Hæstiréttur íslands
Mál nr. 151/2011
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
|
|
Fimmtudaginn 17. nóvember 2011. |
|
Nr. 151/2011.
|
N1 hf. (Anton B. Markússon hrl.) gegn þrotabúi Neshamra ehf. (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun.
Þb. Nh höfðaði mál gegn N1 og krafðist riftunar og endurgreiðslu 1.800.000 króna greiðslu Nh til N1 sem var til komin vegna uppgjörs viðskiptaskuldar. Að því leyti sem krafa þrotabúsins var reist á 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þótti ekki sýnt að peningar gætu talist óvenjulegur greiðslueyrir í ljósi fyrri viðskipta aðila. Tekið var fram að hvort svo sem taka hefði átt til úrlausnar í héraði þá málsástæðu þrotabúsins að greiðslan hefði skert verulega greiðslugetu Nh hefðu ekki verið lögð fram í málinu viðhlítandi gögn til stuðnings henni. Að því leyti sem krafa þb. Nh var reist á 141. gr. laga nr. 21/1991 var talið að þrotabúið hefði ekki fært fyrir því haldbær sönnunargögn að N1 hefði mátt vera kunnugt um ógjaldfærni Nh þegar hin umdeilda greiðsla var innt af hendi og ástæður þess að greiðslan hefði verið ótilhlýðileg. Var N1 því sýknað af kröfum þrotabúsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2011. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins áttu Neshamrar ehf. í reikningsviðskiptum vegna vöruúttekta hjá áfrýjanda og stofnuðu þannig til skuldar við hann á tímabilinu frá 29. maí 2007 til 24. janúar 2008, sem nam orðið 1.584.139 krónum. Áfrýjandi mun þá hafa stöðvað þessi viðskipti vegna vanskila félagsins, en í framhaldi af því höfðaði hann mál til heimtu skuldarinnar með stefnu 15. maí 2008, sem árituð var um aðfararhæfi 6. júní sama ár. Fjárnám var gert 17. júlí 2008 fyrir kröfu áfrýjanda, sem þá var að fjárhæð 1.919.384 krónur, í fimmtán nánar tilgreindum bifreiðum félagsins ásamt svokölluðum festivagni og leitaði hann nauðungarsölu á þessum eignum 28. sama mánaðar. Áður en þeim var komið í verð mun hafa tekist samkomulag um að félagið gerði upp skuld sína við áfrýjanda með greiðslu á 1.800.000 krónum, sem það innti af hendi með peningum 3. september 2008. Samkvæmt kvittun lögmanns, sem fór með innheimtu kröfunnar, var hún á þeim tíma samtals 2.098.769 krónur með vöxtum og kostnaði og var þannig veittur afsláttur af henni sem mismuninum nam. Bú Neshamra ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 23. febrúar 2009, en frestdagur við skiptin er 4. desember 2008. Í máli þessu, sem var höfðað 2. nóvember 2009, leitar stefndi riftunar á ráðstöfun félagsins 3. september 2008 og endurgreiðslu á 1.800.000 krónum ásamt dráttarvöxtum frá síðastnefndum degi, en kröfuna um riftun reisir hann aðallega á 1. mgr. 134. gr., en til vara 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í héraðsdómsstefnu byggði stefndi á því, sem óumdeilt er, að með fyrrgreindri ráðstöfun 3. september 2008 hafi Neshamrar ehf. greitt skuld við áfrýjanda á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Um riftanleika þessarar ráðstöfunar samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 sagði að öðru leyti það eitt í héraðsdómsstefnu að á því væri „byggt að greiðslan sé óvenjuleg sé litið til fyrri viðskipta stefnda og stefnanda. Í þessu sambandi er skorað á stefnda að leggja fram gögn í málinu varðandi viðskiptasögu stefnanda og stefnda, sem stefnandi telur að muni varpa ljósi á þá staðreynd að um óvenjulegan greiðslueyri í skilningi ákvæðisins hafi verið að ræða.“ Í málinu hefur ekkert komið fram um að peningar geti hér hafa talist óvenjulegur greiðslueyrir í ljósi fyrri viðskipta félagsins við áfrýjanda. Í hinum áfrýjaða dómi var jafnframt tekin afstaða til málsástæðu, sem stefndi virðist hafa hreyft við munnlegan flutning málsins, um að greiðsla þessi hafi í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 skert greiðslugetu Neshamra ehf. verulega. Án tillits til þess hvort málsástæða þessi hefði átt að koma þar til úrlausnar er þess að gæta að stefndi hefur ekki lagt fram í málinu viðhlítandi gögn til stuðnings því að hún sé á rökum reist. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ráðstöfuninni, sem um ræðir í málinu, verði ekki rift með stoð í þessu lagaákvæði.
Að þessu frágengnu reisir stefndi kröfu sína um riftun sem áður segir á 141. gr. laga nr. 21/1991, en þeirri málsástæðu var lýst á eftirfarandi hátt í héraðsdómsstefnu: „Stefnandi byggir á því að það sé fullkomlega ljóst í málinu, að stefndi hafi verið grandsamur um riftanleika ráðstöfunarinnar og fjárhagslega stöðu stefnanda, þ.e. að félagið hafi eigi verið gjaldfært, þegar ráðstöfunin var gerð. Stefnandi telur jafnframt ljóst, að stefndi hafi verið grandsamur um að ráðstöfunin leiddi til þess á ótilhlýðilegan hátt, að eignir þrotamanns hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum.“ Í stefnunni var ekki skýrt frekar hvað þætti benda til að áfrýjanda hafi 3. september 2008 mátt vera kunnugt um ógjaldfærni Neshamra ehf. og þær ástæður, sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg, en fyrir því ber stefndi sönnunarbyrði. Fyrir slíkri grandsemi færði stefndi ekki fram haldbær sönnunargögn fyrir héraðsdómi og hefur hann ekki bætt úr því þótt frekari gögn hafi verið lögð fram fyrir Hæstarétti. Samkvæmt því verður að sýkna áfrýjanda af kröfum stefnda.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, N1 hf., er sýkn af kröfum stefnda, þrotabús Neshamra ehf.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. desember 2010.
Mál þetta, sem var dómtekið 30. fyrri mánaðar, var höfðað 2. nóvember 2009.
Stefnandi er þrotabú Neshamra ehf., Gufunesvegi 1, Reykjavík.
Stefndi er N1 hf., Dalvegi 10-14, Kópavogi.
Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi greiðslu á viðskiptaskuld Neshamra ehf. við stefnda, að fjárhæð 1.800.000 krónur þann 3. september 2008. Þá krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 1.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. september 2008 til greiðsludags. Loks er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefndu.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
Með úrskurði uppkveðnum 13. nóvember 2009 var stefnanda gert að leggja fram málskostnaðartryggingu að fjárhæð 500.000 kr.
I
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til riftunar greiðslu Neshamra ehf. á viðskiptaskuld til stefnda og til endurgreiðslu. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2009 var bú Neshamra ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og var Eiríkur Elís Þorláksson hrl. skipaður skiptastjóri yfir búinu. Skiptabeiðandi var Sameinaði lífeyrissjóðurinn. Frestdagur við skiptin var 4. desember 2008.
Við könnun skiptastjóra á reikningsyfirliti bankareiknings stefnanda nr. 0301-26-003627 hjá Kaupþingi banka kom í ljós að félagið greiddi 1.800.000 krónur til stefnda 3. september 2008. Var um að ræða innborgun á viðskiptaskuld Neshamra ehf. hjá stefnda vegna reiknings með gjalddaga 24. janúar 2008.
Með bréfi skiptastjóra til framkvæmdastjóra stefnda 18. maí 2009 lýsti stefnandi yfir riftun á greiðslu skuldar að fjárhæð 1.800.000 krónur til stefnda með vísan til XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, einkum 1. mgr. 134. gr. laganna. Í lok bréfsins var þess krafist að fjárhæðin yrði endurgreidd stefnanda. Engin viðbrögð urðu af hálfu stefnda og hefur stefnandi því höfðað mál þetta.
II
Stefnandi byggir á því að sú ráðstöfun Neshamra ehf. að greiða viðskiptaskuld við stefnda hafi falið í sér riftanlega ráðstöfun samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Að mati stefnanda sé ljóst að möguleikar annarra kröfuhafa til að fá fullnustu krafna sinna aukist ef riftun nái fram að ganga og ennfremur sé ljóst að greiðslan til stefnda hafi ekki verið í samræmi við greiðslur til annarra kröfuhafa og því leitt til mismununar kröfuhafa.
Er á því byggt að skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt í málinu. Í fyrsta lagi sé um að ræða greiðslu skuldar í skilningi nefnda lagaákvæðis, en um sé að ræða innborgun á viðskiptaskuld vegna reiknings stefnda sem hafi verið á gjalddaga 24. janúar 2008. Í öðru lagi sé ljóst að greiðslan hafi verið innt af hendi á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, skuldin hafi verið greidd 3. september 2008 en frestdagur miðist við 4. desember 2008. Í þriðja lagi sé á því byggt að greiðslan sé óvenjuleg sé litið til fyrri viðskipta stefnda og stefnanda. Geti gögn um viðskiptasögu aðila varpað ljósi á þá staðreynd að um óvenjulegan greiðslueyri í skilningi ákvæðisins hafi verið að ræða.
Riftunarkrafan er jafnframt studd við 141. gr. laga nr. 21/1991. Ljóst sé í málinu að stefndi hafi verið grandsamur um riftanleika ráðstöfunarinnar og fjárhagslega stöðu stefnanda, að félagið hafi ekki verið gjaldfært þegar ráðstöfunin hafi verið gerð. Jafnframt sé ljóst að stefndi hafi verið grandsamur um að ráðstöfunin leiddi til þess á ótilhlýðilegan hátt að eignir þrotamanns hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Þá sé ljóst að greiðsla á skuldinni hafi verið til þess fallin að hygla stefnda á kostnað annarra kröfuhafa.
Stefnandi byggir samkvæmt framansögðu á að greiðsla stefnanda á viðskiptaskuld til stefnda 3. september 2008 sé riftanleg ráðstöfun samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991, sbr. einkum ákvæði 134. og 141. gr. laganna. Krafa um endurgreiðslu er reist á 1. mgr. 142. gr. laganna að því leyti sem riftunarkrafan er studd við 134. gr. laganna, en á 3. mgr. 142. gr. að því leyti sem riftunarkrafan er reist á 141. gr. laganna. Krafa um dráttarvexti er byggð á III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað er vísað til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Í greinargerð stefnda kemur fram að Neshamrar ehf. hafi um árabil verið í reikningsviðskiptum við stefnda. Viðskiptin hafi hafist 1. september 2006. Hafi Neshamrar ehf. greitt reglulega inn á viðskiptaskuld sína hjá stefnda. Þegar lokað hafi verið fyrir reikningsviðskiptin 24. janúar 2008 hafi skuldin numið 1.584.139 krónum. Stefndi hafi í kjölfarið hafið innheimtuaðgerðir á hendur Neshömrum ehf. Hafi stefna á hendur Neshömrum ehf. verið árituð 4. júní 2008. Á grundvelli árituðu stefnunnar hafi verið gert fjárnám í 15 bifreiðum í eigu Neshamra ehf. Áður en að nauðungarsölu bifreiðanna hafi komið hafi náðst samkomulag milli Neshamra ehf. og stefnda um greiðslu á 1.800.000 krónum gegn því að stefndi félli frá frekari kröfum og afturkallaði nauðungarsölubeiðnina.
Stefndi telur hvorki 134. né 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eiga við í málinu og því séu skilyrði til riftunar ekki fyrir hendi í málinu. Greiðslan 3. september 2008 sé greiðsla á skuld sem hafi verið á gjalddaga 24. janúar 2008. Því sé ekki um það að ræða að greitt hafi verið „fyrr en eðlilegt var“. Ekki hafi verið greitt með „óeðlilegum greiðslueyri“, enda hafi verið um að ræða greiðslu á viðskiptaskuld með peningum. Yfirlit reikningsviðskipta stefnda og Neshamra ehf. sýni að ekki hafi verið um óvenjulegan greiðslueyri að ræða, heldur hafi verið greitt með sama greiðslueyri og ávallt í viðskiptum aðila. Um greiðslu hafi verið að ræða sem „virtist venjuleg“ enda hafi greiðslan verið hluti fullnaðaruppgjörs aðila á milli sem hafi falið í sér að stefndi hafi afturkallað uppboðsbeiðni á 15 bifreiðum í eigu Neshamra ehf. sem hefði að öðrum kosti farið fram. Neshamrar ehf. hafi því augljósa hagsmuni af því að greiða skuldina til stefnda, annars hefði fyrirtækið að öllum líkindum orðið fyrir frekara fjárhagstjóni. Auk þess liggi ekkert fyrir um að greiðslan hafi skert greiðslugetu Neshamra ehf. verulega, enda fjárhæðin ekki af þeirri stærðargráðu að slíkt væri líklegt. Skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 séu því ekki uppfyllt.
Til þess að unnt sé að rifta ráðstöfun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 þurfi öll sex skilyrði lagagreinarinnar að vera uppfyllt. Svo sé ekki í málinu. Greiðslan hafi ekki verið „ótilhlýðileg“, enda hafi hún verið í samræmi við samkomulag aðila um uppgjör þeirra á milli sem hafi meðal annars falið í sér að stefndi hafi afturkallað uppboðsbeiðni, en uppboðið hefði að öðrum kosti farið fram og þannig bakað Neshömrum ehf. enn meira fjártjón. Neshamrar ehf. hafi metið aðstæður þannig að það væri fyrirtækinu fyrir bestu að greiða hina gjaldföllnu skuld með þeim hætti sem gert hafi verið í stað þess að bifreiðarnar yrðu seldar á nauðungarsölu. Greiðslan geti því ekki talist ótilhlýðileg enda byggð á lögmætum og eðlilegum sjónarmiðum og forsendum. Auk þess hafi fjárhæðin, 1.800.000 krónur, ekki verið af þeirri stærðargráðu að stefndi hafi mátt reikna með því að hún væri til þess fallin að verða öðrum kröfuhöfum til tjóns. Hafi stefnandi ekkert lagt fram sem sýni fram á meint tjón annarra kröfuhafa af þessari greiðslu til stefnda.
Því sé hafnað að Neshamrar ehf. hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna greiðslunnar 3. september 2008, en það sé eitt af skilyrðum þess að 141. gr. laga nr. 21/1991 geti átt við. Stefndi hafi aldrei haft gögn í höndum sínum sem hafi bent til yfirvofandi ógjaldfærni Neshamra ehf. Þvert á móti hafi stefndi gert fjárnám í 15 bifreiðum fyrirtækisins sem hafi bent til þess að eignastaða þess væri þannig að það væri full fært um að standa í skilum og útvega fjármagn. Stefndi hafi aldrei haft neinar upplýsingar um fjárhagsstöðu eða skuldastöðu Neshamra ehf. og hafi því ekkert getað vitað um stöðu fyrirtækisins gagnvart öðrum kröfuhöfum. Engin tengsl hafi verið á milli Neshamra ehf. og stefnda sem hafi gert það að verkum að stefndi hafi átt að vita um ógjaldfærni Neshamra ehf. eða að eitthvað óeðlilegt samkomulag stefnda til hagsbóta gæti tekist milli aðila.
Vandséð sé hvers vegna Neshamrar ehf. hefðu kosið vísvitandi að hygla stefnda með því að greiða honum umrædda skuld 3. september 2008 hafi félagið á þeim tíma verið ógjaldfært eða gjaldþrot þess fyrirséð. Verði því að hafna því að Neshamrar ehf. hafi verið ógjaldfært sem og fullyrðingum stefnanda um grandsemi stefnda um meinta ógjaldfærni félagsins og ótilhlýðileika hinnar umdeildu greiðslu.
Stefndi hafi innheimt skuld sína gagnvart Neshömrum ehf. með þeim hætti sem lög geri ráð fyrir. Krafa stefnda hafi verið í lögfræðiinnheimtu hjá Lögmáli og hafi öll samskipti um uppgjör skuldarinnar farið fram milli Lögmáls og Neshamra ehf. án sérstakrar aðkomu stefnda. 15 bifreiðir í eigu félagsins hafi verið teknar fjárnámi til tryggingar skuldinni og uppboðsbeiðni vegna þeirra lögð inn til sýslumanns. Fyrir liggi að hefði nauðungaruppboðið farið fram eins og til hafi staðið hefðu þær greiðslur sem þannig hefðu borist stefnda að öllum líkindum dugað fyrir heildarkröfum hans á þeim tíma, rúmlega tveimur milljónum. Hefðu þær greiðslur ekki verið riftanlegar á grundvelli laga nr. 21/1991. Hefði stefndi verið grandsamur um ógjaldfærni Neshamra ehf. hefði hann aldrei fallist á að afturkalla uppboðsbeiðnina og fá greitt með þeim hætti sem gert hafi verið með þeirri hættu að eiga yfir höfði sér riftunarmál eins og komið hafi á daginn. Stefnda hafi verið í lófa lagið að láta uppboðið fara fram og fá þannig fullnustu skuldar sinnar, en hafi hins vegar fallist á að afturkalla uppboðsbeiðnina. Þetta sýni óneitanlega að stefndi hafi verið grandlaus um yfirvofandi ógjaldfærni Neshamra ehf. þegar hann hafi fengið hina umdeildu greiðslu.
Stefnandi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að stefndi hafi vitað eða mátt vita um meinta ógjaldfærni Neshamra ehf. þann 3. september 2008, en stefnandi hafi ekkert fært fram sem bendi til þess að svo hafi verið. Þvert á móti hafi gjörðir stefnda og aðgerðir Neshamra ehf. sýnt fram á að stefndi hafi ekki haft ástæðu til að vita um meinta ógjaldfærni Neshamra ehf.
Varðandi lagarök vísar stefndi til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 134. og 141. gr. og lögskýringarsjónarmiða að baki þeim ákvæðum. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Í máli þessu er krafist riftunar og endurgreiðslu á 1.800.000 krónum sem Neshamrar ehf. greiddu stefnda 3. september 2008 vegna skuldar á viðskiptareikningi. Krafa stefnanda byggir á 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.
Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 134. gr. laganna má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Fyrir liggur að umdeild greiðsla fór fram innan sex mánaða fyrir frestdag. Við aðalmeðferð málsins sagði lögmaður stefnanda að ekki væri fullyrt að um óvenjulegan greiðslueyri væri að ræða, en þó væri hugsanlegt að líta svo á í ljósi þess að Neshamrar ehf. hafi aldrei greitt stefnda svo háa fjárhæð. Ekki verður talið að það leiði til þess að litið verði svo á að greiðslueyririnn sé óvenjulegur. Ekki er byggt á því að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt hafi verið, en einkum á því að greiðslan hafi verulega skert greiðslugetu Neshamra ehf. Þegar litið er til þess að rekstri félagsins virðist hafa lokið að mestu á haustdögum 2008 og þess að um er að ræða háa greiðslu miðað við tekjur á þessum tíma og aðrar greiðslur verður talið að greiðslan hafi skert greiðslugetu félagsins verulega. Verður þá litið til þess hvort greiðslan hafi engu að síður virst venjuleg eftir atvikum. Í því tilviki sem hér um ræðir verður að líta til þess að við greiðslu skuldarinnar var afturkölluð nauðungarsölubeiðni á 15 bifreiðum í eigu Neshamra ehf. Verður í því ljósi talið að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum og skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt.
Kemur þá til skoðunar hvort 141. gr. laganna eigi við, en á grundvelli þeirrar greinar má krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Fyrsta skilyrði ákvæðisins lýtur að því hvort greiðsla sú sem um ræði sé ótilhlýðileg. Telja verður að ótvírætt sé að greiðslan hafi verið kröfuhafa til hagsbóta umfram aðra kröfuhafa. Um var að ræða skuld samkvæmt viðskiptayfirliti og var síðasta færslan yfir sjö mánaða gömul. Á sama tíma voru Neshamrar ehf. í skuld meðal annars við önnur olíufélög og voru sumar skuldanna nokkuð eldri, sbr. framlagðar kröfulýsingar og fylgiskjöl þeirra. Þá verður talið, með vísan til framlagðra gagna um fjárhag skuldarans, reikningsyfirlits og kröfulýsinga, að við greiðsluna 3. september 2008 hafi félagið verið ógjaldfært. Skuld félagsins byggði á viðskiptayfirliti og náðu viðskiptin allt aftur til 1. september 2006. Ljóst er að skuld hafði safnast upp á viðskiptareikningnum um nokkurn tíma og var reikningnum lokað í janúar 2008. Viðskipti félagsins við stefnda héldu þó áfram í formi staðgreiðsluviðskipta. Þá hafa verið lögð fram gögn um færslur á vanskilaskrá sem bentu til slæmrar fjárhagsstöðu Neshamra ehf. á þessum tíma. Af þessu er ljóst að greiðsluerfiðleikar félagsins hljóta að hafa verið stefnda kunnir 3. september 2008 þegar greiðslan var innt af hendi. Verður því talið að öllum skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun greiðslunnar sé fullnægt.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að lagaheimild sé til riftunar þeirrar sem stefnandi hefur farið fram á. Verða kröfur hans um riftun og endurgreiðslu því teknar til greina, en endurgreiðslukröfunni hefur ekki verið mótmælt sérstaklega. Með vísan til þessara málsúrslita verður stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilega ákveðinn 550.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
D ó m s o r ð :
Rift er greiðslu Neshamra ehf. að fjárhæð 1.800.000 krónur til stefnda, N1 hf., sem innt var af hendi 3. september 2008.
Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Neshamra ehf., 1.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. september 2008 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað.