Hæstiréttur íslands

Mál nr. 335/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Ásetningur
  • Skilorð
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 11. desember 2014.

Nr. 335/2014.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Ásetningur. Skilorð. Skaðabætur.

Náin kynni tókust með X og A haustið 2012 og hófu þau fljótt að stunda kynlíf þar sem valdi var beitt með samþykki beggja. Fólst valdbeitingin meðal annars í því að X flengdi A í aðdraganda samfara, hélt höndum hennar fyrir aftan bak og yfirbugaði hana en hún streittist á móti meðan á samförum stóð. A kærði X í nóvember og desember 2012 fyrir nauðgun í þrjú tilgreind skipti meðan kynni þeirra vörðu frá hausti og fram í miðjan desember það ár. A skýrði meðal annars svo frá fyrir dómi að sér hafi þótt vænt um að standa undir væntingum X hvað varðaði flengingar og að það hafi verið ákveðin áskorun fyrir X að yfirbuga hana í kynlífi þeirra. Þá bar þeim X og A saman um að þau hefðu, eftir að hún kærði hann í tvígang, átt í kynferðislegum samskiptum þá um haustið og fram í miðjan desember, og einnig frá því í janúar eða febrúar og fram í júlí 2013. X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og sakfelldur í héraði samkvæmt öllum þremur ákæruliðum að því frátöldu að hann var sýknaður af þeim þætti þriðja ákæruliðar að hafa neytt A til munnmaka. Í Hæstarétti var X sýknaður af sakargiftum samkvæmt 1. ákærulið en þar var honum gefið að sök að hafa á heimili A þvingað hana til samfara. Ágreiningslaust var að samfarir höfðu átt sér stað en um það deilt hvort þær hafi verið með þeim hætti sem tíðkast hafði í samskiptum X og A. Í dómi Hæstaréttar var til þess vitnað að lögum samkvæmt yrði ekki refsað fyrir nauðgun nema gerandinn hefði haft ásetning til slíks á verknaðarstundu. Í ljósi samskipta X og A, eins og þeim var nánar lýst í dómi Hæstaréttar, þótti verða að miða við að X hefði haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykk samförum við hann umrætt sinn. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms var X á hinn bóginn sakfellur samkvæmt 2. ákærulið fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en þar var honum gefið að sök að hafa í iðnaðarhúsnæði sem hann hafði yfir að ráða, þar sem A var gestkomandi, stungið fingri í endaþarm A og leggöng gegn vilja hennar. X var í Hæstarétti sýknaður af sakargiftum samkvæmt 3. lið ákæru en þar var honum í fyrsta lagi gefið að sök að hafa á heimili sínu stungið fingri í endaþarm A. Við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi neitaði X eindregið þeim sakargiftum. Þar sem sú afstaða hans hafði ekki skýrlega verið borin undir A fyrir dómi þótti gegn eindreginni neitun X ekki komin fram viðhlítandi sönnun fyrir sekt hans að þessu leyti. Í öðru lagi var X í 3. ákærulið gefið að sök að hafa umrætt sinn neytt A til munnmaka. Héraðsdómur taldi það mikinn vafa leika á að munnmökin hafi verið að A nauðugri að X var sýknaður af þeim sakargiftum og var sá þáttur í úrlausn héraðsdóms ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Í þriðja lagi var X gefið að sök að hafa í greint skipti haft samfarir við A aftan frá gegn vilja hennar ásamt því að reyna að hafa við hana samfarir í endaþarm. X var sýknaður af þeim sakargiftum og til þess vitnað að þegar fyrrgreindum munnmökum lauk fóru þau X og A út fyrir hús til að reykja en sneru síðan aftur til herbergis X og héldu kynmök þeirra þar áfram. Að þeim loknum hringdi A, með samþykki X, til lögreglu og óskaði aðstoðar við að komast heim til sín þar sem sér væri haldið nauðugri á heimili X. Að loknu símtalinu fóru X og A út fyrir húsið og stóðu þar bæði þegar lögreglu bar að garði. Lögregluþjónn sem ók A heim bar fyrir dómi að ekkert óvenjulegt hafi verið að sjá í framgöngu þeirra X og A, þau hafi bæði verið róleg og yfirveguð og hún ekki minnst á það meðan á akstrinum stóð að sér hafi verið nauðgað heldur einungis sagt að sér hafi verið meinuð brottför úr húsinu. Kvaðst lögreglumaðurinn oft á fjörtíu ára starfsferli sínum hafa komið á vettvang þar sem því hafi verið haldið fram að nauðgun hefði átt sér stað og hafi aðstæður umrætt skipti verið með öllu ólíkar þeim. Þegar til alls þessa var litið þótti einnig sá vafi leika á að samfarirnar hafi verið að A nauðugri að X var sýknaður af þessum sakargiftum. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að X var sakfelldur fyrir alvarlegt brot gegn friðhelgi líkama A og að háttsemi X gagnvart A hefði verið niðurlægjandi, en jafnframt til aldurs X og þess að hann hefði ekki áður sætt refsingu, auk þess þess sem hliðsjón var höfð af öllum atvikum málsins. Var X dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot samkvæmt 2. ákærulið og dæmdur til að greiða A 500.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. maí 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða og að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð. Hann krefst þess aðallega að vísað verði frá héraðsdómi einkaréttarkröfu, til vara sýknu af henni en að því frágengnu lækkunar hennar.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. október 2012 til 17. nóvember 2013 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu.

I

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 samkvæmt öllum ákæruliðum að því frátöldu að hann var sýknaður af þeim þætti í 3. ákærulið að hafa neytt brotaþola til munnmaka aðfaranótt laugardagsins 15. desember 2012. Af kröfugerð ákæruvaldsins leiðir að það unir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu og er sá þáttur í úrlausn héraðsdóms því ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi tókust náin kynni með ákærða og brotaþola í ágúst eða september 2012 og ber þeim saman um að fljótt hafi þau byrjað að hafa samfarir þar sem ákærði beitti brotaþola valdi með samþykki beggja. Fólst sú valdbeiting einkum í flengingum ákærða og því að hann yfirbugaði brotaþola líkamlega og hafði síðan við hana samfarir. Ákærði byggir á því að samfarir hans og brotaþola, þær sem ákæran tekur til, hafi ekki verið knúnar fram með ólögmætri nauðung af hans hálfu heldur hafi þær verið á sömu nótum og aðrar kynlífsathafnir þeirra á þeim tíma er samskipti þeirra stóðu. Brotaþoli hafi í öndverðu hvatt hann til valdbeitingar og hann smám saman orðið öruggari sjálfur við þá iðju. Samskiptasaga þeirra sýni að hún hafi haft tögl og hagldir í sambandinu og haft stöðugan áhuga á frekari samskiptum og kynlífi með ákærða, einnig eftir ætluð kynferðisbrot. Brotaþoli lýsti samskiptum sínum við ákærða á annan veg. Fyrir dómi sagði hún þau oft hafa barist og slegist á góðum nótum og ef sér hafi fundist hann ganga of langt hafi hún beðið hann að hætta og hann ávallt gert það. Þau hafi byrjað með því að kyssast og hún yfirleitt klætt sig úr fötunum sjálf. Hún kvaðst ekki hafa upplifað það svo að um einhvers konar nauðgunarleiki hefði verið að ræða og um leið og hann hefði gert eitthvað sem henni hafi fundist vont hafi hún sagt honum að hætta og hann orðið við því. Hafi þá ýmist verið að þau héldu iðju sinni áfram eða ekki.

Þegar atvik þau urðu að morgni föstudagsins 26. október 2012 á heimili brotaþola sem 1. ákæruliður snýr að hafði hún slitið sambandi þeirra degi fyrr. Þau tóku upp samband skömmu eftir þann atburð en aftur sleit brotaþoli sambandinu einhverju áður en þau atvik urðu aðfaranótt mánudagsins 3. desember 2012 í iðnaðarhúsnæði því sem ákærði hafði yfir að ráða og 2. ákæruliður snýr að. Atvik þau er 3. ákæruliður lýtur að urðu á heimili ákærða aðfaranótt laugardagsins 15. desember 2012 og kærði brotaþoli þau síðla sama dag. Var þá tekin skýrsla af brotaþola hjá lögreglu og er efni hennar rakið í hinum áfrýjaða dómi.

Fyrir héraðsdómi kvað ákærði það rétt sem fram kom í spjalli hans á rafrænum samskiptamiðli við nafngreinda vinkonu í apríl 2013 að hann og brotaþoli hefðu aftur byrjað að hittast í laumi, líklega í febrúar 2013, og þá stundað kynlíf. Þau hafi hist oftar en talið verði á fingrum beggja handa, yfirleitt í íbúð sem hún hafði til umráða eða í bifreið hennar úti í [...]. Barnsfaðir hennar hafi eitt sinn staðið þau að verki og tekið því illa. Síðast hafi þau hist í júlí 2013 en þá hafi hún komið til hans, hann gefið henni áfengi, þau horft á sjónvarp og loks haft kynmök. Í samskiptum þeirra á árinu 2013 hafi hann fengið að flengja brotaþola en þau farið eitthvað hægar í sakirnar en áður.

Brotaþoli kvaðst hafa séð til ákærða á jólum 2012 og líklega mánuði síðar hafi hann gert vart við sig á samskiptamiðli, þau hist upp úr þessu „alveg nokkrum sinnum“ á árinu 2013 og haft kynmök. Aðspurð um hvort þau hafi hist í júlí 2013 sagði hún það vel geta verið, hún myndi ekki dagsetningar, en í sumarbyrjun hafi hún loks lokað á samskiptin þótt verið geti að þau hafi hist í júlí. Nánar aðspurð um tímasetningar kvað hún þau ákærða hafa hist í febrúar, mars og í júlí 2013 og jafnvel í janúar líka en það myndi hún ekki alveg. Sagði hún það hafa verið „örugglega í febrúar. Við erum ekkert að hittast til að sofa saman, við erum að hittast til að tala saman og svo svona þróaðist það eitthvað aðeins út í að við ætluðum að vera saman.“ Um samskipti þeirra eftir áramótin sagði brotaþoli meðal annars að „ég náttúrulega bara dauðskammaðist mín ... það er náttúrulega rosalega asnalegt að hafa orðið fyrir nauðgun og hafa síðan bara samband við nauðgarann og vilja vera með honum, ég skil það rosalega vel honum fannst þetta bara, ég skammaðist mín ofboðslega mikið og það er það sem ég er að vinna svona helst í í dag. Vinna úr skömminni ... Að hafa talað við hann aftur.“

II

Ákærði kvaðst fyrir dómi halda að það hafi verið í september 2012 að þau brotaþoli sænguðu fyrst saman. Aðdragandanum lýsti hann þannig að „við fórum upp í ... rúm til hennar og afklæddumst þar og ... síðan átti þetta svona upphaflega í rauninni að vera bara kúr, en það fór út í meira og í rauninni voru þetta bara, hún var að biðja um að vera bara að reyna stjórna sér á meðan þessu kynlífinu stóð“. Kvað hann þetta hafa verið fyrstu reynslu sína af svona kynlífi. Hann sagði brotaþola hafa verið að hitta barnsföður sinn út af börnum þeirra á þessum sama tíma en „við samt þróuðumst eitthvað mjög mikið svona út í eitthvað líka samband bara með tímanum og einmitt með því að tala t.d. um kynlíf, hvernig kynlíf við stunduðum og við svona vorum eiginlega bara næstum því byrjuð opinberlega saman.“  

Ákærði var um það spurður fyrir dómi hvort rétt væri að hann og brotaþoli hefðu margoft verið búin að hafa samfarir með þeim hætti að valdi væri beitt, áður en þau atvik urðu 26. október 2012, sem greinir frá í 1. ákærulið. Kvað hann svo verið hafa og valdbeitinguna annars vegar hafa falist í því að hann flengdi brotaþola og hins vegar að þau léku nauðgunarhlutverkaleik eða „rape role playing“. Í athöfnum þeirra hafi hann verið nauðgarinn og hún sú sem nauðgað var. Ekkert öryggisorð hafi verið notað og eftir að athöfnin var byrjuð hafi það nokkurn veginn verið þannig að engu skipti hvað hún sagði eða gerði, þá hafi ekki verið aftur snúið, og hafi þau verið sammála um að þetta væru reglurnar. Inntur eftir því hvernig hann hafi vitað hvort brotaþoli vildi hefja kynlífsathafnir hverju sinni svaraði ákærði því til að „það var í rauninni bara mitt ... ég átti oftast ... upphafið af því að byrja ... með því að fara og flengja hana ... þetta var bara það sem ég hérna fékk að venjast í okkar kynlífi ... Og þetta var bara það sem við ... höfðum alveg talað saman áður sko, bara langt áður, áður en, bara um hvað við fíluðum og hvað við höfðum prófað og hvað við höfðum gert og eitthvað svoleiðis og síðan varð þetta bara að venju bara, varð að vana að stunda bara svona kynlíf.“ Ákærði var inntur eftir því hvort hann hafi upplifað það þannig í hvert skipti sem hann og brotaþoli höfðu samfarir að hann væri að taka þá áhættu að nauðga henni. Því svaraði hann þannig að „fyrst leið mér þannig en síðan var þetta bara þannig og þá var ... ég ekki, ekkert hræddur við að þetta mundi enda á að vera einhver nauðgun.“

Nánar spurður um atvikið 26. október 2012 og hvort hann hafi áttað sig á því eftir á hvernig brotaþola leið og hvort hún hafi viljað kynlíf með þessum hætti, svaraði ákærði að „það er svo, það sást ... að henni leið illa ... Þá fór ég og hlúði að henni.“ Ákærði var þá um það spurður hvort þau brotaþoli hefðu gert slíka hluti miklu oftar. Því svaraði hann þannig: „Já, já við gerðum þetta margoft ... ég er bara að segja þetta hafi verið vaninn ... en það var bara í þetta tiltekna skipti sem ... henni leið svona illa, illa eftir á annars leið henni aldrei svona illa eftir á.“ Spurður um hvort hann hafi vitað fyrir fram umrætt skipti hvort brotaþoli vildi eiga við hann kynmök svaraði ákærði því til að hann hefði bara túlkað þetta eins og venjulega og haft frumkvæðið. „Já. Það var bara líka oftast þannig ... þessi tilteknu skipti sem við vorum ein heima, sem var ekki oft ... annars var þetta meira bara svona sem við bæði svona byrjuðum bara en vorum ekkert að hafa hátt sko.“ Í framhaldinu var ákærði um það spurður hvort hann hefði, eftir að kynlífsathöfn var hafin að hans frumkvæði, stoppað ef brotaþoli hefði sagt nei og að hún hefði ekki áhuga. Því svaraði ákærði á þann veg að það myndi hann hafa gert ef öryggisorð hefði verið notað og brotaþoli komið því til skila. Ákærði var um það spurður hvort honum hafi eftir atvikið 26. október fundist ástæða til að breyta um háttu, hætta nauðgunarleikjunum og ganga betur úr skugga um hvort brotaþoli vildi ganga til slíkra athafna. Því svaraði ákærði neitandi og sagði ekkert hafa orðið úr því enda hafi þau farið „aftur í sama horf.“ 

Aðspurður lýsti ákærði kynlífi þeirra almennt þannig að „það var ... mjög svona ... gróft BDSM kynlíf, þar sem ... ég átti í rauninni bara að stjórna henni á meðan við sváfum saman og þó hún hafi verið að streitast á móti á meðan ... t.d. held að henni höndunum fyrir aftan bak á meðan ... ég veit ekki af hverju en hún vildi vera að reyna að streitast á móti eða þykjast vera að streitast á móti á meðan og síðan eftir á þegar við vorum bara bæði búin þá var það bara allt í góðu.“ Flengingar kvað hann vera frá sér komnar en „hitt var ekkert tengt mér sko, það var bara það sem ég lærði frá henni í rauninni, en flengingarnar ... það svona kom ég eða fannst mér aðallega betra.“ Hann kvað þau stundum hafa borið áverka eftir kynlíf þeirra, hún til dæmis verið með mar á úlnliðum og rispur á rassinum, og hann með far á öxlum eftir klip og klór og reyndar hefði hún stundum bitið hann. Um það hvort þeirra hefði stjórnað sambandinu sagði ákærði að „hún stjórnaði sko sambandinu en ekki kynlífinu, það var meira svona eða þú veist, við vorum bæði samþykk með kynlífið, en ... ég var hræddur bara á hverjum degi liggur við að hún væri ... Að hætta með mér bara.“

Ákærði var um það spurður hvort þau brotaþoli hefðu rætt eitthvað hvernig þau útfærðu valdbeitingu í kynlífi sínu, svo sem hvað ætti að gera ef hann gengi of langt. Hann svaraði því til að hann hafi reynt að koma því á þar sem hann hafi sjálfur verið mjög óöruggur „fyrst með að vera að stunda svona kynlíf eins og hún vildi gera ... ég þurfti alltaf bara að hætta sjálfur, af því að mér fannst þetta eitthvað svona, eða þú veist ég get ekki sagt óeðlilegt en ég meina ... svona skrýtið, af því að allir greinilega fíla það sem þeir fíla“. Aðspurður um hvort þau brotaþoli hafi notað öryggisorð í kynferðislegum samskiptum sínum á árinu 2013 kvaðst hann ekki minnast þess. Það „voru ennþá flengingar en við fórum hægar í rape role playing þarna að það var ekkert mikið úr honum. En ... þetta var, þetta var ekki sami leikur og við vorum að stunda áður.“

III

Brotaþoli var fyrir dómi spurð um það atvik er hún og ákærði sænguðu fyrst saman og hvort þeim hafi báðum verið ljóst að átök og slagsmál ættu að vera hluti af kynlífi þeirra. Hún svaraði því til að „fyrsta skiptið sem við sváfum saman þá vorum við bæði drukkin og vorum heima hjá mér og já vorum bara eitthvað að kýta og bara ýta við hvort öðru aðeins og já og þú veist að það þróaðist út í það að við sváfum saman það kvöld“.  

Um samband sitt við ákærða og aðdragandann að atvikinu 26. október 2012 sagði brotaþoli að „ég lýk sambandi við X og ... geri hann svolítið reiðan með því að sofa hjá barnsföður mínum og segja honum síðan frá því um nóttina“. Um samband sitt við ákærða í aðdraganda atviksins 3. desember sama ár sagði brotaþoli að „þar var ég búin að slíta þessu, þessum sjéns þú veist sem við vorum að prufa aftur“. Við skýrslutöku hjá lögreglu 8. desember 2012 lýsti brotaþoli sambandi sínu við ákærða á þann veg að þau hefðu kynnst í ágúst það ár og var bókað eftir henni að „þau hafi byrjað sem vinir en svo hafi það þróast í samband á milli þeirra þannig að þau gistu oft hvort hjá öðru.“

Brotaþoli var um það spurð fyrir dómi hvernig kynlífi hennar og ákærða hefði verið háttað fyrir atvikið 26. október 2012 sem 1. ákæruliður lýtur að. Hún kvað samskipti þeirra hafa verið á „góðu nótunum alltaf með beggja samþykki og alltaf ef mér fannst hann ganga of langt þá bað ég hann um að hætta og það var aldrei neitt vandamál, hann hætti alltaf en þarna hætti hann ekki þegar ég bað hann um að hætta.“ Brotaþoli var spurð hvort það hafi alltaf verið svo fyrir umrætt tímamark, þegar hún og ákærði voru í slagsmálum og harkalegu kynlífi, að legið hafi fyrir að þau væru bæði sátt. Því svaraði hún þannig: „Já já, já já, þetta byrjaði alveg með því að við værum ... að kyssast og þú veist alveg bara bæði til í leikinn“. Hún kvað aðspurð það aldrei hafa gerst að kynlíf þeirra byrjaði algjörlega „spontant“ án forleiks og kossa, hún hefði yfirleitt klætt sig sjálf „úr fötunum og hann úr sínum sko, nei aldrei neitt þannig að hann myndi bara ... rífa mig niður ... Það var eitt annað skipti sem að gerðist svona svipað og það var þegar mér fannst hann svolítið missa sig sko, það var alveg mánuði fyrr eða eitthvað og þá sagði ég við hann í algjöru djóki bara eitthvað, já þú ert bara að rebound og vorum með svolítið ... svartan húmor ... þá svona sá ég ... fyrst svona pínu þessa hlið hjá honum og þú veist hann, þú veist var svona extra harður ... en ég hélt samt að það væri bara svona eitthvað einstakt dæmi og ... gerði lítið úr því“.

Fyrir dómi var brotaþoli um það spurð hvort það hafi verið þáttur í kynlífi hennar og ákærða að fara í nauðgunarleiki og svaraði hún: „Nei mér fannst það ekki, það er ekki mín upplifun“. Hvort hún hafi viljað láta halda sér eða þvinga sig í samförum svaraði brotaþoli því til að „við svona vorum, börðumst svolítið eða vorum svona að fíflast sko en það var alltaf meðan við bæði vorum bara í góðu skapi og bara bæði þú veist viljug sko. Þannig að það var þú veist alveg oft þannig að hann náði kannski niður höndunum mínum eða eitthvað en um leið og mér fannst hann gera eitthvað sko, ég fékk aldrei marblett eða neitt sko, og um leið og mér fannst hann gera eitthvað þú veist svona þannig að þetta var kannski orðið pínu vont þá bara sagði ég hættu og þá bara hætti hann, þá kannski byrjuðum við aftur eða ekki“.

Brotaþoli var jafnframt spurð hvort það hafi verið ákveðin áskorun fyrir ákærða að ráða við hana og svaraði hún því játandi og þegar hún var spurð hvort hún hefði átt í sambærilegum kynlífsathöfnum með einhverjum öðrum sagði brotaþoli: „Já, já þú veist þetta var ekkert þú veist já þetta var ekkert svona alvarlegt, það meiddi sig enginn sem sagt en ég man líka eftir því að X, hann mistúlkaði alltaf rosalega og sagði einhvern tímann við mig bara „já þannig að gæti aldrei neinn nauðgað þér“ ég svona „eee jú af því að ég vil ekkert alltaf stunda kynlíf eða við hvern sem er eða hvar sem er“ þú veist og hann var svona „já auðvitað“ þú veist fattaði hann.“ Brotaþoli var í framhaldinu spurð, hvort hún og ákærði hafi einhvern tímann byrjað kynlíf í þessum ham en síðan hætt af því að hún hefði gefið það til kynna að hún vildi þetta ekki, og svaraði hún því játandi.  

Brotaþoli kvaðst í rauninni hafa reynt að gera lítið úr atvikinu 26. október 2012 en um þetta sagði hún: „Ég ... reyndi ... bara að gera lítið úr því hjá mér ... eftir að hann fór út þá bara svona reyndi ég þú veist að gleyma þessu bara, en það náttúrulega tókst voðalega illa ... fékk svona mikið af ranghugmyndum sem síðan varð ekkert úr þannig að þá svona einhvern veginn ákvað ég að þetta væri kannski bara hausinn í mér, þú veist ég væri bara að gera svona mikið úr einhverju sem að hafði kannski bara verið eins og hann var búinn að vera að sannfæra mig um að það væri bara eitthvað einstakt og þetta væri alls ekki hann að gera eitthvað svona hluti.“   

Brotaþoli var um það spurð hvort hún hafi farið til ákærða að kvöldi þess dags er atvikið samkvæmt 1. ákærulið átti sér stað. Hún játti því og sagði að „um kvöldið þá var ég drukkin og kannski ekkert rosalega góð dómgreind og fór yfir til hans ... mig langaði ekkert mikið til ... að mæta mömmu minni eða að hún myndi kannski komast að því að það væri eitthvað að ... mig langaði svo til þess að gleyma þessu ... það hefði bara verið einstakt tilvik og síðan gætum við bara gleymt þessu eða eitthvað, en ég ætlaði samt aldrei að tala við hann aftur en þetta kvöld samt einhvern veginn ákvað ég að gera það.“ Spurð hvernig samskipti þeirra hefðu þróast í framhaldinu sagði brotaþoli meðal annars að „ég var svona hrædd og síðan svona þegar gerðist ekki neitt þá svona hugsaði ég bara okey þetta er allt bara í hausnum á mér, hann er ekkert að fara að gera neitt, það er ekki, þú veist hann er ekki hættulegur og svo byrjaði ég bara að sakna hans, þannig að ég ... hafði aftur samband við hann og sagði bara við hann, ég saknaði hans og mig langaði til að láta á þetta reyna aftur“.

Er brotaþoli var um það spurð hvort hún og ákærði hefðu einhvern tímann rætt um það að nota í kynlífi sínu öryggisorð svaraði hún: „Við þurftum þess aldrei, það var alltaf nóg að segja bara hættu og hann hætti ... þetta fór aldrei út í það að hann myndi ekki hætta og þú veist, hann hætti alltaf bara ef ég bað hann um að hætta.“ Innt eftir því hvort belti hefði verið notað í kynlífi þeirra fyrir atvikið 26. október svaraði brotaþoli því játandi, „ég leyfði honum einhvern tímann ... Hann ... hafði ... mjög mikið svona fetish fyrir því að flengja og ég sem sagt lét það bara mjög gjarnan eftir honum og fannst í rauninni bara gaman að geta staðið undir“ því.  

Brotaþoli svaraði því neitandi að hún og ákærði hefðu verið í nauðgunarhlutverkaleik, ekkert slíkt hefði verið í þeirra kynlífi. Spurð um það hvort ákærði hafi haldið henni svaraði hún „jú, við vorum oft að slást hann náttúrulega náði að halda mér eitthvað en þú veist það var alltaf ... nóg að ég segði bara hættu ef hann gekk of langt. Það var ... enginn hlutverkaleikur sko, við vorum bara að slást og fíflast og bæði bara mjög sátt.“ Er brotaþoli var spurð hvort það hafi verið þáttur í kynlífi þeirra að slást og fíflast sagði hún: „Já eiginlega.“ Hún kvað þau hafa átt í kynferðislegum samskiptum eftir atvikið 26. október 2012 en þau hafi byrjað saman aftur eftir það, „ég ákvað að það væri bara einstakt tilvik“. Er hún var spurð hvort svipaðar athafnir hefðu átt sér stað þar sem þau voru að slást og kljást í kynlífinu svaraði brotaþoli því til að sér hefði fundist ákærði „að sumu leyti verða aðeins grófari eftir það, sem að gerði mér kannski svolítið órótt sem að kannski varð til þess líka þú veist að ég gat aldrei náð þessu trausti aftur og endaði sambandið.“

Spurð hvort flengingar í samskiptum hennar og ákærða hefðu verið að hans undirlagi eða með vilja beggja var svar brotaþola svofellt: „Já ... þegar ég leyfði honum þetta þá var þetta ... alveg það sem ég leyfði hinum ... þetta var alveg allt í góðu“. Brotaþoli var einnig um það spurð, hvort hún hafi fengið eitthvað út úr því að vera undirgefin eða hefði haft tilhneigingar í þá átt og hvort hún hefði átt frumkvæði að slíku. Hún svaraði því til að sér hafi fundist „gaman að leyfa honum að gera það sem honum fyndist ... Nei ekki frumkvæði eða þannig.“ Spurð hvort hún hefði einhvern tímann veitt ákærða bitför á handlegg kvað hún já við og sagði að það gæti hafa verið eftir atvikið 26. október 2012 og „pottþétt“ fyrir atvikið 3. desember sama ár. Þá var brotaþoli spurð við hvaða kringumstæður það hefði verið og svaraði hún: „Ég bara hef ekki hugmynd um það, bara man það ekki ... En það hefur örugglega verið ... í einhverju svona þú veist“. Er hún var spurð hvort hugsanlegt væri að það hefði gerst í kynlífi þeirra svaraði brotaþoli: „Já það gæti vel verið.“

Brotaþoli var spurð um kynferðisleg samskipti sín við ákærða á árinu 2013 og hvort hann hafi í þeim samskiptum gengið lengra en hún vildi. Svar hennar var svohljóðandi: „Já það var eitt skipti þegar við vorum í íbúðinni þá ... hélt hann áfram og ... vildi að ég segði okey þú veist ef ég mundi gefast upp eða eitthvað en ég notaði frekar hættu, og ég sagði bara hættu.“ Hann hafi ekki virt það alveg en „þá ... var ég að hitta hann ... við vorum að hittast og þá að sama skapi var ég svona þú veist kannski já gaf honum það kannski bara meira, já okey þú veist.“ Hún sagðist hafa beðið hann „bara um að hætta, það er rosalega erfitt þegar einhver heldur þér niðri og er að ráðast á þig að segja eitthvað sérstakt orð það bara einhvern veginn kemur ekki út úr ... munninum á þér. Eða ég held, jú það getur vel verið að ég hafi sagt það síðan á endanum, náð að segja það á endanum ... en ég var bara að segja hættu og biðja hann um að hætta og reyna að flýja frá honum.“ Hún kvaðst ekki hafa verið farin að treysta ákærða á þessum tíma en samt hitt hann í einrúmi. Hún hafi hugsað „meira að segja ... það væri þá kannski bara ágætt ef hann myndi ... drepa mig ... hausinn á mér var  rosalega ruglaður á þessum tíma ... og mér fannst ég bara eiga þetta skilið í rauninni, það var bara einhvern veginn, ég veit ekki hvernig ég get útskýrt það frekar því að auðvitað skammast ég mín ... ofboðslega mikið fyrir þetta og ég veit ekki ... hvernig ég get afsakað ... að hafa ... haldið áfram samskiptum við hann“.

IV

Fjórum dögum eftir atvik þau er 2. ákæruliður lýtur að, föstudaginn 7. desember 2012, hringdi barnsfaðir brotaþola til lögreglu og óskaði eftir tíma til að leggja fram kæru vegna kynferðisbrots. Fram kom í símtalinu að gerandinn væri þekktur og vinur brotaþola. Var henni boðið að mæta til skýrslutöku daginn eftir sem hún og gerði og er efni skýrslunnar rakið í hinum áfrýjaða dómi.  

Spurð um það fyrir dómi hvort barnsfaðirinn hafi einhvern tímann rætt um það að annað hvort myndi brotaþoli kæra atvikið eða hann berja ákærða svaraði brotaþoli því neitandi. Hún sagði að barnsfaðirinn „ýtti mér aldrei út í að kæra en hann sagðist styðja það ... þegar ég sagði honum að ég ætlaði að kæra og ég var búinn að segja við alla ... sem ... fréttu þetta einhvern veginn að ég ætlaði ekki að kæra og svo bara eftir ... annað skiptið þá bara svona varð ég að gera það, hann var búinn að ganga svo langt að ég bara varð að kæra ... þetta var búið að brjóta mig svo geðveikt mikið niður.“ Um það spurð af hverju barnsfaðirinn en ekki hún sjálf hafi hringt til að kæra svaraði brotaþoli því til „að ég þorði því ekki, þannig að ég spurði hvort hann eða mamma gætu hringt og mamma var í svolítið mikilli geðshræringu yfir þessu líka“ þannig að hann hafi tekið það að sér.  

Brotaþoli kvað það vel geta verið að hún hafi eftir atvikið 26. október 2012 rætt það við ákærða að hún ætlaði að kæra hann. „Já það getur vel verið að ég hafi einhvern tímann nefnt það sko, að ég hafi verið á báðum áttum ... ég vissi alveg að þetta væri nauðgun ... En hélt að þetta væri bara svona eitt tilvik þarna ... ég náttúrulega þekkti X og vildi ekkert vera að kæra hann, mig langaði ekkert til þess að hann færi í fangelsi ... Ég var bara komin á það að ég ætlaði ekki að kæra hann ... við vorum bara orðnir vinir þá og ég var ... bara ... að reyna að gleyma hinu.“   

Er brotaþoli var spurð hvort barnsfaðir hennar hefði eftir atvikið 26. október 2012 hvatt hana til að kæra svaraði hún: „Nei í rauninni ekki ... ég ákvað þetta sjálf að kæra, en ég sagði samt alveg við alla að mig langaði ekki að kæra ... margir voru bara af hverju kærirðu þetta ekki.“ Spurð hvort hún hafi rætt atburðinn 26. október 2012 við barnsföður sinn áður en atvikið varð 3. desember sama ár sagði brotaþoli að sig minnti ekki, heldur hafi hún „bara sagt honum þetta eftir 3. sko. En hann las reyndar eitthvað ... facebook samtal á milli mín og X þar sem X segir ... að að ég þurfi eitthvað að reyna að hafa lágt um það að hann hafi nauðgað mér eða eitthvað eða hann var eitthvað hræddur um að einhver mundi frétta að hann hafi nauðgað mér.“ Brotaþoli var spurð hvort hún kannaðist við umræðu um að ákærði hefði legið undir hótunum um að verða barinn vegna atviksins 26. október og svaraði hún þá: „Ég alla veganna man ekki eftir einhverjum, hafi haft samband við hann yfir því, það voru alveg margir sem sögðu við mig bara, þú veist ef þú ætlar ekki neitt að kæra hann þá bara verðurðu að lemja hann eða eitthvað en þú veist það getur vel verið að ég hafi sagt X það, en eins og ég segi þetta voru bara fyrstu viðbrögð, þau ... sem að fréttu þetta langaði bara til þess að gera eitthvað við hann en ... hann var samt aldrei í neinni hættu, því að það var enginn að fara að gera neitt. Og hann vissi það og ég sagði honum það margoft“.

V

Í 1. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung að morgni föstudagsins 26. október 2012 á heimili brotaþola þröngvað henni til samræðis með því að ýta henni niður á hnén, halda höndum hennar fyrir aftan bak og hafa við hana samfarir aftan frá. Atvikum á heimili brotaþola umrætt sinn er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt því sem þar kemur fram hófst rás atburða með því að ákærði flengdi brotaþola með belti því sem hann hafði tekið með sér en tók síðan um úlnlið hennar, ýtti henni niður á rúm og hafði við hana samfarir. Um þetta er ekki deilt heldur hitt hvort samfarirnar hafi verið knúnar fram með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung, eins og áskilið er í 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða hvort samfarirnar hafi verið á sömu nótum og aðrar kynlífsathafnir ákærða og brotaþola fram að því.

Samkvæmt 18. gr. almennra hegningarlaga er verknaður sem refsing er lögð við samkvæmt þeim lögum ekki saknæmur nema hann sé unnin af ásetningi eða gáleysi. Fyrir gáleysisbrot skal því aðeins refsa að sérstök heimild sé til þess í lögunum en slík heimild er ekki í 194. gr. almennra hegningarlaga. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 61/2007 og breyttu XXII. kafla almennra hegningarlaga segir að ásetningur verði að ná til allra efnisþátta verknaða eins og þeim sé lýst í refsiákvæðum. Í því felist að hann verði að taka bæði til verknaðaraðferðar og kynmakanna. Ásetningur þurfi einnig að ná til þess að nota hinar ólögmætu verknaðaraðferðir til þess að ná fram kynmökunum. Þá verði ásetningur að taka til þvingunarinnar þegar brotið sé gegn 194. gr. en í því felist að þetta sé gert gegn vilja brotaþola þannig að samþykki þolandans sé ekki fyrir hendi. Loks þurfi ásetningur að ná til orsakasambandsins á milli verknaðaraðferða sem leiða til þvingunar og kynmaka. Þá segir í athugsemdunum að þegar „ákærði neitar sök getur verið mjög erfitt að sanna huglæga afstöðu hans til verknaðarins. Verða dómstólar þá að meta hvað ákærði hafi hlotið að gera sér grein fyrir og tvinnast þá oft saman sakarmat og sönnunarmat. Mat ákærða á aðstæðum er lagt til grundvallar þannig að ekki er unnt að refsa honum fyrir nauðgun ef hann hafði réttmæta ástæðu til að ætla að þolandi væri samþykkur kynmökunum. Ástæða þess er sú að þá er ekki fyrir hendi ásetningur til að þvinga þolanda til kynmaka.“

Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að hann hefði tekið með sér beltið umrætt sinn til að koma brotaþola á óvart „en allt hitt það orsakaðist bara eins og áður fyrr ... hjá okkur.“ Hann kvaðst hafa komið inn í herbergi brotaþola og „það er bara svona pínu talað saman ... í rauninni ekkert mikilvægt og ... við bara förum svona beint í það já. Eða svona ég fer beint í það, eins og var venjulega vaninn og mér fannst hún ekkert taka því öðru vísi heldur en venjulega, enda var ég ekki vanur neinu öðru en því sem hún fílaði og var búin að lýsa fyrir mér og við vorum búin að stunda áður ... ég byrjaði á því að flengja hana pínu með beltinu, en hætti því fljótlega eða svona það var ekkert mikið að ganga ... því að hún bara streittist á móti því, eins og var venjan og þetta var bara svona, þetta fór bara beint út í að vera alveg eins og við vorum búin að gera alltaf áður og ég bara þarna tek í hendurnar á henni og set hana á rúmið ... tek í báðar hendurnar hennar, hérna um úlnliðinn og þú veist ýti henni niður“. Sagði ákærði að hendur brotaþola hefðu verið fyrir aftan bak og „síðan þá tek ég hana úr buxunum og já set, hef samfarir við hana þar bara.“ Er ákærði var spurður hvort brotaþoli hefði sagt eða gert eitthvað svaraði hann því neitandi og kvað þetta hafa „bara verið eins og venjulega.“

 Við mat á því hvort ákærði hafi við þær aðstæður sem hér var lýst haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykk samförunum, er þess fyrst að geta að þeim ber báðum saman um að fljótlega eftir að kynni tókust með þeim í ágúst eða september 2012 hafi þau byrjað að stunda kynmök, þar sem ákærði beitti brotaþola valdi með samþykki beggja. Af því sem áður er rakið er ljóst að valdbeiting var samkvæmt frásögn beggja ríkur þáttur í kynferðislegum samskiptum þeirra. Ákærði lýsti því svo að hann hafi haft hneigðir til að flengja brotaþola en langanir hennar lotið að því að hann yfirbugaði hana líkamlega og héldi henni fastri á höndum en hún streittist á móti meðan á samförum stæði og um nauðgunarleik hafi verið að ræða. Brotaþoli kvaðst ekki hafa upplifað kynferðislegt háttarlag þeirra sem slíkan leik en oft hafi það þó verið þannig að ákærði hafi náð að halda höndum hennar meðan á samförum stóð og í því hafi falist ákveðin áskorun fyrir ákærða að ráða við hana. Slagsmál hafi því verið þáttur í kynlífi þeirra. Brotaþoli kannaðist við langanir ákærða til að flengja hana, hún kvaðst gjarnan hafa látið það eftir honum og fannst að eigin sögn gaman að geta staðið undir löngunum hans í þeim efnum. Ákærði kvað brotaþola fyrsta rekkjunaut sinn þar sem valdi hafi verið beitt í kynlífi en hún kvaðst hafa samrekkt með öðrum þar sem sambærilegar kynlífsathafnir hafi verið iðkaðar.

Í öðru lagi skiptir máli hvernig ákærði og brotaþoli lýstu aðdraganda þess að valdi var beitt hverju sinni í kynmökum þeirra. Ákærði kvað samskiptin hafa þróast á þann veg að hann hafi yfirleitt átt upptökin, svo sem með flengingum. Eftir það hafi engu skipt hvað hún segði eða gerði því ekki hafi verið aftur snúið. Þetta hafi verið þær reglur sem þau hefðu sett sér en þó hafi það verið svo að kæmi brotaþoli því skýrlega til skila að hún vildi ekki hefja leikinn eða halda honum áfram hafi hann virt það. Brotaþoli kvað aðdragandann yfirleitt hafa verið þann að þau hafi byrjað á því að kyssast og klæða sig sjálf úr fötunum en síðan farið að slást, fíflast og kýtast en allt hafi það þó verið í góðu og bæði sátt. Hún kvað það hafa gerst í samskiptum þeirra að ákærði hafi byrjað að beita valdi en hún gefið honum til kynna að hún vildi ekki halda áfram og hann þá virt það.

Í þriðja lagi kom fram hjá bæði ákærða og brotaþola fyrir dómi að þau hafi gjarnan rætt um kynlíf sitt og langanir í þeim efnum og fylgt þeim löngunum eftir. Eitthvað hafi verið rætt um að nota öryggisorð en ekkert orðið úr því. Brotaþoli sagði þau ekki hafa þurft að nota öryggisorð því henni hafi alltaf nægt að segja ákærða að hætta og það hafi hann virt. Ákærði kvað þau bæði hafa borið áverka eftir kynlíf sitt og hafi hún til dæmis verið með mar á handleggjum og rispur á rassi eftir hann, en hún hafi veitt honum áverka með því að klípa hann og bíta. Frásögn brotaþola um það, hvort áverkar hefðu hlotist af í kynlífi þeirra, var á hinn bóginn ekki á einn veg en þó kannaðist hún við að hafa bitið ákærða við kynmök.

Í fjórða lagi er til þess að líta að samkvæmt frásögn ákærða og brotaþola er ljóst að á þeim tíma er atvik málsins urðu hafi þau verið í einhvers konar sambandi sem þó virðist hafa verið fremur laust í reipum. Ákærði kvað þau „eiginlega bara næstum hafa verið byrjuð opinberlega saman“ og hún kvað þau hafa verið á „sjéns“ þar sem þau hafi byrjað sem vinir en svo hafi það þróast í samband á milli þeirra þannig að þau hafi gist oft hvort hjá öðru. Hvert svo sem eðli sambands þeirra var þá virðist það ekki hafa ráðið úrslitum um hvort þau höfðu kynmök hverju sinni. Þannig voru þau til dæmis ekki viss um hvort þau voru í sambandi þegar brotaþoli veitti ákærða fyrrgreinda bitáverka.

Í fimmta lagi kom fram hjá brotaþola að eftir atvikið 26. október 2012 hafi hún tekið upp kynferðislegt samband við ákærða á nýjan leik, þótt hún hafi fyrir það atvik upplifað svipaða hegðun hjá honum og hún hafi kynnst af hans hálfu umrætt sinn. Þá skýrði brotaþoli svo frá að eftir þetta atvik hafi ákærði að sumu leyti færst í aukana við valdbeitingu sína. Það stóð því þó ekki í vegi að brotaþoli ætti í svipuðum kynferðislegum samskiptum við ákærða og áður höfðu tíðkast þeirra í milli allt fram á mitt ár 2013, þótt með einhverjum hléum væri.

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag. Við mat á því hvort saknæmisskilyrði 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga sé fullnægt verður ákærði því að njóta þess vafa sem er í málinu um þá huglægu afstöðu sem bjó að baki verknaði hans. Þegar til alls þess er litið sem hér var rakið um samskipti ákærða og brotaþola verður við það að miða að ákærði hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykk samförum við hann umrætt sinn. Samkvæmt því hefur ákæruvaldið ekki axlað þá sönnunarbyrði, sem á því hvílir eftir 108. gr. laga nr. 88/2008, að sýna fram á ásetning ákærða til nauðgunar greint skipti og þar með saknæmi verknaðar hans. Er því ekki fallist á með ákæruvaldinu að ákærði hafi umrætt sinn gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og verður hann því sýknaður af sakargiftum samkvæmt 1. lið ákæru.

VI

Í 2. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa aðfaranótt mánudagsins 3. desember 2012 í tilgreindu iðnaðarhúsnæði á [...] haft önnur kynferðismök við brotaþola en þá hafi hann rifið í hár hennar, dregið hana niður í sófa þar sem hann hélt henni, tekið um höfuð hennar, snúið henni á magann og stungið fingrum í leggöng hennar og endaþarm. Af atlögunni hafi brotaþoli hlotið marbletti á báða úlnliði og á innanverðan hægri upphandlegg, eymsli aftan á hálsi og eymsli í hársverði. Atvikum í iðnaðarhúsnæðinu umrætt sinn er lýst í héraðsdómi. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum lið ákæru.

VII

Í 3. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung aðfaranótt laugardagsins 15. desember 2012 á heimili sínu þröngvað brotaþola til samræðis og annarra kynferðismaka með því að hafa stungið fingri í endaþarm hennar. Við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi kannaðist ákærði við að hafa árangurslaust reynt að hafa samfarir við brotaþola í endaþarm en hann neitaði því á hinn bóginn eindregið að hafa stungið fingri í endaþarm hennar. Neitun ákærða var ekki skýrlega borin undir brotaþola við meðferð málsins fyrir dómi en samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Gegn eindreginni neitun ákærða verður ekki slegið föstu að atvik hafi að þessu leyti verið með þeim hætti sem greinir í ákæru. Verður því ekki talið að færðar hafi verið viðhlítandi sönnur á að ákærði hafi gerst sekur um það brot sem honum er gefið að sök í þessum þætti 3. ákæruliðar.

Í annan stað var ákærða gefið að sök í þessum lið ákæru að hafa tekið í höfuð brotaþola og ýtt því að getnaðarlimi sínum og neytt hana til að hafa við sig munnmök. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sýknaður af þessum þætti sakargifta í 3. ákærulið og er hann sem fyrr segir ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi. Til grundvallar þeirri niðurstöðu héraðsdóms lá sú afstaða að sá vafi þætti leika á að munnmökin hafi verið að brotaþola nauðugri að sýkna bæri ákærða.

Í þriðja lagi er ákærða samkvæmt þessum ákærulið gefið að sök að hafa ýtt brotaþola á magann í rúmið, sett olnboga í bak hennar og haft við hana samfarir aftan frá, ásamt því að reyna að hafa við hana samfarir í endaþarm, allt að henni nauðugri. Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi hófust kynmök ákærða og brotaþola á heimili ákærða umrætt sinn með því að hún hafði við hann munnmök svo sem áður er rakið. Að þeim afstöðnum fóru brotaþoli og ákærði út fyrir hús til að reykja. Ber brotaþoli því við að þar sem hún hafi gleymt veski sínu hafi hún ekki getað notað þetta tækifæri til að yfirgefa ákærða. Þegar aftur var komið til herbergis ákærða hafi hann náð að taka buxur brotaþola niður, komið henni á magann, haldið henni niðri og haft við hana samfarir um leggöng aftan frá. Að þeim afstöðnum hafi ákærði samþykkt að hún hringdi og bæði lögreglu um að koma til að vera viss um að komast út. Síðan hafi hún gengið út úr húsinu ásamt ákærða og þau bæði staðið þar utan dyra þegar lögreglan kom.

Fyrir dómi lýsti ákærði rás atburða þannig að hann hafi „tekið brotaþola yfir“ eins og hann komst að orði og borið sig að eins og hann væri að fara að flengja hana „en ég flengdi hana ekkert af því að ég vissi það, þú veist mátti í rauninni ekkert flengja hana ... útaf bara hljóðinu það heyrist svo mikið milli herbergja hjá mömmu og pabba“. Í framhaldinu lýsti hann munnmökunum og sagði að „ég held pínu áfram og hérna síðan stundum við okkar harkalega kynlíf, hérna læt hana fara á hérna magann og hérna tek í hendurnar á henni og svona er að hafa samfarir við hana þá eins og venjulega og það entist ekkert mjög lengi, þá svona meira bara út af því hvað heyrðist hátt í okkur ... heyrði síðan í símanum mínum ... og síðan spurði hún mig hvort hún mætti fá að hringja í lögregluna ... og hún hringdi í lögregluna og þar erum við á palli bara svona, svona tröppur niður stigann hjá mér við útidyrahurðina og stöndum við þar bara og erum að reykja saman og ... lögreglan kemur síðan á svæðið.“ Spurður um hvort brotaþoli hafi í samförunum streist á móti eða öskrað á hann að hætta svaraði ákærði því til að það hafi ekkert verið „skiljanlegt alla veganna.“ Í framhaldinu var ákærði spurður um hvort hann liti svo á að í öll þau þrjú skipti, sem hann væri ákærður fyrir kynferðisbrot gegn brotaþola, hafi kynmökin verið með samþykki hennar. Kvað hann já við og sagðist aðspurður þvertaka fyrir að hafa brotið gegn brotaþola.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi óku lögreglumenn brotaþola heim 15. desember 2012 eftir þau atvik sem 3. ákæruliður lýtur að. Því lýsti brotaþoli þannig fyrir dómi að þá hafi barnsfaðir hennar verið „fyrir utan heima og hann var búinn að vera að senda mér sms af því þú veist ég átti náttúrulega að vera löngu komin heim og búin að láta hann vita á leiðinni heim að ég væri að koma heim.“ Innt eftir því hvort þau hafi verið tekin saman aftur þarna kvað brotaþoli svo ekki hafa verið en þau hafi samt alveg verið „að tala saman“. Spurð hvort barnsfaðirinn hafi verið farinn að gista hjá henni sagði brotaþoli að hann „gerði það eiginlega bara fljótlega eftir ... fyrsta tilvikið ... Við eigum tvö börn saman ... við hjálpumst að svæfa og allt þetta“. Brotaþoli kvað barnsföður sinn hafa verið fyrir utan húsið þegar lögregla kom heim með hana og „hann einmitt kemur með þessa spurningu, sem mig vantaði svo að geta svarað, bara segir, hann sagði bara ... nauðgaði hann þér aftur og ég sagði bara já, þá gat ég loksins sagt það, en þá var ... löggan farin ... þannig að ... ég fór þá bara strax daginn eftir á sjúkrahúsið“.  

Annar þeirra lögreglumanna er ók brotaþola heim umrætt sinn gaf skýrslu fyrir dómi. Hann sagði að „við fréttum svo af því að hún hafi kært þarna síðar um daginn ... við erum þarna raunar um morgun, eldsnemma. Og já hún var mjög róleg ... og þáði það að við skutluðum henni heim, sem er raunar bara næsta gata við hliðina og þá segir hún frá því að hann hafi sem sagt beitt sig ofbeldi, rifið í hárið á sér og er að meina sér útgöngu og öskrar á sig þangað til að pabbi hans kom.“ Þetta hafi verið lýsingin sem brotaþoli gaf á vettvangi, hún hafi ekkert minnst á kynferðislegt ofbeldi og verið mjög róleg og yfirveguð. Sama hafi verið um ákærða að segja. Hann hafi verið mjög eðlilegur að sjá, ekkert flóttalegur eða einkennilegur og ekkert í kringumstæðum bent til þess að eitthvað torkennilegt hefði verið í samskiptum þeirra. Nánar svaraði lögreglumaðurinn því til að „það sem við vorum að ræða um eftir á þegar við vissum að, að hún hafði kært, kært fyrir þennan ... alvarlega atburð að aðkoman var ... þvílíkt róleg ... og bara eðlileg ... Sem sagt við fáum tilkynningu um að, að hún sé hindruð í því en þau eru svo bæði úti þegar við komum ... svo gaf hún þessa skýringu sem sagt á leiðinni heim til hennar.“ Aðspurður kvaðst hann hafa byrjað störf í lögreglunni 1973 og hafi þetta ekki verið í fyrsta skiptið sem hann hafi farið í útkall þar sem kynferðisbrot eigi að hafa átt sér stað. Er hann var að því spurður hvort hann gæti lagt mat á þennan atburð í þeim samanburði sagði lögreglumaðurinn að „það er bara eins og svart og hvítt. Yfirleitt er það þá, ef við tölum um kvenfólk sem hefur orðið fyrir því, þá eru þær náttúrulega mjög miður sín hvort sem þær hringja í okkur ... eða kemur á stöðina eða hvernig sem það er. Þær náttúrulega bera þess öll merki, hágrátandi og annað en þarna var það ekki ... bara alls ekki“.

Eins og áður greinir komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að sá vafi léki á að munnmök brotaþola við ákærða umrætt sinn hafi verið að henni nauðugri að sýkna bæri ákærða af þeim sakargiftum. Að munnmökunum afstöðnum fóru ákærði og brotaþoli út fyrir hús til að reykja en sneru síðan aftur til herbergis ákærða og er ágreiningslaust að þá héldu kynmök þeirra áfram. Þegar þetta er virt ásamt framburði lögreglumanns þess er kom á vettvang umrætt sinn og ók brotaþola heim þykir einnig sá vafi leika á að samfarir þeirra greint skipti hafi verið að henni nauðugri að sýkna ber ákærða einnig af þeim þætti í 3. ákærulið að hafa neytt brotaþola til samfaranna.

VIII

Verknaður sá sem ákærði er sakfelldur fyrir samkvæmt 2. lið ákæru fól í sér alvarlegt brot gegn friðhelgi líkama brotaþola og var háttsemi hans gagnvart henni niðurlægjandi. Eins og sambandi ákærða og brotaþola var háttað er fallist á með héraðsdómi að ákvæði 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga eigi ekki við þegar refsing ákærða er ákveðin. Með hliðsjón af því verður refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Ákærði var tvítugur að aldri er hann framdi brotið og hefur ekki áður sætt refsingu. Að því gættu en þó einkanlega með hliðsjón af öllum atvikum máls þessa þykir mega ákveða að fullnustu refsingar ákærða skuli fresta og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brot hans var til þess fallið að valda brotaþola vanlíðan og hlaut hún nokkrar ákomur af. Með hliðsjón af því en að öðru leyti að teknu tilliti til samskipta ákærða og brotaþola eins og þeim hefur áður verið lýst eru miskabætur ákveðnar 500.000 krónur sem bera vexti eins og í dómsorði greinir.

Í ljósi úrslita málsins og með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða þriðjung sakarkostnaðar eins og hann var ákveðinn í héraði og þriðjung áfrýjunarkostnaðar, þar með talið af málsvarnarlaunum verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu refsingar og hún falla niður að liðnum 3 árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. desember 2012 til 17. nóvember 2013 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði þriðjung sakarkostnaðar eins og hann var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði greiði þriðjung áfrýjunarkostnaðar málsins sem samtals er 1.781.789 krónur, þar með talið af málsvarnarlaunum verjanda síns, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, 1.506.000 krónum, og af þóknun réttargæslumanns brotaþola, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónum.

Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. apríl 2014.

Mál þetta, sem var dómtekið 11. febrúar sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 17. september 2013 gegn X, kt. [...], [...], [...],

,,fyrir nauðganir, framdar á árinu 2012 á [...] með því að hafa í neðangreind skipti með ofbeldi og ólögmætri nauðung þröngvað A til samræðis og annarra kynferðismaka svo sem hér greinir:

1.               Að morgni föstudagsins 26. október á heimili A að [...] á [...] þröngvað henni til samræðis en ákærði ýtti A niður á hnén, hélt höndum hennar fyrir aftan bak og hafði við hana samfarir aftan frá.

2.               Aðfaranótt mánudagsins 3. desember í iðnaðarhúsnæði að [...], haft önnur kynferðismök við A en ákærði reif í hár A og dró hana niður í sófa þar sem hann hélt henni, tók um höfuð hennar, sneri henni á magann og stakk fingrum í leggöng hennar og endaþarm.  Af atlögunni hlaut A marbletti á báða úlnliði og á innanverðan hægri upphandlegg, eymsli aftan á og hliðlægt á hálsi og eymsli í hársverði.

3.               Aðfaranótt laugardagsins 15. desember í svefnherbergi ákærða að [...], þröngvað A til samræðis og annarra kynferðismaka en ákærði tók í höfuð A og ýtti höfði hennar að getnaðarlim sínum og neyddi hana til að hafa við sig munnmök.  Því næst ýtti hann henni á magann í rúmið, hélt í hár hennar, setti olnboga í bak hennar og hafði samfarir við hana aftan frá, stakk fingri í endaþarm hennar og reyndi að hafa við hana samfarir í endaþarm. Ákærði hélt jafnframt fyrir munn A og tók um háls hennar.  Af atlögunni hlaut A eymsli í hársverði, á enni og yfir barkakýli, marbletti á handleggi, úlnliði, hendur, fætur og bak, húðrispur á innanverðar rasskinnar og grunna rifu við endaþarm.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 2.500.000 í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 26. október 2012 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Auk þess er krafist hæfilegrar þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi verði slíkur reikningur lagður fram, auk virðisaukaskatts.“

Ákærði krefst sýknu, en til vara vægustu refsingar.  Þá krefst hann þess að bótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að bætur verði dæmdar miklu lægri en krafist er.  Þá krefst skipaður verjandi hans hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

I.

Náin kynni tókust með ákærða og brotaþola í ágúst eða september 2012.  Ber þeim saman um að fljótt hafi þau byrjað að hafa samfarir þar sem ákærði beitti brotaþola valdi með samþykki beggja, einkum með flengingum en einnig með því að ákærði hafi yfirbugað hana líkamlega og síðan haft samfarir við hana.

Brotaþoli sleit sambandinu 25. október 2012, daginn fyrir atvik sem ákærði er sakaður um í 1. tölulið ákæru.  Skömmu síðar tóku þau sambandið upp aftur, en brotaþoli sleit því einhverju áður en atvik gerðust sem 2. tölulið ákæru varðar.

Brotaþoli kom á lögreglustöð 8. desember 2012 og kærði þá verknaði sem ákærða eru gefnir að sök í þessum töluliðum ákærunnar.

Aðfaranótt 15. desember 2012 kom brotaþoli í teiti þar sem ákærði var staddur og fóru þau saman heim til hans.  Samkvæmt skýrslu lögreglu hringdi brotaþoli klukkan 05:09 og óskaði aðstoðar þar sem henni væri haldið þar nauðugri. Lögregla hitti ákærða og brotaþola fyrir utandyra og ók brotaþola heim.  Er sagt í skýrslunni að hún hafi greint frá því að hafa farið heim til hans samkvæmt ósk hans símleiðis til viðræðna, þá nýkomin heim eftir að hafa verið að skemmta sér.  Hann hafi skyndilega orðið reiður, öskrað á hana, ýtt við henni, rifið í hár hennar og öskrað á hana. Faðir hans hafi haft afskipti af þeim og hún þá komist út.  Hún sé ekki viss um að hún muni kæra atvikið.

Brotaþoli og ákærði tóku enn upp náin kynni á öndverðu ári 2013, en uppúr slitnaði í marsmánuði.

Ákærði og brotaþoli bjuggu í húsum sem snúa bakhlið hvort að öðru, þó þau standi við sína götuna hvort, þannig að aðeins var yfir bakgarða að fara frá hvoru til annars.

Í málinu liggja fyrir yfirgripsmikil samskipti milli ákærða og brotaþola og hvors þeirra um sig við aðra með rafrænum samskiptamiðlum, þ.e. um síma og tölvur.

Sem áður segir kærði brotaþoli fyrstu tvö tilvikin þann 8. desember 2012.  Samkvæmt samantekt lögreglu um framburð hennar greindi hún frá því um fyrra tilvikið að hún hefði slitið sambandi sínu við ákærða að morgni 25. október. Þau hefðu þann dag skipst á skilaboðum um síma, þar sem hún hefði m.a. sagt honum að hún hefði átt náin samskipti við B barnsföður sinn um miðjan daginn.  Um kvöldið og aðfaranótt 26. október hefðu þau skemmt sér sitt í hvoru lagi og ákærði haldið áfram að senda skilaboð, sem hún hefði lítið svarað.  Ákærði hefði hringt eftir að hún kom heim. Þau hefðu farið að rífast. Faðir ákærða hefði truflað hann og hann þá beðið um að fá að koma til hennar.  Hún hefði leyft það.  Hann hefði verið ógnandi og reiður og tekið í hár hennar, en síðan farið, um klukkan tvö.

Hún hefði vaknað um klukkan 9 og séð símskilaboð frá ákærða.  Hún hefði svarað og hann farið að afsaka sig.  Hún hefði leyft honum að koma yfir til sín.  Hún hefði verið ,,timbruð“ og aðeins klædd bol og nærbuxum.  Hún hefði náð sér í bjór til að hafa sem ,,afréttara“.  Ákærði hefði komið inn um ólæstar útidyrnar og inn í herbergi hennar.  Hún hefði snúið baki við honum og ekki ætlað að ræða við hann, því hún hefði verið reið við hann.  Hann hefði staðið fyrir aftan hana með belti í hendinni sem hann hefði haft með sér og reynt að berja hana, en hún varist.  Hann hefði þá náð að slá hana í andlitið.  Hann hefði ýtt henni að rúminu og byrjað að losa um buxur sínar.  Hún hefði sagt að hann væri ,,ekki að fá að ríða núna“ en hann hefði haldið áfram, fleygt henni niður, þannig að hún hefði kropið við rúmið og lotið yfir það.  Hann hefði tekið nærbuxur hennar til hliðar, haldið fast um handleggi hennar og haft samfarir við hana aftan frá, uns honum hefði orðið sáðfall.  Hún hefði sagt honum að hætta, en hún myndi ekki hvort hann hefði sagt eitthvað fyrir utan að hann hefði spurt ,,hvers vegna allir aðrir mættu ríða henni og hvers vegna B mætti ríða henni“ og þannig hefði sér fundist hann vera að sannfæra sig um að hann mætti þetta.

Eftir samfarirnar hefði hún dregið sig upp í rúmið, skolfið og verið hrædd. Ákærði hefði beðist afsökunar, komið upp í rúmið og ekki yfirgefið hana fyrr en klukkan hálftvö.

Hún hefði ekki haft í hyggju að kæra þetta tilvik.  Ákærði hefði sannfært hana um að hann hefði ekki ætlað að gera þetta og myndi ekki gera það aftur.  Hún hefði trúað því að þetta hefði verið einstakt tilvik.  Hann hefði aldrei áður beitt hana ofbeldi, en hann hefði ,,fantasíur“ um flengingar og þau hefðu stundað gróft (,,röff“) kynlíf, en hún hefði ætíð getað stöðvað hann áður en hann meiddi hana.

Um seinna tilvikið er haft eftir brotaþola í sömu samantekt að hún hefði saknað ákærða og byrjað að senda honum textaboð og þau byrjað saman aftur.  Hún hefði þó aldrei náð að treysta honum og slitið sambandinu á ný og ákærði sýnt því skilning. Vinátta hefði haldist með þeim.

Hinn 2. desember hefði hún verið að lesa undir próf og ætlað að lesa næstu nótt.  Hún hefði vitað af ákærða í iðnaðarhúsnæði sem hann hefði haft til afnota og farið þangað að undangengnum skilaboðum milli þeirra. Þau hefðu setið þar í sófa.  Hún hefði farið að stríða honum með því að hóta að brenna hár af höndum hans með kveikjara og sígarettu.  Hann hefði sagst myndu flengja hana ef hún gerði svo.  Hún hefði samt gert svo.  Hann hefði þá flengt hana.  Hún hefði ekki lagt honum það til lasts, því hann hefði verið búinn að vara hana við.

Að þessu undangengnu hefði ákærði þurft að klofa yfir fætur hennar, þar sem hún hefði setið og haft þá uppi  á borði.  Hún hefði þá hótað að sparka í punginn á honum og hann þá sagst myndu flengja hana ef hún gerði svo.  Hún hefði sagst ekki ætla að gefa honum tilefnið.  Þá hefði hann lyft fótum hennar og flengt hana.  Hún hefði þá sparkað í punginn á honum. Þá hefði hann reynt að flengja hana en hún barist um.  Hann hefði samt náð að fara með hendur inn fyrir buxur hennar og sett fingur í endaþarm hennar og kynfæri. Hún hefði reiðst því mjög. Að þessu búnu hefði hún farið að sækja fjöltengi til að setja tölvu sína í samband.  Er hún hefði komið til baka hefði ákærði teygt sig til hennar og flengt hana.  Þá hefði hún slegið hann fast með fjöltenginu svo hann hefði meitt sig.  Hún hefði sagt honum að hann hefði fengið að kenna á eigin bragði og byrjað að klípa hann. Þá hefði hann rifið í hár hennar og snúið hana niður í sófann, síðan sest á hálsinn á henni, hótað að drepa hana og sagt ,,bæ bæ dauða stelpa“, og loks farið aftur með höndina ofan í buxur hennar og stungið fingrum í kynfæri hennar og endaþarm. Síðan hefði hann hætt, farið út og komið inn aftur og sagst ætla heim og spurt hvort hann ætti að skutla henni.  Hann hefði spurt hvort þau ,,væru ekki góð“ en hún vart svarað því.  Hún hefði verið að hugsa um að aka beint upp á lögreglustöð, en ákærði hefði ekið á eftir henni allan tímann.  Hann hefði að lokum sent henni textaboð um að hún mætti vekja hann með skilaboðum þegar hún færi í prófið.

Hún hefði eftir þetta greint ákærða frá að hún ætlaði að kæra hann. Hann hefði hótað sjálfsvígi.

Brotaþoli fór á slysadeild daginn eftir. Samkvæmt afriti í bráðamóttökuskrá voru marblettir á úlnliðum og á innanverðum hægri upphandlegg, en ekki aðrir áverkar sjáanlegir. Þá er þess m.a. getið að brotaþoli hafi lýst því að árásarmaður hefði náð að setja fingur upp í leggöng og endaþarm og að hún hafi getið þess að hann hefði nauðgað henni áður.  Einnig kemur fram að hún hafi einkum sagst finna til í upphandleggjum, hársverði og úlnliðum.  Þá hafi augljóslega verið mikil andleg vanlíðan hjá henni.

Brotaþoli kærði atvik sem 3. tl. ákærunnar varðar þann 15. desember 2012.  Var tekin af henni skýrsla á lögreglustöð klukkan 18:21.  Í samantekt lögreglu um framburð hennar kemur efnislega fram um aðdraganda atviksins að samskipti hefðu verið milli þeirra ákærða um tölvu og síma, sem hefðu angrað hana.  Hún hefði verið að skemmta sér og hann verið kominn í teiti, er hún hefði loks hringt í hann vegna þess hve pirruð hún hefði verið orðin.  Hann hefði sagt henni að koma og hún orðið við því.  Vinkona hans hefði borið á hana að hún hefði skemmt mannorð hans með kæru.  Hún hefði skýrt málið fyrir henni og ákærði staðið hjá og sagt þetta vera rétt hjá brotaþola.

Eftir þetta hefði hún ætlað heim, en ákærði boðið henni fylgd.  Hún hefði leyft honum fylgdina.  Hann hefði boðið henni að koma inn með sér til að tala við sig og sagt að hann myndi ekki gera henni neitt.  Hún hefði talið þetta óhætt, enda vitað að foreldrar hans væru heima.

Ákærði hefði fyrst sótt bjór niður í kjallara handa þeim.  Er í herbergi hans hefði komið hefði hann viljað að hún færi úr kápunni og loks hjálpað henni úr henni.  Hún hefði setið í rúminu og hann þá tekið um höfuð hennar og látið hana hafa munnmök við sig uns hún kúgaðist.  Eftir smástund hefði hann hætt, en síðan náð henni aftur og látið hana hafa munnmök við sig á ný.  Hann hefði orðið hissa yfir því hvað hún hefði orðið hrædd.

Þau hefðu farið út að reykja.  Hún hefði gleymt veski sínu ,,og öllu“ uppi og ekki getað notað þetta tækifæri til að yfirgefa hann.  Þau hefðu farið inn aftur.  Hann hefði sagt að allt yrði í lagi og ekkert myndi gerast.  Hann hefði síðan byrjað að rífa í hár hennar og haldið henni niðri.  Hún hefði þá öskrað og byrjað með læti til að fá hann til að hætta.  Hann hefði sagst drepa hana ef hún öskraði aftur.  Hún hefði náð að ýta honum frá sér.  Þá hefði hann sagt: ,,ef þú gerir þetta aftur þá ríð ég þér í rassgatið.“  Hefði þetta síðan gengið áfram, ákærði hefði náð að taka buxur hennar niður og komið henni á magann, haldið henni þannig niðri og farið inn í leggöng.  Hún hefði öskrað og hann áfram hótað samförum í endaþarm.  Loks hefði hann tekið fyrir vit hennar og um hálsinn.  Sér hefði fundist sem myndi líða yfir sig en hann sleppt áður en til þess hefði komið.  Hann hefði stungið fingri í endaþarm og reynt að setja liminn þangað, en það ekki gengið því að hún hefði öskrað.  Hann hefði hætt vegna þess að hann hefði fengið textaboð í síma frá föður sínum.  Hann hefði sýnt henni boðin, þar sem hefði staðið ,,fariði út dópistaógeð“ og ,,ertu að kyrkja ógeðið.“  Hún hefði náð sínum síma og hringt í 112.  Ákærði hefði tekið af henni símann og skellt á.  Hún hefði sagt honum að hún þyrfti að komast út, ,,þú ert búinn að hóta að drepa mig og hóta að ríða mér í rassgatið.“  Hann hafi sagt: ,,ha, sagði ég það, gerði ég það?“ og látið eins og ekkert hefði gerst.  Hann hefði svo samþykkt að hún hringdi og hún beðið lögreglu að koma til að vera viss um að komast út.  Síðan hefði hún gengið út og ákærði með henni og þau staðið fyrir utan þegar lögreglan hefði komið.

Brotaþoli fór á slysadeild og í skoðun hjá kvensjúkdómalækni þann 15. desember áður en hún lagði fram kæru.  Í skýrslu C sérfræðings í kvensjúkdómum og fæðingarlækningum um réttarlæknisfræðilega skoðun kemur fram að eymsli voru í hársverði á hnakkasvæði og laus hár/flygsur.  Eymsli voru á enni hægra megin og framan á hálsi yfir barkakýli, þar sem einnig voru 3,5 sm langar daufar rispur.  Fjólublár marblettur, nýlegur, var á hægri upphandlegg framanverðum.  Tveir nýlegir marblettir voru á hægri úlnlið og aðrir tveir á þeim vinstri.  Nýlegur marblettur var á vinstra handarbaki.  Nýlegur marblettur var á vinstra hné, annar á vinstra læri aftan- og innanverðu, neðan miðju, enn einn á hægra læri aftan- og innanverðu ofan miðju og tveir á neðanverðu mjóbaki vinstra megin.  Á hvorri rasskinn um sig voru fjölmargar húðrispur í samræmi við klór og fjögur för eftir eftir neglur.  Húðrispur voru á innanverðum rasskinnum nálægt endaþarmsopi (anus) og í húðfellingu við endaþarmsop var 1 sm grunn rifa, ekki blæðandi.

Lögregla gerði húsleit í herbergi ákærða klukkan 22:34 þann 15. desember.  Var m.a. lagt hald á eyrnalokk sem fannst á rúmi.  Þá var lagt hald á svartar aðhaldsbuxur sem brotaþoli gat um í skýrslu fyrir lögreglu að orðið hefðu eftir þarna.

Ákærði var á tónleikum að kvöldi 15. desember og var sterk áfengislykt af honum er hann kom heim klukkan 22:31 og hitti lögregluþjóna þar fyrir. T rannsóknarlögreglumaður gerði honum að koma til skýrslugjafar daginn eftir, klukkan 13:00.  Klukkan 23:37 hringdi faðir ákærða í Jónas og óskaði aðstoðar, þar sem ákærði hefði hótað að skaða sig.  Heyrði Jónas að átök voru milli feðganna.  Er að var komið hélt faðir ákærða, sem var mjög æstur, honum niðri. Ákærði var handtekinn og færður í fangaklefa.  Vaktlæknir var kallaður til.  Segir í skýrslu Jónasar að læknirinn hafi gefið ákærða Imovane svefntöflu og tvær Sobriltöflur svo hann gæti sofið.

Daginn eftir var ákærði yfirheyrður, fyrst klukkan 15:25-16:30 um tilvik sem um ræðir í 1. og 2. tl. ákæru og síðan klukkan 21:36-22:00 um tilvik samkvæmt 3. tl. ákærunnar.

Ákærði bar samkvæmt samantekt lögreglu um skýrslu hans að náin kynni þeirra brotaþola hefðu byrjað þannig að þau hefðu kúrt saman og hún ýmist látið sem hún vildi sofa hjá honum eða ekki.  Hún hefði síðan sagt að hann mætti sofa hjá henni ef hann gæti ráðið við hana.  Hann hefði þá gert ,,þykjustu nauðgun“ með hennar vilja, þau hefðu slegist ,,smá“ og síðan farið að sofa, bæði ánægð.  Eftir þetta hafi þau farið að hittast meira og kynnast betur.  Sambandið hafi verið gott og þau hafi alveg verið að byrja saman fyrir alvöru, en brotaþoli hafi þó viljað vera með eldri körlum og stundum sagt að hún ætlaði að hætta með honum, þótt ekki yrði af því.

Að morgni 25. október hefði brotaþoli séð í síma hans samskipti hans við fyrri kærustu. Hún hefði síðan sent honum skilaboð og sagst ætla að segja honum upp. Skilaboð hefðu gengið milli þeirra.  Bæði hefðu skemmt sér um kvöldið.  Er þau hefðu verið komin hvort til síns heima hefði hún hringt. Þau hefðu rifist.  Hún hefði sagst hafa sofið hjá barnsföður sínum eftir að hún hefði sagt honum upp.  Þetta hefði verið særandi.  Hún hefði beðið hann að koma yfir til sín og hann gert það.  Þau hefðu rifist.  Hann hefði tekið í hárið á henni en síðan farið heim og ekkert hefði fleira gerst, nema þau hefðu sent einhver skilaboð.

Um klukkan níu hefði hann vaknað og séð textaboð frá henni. Þau hefðu einhvern veginn ákveðið að hann kæmi til hennar og þau myndu kúra og horfa á þátt.  Hann hefði farið yfir til hennar og þá hefði eitthvað gerst hjá honum.  Hann hefði verið ofsalega reiður.  Hann hefði haft með sér belti sem hann hefði ætlað að flengja hana með, en síðan hent henni á magann og bara ætlað ,,að ríða henni“ og þegar það hefði verið búið hefði hann séð hvernig henni leið.

Brotaþoli hefði sagt: ,,Heldur þú að þú sért að fá að ríða núna?“  Hann hefði ekki hlustað á hana, því hann hefði verið svo reiður.  Hann hefði fleygt henni á rúmið, svo að hún hefði kropið á gólfinu með efri hluta líkama á rúminu.  Hún hefði verið í bol og nærbuxum.  Hann hefði tekið buxurnar til hliðar og sett liminn inn í hana.  Hann hefði haldið höndum hennar fyrir aftan bak og haft samfarir við hana uns hann fékk sáðlát.  Hann hefði vitað eftir á að hann hefði haft samfarirnar gegn hennar vilja, en hann hefði verið reiður og ekki hugsað út í þetta meðan það gerðist.  Hann hefði séð marbletti á handleggjum hennar á eftir, en það hefði oft gerst áður þegar þau stunduðu svona kynlíf.  Hann hefði ekki verið ölvaður en ekki gert sér grein fyrir því hvort hún væri ölvuð.

Ákærði greindi frá því að þau brotaþoli hefðu oft haft samfarir þannig að ofbeldi hefði verið beitt, oft þannig að hann hefði viljað hafa samfarir en hún ekki, en þegar hann hefði ,,byrjað svona“ hefði hún viljað það líka.  Hann teldi að í þetta sinn hefði hann kannski í fyrstu ekki áttað sig á því að brotaþoli meinti það raunverulega að hún vildi þetta ekki.  Stundum hefðu þau stundað ,,bdsm“ kynlíf með bindingum og flengingum, rætt slíkt og horft saman á myndir þessa efnis.

Eftir þetta hefðu þau legið saman í rúminu og horft á mynd.  Hann hefði reynt að hugga hana, bæði hefðu verið í áfalli.

Um viku síðar hefði brotaþoli beðið um að hitta hann og upp úr því hefðu þau byrjað saman á ný.  Hún hefði sagt honum að hún ætlaði ekki að kæra hann fyrir þetta atvik.

Um atvik aðfaranótt 3. desember 2012 bar ákærði að hann hefði verið einn að læra í iðnaðarhúsnæði, þar sem hann og félagar hefðu haft aðstöðu til hljómsveitaræfinga, í tveimur herbergjum, þar sem hljóðfæri hefðu verið í öðru en stólar og sófi í hinu, sem hefði verið notað sem kaffistofa. Þau brotaþoli hefðu verið í samskiptum og hún ætlað að lesa alla nóttina.  Hefði hún fengið að koma til hans og þau ætlað að lesa hvort í sínu horni.

Oft hefðu þau leikið þann leik að ögra hvort öðru, þannig að hún hefði gert eitthvað og hann refsað henni.  Í þetta sinn hefði hún verið með kveikjara og sígarettu og hótað að brenna líkamshár af höndum hans.  Hann hafi hótað flengingu að launum. Bæði hefðu staðið við sitt.

Á eftir hefði það gerst að hún hefði setið í sófanum með fætur á stól og hann þurft að klofa yfir.  Hún hefði lyft fæti og hótað pungsparki, síðan sparkað og hann tekið eitthvað í hana.

Þau hefðu síðan haldið áfram lestri, en verið ,,pínu að slást“ og hann haldið henni niðri, setið ofan á henni og haldið í hár hennar.  Hún hefði verið þrjósk.  Hann hefði sagt að hún gæti lokið þessu með því að segja að hann hefði unnið, en hún ekki gert það.  Hann hefði sleppt henni.  Hún hefði verið orðin reið, sótt millistykki til að tengja við tölvu sína og slegið hann í lærið með því.  Hefði það valdið mesta sársauka sem hann hefði fundið.  Hann hefði orðið mjög pirraður, hún verið brjáluð.  Hún hefði farið að klípa hann.  Þá hefði hann reiðst ofsalega, tekið virkilega fast í hár hennar og ,,vippað“ henni niður í sófann.  Hann hefði viljað fá viðurkenningu á að hann hefði unnið og verið mjög harkalegur við hana.  Hann hefði sett fingur bæði í endaþarm og leggöng hennar. Síðan hefði hann áttað sig, hætt og farið yfir í hitt herbergið til að róa sig niður.  Hann hefði farið til baka og beðist fyrirgefningar, en séð að hún væri í sjokki.  Hún hefði ætlað að halda áfram lestri en hann lagt til að þau færu heim.  Hann hefði spurt hvort þau væru ekki sátt og hún hefði játað því.  Síðan hefðu þau farið heim, hvort á sinni bifreið.

Daginn eftir hefði brotaþoli sagt honum að hún væri með verki og hefði farið á slysadeild.  Hann hefði sagt henni að hann myndi greiða henni og greitt henni 10.000 krónur upp í lækniskostnað, þótt hún hefði verið því mótfallin.  Hann hefði beðið hana að segja barnsföður sínum ekki frá þessu, því að hann hefði óttast hefndir.

Spurður um hótanir og orðin ,,bæ, bæ, dauða stelpa“, kannaðist hann við að hafa látið þau falla, en það hefði verið án alvöru og sagt í hita leiksins.  Eftir þetta hefðu þau verið í daglegum samskiptum um rafræna miðla.  Hann kannaðist við að hafa farið með henni í ökuferð og hún sagt honum að hún ætlaði að kæra hann.  Hann hefði sagt henni að hann gæti ekki horfst í augu við þetta.

Við yfirheyrslu um atvik aðfaranótt 15. desember 2012 greindi ákærði frá því að fyrr um daginn hefðu þau átt samskipti um rafræna miðla, þar sem hann hefði sagt henni að hann vildi ekki ræða eitthvað, sem hún hefði verið ósátt við og viljað vita hvað hann hefði að segja.  Loks hefði hún hringt og viljað hitta hann.  Hann hefði sagt henni að koma í teiti, þar sem hann var og boðið henni að greiða fyrir leigubifreið.  Hún hefði komið og þau verið fyrir utan að kyssast og tala saman.  Ákærði kvaðst ekki muna vel það sem síðar gerðist, vegna ölvunar.  Hafdís vinkona hans hefði rætt við brotaþola og spurt hann hvort brotaþoli segði satt og hann játað því.

Eftir þetta hefði brotaþoli talað um að hana langaði í bjór og hann boðið henni heim að fá bjór. Þau hefðu farið heim til hans, drukkið bjór og talað saman.  Einhvern veginn hefði orsakast að þau hefðu klætt sig úr.  Svo hefði hann misst sig eitthvað aftur, en hann myndi ekki vel eftir því.  Spurður hvað hann myndi sagði hann að hún hefði ,,tottað“ hann eitthvað og hann spurt hvort hún vildi þetta, en hún ekki svarað og hann hugsað ,,ok, ég læt hana þá hafa (svo) halda áfram og síðan eitthvað meira en síðan man ég ekkert meira eftir það.“  Aðspurður sagðist hann muna að þau hefðu haft samræði í rúminu.  Hann rámaði í að hafa haldið henni niðri og reynt að hafa við hana samræði.  Hún hefði kýlt hann eitthvað í andlitið.  Hann hefði fundið blóð í nefinu daginn eftir og smá för á öxl vinstra megin á öxl og á vinstri upphandlegg.  Hann myndi að hún hefði viljað hringja til lögreglu og hann leyft það og farið út með henni og þau reykt og beðið lögreglu.  Hann hefði orðið hissa þegar lögreglan tók hann ekki.

Framburður brotaþola var borinn undir ákærða.  Tók hann undir mörg atriði, en kvaðst ekki muna eftir að hafa hótað að drepa hana ef hún ekki þegði og ekki eftir að hafa sagst ,,ríða henni í rassgatið“ ef hún þegði ekki.  Hann myndi ekki eftir mökum, eða tilraunum til maka í endaþarm.  Þá myndi hann ekki eftir að hafa tekið fyrir vit hennar eða um háls.

II.

Í málinu liggur vottorð D sálfræðings um viðtöl við ákærða á tímabilinu janúar til apríl 2013.  Kemur fram að ákærði hafi lýst því að hann hafi verið hikandi við valdbeitingu í kynlífi, en kærandi hafi hvatt hann áfram og hann smám saman orðið öruggari. Hann hafi sagst örvast við harkalegt kynlíf eða kynlífsleiki og tekið fram að hann hefði ánægju af flengingum.  Hann hafi undrast atvikin tvö (svo) sem kært væri fyrir og telja að ekkert hefði átt sér stað grófara eða harkalegra en í önnur skipti sem þau hefðu verið saman.  Hann hefði ætíð hætt valdbeitingu þegar brotaþoli hefði farið fram á það.

Sálfræðingurinn kveðst hafa metið ákærða þunglyndan við upphaf samtala. Síðan hafi dregið úr þeim einkennum.  Helst hafi orðið breytingar á líðan hans þegar brotaþoli hafi reynt að hafa samband við hann í febrúar eða mars 2013.  Þótt hann hafi farið að finna hana hafi hann verið óöruggur og ekki verið viss um viðbrögð, þ.e. hvort hann ætti að hunsa hana eða eiga samskipti við hana.  Sálfræðingurinn hafi ráðið honum frá samskiptunum.

Ákærði sé greindur með athyglisbrest án ofvirkni (ADD). Slíkur brestur geti falið í sér að vandkvæði séu með að lesa í tjáningu og aðstæður, virða og fara eftir ósögðum bendingum og óskrifuðum reglum, til dæmis í samskiptum.  Þetta verði þó ekki metið nema með frekari prófunum.

Þá liggur fyrir vottorð E geðlæknis, dagsett 15. nóvember 2013, varðandi brotaþola. Kemur þar fram að hún hafi leitað á bráðamóttöku aðfaranótt 7. febrúar 2013 og óskað eftir viðtali vegna andlegrar vanlíðunar sem hún hafi rakið til kynferðisbrota sem hún hafi orðið fyrir í lok árs 2012.  Eftir þetta hafi læknirinn átt 7 viðtöl við hana frá 7. febrúar til 8. júlí.  Síðan hafi hann rætt símleiðis við hana í september og þá virst ganga betur hjá henni. Þann 16. október hafi hún haft samband og lýst verri líðan og tengt það við útgáfu ákæru vegna kynferðisbrotanna. Hún hafi fengið tíma 6. nóvember, en ekki mætt.

Í fyrsta tíma hafi hún lýst slæmri líðan allt frá því í október 2012, erfiðleikum með skólasókn, endurlifun atburða, svefnörðugleikum og martröðum.  Móðir hennar og barnsfaðir sæju að miklu leyti um hennar mál, svo sem að fara með börn í leikskóla og kaupa til heimilisþarfa. Hún ætti erfitt með að vera á ferli innan um fólk. Í desember hefði hún haft ágengar sjálfsvígshugsanir.

Læknirinn kveðst hafa metið það svo að brotaþoli lýsti dæmigerðum áfallastreitueinkennum í tengslum við ofbeldi sem hún hafi sagst hafa orðið fyrir í október og desember 2012.  Til viðbótar hafi hann metið það svo að hún hafi á þessum sama tíma þróað með sér meðaldjúp geðlægðareinkenni.  Áfengisneysla hafi verið á því stigi að hún hafi talist skaðleg.  Megi telja líklegt að vanlíðan í tengslum við áfallastreitueinkenni og þunglyndi hafi ýtt undir áfengisneyslu á þessum tíma.  Þá hafi hún líklega fyrir þennan tíma haft almenna kvíðaröskun.  Kveður læknirinn það mat reist á því að hún hafi tvívegis áður verið til meðferðar á göngudeild, árið 2007 og 2008.

Þá kemur fram að brotaþoli hafi átt í erfiðleikum með að sækja skóla og aðeins lokið tveimur fögum af fimm um vorið.  Um sumarið hafi farið að ganga betur, hún hafi stundað vinnu og látið áfengi eiga sig að mestu, eftir því sem hún hafi lýst. Þann 16. október hafi hún lýst verri líðan og erfiðleikum með skólasókn.  Hún hafi ákveðið að hætta námi og lýst því að vera aftur farin að einangra sig.  Læknirinn hafi ritað vottorð vegna sjúkradagpeninga og vísað henni til endurhæfingar hjá [...].  Hún hafi ekki mætt til viðtals 6. nóvember og læknirinn ekki orðið var við hana eftir það.

Þá liggja fyrir vottorð F félagsráðgjafa.  Kemur þar fram að brotaþoli hafi fyrst komið í viðtal 18. desember 2012 og síðan reglulega til loka maí.  Hún hafi sýnt sterk áfallaeinkenni í kjölfar atburða í desember, verið óróleg og kvíðin, átt erfitt með svefn og einbeitingu.  Fyrir hafi hún átt sögu um kvíðaröskun.  Hún hafi unnið að því að styrkja sig eftir niðursveiflu í febrúar.  Með vorinu hafi hún virst vera farin að finna aukið jafnvægi.  Hún hafi ekki komið í viðtöl eftir sumarleyfi.

III.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að þau brotaþoli hafi fyrst farið að sofa saman í september 2012.  Hafi hún þá þegar viljað að hann tæki stjórn á henni og það verið fyrsta reynsla hans í þá veru.  Hafi þróast með þeim gróft BDSM kynlíf, þar sem að ,,ég átti í rauninni bara að stjórna henni á meðan við sváfum saman og þó hún hafi verið að streitast á móti á meðan ... t.d. held að henni höndunum fyrir aftan bak á meðan sem var svona af því að, þú veist ég veit ekki af hverju en hún vildi vera að reyna að streitast á móti eða þykjast vera að streitast á móti á meðan og síðan eftir á þegar við vorum bara bæði búin þá var það bara allt í góðu.“  Hann hafi haft áhuga á flengingum og bindingum.  Stundum hafi sést mar á úlnliðum brotaþola á eftir.

Spurður um 1. tl. ákæru lýsti ákærði aðdraganda þess með svipuðum hætti og fyrir lögreglu.  Hann sagðist hafa fengið leyfi brotaþola til að koma yfir til hennar um morguninn og tekið með sér belti sem þau hefðu stundum notað áður.  Hann hafi ekki mikið reynt að flengja með því í þetta sinn.  Hann hafi bara gert eins og þau hafi alltaf gert áður saman í kynlífi.  Eftir á hafi hann séð að hún væri ekki eins og venjulega eftir kynlíf, heldur einhvern veginn hrædd. Hann hafi reynt að hugga hana og síðan fundist allt vera í góðu milli þeirra.

Spurður hvers vegna hann hafi tekið beltið með sér sagðist hann ekki hafa áætlað neitt, heldur ætlað að koma henni á óvart.  Allt hitt hafi gengið eins og áður hjá þeim. Hann hafi flengt hana svolítið og hún streist á móti.  Hann hafi tekið um úlnliði hennar, ýtt henni niður á rúmið og haft við hana samfarir.

Föstudagskvöldið eftir þetta hafi brotaþoli komið ölvuð heim til hans til að fá kveikjara og dáið áfengisdauða.  Hann hafi klætt hana úr ytri fötum og lagt hana til svefns.  Um morguninn hafi þau talað saman og ákveðið að sambandið gengi ekki.  Viku seinna hafi hún sent textaboð um að hún saknaði hans og þau svo byrjað að hittast aftur, en slitið sambandinu á ný viku fyrir tilvikið 3. desember.  Hafi slitin orðið vegna þess að B barnsfaðir hennar hafi orðið var við rafræna samræðu þeirra um fyrsta tilvikið, bannað brotaþola að tala við ákærða og hótað honum ofbeldi eða kæru.

Atviki í 2. tl. ákæru lýsti ákærði svo að brotaþoli hafi brennt hár af höndum hans og hann flengt hana.  Þau hafi verið orðin pirruð hvort við annað. Hún hafi slegið hann fast með fjöltengi eða hleðslutæki.  Þetta hafi endað með því að hann hafi setið ofan á bakinu á henni og hún hafi ekki viljað gefast upp.  Hann hafi farið með hönd ofan í nærbuxur hennar og sett fingur í leggöng og endaþarm, en það hafi ekki verið af kynferðislegum toga.  Hann hafi aldrei notað fingur í kynlífi þeirra, því að henni hafi fundist það óþægilegt.  Brotaþoli hafi ekki gefist upp, en hann hafi sleppt henni.  Hún hafi haldið áfram og klipið hann þar sem hún hafði slegið hann með fjöltenginu.  Hann hafi tekið í hár hennar og snúið hana niður í sófann og heyrt smá brak í hálsinum. Síðan hafi hann hætt og farið í annað herbergi, síðan komið aftur inn og spurt hvort þau væru sátt og hún játað.

Ákærði var spurður hvort hann teldi að áverkar sem lýst er í 2. tl. ákæru gætu verið af hans völdum og taldi hann það vel geta passað.  Spurður hvort hann hafi misst stjórn á sér í þessum átökum taldi hann svo ekki hafa verið.

Ákærði kvaðst hafa verið í teiti aðfaranótt 15. desember, sbr. 3. tl. ákærunnar.  Brotaþoli hafi stöðugt reynt að ná sambandi við hann og að lokum hafi hann boðið henni að koma.  Hún hafi komið með leigubifreið á hans kostnað. Þau hafi hist utandyra, farið að kyssast og gengið afsíðis.  Brotaþoli hafi viljað hitta vinkonu hans og þær verið að ræða þessi tvö mál sem upp hafi verið komin milli ákærða og brotaþola.  Hann hafi ekki þorað annað en játa þau á sig, því hann hafi verið hræddur um að brotaþoli myndi ,,tjúllast“ ella.  Hann hafi verið meðvirkur gagnvart henni.  Hún hafi beðið um bjór.  Hann hafi átt bjór heima og hún spurt hvort hún gæti farið heim með honum. Þau hafi farið heim til hans.  Þar hafi þau rætt saman og síðan hafi hann tekið hana yfir, ,,svona eins og ég sé að fara að flengja hana, en ég flengdi hana ekkert...“ Síðan hafi hún ,,tottað“ hann.  Hann hafi spurt hvort hún vildi þetta.  Hún hafi ekki svarað, ,,... þannig að ég held pínu áfram og hérna síðan stundum við okkar harkalega kynlíf, hérna læt hana fara á hérna magann og hérna tek í hendurnar á henni og svona er að hafa samfarir við hana þá eins og venjulega en það entist ekkert mjög lengi, þá svona meira bara útaf því hvað heyrðist hátt í okkur og svona og ég heyrði síðan að, heyrði síðan í símanum mínum vera að pípa á fullu og ákvað síðan að tékka síðan á því eftir smástund...“

Þá hafi brotaþoli spurt hvort hún mætti hringja til lögreglu.  Sér hafi brugðið.  Hún hafi sagt að hún treysti honum ekki.  Hún hafi hringt og þau farið út og beðið þar eftir lögreglunni.

Ákærði var spurður hvort hann myndi vel eftir þessu og kvaðst hann muna það sem hann hefði verið að lýsa.  Hann hafi verið undir miklum áfengisáhrifum.  Hann kvað sér ekki finnast sem hann myndi eftir öllum samskiptum þeirra.  Spurður hvort hann myndi eftir að hún hefði streist á móti eða beðið hann að hætta kvaðst hann ekki muna eftir því svo að skiljanlegt hafi verið.  Hann kvaðst ekki muna „beint“ eftir að hafa tekið um háls hennar eða fyrir munn til að þagga niður í henni, en ekki telja það útilokað.  Þá kvaðst hann ekki muna hvort hann hafi sett fingur í endaþarm.  Aðspurður kvaðst hann muna að hafa reynt að setja typpið inn í rassinn á henni.  Spurður hvort það hafi verið með hennar vilja kvað hann það hafa verið eins og gerst hafi og gengið í þeirra kynlífi, hann hafi alla vega ekki náð því af því að þetta hafi þau aldrei verið búin að stunda áður.  Hann hafi ekki farið alla leið að þessu leyti.

Áverkar voru bornir undir ákærða.  Hann kvað vel geta verið að einhverjir áverkar hafi verið af hans völdum.

Ákærði kvaðst aðspurður álíta að samþykki brotaþola hafi verið fyrir hendi í öllum þremur tilvikunum.  Ekkert hafi verið óeðlilegt fyrr en eftir á.  Hann hafi stungið upp á því í öndverðu að þau kæmu sér saman um öryggisorð, þannig að hann myndi hætta valdbeitingu um leið og hún segði orðið, en henni hafi bara þótt það fyndið og ekkert orðið úr því.

Ákærði staðfesti að hafa í öndverðu rætt það við vinkonur sínar, rafrænt, að sér fyndist skrýtið að stunda svona gróft kynlíf.  Borin var undir hann slík samræða við G, frá 2. október 2012, þar sem ákærði kvaðst ekki vita hvað brotaþola líkaði og sagði að hún væri ekki undirgefin, en vildi að ákærði slægist við hana.  Staðfesti hann þetta og sömuleiðis að hafa sagt við G daginn eftir að hann vissi aldrei hvað hann ætti að halda þegar brotaþoli segði eitthvað, hvort hún meinti það eða ekki.  Þá staðfesti hann að hafa sagt við G þann 19. nóvember: ,,belti stóð samt upp úr á A, hehe“ og að einu sinni hafi hann mátt gera eins fast og hann gat.

Þá var borinn undir ákærða texti rafrænnar samræðu sem hann átti við vinkonu sína H frá 24. nóvember 2012.  Þar kemur fram að ákærði hafi verið búin að segja H frá grófu kynlífi með brotaþola.  Staðfestir H það og kallar ,,raperoleplay“.  Ákærði segir svo að í eitt skiptið hafi þau verið hætt að gefa samþykki og hann hafi ekki vitað það fyrr en strax eftir á.  Hann sjái ótrúlega eftir þessu. Þetta ræða þau áfram og kemur fram hjá ákærða að þau hafi áður stundað gróft kynlíf þar sem hann hafi haft allt vald og í fyrsta skiptið hjá þeim hafi hann fyrir áskorun þurft að taka hana með öllu valdi.  Í þetta sinn sem samþykki hafi skort hafi þau verið hætt að hittast og hún verið sár út í hann, en samt hafi þau ákveðið að hittast og kúra, en það endað með þessu.  Hann hafi haldið fyrst að þetta væri bara venjulegt, en svo hafi brotaþoli verið skjálfandi eftir á.  Ákærði staðfesti að eiga þarna við tilvik sem 1. töluliður ákæru fjallar um.

Ákærði kvaðst hafa óttast hefndir frá barnsföður brotaþola og staðfesti að hafa rætt það við H.  Einnig staðfesti hann að hafa sagt H 25. nóvember 2012 að brotaþoli leyndi því fyrir barnsföðurnum að þau væru tekin saman á ný.

Ákærði kvað rétt vera, sem kemur fram í spjalli við H í apríl 2013 að þau brotaþoli hafi byrjað að hittast aftur í laumi, líklega í febrúar 2013 og stunda kynlíf.

Nánar spurður um þetta kvað hann þau hafa hist oftar en talið verði á fingrum beggja handa.  Oftast hafi þau hist í íbúð sem hún hafi verið komin með til umráða, en einnig í bifreið hennar.  Barnsfaðir hennar hafi eitt sinn staðið þau að verki og tekið því illa eftir því sem brotaþoli hafi sagt honum.  Síðast hafi þau hist í júlí 2013.  Þá hafi hún komið yfir til hans og hann gefið henni áfengi.  Þau hafi horft á sjónvarp og hún hafi fróað honum.  Loks hafi þau sofið saman.

Ákærði sagði aðspurður að í samskiptum þeirra árið 2013 hafi hann fengið að flengja brotaþola, en þau hafi farið hægar í nauðgunarhlutverkaleikinn (,,rape­roleplaying“).

Ákærði kvaðst hafa brotnað saman heima hjá sér, eftir að lögregla hafði komið þangað og leitað.  Hann hafi verið vistaður í fangaklefa og fengið ,,lyfjakokteil“, sem hafi, til viðbótar áfengi, leitt til þess að hann hafi steinrotast í klefanum. Við skýrslutöku daginn eftir hafi hann ekki verið þunnur, en liðið ,,bara ógeðslega í hausnum og öllu“ og ekki verið með sjálfum sér.  Hann kvaðst hafa játað á sig sök fyrir lögreglu því hann hafi ekki þorað annað.  Hann hafi verið búinn að sætta sig við að líf sitt væri bara búið og óttast hótanir.  Brotaþoli hafi verið búin að segja honum að hann ætti að játa og þá fengi hann hjálp, en ef hann neitaði myndi hann fá hámarksrefsingu.  Eftir skýrslutökuna hafi hann verið lagður inn á geðdeild og verið þar í viku.

Sér hafi verið boðið að fresta skýrslutöku, en hann hafi viljað ljúka þessu af, því hann hafi ætlað að játa allt og ekki verið með sjálfum sér.

Ákærði kvaðst ekki muna hvort brotaþoli hafi sagt í raun að hann fengi ekki ,,að ríða núna“, eða hvort það hafi verið eitthvað sem hún hafi sagt honum að segja lögreglu. Kvaðst hann ekki muna ljóst hvað hún hafi sagt á meðan samfarir sem 1. töluliður ákæru varðar stóðu yfir.

Ákærði var spurður hvað hann hafi átt við þegar hann lýsti því í rafrænu samtali við brotaþola 5. nóvember 2012 að hann sæi ,,bigtime“ eftir þessu og það myndi ekki gerast aftur.  Sagði hann að þetta hafi ekki átt að gerast, það væri þeim að kenna að vera ekki með það á hreinu hvenær ætti að hætta og hvenær ekki.

Þá var hann spurður um ummæli frá 27. nóvember 2012, þar sem hann ritaði:  ,,Á meðan að þetta gerðist A var ég ekki að pæla í neinu, ég var bara sár og reiður og ákvað að ríða þér, síðan strax eftirá sá ég eftir þessu því ég áttaði mig á því hvað ég hafði gert og það er það sem allir fá að heyra, en ég útskýri fyrir þeim að við stundum röff kynlíf ég hefði aldrei gert neitt svona við stelpu ef við værum ekki búin að stunda svona kynlíf áður, auðvitað var þetta ekki eins, enda vildirðu það alls ekki þarna, en ég bara hundsaði það einhvern veginn.“ Ákærði kvaðst aldrei hafa vitað hvort brotaþoli ,,vildi það á meðan eða ekki.“  Misskilningur þeirra hefði komið fram eftir á. Þá var hann m.a. spurður um ummæli um að hann hafi verið í hefndarham og stundarbrjálæði og ekki meðvitaður hvað hann væri að gera rangt.  Kvaðst hann hafa í raun verið að segja það sem brotaþoli vildi heyra.  Borin voru undir hann ummæli sem hann ritaði til I vinkonu sinnar, þar sem hann sagði: ,,já okey hennar hlið á málinu passaði samt alveg eða þú veist, eða þú veist þessar lýsingar hennar, ég vildi bara ekki fara í þær. [...] þetta var bara eitthvað svakalegt stundarbrjálæði, leið alveg ógeðslega illa andlega líka, en þú veist já ég get ekki réttlætt þetta samt.“  Ákærði kvaðst þarna hafa verið að ræða atvikið 26. október.  Brotaþoli hafi verið búin að ,,dissa“ hann fyrir að segja öðrum vinum frá raunverulegri hlið og hann hafi ákveðið að segja þetta við Elvu að þetta væri í rauninni rétt.  Spurður um áþekk ummæli við H, sagði hann að hann hafi verið að reyna að bjarga þessu einhvern veginn með því að segja að brotaþoli greindi rétt frá, því hann hafi verið langt niðri og að brotaþoli hafi stjórnað sambandinu þó hún stjórnaði ekki kynlífinu og hann hafi óttast að hún myndi slíta sambandinu við hann.

Ákærði kvaðst einnig aðspurður hafa óttast hótanir og hafi það að einhverju leyti mótað ummæli hans.  Spurður um hótanir kvaðst hann hafa fengið skilaboð frá bróður brotaþola um að hann ætlaði að fara með ákærða í ,,óvissuferð“.

Ákærði kvað brotaþola hafa beðið sig að eyða skilaboðum sem hafi farið milli þeirra milli jóla og nýárs 2012 og síðan aftur á árinu 2013. Hafi hann gert svo.

Nánar spurður um nauðgunarhlutverkaleik sinn og brotaþola lýsti ákærði því svo að eftir að leikurinn hafi byrjað hafi ekki orðið aftur snúið, ekkert öryggisorð hafi verið og ekki hafi nægt að hún segði honum að hætta.  Spurður hvernig hann hafi vitað hvort hún vildi hefja leikinn hverju sinni sagðist hann oftast hafa átt upptökin og byrjað með flengingu eða annarri valdbeitingu.  Hann hafi fengið að venjast þessu í þeirra samskiptum, þau hafi verið búin að tala um hvað þeim líkaði og hvað þau hefðu prófað og síðan hafi orðið að vana að stunda svona kynlíf.  Hann kvaðst ekki vita hvort brotaþola hafi verið unnt að koma því til skila með árangri, ef hún vildi hætta leiknum.

Brotaþoli bar fyrir dómi um 1. tölulið ákæru að hún hafi slitið sambandinu við ákærða og gert hann reiðan með því að segja honum að hún hefði sofið hjá barnsföður sínum.  Hann hafi um nóttina sent henni mörg skilaboð um að hún væri mella og hóra. Faðir hans hafi truflað símtal milli þeirra og hann þá fengið að koma yfir til hennar til að reykja.  Hann hafi verið ógnandi, rifið í hár hennar og verið reiður.  Hann hafi síðan farið og hún fengið fleiri skilaboð.  Um morguninn hafi hún svarað skilaboðum frá honum og sér fundist hann skömmustulegur.  Hann hafi beðið um að fá að koma í heimsókn og hún játað því.  Sér hafi fundist hún eiga það skilið að hann kæmi og væri góður.  Hann hafi komið og hún látið sem hún sæi hann ekki í fyrstu.  Þegar hún hafi litið til hans hafi hann staðið hálfglottandi með belti í hendinni.  Hann hafi byrjað að reyna að slá hana með beltinu.  Hún hafi komið sér undan því.  Hann hafi þá farið að losa um buxur sínar.  Hún hafi eiginlega bara hlegið að honum og spurt hvort hann héldi að hann væri að fara að ,,fá að ríða núna“.  Hún hafi verið búin að gefa honum skýrt til kynna að hann ætti ekki að fá neitt meira frá henni.  Hann hafi náð henni niður á magann og haldið henni niðri og sagt við hana ljóta hluti á meðan, spurt hvort allir mættu ríða henni nema hann og og hvort hún hafi bara verið að nota hann og hvort hann hafi bara verið ,,rebound.“  Hann hafi haldið henni fast þannig að hún hafi meitt sig þegar hún hafi verið að losna. Hún hafi barist um meðan á þessu stóð, en að því loknu hafi hún farið í dálítið lost, skolfið og legið í rúminu.  Þá hafi hann einhvern veginn náð sér niður og sagt að hún vissi að þetta væri ekki hann og að hann myndi aldrei gera svona hluti og aldrei hafa gert svona áður.  Hann hafi alveg vitað hvað hann var að gera, enda komið með beltið að heiman frá sér.

Spurð um kynlíf þeirra fyrir þetta sagði brotaþoli að þau hafi oft verið að berjast og slást á góðu nótunum, ef sér hafi fundist hann ganga of langt hafi hún beðið hann að hætta og það hafi hann alltaf gert.  Þau hafi byrjað með því að kyssast og hún hafi yfirleitt klætt sig sjálf úr fötum.  Þó hafi verið eitt tilvik um mánuði fyrr þegar henni hafi fundist hann missa sig örlítið.  Hún hafi sagt við hann í gamni að hann væri ,,rebound“ og hann hafi þá verið sérlega harður og sagt á meðan ,,ha, er ég bara  ,,rebound?“  Hún hafi ekki gert mikið úr þessu atviki og raunar ekki atvikinu 26. október heldur, þótt henni hafi gengið illa að gleyma því, verið ,,paranoid“, t.d. ekki fundið húslykla og óttast að hann hefði tekið þá og ætlaði að koma aftur án þess að hún vissi.  Síðan hafi hún ákveðið að hún væri að gera of mikið úr þessu, hann hafi sannfært hana um að þetta væri eitthvað einstakt og ekki líkt honum að gera svona.

Spurð hvort þau hefðu fram að þessu leikið einhvers konar nauðgunarleik sagði hún að það hafi ekki verið hennar upplifun.  Um leið og hann hafi gert eitthvað sem henni hafi fundist vont hafi hún sagt honum að hætta og hann gert það.  Þá hafi þau kannski byrjað aftur, eða ekki.

Brotaþoli kvaðst hafa beðið eftir að ákærði færi og síðan hafi hún farið að drekka um kvöldið.  Hún hafi farið yfir til hans um nóttina, þótt hún hafi aldrei ætlað að tala við hann aftur, en þetta kvöld hafi hún einhvern veginn ákveðið að gera það.  Þá hafi húslyklarnir orðið eftir og ákærði skilað þeim síðar þegar hún hafi ekki verið heima. Síðan hafi hún farið að minnast góðra stunda í sambandi þeirra og byrjað að sakna hans, haft samband við hann og viljað láta reyna á þetta aftur.

Er hún hafi farið til hans í æfingahúsnæðið aðfaranótt 3. desember hafi hún verið búin að slíta sambandinu aftur.  Hún hafi aðeins ætlað að koma þarna til að lesa undir próf.  Hann hafi alltaf verið að standa klofvega yfir henni og hún spurt hvort hann væri að biðja hana að lemja hann í punginn og hann þá sagst fá ástæðu til að flengja hana. Hún hafi gefið honum selbita í nefið og það hafi nægt til að hann hafi tekið í hárið á henni, snúið hana niður á magann og stundið fingri í endaþarm hennar. Síðan hafi hann róast og verið eitthvað afsakandi.  Hún hafi sótt fjöltengi. Á bakaleiðinni hafi hann slegið hana fast á rassinn.  Hún hafi viljað setja honum mörk og slegið hann með fjöltenginu. Hann hafi meitt sig og sest niður.  Hún hafi sagt meðal annars að hún vorkenndi honum ekki.  Hann hafi sagst vera orðinn rólegur en hún hafi sagt að hún væri það ekki.  Hann hafi gengið frá bókum sem hafi verið úti um allt og ,,...var sem sagt bara í rauninni að segja að núna mætti ég bara gera hvað sem mig langaði við hann þú veist eins og hann vissi bara upp á sig sökina og eitthvað og ég bara já mig langar alveg til að meiða þig sko, þú ert búinn að meiða mig og ég er alveg til í að meiða þig og ýtti svolítið fast þú veist á staðinn þar sem fjöltengið fór á hann og þá einmitt tryllist hann aftur og hérna og er svona að hrista mig til og segja mér að ég þurfi ekkert að hafa áhyggjur af þessu prófi daginn eftir af því að ég muni bara ekki lifa til þess og já sest svona ofan á barkann á mér og er að segja bara ,,bæ bæ dauða stelpa“ meðan hann horfði í augun mér, eða ,,bráðum dauða stelpa“ og hérna, já síðan nær hann, er hann að hrista svo mikið þú veist af því að eina sem ég hugsaði er að halda mér þú veist á bakinu, ekki láta hann ná mér þú veist yfir á magann, af því að þá hefði hann svona þú veist, væri ég varnarlausari, þannig að ég þú veist var bara að reyna eins og ég gat að halda mér á þú veist bakinu og hann heldur í hárið á mér og hristir mig svona til, til þess að reyna að ná mér yfir á magann og ég finn það bara, það byrjar að braka ofsalega mikið í þú veist hálsinum á mér og þú veist ég fæ bara, þú veist það sem komst í hausinn á mér var bara að hann væri að snúa mig úr hálslið þannig að ég set sem sagt báðar hendur svona upp og kreppi við honum bara eins og ég get bara til að halda hausnum bara á sínum stað, en hann nær mér samt á endanum á sem sagt magann og stingur þá putta upp í leggöngin á mér og endaþarminn og þefar síðan af honum og bara „Victory“ segir hann.“

Eftir þetta hafi ákærði beðist fyrirgefningar. Hún hafi verið hrædd, en reynt að vera róleg.  Hún hafi ekið heim og alltaf séð ljós bifreiðar hans á eftir sér.  Daginn eftir hafi hún sagt vinkonu sinni frá þessu og það með að hún ætlaði að kæra hann fyrir bæði tilvikin.

Nánar spurð kvaðst brotaþoli ekki hafa sagt barnsföður sínum frá atvikum fyrr en viku eftir atvikið 3. desember.  Hún hafi sagt J vinkonu sinni frá atvikinu 26. október daginn sem það gerðist. ,,K“ vinkonu sinni hafi hún sagt sama dag, er hún kom í heimsókn og spurði um marbletti á handleggjum og víðar, að ákærði hefði ráðist á hana, en ekki þorað að segja frá því að þetta hefði verið nauðgun.

Nánar spurð um aðdraganda atviksins 3. desember staðfesti hún að byrjunin hefði verið að hún hafi verið að kveikja eða hóta að kveikja í hári á höndum ákærða.  Hann hafi verið búinn að segja að hún mætti meiða hann eins og hún vildi.

Spurð hvort þau hafi notað fingur til að setja í líkamsop við kynmök sagði hún að það hafi þau aldrei gert.  Hún hafi eitt sinn sagt við ákærða í gamni að hún hefði sett fingur í endaþarm hans meðan hann svaf.  Þá hafi hann viðurkennt að hafa gert slíkt við hana og það hafi ekki verið í gamni sagt.

Hún hafi rætt daginn og veginn í rafrænum skilaboðum milli þeirra ákærða þegar þann 3. desember.  Hún hafi viljað gera lítið úr þessu þeirra á milli og verið eðlileg við hann. Hann hafi verið hissa er hann vissi að hún ætlaði að kæra hann.  Hún hafi ákveðið að kæra, því að hún hafi óttast um líf sitt og ekki viljað að hann gerði þetta við aðrar stelpur og ekki viljað gefa honum möguleika á að gera þetta aftur við hana.  Hún hafi tekið ákvörðun um að kæra án þess að nokkur hafi haft áhrif á það.

Spurð um atvik aðfaranótt 15. desember kvaðst brotaþoli dauðskammast sín fyrir að hafa hitt ákærða yfir höfuð. Hún hafi um kvöldið talað við hann í síma og heyrt í bakgrunni hrópað að hún væri mannorðsmorðingi.  Hún hafi sagt að hún vildi skýra málin.  Ákærði hafi verið til í það að hún kæmi.  Er hún kom hafi hún gengið með honum og hann reynt að hugga hana og vera góður. Þau hafi svo talað við Hafdísi.  Hún hafi útskýrt hvers vegna hún hefði kært og ákærði staðið hjá og tekið undir.  Hann hafi viljað ganga með henni heim, þótt henni hafi ekki þótt það þægilegt.  Hann hafi viljað fá hana inn með sér til að tala við hana og fullvissað hana um að ekkert myndi gerast. Foreldrar hans væru heima og hún væri ekki í neinni hættu. Dómgreind hennar hafi ekki verið góð þarna, en hún hafi vitað að hljóðbært væri í húsinu og ekki grunað að hún gæti verið í hættu.  Hún hafi farið með honum inn. Brotaþoli bar um atvik innan dyra í öllum meginatriðum á sama veg og hún gerði fyrir lögreglu.  Hún kvað ákærða hafa verið mjög fullvissandi eftir munnmökin í fyrstu að ekkert meira myndi gerast. Þau hafi farið út að reykja og hann fullvissað hana áfram og beðist afsökunar.  Hún hefði auðvitað átt að fara heim, en af einhverjum ástæðum ekki gert það.  Hún hafi viljað fara upp að sækja veskið sitt.  Einhvern veginn hafi þetta endað með því að hann hafi náð henni. Hún hafi verið í svokallaðri mjókkunarbrók, sem sé erfitt að ná niður, en honum hafi tekist það. Hann hafi haldið henni niðri á maganum og hún verið varnarlaus.  Hún hafi öskrað af öllum lífs- og sálarkröftum.  Hún viti ekki hvort hún hafi náð að mynda orð, því hann hafi þrýst henni niður á koddann.  Hann hafi hótað að drepa hana og hótað endaþarmsmökum ef hún þegði ekki.  Hann hafi reynt að setja lim í endaþarm.  Hún hafi haldið áfram að öskra til að fá foreldra hans til hjálpar, án árangurs.  Ákærði hafi verið drukkinn. Þetta hafi verið í fyrsta sinn sem hann hafi ráðist að henni drukkinn og verið ennþá grófari en ella.  Síðan hafi hann hætt eftir að hann hafi orðið var við að faðir hans var að senda honum textaboð.  Hún hafi hringt í Neyðarlínuna.  Hann hafi tekið af henni símann.  Hún hafi sagt honum að hún yrði að komast út, hann væri búinn að nauðga henni og hóta að drepa hana.  Þá hafi hann látið sem hann vissi ekki hvað hann hefði verið að gera, látið hana hafa símann og hún hringt til lögreglu.  Þau hafi farið út og beðið lögreglunnar.  Hún hafi sagt lögreglunni að hann hefði ráðist á hana og rifið í hárið á henni, en sér hafi þótt of erfitt að nota orðið nauðgun.  Barnsfaðir hennar hafi verið fyrir utan er lögregla skilaði henni heim.  Hann hafi spurt hvort ákærði hefði nauðgað henni og þá hafi hún loksins getað sagt það.  Lögreglan hafi verið farin.  Hún hafi viljað fara í rúmið og vera í friði.  Því hafi hún ekki farið á sjúkrahús fyrr en síðar um daginn.

Um jólin hafi hún séð ákærða úti á svölum.  Sér hafi liðið eins og hún væri búin að gera honum eitthvað og skammast sín fyrir allt og kennt sér um, því hún hefði alltaf verið að taka rangar ákvarðanir.  Sér hafi fundist hann líta illa út og sent honum boð um að hún væri að hugsa til hans daglega.  Þau hafi rætt málið í textaboðum og hann verið sammála því að hann hefði gert eitthvað af sér.  Þessum boðum hafi hún eytt og hann ætlað að gera eins.

Einhverju seinna, líklega um mánuði síðar, hafi ákærði gert vart við sig á samskiptamiðli.  Hún hafi verið orðin mjög brotin.  Barnsfaðir hennar hafi viljað taka saman við hana, en hún hafi ekki talið sig hans verða.  Rökhugsun sín hafi ekki verið betri en svo að sér hafi fundist að best væri að börnin færu til föður síns en hún ætti bara að vera með ákærða, hún ætti ekki betra skilið.  Þau ákærði hafi upp úr þessu hist ,,alveg nokkrum sinnum.“  Í sumarbyrjun hafi hún loks lokað á samskipti, þótt verið geti að þau hafi hist í júlí.  Hún hafi ákveðið að ljúga því að ákærða að móðir hennar og barnsfaðirinn væru alltaf að athuga samskiptatæki hennar.

Brotaþoli kvaðst hafa lagst inn á geðdeild fyrir aðalmeðferð málsins, því að hún hefði ekki getað stillt kvíða eða náð svefni.

Brotaþoli staðfesti samræðu sem liggur frammi í málinu, sem hún átti við J 26. október 2012, þar sem hún lýsti skiptum sínum við ákærða þann dag.

Vitnið J, vinkona brotaþola, bar að brotaþoli hafi sagt sér frá öllum tilvikunum.  Staðfesti hún samræðu þeirra um tilvikið 26. október, sem liggur frammi í málinu.  Sér hafi ekki fundist sem brotaþoli virti þetta tilvik sem nauðgun, því hún hafi einhvern veginn verið að réttlæta þetta.  Hún hafi verið meðvirk og haldið að þetta myndi ekki gerast aftur, en séð að sér eftir næsta tilvik.  Frá því tilviki hafi hún sagt vitninu þegar hún hafi verið á sjúkrahúsi að fá áverkavottorð.  Vitnið endurtók frásögn brotaþola af því tilviki, og komu þar fram öll helstu atriði og í framburði brotaþola sjálfrar.  Brotaþola hafi fundist erfitt að fara á sjúkrahús og fá áverkavottorð.  Hún hafi kennt sér um, hún hafi ekki átt að gera þetta eða hitt og það hafi þurft að minna hana á að ekki mætti brjóta ,,á líkamspörtunum svona.“  Brotaþoli hafi sagt sér þann 16. desember frá síðasta tilvikinu og tekið fram hvað hún hefði verið heimsk að fara heim með ákærða.  Sér finnist brotaþoli vera gerbreytt frá því hún kynntist henni í febrúar eða mars 2012.  Hún drekki meira en hún hafi gert og fari varla úr húsi.

Spurð hvort brotaþoli hafi einhvern tíma lýst því hvernig kynmökum þeirra ákærða væri háttað sagði vitnið að hún hafi einhvern tíma sagt að hann vildi gróft kynlíf (,,röff, svona angry sex“) og vildi mikið flengingar.  Hún hafi gefið honum eftir flengingarnar og miðað við hennar lýsingar á þessu kynlífi sé það mikið meira en gróft að mati vitnisins.  Brotaþoli hafi verið orðin svolítið hrædd um að ákærði myndi á endanum lemja sig og að þetta myndi ganga of langt.  Einhvern tíma hafi brotaþoli sýnt sér marbletti milli mjaðmar og rasskinnar og verið aum þar. Það geti hafa verið eftir fyrsta skiptið sem ákært er fyrir.

Vitnið K vinkona brotaþola kvaðst hafa þekkt hana síðan þær voru í grunnskóla.  Hún kvaðst hafa komið til hennar eftir fyrsta tilvikið, líklega sama dag eða daginn eftir og hún verið öll marin, blá og rispuð. Þetta hafi sést á höndum og baki og tveir stórir marblettir hafi verið á innanverðum lærum. Hún hafi sagt að ákærði hefði slegið hana með belti og meitt hana.  Hún hafi verið lokuð og lítið sagt fleira.  Þau ákærði hafi hætt að tala saman í smá tíma eftir þetta en síðan byrjað aftur.  Hún hafi eitt sinn rætt við þau gegnum tölvu, þar sem hann hafi verið hjá brotaþola.  Hún hafi beðið hann að meiða brotaþola aldrei svona aftur, en heitið þeim því að segja engum frá þessu.

Stuttu eftir atvikið í æfingahúsnæðinu hafi brotaþoli sagt henni að ákærði hefði sett fingur í leggöng hennar og endaþarm. Brotaþoli hafi upplifað það sem kynferðislega niðurlægingu.

Vitnið kvað brotaþola vera gerbreytta.  Henni líði illa og hún fari vart úr húsi.

Vitnið L faðir ákærða bar að hafa laugardaginn 15. desember farið að vanda um við son sinn vegna ónæðis og óreglu nóttina áður.  Þá hafi ákærði sagt honum að brotaþoli hefði kært hann fyrir eitthvað sem ætti að hafa gerst í október, en hann hefði viljað hlífa foreldrunum við vitneskju um það.  Hann hafi ekki nefnt neitt slíkt um næstliðna nótt.  Vitnið hafi farið á lögreglustöð og spurt um kæruna og verið spurður á móti hvort það væri vegna atburða nýliðinnar nætur, búið væri að kæra þá.

Vitnið lýsti því að um tvöleytið nefnda nótt hafi hann heyrt ákærða koma heim.  Vitnið hafi ekki verið sofnað til fulls.  Hann hafi heyrt að ákærði sótti öl niður í kjallara og svo komið upp.  Hafi vitnið heyrt að hann kom ekki einsamall og heyrt eitthvert skraf.  Seinna, klukkan hálfþrjú til þrjú hafi heyrst að byrjuð væru ástaratlot. Vitnið hafi pirrast og tekið hálfa Imovan töflu, en það hafi ekki dugað.  Hann hafi sett upp heyrnartól og reynt að hlusta á slökunartónlist, en samt heyrt að ástaratlot væru í gangi. Þegar fólk sé drukkið verði þetta ýktara, meiri stunur og dragist á langinn. Hann hafi reynt að dotta og líklega tekist það í klukkustund, en alltaf verið hálfvakandi.  Hann hafi þóst kenna að stúlkan væri brotaþoli.  Búið hafi verið að setja ákærða reglur um að hann kæmi ekki heim með hana. Spurður hvers vegna, sagði hann að það væri vegna þess að hún hafi verið á föstu með frænda ákærða fimm árum áður og eftir það verið hálfútskúfuð úr fjölskyldunni og verið sögð geðveik.  Móðir ákærða hafi tekið því illa þegar ákærði og brotaþoli byrjuðu samband sitt.  Sér hafi litist illa á þegar fram í sótti.  Ákærði hafi verið sem festur upp á þráð og allt snúist um brotaþola hjá honum.  Honum hafi ekki liðið vel, sullað hafi verið mikið með áfengi og sér hafi fundist brotaþoli hafa ákærða sem strengjabrúðu. Hann hafi ekki skilið hvers vegna hún hafi verið komin heim með ákærða, en sem áður sagði ekki vitað að hún væri búin að kæra hann.

Eftir að hafa dottað hafi vitnið rankað meira við sér, því hafi fundist tónninn breytast, líklega að undangengnu einhverju hléi.  Þetta hafi verið orðið afar langdregið og á einhverju tímabili hafi hann farið að velta fyrir sér hvað væri í gangi, sér hafi fundist sem þetta væri eitthvað hálfkæft og hann velt fyrir sér hvort þetta væru munnmök eða hvað þá.  Hann hafi tekið símann og sent textaboð sem blákalt sagt líti ekki vel út fyrir sig, orðað það sem svo ,,út með kvikindið“ eða ,,ertu að kæfa kvikindið“ eða ,,dópistapakk.“  Hann hafi jafnvel grunað að þau væru í fíkniefnum og allavega viljað að þessu lyki.  Eftir 4-5 mínútur hafi hann hringt líka, eftir að hafa farið fram að fá sér vatn.  Hljóðin hafi þá áður breyst í ,,þessar klámmyndastunur“.  Hann hafi aldrei skynjað nauðung.  Aldrei hafi verið hrópað og aldrei verið ákall á hjálp, því að það hafi verið ábyggilegt að hefði verið hrópað á hjálp hefði hann brugðist við.  Vitnið gat þess að hann hefði talað við konu á neðri hæð um þetta og spurt um ónæði.  Hún hafi lýst því að hafa heyrt miklar stunur, sem hafi á stuttum tíma verið eitthvað sem hún hafi velt fyrir sér hvort væri í lagi en svo hafi það breyst í frygðarstunur aftur.  Hann hafi sjálfur upplifað þetta þannig að drukknir unglingar væru að reyna á einhver mörk.  Einhvern tíma hafi hún sagt ,,nei, ekki svona“ eða ,,hættu, nei, ekki svona, og þá hafi hann farið fram og fengið sér vatn, en svo hafi þetta breyst aftur.

Ákærði hafi svarað símtalinu eða hringt til baka.  Vitnið hafi sagt að þau skyldu koma sér út, hann þyldi ekki þessi læti.  Einhverju síðar hafi hann heyrt þau fara út, litið út um glugga og séð þau þar reykjandi.  Svo hafi hann farið að lengja eftir ákærða, klukkan hafi verið orðin sex og ekkert bólað á honum.  Vitnið hafi farið út og fundið ákærða sitjandi á tröppunum.  Vitnið hafi sagt honum að koma inn og spurt hvort ekki væri allt í lagi.  Ákærði hafi jánkað því og vitnið stutt hann í rúmið.  Móðir ákærða hafi verið vöknuð og þau sammælst um að ræða við drenginn daginn eftir um samband hans við stúlkuna og ónæði af háværu kynlífi sem þau hafi ekki talið þolandi.

Móðir ákærða, M, bar að hún hafi verið sofnuð aðfaranótt 15. desember, en vaknað eða orðið meðvituð um kynferðisleg hljóð, stunur og ánægjuhljóð.  Hún hafi aðeins heyrt ánægjustunur og sérstaklega frá konunni. Þetta hafi hætt, en hafist aftur. Sér hafi orðið ljóst að þetta drægist á langinn.  Hún hafi farið að hlusta á slökunartónlist til að skapa sér svefnfrið og tekið hálfa svefntöflu.  Hún hafi sofnað og vaknað um sexleytið.  Faðir ákærða hafi þá verið að senda honum textaboð og hún hafi verið glöð að hafa getað sofnað og spurt hvort þau hefðu verið að alla nóttina.  Hann hafi kvartað yfir að hafa engan svefnfrið fengið og þau ákveðið að ræða við ákærða daginn eftir.

U lögreglumaður kvaðst hafa sinnt útkalli við annan mann vegna hringingar brotaþola.  Hann hafi hitt ákærða og brotaþola fyrir utan heimili ákærða.  Brotaþoli hafi verið mjög róleg.  Hún hafi lýst því er þeir óku henni heim að ákærði hefði rifið í hár hennar, meinað henni útgöngu og öskrað á hana uns faðir hans hefði komið.  Hann viti ekki hvort faðirinn hafi gengið á milli en hún hafi sem sagt komist út.  Hún hafi verið afar róleg og ekki minnst einu orði á kynferðisofbeldi. Þeir hafi eiginlega ekkert rætt við ákærða, sem hafi virst alveg eðlilegur.  Þeir félagi hans hafi rætt það hve róleg aðkoman hefði verið, þegar þeir hafi frétt af kæru brotaþola.  Hann hafi vanist því á löngum starfsferli sínum að þegar konur leiti til lögreglu eftir kynferðisbrot séu þær miður sín og beri þess merki.

Vitnið N vinkona ákærða kvaðst hafa verið gestgjafi í teitinni að kvöldi 14. desember, þangað sem brotaþoli kom til fundar við ákærða. Ákærði hafi farið út til að hitta hana.  Síðan hafi hann beðið sig með textaboðum að koma út.  Þau hafi svo verið fyrir utan húsið í líklega rúman klukkutíma að ræða það sem hafi átt að hafa gerst varðandi kynferðislegt ofbeldi ákærða. Því hafi ekki verið lýst í smáatriðum.  Ákærði hafi lítið sagt, en svarað ef hún spurði hann einhvers.  Hann hafi þá staðfest að þetta hafi gerst.  Aðspurð hvort orðið nauðgun hefði verið notað kvað hún svo hafa verið.  Sér hafi fundist skrýtið að þolandi slíks brots skyldi koma í veislu til að hitta gerandann.  Sér hafi fundist sem brotaþoli væri að reyna að sannfæra sig.  Hún kvaðst ekki muna að hafa heyrt sagt, eða sagt sjálf, í veislunni að brotaþoli væri mannorðsmorðingi.

Vitnið O, móðir brotaþola, kvað brotaþola í byrjun sambands við ákærða hafa virst vera hrifin af honum, en fljótt hafi sér fundist sem eitthvað angraði hana, hún hafi ekki verið eins glöð og kát og hún hafi verið vön.

Vitnið kvaðst fyrst hafa heyrt um meint brot eftir tilvik í nóvember og þá frétt af fyrra tilviki.  Hún hafi farið með brotaþola á lögreglustöð er brotaþoli kærði þau tilvik.  Síðasta tilvikinu hafi hún frétt af daginn eftir að það gerðist, enda hafi það ekki farið fram hjá neinum.

Vitnið sagði brotaþola nú vera mjög óörugga og ekki vel haldna.  Hún viti lítið um samskipti þeirra ákærða eftir að rannsókn byrjaði, kannski hafi þau hist í eitt skipti árið 2013, hún viti það bara ekki.

Vitnið P, læknir, kvaðst ekki efa það sem stendur í lögregluskýrslu um að hann hafi komið á lögreglustöð til að skoða ákærða, en hann finni engin gögn hjá sér um það.  Svo virðist sem hann hafi ekki skráð þetta hjá sér. Sér sýnist að hann hafi verið á vakt.  Sjálfur muni hann ekki beinlínis eftir þessu. Lyfjagjöf sem getið sé í lögregluskýrslu hljómi sennileg, ef sjúklingur sé í uppnámi og geti ekki sofið.  Bæði lyfin nái hámarksvirkni á einum og hálfum til tveimur tímum.  Helmingur Imovans hverfi úr líkama á um 5 klukkustundum.  Samsvarandi tími Sobrils sé 10 klukkustundir. Imovan ætti ekki að hafa nein áhrif eftir sjö til átta tíma frá inntöku, en Sobril geti vissulega haft áhrif lengur.  Lyfin hafi slævandi áhrif, sem alla jafna megi reikna með að séu horfin að mestu leyti eftir sjö til tíu klukkustundir og áhrif Imovans þá eiginlega algerlega. Vitnið myndi ekki telja neina klára frábendingu á að yfirheyra mann sem hafi fengið þessi lyf um hálfum sólarhring fyrr.  Matarleysi og áfengi í blóði flýti fyrir því að lyfin virki en tími virkninnar breytist lítið, frekar að maður losni fyrr við lyfin.  Vitnið kvaðst ekki myndu gefa mjög ölvuðum manni svona lyf.

Vitnið Q hjúkrunarfræðingur aðstoðaði við skoðun á brotaþola þegar hún leitaði á sjúkrahús 15. desember.  Hún bar að hafa náð dálitlum tengslum við hana. Brotaþola hafi liðið mjög illa.  Hún hafi í fyrstu beðið um áverkavottorð, en svo hafi komið fram eftir viðræður að henni hefði verið nauðgað og hún þegið boð um skoðun með tilliti til þess.  Hún hafi verið viðstödd skoðun og þótt saga brotaþola trúverðug.

Vitnið R læknir staðfesti samskiptaseðil sem hann ritaði um komu brotaþola á heilsugæslustöð 7. desember og liggur í málinu.  Þar er lýst sögu um líkamsárás 2. desember, þar sem tekið hafi verið um háls og á handleggjum.  Eðlileg hreyfigeta hafi verið í hálsi, en aumt átöku aftan á og hliðlægt á hálsi.  Marblettur hafi verið á framhandlegg.  Eymsli hafi verið í hársverði.  Út af þessu og andlegri vanlíðan vegna þessa hafi brotaþoli ekki farið í próf þennan morgun.  Hún hafi fengið vottorð vegna þess.

Vitnið E geðlæknir staðfesti vottorð sitt sem áður er rakið.  Hann staðfesti að brotaþola hafi verið vísað til hans árið 2008 vegna kvíðaröskunar og hann ávísað lyfjum vegna þess.  Brotaþoli hafi ekki sótt tíma til hans aftur eins og staðið hafi til.

Vitnið lýsti því eftir að hafa farið yfir efni vottorðsins að brotaþoli hafi haft samband um síðustu jól og eftir það hafi hann hitt hana reglulega.  Málaferli hafi vakið henni kvíða og miðvikudaginn fyrir aðalmeðferð hafi verið ákveðið að leggja hana inn á legudeild.  Hún hafi lýst kvíða, vanlíðan og svefnleysi þrátt fyrir lyfjagjöf og töluverðri áfengisneyslu.  Sér hafi ekki litist á að meðhöndla hana heima og gefa meiri lyf við svo búið.

Vitnið sagði aðspurt að brotaþoli hafi beðist undan því að lýsa nákvæmlega atvikum og þau hafi því ekki rætt hvað hefði farið fram.  Fram hafi komið að hún ætti í samskiptum við ákærða í febrúar 2013, en vitnið hafi ekki skráð nákvæmlega út á hvað þau hafi gengið.  Vitnið taldi sig þó myndu muna ef hún hefði sagt að þau svæfu saman.  Vitnið kvað það vera í fræðunum, sem sér gengi erfiðlegast að skilja, hvernig fórnarlömb í ofbeldissamböndum gætu verið í þeim árum saman án þess að forða sér, þótt vitnið sjái þetta oft.

Vitnið C staðfesti framangreint vottorð sitt um skoðun á brotaþola og svaraði spurningum um efni þess.  Hún kvað brotaþola hafa verið niðurbeygða og í uppnámi og liðið illa.  Sér hafi fundist áverkar samræmast frásögn hennar vel.  Andlegt ástand hennar hafi samrýmst því vel að hún hefði orðið fyrir áfalli.

Vitnið D sálfræðingur kvaðst hafa rætt við ákærða á göngudeild til að hjálpa honum að takast á við áfall og þunglyndiseinkenni.  Hann kvaðst ekki hafa getað skilið frásögn ákærða svo að brotaþoli hefði kynnt hann ,,alveg grænan eða grunlausan“ fyrir harkalegu kynlífi, en hann hafi talið að hún hafi gefið færi á slíku og því hafi kæran komið honum á óvart og lýst því sem áfalli þegar honum hafi verið kynnt að hún hafi upplifað háttsemi hans sem þvingun.  Ekki hafi verið rætt að hann hafi játað eitthvað ranglega á sig, en það hafi verið runnar á hann tvær grímur um það hversu réttmæt væri lýsing á einhvers konar nauðung.

Vitnið kvaðst hafa fengið tilfinningu um að brotaþoli hefði einhvers konar tak á ákærða, þegar vitnið hefði komist að því að hún hefði sett sig í samband við hann á árinu 2013.  Hann hafi greint frá að hafa a.m.k. í eitt skipti farið og talað við hana.

Vitnið kvaðst hafa velt því fyrir sér að ákærði væri ef til vill leiðitamur og auðvelt að telja hann inn á einhverja afstöðu.  Vitnið kvaðst þó ekki byggja þetta á neinum klínískum prófunum.

Vitnið staðfesti efni framanrakins vottorðs síns og kvaðst ekki hafa hitt ákærða eftir að það var ritað.

Vitnið T lögreglumaður lýsti gangi rannsóknarinnar að því leyti sem það kom að henni.  Vitnið var viðstatt fyrri skýrslutöku af ákærða 16. desember og tók sjálft síðari skýrsluna.  Sér hafi fundist hann meðvitaður um það sem hann sagði og gerði.  Hann hafi í fyrstu verið eitthvað efins um að gefa skýrslu en síðan ákveðið að gera svo.  Hann hafi verið skýr og afdráttarlaus.  Hann hafi lýst því að vera hræddur við barnsföður brotaþola og hans vini, sem greinilega hafi verið búnir að hafa samband við hann, en vitnið kvað sér ekki hafa fundist sem það hefði áhrif á skýrslu hans um atriði sem sneru að honum og brotaþola.

Vitnið staðfesti að ákærði hefði verið látinn blása í áfengismæli að ósk verjanda áður en hann var yfirheyrður og staðfesti að verjandi hafi talið að hann væri eitthvað slompaður.  Mælirinn hafi ekki gefið nein áfengisáhrif til kynna.  Ákærði hafi ekki verið áberandi ölvaður þegar hann var settur í klefa kvöldið áður, en áfengislykt hafi verið af honum.

Vitnið S sálfræðingur kvaðst hafa rætt við ákærða sex sinnum síðan í desember 2013, síðast 3. febrúar.  Ákærði hafi lýst því að hann hafi verið búinn að hafa augun á brotaþola áður en þau byrjuðu samband og verið afskaplega hrifinn af henni.  Hann hafi lýst því að í fyrsta sinn sem þau hafi haft mök hafi sér komið á óvart hvernig kynlíf hún vildi stunda, þ.e. þvinganir, honum hafi fundist þetta skrýtið og verið óöruggur.  Að mati vitnisins af viðræðum við ákærða hafi brotaþoli verið ráðandi aðili í sambandinu.  Bæði hafi hún virst hafa haft áhrif á það hvernig kynlíf þau stunduðu og eins ráðið því hvort þau hafi verið að hittast eða ekki. Sér virðist hann vera fremur leiðitamur og hann sé óöruggur um sjálfsmynd sína og kynímynd. Þau hafi rætt játningu hans fyrir lögreglu og hann sagt að hann hafi verið andlega miður sín þegar hann hafi verið yfirheyrður.  Hann hafi þá verið búinn að vita í nokkurn tíma um kæru og verið búinn að stríða við lamandi kvíða.  Hann hafi verið mjög hrifinn af brotaþola og fundist framtíðin vonlaus eftir sambandsslit þeirra.  Hann hafi lengi fengið þau skilaboð að kynlífsathafnir sem hann hneigðist til væru óeðlilegar og fundist kæran vera staðfesting þess.  Honum hafi bara fundist eins gott að játa þetta allt.  Fyrst henni hafi fundist hann brjóta á sér hlyti það bara að vera satt, þó hann hafi aldrei ætlað sér það.

Vitnið sagði að sér fyndist ákærði ekki reyna að fegra sinn hlut og hann hafi oft tekið fram að vitnið væri aðeins að heyra hans hlið.

Nánar spurt sagði vitnið að ákærði hafi skýrt frá því að hafa fengið skilaboð um óeðlileika kynlangana sinna frá foreldrum sínum.

Nánar spurt um hvernig ákærði lýsti þeim löngunum sagði vitnið að hann sæktist eftir einhverjum flengingum og BDSM kynlífi, þar sem annar aðilinn væri undirgefinn hinum.  Brotaþoli hafi sagt að ef hann vildi stunda kynlíf með henni þyrfti hann að hafa fyrir því.  Hún hafi hvatt hann til að þvinga sig og eiginlega gert svolítið grín að honum fyrir að vera ekki nógu sterkur til að gera það sem hún hafi ætlast til.

Þá sagði vitnið nánar spurt að hún hafi orðið vör við það í viðtölum að foreldrar ákærða væru mjög ráðandi afl í hans lífi.

Nánar spurt sagði vitnið einnig að fram hafi komið hjá ákærða að hann hafi áður en til kynna við brotaþola kom stundað kynlíf með flengingum og öðru slíku, en ekki með svona ,,þvingunarnauðgunarelementum.“

Vitnið H kvaðst hafa þekkt ákærða í fimm ár og þau séu góðir vinir.  Vitnið staðfesti samræðu við ákærða um rafrænan miðil, sem að nokkru er rakin í samhengi við skýrslu ákærða fyrir dómi hér að framan.  Hún sagði að ákærði hefði áður sagt sér að þau brotaþoli iðkuðu nauðgunarhlutverk, þar sem hann ætti að taka hana með valdi.  Þau hefðu notað öryggisorð í fyrstu, en einhvern veginn hætt því og þó hún segði nei, þá þýddi það ekki nei.  Þessu hafi ákærði lýst í október 2012, en hún eigi ekki lengur texta þess samtals.  Vitnið staðfesti texta samtals 27. nóvember 2012, þar sem ákærði segir sjónarhorn brotaþola vera alveg rétt og talar um ,,hefndarstundarbrjálæði“ bara.  Vitnið sagði aðspurt að sér hafi fundist ákærði gangast þarna við því að eitthvað hefði gerst sem ekki væri í lagi.

Vitnið I vinkona ákærða kvaðst hafa þekkt hann í einhver ár.  Hún sagði ákærða hafa sagt sér frá sambandi sínu við brotaþola haustið 2012 og sagt að hann væri hrifinn af henni og og að þau stunduðu einhvers konar nauðgunarleik.  Borin voru undir hana ummæli ákærða við hana 27. nóvember um að hlið brotaþola á málinu væri rétt og að þetta hafi verið stundarbrjálæði.  Hún hafi túlkað þetta þannig, af því að þau hafi verið búin að tala um þetta áður en brotaþoli hafi sent vitninu skilaboð, að brotaþoli hafi verið búin að sannfæra ákærða um eitthvað annað en hann hafi fyrst talað um við vitnið, eða eins og vitnið hafi skilið hann.

Nánar spurð um frásögn ákærða í öndverðu um nauðgunarleik hafði vitnið eftir honum að honum hafi þótt þetta óþægilegt í fyrstu og talað um að hún segði nei en segði honum svo að halda áfram ef hann hætti.  Vitnið sagði aðspurt að ákærði hefði áður sagt að sér líkuðu flengingar, en þetta hafi gengið miklu lengra.

Vitnið G kvaðst vera vinkona ákærða síðan í september 2012.  Hann hafi sagt vitninu frá grófu kynlífi sínu og brotaþola og flengingum.  Hann hafi sagt að hún vildi láta halda sér niðri og hún væri þá að berjast á móti.  Þetta hafi hann sagt sér 6. október 2012. Hann hafi þá sagt að hann gerði þetta bara vegna þess að brotaþoli vildi þetta.  Vitnið sagði að ákærði hafi sagt sér að hann hefði játað fyrir lögreglu en hann sæi eftir því og vildi að hann gæti tekið það til baka, hann hefði verið skíthræddur og haldið að lausnin væri að játa og þá myndi þetta kannski hverfa.

IV.

Af hálfu ákærða er á því byggt að samfarir hafi ekki verið knúnar áfram með ólögmætri nauðung af hans hálfu, heldur hafi þær verið á sömu nótum og aðrar sadó-masókískar samfarir hans við brotaþola.  Brotaþoli hafi í öndverðu hvatt hann til valdbeitingar og hann smám saman orðið öruggari sjálfur.  Samskiptasaga þeirra sýni að hún hafi haft tögl og hagldir í sambandinu og haft stöðugan áhuga á frekara kynlífi og samskiptum eftir meint kynferðisbrot.

Þá er á því byggt, sé það talið hafið yfir skynsamlegan vafa að brotaþoli hafi upplifað kynferðismök sem ólögmæta nauðung, hafi ákærða skort ásetning til maka með ólögmætri nauðung.  Nægi gáleysi hans ekki til að skilyrði refsiábyrgðar séu uppfyllt.

Einnig er byggt á því að ákærði hafi ranglega fellt á sig sök er hann var yfirheyrður af lögreglu.  Hafi þverrandi geðheilsa, vist í fangaklefa og stöðugar hótanir knúið hann til uppgjafar og hann sannfærst um að játning væri eina leiðin til að losna úr kringumstæðum sínum.

Ennfremur er á því byggt að því er varðar 2. tölulið ákæru, að verði talið sannað að ákærði hafi veist að kynfærum brotaþola, að sú háttsemi hafi ekki haft kynferðislegan tilgang, eða ekki veitt ákærða kynferðislega fullnægingu þegar litið sé til atvika.  Teljist hún því ekki til annarra kynferðismaka og varði ekki við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

Málsástæður þessar eru ítarlega útlistaðar í greinargerð verjanda.

V.

Fyrir liggur að ákærði greindi vinkonum sínum frá því í öndverðu að þau brotaþoli stunduðu gróft kynlíf, þar sem hann beitti hana valdi með samþykki hennar.  Vitnisburður vinkvenna hans um þetta er að hluta studdur texta samræðna hans við þær gegnum tölvur.  Eins og ákærði lýsti þessu fyrir dómi voru í raun engir varnaglar slegnir, þannig að hann taldi sig ráða för og mótmæli brotaþola væru hluti af leiknum. Brotaþoli lýsir þessu með öðrum hætti og að ákærði hafi fram til 26. október 2012 jafnan hætt einhverjum athöfnum ef hún hafi beðið hann um það.

Vafa um það hvað teljist sannað um það hvernig hlutverk hafi verið meðan allt lék í lyndi milli ákærða og brotaþola verður að skýra honum í hag.  Verður að leggja til grundvallar að hann hafi fengið að beita brotaþola verulegu valdi með hennar samþykki.  Gegn staðhæfingu brotaþola verður þó ekki talið sannað að valdbeitingar­heimildir hans hafi verið svo miklar sem hann lýsir, að engu máli hafi skipt hvað brotaþoli sagði eða gerði til að fá hann til að hætta valdbeitingu.

Jafnvel þótt brotaþoli kunni að hafa veitt ákærða einhverjar valdbeitingarheimildir í kynlífi þeirra meðan samband þeirra stóð, verður ekki framhjá því horft að fyrir liggur að daginn áður en ákærði beitti hana valdi 26. október 2012 hafði brotaþoli slitið sambandinu.  Mátti ákærði ekki ganga út frá því að samt sem áður stæði samþykki hennar til valdbeitingar óhaggað.

Fyrir liggur að ákærði fékk að koma til brotaþola að morgni 26. október. Í textaskilaboðum frá honum rétt áður segir ,,Taka weeds?“  Bendir þetta til að ætlunin hafi verið að horfa á sjónvarpsþáttinn Weeds.

Ákærði tók með sér belti.  Bar hann fyrir dómi að hafa ekki gert það með sérstakri fyrirætlun um annað en að koma brotaþola á óvart.  Að mati dómsins bendir þetta eindregið til þess að hann hafi haft í huga að til kynlífsathafna kæmi, þegar litið er til þess að brotaþoli hafði oft leyft honum að flengja hana.  Samkvæmt framburði hans fyrir dómi flengdi hann hana síðan svolítið, tók um úlnliði hennar, ýtti henni niður á rúm og hafði við hana samfarir.

Brotaþoli ber að hafa veitt mótspyrnu og sagt við ákærða hvort hann héldi að hann væri að fá að fara að ,,ríða“ núna.  Ákærði kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir þessum orðum, en hann hafði þau eftir er lögregla tók skýrslu af honum.  Brotaþoli sagði J í samtali um rafrænan miðil að kvöldi 26. október 2012 að hún hefði sagt þetta við ákærða.  Verður það ekki metið sem síðari tíma tilbúningur að hún hafi sagt þetta áður en ákærði hafði samfarir við hana.

Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til framburðar ákærða og brotaþola fyrir dómi verður talið sannað að ákærði hafi í þetta sinn haft samfarir við brotaþola og beitt til þess valdi gegn vilja hennar.  Með tilliti til þess að brotaþoli hafði daginn áður slitið sambandi þeirra og telja verður sannað að hún greini rétt frá því að hún hafi sagt að hann væri ekki að fara að fá að ,,ríða núna“, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi ekki getað dulist á verknaðarstundinni að samfarirnar væru ekki með samþykki brotaþola að þessu sinni.  Braut hann með þessu gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga eins og honum er gefið að sök í 1. tl. ákæru.

VI.

Með framburði ákærða og brotaþola er nægilega sannað að ákærði hafi í átökum við brotaþola aðfaranótt 3. desember 2012 beitt valdi til að setja fingur í leggöng hennar og endaþarm.  Eins og framburði ákærða er háttað eru engin efni til að álykta að brotaþoli hafi heimilað þessa valdbeitingu.  Áður hafði ákærði flengt brotaþola.

Fyrir liggur að ákærði leit svo á að valdbeiting af hans hálfu væri hluti af kynlífi þeirra brotaþola, og eins og áður segir verður að miða við að hann hafi, á meðan þau voru í sambandi, beitt hana talsverðu valdi með hennar samþykki.  Þá liggur fyrir að flengingar voru hluti af kynlífsathöfnum þeirra.

Þegar á framanritað er horft þykir enginn skynsamlegur vafi vera á því, að það hafi verið í kynferðislegum tilgangi sem ákærði setti með valdi fingur í leggöng brotaþola og endaþarm í þetta sinn, og hefur hann með þeirri háttsemi brotið gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

VII.

Brotaþoli ber að hafa í dómgreindarleysi farið heim með ákærða aðfaranótt 15. desember 2012, þar sem hann hafi neytt hana til samræðis með valdi.

Samkvæmt framburði beggja voru þau ölvuð í þetta sinn.  Ákærði greindi lögreglu frá því að hann myndi ekki mikið eftir atvikum.  Fyrir dómi kvaðst hann hafa haft munnmök við hana, síðan hafi hann stundað þeirra harkalega kynlíf, látið hana fara á magann og tekið í hendurnar á henni og haft samfarir við hana eins og venjulega.  Þetta sé það sem hann muni.  Framburður brotaþola styður það sem ákærði bar einnig að það hafi komið honum á óvart að hún vildi hringja til lögreglu.

Í málinu liggur fyrir texti skilaboða sem brotaþoli og ákærði skiptust á símleiðis, síðdegis og fram á kvöld 25. desember 2012.  Lögregla tók textaboðin úr síma ákærða þann 9. janúar 2013.  Í fyrstu biður brotaþoli ákærða að heita trúnaði um samskiptin og lofar hann að nota ekkert gegn henni.  Brotaþoli segir ákærða síðan að hún sakni hans.

Tali þeirra víkur fljótt að atvikum aðfaranótt 15. desember.  Ákærði segist ekki muna neitt eftir síðasta skiptinu.  Brotaþoli spyr hvernig hann hafi gefið skýrslu ef hann muni ekkert.  Ákærði kveðst hafa sagt það sem hann hafi munað.  Lögreglumaður hafi rifjað hitt upp fyrir honum.  Brotaþoli spyr hvort hann hafi þá munað það.  Ákærði segir að hann hafi séð það óskýrt fyrir sér.  Hann hafi samt játað allt.

Þessi skilaboð voru ekki borin undir ákærða og brotaþola.  Líta verður til þess að um einkasamtal er að ræða, þar sem trúnaði var heitið.  Þarna kemur hins vegar fram og virðist ritað í einlægni, að hann hafi, sökum ölvunar, ekki munað neitt frekar en hann greindi lögreglu sjálfstætt frá við skýrslutöku.  Kemur þetta einnig fram í skýrslu hans fyrir lögreglu.  Verður að meta í ljósi þessa framburð hans fyrir lögreglu og fyrir dómi um atvik frá þeim tíma í atburðarásinni að hann var að hafa munnmök við brotaþola, fram að því að hann svaraði símtali frá föður sínum.

Framburður brotaþola um verknað ákærða er skýr og í meginatriðum samhljóða fyrir lögreglu og fyrir dómi. Metur dómurinn hann trúverðugan. Læknir og hjúkrunarfræðingur töldu sögu hennar sennilega er hún kom á sjúkrahús daginn eftir.  Skoðun leiddi í ljós marga marbletti víða um líkamann, rispur á rasskinnum og rispu við endaþarmsop, eins og nánar er rakið hér að framan.  Benda marblettirnir til þess að verulegu valdi hafi verið beitt.  Rispa við endaþarmsop samrýmist frásögn brotaþola um að ákærði hafi reynt að þrengja sér þar inn, en taka verður tillit til þess að slík rispa getur hafa orsakast öðruvísi.

Samkvæmt framburði brotaþola hófust mök þeirra í þetta sinn með því að ákærði lét hana hafa munnmök við sig.  Hlé varð og þau fóru út að reykja og síðan inn aftur.  Ber hún að hafa gleymt veski og viljað sækja það.  Kveðst hún þá enn hafa treyst því að ekkert frekara myndi gerast.  Hún kveðst hafa kúgast við munnmökin en ber ekki um að hafa þá farið að kalla á hjálp. Þegar þetta er virt saman við framburð ákærða um að hafa spurt brotaþola hvort hún vildi þetta og móður hans og föður um frygðarhljóð, þykir sá vafi leika á því að munnmökin hafi verið að henni nauðugri, að sýkna ber ákærða af þeim þætti í 3. tölulið ákæru að hafa neytt brotaþola til munnmaka.

Brotaþoli ber eindregið að ákærði hafi eftir þetta haft við hana samfarir og meðal annars hótað henni lífláti og að hann myndi hafa samfarir við hana í endaþarm.  Hann hafi sett fingur í endaþarm og reynt að setja lim sinn þangað.  Hún hafi öskrað af öllum lífs- og sálarkröftum.

Móðir ákærða ber að uns hún sofnaði hafi hún ekki heyrt annað en ánægjustunur, en hún virðist hafa sofnað fremur fljótt eftir að hún fór að heyra til ákærða og brotaþola.  Nýtur ekki við vitnisburðar hennar um hávaða síðar um nóttina.

Faðir ákærða kveðst að mestu hafa verið andvaka, en þó reynt að bægja frá sér truflun af hávaða, með því að taka svefntöflu og hlusta á tónlist.

Hann ber að samfarirnar hafi verið háværar og langdregnar, en hljóð sem hann heyrði hafi hann aldrei getað túlkað sem ákall um hjálp.  Hann sá þó ástæðu til þess klukkan 04:48-04:52 að senda syni sínum skilaboð um síma sem liggja frammi í málinu, þar sem hann skipar þeim fyrst að fara út, síðan koma þrenn boð innan tveggja mínútna, fyrst spyr hann hvort ákærði sé að ,,kæfa“ hana, síðan ,,Hu segir hagtth“ sem nærtækt er að lesa sem ,,Hún segir hættu“ og loks hótar hann að hringja til lögreglu. Í framburði föðurins kom fram að hann hefði heyrt kæfðar stunur og sagt ,,hættu“, en þá hefðu hljóðin aftur breyst í það sem hann mat sem frygðarstunur.

Þótt framburð föðurins verði að meta í samhengi við tengsl þeirra ákærða, er engin ástæða til að rengja hann um að hann hafi ekki heyrt neitt sem hann taldi ákall um hjálp.

Til þess verður að líta að brotaþoli ber að þótt hún öskraði sé hún ekki viss um að hafa náð að mynda orð eða hjálparbeiðni.  Ákærði hafi jafnan reynt að þagga niður í henni, með því að taka fyrir vit hennar eða þrýsta andliti hennar niður í kodda. Það að faðirinn heyrði kæfð hljóð getur vel farið saman við þetta, þótt hann teldi þau vera einhvers konar samfarahljóð.  Sá framburður hans er út af fyrir sig ekki ótrúverðugur, en þykir alls ekki útiloka að þau hljóð sem brotaþoli gaf frá sér hafi í raun verið af öðrum toga.

Það að brotaþoli hringdi til lögreglu gefur afar sterka vísbendingu til stuðnings því að hún hafi ekki talið sig örugga eftir að ákærði lét af háttsemi sinni vegna símhringinga föðurins.  Hún tjáði lögreglu ekki að hún hefði orðið fyrir kynferðisbroti, heldur aðeins að ákærði hafi ekki viljað sleppa henni út.  Þrátt fyrir það, sérstaklega þegar litið er til marbletta og annarra ummerkja á líkama hennar við komu á sjúkrahús daginn eftir, sem eru mjög til stuðnings framburði hennar, þykir að öllu framansögðu virtu ekki leika skynsamlegur vafi á því að hún beri rétt um að ákærði hafi þröngvað henni til samræðis og annarra kynferðismaka með valdi í greint sinn.  Varðar það honum refsingu samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

VIII.

Ákærði var tvítugur að aldri er hann framdi brotin sem hann er hér sakfelldur fyrir.  Hann hefur ekki sætt refsingum.  Refsingu hans ber að tiltaka samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun hennar innan refsimarka 1. mgr. 194. gr. laganna með áorðnum breytingum verður litið til ákvæða 1. tl., 4. tl. og 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Ákvæði 3. mgr. 70. gr. laganna þykir ekki eiga hér við.  Refsing ákærða ákveðst að þessu gættu fangelsi í tvö ár og sex mánuði, sem ekki þykir fært að skilorðsbinda.

Bótakröfu er getið í ákæru. Ákærði hefur bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta, sem með hliðsjón af öllum atvikum þykja hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur, með vöxtum eins og krafist er og tilteknir eru í dómsorði.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem samkvæmt yfirliti nemur 145.160 krónum og við bætast málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Ólafs Rúnars Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, og réttargæslulaun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Auðar Harnar Freysdóttur héraðsdómslögmanns, sem ákveðast eins og greinir í dómsorði, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Málið dæma héraðsdómararnir Erlingur Sigtryggsson, Hildur Briem og Þorsteinn Davíðsson. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Ákærði greiði A 1.200.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. október 2012 til 11. febrúar 2013, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 1.801.760 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Rúnars Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 1.255.000 krónur og réttargæslulaun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Auðar Harnar Freysdóttur héraðsdómslögmanns, 401.600 krónur.