Hæstiréttur íslands

Mál nr. 653/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                     

Þriðjudaginn 22. október 2013.

Nr. 653/2013.

KG Fiskverkun ehf.

(Magnús Helgi Árnason hdl.)

gegn

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni K ehf. um dómkvaðningu matmanna til að leggja mat á hvert dagslokagengi hlutabréfa í bankanum L hf. hefði verið tilgreindan dag ef ekki hefði komið til fjárfestinga bankans í eigin hlutabréfum á tilgreindu tímabili. K ehf. bar því við að fyrir lægi að sakamál hefði verið höfðað gegn fyrrum starfsmönnum L hf. sem væri gefin að sök markaðsmisnotkun með því að láta bankann kaupa hlutabréf í sjálfum sér og að þannig hefði verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði verið raskað. Kvað K ehf. tilgang matsgerðar um fyrrgreind atriði þann að færa sönnur á fjárhæð skaðabótakröfu K ehf. á hendur L hf. vegna viðskipta þeirra í millum og fjárhæð til lækkunar á dómkröfu L hf. á hendur sér vegna máls sem L hf. hafði höfðað gegn K ehf. Talið var að öflun matsgerðarinnar væri fyrirsjáanlega tilgangslaus til sönnunar í málinu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2013, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila 21. júní 2013 um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm „að skipa matsmenn til þess að framkvæma umbeðið mat í samræmi við beiðni [sóknaraðila], sem lögð var fram við fyrirtöku málsins 21. júní 2013“. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar héraðsdóms og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, KG Fiskverkun ehf., greiði stefnda, LBI hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2013.

I.

         Mál þetta er höfðað 16. apríl 2012 af Landsbanka Íslands hf., Austurstræti 16 í Reykjavík, gegn KG Fiskverkun ehf., Melnesi 1, Hellisandi. Stefnandi krefst aðallega tiltekinna fjárgreiðslna úr hendi stefnda gegn útgáfu hlutabréfa í stefnanda og DNO International ASA, en til vara er krafist greiðslu á nánar tilgreindum fjármunum. Þegar málið var tekið fyrir 21. júní sl. lagði stefndi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Af hálfu stefnanda var því mótmælt að matsmenn yrðu dómkvaddir í samræmi við beiðnina. Þessi ágreiningur var tekinn til úrskurðar 4. september sl. eftir að aðilar höfðu gert grein fyrir röksemdum sínum. Stefndi krefst þess að dómkvaðningin fari fram í samræmi við beiðnina, meðan stefnandi gerir þá kröfu um að henni verði hafnað. Auk þess krefst stefnandi málskostnaðar.

II.

         Eins og rakið er í stefnu reisir stefnandi kröfugerð sína á þremur samningum um framvirk kaup stefnda á hlutabréfum frá 16. september 2008. Einn samninganna var um framvirk kaup á 2.090.436 hlutum í Straumi Burðarási Fjárfestingabanka hf. og tveir um framvirk kaup á samtals 7.295.541,10 hlutum í stefnanda. Auk þess er krafan reist á einum samningi frá 27. ágúst 2008 um framvirk kaup á 20.000 hlutum í DNO International ASA. Í stefnu kemur fram að um sé að ræða hefðbundna framvirka hlutabréfasamninga þar sem stefndi skuldbindi sig til þess að kaupa af stefnanda framangreinda hluti á fyrir fram ákveðnu gengi og til að greiða kaupverðið eða samningsfjárhæðina á fyrir fram ákveðnum gjalddaga. Þá kveður stefnandi samningana vera framlengingar á eldri samningum.

         Varnir stefnda samkvæmt greinargerð, sem lögð var fram í þinghaldi 3. júlí 2012, lúta í fyrsta lagi að því að fyrrgreindir samningar séu ekki skuldbindandi fyrir hið stefnda félag sökum umboðsskorts auk þess sem stefndi hafi ranglega verið flokkaður sem fagfjárfestir. Þá er krafist sýknu með vísan til tómlætis stefnanda við innheimtu krafnanna sem og tilkynningar hans um að samningarnir væru ógildir. Enn fremur er sýknukrafan á því reist að fyrirmælum um skuldajöfnuð hafi ekki verið fylgt af hálfu stefnanda.

         Verði ekki fallist á sýknu á grundvelli þessara málsástæðna er krafist sýknu á grundvelli skaðabótakröfu sem stefndi kveðst eiga á hendur stefnanda. Kröfuna kveður hann vera um vangildisbætur. Til stuðnings bótakröfunni vísar stefndi til þess að hann hafi verið flokkaður sem fagfjárfestir án þess að lagaskilyrðum til þess hafi verið fullnægt, en það feli í sér saknæmt framferði af hálfu stefnanda. Hafi þessi saknæma háttsemi leitt til þess að stefndi hafi verið sviptur fjárfestavernd og hafi hún valdið honum tjóni. Þá er það mat stefnda að starfsmenn stefnanda hafi átt að vita að sá aðili, sem eigi að hafa gefið hið ætlaða samþykki fyrir því að svipta stefnda fjárfestavernd, hafi ekki haft heimild til þess. Skaðabótakrafan er jafnframt reist á því að alvarlegir hagsmunaárekstrar hafi verið með stefnanda og stefnda. Hafi stefnandi haldið fast að stefnda að eiga viðskipti með fjármálaafurðir sem  hafi bakað stefnda tjón en aukið bankanum tekjur.

         Sýknukrafan er jafnframt reist á því að stefnandi hafi ekki uppfyllt kröfur um eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækis og því ekki átt að vera með starfsleyfi. Þá er krafist sýknu með vísan til þess að stefndi hafi aldrei lofað með gildri skuldarviðurkenningu að greiða stefnanda, en framlögð skjöl um gerningana geti ekki talist loforð. Þá séu þau svo óljós um fyrirætluð kaup að þau fullnægi hvorki því að teljast viljayfirlýsingar né geti þær talist fela í sér skuldbindingu. Engir samningar hafi því stofnast á grundvelli þeirra.

         Varakrafa stefnda um lækkun að fullu eða að hluta á dómkröfu stefnanda er reist á því að víkja beri samningsskuldbindingum stefnda til hliðar á grundvelli 30. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Í greinargerð stefnda er nánar tiltekið á því byggt að dómkrafa um greiðslu 229.359.242 króna gegn útgáfu á afsali fyrir 7.295.541,10 hlutum í stefnanda, sé fengin með sviksamlegri háttsemi og eða að atvik séu með þeim hætti að 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við. Sama eigi við um kröfu um greiðslu 25.711.657 króna vegna kaupa stefnda á 2.090.436 hlutum í Straumi Burðarási. Í tengslum við þessi atriði er vikið að því að ýmsar vísbendingar hafi komið fram um að starfsmenn stefnanda hafi ekki sýnt ráðvendni í störfum sínum. Hafi margar alvarlegar athugasemdir verið gerðar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þá er þess getið að allt frá því að bankinn féll hafi af og til birst fréttir af sakamálarannsókn á starfsháttum hans fyrir hrun. Sé markaðsmisnotkun í útlánastarfsemi, með gjaldeyri og með hlutabréf, nú „á almennu vitorði“, eins og segi í greinargerðinni. Því næst er vísað til þess að rangfærslum hafi verið dreift af bankanum um þýðingu MiFID-flokkunar og að „markaðsbrestur“ hafi orðið með hlutabréf í stefnanda. Hafi þáttur bankanna í því „að þessi staða kom upp“ verið gagnrýnd og þeim kennt um hvernig hafi farið. Þeir hafi því vitað í hvað hafi stefnt og „allt að einu farið fram með óábyrgum hætti“. Því næst er í greinargerð vísað til ákvörðunar ISDA (International Swap and Derivatives Association Inc.) um að brestur hafi orðið 7. október 2008 á mögulegum efndum sem hafi jafngilt gjaldþroti stefnanda. Við þær aðstæður telur stefndi að bankanum hafi borið að reikna út hagnað og tap vegna markaðsaðstæðna. Það hafi stefnandi ekki gert. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi ekki getað efnt skuldbindingar sínar samkvæmt samningum sem hafi komið til greiðslu eftir ákvörðun FME. Að lokum mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda.

III.

         Eins og áður er getið var mál þetta höfðað af stefnanda 16. apríl 2012. Það var þingfest 17. sama mánaðar. Greinargerð var lögð fram af hálfu stefnda í þinghaldi 3. júlí 2012 eftir að hann hafði ítrekað fengið frest til að leggja hana fram. Þær röksemdir stefnda, sem fram komu í greinargerðinni og hann reisir sýknukröfu sína á, hafa verið raktar. Þar var þess jafnframt getið að stefndi hefði „hug á að afla matsgerðar t.a.m. um innleiðingu MiFID reglna“. Einnig kom fram í kafla sem bar yfirskriftina „Sérstakur áskilnaður“ að útslit málsins gætu að verulegu leyti ráðist af því hvort markaðsmisnotkun af hálfu varnaraðila teldist sönnuð. Því áskildi stefndi sér rétt til þess að leggja fram beiðni um frestun aðalmeðferðar með vísan til 2. og 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991.

         Málið var næst tekið fyrir 5. september 2012, en þar voru tilgreindar áskoranir af hálfu stefnda til stefnanda áréttaðar. Í næsta þinghaldi 19. september 2012 lagði stefnandi fram gögn sem var ætlað að mæta fyrrgreindum áskorunum og óskaði stefndi eftir fresti til að kynna sér þau. Engin gögn voru lögð fram af hálfu stefnda í næsta þinghaldi, 11. október 2012, en í þinghaldi 17. sama mánaðar óskaði stefndi eftir fresti til að leggja fram matsbeiðni. Stefndi lagði fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna 31. október 2012, þar sem óskað var mats á eiginfjárgrunni og lausu fé matsþola 30. júní 2008, eins og hann væri skilgreindur á þeim tíma í 83., 84. og 85. gr. laga nr. 170/2006. Af hálfu stefnanda var því mótmælt að matsmenn yrðu dómkvaddir í samræmi við beiðnina og fór málflutningur fram um ágreiningsefnið 22. nóvember 2012. Í þinghaldi 12. desember sama ár lýsti stefndi því yfir að fallið væri frá kröfu um dómkvaðningu matsmanna. Aftur á móti lagði hann fram stefnu, dags. 16. janúar 2012, í skaðabótamáli sem stefnandi hafði höfðað gegn fyrrum stjórnendum sínum og vátryggjendum. Í þinghaldi 10. janúar 2013 lagði stefnandi fram tiltekin gögn og óskaði stefndi þá eftir fresti til gagnaframlagningar. Engin gögn voru lögð fram af hans hálfu í þinghaldi 5. febrúar 2013, en ákveðið var að fresta málinu til 13. mars sama ár. Jafnframt var bókað að fyrirhugað væri að aðalmeðferð færi fram 25. sama mánaðar. Í þinghaldinu 13. mars krafðist stefndi frestunar á fyrirhugaðri aðalmeðferð meðan niðurstöðu rannsóknar sérstaks saksóknara á ætlaðri markaðsmisnotkun stjórnenda stefnanda væri beðið. Dómari hafnaði beiðninni 20. mars 2013, en ákvað að ekki kæmi til aðalmeðferðar 25. sama mánaðar þar sem enn ætti eftir að leggja fram tiltekin gögn, þar á meðal þýðingar. Í næsta þinghaldi, 9. apríl 2013, lagði stefndi fram gögn, þar á meðal ákæru sérstaks saksóknara frá 15. mars 2013, þar sem tilgreindum, fyrrum starfsmönnum stefnanda er meðal annars gefin að sök markaðsmisnotkun með því að láta stefnanda kaupa hlutabréf í sjálfum sér og með því að ráðstafa slíkum bréfum til tiltekinna félaga. Jafnframt óskaði hann eftir fresti til að leggja fram þýðingar. Þegar málið var tekið fyrir 26. apríl 2013 voru engar þýðingar lagðar fram, aðeins ný beiðni um frestun málsins, sem nú var reist á fyrrgreindri ákæru og sakamálinu S-207/2013. Farið var fram á að aðalmeðferð yrði frestað uns niðurstaða fengist í því máli, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Með ákvörðun dómara 16. maí 2013 var komist að þeirri niðurstöðu að ekki lægi fyrir að úrslit sakamálsins skiptu verulegu máli fyrir úrslit þess máls sem hér væri til umfjöllunar og því var beiðni stefnda um frestun þess hafnað. Í tilefni af ákvörðun þessari var kæra send Hæstarétti þar sem þess var krafist að dómari yrði áminntur fyrir að gera á hlut stefnda með ákvörðuninni. Hæstiréttur vísaði kærunni frá með dómi 13. júní 2013. Matsbeiðni sú sem hér er til umfjöllunar var síðan lögð fram í þinghaldi 21. júní sl. eins og áður er rakið.

         Í þessari nýju beiðni um dómkvaðningu matsmanna er þess farið á leit að dómkvaddir verði tveir matsmenn sem verði falið að „leggja mat á hvert hafi verið dagslokagengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. mánudaginn 15.09.2008, ef ekki hafi komið til eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. með hlutabréf í Landsbanka Íslands frá byrjun nóvember 2007 til 15.09.2008, eins og þær eigin fjárfestingar Landsbanka Íslands hf. eru tilgreindar í ákæru, dómskjali 41, blaðsíður 3 til blaðsíður 9, en ákæran er dagsett 15. mars 2013“. Í beiðninni er lýst því áliti stefnda að tilgreindir lykilstjórnendur stefnanda hafi ekki farið að lögum við kaup á hlutabréfum í stefnanda og að þau ætluðu brot á lögum um verðbréfaviðskipti og hegningarlögum hafi haft áhrif á markaðsvirði hlutabréfa í bankanum. Þá getur stefndi þess að meginhluti dómkrafna stefnanda sé á því reistur að stefndi hafi með tveimur samningum, dags. 16. september 2008, keypt hlutabréf í stefnanda framvirkt og „hafi stefndi skuldbundið sig til þess að greiða kr. 31,4383 fyrir hverja krónu hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf., samtals kr. 229.359.242“. Því næst er vísað til upplýsinga í ákæru um „nettóviðskipti eigin fjárfestinga“ bankans í hlutabréfum sem hlutfall af heildarviðskiptum 8. til 16. september 2008. Síðan segir í matsbeiðninni að það sé mat saksóknara að með tilgreindri háttsemi hafi ákærðu ýmist komið í veg fyrir eða hægt á lækkun á verði hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. og raskað þeim forsendum og lögmálum sem ættu að liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa í bankanum með ólögmætum hætti. Væri matsins óskað í þeim tilgangi að færa sönnur á fjárhæð skaðabótakröfu stefnda á hendur stefnanda, og vísar stefndi þar til aðalkröfu sinnar, og til sönnunar á fjárhæð til lækkunar á dómkröfu stefnanda, eins og krafist sé af hálfu stefnda til vara.

IV.

         Eins og rakið hefur verið hyggst stefndi færa sönnur á umfang þess tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir í viðskiptum sínum við stefnanda með því að fá svör matsmanna við því hvert hefði verið dagslokagengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. 15. september 2008 ef bankinn hefði ekki keypt eigin bréf á tímabilinu frá nóvember 2007 til 15. september 2008. Þannig virðist matsbeiðandi ætla matsmönnum að segja til um það á hvaða verði aðrir aðilar í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands hf. hafi verið reiðubúnir að selja og kaupa hluti í bankanum hefðu eigin fjárfestingar bankans ekki átt í framangreindum viðskiptum. Mat á þessum atriðum hlýtur ávallt að vera háð verulegri óvissu og er hætt við að svar við spurningunni yrði lítið annað en ágiskun og skekkjumörk veruleg. En jafnvel þótt gefa mætti eitthvert svar við spurningunni þykir dómara engan veginn ljóst með hvaða hætti það geti skotið stoðum undir málsvörn stefnda eins og hún er mörkuð í greinargerð. Verður nú nánar vikið að því.

         Eins og rakið hefur verið reisir stefndi sýknukröfu sína meðal annars á því að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnanda. Með matsgerðinni virðist stefndi ætla að varpa ljósi á það tjón sem skaðabæturnar eiga að bæta. Röksemdir stefnda í greinargerð fyrir því að hann eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefnanda lúta í öllum aðalatriðum að andvaraleysi starfsmanna bankans um hagsmuni stefnda í aðdraganda þeirra viðskipta sem stefnandi krefur stefnda um að efna. Í þessu efni verður að hafa í huga að það er skilyrði þess að skaðabótaskylda verði lögð á tjónvald að tjón hafi orðið hjá tjónþola. Ekki er útskýrt í greinargerðinni hvernig hið ætlaða tjón stefnda eigi að hafi hlotist af kaupum á hlutabréfum sem stefndi hefur ekki enn þá greitt. Þá er þar í engu vikið að mögulegum tengslum milli viðskipta bankans á eigin hlutabréfum og því tjóni sem stefndi telur stefnanda eiga að bæta honum. Í matsbeiðninni er það heldur ekki útskýrt.

         Í umfjöllun um málsástæður í greinargerð stefnda má finna almenna fullyrðingu þess efnis að af og til hafi birst fréttir af sakamálarannsókn á starfsháttum Landsbanka Íslands hf. fyrir hrun og að það sé nú á „almennu vitorði“ að þar hafi verið viðhöfð markaðsmisnotkun í útlánastarfsemi, með gjaldeyri og með hlutabréf. Þessi almenna staðhæfing er sett fram í kafla sem ber yfirskriftina „Varakrafa stefnda: Um lækkun að fullu eða hluta á dómkröfum stefnanda“. Í þeim kafla er í engu vikið að fyrrgreindri skaðabótaábyrgð stefnanda á hendur hinu stefnda félagi, einungis að því að víkja beri samningsskuldbindingum stefnda til hliðar að fullu eða að hluta á grundvelli 30. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þá er þar ekki útskýrt hvaða þýðingu hin ætlaða markaðsmisnotkun eigi að hafa í máli stefnanda og stefnda. Því verður fullyrðingin, sem og áskilnaður um frestun málsins vegna sakamálarannsóknar á ætlaðri markaðsmisnotkun, engan veginn talin nægilega skýr til að unnt sé að líta á hana sem sérstaka málsástæðu til stuðnings sýknukröfu stefnda. Í þessu sambandi ber að geta þess að í greinargerð verður að lýsa á gagnorðan og skýran hátt málsástæðum stefnda og öðrum atvikum sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991. Getur stefndi að jafnaði ekki komið að nýjum málsástæðum á síðari stigum nema með samþykki stefnanda, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.

         Dómari getur meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði sem hann vill sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið telur dómari að með matsgerð þeirri, sem beiðni stefnda lýtur að, hyggist hann reyna að varpa ljósi á atriði sem ekki verður séð að hafi nokkra þýðingu í ljósi þeirra málsástæðna sem stefndi hefur teflt fram fyrir sýknukröfu sinni. Þar við bætist að óljóst er hvaða tengsl geti verið milli viðskipta stefnanda með eigin hlutabréf og þess tjóns sem stefndi telur sig hafa orðið fyrir í viðskiptum sínum við stefnanda, auk þess sem hætt er við að svar við matsspurningunni yrði ekki áreiðanlegt. Öflun umbeðinnar matsgerðar er þannig fyrirsjáanlega tilgangslaus til sönnunar í málinu, sbr. fyrrgreint ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, og verður beiðni stefnda um dómkvaðningu matsmanna því hafnað.

         Ekki er efni til að kveða á um málskostnað að svo stöddu og bíður ákvörðun hans lokaniðurstöðu málsins.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Beiðni stefnda, KG Fiskverkunar ehf., um dómkvaðningu matsmanna, sem lögð var fram í þinghaldi 21. júní sl., er hafnað.

         Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.