Hæstiréttur íslands

Mál nr. 321/2001


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Óvenjulegur greiðslueyrir


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. janúar 2002.

Nr. 321/2001.

Þrotabú Jöfurs hf.

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

gegn

KPMG Endurskoðun hf.

(Helgi Jóhannesson hrl.)

og gagnsök

 

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Óvenjulegur Greiðslueyrir.

E ehf. sinnti endurskoðun og reikningsskilum fyrir J hf., sem annaðist m.a. innflutning og sölu bifreiða. Í nóvember 1999 gerði J hf. reikning á hendur E ehf. fyrir andvirði tiltekinnar bifreiðar og var sú fjárhæð færð til lækkunar á skuld J hf. samkvæmt viðskiptareikningi E ehf. Ósannað þótti að samið hefði verið um að J hf. mætti greiða fyrir þjónustu E ehf. með þessum hætti og með hliðsjón af starfssviði E ehf. var umrædd greiðsla talin hafa verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Að viðskiptum J hf. og E ehf. heildstætt virtum þóttu heldur ekki efni til að líta svo á að greiðslan gæti virst hafa verið eðlileg eftir atvikum. Var samkvæmt þessu fallist á það með þrotabúi J hf. að fullnægt væri skilyrðum fyrrnefnds lagaákvæðis til að rifta greiðslunni.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2001. Hann krefst þess að rift verði með dómi greiðslu skuldar Jöfurs hf. við Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., sem innt var af hendi 17. nóvember 1999 með afhendingu bifreiðarinnar UL 003, svo og að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. nóvember 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 11. október 2001. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur í héraði ásamt málskostnaði fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins mun Jöfur hf. hafa verið stofnað í júlí 1997 og starfað einkum við innflutning og sölu nýrra bifreiða, svo og kaup og sölu notaðra bifreiða, auk viðgerðarþjónustu og sölu varahluta og hjólbarða. Frá öndverðu mun Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., hafa sinnt endurskoðun og reikningsskilum fyrir Jöfur hf. Fyrrnefnda félagið gerði því síðarnefnda reikninga fyrir þessa þjónustu og voru þeir færðir á viðskiptareikning ásamt mótfærslum vegna greiðslna. Var svo komið í byrjun nóvember 1999 að Jöfur hf. stóð í skuld samkvæmt viðskiptareikningnum að fjárhæð 3.437.714 krónur. Hinn 17. þess mánaðar gerði Jöfur hf. reikning á hendur Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., fyrir andvirði bifreiðarinnar UL 003. Bifreiðin var af gerðinni Toyota Yaris og nýskráð um vorið 1999. Andvirði hennar nam 1.200.000 krónum og var sú fjárhæð færð til lækkunar á skuld Jöfurs hf. samkvæmt viðskiptareikningnum. Fyrir liggur í málinu að Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., seldi bifreiðina á ný 11. febrúar 2000 og notaði hana ekkert á því tímabili, sem leið frá ahendingu hennar.

Jöfur hf. mun hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar 2. febrúar 2000, en afsalað sér henni 15. sama mánaðar. Að kröfu stjórnar félagsins var bú þess tekið til gjaldþrotaskipta 18. febrúar 2000. Við skiptin lýsti Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., kröfu að fjárhæð 3.286.671 króna, sem samþykkt var af skiptastjóra í þrotabúinu. Með bréfi til síðastnefnds félags 14. september 2000 lýsti skiptastjórinn á hinn bóginn yfir riftun á þeirri greiðslu, sem það hafði fengið með afhendingu bifreiðarinnar UL 003, og krafði það um andvirði hennar. Þessu andmælti gagnáfrýjandi með bréfi 21. sama mánaðar, en þar var einnig greint frá því að Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., hefði verið sameinað gagnáfrýjanda, KPMG Endurskoðun hf.

Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta gegn gagnáfrýjanda 7. nóvember 2000. Er ekki deilt um þá fjárhæð, sem aðaláfrýjandi krefst að fá greidda, heldur það eitt hvort fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 134. gr. eða 141. gr. nefndra laga til að rifta greiðslu, sem farið hafi fram með afhendingu fyrrnefndrar bifreiðar.

II.

Ósannað er af hendi gagnáfrýjanda að samið hafi verið svo í öndverðu að Jöfur hf. mætti greiða þóknun fyrir þjónustu Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., í sína þágu með því að afhenda síðastnefnda félaginu bifreiðir, annast fyrir það viðgerð bifreiða eða leggja til varahluti í þær. Þá verður ekki litið svo á að venjulegt geti talist að félag, sem veitir þjónustu við endurskoðun og reikningsskil, fái greitt fyrir hana á þann hátt, sem um ræðir í málinu. Verður því að líta svo á að greiðsla Jöfurs hf. 17. nóvember 1999 hafi verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, en ekki verður fallist á með gagnáfrýjanda að í þessu sambandi geti neinu breytt að Jöfur hf. hafi þar látið í té muni af þeim toga, sem það hafði almennt til sölu í starfsemi sinni, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í dómasafni 1991, bls. 1166, 1995, bls. 3135 og 1996, bls. 1183.

Gagnáfrýjandi heldur því meðal annars fram að hvað sem öðru líði sé uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til að varna riftun þeirrar ráðstöfunar, sem um ræðir í málinu, að greiðsla Jöfurs hf. megi virðast venjuleg eftir atvikum. Við mat á þessu verður að líta til þess að samkvæmt gögnum málsins stóðu viðskipti Jöfurs hf. við Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., óslitið frá stofnun fyrrnefnda félagsins um mitt ár 1997 og til ársloka 1999. Á því tímabili gaf Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., út alls 24 reikninga á Jöfur hf. fyrir samtals 5.978.649 krónum. Þessu til viðbótar voru fyrrnefnda félaginu færðir til eignar á viðskiptareikningi vextir að fjárhæð alls 298.614 krónur af inneign, sem þar myndaðist. Fyrsta greiðsla Jöfurs hf. samkvæmt viðskiptareikningnum, að fjárhæð 1.130.000 krónur, var innt af hendi 1. júlí 1997, nærri þremur mánuðum áður en fyrsti reikningur Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., var þar færður. Óumdeilt er í málinu að þessi greiðsla hafi farið fram með afhendingu bifreiðar. Þessu næst var færð innborgun Jöfurs hf. á 4.567 krónum 22. júní 1998 vegna þjónustu á smurstöð. Eftir þetta greiddi Jöfur hf. tvívegis með peningum inn á skuld sína samkvæmt viðskiptareikningnum, annars vegar 229.808 krónur 4. desember 1998 og hins vegar 269.847 krónur 19. mars 1999, en nærri lætur að í hvort sinn hafi greiðst með þessu helmingur skuldar félagsins, eins og hún stóð hvorn þessara daga. Í apríl og maí 1999 voru færðar á viðskiptareikninginn tvær innborganir Jöfurs hf. vegna þjónustu á verkstæði, 10.977 krónur í hvort sinn eða samtals 21.954 krónur. Skuld Jöfurs hf. samkvæmt viðskiptareikningnum lækkaði 30. ágúst 1999 um 220.000 krónur vegna andvirðis bifreiðar, sem mun þá hafa verið afhent Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf. Næsta greiðsla Jöfurs hf. var færð á viðskiptareikninginn 20. október 1999 vegna reiknings að fjárhæð 146.151 króna fyrir viðgerð bifreiðar. Síðasta greiðsla félagsins var loks bókfærð 15. nóvember sama árs. Þar var um að ræða 1.200.000 krónur vegna viðskiptanna, sem krafa aðaláfrýjanda um riftun lýtur að. Að teknu tilliti til allra þeirra færslna, sem hér hefur verið getið, stóð Jöfur hf. í lok ársins 1999 í skuld við Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., að fjárhæð 3.054.936 krónur.

Af framangreindu verður séð að af heildarfjárhæð reikninga Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., sem ásamt áðurnefndum bókfærðum vöxtum nam 6.277.263 krónum, greiddi Jöfur hf. rúman helming áður en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta, eða 3.222.327 krónur. Tvívegis var greitt með peningum, alls 499.655 krónur, en fjórum sinnum með reikningum fyrir þjónustu á verkstæði og smurstöð, samtals að fjárhæð 172.672 krónur. Aðrar greiðslur Jöfurs hf., alls 2.550.000 krónur, voru inntar af hendi með andvirði þriggja bifreiða. Sú fyrsta var sem fyrr segir afhent Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., við upphaf viðskipta félaganna, en andvirði hennar nægði til að mynda stiglækkandi inneign Jöfurs hf. á viðskiptareikningnum fram í ágúst 1998. Þegar næsta bifreiðin var afhent 30. ágúst 1999 stóð skuld Jöfurs hf. á viðskiptareikningnum í 2.928.897 krónum, en andvirði bifreiðarinnar var sem fyrr segir 220.000 krónur. Eftir þetta hækkaði skuld Jöfurs hf. aftur vegna nýrra reikninga frá Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., og var orðin 3.437.714 krónur í nóvember 1999, þegar bifreiðin, sem málið varðar og taldist að andvirði 1.200.000 krónur, var afhent síðastnefnda félaginu. Þótt verulegur hluti af heildargreiðslum Jöfurs hf. hafi samkvæmt þessu farið fram með afhendingu umræddra þriggja bifreiða, verður ekki horft fram hjá því að þetta gerðist hvorki með reglubundnu millibili né í samhengi við myndun skuldar félagsins samkvæmt viðskiptareikningi. Leið þannig eitt ár frá því að andvirði fyrstu bifreiðarinnar hafði jafnast á viðskiptareikningi á móti reikningum frá Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., þar til sú næsta var afhent, en andvirði þeirrar bifreiðar hrökk skammt til uppgjörs á þeirri skuld Jöfurs hf., sem þá hafði myndast. Gegnir og að þessu síðastnefndu leyti sama máli um andvirði þriðju bifreiðarinnar, sem afhent var um tveimur og hálfum mánuði áður en félaginu var veitt heimild til greiðslustöðvunar. Svo sem áður greinir liggur fyrir í málinu að Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., seldi þessa þriðju bifreið nokkru eftir afhendingu hennar. Bendir ekkert til annars en að tekið hafi verið við bifreiðinni gagngert til að koma henni í verð. Þegar þetta er virt í heild eru ekki efni til að líta svo á að þessi greiðsla geti virst hafa verið venjuleg eftir atvikum.

Samkvæmt framansögðu verður að fallast á með aðaláfrýjanda að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til að rifta þeirri greiðslu, sem Jöfur hf. innti af hendi til Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., 17. nóvember 1999 með afhendingu bifreiðarinnar UL 003. Því til samræmis verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda andvirði bifreiðarinnar, 1.200.000 krónur, með þeim dráttarvöxtum, sem nánar greinir í dómsorði, frá 14. október 2000, en þann dag var liðinn mánuður frá því að aðaláfrýjandi krafðist fyrst riftunar og greiðslu, sbr. 3. mgr. 9. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987.

Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og mælt er fyrir um í dómsorði.

Dómsorð:

Rift er greiðslu Jöfurs hf. á skuld við Ernst & Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf., sem fór fram 17. nóvember 1999 með afhendingu bifreiðarinnar UL 003.

Gagnáfrýjandi, KPMG Endurskoðun hf., greiði aðaláfrýjanda, þrotabúi Jöfurs hf., 1.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. október 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2001.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 24. apríl sl., að loknum munnlegum mál­flutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Þrotabúi Jöfurs hf., kt. 640797-2319, Lágmúla 7, Reykjavík á hendur KPMG Endurskoðun hf., kt. 590975-0449, Vegmúla 3, Reykjavík, með stefnu þingfestir 14. nóvember 2000.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að rift verði með dómi greiðslu skuldar Jöfurs hf. við Ernst og Young ehf., kt. 520990-1009, sem fram fór hinn 17. nóvember 1999 með af­hendingu á bifreiðinni UL-003 af tegundinni Toyota Yaris árg. 2000 úr eignum Jöfurs hf..  Þá krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefn­anda 1.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. nóvember 1999 til greiðsludags.  Einnig krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað, að mati dómsins.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II.

Málavextir eru þeir, að hinn 2. febrúar 2000, var fallist á greiðslustöðvun hluta­fél­agsins Jöfurs.  Eftir skoðun aðstoðarmanna á fjármálum fyrirtækisins varð það nið­ur­staðan, að greiðslustöðvun bæri tilætlaðan árangur.  Í framhaldi af því afsalaði félagið sér greiðslustöðvunarheimild og var það tekið til gjaldþrotaúrskurðar hinn 18. febrúar 2000.

Stefndi lýsti kröfu, að fjárhæð 3.286.671 krónu, í þrotabúið hinn 31. mars 2000.

Skipaður skiptastjóri kveður aðkomu að búinu hafa verið erfiða.  Félagið hafi verið í leiguhúsnæði að Nýbýlavegi 2, Kópavogi, en leigunni hefði verið sagt upp og hús­næðið selt og skyldi afhenda það hinn 1. mars 2000.  Félagið hafi átt talsvert af lausa­fé, sem tengst hafi bifreiðasölu, varahlutaverslun, dekkjasölu og bifreiða-verk­stæði.  Bókhald félagsins hafi verið tekið til endurskoðunar, en bókhald hafi ekki verið fært síðustu rekstrarmánuðina.

Endurskoðendur félagsins voru Ernst og Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf.

Gengu þeir frá ársreikningi félagsins fyrir árið 1998, sem undirritaður var 6. október 1999.  Jöfur hf. skuldaði ehf. Ernst og Young fyrir endurskoðunarvinnu, en samkvæmt bókhaldsgögnum fékk félagið greitt upp í vinnu sína með bifreiðinni UL-003.  Verð bifreiðarinnar var ákveðið 1.200.000 krónur.  Afhending bifreiðarinnar fór fram 17. nóvember 1999.  Bifreiðin var í eigu Ernst og Young ehf. í þrjá mánuði, er hún var seld.

Skiptastjóri taldi fyrrgreinda greiðslu riftanlega og fór fram á endurgreiðslu.  Stefndi hefur hafnað þeim tilmælum skiptastjóra.

III.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að greiðsla skuldar með bifreið, hafi verið brot á reglum um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrot.  Ráðstöfun þessi sé riftanleg á hlut­læg­um forsendum, þar sem greiðslan hafi verið óvenjulegur greiðslueyrir, en ekki hafi verið samið fyrirfram um þennan greiðslumáta í viðskiptum stefnda og Jöfurs hf.

Einnig byggir stefnandi á því, að stefndu hafi verið kunnugt um fjárhagserfiðleika félags­ins vegna vinnu sinnar fyrir félagið.  Samkvæmt ársreikningnum hafi tap félags­ins verið 51,9 milljónir krónur og eigið fé neikvætt um 1,7 milljónir krónur.  Til eigna hafi m.a. verið talin viðskiptavild að fjárhæð 33 milljónir krónur, sem að sögn stefnanda hafi verið keypt árið áður fyrir 45 milljónir krónur.  Hlutafé fyrirtækisins hafi verið 65 milljónir krónur og samkvæmt bókhaldsgögnum hafi afkoma fyrir­tækisins verið mun verri árið 1999.

Greiðslan hafi því verið ótilhlýðileg og til hagsbóta stefndu á kostnað annarra kröfu­hafa.

Um lagarök vísar stefnandi til 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjald­þrota­skipti.  

IV.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að hvorki séu uppfyllt skilyrði 134. gr. eða 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti.

Umrædd greiðsla hafi verið vanaleg í viðskiptum milli Jöfurs hf. og stefnda, þar sem félagið hafi jafnan greitt fyrir vinnu stefnda með bifreiðum eða með viðgerðum á bif­reiðum.  Þá hafi félagið greitt stefnda fyrirfram vegna viðskiptanna með hluta bíl­verðs.  Þá styðji það fullyrðingar stefnda, að um venjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða, að á þeim tíma sem félögin hafi átt viðskipti, hafi Jöfur einungis í tveimur til­vik­um greitt stefnda með peningum, eða samtals 499.655 krónur.  Hins vegar hafi sjö sinn­um verið greitt með bifreiðum eða viðgerð á bifreiðum, samtals 2.722.672 krónur.  Greiðsla með bifreið hafi því verið í samræmi við viðskiptavenjur milli aðila og því venjuleg eftir atvikum.

Stefndi kveður skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, ekki vera fyrir hendi, þar sem ekki séu uppfyllt þau skilyrði að stefndi hafi verið í vondri trú. Stefndi hafi hvorki vitað né mátt vita um ógjaldfærni Jöfurs hf. á þeim tíma sem greiðslan fór fram.  Engar upplýsingar hafi legið fyrir hjá stefnda, um að stefnandi væri ógjaldfær á þeim tíma sem greiðsla fór fram.  Ernst og Young, endurskoðun og ráðgjöf ehf. hafi ekki fært bókhald Jöfurs hf. og hafi því ekki getað vitað um stöðu fél­ags­ins við afhendingu bifreiðarinnar.

V.

Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda, um að rifta beri greiðslu Jöfurs hf. til Ernst og Young ehf, sem fram fór hinn 17. nóvember 1999, með afhendingu á bif­reið, á 134. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og 141. gr. sömu laga.

Óumdeilt er að umdeild greiðsla fór fram u.þ.b. þremur mánuðum fyrir frestdag.  Greitt var með afhendingu bifreiðar, sem metin var á 1.200.000 krónur.  Greiðsla þessi var fyrir endurskoðunarvinnu Ernst og Young ehf., endurskoðun og ráðgjöf.  Fyrir liggur í málinu, að í viðskiptum aðila hafi það oft verið tíðkað og ekki óalgengt að Jöfur hf. greiddi stefnda fyrir vinnu hans með bifreiðum eða viðgerðarvinnu en aðeins lítill hluti af vinnu stefnda í þágu Jöfurs hf. var greidd með peningum.

Þegar litið er til þess að Jöfur hf. hafði með höndum sölu bifreiða og þeirrar venju sem virðist hafa verið í viðskiptum aðila, að greiða fyrir vinnu stefnda með bifreiðum verður ekki fallist á það, að í þessu tilviki hafi verið um óvenjulegan greiðslueyri að ræða.  Þá verður ekki af gögnum málsins séð, að stefndi hafi átt að vita að skammt væri í gjaldþrot Jöfurs hf. er umrædd greiðsla var innt af hendi, enda færði stefndi ekki bók­hald fyrirtækisins.  Þegar litið er til veltu fyrirtækisins og vinnu stefnda, verður ekki talið að umdeild greiðsla hafi verið ótilhlýðileg.  Með vísan til framanritaðs, ber að hafna kröfu stefnanda um riftun bæði á grundvelli 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, KPMG  Endurskoðun hf., er sýkn af kröfum stefnanda, þrotabúi Jöfurs hf.,

Málskostnaður fellur niður.