Hæstiréttur íslands
Mál nr. 270/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
|
|
Mánudaginn 19. maí 2008. |
|
Nr. 270/2008. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari) gegn X(enginn) |
Kærumál. Framsal sakamanns.
Úrskurður héraðsdóms, um að staðfesta ákvörðun dómsmálaráðherra frá 28. apríl 2008 um að framselja X til Póllands, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2008, þar sem staðfest var ákvörðun dómsmálaráðherra frá 28. apríl 2008 um að framselja varnaraðila til Póllands. Skilja verður kæru varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Ætluð brot varnaraðila, sem tilgreind eru í framsalsbeiðni, eru þess háttar að ekki leikur vafi á að uppfyllt eru skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2008.
Krafa X um úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi vegna ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins um framsal.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 9. maí sl., að loknum munnlegum málflutningi, með vísan til 14. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, vegna ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins frá 28. apríl 2008, þar sem fallist er á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að sóknaraðili verði framseldur til Póllands. Varnaraðili er íslenska ríkið.
Sóknaraðili krefst þess að dómurinn úrskurði að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til framsals. Þá krefst verjandi sóknaraðila þóknunar sér til handa að mati dómsins. Af hálfu varnaraðila er krafist staðfestingar á ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 28. apríl 2008 um að framselja sóknaraðila til Póllands.
I
Sóknaraðili er pólskur ríkisborgari, fæddur 7. júní 1975. Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 22. apríl 2008 til ríkissaksóknara var tilkynnt að borist hefði beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal hans til Póllands. Að fenginni umsögn ríkissaksóknara, ákvað dómsmálaráðuneytið 28. apríl 2008 að fallast á beiðni um framsal sóknaraðila til Póllands.
Í framsalsbeiðni og gögnum sem henni fylgdu kemur fram að sóknaraðila sé gefin að sök þátttaka í skipulagðri brotastarfsemi samkvæmt 2. mgr. 258. gr. pólskra hegningarlaga með því að hafa í Wloclawek, Kujawski-Promorskie Voivodshop frá ótilgreindum tíma til 22. október 2007, tekið þátt í starfsemi sem hafi að markmiði að fremja refsiverða verknaði, s.s. ólöglega dreifingu fíkniefna, líksamárásir, manndráp og fleira, undir stjórn og með þátttöku nafngreindra manna og annarra. Þá er sóknaraðili jafnframt grunaður um frelsissviptingu og manndráp samkvæmt 1. mgr. 189. gr., 1. mgr. 148. gr., 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 65. gr. pólskra hegningarlaga með því að hafa á sama stað, hinn 21. mars 2007 í félagi við nafngreinda menn og af ásetningi orðið A að bana.
Framsalsbeiðni fylgdi handtökuskipan útgefin af héraðsdómstólnum í Wloclawek hinn 21. desember 2007 auk enskrar þýðingar á þeim pólsku refsiákvæðum er eiga við um meint brot sóknaraðila.
Sóknaraðili var handtekinn hér á landi 14. apríl 2008 og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. apríl 2008 var sóknaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi til 6. maí sl. Var honum skipaður verjandi, Brynjólfur Eyvindsson héraðsdómslögmaður.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 6. maí sl., var gæsluvarðhald sóknaraðila framlengt til 20. maí 2008.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kynnti sóknaraðila ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um framsal hans til Póllands, við yfirheyrslu hjá lögreglu 30. apríl 2008 og með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði sóknaraðili eftir því, með vísan til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984, að málið yrði borið undir Héraðsdóm Reykjavíkur til úrskurðar um hvort skilyrði framsals væru fyrir hendi.
II
Sóknaraðili byggir á því að skilyrði laga nr. 13/1984 séu ekki uppfyllt. M.a. bendir hann á hversu fá og rýr gögn hafi fylgt beiðni um framsal og séu þau í engu samræmi við alvarleika þeirra brota sem sóknaraðila eru gefin að sök.
Þá bendir hann á að ýmislegt í staðhæfingum pólskra dómsmálayfirvalda um meint brot sóknaraðila fáist ekki staðist. Í þessu sambandi bendir hann á að sóknaraðili hafi borið fyrir dómi að hann hafi komið hingað til lands 28. ágúst sl., en í beiðni um framsal sé þess getið að sóknaraðili hafi á ótilgreindum tíma fram til 22. október 2007 tekið þátt í ýmiss konar brotastarfsemi.
Varnaraðili vísar til þeirra raka sem fram koma í bréfi hans frá 25. apríl 2008 til dómsmálaráðuneytisins. Þar kemur m.a. fram að þátttaka í skipulagðri brotastarfsemi sé ekki sjálfstætt brot samkvæmt almennum hegningarlögum, en fyrir Alþingi liggi nú frumvarp til laga um breytingu á almennum hengingarlögum nr. 19/1940, þar sem lagt sé til að slík háttsemi sé refsiverð, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Önnur háttsemi sem sóknaraðili sé grunaður um, þ.e. frelsissvipting og manndráp, varði við 226. og 211. gr. almennra hegningarlaga og gæti samkvæmt því varðað fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt. Þá myndi brotið vera ófyrnt, sbr. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt þessu væri skilyrðum framsals talið fullnægt, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984.
Niðurstaða.
Í 1. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, kemur fram að heimilt sé að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður, eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Í 2. og 3. mgr. 12. gr. fyrrgreindra laga er kveðið á um hvaða upplýsingar skuli koma fram í framsalsbeiðni og hvaða gögn skuli fylgja henni. Þær upplýsingar og þau gögn sem lögmælt er að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll fyrir hendi í máli þessu. Þá er fram komið í málinu að sóknaraðili er, auk þátttöku í skipulagðri glæpastarfsemi, grunaður um að hafa í félagi við aðra nafngreinda menn, svipt mann frelsi sínu og af ásetningi ráðið honum bana. Meint brot hans eru ófyrnd, sbr. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga, og geta varðað allt að 16 ára fangelsi eða ævilangt að íslenskum lögum.
Þegar allt framangreint er virt eru uppfyllt skilyrði um framsal á sóknaraðila og er því staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra frá 28. apríl 2008 eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984.
Úrskurð þennan kveður upp Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 28. apríl 2008 um að framselja sóknaraðila,
X, til Póllands er staðfest.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.