Hæstiréttur íslands

Mál nr. 273/2001


Lykilorð

  • Gripdeild
  • Fjársvik
  • Eignaspjöll
  • Nytjastuldur
  • Líkamsárás
  • Þjófnaður
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Vanaafbrotamaður
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. nóvember 2001.

Nr. 273/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Gripdeild. Fjársvik. Eignaspjöll. Nytjastuldur. Líkamsárás. Þjófnaður. Akstur án ökuréttar. Vanaafbrotamaður. Skaðabætur.

 

S var ákærður fyrir margvísleg brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Í fyrsta lagi gripdeild, fjársvik og eignaspjöll með því að hafa dvalið á gistiheimili og þegið þar þjónustu án þess að geta greitt fyrir hana, svo og skemmt þar og tekið þaðan nánar tiltekna muni. Í öðru lagi fjársvik með því að hafa dvalið á hóteli undir öðru nafni en sínu eigin og þegið þar þjónustu án þess að geta greitt fyrir hana. Í þriðja lagi líkamsárás og eignaspjöll með því að hafa ráðist á nánar tilgreindan hátt að konu, þar sem þau dvöldust í gistihúsi, og skemmt gleraugu hennar og tiltekna muni á dvalarstað þeirra, og í fjórða lagi þjófnað, nytjastuld og akstur bifreiðar án ökuréttinda með því að hafa heimildarlaust tekið bifreið og ekið henni, en síðan tekið aðra bifreið og ekið henni uns lögregla stöðvaði hann, svo og að hafa tekið í húsbroti tvö bankakort og nýtt þau síðan til úttekta af bankareikningum. Héraðsdómur taldið sannað að S hefði gerst sekur um gripdeild, en sýknaði hann af sakargiftum um fjársvik og eignaspjöll að því er snerti dvöl hans á framangreindu gistiheimili. Jafnframt var hann sakfelldur fyrir fjársvik vegna dvalar á umræddu hóteli sem og líkamsárás í umræddu gistihúsi, en sýknaður af sakargiftum um eignaspjöll þar. Þá var hann sakfelldur fyrir þjófnað, nytjastuld og akstur án ökuréttinda. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu S fyrir þau brot, sem hann var þar talinn hafa gerst sekur um, og um refsingu hans, sem var ákveðin með tilliti til þess að S væri vanaafbrotamaður. Á hinn bóginn vísaði Hæstiréttur frá héraðsdómi þremur af fjórum skaðabótakröfum sem þar höfðu verið teknar til greina, ýmist á þeim grundvelli að S hefði verið sýknaður af þeim brotum sem kröfurnar tóku til, sbr. 2. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að hann hefði ekki verið sakaðar um þá háttsemi sem bóta væri krafist fyrir, sbr. 1. mgr. 170. gr. sömu laga, eða að viðkomandi krafa væri engum gögnum studd.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti en því að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem þar greinir, svo og að vísað verði frá héraðsdómi kröfum um skaðabætur samkvæmt I. kafla ákæru 10. nóvember 2000 og I. kafla ákæru 23. mars 2001.

Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæru 10. nóvember 2000 og I. kafla ákæru 23. mars 2001, en til vara að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð. Þá krefst hann þess að öllum skaðabótakröfum, sem hafðar eru uppi í málinu, verði vísað frá héraðsdómi.

I.

Sýslumaðurinn í Stykkishólmi höfðaði mál þetta með ákæru 10. nóvember 2000, þar sem ákærða var gefin að sök í I. kafla gripdeild, fjársvik og eignaspjöll með því að hafa dvalið 16. og 17. apríl 1999 á gistiheimilinu Heimagistingu í Stykkishólmi og þegið þar þjónustu án þess að geta greitt fyrir hana, svo og skemmt þar og tekið þaðan nánar tiltekna muni. Í II. kafla ákærunnar var ákærði sakaður um fjársvik með því að hafa dvalið 31. maí og 1. júní sama árs á Hótel Framnesi í Eyrarsveit undir öðru nafni en sínu eigin og þegið þar þjónustu án þess að geta greitt fyrir hana. Í tengslum við fyrri kafla þessarar ákæru var þar gerð krafa eiganda áðurnefnds gistiheimilis, Maríu Bæringsdóttur, um skaðabætur vegna gistingar, sem ekki hafi verið greitt fyrir, 2.800 krónur, vegna skemmdra muna 30.000 krónur og vegna muna, sem ákærða var gefið að sök að hafa tekið þaðan, 7.330 krónur, eða alls 40.130 krónur. Í tengslum við síðari kafla ákærunnar var gerð skaðabótakrafa í þágu Hótels Framness vegna ógreiddra reikninga fyrir þjónustu, sem ákærði hafi þegið, að fjárhæð 17.700 krónur. Á grundvelli þessarar ákæru var málið þingfest fyrir Héraðsdómi Vesturlands 13. desember 2000.

Hinn 23. mars 2001 gaf sýslumaðurinn í Stykkishólmi út aðra ákæru á hendur ákærða. Þar var hann annars vegar borinn sökum um líkamsárás og eignaspjöll 2. mars 2001 með því að hafa ráðist á nánar tilgreindan hátt að nafngreindri konu, þar sem þau dvöldust í gistihúsinu Felli á Arnarstapa, og við sama tækifæri skemmt gleraugu hennar og tiltekna muni á dvalarstað þeirra. Hins vegar var ákærða gefinn að sök nytjastuldur og akstur án ökuréttar með því að hafa aðfaranótt 3. sama mánaðar tekið í Snæfellsbæ bifreiðina LJ 291 heimildarlaust og ekið henni um bæinn, en síðan tekið þar aðra bifreiða, ZP 695, og ekið henni uns lögreglan tók hann höndum í Mosfellsbæ. Einnig var hann sakaður um eignaspjöll með því að hafa komið í þeirri för við á gistihúsinu Felli og brotið þar rúðu í glugga, svo og um þjófnað með því að hafa stolið ökuskírteini nafngreinds manns í fyrri bifreiðinni, sem hann hafi tekið umrædda nótt, og farið síðan inn í íbúðarhús að Túnbrekku 13 í Ólafsvík, tekið þar tvö bankakort og notað þau í kjölfarið í Borgarnesi í hraðbanka, þar sem hann hafi tekið út 15.000 krónur með hvoru þeirra. Í ákærunni var höfð uppi skaðabótakrafa Snjófells sf., sem mun reka gistihúsið að Felli, vegna skemmda á nánar tilgreindum munum. Var fjárhæð þeirrar kröfu alls 17.972 krónur, en annars vegar var um að ræða bætur að fjárhæð 10.000 krónur vegna muna, sem ákærði var sakaður um að hafa skemmt með háttsemi sinni samkvæmt fyrri kafla ákærunnar, og hins vegar 7.972 krónur vegna rúðu, sem fjallað var um í síðari kafla hennar. Einnig var þar gerð skaðabótakrafa að fjárhæð 35.554 krónur fyrir Sigurð K. Sigþórsson, eiganda bifreiðarinnar LJ 291, vegna skemmda á henni. Mál um þessa ákæru var þingfest í Héraðsdómi Vesturlands 23. mars 2001 og það sameinað fyrra málinu.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir gripdeild samkvæmt I. kafla ákærunnar frá 10. nóvember 2000, en sýknaður af þeim sökum, sem hann var þar borinn um fjársvik og eignaspjöll. Hann var dæmdur til að greiða áðurnefndum eiganda gistiheimilisins Heimagistingar, Maríu Bæringsdóttur, skaðabætur að fjárhæð 28.800 krónur, en þar var annars vegar um að ræða 2.800 krónur vegna ógreidds kostnaðar af gistingu og hins vegar 26.000 krónur vegna skemmda á tveimur nánar tilgreindum hlutum. Ákærði var sakfelldur fyrir fjársvik samkvæmt II. kafla sömu ákæru og dæmdur til að greiða Hótel Framnesi 17.700 krónur, svo sem krafist var. Ákærði var einnig sakfelldur fyrir líkamsárás, sem hann var sakaður um í I. kafla ákærunnar frá 23. mars 2001, en sýknaður af sakargiftum um eignaspjöll, sem hann var þar borinn, bæði að því er varðar spjöll á gleraugum konunnar, sem fyrir árás hans varð, og á munum í gistihúsinu Felli. Hann var þó dæmdur til að greiða eiganda gistihússins, Snjófelli sf., 6.000 krónur í skaðabætur vegna skemmda á munum þar. Loks var ákærði sakfelldur fyrir öll brotin, sem um ræddi í II. kafla ákærunnar frá 23. mars 2001. Í tengslum við það var hann dæmdur til að greiða Snjófelli sf. skaðabætur að fjárhæð 7.972 krónur vegna brotinnar rúðu og Sigurði K. Sigþórssyni 10.000 krónur vegna skemmda á bifreiðinni LJ 291.

Fyrir Hæstarétti krefst ákærði sem áður segir sýknu af þeim sakargiftum, sem hann var borinn með báðum köflum ákærunnar 10. nóvember 2000 og fyrri kafla ákærunnar 23. mars 2001, svo og að vísað verði frá héraðsdómi öllum skaðabótakröfum, sem teknar voru til greina með hinum áfrýjaða dómi. Hann unir á hinn bóginn niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu fyrir þau brot, sem um ræddi í síðari kafla ákærunnar 23. mars 2001. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir þau brot, sem hér að framan er getið, svo og um skaðabætur að öðru leyti en því að tekið er undir kröfu ákærða um að vísað verði frá héraðsdómi skaðabótakröfu Maríu Bæringsdóttur að fjárhæð 28.800 krónur, sbr. fyrri kafla ákærunnar 10. nóvember 2000, og skaðabótakröfu Snjófells sf. að fjárhæð 6.000 krónur, sbr. fyrri kafla ákærunnar 23. mars 2001.

II.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir þau brot, sem hann var þar talinn hafa gerst sekur um. Á sama hátt verður jafnframt staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða.

Eins og áður greinir var ákærði sýknaður með héraðsdómi af sakargiftum samkvæmt I. kafla ákærunnar frá 10. nóvember 2000 um fjársvik og eignaspjöll á gistiheimilinu Heimagistingu í Stykkishólmi, en sakfelldur á hinn bóginn fyrir gripdeild þar. Skaðabótakrafa eiganda gistiheimilisins, Maríu Bæringsdóttur, sem tekin var til greina með hinum áfrýjaða dómi, var annars vegar vegna gistikostnaðar, sem ákærði var sakaður um að hafa svikist um að greiða, og hins vegar vegna spjalla á eignum hennar. Með því að ákærði var sýknaður af þeim brotum, sem þessir liðir skaðabótakröfunnar áttu rætur að rekja til, ber samkvæmt 2. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að vísa skaðabótakröfu Maríu frá héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um skyldu ákærða til að greiða Hótel Framnesi skaðabætur að fjárhæð 17.700 krónur.

Ákærði var sýknaður í héraði af sakargiftum samkvæmt fyrri kafla ákærunnar frá 23. mars 2001 um að hafa spillt þargreindum eignum Snjófells sf. í gistihúsinu Felli. Ber því samkvæmt 2. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 að vísa frá héraðsdómi kröfu félagsins um skaðabætur af þessum sökum, sem tekin var til greina í hinum áfrýjaða dómi með 6.000 krónum. Skaðabótakrafa sama félags að fjárhæð 7.972 krónur, sem fallist var á í héraðsdómi og lýtur að þeirri háttsemi ákærða samkvæmt síðari kafla sömu ákæru að hafa brotið rúðu í glugga gistihússins, er engum gögnum studd. Verður því jafnframt að vísa henni frá héraðsdómi og þar með skaðabótakröfu Snjófells sf. í heild sinni.

Samkvæmt II. kafla ákærunnar 23. mars 2001 var ákærða ekki gefið að sök að hafa unnið spjöll á bifreiðinni LJ 291, heldur að hafa tekið hana í heimildarleysi aðfaranótt 3. sama mánaðar. Þegar af þeirri ástæðu var ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 170. gr. laga nr. 19/1991 til að hafa uppi í málinu skaðabótakröfu Sigurðar K. Sigþórssonar vegna skemmda á bifreiðinni. Verður þeirri kröfu hans því vísað frá héraðsdómi.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað af málinu, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Sævars Arnfjörð Hreiðarssonar, um skaðabætur úr hendi hans til Hótels Framness og um sakarkostnað.

Vísað er frá héraðsdómi skaðabótakröfum Maríu Bæringsdóttur, Snjófells sf. og Sigurðar K. Sigþórssonar á hendur ákærða.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 25. maí 2001.

Mál þetta var dómtekið að lokinni aðalmeðferð hinn 14. maí 2001. Í máli þessu eru tvær ákærur, báðar útgefnar af sýslumanni Snæfellinga. Hin fyrri var gefin út 10. nóvember 2000. Fyrirkall vegna hennar var gefið út 22. sama mánaðar og málið höfðað með birtingu þess og ákæru fyrir ákærða 1. desember 2000. Málið var þingfest 13. sama mánaðar. Þá sótti ákærði ekki þing. Gefin var út handtökuskipun á hendur ákærða, og næst þegar þingað var í málinu, 10. janúar 2001, kom ákærði fyrir dóminn. Hann óskaði þá eftir skipun verjanda. Málinu var frestað til 31. janúar. Þá tilkynnti verjandi forföll ákærða. Málinu var enn frestað og næst tekið fyrir 16. febrúar. Þá var upplýst af fulltrúa ákæruvaldsins, að ekki væri vitað hvar ákærði dveldist. Enn var málinu frestað og nú til 2. mars. Í þinghaldi þá voru bókaðar þær upplýsingar frá verjanda ákærða, að hann hefði haldið uppi spurnum um ákærða hjá lögreglu, en hann hefði ekki fundist. Málinu var frestað til 16. mars. Ekki tókst að fá ákærða þá fyrir dóm og gaf dómari þá í annað sinn út handtökuskipun á hendur honum. Hinn 23. mars tókst loks að fá ákærða fyrir dóm. Var á því dómþing þingfest annað ákærumál á hendur honum, ákæra útgefin 23. mars 2001. Voru málin sameinuð. Ákærði tjáði sig um ákæruefnin. Aðalmeðferð var ákveðin 24. apríl 2001. Á dómþingi þá tilkynnti verjandi ákærða að hann væri komin í áfengismeðferð á Vogi. Dómari ákvað að hefja aðalmeðferð með skýrslutöku af vitnum. Ákærði var yfirheyrður og aðalmeðferð lauk hinn 14. maí s.á.

Ákærður er Sævari Arnfjörð Hreiðarsson, kt. 230954-5939. Á útgáfudegi og fyrri ákæru og þingfestingardegi hennar var lögheimili hans Víkurbraut 8 Grindavík, en á útgáfu- og þingfestingardegi síðari ákæru var lögheimilið Skúlagata 54 Reykjavík, en dvalarstaður að Langholtsvegi 28 þar í borg.

Með ákæru útgefinni 10. nóvember 2000  er ákærði ákærður  ,,fyrir fjársvik, gripdeild og skemmdarverk.

I.

Ákærða er gefið að sök að hafa dagana 16. og 17. apríl 1999 dvalið á Heimagistingu Höfðagötu 11 í Stykkishólmi og notið þar veitinga og þjónustu án þess að hafa möguleika á að greiða reikning gistihússins. Þá er ákærða gefið að sök að hafa slegið eign sinni á og tekið með sér í poka af gistihúsinu þrjár áfengisflöskur, tvær hljómsnældur, handspegil, og snyrtivörur. Einnig er ákærða gefið að sök að hafa skemmt á gistiheimilinu eitt blóm, platta, gleraugnaumgjörð og segulbandstæki.

II.

Ákærða er gefið að sök að hafa dagana 31. maí og 1. júní 1999 dvalið á Hótel Framnes í Eyrarsveit og notið þar veitinga og þjónustu sem Arnar Ágústsson og án þess að hafa möguleika á að greiða reikninga hótelsins.

Telst þetta varða við 245., 248. og 257.  gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

 María Bæringsdóttir, kt. 020830-4929, eigandi gistiheimilisins að  Höfðagötu 11 í Stykkishólmi gerir kröfu um að ákærði verði dæmdur til þess að greiða sér bætur fyrir gistingu kr. 2.800, blóm kr. 1.500, platta kr. 2.500, Sandemann púrtvín kr. 1.690, Kahlua líkjör kr. 1.590, Matheus rósavín kr. 450, Bols líkjör kr. 1.600, 2 hljómsnældur kr. 2.000, gleraugu kr. 18.000, og segulbandstæki kr. 8.000, eða samtals kr. 40.130.

Í málinu gerir Hótel Framnes kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu bóta vegna þriggja ógreiddra reikninga samtals að fjárhæð kr. 17.700.”

Svo segir í ákæruskjali.

Með ákæru útgefinni 23. mars 2001 er ákærði ákærður “fyrir eftirtalin hegningar- og umferðarlagabrot.

I.

Líkamsárás og eignaspjöll, með því að hafa að morgni föstudagsins 2. mars 2001 á gistihúsinu Fell á Arnarstapa ráðist að Dagbjörtu Sigríði Gunnarsdóttur með barsmíðum og meðal annars sparkað í hægri fótlegg hennar og velt yfir hana rúmi með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á hægri fótlegg og yfirborðsáverka á húð og gleraugu hennar skemmdust og að hafa við sama tækifæri brotið rimla í rúminu, rifið niður sturtuhengi og brotið ljósakúpul í loftljósi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. og 1. mgr. 257.  gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

II.

Nytjastuld og akstur án ökuréttinda, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 3. mars 2001 tekið bifreiðina LJ-291 heimildarlaust við Skipholt 7 í Snæfellsbæ og ekið henni þar um götur og skilið hana eftir fasta á vegarslóða hjá Hjallabrekku 8 og þá tekið bifreiðina ZP-695 heimildarlaust þar sem hún stóð við Hjallabrekku 6 og ekið henni sem leið liggur í Mosfellsbæ þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða.

Eignaspjöll, með því að hafa á suðurleið sinni komið við á gistihúsinu Fell á Arnarstapa og brotið þar tvöfalda rúðu, 32 x 95 sm að stærð, í stofuglugga á vestur hlið hússins. 

Þjófnað, með því að hafa sömu nótt stolið ökuskírteini Sigurðar Sigþórssonar nr. 2968  úr bifreiðinni LJ-291 og farið inn í íbúðarhúsið að Túnbrekku 13 í Ólafsvík og stolið þaðan tveimur debetkortum Guðlaugs Mímis Brynjarssonar og samtímis komist yfir leyninúmer reiknings hans nr. 1276 hjá Landsbanka Íslands og notað bæði kortin á leið sinni til Reykjavíkur þá um morguninn í hraðbanka Búnaðarbanka Íslands í Borgarnesi til að taka út af reikningnum kr. 15.000,- á hvort kort eða samtals kr. 30.000,-.

Telst þetta varða við 244. gr., 1. mgr. 257.  gr. og  1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sbr. lög nr. 20, 1956 og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57, 1997. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Snjófell sf. krefst þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu bóta vegna skemmda á rúmi, sturtuhengi, ljósakúpli og tvöfaldri rúðu, samtals kr.   17.972,- kr.

Sigurður K. Sigþórsson krefst þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu bóta vegna skemmda á bifreiðinni LJ-229 að fjárhæð kr. 35.554,- ásamt hæstu lögleyfðu vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 3. mars 2001 til greiðsludags.”

Svo segir í ákæruskjali.

Ákæra útgefin 10. nóvember 2000, I. hluti. Heimagisting Maríu. Gripdeild, eignaspjöll og fjársvik.

Frumskýrsla lögreglu er tímasett 17. apríl 1999 kl. 07:05. Hana samdi Sveinn Ingi Lýðsson, sem þá var lögreglumaður í Stykkishólmi. Í henni segir að á þessum tíma hafi verið hringt frá Heimagistingu Maríu, Höfðagötu 11, vegna ölóðs manns. ,,Á vettvangi hittum við fyrir Maríu sem sagði hinn ölóða farinn út. Hann hafi verið í gistingu og í nótt hafi hún vaknað upp við að hann var kominn inn í svefnherbergi hennar, rótandi í hillum og skúffum. Hún hafi rekið hann út og tekið af honum tvær áfengisflöskur sem hann hafi tekið úr stofuskáp. Síðar um nóttina hafi hann tekið hljómtæki úr herbergi og fært þau í herbergi sitt og farið að spila plötur mjög hátt. Hann hafi verið mjög ölvaður og hótað sér meiðingum. Einnig hafi hann hrint niður munum, tekið ýmsa hluti í sinni eigu, s.s. áfengi. Hún kvaðst hafa hótað honum að kalla til lögreglu en þá hafi hann sagst ætla að meiða hana þannig að hún endaði í hjólastól. Síðan hafi hann farið út úr húsinu með plastpoka með ýmsum munum í sinni eigu.”

Síðan segir í frumskýrslunni að lögreglan hafi frétt af ákærða á Hótel Stykkishólmi þar sem hann hafi verið að innrita sig á herbergi. Nokkru síðar, eða kl. 09:43 hafi verið óskað lögregluaðstoðar þangað. Þar hafi lögreglan hitt fyrir Sigurð S. Bárðarson hótelstjóra og ákærða. ,,Sigurður óskaði eftir því að Sævar yrði fjarlægður þar sem hann væri ölvaður, til vandræða og eins hefði hann tekið veski úr jakkavasa sínum. Þegar hann hafi gengið á Sævar hafi hann skilað sér kreditkortum en vissi ekki um veskið.”

Ákærði var handtekinn og færður á lögreglustöð og settur í fangageymslu. ,,Sævar var mjög ölvaður og ekki viðræðuhæfur.”  Hann var yfirheyrður síðar um daginn og síðan látinn laus.

Sveinn Ingi Lýðsson bar vitni fyrir dómi. Hann staðfesti frumskýrsluna. Hann staðfesti einnig fyrir sitt leyti skýrslu sem hann tók af ákærða 17. apríl 1999 kl. 16:03, eftir dvöl ákærða í fangaklefa. Hann gat ekki aðspurður borið um ástand ákærða þegar skýrslan var tekin, annað en það að ákærði hefði verið í fangaklefa mestallan daginn.

Vitnið kvaðst muna eftir atvikum, þótt farið væri að fenna í sporin. Vitnið mundi eftir að hafa farið á vettvang á Höfðagötu 11. Þá hefði ,,maðurinn” verið farinn. María, eigandi gistiheimilisins, hefði skýrt lögreglumönnum frá því sem hefði gerst: Maðurinn hefði verið þarna ölvaður og með hávaða og læti. Hann hefði spilað á plötuspilara sem hann hefði flutt inn í herbergi sitt. Hann hefði tekið þarna einhverja muni og áfengi og farið með út. Ákærði hefði síðan verið handtekinn á Hótel Stykkishólmi. Hann hefði verið með kretidkort hótelstjórans og hann hefði líka verið með áfengi, sem stefnt hefði við það sem horfið hefði frá Maríu. Ákærði hefði verið ölvaður og ,,alveg gufu ruglaður” og lítt viðræðuhæfur.

Undir vitnið Svein Inga var borin munaskrá lögreglu, og var hann spurður hvort þarna væru skráðir þeir munir sem ákærði hefði verið með. ,,Það sýnist mér vera,” svaraði vitnið, ,,alla vega man ég vel eftir þessum handspegli.” Hann mundi ekki hvernig ákærði bar munina með sér.

Vitnið Bylgja Hrönn Baldursdóttir lögreglumaður var að störfum í Stykkishólmi þegar atvik I. hluta ákæru, útg. 10. nóvember 2000, gerðust. Við aðalmeðferð kvaðst vitnið hafa komið að handtöku ákærða í Stykkishólmi 17. apríl 1999. Hún kvaðst muna að tilkynnt hefði verið um skemmdarverk og hótanir hjá Maríu Bæringsdóttur á Höfðagötu. Lögregla hefði farið fyrst þangað, ,, en við náðum í Sævar upp á hóteli.” Spurt var um ástand ákærða þá. ,,Ef ég man rétt, þá var hann ölvaður.” Nánar spurð sagði vitnið að hann hefði verið mikið ölvaður. Lögreglan hefði látið hann sofa úr sér áður en tekin var af honum skýrsla. Hún kvaðst ekki muna um ástand hans þegar skýrslan var tekin. Hún kannaðist við að vera vottur að skýrslutökunni. Ákærði hefði verið látinn laus eftir skýrslustöku, og hann hefði farið á brott með rútu kl. 17:20.

Vitnið Bylgja Hrönn var spurð hvort hún myndi eftir hvaða munir hefðu verið teknir af ákærða. ,,Hann var með einhverjar vínflöskur í poka,” sagði vitnið, en mundi ekki nánar að greina frá mununum. Hún kvaðst líka muna eftir penna. Munaskráin var borin undir vitnið. Hún kvaðst muna að María hefði komið seinna út af gleraugunum sínum. Hún var spurð um hljómsnældur. Vitnið sagði: ,,Ef ég man rétt, þá sagði hún að hann hefði skemmt snældurnar, en ekki að hann hefði verið með þær.” Hún sagði að lögreglumenn hefðu farið inn til Maríu, og þar hefði allt verið á hvolfi í herberginu sem ákærði hefði verið í.

Oddrún María Bæringsdóttir gaf skýrslu fyrir lögreglu 17. apríl 1999 kl. 11:30 og aftur kl. 14:30.  Í fyrri skýrsluna er þetta skráð:

,,María segir að Sævar hafi komið með áætlunarrútunni um kl. 12:00 föstudaginn 16/4 1999. María segist ekki hafa séð það að Sævar hefði verið ölvaður þegar hann kom heim til hennar. Hún segir að um miðjan daginn hafi hann farið í Vínbúðina og komið til baka með eina kippu af bjór og einn pela af vodka. María segist hafa gefið honum að borða kvöldmat og hafi allt verið í lagi með hann á þeim tíma. Hún segir að Sævar hafi svo farið að tefla við annan gest sem var hjá henni.

María segist hafa farið í rúmið um kl. 24:00 og hafi þá hinn gesturinn verið farinn að sofa en Sævar hafi ráfað um húsið og hafi hann verið hálf ruglaður. María segist hafa verið á milli svefns og vöku en um kl. 02:00 hafi hún vaknað við það að Sævar var inni í herberginu hjá henni og var að róta í skúffum í herberginu. María segist hafa rekið hann fram eftir að hafa tekið af honum tvær vínflöskur sem Sævar hafði tekið út skáp í stofunni.

Hún segir að um kl. 03:00 hafi hún orðið vör við mikinn hávaða vegna tónlistar og þá hafi hún farið fram og séð að Sævar var inni í sínu herbergi en búinn að sækja plötuspilara úr öðru herbergi og var að spila plötur með allt í botni. María segist hafa farið inn og beðið hann að lækka og hafi Sævar bara þvælt tóma vitleysu og haldið áfram að spila tónlist.

María segir að þetta hafi gengið svona til klukkan að ganga 07:00 og þá hafi hún ætlað að taka af honum plötuspilarann og vísa honum út úr húsinu. Hún segir að þá hafi Sævar orðið vitlaus og hótað að drepa Maríu og brjóta allt og bramla. María segist hafa sagt honum að hún myndi hringja í lögregluna og segir Sævar þá hafa orðið ennþá verri og hótað að berja hana og lemja svoleiðis sundur og saman þannig að hún endaði í hjólastól og þá myndi hann bara hlæja að henni. Hún segir Sævar einnig hafa sagst ætla að mölva allar rúður og allt sem inni í húsinu væri. María segir að hann hafi svo farið út og hafi hann verið með plastpoka með einhverju í . . . Hún segir að Sævar hafi skemmt hjá sér ýmsa muni og einnig að hann skuldi sér fyrir gistinguna.”

María lagði síðan fram bótakröfu sundurliðaða þannig:

Gisting

2.800,-

Blóm eyðilagt

1.500,-

Platti brotinn

2.500,-

Púrtvínsflaska Sandemann

1.690,-

Líkjörsflaska Kalhúa

1.590,-

Rósavín Matheus

450,-

Líkjör Bols

1.600,-

Samtals kr.

14.130,-

Síðar sama dag gaf Oddrún María aftur skýrslu fyrirlögreglu í því skyni að auka við skaðabótakröfu sína. Þá sagði hún svo frá að hún hefði fundið gleraugu sín í sjónvarpsholinu og hafi gleraugnaumgjörðin verið öll snúin og ónýt. Seinna um morguninn hafi hún uppgötvað að ekkert heyrðist í kasettutæki í hljómflutningstækjum hennar. Hún lagði fram viðbótar skaðabótakröfu:

Gleraugu

kr.18.000

Kassettutæki

kr.   8.000

Samtals

kr. 26.000

Oddrún María Bæringsdóttir bar vitni fyrir dómi. Hún kvaðst muna eftir ákærða mikið vel, því að þetta hefði verið í annað skiptið sem hann hefði gist hjá henni. En hún kvaðst ekki muna í smáatriðum eftir þeim munum sem hann hefði hnuplað frá henni og lögreglan hefði tekið af honum.

Vitnið sagði að ákærði hefði hringt og beðið um gistingu. Hún hefði þá ekki áttað sig á manninum og ekki fyrr en síðar þegar hann fór með vísu fyrir hana, en þá sömu vísu hefði hann farið með þegar hann gisti og gerði hjá henni usla tveimur árum fyrr. Hann hefði komið með rútu og að hans beiðni hefði hún sótt hann í rútuna. Hún kvaðst hafa látið undan beiðni hans að gefa honum að borða um kvöldið, þótt hún væri ekki með neinn mat fyrir gesti.

Um kvöldið, þegar ákærði hefði verið búinn að borða, hefði hann gerst mjög frekur. Hann hefði t.d. farið inn á baðherbergi og komið þaðan með snyrtidótið hennar og sagst eiga það. Hann hefði tekið plötuspilara og sambyggt segulbandstæki inn til sín og sagst eiga það. Gleraugun sín hefði hún fundið tveimur dögum síðar sundur snúin bak við sófa. Útvarpsviðtæki sagði vitnið að ákærði hefði tekið frá sér. Hún hefði fundið það undir rúminu hjá honum. Um morguninn hefði hún verið orðin þreytt á ákærða og hringt þá í lögregluna.

Vitnið Oddrún María sagði aðspurð að hún og ákærði hefðu ekkert rætt tilhögun greiðslu fyrir gistingu þegar hann hringdi til að panta hana. Hún sagðist ekki vera vön að ræða það við gesti sína fyrr en þeir færu.

Klukkan um 10 um morguninn sagðist vitnið hafa verið kölluð á lögreglustöðina. Lögreglan hefði þá sýnt henni muni sem ákærði hefði tekið frá henni, og spurt hvort hún kannaðist við þetta. Hún hefði ekki haft hugmynd um að hann væri með þetta þegar hann fór heiman frá henni.

Undir vitnið var borið það sem ákærði sagði fyrir dómi 23. mars 2001, að hann væri búinn að greiða vitninu fyrir gistinguna. Hún sagði að hann hefði aldrei borgað sér neitt. Hún kvaðst ekki vera sár yfir því, þótt einn ræfill færi án þess að borga, bara að hún þyrfti ekki að taka á móti svona aftur.

Vitnið endurtók að hún myndi ekki í smáatriðum hvað það var sem ákærði tók frá henni. Hún mundi t.d. ekki aðspurð eftir tveimur hljómsnældum, sbr. ákæru útg. 10. nóvember 2000. Hún kvaðst muna eftir spegli og koníaksflösku sem ákærði hefði tekið. Hún var spurð hvort ákærði hefði skemmt segulbandstækið. ,,Ég hugsa að það hafi nú ekki verið mikið,” svaraði vitnið.

Vitnið staðfesti skýrslu sem hún gaf fyrir lögreglu 17. apríl 1999. Hún var spurð hvort hún myndi nú eftir áfengiskaupum ákærða daginn sem hann kom til hennar. Hún sagðist ekki muna eftir þeim. Hún sagði einnig að það hefði verið fyrr en fram kemur í lögregluskýrslunni, eða fyrir miðnætti, sem ákærði hefði hótað sér öllu illu, þ. á m. lífláti.  Hún kvaðst hafa verið yfir ákærða alla nóttina.

Vitnið kvaðst ekki muna í einstökum atriðum eftir hinni sundurliðuðu bótakröfu sinni. Hún neitaði því að hafa gefið ákærða púrtvínsflösku.

Vitnið staðfesti skýrslu sem hún gaf fyrir lögreglu 5. júní 1999. Hún kvaðst hafa látið gera við kasettutækið sem þar er nefnt í bótakröfu.

Vitnið sagði aðspurð að hún hefði ekki fengið tjón sitt bætt úr heimilistryggingu.

Ákærði gaf skýrslu fyrir lögreglu kl. 16:03 17. apríl 1999. Hann kvaðst þar ekki muna eftir atvikum næturinnar þar sem hann hefði verið mjög ölvaður. Hann sagðist hafa komið með rútu til Stykkishólms, en ekki vita hvenær það var. Hann kvaðst hafa fengið gistingu á Gistiheimili Maríu. Hann hefði farið í ríkið og keypt Kalhúa, bjór og eina flösku af skosku wiskýi. Eftir það hafi hann farið upp á herbergi og étið pillur og drukkið. Síðar segir orðrétt í þessari framburðarskýrslu ákærða: ,,Mætti er nú spurður um muni sem hann hafði meðferðis við handtöku, þ.e. þrem flöskum [svo] af áfengi, handspegli úr gulli, snyrtivörum, penna og lyfjaglasi merkt Maríu Bæringsdóttur. Mætti kveðst eiga viskíflöskuna, Kalhúaflöskuna og María hafi sagt sér að hann mætti eiga púrtvínsflöskuna. Aðra muni kveðst mætti ekki eiga og ekki kannast við að hafa tekið þá af Gistiheimilinu. Þó kveðst mætti ekki neita því að hafa tekið þessa hluti þó svo að hann muni það ekki. Mætta er nú kynnt framkomin skaðabótakrafa Maríu Bæringsdóttur samtals að upphæð kr. 14.130,-

Mætti kveðst samþykkja kröfuna og hér með afsala sér ofantöldum munum samkvæmt munaskrá lögreglu sem honum er sýnd. Hann kveðst munu senda Maríu greiðslu þegar hann fái örorkubætur útborgaðar um næstu mánaðamót.”

Er ákærði var fyrir dómi inntur eftir afstöðu sinni til þessa hluta ákærunnar var eftir honum bókað: “Hann neitar sakargiftum. Hann kannast við að hafa gist í Heimagistingu Höfðagötu 11 Stykkishólmi, en segist hafa greitt fyrir þá gistingu. Hann segir rangt að hann hafi slegið eign sinni á þá muni sem í þessum hluta ákæru eru nefndir og kannast ekki við að hafa skemmt neitt.”

Ákærði gaf skýrslu við aðalmeðferð Hann mótmælti því að hafa skemmt segulband eða skemmt eða slegið eign sinni á hljómsnældur. Spurður um skemmdir á gleraugum svaraði ákærði: ”Ég man einnig að það var einhver umgjörð á gleraugum sem þarna bilaði.” Hann kvaðst hafa keypt vínið sem  lagt var hald á í ríkinu. Hann taldi sig hafa fyrirfram samið fyrirfram um greiðslufrest á hótelreikningnum þar til hann fengi útborgaðar örorkubætur.

Ákæra útgefin 10. nóvember 2000, II. hluti. Hótel Framnes. Gripdeild fjársvik og eignaspjöll.

Frumskýrsla lögreglu er tímasett 1. júní 1999 kl. 08:20. Hana samdi Helgi Gunnarsson aðstoðarvarðstjóri í Stykkishólmi. Í henni segir að á þessum tíma hafi verið óskað var eftir lögreglu að Hótel Framnesi vegna ölvunar og ónæðis þar innan dyra. Þegar lögreglumenn komu á staðinn hafi þeir hitt hótelstjórann Eið Örn Eiðsson að máli, og hafi hann óskað eftir að ákærði Sævar yrði fjarlægður af hótelinu, þar sem hann neitaði að gera upp reikning fyrir gistingu og veitingar að upphæð kr. 17.700, auk þess sem hann reykti inni á hótelherbergi og væri með ónæði við aðra gesti hótelsins. Sævar hefði verið talsvert ölvaður og fallist á að koma með lögreglu og verið ekið á Lögreglustöðina í Grundarfirði. Aðspurður hefði ákærði Sævar sagst vera peningalaus en að hann ætti þó von á peningum frá Tryggingastofnun í dag. Hann hygðist þó ekki gera upp reikning Hótelsins þar sem hann hafi vaknað við hamarshögg í morguninn. Ákærði Sævar hefði verið með skjalatösku meðferðis og opnað hann hana á stöðinni. Í töskunni hefðu reynst vera þrjár bjórflöskur sem hann hefði sagst hafa keypt í útsölu ÁTVR í Reykjavík. Í samtali við hótelstjóra hafi hótelstjórinn talið líklegt að bjórnum hefði verið stolið frá sér, auk þess sem ákærði Sævar hefði verið afgreiddur með bjór.

Við aðalmeðferð kannaðist vitnið Helgi Gunnarsson aðstoðarvarðstjóri við að hafa verið kvaddur á vettvang í Hótel Framnes 1. júní 1999 út af því að kvartað hefði verið undan manni sem neitað hefði að greiða gistingu og viðurgjörning. Þar hefði hann hitt ákærða. Hann hefði verið frekar æstur, sagt að hann hefði ekki fengið svefnfrið um nóttina. Þarna hefðu verið iðnaðarmenn og valdið ónæði. Hann hefði ekki séð ástæðu til að borga reikninginn. Vitnið kvaðst þekkja ákærða, hefði áður haft af honum afskipti, í Reykjavík. Ákærði hefði síðan farið með honum út af hótelinu og þeir farið á lögreglustöðina. Hann hefði fengið annan lögreglumann í lið með sér. Í samráði við yfirlögregluþjón hefði ákærða síðan verið ekið til Reykjavíkur. Af honum hefði ekki verið tekin skýrsla. Vitnið staðfesti frumskýrslu sína í þessum þætti máls. 

Eiður Örn Eiðsson hótelstjóri gaf skýrslur hjá lögreglunni í Grundarfirði 1. júní 1999 og 1. nóvember 2000. Hann kvað ákærða  Sævar hafa hringt 30. maí 1999 og pantað herbergi undir nafninu Arnar Ágústsson. Hann hefði svo komið með rútunni þann 31. maí og ætlað að vera í gistingu í 4 daga. Þegar Sævar kom á hótelið hefði hann ekki verið áberandi ölvaður og verið kurteis í alla staði. Sævar hefði fengið sér hádegismat og drukkið bjór með matnum. Hótelstjórinn kvaðst hafa kynnt Sævari reglur hótelsins, meðal annars að bannað væri að reykja inni á herbergjum. Hann hefði þurft að fara inn á herbergi til Sævars um kl. 17:00-18:00 til þess að stilla sjónvarpið og hefði Sævar þá verið búinn að rífa vaskinn á salerninu frá veggnum og sagt að hann væri stíflaður. Eiður kvaðst hafa sagt Sævari það að hann yrði að láta hann fara af hótelinu sökum ölvunar og ónæðis. Sævar hefði verið búinn að trufla starfsfólk við vinnu sína og hefði platað starfsfólkið til þess að skrifa hjá sér áfengi undir nafninu Arnar Ágústsson. Hótelstjórinn kvaðst hafa sagt ákærða að hann fengi að gista þá  nótt en yrði að ganga frá reikningum sínum daginn eftir. Fyrri part kvölds hefði ákærði Sævar verið til friðs en seinni hluta kvöldsins hefði hann verið farinn að færa sig upp á skaftið og stillt útvarpið í herberginu mjög hátt. Hótelstjórinn sagðist hafa farið inn til hans og beðið hann að lækka og hefði hann gert það skamma stund en svo hafi hann hækkað aftur og ekki svarað þegar bankað var á dyrnar. Útvarpið hefði verið á alla nóttina. Um kl. 8:30 um morguninn hefði ákærði Sævar komið í móttökuna og verið alveg vitlaus yfir því að fá ekki svefnfrið fyrir hamarshöggum, en iðnaðarmenn hefðu verið að störfum um morguninn. Hótelstjórinn kvaðst hafa boðið ákærða Sævari að lækka gistikostnaðinn, en Sævar hefði þá orðið mjög vondur og sagt að hann ætlaði ekki að borga gistinguna né matar- og vínreikningana.

Hótelstjórinn lagði reikningana fram og krafðist þess að Sævari yrði refsað lögum samkvæmt og að hann borgaði  þessa reikninga upp á kr. 17.700.­

Við aðalmeðferð kvaðst vitnið Eiður Örn Eiðsson hótelstjóri muna eftir heimsókn ákærða á Hótel Framnes. Hann sagði að ákærði hefði hringt til að panta gistingu. Hann hefði sagst heita allt annað en hann raunverulega hét. Hann hefði átt að koma á sunnudegi. Þá hefði hann aftur hringt og frestað komu sinni um einn dag. Hann hefði síðan komið á mánudegi með rútu. Vitnið sagðist þá hafa bókað hann inn á herbergi. Ákærði hefði þá spurt hvort ekki væri í lagi að hann borgaði þegar hann færi. Vitnið kvaðst hafa samþykkt það, enda væri það algengt. Vitnið sagði aðspurt að ákærði hefði nefnt að hann væri peningalaus, en væri að fá peninga símsenda. Slíkt sagði vitnið að væri algengt með sjómenn. Ákærði hefði talað um að gista tvær nætur.

Vitnið Eiður Örn sagði að ákærði hefði ekki verið drukkinn þegar hann kom. Síðan hefði hann orðið fullur, og hann hefði verið með hávaða, spilað músík hátt á herbergi sínu og verið áreitinn og dálítið dónalegur við starfsfólk. Vitnið kvaðst hafa gert honum tiltal og sagt honum að hann mundi vísa honum út úr húsi, ef hann tæki sig ekki á. Þá hefði hann borið sig illa og lofað bót og betrun, og vitnið kvaðst þá hafa aumkað sig yfir ,,blessaðan manninn” og lofað honum að vera. Um morguninn næsta hefðu smiðir verið að vinna við hótelið, að laga glugga. Þá hefði ákærði komið fram ,,alveg trylltur”. Hann hefði barið í borð og sagt að hann skyldi ekki greiða neitt fyrir þessa gistingu, ,,maður fengi ekki einu sinni að sofa út”. Vitnið kvaðst þá hafa boðið ákærða að gefa honum afslátt af gistingunni, ef hann væri óánægður með hana, en hann yrði að borga veitingarnar, matinn og annað sem hann hefði þegið. ,,Þá æstist bara leikurinn og þá ákvað ég bara að hringja og biðja um aðstoð,” sagði vitnið. Vitnið sagði að ákærði hefði látið dólgslega.

Vitnið Eiður Örn sagði að sér hefði ekki orðið ljóst að Arnar Ágústsson var ekki rétt nafn ákærða fyrr en lögreglan kom. Lögreglan hefði sagt honum þetta.

Undir vitnið var borinn sá framburður ákærða að bótakrafa Hótels Framness, reikningar fyrir gistingu og veitingar, væru fjarri öllu sanni. Þar væri miklu meira skráð en hann hefði keypt. Vitnið sagði að reikningarnir væru alveg réttir. Hann kvaðst hafa bannað starfsfólki að selja ákærða áfengi, þegar hann hefði séð að hann hefði verið orðinn svo fullur að horfði til vandræða, en stúlka sem hefði verið nýbyrjuð að vinna þarna, hefði selt honum talsvert mikið vín. Stúlka sem var á vakt hefði klárað að gera reikningana um kvöldið. Ákærða hefðu verið sýndir þeir um morguninn. Aðspurður sagði vitnið að ákærði hefði ekki verið látinn kvitta fyrir viðtöku hverrar pöntunar. Ekki væri vanalegt að gera það.

Vitnið staðfesti skýrslu sem hann gaf fyrir lögreglu 1. júní 1999 og einnig skýrslu sem  hann gaf 1. nóvember 2000. Vitnið gerði þá athugasemd við síðari skýrsluna að ákærði hefði ekki talað um að hann væri alveg peningalaus, heldur að hann ætti von á að fá senda peninga.

Er ákærði var yfirheyrður af lögreglu hinn 8. maí 2000 að viðstöddum verjanda sínum Hilmar Ingimundarsyni hrl., vakti hann athygli á því að þetta mál væri  rugl og að hann hefði því lítið um það að segja. Hann kvaðst hafa skráð sig inn á Hótel Framnes Grundarfirði þann 31. maí 1999 undir nafninu Sævar Arnfjörð Hreiðarsson og kvað það rangt sem fram kemur í frumskýrslu að hann hefði skráð sig inn á hótelið sem Arnar Ágústsson. Hann sagðist aldrei nota það nafn og þess vegna ekki skilja í því hvers vegna þetta nafn kemur fram í skýrslu lögreglunnar.

Ákærði sagðist hafa kvartað við afgreiðslumann í gestamóttöku vegna hávaða sem borist hefði frá iðnaðarmönnum sem verið hefðu að vinna í næsta herbergi við herbergið sem hann hafði tekið á leigu. Hann hefði óskað eftir því að lögreglan kæmi á staðinn, og er þeir komu hefði hann kvartað við lögreglumenn vegna umrædds hávaða. Ákærði taldi að starfsmaður í gestamóttöku hefði óskað eftir því við lögreglumenn að þeir vísuðu honum af staðnum og hefði hann samþykkt að verða við þeirri beiðni og fara með lögreglumönnum. Ákærði taldi fráleitt að hann hefði valdið gestum ónæði með drykkjulátum. Hann hefði verið einn inn á herbergi sínu við áfengisdrykkju. Ákærði sagðist líka vilja taka það fram að hann hefði verið  eini gesturinn á hótelinu þessa nótt og því hefði hann ekki getað valdið öðrum gestum ónæði með drykkjulátum. Ákærði kannaðist við að hafa keypt eitthvað af veitingum á hótelinu, það hefði verið áfengi og bjór.

Ákærði sagðist hafa tekið það fram við starfsmann í afgreiðslu þegar mætti tók herbergið á leigu að hann væri peningalaus en ætti von á peningum frá Tryggingastofnun ríkisins daginn eftir og ætlaði þá að greiða reikning sinn. Starfsmaðurinn hefði samþykkt þetta greiðslufyrirkomulag.

Er ákærða voru sýnd ljósrit af reikningum frá Hótel Framnesi Grundarfirði dags. 31.05.1999 að fjárhæð samtals að kr. 17.700 sagðist hann ekki hafa keypt nema hluta af þeim veitingum sem fram koma á reikningum og hafnaði alfarið bótakröfu.

Er ákærði var fyrir dómi inntur eftir afstöðu sinni til þessa hluta ákærunnar var eftir honum bókað: “Segir ákærði að hann kannist við að hafa gist á þeim tíma sem tiltekinn er á Hótel Framnesi, en hann hafi verið rekinn í burtu þaðan og því ekki getað greitt reikninga hótelsins.”

Er ákærði var spurður um það við aðalmeðferð hvort hann hefði gefið upp nafnið Arnar Ágústsson á Hótel Framnes, þá sagðist hann ekki minnast þess en nefndi það að fyrra bragði að fósturfaðir sinn héti Agnar. Sækjandi gat þess að fram kæmi í eldri refsidómi yfir ákærða að þá hefði hann notað nafnið Arnar Ágústsson, en sækjandinn upplýsti ekki í hvaða dómi þetta kæmi fram. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands, upp kveðnum 3. september 1999, var ákærði ákærður og sakfelldur fyrir fjársvik, fyrir að hafa tekið á leigu herbergi á Hótel Selfossi og þegið þar veitingar og þjónustu án þess að hafa nokkra fyrirsjáanlega möguleika á að geta greitt þjónustuna. Í atvikalýsingu dómsins er greint frá því að ákærði hafi gefið upp rangt nafn, Arnar Ágústsson, þegar hann kom á hótelið.

Ákærði ítrekaði þann framburð sinn fyrir fyrir lögreglu að hann hefði tekið það fram er hann tók herbergið á leigu að hann væri peningalaus en fengi peninga daginn eftir, enda hafi hann komið á hótelið síðasta dag mánaðar, og hann því verið öruggur um að fá sínar örorkubætur útborgaðar daginn eftir.

Ákæra útgefin 23. mars 2001, I  hluti. Gistihúsið Fell á Arnarstapa. Líkamsárás og eignaspjöll.

Frumskýrsla lögreglu er tímasett 2. mars 2001 kl. 12.25.  Hana samdi Lárus Ragnar Einarsson lögreglumaður í Ólafsvík. Í henni segir að á þessum tíma hafi verið óskað var eftir lögreglu að Gistihúsinu Felli á Arnarstapa vegna ölvaðs fólks sem væri þarna í bústað og hefði sinnast og vildi ekki fara á brott. Rætt hafi verið við hótelstjórann Sigrúnu. Hún hafi sagt að ákærði Sævar hefði hringt í sig og beðið um gistingu fyrir sig og Dagbjörtu Sigríði Gunnarsdóttur, því hann þyrfti að ná sér eftir sjóslys sem hann hefði orðið fyrir, og kæmu þau þann 9. febrúar. Sigrún hefði sagt að þau hefðu komið þann dag og í gær hefði hún svo ekið þeim til Ólafsvíkur til þess að ná í bætur sem þau ættu að fá greiddar út. Þau hefðu og greitt leiguna og matarúttekt og fl. upp á 72,610 kr.

 Samkvæmt frásögn Sigrúnar hótelstýru hefði Dagbjört fengið 50 þúsund krónur út og Sævar hefði fengið 51 þúsund kr. Dagbjört hefði komið til sín grátandi og sagt að Sævar hefði lamið sig og barið og stolið frá sér peningum. Sævar hefði komið á eftir henni og hótað henni öllu illu. Hún hefði rekið ákærða Sævar út og síðan hringt í neyðarlínu 112. Dagbjört Sigríður Gunnarsdóttir væri inni í eldhúsi hjá sér. Lögreglan hefði þá farið í  eldhúsið og rætt við Dagbjörtu.

Dagbjört hefði verið í mjög miklu uppnámi, tilkynnt lögreglumönnum strax að hún væri þroskaheft og drykki ekki áfengi og vildi leggja fram kæru á hendur Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni, kt. 230954-5939, vegna líkamsárásar sem hún hefði orðið fyrir í morgun og þjófnað. Hún hefði sagt að Sævar hefði sparkað í sig og lamið sig og hent rúmi yfir sig og það brotnað og hefði Sævar tekið af sér alla peninga. Hún fyndi mjög mikið til í fótunum og hendinni eftir barsmíðarnar. Sævar væri uppi í Felli, þar sem þau hefðu tekið á leigu eitt herbergi, með aðgangi að eldhúsi og baði. Sævar væri mjög ölvaður og búinn að brjóta þar ýmislegt inni í húsinu.

Kl. 14:10 fór lögreglan að Felli með Sigrúnu hótelstýru sem sér um að leigja út gistingu hjá Snjófelli. Sigrún hefði opnaði Fell fyrir lögreglumönnum. Er inn var komið hefði Sævar setið í stól á innri gangi víndauður. Hann hefði verið vakinn klukkan 14:15 og í framhaldi tilkynnt að hann væri handtekinn, grunaður um líkamsárás, þjófnað og skemmdarverk að Felli og síðan  færður í fangageymslu í Ólafsvík, en Dagbjört til skoðunar á heilsugæslustöðina í Ólafsvík. Niðurstaða hennar hefði verið þessi: “Er með verki í hæ. fótlegg, þar sem húm segir að hafi verið sparkað í sig. Er með greinilegt mar og yfirborðsáverka á húð. Finnur til við skoðun. Ekki brotin og engin önnur sjáanleg áverkamerki. Segir hann hafa slegið sig í framan tvisvar sinnum, ekki að sjá áverka í andliti, en gleraugu greinilega skökk og vantar á þau púða. Starfsmaður skoðunar Zoran Trifunovic læknir.”

Föstudaginn 2. mars 2001 kl. 17:27 tók lögregla í Ólafsvík skýrslu af umræddri Dagbjörtu Sigríði Gunnarsdóttur, kt. 290954-5179, í framhaldi af læknisskoðun á Heilsugæslustöðinni í Ólafsvík. Í upphafi skýrslunnar segir að Dagbjört sé þroskaheft og ólæs. Hún segist hafa komið með Sævari að Arnarstapa fyrir um tveimur vikum síðan. Þar hafi þau leigt sér herbergi og hafi þau mátt vera í tíu daga í viðbót. Áður hafi þau verið á Akranesi og einnig í Grindavík, en Dagbjört segist hvergi eiga heima. Í gærkveldi hafi Sævar verið búinn að drekka brennivín og bjór og hafi hann orðið mjög vondur. Hafi hann sparkað í hægri fót hennar og hrint henni i rúmið. Síðan hafi Sævar tekið rúmið og velt því yfir höfuðið á henni. Þegar Sævar hafi verið búinn að því hafi hann farið fram og brotið ljósakrónu. Þegar Sævar var að lemja hana hafi hann skemmt fyrir henni gleraugun. Hafi annar púðinn brotnað af og svo þau séu skökk. Sævar hafi farið í veski hennar og stolið þaðan einum 5 þúsund króna seðli og einum þúsund króna seðli og hafi hann neitað að láta sig hafa peninga til baka. Þau hafi bæði saman borgað gistinguna á Arnarstapa. Er Dagbjörtu var sýnt hálsmen sem fannst í fórum Sævars þegar hann var handtekinn hefði hún sagt að  Sævar hefði stolið hálsmeninu á Hótel Sögu fyrir nokkru síðan. Hann hefði líka stolið buxum, peysu og nærbuxum. Einnig gleraugum úr gleraugnaverslun í Hafnarfirði við Fjarðarkaup, þar sem sé stoppistöð fyrir strætisvagna. Hún hefði farið inn í gleraugnabúðina og hefði afgreiðslukonan farið á bak við, en á meðan hefði Sævar stolið gleraugunum og hefði honum þótt það fyndið. Hún sé búin að vera með Sævari í fjóra mánuði og hafi hann áður lamið hana og stolið af henni peningum. Einu sinni hafi hann stolið frá henni þremur fimm þúsund króna seðlum. Þegar þau voru í Grindavík hafi þau búið hjá manni sem var með gistingu í húsi sem sé beint á móti löggustöðinni og Póst og Síma. Þar hafi Sævar stolið peningum úr umslagi frá einhverjum útlendingi sem einnig hefði verið þar í gistingu. Hafi fleiri strákar verið þarna í gistingu. Hún hefði verið á spítala en Sævar hefði sagt sér frá þessu.

Er vitnið Dagbjört Sigríður Gunnarsdóttir var við aðalmeðferð beðin að lýsa atvikum meintrar líkamsárásar ákærða á hana sagði hún að hún og ákærði hefðu farið frá Stapa [Arnarstapa], þar sem þau bjuggu hjá Sigrúnu og Tryggva, að versla í búð, ekki langt frá Stapa [í Ólafsvík].  Ákærði hefði þar farið í Ríkið og keypt bjór og brennivín. Þegar smástund hefði verið liðin frá því þau komu aftur heim, hefði ákærði verið búinn að drekka nokkuð mikið. Hann hefði þá komið inn í stofu og sest niður. ,,Svo eftir það þá bara sparkar hann í mig með hörðum skóm, og ég alveg helaum í fætinum. Ég fékk mar eftir hann á fótinn. Og svo steypti hann heilu rúmi yfir mig, og ég lá undir rúminu  í smá stund.” Hún sagði að hann hefði fyrst hent sér í rúmið, leikið sér að því, og síðan hvolft því yfir sig. Hún hefði lent undir því með höfuðið. Hún neitaði því aðspurð að hún hefði drukkið með ákærða. Hún hefði ekki snert á áfengi, hvorki bjór né brennivíni. Hún var spurð hvort hún vissi hvers vegna ákærði hefði sparkað í hana. Hún kvaðst ekki vita það, en hélt að það hefði bara verið út af fylleríinu. ,,Hann var rosamikið fullur.” Hún var spurð hvort þau hefðu verið að rífast. Hún neitaði því. ,,Hann reifst í mér. Ég reyndi að vera góð við hann.” Hún var þá spurð hvers vegna hann hefði verið að rífast í henni: ,,Bara út af engu, hann bara gerði þetta af því að hann var svo fullur. Hann stóð ekki á fótunum. Hann var búin að drekka svo mikið, blandaði þessu saman ... bjór og brennivín.”

Vitnið sagði svo frá að eftir að hún komst undan rúminu, sem ákærði hvolfdi yfir hana, hefði hún farið fram á snyrtingu og skilið veskið sitt eftir inni. ,,Og þá var hann búinn að róta til í veskinu, tók af mér alla örorkuna, allar bæturnar mína, næstum því. Hann var búinn að tæma veskið mitt, nema tíkallana. Hann lét hundraðkallana vera. Ég kom að veskinu svona.”

Vitnið Dagbjört var spurð hvenær sólarhrings það hefði verið sem ákærði sparkaði í hana. Hún kvaðst ekki geta svarað því, en hélt að það hefði verið um kvöldmatarleytið. Við þetta gerði sækjandi þá athugasemd að hún hefði ekki gefið sig fram við Sigrúni Reynisdóttur fyrr en morguninn eftir: ,,Já, hann bannaði mér að fara út, hann hélt mér inni. Ég ætlaði að fara út til að fá hjálp, til þess að biðja hana að hjálpa mér og ég komst ekki út. Hann henti mér inn tvisvar-þrisvar sinnum. En svo fór ég út þegar hann fór að sofa. Þá komst ég niður eftir til hennar, og hún hjálpaði mér. Hún hringdi á lögguna og aðstoðaði mig.”

Vitnið sagði að ákærði hefði sparkað fast í fótinn á sér. Hún hefði verið aum í tvo daga.

Vitnið Dagbjört var spurð hvort hún hefði tekið eftir að ákærði hefði skemmt eitthvað þar sem þau bjuggu. Hún játaði því. Hann hefði brotið rúðu, og hann hefði brotið ljósakrónu með því að berja í hana með kústi. ,,Mér heyrðist að hann hefði eitthvað verið að eyðileggja rúm eða . . .” Hún neitaði þeim framburði ákærða að hún hefði rifið niður sturtuhengi, sagði að það hefði verið hann ,,sem tók það niður”.

Vitnið Dagbjört var spurð hvernig á því hefði staðið að hún fór með ákærða suður til Reykjavíkur í bíl nóttina eftir. Svar: ,,Af því að hann stal bíl, og fór á honum hálfa leið í bæinn, og þá komu löggur.”  Hún var þá spurð hvernig á því hefði staðið að hún var með honum í bílnum. Hún sagði að hjónin [þ.e. Sigrún og Tryggvi] hefðu bannað sér að opna fyrir honum, og hún hefði farið eftir því. Hann hefði beðið hana að opna, en hún neitað. Þá hefði hann brotið rúðuna og farið inn um gluggann og sagt: ,,Þú kemur héðan út. Ef þú kemur ekki þá tek ég þig með valdi, ef þú kemur ekki strax.” ,,Og ég þorði ekki annað en að hlýða, af því ég er svoldið svona smeyk”

Vitnið Dagbjört var spurð nánar um ferð þeirra til Reykjavíkur. Hún sagði að ákærði hefði stolið miklum peningum. Hann hefði tekið debetkort og ökuskírteini. Hann hefði stolið peningum af manninum sem hann tók bílinn af. Aðspurð sagði hún að þau hefðu stansað í Borgarnesi. Þar hefði ákærði tekið pening ,,af hans korti”. Hún neitaði því að hún hefði tekið út pening með korti. Hún gat ekki svarað því hvað ákærði hefði tekið mikla peninga út á kort, sig minnti það hefði verið 35.000 krónur.

Vitnið staðfesti skýrslu sem hún gaf fyrir lögreglu í Ólafsvík 2. mars 2001. Sagði að allt væri rétt sem þar væri skráð.

Föstudaginn 2. mars 2001 kl. 18:44 tók lögregla í Ólafsvík skýrslu af umræddri

Sigrúnu Reynisdóttur hótelstýru. Hún bar að þau Sævar og vinkona hans Dagbjört hefðu komið þann 09.02.2001 og hefði allt gengið vel fram að þessu. Hefðu þau komið peningalaus og hefði hún þurft að lána þeim fyrir gistingu, mat og tóbaki en væri búinn að fá greitt fyrir það sem hún hafi lánað þeim. Nú í morgun hefði Sævar hringt í sig og óskað eftir því að honum yrði ekið í veg fyrir áætlunarbifreið þar sem þau hygðust yfirgefa staðinn. Hefði hún þá heyrt að hann var undir áhrifum áfengis. Nokkru síðar hefði hún tekið eftir því að Dagbjört kom gangandi niður frá Felli. Hefði Dagbjört litið í sífellu til baka upp af Felli á leið sinni að heimili mættu. Dagbjört hefði síðan bankað og þá verið grátandi og sagt að Sævar hefði lamið hana. Stuttu síðar hefði Sævar komið og viljað fá að tala við Dagbjörtu en hún hefði ekki leyft honum það, hefði hann þá talað við hana inn um glugga. Hefði Sævar sagt við Dagbjörtu að "hann mundi ná í hana og að hún mundi ekki sleppa undan honum". Hefði hann síðan farið á brott og upp að Felli. Þegar lögregla var búin að fara með Sævar út af Felli hefði hún farið að skoða hvernig ástandið væri á húsnæðinu. Þá hefði verið búið að brjóta rimla undir rúmdýnunni og brjóta kúpul í loftljósi og hengi fyrir sturtu. Einnig hefði verið búið að rusla mikið til og hefði allt verið á rúi og stúi. Skemmdir þær sem Sævar olli séu að verðmæti um 10.000 og fari hún fram á að fá það bætt og að hann verði dæmdur lögum samkvæmt.

Hinn 23. mars 2001 kom Sigrún Reynisdóttir að nýju fyrir lögreglu og var þá eftir henni bókað: “Mætta kvaðst telja að Sævar hafi komið með eða á bifreið milli kl. 05:00-06:00 þann 03.03. 2001 að Felli, Arnarstapa og brotið rúðu í opnanlegu fagi, með tvöföldu gleri, og braut hann bæði glerin og hafði hann dregið stormjárnið með skrúfunum út og fór þar inn. Stærð rúðunnar er 32 cm. x 95 cm. í stofu á vestur hlið hússins og farið síðan á brott og tekið vinkonu hans með sér Dagbjörtu Sigríði Gunnarsdóttur, kt. 290954-5179, en þau hafi verið með Fell á leigu frá 09.02.2001. Mætta kvað Dagbjörtu hafa verið í húsinu í umrætt sinn. Mætta kvað Dagbjörtu hafa hringt til sín mánudaginn 05.03.2001 og sagt henni að Sævar hafi komið á bifreið frá Ólafsvík. Sævar hafi bankað og hafi Dagbjört ekki viljað hleypa honum inn í húsið, þá hafi Sævar brotið rúðuna og skipað Dagbjörtu síðan að koma með sér. Mætta kveðst vera búin að kanna verð á rúðu sem er kr. 1672.00 og vinnu við ísetningu 3 tímar á kr. 2.100. Skemmdir sem Sævar olli samtals kr. 7.972. Fari hún fram á að fá það bætt að fullu og að hann verði dæmdur lögum samkvæmt.”

Er vitnið Sigrún Reynisdóttir, sem býr á Arnarfelli, Arnarstapa, og rekur þar ferðaþjónustu, Snjófell sf., ásamt eiginmanni sínum, Tryggva Konráðssyni, kom fyrir dóm við aðalmeðferð greindi hún frá aðdraganda þess að ákærði og Dagbjört komu að Arnarstapa. Hún sagði að ákærði hefði hringt 4. eða 5. febrúar og viljað fá gistingu. Hann hefði sagst hafa slasast og væri búinn að vera í hjólastól í tvo mánuði og þyrfti að æfa sig eftir það. Hann hefði lent í slysi á Bessa, eitthvað brákast í baki. Hann hefði sagst vilja fá gistingu í tvo mánuði. Hún kvaðst ekki hafa samþykkt þetta strax, hefði viljað ráðfæra sig við eiginmann sinn, Tryggva Konráðsson. Þau rækju saman ferðaþjónustu. Hún hefði svo haft samband við ákærða daginn eftir og sagt að þetta væri í lagi.

Ákærði hefði hringt aftur á föstudegi, 9. febrúar, og sagst vera að koma. Hann hefði beðið sig að sækja ,,þau” [ákærða og Dagbjörtu] í rútuna. Hún kvaðst þá hafa spurt: ,,Nú kemurðu ekki á bíl, það er ekki gott að vera bíllaus?” ,,Ég má ekki keyra bílinn minn,”hefði hann þá svarað, ,,ég læt bara koma með hann seinna.” Hann hefði líka sagt sér að þau ættu íbúð á Ísafirði og hefðu leigt hana einhvern tíma. Hún kvaðst hafa sótt þau á föstudagskvöld í rútuna og komið þeim fyrir uppi á Felli, í einu herbergi í starfsmannahúsi.

Vitnið sagði að hún hefði lánað þeim í þrjár vikur fyrir mat og tóbaki, því að þau hefðu ekki haft neina peninga. Hann hefði viljað fá líka vín, en hún hefði ekki viljað láta hann fá það nema með staðgreiðslu.

Fimmtudaginn 1. mars kvaðst vitnið Sigrún hafa ekið þeim til Ólafsvíkur. Þau hefðu þurft að komast í banka til að taka út peninga til að greiða gistingu og það sem þau hefðu tekið út í mat. Í  Ólafsvík hefði hún skilið þau eftir, þau hefðu verið að tala um að gista jafnvel þar. Hún hefði svo hitt þau aftur þar síðar um daginn. Þá hefðu lokið sínum erindum, nema hann hefði átt eftir að fara í apótek. Hún hefði ekið þeim þangað og síðan heim á Arnarstapa. Ákærði hefði talað við sig fyrri hluta leiðar frá Ólafsvík að Arnarstapa, fyrir Jökul, en síðan ekki. Þegar á Arnarstapa hefði verið komið hefði hann verið orðinn svo þvoglumæltu að hún hefði ekki skilið hann. Hún kvaðst þó ekki hafa tekið eftir að hann drykki vín á leiðinni. Hann hefði þá greitt matarreikning og gistingu til 9. mars. Síðan hefðu þau farið að Felli.

Föstudaginn 2. mars hefði Dagbjört síðan komi til sín rétt um hádegið. Þá um morguninn hefðu þau hringt í sig og beðið sig að aka sér í rútuna, því að þau ætluðu að fara. Vitnið sagði að Dagbjört hefði verið hágrátandi þegar hún kom niður eftir til sín. Hún hefði verið hrædd og titrandi og greint frá því að ákærði hefði barið hana kvöldið áður. Vitnið kvaðst hafa sagt henni að rétt væri að hringja á lögreglu, og það hefði Dagbjört viljað. Ákærði hefði síðan komið á eftir Dagbjörtu niður eftir. Vitnið sagðist hafa verið hrædd við hann, ein heima með tveggja ára barn. Hún hefði því ekki hleypt honum inn. Ákærði hefði verið dauðadrukkinn. Ákærði hefði þó náð að tala við Dagbjörtu gegnum eldhúsglugga. Hefði sagt henni að koma og verið svo orðljótur að ekki væri eftir hafandi. Þá hefði hún, vitnið, hringt í lögreglu.

Þegar lögreglan hefði komið hefði hún komið til sín. Þá hefði Dagbjört sagt frá því að allt væri í rúst uppi á Felli. Vitnið kvaðst þá hafa farið með lögreglu þangað upp eftir. Þar hefði verið sóðalegt. Ákærði hefði verið búinn að brjóta ljósakrónu og rimla í rúmi og rífa niður sturtuhengi. Dagbjört hefði sagt sér að ákærði hefði hvolft yfir sig rúminu. Lögreglan hefði skráð skemmdirnar.

Vitnið kannaðist ekki við það sem ákærði hefur sagt að ákærða og henni hefði talast svo til að það sem hann hefði greitt umfram gistingu gengi upp í kostnað við skemmdir. Hún kvaðst hafa greitt Dagbjörtu til baka að sínum hluta það sem ákærði hafði greitt fram í tímann, 5.000 krónur. Það hefðu verið 9.000 krónur sem greiddar hefðu verið fyrirfram. Ákærði hefði greitt 30.000 krónur fyrir tímabilið frá 9. febrúar til 9. mars.

Lögreglan í Ólafsvík hefði farið með ákærða til Ólafsvíkur, en síðan hefðu lögreglumenn úr Stykkishólmi komið og sótt Dagbjörtu.  Dagbjört hefði síðan fengið að vera næstu nótt, og vitnið hefði ætlað að aka henni á rútuna daginn eftir. Kl. 8 um morguninn, þegar vitnið kom upp á Fell, hefði Dagbjört verið farin. Þá hefði verið búið að brjóta rúðu í glugga. 

Varðandi bótakröfu Snjófells sf. sagði vitnið Sigrún, að 10.000 krónurnar sem krafist væri vegna skemmda á rúmi, ljósakúpli og sturtuhengi, væri áætluð tala.

Vitnið Sigrún staðfesti tvær skýrslur sem hún gaf fyrir lögreglu 2. mars og 21. mars 2001.

Vitnið Bylgja Hrönn Baldursdóttir lögreglumaður í Stykkishólmi kvaðst við aðalmeðferð kannast við Dagbjörtu Sigríði Gunnarsdóttur. Hún hefði verið í Grundarfirði ásamt Helga Gunnarssyni lögreglumanni þegar þau hefðu verið kvödd til að fara út á Arnarstapa að ná í Dagbjörtu og flytja hana til læknis í Ólafsvík. Dagbjört hefði dvalist hjá Sigrúnu á Stapa. Hún kvaðst hafa verið viðstödd læknisskoðunina. Svo hefði verið farið með Dagbjörtu á lögreglustöðina þar sem tekin var af henni framburðarskýrsla.

Vitnið Bylgja Hrönn var spurð um ástand Dagbjartar. Vitnið sagði að hún hefði verið viðræðugóð, en hún væri þroskaheft. Hún hefði skolfið mikið. Hún hefði kvartað undan því í lögreglubílnum að hún fyndi til í fæti. Hún hefði sagt lögreglumönnunum frá því að ákærði hefði sparkað í hana; hún hefði verið að biðja hann um að hætta að drekka.

Vitnið Helgi Gunnarsson lögreglumaður í Stykkishólmi kannaðist við að hafa verið kvaddur á vettvang ásamt Bylgju Hrönn út á Arnarstapa að sækja Dagbjörtu og flytja hana til Ólafsvíkur, svo sem fram kemur hér að framan. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa kannað skemmdir á Felli á Arnastapa. Hann kvaðst hafa tekið skýrslur af ákærða og Dagbjörtu. Vitnið sagði að Dagbjört hefði sagt þeim lögreglumönnum að ákærði hefði sparkað í sig.

Vitnið Lárus Ragnar Einarsson lögreglumaður í Ólafsvík kvaðst við aðalmeðferð hafa farið að Arnarstapa 2. mars. sl., þangað sem hefur starfsaðstöðu Sigrún, sem leigir út Fell. Þar hefði verið í eldhúsi ,,umrædd kona sem bjó á Felli”. Hún hefði tilkynnt þeim lögreglumönnum um þegar þeir komu, að hún væri þroskaheft og drykki ekki áfengi. Henni hefði liðið illa, hefði skolfið mjög mikið. Hún hefði tilkynnt að Sævar hefði lamið sig og farið illa með sig, kastað á sig rúmi. Í framhaldi af þessu hefði verið haft samband við Inga Tryggvason lögmann konunni til aðstoðar. Síðan hefðu lögreglumenn ásamt Sigrúnu farið upp á Fell. Þar hefði ákærði setið á stól, sennilega dauður víndauða. Lögreglumenn hefðu vakið hann og honum tilkynnt um handtöku og hringt í lögmann ákærða, Hilmar Ingimundarson.

Vitnið sagði að rúm hefði verið skemmt á Felli. Búið hefði verið að rífa niður hengi og kúpull í herbergi hefði verið brotinn. Dagbjört hefði sagt að ákærði hefði lamið í hann.

Ákærði hefði síðan verið færður í fangaklefa í Ólafsvík og látinn sofa úr sér nægilega til þess að unnt væri að taka af honum framburðarskýrslu. Eftir hans hefði ákærða verið boðið að honum yrði ekið til Reykjavíkur, sem hann hefði ekki þegið. hann hefði sagst ætla að gista á Gistiheimili Ólafsvíkur. Honum hefði þá verið sleppt. Um morguninn næsta hefði verið hringt og tilkynnt um bílþjófnað. Hringt hefði verið frá Felli og tilkynnt að Dagbjört væri horfin þaðan og rúða brotin. Þá hefði vitnið hringt í Hvalfjarðargöng, og stuttu síðan hefði ákærði verið handtekinn af lögreglunni í Reykjavík. Vitnið staðfesti tvær frumskýrslur sem hann skráði, dags. 2 mars og 3. mars 2001.

Vitnið Reimar Hafsteinn Kjartansson lögreglumaður í Ólafsvík kvaðst við aðalmeðferð hafa farið í útkall að Arnarstapa föstudaginn 2. mars sl. ásamt Lárusi Ragnari Einarssyni. Vitnið sagði að hringt hefði verið í lögregluna og tilkynnt að Sævar hefði ráðist á Dagbjörtu og hann væri með einhver ölvunarólæti. Þeir lögreglumenn hefðu fyrst farið þangað sem þau búa, sem þarna eru með Snjófell og gistingu. Þar hefðu þeir lögreglumenn hitt fyrir Sigrúnu og Dagbjörtu. Dagbjört hefði verið í miklu uppnámi, grátandi. Hún hefði sagt þeim að Sævar hefði sparkað í sig og hent yfir sig rúmi. Hún hefði líka sagt þeim að hún væri þroskaheft, sem þeir hefðu reyndar séð. Þeir hefðu síðan farið upp á Fell með húsráðanda. Þar hefði ákærði verið öldauður á fremra gangi. Þeir hefðu vakið hann. Allt hefði verið á tjá og tundri í herberginu sem hann hafði. Ljóskúpull hefði verið brotinn og rimlar í rúmi. Hann kannaðist líka við að sturtuhengi hefði veri rifið niður.

Lögreglan tók skýrslu af ákærða Sævari á lögreglustöðinni í Ólafsvík hinn 2. mars 2001 kl. 21:08 í framhaldi af dvöl hans í fangageymslu. Kvaðst hann hafa tekið herbergi á leigu á Arnarstapa og greitt leiguna að mestu en Dagbjört hefði einnig lagt sitt fram. Í gær hefði hann fengið sér í glas og í morgun hefði honum og Dagbjörtu orðið sundurorða. Hefði hann reiðst henni og sparkað einu sinni í hana, man hann ekki hvar sparkið lenti. Hann neitaði því alfarið að að hafa stolið kr. 6.000.00 úr veski hennar. Dagbjört hefði yfirgefið húsið þar sem þau voru og hefði hann síðan farið á eftir henni til að biðjast fyrirgefningar á gjörðum sínum. Hann kvaðst hafa hent rúminu til og vel gæti verið að það hafi skemmst við það. Hann hefði brotið ljósakúpulinn, en hengið fyrir sturtunni hafi Dagbjört rifið niður óviljandi þar sem hún sé skjálfhent og hafi gripið í hengið.

Varðandi framkomna bótakröfu frá Sigrúnu kvaðst ákærði vera búinn að borga fyrir gistingu fram til 9 þessa mánaðar hefði Sigrún, kærandi skemmdanna, tjáð honum að það mundi ganga upp í skemmdirnar sem hann olli. Samkvæmt því hafnaði ákærði því alfarið að greiða fyrir skemmdirnar, þar sem hann væri búinn að greiða fyrir gistingu til 9. mars eins og áður getur.

Lögregla hafði hafi samband við Árna Höskuldsson gullsmið í Reykjavik vegna hálsmens sem Sævar var með í vasa sínum. Hálsmenið, sem er gullhúðað, var í öskju merkt ofangreindum gullsmið. Árni sagði að brotinn hefði verið gluggi í verslun hans þann 2 janúar sl. Einhverju hefði verið stolið þá en hann vissi ekki hverju.

Ákærði kvaðst hafa gist á Hótel Esju annaðhvort 2. eða 3. febrúar og hefði hann keypt hálsmenið þar og greitt fyrir það kr. 8.000 eða rétt rúmlega það með peningum.

Er ákærði var fyrir dómi inntur eftir afstöðu sinni til þessa hluta ákærunnar var eftir honum bókað: “Ákærði segir að hann hafi aðeins sparkað lauslega eða danglað með fæti í Dagbjörtu Sigríði, annað sé rangt í þessum ákæruhluta um háttsemi hans gagnvart henni. Hann neitar öllum eignaspjöllum öðrum en þeim að hann hafi brotið ljósakúpul, en það hafi verið óviljaverk.”

Ákæra útgefin 23. mars 2001, II hluti. Nytjastuldur, eignaspjöll, þjófnaður og akstur án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini,.

Frumskýrsla lögreglu er tímasett laugardaginn 3. mars 2001 kl 6:06. Hana samdi Lárus Ragnar Einarsson lögreglumaður í Stykkishólmi. Í skýrslunni segir að hringt hafi kl. 6:06 Ian Wilkinson, tónlistarkennari, og tilkynnt að búið væri að stela bifreið hans ZP-695, sem væri Subaru Legacy, ljósgrá að lit. Hann hefði farið um kl. 24:00 á Bæjarbarinn og komið heim núna kl. 06:00 þá hefði bifreiðin verið horfin úr bifreiðarstæðinu. Hann hefði að líkindum gleymt lyklunum í kveikilás bifreiðarinnar. Lögregla hefði haft samband við Sigurð Elínbergsson á Hótel Höfða og spurt hvort Sævar Arnfjörð Hreiðarsson væri í gistingu hjá honum. Sigurður hefði sagt að þessi Sævar hefði komið í nótt um kl. 03:30 og beðið um gistingu en verið synjað gistingar því hann hefði verið peningalaus og ölvaður. Sævar hefði þá labbað yfir á Gistiheimili Ólafsvíkur. Í skýrslunni segir að kl. 07:50 hefði Guðrún [Mun eiga að vera Sigrún. Innskot dómara.] á Arnarstapa hringt og sagst hafa farið uppí Fell til að ná í Dagbjörtu til að fara með hana á rútuna. Búið hefði verið að brjóta rúðuna í stofunni og að Dagbjört horfin; að öllum líkindum hefði Sævar verið þarna að verki.

Lögreglunni í Reykjavík var gert viðvart og var Húnbogi Jónsson lögreglumaður þar sendur í fyrirsát. Samkvæmt skýrslu hans mætti hann bifreiðinni ZP-695 á móts við Þingvalla afleggjara, hóf eftirför og stöðvaði hana skömmu síðar á Vesturlandsvegi við Álafossveg og handtók ökumann, sem reyndist vera Sævar Arnfjörð Hreiðarsson, ákærði í máli þessu. Viðurkenndi hann að hafa stolið bifreiðinni og kom í ljós að hann hafði verið sviptur ökurétti þann l. 2.1999 í tvö ár.

Með Sævari í bifreiðinni hefði verið farþegi í framsæti, Dagbjört. Á lögreglustöðinni hefði verið rætt við hana um atburði morgunsins. Hún hefði lýst þeim svo, að hún hefði verið sofandi á Arnarstapa í morgun um klukkan 6 þegar Sævar hefði brotist inn í gistiheimilið til sín með því að brjóta rúðu í glugga. Sævar hefði sagt henni að koma með sér en hún neitað því í fyrstu. Hann hefði þá hótað að taka hana með sér með valdi og hún ekki þorað öðru þar en að hlýða þar sem hún væri hrædd við Sævar og hún farið með honum í bifreiðinni ZP-695 í Borgarnes þar sem Sævar hefði farið í hraðbanka með greiðslukort sem hann fann í bifreiðinni ásamt PIN númeri og að þar hefði hann tekið út af kortinu einhverjar þúsundir króna. Hann hefði síðan farið á bensínafgreiðslu og fyllt bílinn af bensíni fyrir þá peninga. Þegar Sævar hefði verið búinn að nota kortin þá hefði hann beyglað þau og sett í hanskahólf bifreiðarinnar. Sævar hefði sagt sér að hann hefði stolið annarri bifreið á Ólafsvík en ekið henni út af og því orðið að stela bifreiðinni ZP-695. Sævar hefði ekki keypt neitt annað áður en hann var stöðvaður af lögreglu við Mosfellsbæ.

Er lögreglan yfirheyrði Sævar sagðist hann viðurkenna að hafa stolið bifreiðinni ZP-695 á Ólafsvík en ekki vita hvaðan hann stal henni þar sem hann væri ekki kunnugur í bænum. Bifreiðina hefði verið ólæst og lyklar í kveikjulásnum. Hann hefði farið að Arnarstapa og sótt Dagbjörtu og vildi taka það skýrt fram að hún hefði ekki átt neinn þátt í þjófnaðinum á bifreiðinni.

Er hann var spurður út í hina bifreiðina sem hann átti að hafa stolið þá viðurkenndi hann að hafa, áður en hann stal bifreiðinni ZP-695, stolið annarri bilreið, en sagðist ekki vita skráningarnúmer hennar né hvaðan hann stal henni. Hann sagðist hafa ekið henni út af vegi einhvers staðar, en vissi ekki hvar. Er Sævar var spurður hvort hann hefði verið að misnota greiðslukort sem hefðu verið í bifreiðinni sagðist hann ekkert vita um einhver greiðslukort og að þeir peningar sem hann væri með væru örorkustyrkurinn hans.

Við leit í bifreiðinni ZP-695 fundust í hanskahólfi hennar greiðslukort Guðlaugs Mímis Brynjarssonar, kt. 190378-5949, svo og ökuskírteini Sigurðar Kristófers Sigþórssonar, kt.150573-4839. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Ólafsvík, þá var bifreiðinni LJ-291 stolið frá Skipholti 7 þar í bæ. Var hringt í Guðlaug Mímir Brynjarsson og hann látinn vita af tveim bankakortum sem tekin voru af Sævari. Sagðist hafa geymt kortin í úlpu sem hékk í þvottahúsinu og væru þau horfin. Hann hefði ekki hafa læst útidyrahurðinni og því hefði Sævar farið inn í þvottahús og stolið þar bankakotunum.

Hringt var í Sigurð K. Sigþórsson er sagði að bifreið sín LJ-291, SAAB 900 blá að lit árgerð 1990, væri horfin. Kl. 12:17 fann lögregla bifreiðina LJ-291 þar sem hún var hálf utan vegar á vegslóða að sunnanverðu bak við hús nr. 8 við Hjallabrekku. Voru kveikiláslyklar i kveikilásnum.

Kl. 17:50 Hringdi Gísli afgreiðslumaður á Vegamótum og skýrði frá því, Sævar hefði ræst hann út snemma í morgun til að fá bensín, þar sem hann kunni ekki á sjálfsalan. Hann kvað Sævar hafa tekið bensín fyrir kr. 1000 og greitt það með seðli. Gísli kvaðst hafa verið að átta sig á því núna hvaða fólk þetta var og hafi hann veitt því athygli að konan i bifreiðinni titrað og skalf mikið.

Mánudaginn 5. mars, kom Guðlaugur Mímir Brynjarsson á lögreglustöðina í Ólafsvik., með færsluskrá yfir reikning, 0190 2ó 001 276, sem Sævar náði að taka út, af hans kortum, svohljóðandi:

Tími: 07:46:30 dags: 03.03.01 Tegund: hraðbankafærslur Tilv: H091 03  Upphæð: 15.000,00  Ábyrgðarnr.: 020833 Gjaldk. nr. HB42 færslunúmer 0060

Tími: 07:56:55 dags 03.03.01 . Tegund : Hraðbankafærslur. Tilv: H091 03 Upph: 15.000,00 Ábyrgðarnr:022854 Gjaldk. nr. H842 Færslunr. 0074.

Lögregla tók skýrslu af téðum Guðlaugi Mími Brynjarssyni 3. mars kl. 13:40. Þar segir að hann sé kominn til að leggja fram kæru á hendur Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni, kt. 230954-5939, fyrir húsbrot og þjófnað á tveimur debetkortum. Hann skýrði svo frá að unnusta hans hefði vaknað í nótt og sagt honum að hún héldi að einhver væri inni í íbúðinni. Um kl. 04.00. hafi barn þeirra vaknað og kvaðst hann þá hafa farið um alla íbúðina en engan séð. Lögregla hefði síðan haft samband við sig um kl. 10.54 og tilkynnt sér að lögreglan í Reykjavík hefði fundið tvö debetkort, sem séu í hans eigu. Hann kvað debetkortin hafa verið geymd í jakkavasa, en jakkinn hefði verið verið geymdur í þvottahúsinu. Útidyrnar hafi verið ólæstar. Hann tók fram að hann óskaði eftir að fá kortin sín til baka og að sá sem tók þau verði dæmdur lögum samkvæmt. Sá sem tók kortin hefði tekið út kr. 30.000 af kortunum eða tvisvar sinnum 15.000.

Sigurður Kristófer Sigurþórsson, kt.150573-4839, gaf skýrslu hjá lögreglunni í Ólafsvík 3. mars 2001 og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna nytjastundar á bifreiðinni LJ-291. Hann  kvaðst hafa farið að sofa um kl. l:00 og hefði ekki vitað af þessu fyrr en lögreglan hringdi þá séð að bifreið hans LJ-291 var horfinn. Hún hefði átt að vera fyrir framan heimili hans. Lyklar hefðu verið í kveikilásnum þegar hann skildi við bifreiðina. Hann kvaðst þá ekki vita hvort bifreiðin hefði orðið fyrir skemmdum, en sagðist hafa farið á þann stað þar sem lögreglan fann bifreiðina, “grasbakkinn sem bifreiðin var á væri allur brunninn” og sig grunaði að hún hefði verið skilin eftir í gangi og orðið bensínlaus og þar af leiðandi “miklar líkur á að bensíndælan hafi skemmst” [sic]. Rafgeymir bifreiðarinnar hefði verið tómur og ekki vitað hvort hann hefði skemmst. Sigurður Kristófer kvað tengdamóður sína, Jónínu Kristjánsdóttur, sakna úlpu sem í bifreiðinni hefði verið. Hinn 21. sama mánaðar afhenti Sigurður Kristófer lögreglu skriflega bótakröfu þannig sundurliðaða:

 “1. Rafgeymir

kr.  9.200

 2. Tveir hjólbarðar að stærð 195x165x15

      pr. stykki kr. 13.177

 

kr. 26.354

     Samtals

kr. 35.554

Jafnframt er krafist hæstu lögleyfðra vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga á þá upphæð frá 3. mars 2001 til greiðsludags,” segir í hinu framlagða skjali, en ekki er þar neinn frekari rökstuðning að finna, hvorki um ástand rafgeymisins eftir endurhleðslu, né um það hvað komið hefði fyrir umrædda hjólbarða, varla hafa þeir báðir skemmst af hita úr því að ekki kviknaði í bifreiðinni. Ekki er framlögð nein lögregluskýrsla um afhendingu Sigurðar Kristins á bótakröfuskjalinu, sem bendir til þess að lögregla hafi ekki bókað neinar skýringar hans á kröfunni. Ekki var Sigurður Kristinn kallaður fyrir dóm til vitnisburðar.

Ian Wilkinson, kt. 150253-2179, gaf skýrslu hjá lögreglunni í Ólafsvík 3. mars 2001 og lagði fram kæru á hendur Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni, kt. 230954-5939, vegna nytjastundar á bifreið sinni ZP-695 af gerðinni Subaru. Hann kvaðst hafa komið heim til sín um kl. 6:00. í morgun og hefði hann þá tekið eftir því að bifreið hans ZP-695 var horfinn. Hún hefði verið fyrir framan heimili hans og lyklar í kveikilásnum þegar hann skildi við bifreiðina. Í bifreiðinni hefði verið geislaspilari og leðurhanskar sem honum væri mjög annt um að fá til baka. Hann gerði þá kröfu að sá sem tók bifreið hans greiddi kostnað við að ná í bifreiðina þar með talið kílómetragjald frá Ólafsvík til Reykjavíkur og til baka aftur auk þess sem hann yrði dæmdur lögum samkvæmt.

Lögreglan í Reykjavík tók skýrslu af ákærða Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni 3. mars 2001 kl. 13:22. Honum var kynnt að hann væri grunaður um stuld á bifreiðunum ZP-695 og LJ-291, akstur án tilskilinna ökuréttinda, skemmdarverk að Felli Arnarstapa á Snæfellsnesi, þjófnað þ.e. að hafa tekið út peninga á greiðslukort í Borgarnesi og ólögmæta frelsissviptingu á Dagbjörtu Sigríði Gunnarsdóttur með því að hafa numið hana nauðuga á brott með þér frá Felli á Arnarstapa. Svör ákærða eru bókuð í beinni ræðu þannig: "Ég tók þessa bíla þarna í Ólafsvík. Ég veit ekki hvað mér gekk til. Ég hef aldrei stolið bíl fyrr. Ég tók eftir því að lykillinn var í svissinum á báðum bílunum og þeir voru báðir opnir svo ég tók þá bara. Þetta bara skeði svona, ég hef enga skýringu á því í raun og veru. Ég skil ekkert í mönnum að skilja svona við bílana sína. Fyrri bíllinn festist í Ólafsvík og ég náði honum ekki upp. Ég var að snúa við til að fara að skila honum til baka þegar ég festi hann. Ég drap bara á honum og skildi hann eftir. Ég rölti í framhaldi af þessu á eitthvert gistiheimili þarna og ætlaði að gista þar eina nótt. Ég labbaði fram hjá öðrum bíl þarna, sem ég var síðan tekinn á, og einhverra hluta vegna freistaði það mín að taka hann þar sem ég sá að hann var opinn og lyklarnir í honum. Ég var ekki ölvaður þegar þarna var. Það mældist heldur ekkert í mér. Ég drakk tvo bjóra í gær að mig minnir og það var allt. Ég mátti taka bílpróf núna 1. febrúar en var ekki búinn að hafa mig í það. Ég hafði misst ökuréttindin í tvö ár út af því að ég var tekinn fullur á bíl. Ég viðurkenni það að ég braut rúðu þarna á Felli á Snæfellsnesi en skemmdi ekkert meira þar. Ég bankaði á rúðuna til að vekja Dagbjörtu en þá sprakk ytri rúðan. Dagbjört er sambýliskona mín. Við höfum verið sambýlisfólk í um fimm mánuði. Hún vildi koma með mér og ég neyddi hana ekki til að koma með mér. Fólkið þarna sem hún gisti hjá var búið að segja að hún ætti að fara í dag svo að hún ákvað að koma með mér [...] Já, ég kannast við að hafa tekið út kr. 15.000,- út á annað kortið. Ég tók ekki meira en það og notaði ekki hitt kortið. Ég fór inn í eitthvað hús þarna í Ólafsvík og fann þessi tvö greiðslukort í vasa á úlpu. Ég veit ekkert hvaða hús þetta er eða hver á heima þar. Ég tók ekkert annað í þessu húsi. Útidyrnar voru ólæstar þegar ég kom þarna að húsinu og ég fór inn í það. Það var eiginlega enginn tilgangur í því hjá mér. Ég fór þarna inn í ganginn og þar tók ég þessi kort úr úlpuvasa. Ég tók þessar 15.000,- út í hraðbanka í Borgarnesi. Ég fann miða með númerinu á kortinu í þessum kortavasa, sem var með kortunum. Ég held að ég hafi hent miðanum eftir að ég tók út af kortinu." Er ákærða var sýnt ökuskírteini Sigurðar Kristófers Sigþórssonar sem var í hanskahólfi bifreiðarinnar sem hann var handtekinn á og hann spurður hvaðan þetta ökuskírteini væri  komið svaraði hann: "Ég held að þetta ökuskírteini hafi verið í hanskahólfinu á fyrri bifreiðinni sem ég tók. Ég bara man ekki hvaðan þetta skírteini kemur."

Fyrir dómi kvaðst ákærði aðeins hafa sparkað lauslega eða danglað með fæti í Dagbjörtu Sigríði. Hann játaði afdráttarlaust nytjastuld á umræddum bifreiðum og akstur án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini sitt að loknum sviptingartíma. Hann sagði það vera rétt að hann hefði brotið rúðuna. Hann hefði verið með þetta húsnæði á leigu og þar sem lyklar að því hefðu verið teknir af honum, hefði hann orðið að brjóta rúðuna til að komast inn til að ná þar í hluti sem hann átti. Ákærði neitaði ekki afdráttarlaust að hafa tekið ökuskírteinið ófrjálsri hendi. Ákærði játaði að hafa stolið debetkortunum tveimur og viðurkenndi að hafa tekið út á annað kortið 15.000 krónur, en viðurkenndi ekki hærri úttekt. Hann mótmælti bótakröfum.

Niðurstöður

Um fyrri ákæru, I. hluta. Heimagisting Maríu. Gripdeild eignaspjöll og fjársvik. Bótakrafa kr. 40.130.

Þegar ákærði var handtekinn að morgni hins 17. apríl 1999 á Hótel Stykkishólmi fundust í vörslum hans munir þeir sem tilgreindir eru í þessum ákærulið aðrir en hljómsnældur. Er lögregla yfirheyrði ákærða kl. 16:03 sama dag þá kvaðst hann eiga viskíflöskuna og  kalhuaflöskuna og hélt því fram að María hefði sagt að hann mætti eiga púrtvínsflöskuna. Aðra umrædda muni kvaðst hann ekki eiga, en þeir voru samkvæmt munaskrá lyfjaglas merkt Maríu Bæringsdóttur, handspegill, andlitsfarði og penni. Ákærði verður sakfelldur fyrir að hafa tekið með sér og slegið eign sinni á framangreint áfengi og alla framangreinda muni nema hljómsnældurnar, þær er ekki að finna á munaskrá lögreglu og telst ósannað að ákærði hafi stolið þeim. Brot ákærða varðar við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem talið er í ákæru.

Lögregla lagði hald á framangreint áfengi og muni, tilgreint í munaskrá. Samkvæmt framlagðri skýrslu lögreglu var bótakrefjanda Maríu Bæringsdóttur afhent allt það sem tilgreint er í umræddri munaskrá síðdegis sama dag, 17. apríl 1999 kl. 17:30, og ekki er fram komið að það hafi orðið fyrir neinum skemmdum. Ákærði verður því sýknaður af þessum bótakröfum Maríu Bæringsdóttur: Sandemann púrtvín kr. 1.690, Kahlua líkjör kr. 1.590, Matheus rósavín kr. 450, Bols líkjör kr. 1.600, tvær hljómsnældur kr. 2.000.

Lögregluþjónninn Bylgja Hrönn Baldursdóttir bar fyrir dómi að allt hefði “verið á hvolfi” í herberginu sem ákærði var í. Að öðru leyti nýtur ekki við neinna upplýsinga frá lögreglumönnum þeim er á vettvang fóru og vettvangsskýrslu gerðu um eignspjöll þau sem ákærða eru gefin að sök, engin skoðun eða mat fór fram á munum þeim sem ákærða er gefið að sök að hafa skemmt eða eyðilagt. Ákærði verður því sýknaður af ákæru fyrir eignaspjöll samkvæmt þessum ákærulið.

Samkvæmt framburði Oddrúnar Maríu Bæringsdóttur ræddi hún ekkert við ákærða um tilhögun greiðslu fyrir gistinguna og kvaðst ekki vera vön að ræða það við gesti sína fyrr en þeir færu. María vísaði ákærða út úr húsinu kl.  7:00 og hringdi á lögreglu kl 7:05 umræddan morgun. Svo er að sjá að ákærði hafi þá forðað sér í skyndi á Hótel Stykkishólm. Ekki er að sjá að Oddrún María hafi krafið ákærða um greiðslu þegar hún rak hann á dyr eða gert neinar tilraunir til þess að innheimta hótelreikninginn með venjulegum hætti. Af þessum sökum og þar sem ekkert er fram komið því til sönnunar að það hafi verið ásetningur ákærða að fremja fjársvik þá verður hann sýknaður af þeim ákærulið.

Varðandi þá liði bótakröfu er ekki varða hótelkostnað og haldlögð verðmæti, þá hefur ákærði viðurkennt að “það var einhver umgjörð sem þarna bilaði.” Krafa vegna gleraugna kr. 18.000 verður því tekin til greina. Yfirgnæfandi líkur eru á að ákærði hafi einnig skemmt óviljandi kassettutæki og verður sá bótaliður tekinn til greina. Ákærði hefur ekki sýnt fram á að hann hafi greitt vegna gistingar kr. 2.800 og verður sá liður tekinn til greina, en ekki verður séð að fjárhæðin geti talist ósanngjörn.  Með vísan til þess sem að framan er sagt um sönnunarfærslu vegna refsikröfu vegna eignaspjalla verður ákærði sýknaður af bótakröfu vegna eyðilagðs blóms kr. 1.500, brotins platta kr. 2.500 og tveggja hljómsnældna kr. 2.000.

 Samkvæmt þessu verður bótakrafa Maríu Bæringsdóttur tekin til greina með kr. 2.800 + 18.000 + 8.000 = kr. 28.800.

Um fyrri ákæru, II hluta. Hótel Framnes. Fjársvik. Bótakrafa kr. 17.700.

Við aðalmeðferð bar vitnið Eiður Örn Eiðsson hótelstjóri að ákærði hefði við komuna nefnt það að hann ætti von á að fá senda peninga, en ekki talað um að hann væri alveg peningalaus, og spurt hvort það væri í lagi að hann borgaði þegar hann færi. Þetta kveðst hótelstjórinn hafa samþykkt enda væri þetta algengt með sjómenn. 

Vitnið Eiður Örn bar að ákærði hafi hringt í Hótel Framnes 30. maí 1999 og pantað herbergi undir nafninu Arnar Ágústsson. Einnig bar hann að honum hefði ekki orðið ljóst hið rétt nafn ákærða, fyrr en lögreglan kom  á hótelið og sagði honum það. Vitnið Helgi Gunnarsson, lögreglumaður, sem fór á vettvang, kvaðst hafa þekkt ákærða, hefði áður haft af honum afskipti. Á framlögðu ljósriti af reikningi þeim sem Hótel Framnes gerði á hendur ákærða, er skráð nafnið Arnar Ágústsson sem greiðanda. Ljósrit af gestabók hótelsins fyrir 31. maí 1999 hefur og verið lagt fram, og hefur þar verið skráð nafnið Arnar Ágústsson. Upplýst er að ákærði hefur í annað skipti notað þetta nafn í skiptum við hótel, sbr. það sem fyrr er getið um dóm Héraðsdóms Suðurlands frá 3. september 1999. Sannað er að ákærði skráði sig inn á Hótel Framnes undir fölsku nafni, og undir því nafni þá hann gistingu og veitingar í mat og drykk. Hann neitaði síðan alfarið að greiða nokkuð af því sem hann hafði þegið. Hann hafði þannig með blekkingum verðmæti af hótelinu. Hann er því sannur að fjársvikum. Skiptir hér ekki máli, þótt hið rétt nafn ákærða sannaðist, þegar lögregla kom á vettvang, enda var brot þá fullframið. Brot ákærða varðar við 248. gr. almennra hegningarlaga.

Fyrir liggur að ákærði hefur ekki greitt reikning hótelsins. Bótaliður vegna gistingar er kr. 3.500. Ákærði tók ekki tilboði um lækkun á þessum lið, og er því bótakrefjandi ekki bundinn við það tilboð sitt. Fjárhæðin er hófleg, og með öllu fjarstætt að ákærði eigi rétt á afslætti þótt enn væri væri að vinna tíðkanlegum  endurbótum og viðhaldi, en þetta var rétt fyrir upphaf ferðamannatíma. Bótaliður vegna hádegisverðar kr. 1.250 og kvöldverðar kr. 1.250 er hóflegur og hefur ekki verið mótmælt sérstaklega. Bótaliður vegna drykkjarvöru sem ákærði hefur þegið er ekki ósennilegur:  8 bjórar á kr. 450 hver og 5 á 600 hver eða alls 13 bjórar, og 9 lögskammtar, sjússar, af sterku áfengi á kr. 300 hver. Það hefur varla vafist fyrir ákærða að drekka þetta magn frá því hann kom á hótelið fyrir hádegi þann 31 maí og fram á aðfaranótt 1. júní. Bótaliður vegna tóbaks 2 pakkar af sígarettum á kr 370 hvor og  pakki af smávindlum á kr. 370 og 2 stakir smávindlar á kr. 50 hvor sýnist ekki ósennilegur, en ákærði kvaðst nota reyktóbak, aðspurður við aðalmeðferð.

Samkvæmt þessu verður fallist á bótakröfu Hótel Framess, kr. 17.700.

Um síðari ákæru, I hluta. Líkamsárás á sambýliskonu og eignaspjöll. Bótakrafa Snjófells sf. vegna skemmda á rúmi, sturtuhengi og  ljósakúpli kr.   10.000.

Ákærði hefur játað fyrir dómi að hafa sparkað lauslega eða danglað með fæti í Dagbjörtu Sigríði. Í framlögðu áverkavottorði Zoran Triruovic læknis við heilsugæslustöðina í Ólafsvík dagsettu 2. mars 2001 kemur fram að ekki voru aðrir ytri áverkar sjáanlegir á Dagbjörtu Sigríði en greinilegt mar og yfirborðsáverkar á húð á hægri fótlegg. Tekið er fram að sjúklingur sé ekki brotin og ekki er getið um neina innri áverka. Ákærði verður sakfelldur fyrir minni háttar líkamsárás.

Ósannað telst að ákærði hafi skemmt gleraugu Dagbjartar Sigríðar.

Ákærði hefur fyrir dómi játað að hafa brotið ljósakúpul en það hafi verið óviljaverk. Hann hefur eindregið mótmælt því að hafa unnið skemmdarverk á sturtuhengi, það hafi reynst laust og dottið niður, það hafi hvorki skemmst af sínum völdum né að það hafi verið ætlun sín að skemma það. Þegar þau Dagbjört Sigríður komu hafi þrír rimlar verið brotnir í  rúmi því sem þeim var vísað til gistingar í.

Þrátt fyrir framburði vitnanna Sigrúnar Reynisdóttur og Dagbjartar Sigríðar Gunnarsdóttur og lögreglumannanna Lárusar Ragnars Einarssonar og Reimars Hafsteins Kjartanssonar, sem  gengu öll út frá því að ákærði hefði brotið rimla í rúmi og rifið niður sturtuhengi þykir ákæruvaldið ekki hafa hnekkt síðastgreindum skýringum ákærða og verður hann sýknaður af refsikröfu vegna eignaspjalla samkvæmt þessum ákærulið.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa brotið ljósakúpul. Sigrún Reynisdóttir hótelstýra, sem bar fram bótakröfu Snjófells hf., kr. 10.000, fyrir framangreind eignaspjöll, kvað fjárhæðina áætlaða og hefur ekki sundurliðað hana.

 Svo sem áður er greint bar hótelstýran fyrir dómi að ákærði hefði greitt matarreikning og gistingu til 9. mars. Ákærði hefði greitt 30.000 krónur fyrir tímabilið frá 9. febrúar til 9. mars. Það hefðu verið 9.000 krónur sem greiddar hefðu verið fyrirfram. Vitnið kannaðist ekki við það sem ákærði hefur sagt að þeim hefði talast svo til að það sem hann hefði greitt umfram gistingu gengi upp í kostnað við skemmdir. Hún kvaðst hafa greitt Dagbjörtu til baka að sínum hluta það sem ákærði hafði greitt fram í tímann, 5.000 krónur.

Samkvæmt þessu virðast hafa staðið eftir kr. 4.000 af því sem ákærði greiddi fram í tímann.

Bótakrafa Snjófells hf., kr. 10.000, fyrir framangreind eignaspjöll þykir nægilega sönnuð, en eftir atvikum þykir rétt að heimila ákærða að skuldajafna fyrirframgreiðslu kr. 4.000 við bótakröfuna. Tildæmdar bætur til Snjófells hf. samkvæmt þessum kröfulið verða þá kr. 6.000.

Um síðari ákæru, II hluta. Nytjastuldur, akstur án ökuréttinda, eignaspjöll og þjófnaður. Bótakrafa Snjófells sf. vegna rúðubrots kr. 7.972.  Bótakrafa Sigurður K. Sigþórsson vegna skemmda á bifreiðinni LJ-229 kr. 35.554. Ákæruvaldið ber ekki fram bótakröfu vegna þjófnaðar frá Guðlaugi Mími Brynjarssyni á kr. 30.000, þótt niðurlag skýrslu hans fyrir lögreglu hinn 3. mars 2000 megi skilja svo að hann sé að krefjast bóta, ella að honum hafi ekki verið leiðbeint.

Ákærði hefur fyrir dómi afdráttarlaust játað að hafa tekið bifreiðarnar LJ-291 og ZP-695 heimildarlaust og ekið þeim án ökuréttinda; einnig að hafa brotið rúðu á Felli til þess að komast inn til þess að ná þar í hluti sem hann átti. Loks að hafa stolið tveimur debetkortum og tekið 15.000 krónur út á annað þeirra. Ákærði neitar því ekki að hann hafi tekið  ökuskírteini Sigurðar Kristófers Sigþórssonar ófrjálsri hendi. Játningar ákærða eru studdar lögreglu- og vitnaskýrslum og öðrum málsgögnum að þessum ákæruefnum lútandi. Með framlagðri bankaútskrift er sannað að ákærði tók einnig kr. 30.000 út af dedetkorti. Ákærði verður sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið. Það athugast að ákærði var síðast sviptur ökurétti í 2 ár frá 15. janúar 1999, hann verður því ekki sakfelldur fyrir sviptingarakstur, heldur fyrir akstur án þess að hafa endurnýjað ökuskírteini, sbr. viðauka I með rgj. nr. 280/1998 með síðari breytingum. Brot ákærða samkvæmt þessum hluta ákæru er þar rétt færð undir refsiákvæði.

Í ákæru er ekki gerð bótakrafa vegna heimildarlausar úttektar ákærða á kr. 30.000 af bankareikningi Guðlaugs Mímis Brynjarssonar.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa brotið rúðu á Felli. Sá hluti bótakröfu Snjófells hf. sem er vegna rúðunnar,  kr. 1.672 vegna efnis og kr. 6.300 vegna vinnu, samtals kr. 7.972, verður tildæmdur.

Engin gögn eru lögð fram til stuðnings bótakröfu Sigurðar K. Sigþórssonar sem er kr. 9.200 vegna rafgeymis og kr. 26.354 vegna tveggja hjólbarða, 195x165x15, kr. 13.177 pr. stk. Þessi sundurliðun er ekki trúverðug. Það er ólíklegt að rafgeymirinn hafi orðið ónýtur af því að tæmast yfir nótt, þótt ekki hafi hann batnað. Krafan vegna dekkjanna er ekki skiljanleg þegar ekki er við annað að styðjast en framlögð gögn og vitnisburði í málinu. En með tilliti til þess að yfirgnæfandi líkur eru að eitthvert slit og smávægilegar skemmdir hafi orðið á bílnum, og svo er að sjá af skýrslum að tæmst hafi af honum bensínið, þá þykir hæfilegt að taka bótakröfu Sigurðar K. Sigþórssonar til greina með kr. 10.000, en vísa henni að öðru leyti frá dómi.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða dags. 23. mars 2001 hefur hann frá árinu 1973 hlotið 36 refsidóma, þar af 31 fyrir hegningarlagabrot, aðallega auðgunar- og skjalafalsbrot. Hann hefur aðeins einu sinni hlotið dóm fyrir líkamsárás, hinn 1. ágúst 1990 fyrir brot á 1. mgr. 217. gr., og hefur sá dómur ekki þýðingu við refsimat í máli þessu. Hann hefur hlotið samtals 18 ára og 10 mánaða fangelsi með þessum dómum. 

Frá því ákærði framdi í apríl og maí 1999 brot þau, sem hann er nú sakfelldur fyrir samkvæmt fyrri ákærunni, hefur hann hlotið þrjá refsidóma.

Hinn 15. september 1999 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 248. gr. almennra hegningarlaga, hann var fundinn sekur um að hafa 7. til 9. apríl 1999 tekið á leigu herbergi á Hótel Selfossi og keypt vörur og veitingar fyrir alls kr. 42.698, án þess að hafa nokkra fyrirsjáanlega möguleika á að geta greitt fyrir þjónustuna og er hann var krafinn um greiðslu skuldarinnar hinn 9. apríl gat hann ekki greitt hana né sett tryggingu fyrir greiðslu og var þá vísað af hótelinu.

Hinn 5. nóvember 1999 var ákærða dæmdur 30 daga hegningarauki við síðastgreindan dóm fyrir sviptingarakstur, brot á 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.

Síðast var ákærði sakfelldur með dómi Héraðsdóms Suðurlands 15.desember 1999 dæmdur hegningarauki við þessa tvo síðast nefndu dóma fyrir brot á 248. gr almennra hegningarlaga, en ekki gerð sérstök refsing. Hann var fundinn sekur um að hafa tekið á leigu herbergi á Hótel Bláfelli Breiðdalsvík og látið færa sér vörur og veitingar og þegið þjónustu sem hótelgestur fyrir alls kr. 12.310 dagana  9. og 10. júlí 1999.

Af þessum sökum verður ákærða nú dæmdur hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga vegna sakfellingar samkvæmt fyrri ákærunni, og við ákvörðum refsingar samkvæmt báðum ákærunum verður horft til fyrirmæla 77. gr. sömu laga.

Samkvæmt öllu þessu framansögðu er ákærði þannig sakfelldur fyrir brot gegn  1. mgr. 217. gr., 244. gr, 245. gr., 1. mgr 257. gr., 248. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 20, 1956 og samkvæmt 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr umferðarlaga nr. 50, 1987 , sbr. 3. gr. laga nr. 57, 1997. 

Ákærði á sér engar málsbætur. Hann hefur lagt í vana sinn að fremja afbrot, og horfir það honum til refsiþyngingar, sbr. 72. gr. almennra hegningarlaga.

Dómara þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi.

Ákærði er dæmdur til að greiða bætur sem hér segir:

Maríu Bæringsdóttur kr. 28.800.

Hótel Framnesi kr. 17.700.

Snjófelli sf. kr. 13.972.

Sigurði K. Sigþórssyni kr.10.000 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá frá tjónsdegi til greiðsludags.

Að öðru leyti er bótakröfum vísað frá dómi.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnalaun og réttargæsluþóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., sem skulu vera kr. 150.000 auk virðisaukaskatts.

Daði Jóhannesson fulltrúi sýslumanns Snæfellinga sótti málið.

Finnur Torfi Hjörleifsson kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Sævar Arnfjörð Hreiðarsson, sæti 6 mánaða fangelsi.

Ákærði greiði bætur sem hér segir: Maríu Bæringsdóttur kr. 28.800, Hótel Framnesi kr. 17.700, Snjófelli sf. kr. 13.972 og Sigurði K. Sigþórssyni kr.10.000 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá frá tjónsdegi til greiðsludags. Að öðru leyti er bótakröfum vísað frá dómi.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hrl., kr. 150.000 auk virðisaukaskatts.