Hæstiréttur íslands
Mál nr. 353/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
|
|
Fimmtudaginn 21. maí 2015. |
|
Nr. 353/2015.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X Y og Z (enginn) |
Kærumál. Ákæra.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem framhaldsákæru sóknaraðila í máli hans gegn varnaraðilum var vísað frá dómi með vísan til þess að ekki voru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að auka mætti við ákæru málsins. Með framhaldsákærunni hafði sóknaraðili ætlað að koma að einkaréttarkröfu brotaþola, sem láðst hafði að taka upp í ákæru málsins. Fram kom að umrædd einkaréttarkrafa hefði legið fyrir þegar ákæra var gefin út og að því hefði sóknaraðili átt að taka hana upp í ákæruna. Að því virtu, og þar sem ekki væri um augljósa villu að ræða í skilningi fyrrgreinds ákvæðis, var talið að skilyrði til útgáfu framhaldsákæru hefðu ekki verið uppfyllt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. maí 2015, þar sem framhaldsákæru sóknaraðila í máli hans gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í u. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. maí 2015.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 12. maí sl., er höfðað hér fyrir dómi með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 20. mars sl.
Ákæra ríkissaksóknara er í tveimur köflum. Í fyrri kaflanum eru X, kt. [...],[...],[...], Y, kt. [...],[...],[...] og Z, kt. [...],[...],[...], ákærð í fyrsta lið fyrir tilraun til fjárkúgunar að kveldi 29. apríl 2014 á heimili A, að [...] í [...], með því að hafa í félagi reynt að hafa fé af honum með nánar tilgreindum hótunum. Þá eru ákærðu í öðrum lið ákærukaflans ákærð fyrir gripdeild með því að hafa í félagi tekið muni á heimili brotaþola. Í þriðja lið er ákærðu gefið að sök fjársvik með því að hafa notað í heimildarleysi greiðslukort brotaþola og svíkja þannig út tilteknar vörur á veitingastað og loks eru þau í fjórða lið ákærð fyrir þjófnað, en til vara umboðssvik fyrir að nota greiðslukort brotaþola til úttekta á fjármunum.
Brot ákærðu eru í ákærunni talin varða við 251. gr., sbr. 20. gr., 245. gr., 248. gr. og að lokum við 244., en til vara við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Með framhaldsákæru ríkissaksóknara, útgefinni 22. apríl sl., er þess krafist að ákærðu, X, Y og Z, verði dæmd til að greiða brotaþolanum A vegna framangreindrar háttsemi, in solidum, 488.350 krónur í skaða- og miskabætur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 29. apríl 2014 þar til mánuði eftir að bótakrafan var kynnt þeim, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða brotaþola málskostnað auk virðisaukaskatts, samkvæmt síðar framlögðum reikningi eða að mati dómsins.
Verjendur ákærðu Z og X hafa í þessum þætti málsins krafist þess að framhaldsákæru ríkissaksóknara verði vísað frá dómi þar sem ekki hafi verið skilyrði til útgáfu hennar samkvæmt 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.
Af hálfu sækjanda er þess krafist að frávísunarkröfu ákærðu verði hafnað. Er m.a. til þess vísað að samkvæmt greindri lagagrein sakamálalaganna sé sækjanda veitt heimild til að gefa út framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur í fyrri ákæru, líkt og hér hafi verið raunin.
Verjendur ákærðu komu framangreindum sjónarmiðum sínum að við þingfestingu málsins, en í þinghaldi þann 12. maí sl. reifuðu þeir ásamt sækjanda, í munnlegum málflutningi, sjónarmið sín frekar um álitaefnið.
Samkvæmt rannsóknargögnum, sem fylgdu ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 20, mars sl., hófst rannsókn lögreglu á atvikum máls, sem lýst er fyrrnefndum fyrri kafla ákærunnar þann 30. apríl 2014. Verður ráðið að rannsókn lögreglu hafi lokið 19. nóvember sama ár. Á meðal rannsóknargagna lögreglu er bótakrafa og greinargerð lögmanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttir hrl., til lögreglu, en skjölin eru dagsett 31. júlí 2014. Samkvæmt gögnum lögreglu var bótakrafan birt af lögreglu fyrir ákærða Z þann 10. nóvember 2014, en skráð er að hann hafi hafnað henni. Þá virðist lögreglan hafa kynnt bótakröfuna fyrir tilnefndum verjanda ákærðu Y í tölvupósti þann 19. nóvember sama ár. Af gögnunum verður hins vegar ekki séð að krafan hafi verið birt fyrir ákærða X.
Af hálfu héraðsdóms voru fyrirköll vegna þessa máls gefin út 10. apríl sl., en með þeim fylgdi afrit af ákæru ríkissaksóknara, sbr. ákvæði 155. gr. og 156. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála. Fyrirköllin voru birt ákærðu á tímabilinu frá 13.-17. apríl, en þar var þeim gert að mæta fyrir dóminn við þingfestingu, þann 28. apríl sl.
Fyrrnefnd framhaldsákæra ríkissaksóknara barst héraðsdómi 24. apríl sl. og var hún lögð fram við þingfestingu málsins.
Samkvæmt c og f lið 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 skal ákærandi í ákæru greina svo glöggt sem verða má frá þeirri háttsemi sem ákært er fyrir, en einnig skal hann í ákæru tíunda einkaréttarkröfur samkvæmt XXVI. kafla laganna, ef því er að skipta.
Eins og fyrr sagði sendi lögmaður brotaþola lögreglu fyrrnefnda einkaréttarkröfu í lok júlí 2014 og er hún á meðal gagna málsins, sbr. ákvæði 173. gr. laga nr. 88, 2008.
Samkvæmt 1. mgr. 153. gr. nefndra laga getur ákærandi breytt eða aukið við ákæru með útgáfu framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur eða ef upplýsingar, sem ekki lágu fyrir þegar ákæran var gefin út, gefa tilefni til.
Samkvæmt framansögðu lá bótakrafa brotaþola fyrir þegar ákæra ríkissaksóknara í máli þessu var gefin út og hefði því átt að taka hana upp í ákæruna. Að því virtu og þar sem að áliti dómsins verður að fallast á með ákærðu að ekki hafi verið um augljósa villu að ræða í ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 20. mars sl., í skilningi 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88, 2008, hafi eins og hér stóð á ekki verið skilyrði til að gefa út þá framhaldsákæru sem hér er um deilt. Er því óhjákvæmilegt að vísa henni frá dómi.
Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Framhaldsákæru ríkissaksóknara, útgefinni 22. apríl 2015, er vísað frá dómi.