Hæstiréttur íslands

Mál nr. 660/2014


Lykilorð

  • Fjárdráttur
  • Dráttur á máli
  • Skilorð


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 19. nóvember 2015.

Nr. 660/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Sigtryggi Leví Kristóferssyni og

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

Hildi Nönnu Jónsdóttur

(Björgvin Jónsson hrl.)

Fjárdráttur. Dráttur á máli. Skilorð.

S og H voru sakfelld fyrir fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa dregið sér samtals 70.003.000 krónur af fjármunum H ehf. og ráðstafað í eigin þágu, annars vegar til greiðslu á persónulegri skuld S og hins vegar til kaupa á einbýlishúsi. Var ekki fallist á að um hafi verið að ræða lán til S og H frá H ehf. auk þess sem þau hafi með ráðstöfun fjárins til sín valdið kröfuhöfum félagsins fjártjóni. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að þau höfðu ekki sætt refsingu áður og að um allháa fjárhæð var að ræða. Var refsing S og H, hvors um sig, ákveðin fangelsi í 12 mánuði en að virtum drætti á meðferð málsins var fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið til tveggja ára.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærðu krefjast þess aðallega að þau verði sýknuð af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing þeirra verði milduð og hún bundin skilorði. Þá krefjast þau þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

I

Sakargiftum á hendur ákærðu og atvikum, þeim tengdum, er lýst á greinargóðan hátt í hinum áfrýjaða dómi. Er krafa ákærðu um sýknu einkum á því reist að þær ráðstafanir, sem ákært er fyrir, hafi ekki verið gerðar í auðgunarskyni, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Eins og ráðið verður af dómi Hæstaréttar 18. febrúar 2010 í máli nr. 127/2009, sem vísað er til af hálfu ákærðu, keypti Eignarhaldsfélagið Sævarhöfði ehf. með samningi 30. maí 2007 af H-D húsinu ehf. og Klingenberg og Cochran ehf. alla hluti í tveimur einkahlutafélögum, H.D. Íslandi og Hux. Samkvæmt samningnum skyldi H-D húsið ehf. fá sem endurgjald fyrir hluti sína hlutabréf í Eignarhaldsfélaginu Sævarhöfða ehf., samtals að nafnverði 52.244.823 krónur. Áður en hlutabréfin höfðu verið afhent seldi H-D húsið ehf. hluta bréfanna, að nafnverði 20.000.000 krónur, IceCapital ehf. með samningi 28. ágúst 2007. Af umsömdu kaupverði, að fjárhæð 70.000.000 krónur, var 20.423.000 krónum ráðstafað til greiðslu á skuld ákærða Sigtryggs Leví Kristóferssonar við IceCapital ehf., en mismuninum, 49.577.000 krónum, til kaupa ákærðu á einbýlishúsi að Haukanesi 16, Garðabæ. Síðargreinda greiðslan var innt af hendi 20. september 2007. Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á þá niðurstöðu hans að sú skýring ákærðu á ráðstöfun fjárins til sín, að um hafi verið að ræða lán til þeirra frá H-D húsinu ehf., fái ekki staðist. Einnig fer ekki milli mála samkvæmt gögnum málsins að með því að ráðstafa fénu með þessum hætti hafi ákærðu valdið kröfuhöfum félagsins fjártjóni þar sem bú þess var síðar tekið til gjaldþrotaskipta án þess að séð verði að nokkuð hafi greiðst upp í kröfur þeirra við skiptin.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta niðurstöðu hans um sakfellingu ákærðu fyrir brot gegn 247. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 243. gr. þeirra, og var brotið fullframið 20. september 2007. Af þeim sökum hefur enga þýðingu fyrir úrlausn þessa máls þótt Eignarhaldsfélagið Sævarhöfði ehf. hafi síðar lýst yfir riftun á kaupsamningnum frá 30. maí 2007 og kröfu þess félags um staðfestingu á riftuninni hafi verið hafnað með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar, jafnframt því sem þrotabúi H-D hússins ehf. voru dæmdar bætur úr hendi félagsins vegna vanefnda þess á samningnum.

II

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var bú H-D hússins ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 11. september 2009 og kærði skiptastjóri þrotabúsins háttsemi ákærðu til ríkislögreglustjóra með bréfi 29. ágúst 2011. Það bréf var framsent til sérstaks saksóknara 1. september sama ár. Þar sem tæp fjögur ár voru liðin frá hinu ætlaða broti var ærið tilefni til að taka málið þá þegar til rannsóknar. Það var hins vegar ekki gert, heldur verður ráðið af gögnum málsins að ekkert hafi verið aðhafst í því fyrr en 11. janúar 2013 þegar farið var fram á við skiptastjórann að hann afhenti saksóknara bókhald félagsins. Að lokinni rannsókn var ákæra síðan gefin út 14. janúar 2014 og héraðsdómur kveðinn upp 1. júlí sama ár. Dómsgerðir bárust Hæstarétti fyrst 18. júní 2015 eða tæpum fimm mánuðum eftir að þær voru afgreiddar frá héraðsdómi til embættis ríkissaksóknara.

Að því virtu að ákærðu hefur ekki áður verið refsað og að um var að ræða allháa fjárhæð, sem þau drógu sér, er refsing þeirra, hvors um sig, hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi. Framangreindur dráttur, sem varð á meðferð málsins og ákærðu verður ekki kennt um, hefur ekki verið skýrður. Þar sem sú málsmeðferð er í andstöðu við ákvæði 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, verður refsing þeirra bundin skilorði eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og fram kemur í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að fullnustu refsingar ákærðu, Sigtryggs Leví Kristóferssonar og Hildar Nönnu Jónsdóttur, skal frestað og hún niður falla að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu greiði, hvort fyrir sig, málsvarnarlaun verjenda sinna fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Magnúsar Guðlaugssonar og Björgvins Jónssonar, 620.000 krónur til hvors um sig, en annan áfrýjunarkostnað, 48.922 krónur, skulu ákærðu greiða óskipt.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2014.

I

   Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní síðastliðinn, var höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, útgefinni 14. janúar 2014, á hendur Sigtryggi Leví Kristóferssyni, kt. [...], Haukanesi 16, Garðabæ og Hildi Nönnu Jónsdóttur, kt. [...], Haukanesi 16, Garðabæ, „fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um bókhald:

I.

Aðallega fyrir fjárdrátt með því að hafa sem stjórnarmenn og prókúruhafar einkahlutafélagsins H-D húsið, kt. 530103-2260, í sameiningu dregið sér samtals 70.003.000 krónur af fjármunum félagsins. Þar af voru 70.000.000 króna söluandvirði eignarhluta H-D hússins ehf. í einkahlutafélaginu Sævarhöfða, kt. 530204-3160 sem ákærðu, fyrir hönd H-D hússins ehf., seldu einkahlutafélaginu IceCapital, kt. 550307-1110.

Nánar tiltekið drógu ákærðu  sér og ráðstöfuðu söluandvirðinu í eigin þágu með eftirgreindum hætti:

a)

Með því að hafa 28. ágúst 2007 ráðstafað 20.423.000 krónum af söluandvirðinu til greiðslu á persónulegri skuld ákærða Sigtryggs við IceCapital ehf. Sömdu ákærðu við IceCapital ehf. um að umrædd fjárhæð yrði greidd í formi skuldajafnaðar við persónulega skuld ákærða Sigtryggs við IceCapital ehf. að sömu fjárhæð og var skuldin við það greidd að fullu.

b)

Með því að hafa 20. september 2007, látið millifæra 49.580.000 krónur af bankareikningi H-D hússins ehf., nr. [...] hjá Glitni banka hf. inn á bankareikning ákærðu Hildar Nönnu Jónsdóttur hjá Glitni banka hf. Fyrr sama dag hafði H-D húsið ehf. fengið hluta söluandvirðisins að fjárhæð 49.577.000 krónur greidda inn á fyrrgreindan reikning félagsins. Fjárhæðinni ráðstöfuðu ákærðu til kaupa á íbúðarhúsnæði að Haukanesi 16, Garðabæ.

Til vara á hendur ákærðu fyrir umboðssvik með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum I a) og b) misnotað aðstöðu sína til tjóns fyrir H-D húsið ehf.

Framangreind brot ákærðu samkvæmt þessum lið ákæru teljast varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en  til vara við 249. gr. sömu laga.

II.

Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn, vegna H-D hússins ehf., rekstrarárin 2003 - 2009.

Framangreind brot ákærðu samkvæmt þessum lið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.

III.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu þrotabús H-D hússins ehf. er þess aðallega krafist að ákærðu Sigtryggi Leví Kristóferssyni og Hildi Nönnu Jónsdóttur verði gert að greiða þrotabúi H-D hússins ehf., kt. 530103-2260, bætur in solidum samtals að fjárhæð 70.000.000 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 20.423.000 frá 28. ágúst 2007 til 20. september 2007 en af kr. 70.000.000 frá þeim degi þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

Ákærðu neita sök og krefjast sýknu og þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda. Þess er krafist að bótakröfunni verði vísað frá dómi.

II

Málavextir eru þeir að ákærði Sigtryggur átti H-D húsið ehf. og var hann stjórnarmaður og ákærða Hildur varastjórnarmaður, en þau eru sambýlisfólk. Með kaupsamningi 28. ágúst 2007 keypti IceCapital ehf. hlutafé að nafnvirði 20.000.000 króna í Eignarhaldsfélaginu Sævarhöfða ehf. af H-D húsinu ehf. og undirrita ákærðu kaupsamninginn fyrir hönd seljanda. Kaupverðið var 70.000.000 króna og um greiðslu þess er svofellt ákvæði í samningnum: „Kaupverðið skal greiðast að fullu við undirritun þessa samnings og með reiðufé og skuldajöfnun við eiganda HD hússins. Eigandi HD hússins hefur fengið lán frá kaupanda að upphæð kr. 20.423.000 með vöxtum sbr. meðf. vaxtanótu. Eigandi þess félags hefur beðið kaupanda um að greiða mismun kaupverðs og láns, kr. 49.577.000 (fjörutíuogníumilljónirfimmhundruð-sjötíuogsjöþúsundkrónur) beint inná reikning HD húsið ehf., kt. 530103-2260, Grensásvegi 16, Reykjavík, bankareikning [...]. Eigandi staðfestir með undirritun sinni á þennan samning að þá sé kaupverð að fullu greitt af hálfu kaupanda.“

Með færslubeiðni 20. september 2007 bað forsvarsmaður IceCapital ehf. Landsbankann um að færa 49.577.000 krónur af reikningi félagsins og inn á framangreindan reikning H-D hússins ehf. Fjárhæðin var færð inn á reikninginn sama dag og sama dag eru teknar út af reikningnum 49.580.000 krónur og lagðar inn á reikning ákærðu Hildar.

Með kaupsamningi 20. september 2007 keyptu ákærðu einbýlishúsið að Haukanesi 16 fyrir 92.500.000 krónur. Við undirritun kaupsamnings greiddu þau 49.180.000 krónur og 27. september greiddu þau 3.320.0000 krónur. Að öðru leyti var greitt fyrir húsið með veðbréfi. Bú H-D hússins ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 11. september 2009 og skiptastjóri skipaður. Hann kærði framangreint til sérstaks saksóknara með bréfi 29. ágúst 2011.

Forsaga sölu H-D hússins ehf. á hlutafénu er sú að allt frá árinu 1996 hafði ákærði Sigtryggur, og síðar í félagi við meðákærðu, átt og rekið félög í tengslum við bifhjólaumboð og skyldan rekstur. Í greinargerðum ákærðu er lýst viðskiptum þeirra með félögin, öll eða að hluta. Það hefur þó ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins að gera grein fyrir þessum viðskiptum að öðru leyti en því að vísa til þess sem rakið hefur verið um söluna á hlutafénu til IceCapital ehf. Að lokinni þeirri sölu töldu ákærðu sig hafa uppskorið fyrir vinnu sína við uppbyggingu félagsins H-D Ísland ehf., eins og það er orðað í greinargerð ákærða Sigtryggs. Ákærði Sigtryggur hafði þá aukið hlutafé sitt í Norðurflugi ehf. um 20.000.000 króna og fengið þá fjárhæð að láni. Með greiðslunni, sem um getur í a-lið I. kafla ákæru, hafi lánið verið endurgreitt auk vaxta. Greiðslan, sem um getur í b-lið sama kafla, hafi runnið til ákærðu Hildar og hafi þau notað fjárhæðina til greiðslu á hluta af kaupverði íbúðarhúss. Þessar greiðslur til ákærðu hafi verið hugsaðar sem lán frá H-D húsinu ehf. sem yrði síðar greitt með arði úr félaginu eftir að gert hefði verið upp fyrir árið 2007.

III

Ákærði Sigtryggur neitaði sök við aðalmeðferð og kvaðst ekki hafa haft ásetning til fjárdráttar en fjármunir þeir, sem í ákæru greinir, hafi runnið til sín og meðákærðu.

Ákærði kvaðst hafa verið stjórnarmaður H-D hússins ehf. og verið skráður prókúruhafi þess. Hann kvaðst hafa stofnað félagið ásamt meðákærðu, en þau eru sambýlisfólk, til að halda utan um eignir þeirra í H-D Íslandi ehf. Ákærði kvaðst að mestu leyti hafa tekið ákvarðanir fyrir hönd H-D hússins ehf. en hann hafi ekki fengið laun fyrir störf sín.

Ákærði var spurður um framangreindan kaupsamning frá 28. ágúst 2007. Hann kvað aðdragandann hafa verið þann að kaupandinn hefði viljað koma inn í rekstur H-D Íslands ehf. Þetta hafi þannig tengst sölu á helstu eign H-D hússins ehf. Hann kvaðst ekki muna hver hefði ákveðið greiðslutilhögun kaupverðsins og heldur ekki af hverju greiðslu þess hefði verið háttað með þeim hætti sem í samningnum segir, en það hafi ekki tengst kaupum hans og meðákærðu á húsinu að Haukanesi 16. Í 2. gr. samningsins segir að ákærði hafi fengið lán frá kaupandanum, en hann bar að um hefði verið að ræða hlutafjáraukningu í Norðurflugi ehf. Hann kvaðst hafa átt hlut í því félagi en ætlunin hefði verið að sá hlutur rynni inn í H-D húsið ehf. en ekki hafi unnist tími til að ganga frá því. Ætlunin hafi verið að það yrði án endurgjalds af hálfu H-D hússins ehf.

Varðandi fjárhæð þá sem um getur í b-lið I. kafla ákæru kvað ákærði sig og meðákærðu hafa keypt framangreint hús og notað þessa peninga í það. Ákærði kvaðst hafa litið svo á að um hefði verið ræða fyrirframgreiddan arð og hið sama hafi átt við um fjárhæðina sem um getur í a-lið I. kafla ákæru. Þá kvað hann þetta alltaf hafa verið talið fram, enda hafi verið ætlunin að greiða af þessu skatta og skyldur eins og ákærði orðaði það. Í raun hafi báðar þessar fjárhæðir verið lán frá H-D húsinu ehf. til ákærðu. Borin voru undir ákærða skattframtöl H-D hússins ehf. fyrir árin 2008 og 2009 og honum bent á að þar væri ekki gerð grein fyrir lánum félagsins til ákærðu. Hann kvaðst ekki kannast við framtölin og kvað endurskoðanda félagsins hafa fyllt þau út. Meðákærða hafi snúið sér til endurskoðandans með gögn og hafi hann átt að geta um lánið. Ákærði kvaðst ekki vita hvaða gögn endurskoðandinn hefði fengið en hann viti ekki hvaða gögn hafi verið til um lánið. Þá voru bornir undir ákærða ársreikningar félagsins fyrir árin 2007 og 2008 og honum bent á að þar væri engar upplýsingar að finna um að það hefði lánað ákærðu rúmar 70.000.000 króna. Ákærði kvað endurskoðandann hafa gert ársreikningana að beiðni ákærðu og átt að hafa fengið gögn um lánið. Ákærði var spurður nánar um lánið, svo sem lánssamning, vexti og annað en hann kvaðst engu geta svarað til um það. Þá voru borin undir ákærða skattframtöl hans árin 2008 og 2009 og honum bent á að þar komi fram að hann hafi skuldað IceCapital ehf. 70.000.000 króna. Hann kvað þetta varða riftun á kaupunum á Sævarhöfða ehf. frá því seinni hluta árs 2007. Hann gat ekki greint frá því af hverju ekki hefði verið gerð grein fyrir láninu frá H-D húsinu ehf.

Ákærði kvað bókhald H-D hússins ehf. hafa verið fært af A frá 2003 til 2006 að minnsta kosti. B hafi fært bókhaldið frá 2007 til 2009. Hann kvaðst ekki muna hvort bókhaldsgögn félagsins hefðu verið varðveitt. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa fært bókhald félagsins. Þá kvaðst hann ekki hafa haft samskipti við endurskoðandann varðandi skil á bókhaldsgögnum. Borið var undir ákærða það sem hann hafði borið hjá lögreglu um að meðákærða hefði fært bókhald H-D hússins ehf. Hann ítrekaði það sem hann hafði borið um að nafngreint fólk hefði fært bókhaldið. Meðákærða hefði haldið fylgiskjölum til haga og komið þeim til þeirra er hefðu fært bókhaldið.

Ákærði kvaðst aldrei hafa fengið lán frá IceCapital ehf. en verið gæti að lánið, sem um er rætt í 2. lið kaupsamningsins frá 28. ágúst 2007, hafi verið vegna hlutafjáraukningar í Norðurflugi ehf.

Ákærða Hildur neitaði að það hefði verið ásetningur sinn að draga sér fjármuni. Hún kvaðst hafa verið í varastjórn H-D hússins ehf. og verið prókúruhafi þess. Þá kannaðist hún við að fjármunir þeir, er í b-lið ákæru getur, hefði runnið til húsakaupa sinna og meðákærða. Hún kvað meðákærða hafa verið eiganda félagsins en hún hafi séð um að halda fylgiskjölum til haga og koma þeim til nefndrar A er hafi séð um að færa bókhaldið 2003 til 2006. Hún hafi einnig séð um uppgjör og gerð ársreikninga. Nefndur endurskoðandi hafi svo fært bókhald og gert ársreikninga fyrir árið 2007 og eftir það. Ákærða lýsti viðskiptum við IceCapital ehf. og kvað ætlun sína hafa verið að þau ákærðu fengju 70.000.000 króna fyrir hlutinn í Sævarhöfða ehf. Þegar til hafi komið hafi félagið hins vegar haldið eftir rúmlega 20.000.000 króna vegna hlutafjáraukningar meðákærða í Norðurflugi ehf. Hlutur hans hafi verið 20.000.000 króna en 423.000 krónur hafi verið vegna vaxta og kostnaðar. Inn á reikning H-D hússins ehf. hafi verið greiddar 49.580.000 krónur og þaðan var fjárhæðin færð inn á hennar reikning. Fjárhæðin hafi svo verið notuð í kaup á framangreindu húsi. Hún kvað þau ákærðu hafa staðið í þeirri góðu trú að þeim væri heimilt að taka þessa fjárhæð að láni út á væntanlegan arð og hefðu þau aldrei leynt því. Hún kvað í skattaframtölum þeirra ákærðu vera getið um skuld við IceCapital ehf. vegna þess að það félag hafi verið farið að krefja þau um endurgreiðslu á umræddum 70.000.000 króna. Hún kvaðst hafa skýrt endurskoðandanum frá því að þau hefðu fengið þessa fjárhæð að láni frá H-D húsinu ehf. og hafi hann fengið gögn um það. Þá kvað hún meðákærða hafa einan átt H-D húsið ehf. Ætlunin hafi verið að hún kæmi inn sem eigandi en ekki hafi tekist að ljúka því máli. Þá bar ákærða að ekki hefði verið gerður samningur um lánið og ekki væru önnur gögn til um það. Undir ákærðu var borið að upplýsingar um lánið kæmu ekki fram í skattframtölum H-D hússins ehf. og ársreikningum. Hún kvað endurskoðandann hafa átt að sjá um þetta og hafi hann fengið gögn þar að lútandi. Hún kvað bókhaldsgögn félagsins hafa farið í gagnaeyðingu. Þau hafi verið á Grensásvegi 16 sem hafi verið eign Sævarhöfða ehf. Þegar það félag varð gjaldþrota hafi skiptastjóri þess verið spurður hvað ætti að gera við gögnin og hafi hann sagt að fara ætti með þau í eyðingu.

C bar að hugsanlega hefði hann hent bókhaldsgögnum H-D hússins ehf. Mikið af bókhaldsgögnum hafi verið á Grensásvegi 16 og hefði hann hringt í skiptastjóra er hefði haft með húsnæðið að gera og hefði hann beðið sig að koma þeim í eyðingu. Þetta hafi verið 2011 eða 2012. Kvað C það vel geta verið að bókhaldsgögn félagsins hefði verið þar á meðal. Vitnið bar um aðdraganda þeirra viðskipta sem sakarefni málsins er hluti af. Sá framburður hans varðar hins vegar ekki ákæruefnið og verður ekki rakinn frekar.

D bar að hafa komið að samningnum á milli IceCapital ehf. og H-D hússins ehf. Hann kvað kaupverðið hafa verið ákvarðað út frá því að gengi hlutabréfa í Sævarhöfða ehf. hefði verið 3,5 í viðskiptum með hlutabréf í félaginu. Hann kannaðist við að höfð hefðu verið í huga væntanlega húsakaup ákærðu. Þá hefðu einnig verið höfð í huga hlutabréfakaup í Norðurflugi ehf. en hlutafé í félaginu hefði verið aukið. Ákærði Sigtryggur hafi keypt hlutafé fyrir 20.000.000 króna en ekki haft handbært fé og hafi honum því verið lánað fyrir kaupunum.

B, löggiltur endurskoðandi, kvaðst hafa stillt upp ársreikningum fyrir H-D húsið ehf. fyrir árin 2007 og 2008. Hann kvaðst hafa haft til hliðsjónar afrit ársreiknings fyrir 2006. Hann kvað ársreikningana vera dagsetta 28. september 2009. Engin starfsemi hafi verið í félaginu þessi ár en hann hafi fengið afhenta möppu með nokkrum fylgiskjölum sem þó hafi aðallega verið yfirlit. Ekki hafi verið um skjöl að ræða til að færa. Hann kvaðst ekki hafa fengið upplýsingar um að félagið hefði veitt ákærðu lán að fjárhæð 70.000.000 króna á árinu 2007. Hann kvaðst ekki hafa fært bókhald félagsins fyrir 2007 og 2008 enda hafi ekkert bókhald verið að færa. Hann tók fram að í ársreikningunum væri um það getið að engin starfsemi hefði verið í félaginu. Þá kvaðst hann hafa talið fram til skatts fyrir félagið fyrir sömu ár og hann gerði ársreikninga og byggt framtölin á þeim. Þá kvaðst hann hafa talið fram fyrir ákærðu fyrir 2008 og 2009 og talið þar fram skuld við IceCapital ehf. að fjárhæð 70.000.000 króna og kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um skuldina frá ákærðu. Hann kannaðist ekki við að hafa fengið upplýst að þau skulduðu H-D húsinu ehf.

E, hdl. og starfsmaður skiptastjóra H-D hússins ehf., bar að ákærðu hefðu enga skýringu gefið á færslunni sem um getur í b-lið I. kafla ákærunnar. Þau hefðu verið beðin um skýringu á þessari færslu en ekki gefið hana. Lögmaður þeirra hefði hins vegar sent skiptastjóra skattframtöl ákærðu en engar skýringar. E kvað skiptastjóra engin gögn hafa fengið sem sýndu fram á lán félagsins til ákærðu. Þá hafi verið óskað eftir bókhaldsgögnum frá framangreindum endurskoðanda og eins frá ákærðu. Ákærðu hafi ekki mætt á fund til að skila bókhaldsgögnum en endurskoðandinn hafi afhent tvær möppur. Ekki vissi E hvað hafði orðið um þær en minnti þó að þær hefðu verið afhentar sérstökum saksóknara. Í þessum möppum hafi verið kvittanir sem hann gat ekki gert nánari grein fyrir.

Áðurgreind A viðskiptafræðingur kvaðst hafa fært bókhald H-D hússins ehf. árin 2003 til 2006 og gert ársreikninga og skilað skattframtölum. Hún kvaðst hafa skilað gögnunum þegar hún hafði lokið vinnu sinni og ekki vita hvar þau væru nú niðurkomin.

IV

Eins og rakið hefur verið seldi H-D-húsið ehf. framangreind hlutabréf með framangreindum kaupsamningi sem ákærðu undirrita bæði fyrir hönd seljanda. Samkvæmt gögnum málsins, þar með töldum framburði ákærðu sem grein hefur verið gerð fyrir, var söluverðið greitt annars vegar með því að greiða upp lán ákærða Sigtryggs eins og fram kemur í a-lið I. kafla ákæru. Hins vegar var það greitt inn á reikning seljanda, H-D hússins ehf., eins og segir í b-lið I. kafla ákæru. Af þeim reikningi var fjárhæð sú er í ákæruliðnum greinir greidd sama dag inn á reikning ákærðu Hildar. Ákærðu nýttu þá fjármuni sem greiðslu fyrir íbúðarhús. Eins og rakið hefur verið gegndu ákærðu bæði trúnaðarstörfum fyrir H-D húsið ehf. og önnuðust rekstur þess, þar með talið að sjá um fjármál og sjá um að bókhald væri fært, ársreikningar gerðir og annað sem lýtur að stjórnun einkahlutafélaga. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ákærðu hafi staðið saman að þeim ráðstöfunum sem ákært er fyrir í I. kafla ákæru.

   Ákærðu hafa kannast við að söluandvirðið samkvæmt samningnum hafi runnið til þeirra eins og í ákæru greinir. Þau hafa hins vegar neitað því að hafa gerst sek um fjárdrátt og haldið því fram að um hafi verið að ræða lán til þeirra frá félaginu sem þau hafi ætlað sér að greiða eins og rakið var. Hvorki í ársreikningum né skattframtölum félagsins fyrir árin 2008 og 2009 er getið um lán til ákærðu. Hins vegar er talin fram 70.000.000 króna skuld ákærðu við IceCapital ehf. í framtali þeirra árið 2008 vegna ársins 2007. Hin sama skuld er talin fram árið eftir. Þegar þetta er haft í huga er það niðurstaða dómsins að sú skýring ákærðu, að um hafi verið að ræða lán til þeirra, fái ekki staðist. Samkvæmt framansögðu verða ákærðu því sakfelld samkvæmt ákærunni fyrir að hafa dregið sér þá fjárhæð sem ákært er fyrir. Brot þeirra er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

   Í II. kafla ákæru er ákærðu gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita bókhaldsgögn. Ákærðu hafa neitað þessu eins og rakið var. Hér að framan var rakinn framburður löggilts endurskoðanda og bókhaldara og með vísun til þess sem kom fram hjá þeim telur dómurinn ósannað að ákærðu hafi látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og verða þau sýknuð af því. Þá telur dómurinn einnig að yfirgnæfandi líkur séu á því að bókhaldsgögnum félagsins hafi verið fargað og verði ákærðu ekki kennt um það. Þau verða því einnig sýknuð af því að hafa vanrækt að varðveita bókhaldsgögn félagsins. 

   Ákærðu hefur ekki áður verið refsað. Við ákvörðun refsingar verður að hafa í huga að hér er um allverulega fjárhæð að ræða sem rann til ákærðu. Að þessu virtu er refsing ákærðu, hvors um sig, hæfilega ákveðin 12 mánaða fangelsi sem ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda.

   Samkvæmt framangreindum málsúrslitum verður bótakrafa þrotabús H-D hússins tekin til greina með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ekki verður séð að ákærðu hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu málsins og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.

   Loks verða ákærðu dæmd til að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir en annan kostnað leiddi ekki af rekstri málsins.

   Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

   Ákærði, Sigtryggur Leví Kristófersson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

   Ákærða, Hildur Nanna Jónsdóttir, sæti fangelsi í 12 mánuði.

   Ákærðu greiði óskipt þrotabúi H-D hússins ehf. 70.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 20.423.000 krónum frá 28. ágúst 2007 til 20. september sama ár, en af 70.000.000 króna frá þeim degi til 17. mars 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði, Sigtryggur Leví, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Guðlaugssonar hrl., 1.167.150 krónur.

   Ákærða, Hildur Nanna, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hrl., 916.150 krónur og verjanda síns á rannsóknarstigi, Brynjars Níelssonar hrl., 150.600 krónur.