Hæstiréttur íslands

Mál nr. 73/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 28

 

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001.

Nr. 73/2001.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Gunnar Sólnes hrl.)

                                     

Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X kærði þann úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra að hann sætti gæsluvarðhaldi. Fallist var á með sóknaraðila að fullnægt væri skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir X. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. febrúar sl., þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. mars nk. kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. febrúar 2001.

Mál þetta barst dóminum í dag með bréfi sýslumannsins á Akureyri, dagsettu í dag, og var að lokinni yfirheyrslu yfir kærða þegar tekið til úrskurðar. 

Krefst sýslumaður þess að X verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 9. mars n.k.

Kveður sýslumaður málavexti þá að lögreglan á Akureyri hafi verið með til rannsóknar í nokkra mánuði meint fíkniefnabrot kærða.  Við þá rannsókn hafi sími hans verið hleraður.  Í gær hafi hann verið handtekinn með um 100 gr. af hassi og 80 E-töflur í vörslum sínum.

Rökstuddur grunur sé um að kærði hafi frá nóvember 2000 verið all umsvifamikill í sölu og dreifingu fíkniefna á Akureyri, eins og fram komi í gögnum lögreglu, sem fylgi beiðninni.

Rannsókn málsins sé á frumstigi og sé ljóst að hún muni verða nokkuð umfangsmikil.  Það sé því ljóst að kærði muni geta torveldað rannsóknina meðan á henni standi, m.a. með því að hafa áhrif á samseka og vitni og með því að skjóta undan efnum og öðrum sönnunargögnum, gangi hann laus. 

Kveðst sýslumaður byggja kröfu sína á a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991.

Í málinu eru lagðar fram lögregluskýrslur um framgang málsins og handtöku kærða, svo og skýrsla kærða fyrir lögreglu, þar sem fyrir liggur játning hans á meðferð og fyrirhugaðri sölu nokkurs magns af fíkniefnum.  Þykja gögnin styðja þann grun lögreglu að kærði kunni að vera viðriðinn verulega umsvifameiri fíkniefnaviðskipti heldur en hann hefur þegar játað og hann muni geta torveldað rannsókn málsins gangi hann laus.  Þykja því skilyrði framangreindrar lagagreinar vera fyrir hendi til að verða við kröfu sýslumanns og þykir hæfilegt að úrskurða kærða í gæsluvarðhald svo sem krafist er.

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

Á l y k t a r o r ð :

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudags 9. mars n.k. kl. 15:00.