglan farið a.m.k. tvisvar að aðgæta með þetta en það ekki leitt til neins. Tveimur eða þremur dögum síðar hafi lögreglan farið aftur að húsinu og það leitt til þess að húsleit var gerð. Hann kveðst ekki vita hvenær þessi sms-boð bárust en það hafi verið nokkra næstu daga áður en húsleitin var gerð.
Þórný Þórðardóttir lögregluvarðstjóri hefur komið fyrir dóm og sagt frá því að ókunnur karlmaður, sem talaði með erlendum hreim, hafi hringt í hana og sagt að verið væri að rækta kannabis á [...]. Þar inni væri asískur maður, sem hefði komið á bíl, rauðum að lit eftir því sem vitnið minnir. Sama dag hafi verið farið að húsinu og þá fundist kannabisþefur frá því og umræddur bíll verið við húsið. Aftur á móti hafi komið brýnt útkall sem hafi þurft að sinna og ekki hægt að fara inn í húsið fyrr en seinna um kvöldið.
Þórir Rúnar Geirsson lögreglumaður, sem fór á vettvang eftir að plönturnar fundust á [...], hefur skýrt frá því að ekki hafi getað dulist neinum að þar væri í gangi ræktun vegna megnrar lyktarinnar. Þá hafi plönturnar sést þegar horft var inn í herbergin. Þarna inni hafi verið uppbúið rúm og kveðst vitnið hafa fengið það á tilfinninguna að einhver ætti þarna heima. Fatnaður hafi verið í fataskáp, tannbursti og tannkrem og fleira. Þá hafi einhver þurrmatur verið þarna í skáp. Aðspurður segir Þórir Rúnar að sá sem hefði átt erindi inn í íbúðina til þess að sækja sér fatnað eða hreinlætisvörur hefði ekki komist hjá því að verða var við ræktunina. Þá hafi verið þarna rafmagnslínur og barkar úr loftræstingarkerfinu. Þá hafi verið megn þefur og bjart ljós.
Hann kveðst hafa átt þátt í því að handtaka ákærða 23. maí þarna í húsinu. Hafi ákærði þá verið þar við tiltekt. Hafi verið kannabislauf á gólfinu og ennfremur þurr kannabislauf í skáp. Fleira dót hafi verið þarna, svo sem skermar, sem hafi bent til ræktunar. Hann segir að þarna hafi verið nokkur bréf og umslög inni í fataskáp. Engin póstur hafi verið þarna fyrir innan útidyrnar þegar farið var inn í húsið 12. maí heldur hafi hann allur verið í fataskáp í svefnherberginu.
Marínó Ingi Emilsson rannsóknarlögreglumaður hefur skýrt frá því að þegar þeir komu að húsinu að kvöldi 12. maí hafi nágrannar verið þar úti við. Enginn hafi reynst vera í húsinu þegar farið var inn. Hann segir að enginn vegur hafi verið að hafast þarna við án þess að verða var við ræktunina og sá sem komið hefði snöggvast inn í íbúðina hefði átt að verða þess einnig var, enda verið ræktun í öllum herbergjum. Þá hefði lyktin sagt sína sögu. Þarna hafi verið eitt rúm. Þegar ákærði var handtekinn 23. maí hafi verið fleira fólk í íbúðinni að taka til. Hafi það fólk allt verið handtekið og fært á lögreglustöðina til þess að athuga með skilríki þess og dvalarleyfi. Aðspurður um aldur plantnanna segir hann að hann sé ekki sérfróður um slíkt en af reynslu sinni og upplýsingum sem hann hafi aflað sér gætu stærstu plönturnar sem þarna voru hafa verið um þriggja til fjögurra mánaða gamlar.
Svanur Elísson rannsóknarlögreglumaður hefur komið fyrir dóm. Hann segir að ekki hafi leynt sér þegar komið var inn í íbúðina að þar var ræktun í gangi, enda hafi verið plöntur í fleiri en einu herbergi. Hann segist ætla af lágum vexti plantnanna að þær hafi ekki verið gamlar.
Jakob Kristinsson prófessor hefur komið fyrir dóm. Hann segir plöntuna hafa verið ferska þegar hún var afhent til rannsóknar þar sem hún hafi lést mikið við þurrkun. Hann segir styrk tetrahýdrókannabínóls, 31 mg/g hafa verið undir meðaltali sýna á árunum 2008 til 2010, sem hafi verið 40 mg/g. Miðgildi þessara sýna hafi hins vegar verið 35 g, þ.e.a.s. að jafnmargar plöntur hafi verið veikari og jafnmargar sterkari að þessu leyti. Þetta sýni sé því rétt fyrir neðan miðgildi þessara ára.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök og ber því við að hann hafi ekki vitað af kannabis-ræktuninni. Fyrir liggur að hann hafði húsnæðið á [...] á leigu en hann segist lítið hafa verið þar og hefur lagt fram gögn um það að hann hafi verið í Víetnam í tvær vikur í febrúar og mars 2011.
Viðbára ákærða um það að hann hafi ekki orðið var við ræktunina í húsnæðinu þykir dóminum vera ótrúleg. Þá eru upplýsingar sem hann hefur gefið um húsnæðismál sín tortryggilegar. Ákærði var atvinnulaus á þeim tíma sem um ræðir og hafði þá, að eigin sögn, verið það í rúmt ár. Hafði hann ekki aðrar tekjur en 90 þúsund króna atvinnuleysisbætur sem hann þurfti að greiða af 72 þúsund krónur í húsaleigu og 7 þúsund í barnsmeðlag. Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir því að ákærði hafi lifað nægjusömu lífi og hafi átt eitthvað sparifé af launum veitingaþjóns, þykir dóminum það sem hann segir um fjárhag sinn einnig vera tortryggilegt. Verður að hafna framburði hans í málinu og telja sannað að hann hafi staðið að því fíkniefnalagabroti, sem lýst er í ákærunni, einn eða með tilstuðlan annarra, með því að hafa í vörslum sínum, fimmtudaginn 12. maí í fyrra, á [...], 109 kannabisplöntur og 1.194,60 grömm af kannabislaufum og að hafa jafnframt um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað þessar plöntur. Hefur ákærði gerst sekur um brot gegn þeim refsiákvæðum sem tilgreind eru í ákærunni.
Viðurlög og sakarkostnaður
Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Þar sem ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot þykir mega fresta framkvæmd 3 mánaða af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Dæma ber ákærða til þess, samkvæmt tilfærðum lagaheimildum, að sæta upptöku á fíkniefnum og búnaði, eins og í dómsorði segir.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Lúðvík Emil Kaaber hdl. 200.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.
Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða 110.727 krónur í annan sakarkostnað.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Ottó Cuong Kim Bui, sæti fangelsi í 6 mánuði. Frestað er framkvæmd 3 mánaða af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði sæti upptöku á 109 kannabisplöntum, 1.194,60 g af kannabislaufum, 7 gróðurhúsalömpum, 3 viftum, 7 spennum, 9 tímarofum og vog.
Ákærði greiði verjanda sínum, Lúðvík Emil Kaaber hdl. 200.000 krónur í málsvarnarlaun og greiði 110.727 krónur í annan sakarkostnað.