Hæstiréttur íslands
Mál nr. 377/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 9. október 2001. |
|
Nr. 377/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var grunaður um fíkniefnamisferli. Úrskurður héraðsdóms um að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðs 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. október nk. kl. 12. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2001.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur gert þá kröfu að X f.[...], breskum ríkisborgara, með lögheimili að [...] Englandi, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. október nk. kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði var handtekinn í gærkvöldi eftir að lögregla hafði veitt ferðum hans athygli, m.a. í kringum þekktan sölustað fíkniefna. Við leit á kærða fundust 39,27 grömm af kókaíni og 2,56 grömm af sveppum. Kærði kveðst hafa keypt fíkniefnin fyrr um daginn af ónefndum aðila í miðbæ Reykjavíkur og hafi ætlað þau til eigin neyslu. Kærði kom til Íslands frá Englandi þriðjudaginn 2. október 2001 og ætlaði að dvelja 2 - 3 vikur. Hjá Ávana- og fíkniefnadeild LR voru til fyrirliggjandi upplýsingar þess efnis að X væri væntanlegur til Íslands þriðjudaginn 2. október 2001 og að sú ferð tengdist innflutningi fíkniefna.
Rökstuddur grunur er um að kærði hafi framið brot er varðað getur fangelsisrefsingu skv. lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og reglugerðum settum skv. þeim.
Rannsókn lögreglu miðast að því m.a. að staðreyna framburð kærða og að reyna að upplýsa um hvort kærði hafi sannarlega keypt umrædd fíkniefni á Íslandi en ekki flutt þau inn er hann kom til Íslands sl. þriðjudag. Nauðsynlegt er að halda kærða í gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn málsins fer fram svo hann geti ekki torveldað hana með því að hafa áhrif á vitorðsmenn, vitni og sönnunargögn.
Þá er kærði erlendur ríkisborgari án búsetu hérlendis. Má þannig gera ráð fyrr að gangi hann laus þá myndi hann reyna að koma sér undan frekari rannsókn, málsókn og refsingu. Krafist er gæsluvarðhalds þar sem farbann myndi ekki nægja til að tryggja þá rannsóknarhagsmuni sem í húfi eru.
Til rökstuðnings kröfugerðinn er vísað til a- og b liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Niðurstaða.
Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar fyrir dómi nafngreindi X íslenskan karlmann sem hann hefði keypt fíkniefnin af fyrir 1000 bresk pund. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er kaupverð þeirra tæplega 40 g af kókaíni sem kærði hafði í sínum fórum við handtöku ótrúlega lágt.
Svo sem að ofan greinir voru fyrir hendi upplýsingar hjá lögreglu þess efnis að X væri væntanlegur hingað til lands og að sú heimsókn tengdist innflutningi fíkniefna. Komið hefur í ljós m.a. með framburði kærða fyrir dómi að hann hefur haft samband við nafngreindan íslending sem ekki er enn vitað hver er.
Með vísan til alls ofanritaðs og fyrirliggjandi rannsóknargagna er fallist á sjónarmið í kröfugerð lögreglu um að kærði gæti torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni og/eða samseka gengi hann laus en til rannsóknar er ætlað brot X gegn lögum nr. 65/1974 en brot gegn þeim lögum getur varðað fangelsisrefsingu.
Með vísan til alls ofanritaðs og með vísan til a - liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er rétt að verða við kröfu lögreglu og gera X f. [...] að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. október nk. kl. 12.00.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, f. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. október nk. kl. 12.00.