Hæstiréttur íslands
Mál nr. 416/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 16. september 2005. |
|
Nr. 416/2005. |
Sýslumaðurinn á Seyðisfirði(Helgi Jensson fulltrúi) gegn X (Friðbjörn Garðarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. september 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 9. september 2005 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, en þó ekki lengur en til föstudagsins 21. október 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Skilja verður kröfu sóknaraðila þannig að hann krefjist þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Í dómi Hæstaréttar 17. ágúst 2005 í málinu nr. 368/2005 var á því byggt að kominn væri fram sterkur og rökstuddur grunur um að varnaraðili hefði framið brot sem að lögum gæti varðað 12 ára fangelsi og að almannahagsmunir stæðu til þess að hann sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ákæra var gefin út á hendur varnaraðila og öðrum manni 18. ágúst 2005 og þeim þar gefið að sök að hafa í hagnaðarskyni flutt til landsins tæplega fjögur kíló af metamfetamíni og voru brot hans talin varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Málið var þingfest 9. september. Þykja skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera fyrir hendi til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Varnaraðili lýsti kæru sinni fyrir héraðsdómara 9. september 2005. Samkvæmt því liðu sex dagar þar til kæran barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum. Er þetta aðfinnsluvert, en meðferð málsins bar að hraða lögum samkvæmt.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 9. september 2005.
Sýslumaðurinn á Seyðisfirði hefur krafist þess að X, litháenskum ríkisborgara, f. [...] verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli ákæruvaldsins á hendur honum, sem þingfest var fyrr í dag, þó eigi lengur en til föstudagsins 4. nóvember 2005, kl. 16:00.
Í greinargerð sýslumanns kemur fram að rannsókn lögreglu sé nú lokið vegna ætlaðs brots ákærða gegn almennum hegningarlögum er varði innflutning fíkniefna til landsins. Ákærði hafi verið handtekinn ásamt meðákærða Y, fd. [...], sem einnig sé litháenskur ríkisborgari, á Seyðisfirði þann 30. júní sl., er þeir komu hingað til lands með farþegaferjunni Norrænu. Við leit í bifreið þeirri sem ákærði hafi verið á ásamt meðákærða hafi komið í ljós mikið magn fíkniefna er reyndust vera 3.968, 80 gr. af metamfetamíni. Kærða hafi með dómi Hæstaréttar nr. 304/2005 frá 7. júlí sl. Verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 12. ágúst 2005, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 og með dómi Hæstaréttar nr. 368/2005, frá 17. ágúst 2005 gert að sæta gæsluvarðhaldi til 9. september 2005 kl. 16:00 á grundvelli sömu lagaákvæða.
Ákæra hafi nú verið gefin út af embætti ríkissaksóknara, og er hún dagsett 18. ágúst 2005.
Ákærði hafi neitað vitneskju um tilvist efnanna í bifreiðinni. Skýringar kærða á ferðum sínum hafi allt frá upphafi verið ótrúverðugar. Kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað geti fangelsi allt að 12 árum, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Brot ákærða sé mjög alvarlegt þar sem um mikið magn hættulegra fíkniefna sé að ræða sem ætla megi að hefðu stofnað heilsu ótiltekins fjölda fólks í hættu hefðu þau komist í umferð. Hagsmunir almennings krefjist þess að aðili sem eigi slíkan þátt í jafn stóru og alvarlegu broti, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gangi í málinu. Það mat á almannahagsmunum sé staðfest í fjölda dóma Hæstaréttar sem fallið hafi undanfarin misseri. Telja verði að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19. 1991 sé fullnægt í því máli sem hér um ræði. Verði þannig að telja áframhaldandi gæsluvarðhald nauðsynlegt vegna almannahagsmuna.
Enn fremur liggi fyrir að ákærði sé erlendur ríkisborgari án búsetu hér á landi og ekki með nokkur tengsl við Ísland og megi gera ráð fyrir að fengi hann fullt frelsi þá myndi hann reyna að koma sér undan. Gæsluvarðhald sé því nauðsynlegt jafnfram af þessum ástæðum sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.
Ákærði hefur verið ákærður fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur allt að 12 ára fangelsisrefsingu. Að virtum gögnum málsins þykja skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála vera fyrir hendi í máli þessu til að tekin verði til greina krafa ríkissaksóknara um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir ákærða. Verður ákærða því gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 21. október n.k. kl. 16:00 en þó eigi lengur en þar til dómur gengur í máli hans, sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 21. október n.k., kl. 16:00, en þó eigi lengur en þar til dómur gengur í máli hans.